Framsókn er, og vill vera, grænn flokkur og það krefst stefnu í umhverfismálum í víðum skilningi. Margir halda að við sem erum í eldri kantinum séum ekki nægjanlega umhverfissinnuð. Ég tel að það sé hinn mesti misskilningur. Ég tel að við vinnum daglega að umhverfismálum með flokkun á öllu sem hægt er að flokka og því að huga að nágrenni okkar og rækta garðinn okkar, hafi fólk garð.
En hvað getum við gert enn frekar? Fordæmið sem hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur gefið okkur er að fara út og plokka. Þess er þörf mestallt árið. Þessa iðju gera margir að daglegum göngutúr og hafa verk forsetans verið hvatning fyrir alla að taka upp sömu hætti. Leið eldra fólks liggur við hlið yngra fólks í kynslóðasáttmála um að vernda umhverfið á allan hátt.
Framsókn er í forystu um landvernd. Á síðastliðnu ári náðist t.d. fjöldahreyfing í að safna birkifræi og skila inn, en það að sá birkifræi getur verið mjög árangursríkt sem ný skógrækt. Það má m.a. sjá þar sem birkifræ hefur fokið í mela og móa. Þar spírar fræið og gefur af sér ný tré.
Við þurfum líka öll að venja okkur á að hafa vistvæna burðarpoka með okkur við innkaup. Fram undan í mörgum sveitarfélögum er svo að gera flokkun enn aðgengilegri og samræmdari. Það á að vera krafa til stjórnmálamanna að beita sér fyrir því að allt megi flokka og helst endurvinna. Á landi eins og Íslandi með sína tæru læki og ár þarf sú hugsun að vera í fyrirrúmi meðal okkar allra að virða náttúruna svo afkomendur okkar fái notið hennar.
Vistvæn orka hófst með litlum rafstöðvum við bæjarlækinn. Nú þarf að finna fleiri lausnir fyrir nútímann, svo sem sólarsellur, sem eru t.d. að ryðja sér til rúms í Þýskalandi þar sem bændur leigja út akra fyrir sólarsellur sem tappa svo af inn á kerfin. Vindmyllur þarf einnig að skoða, en um þær er auðvitað ekki full sátt.
Framsókn leggur áherslu á vistvænar lausnir. Í Danmörku og Hollandi er þær víða að finna og gera þær gæfumuninn hvað varðar framleiðslu rafmagns. Mörg stórfyrirtæki í Evrópu eru orðin mjög vistvæn og stórar verslanir ganga fram með góðu fordæmi um vistvænar umbúðir.
Framsókn leggur megináherslu á að við ræktum sem mest sjálf og verðum sjálfbær s.s. í grænmeti, korni og fleiri tegundum. Íslensk nærandi matarolía frá Sandhóli er ein snilldin sem og vörur Vallanesbúsins undir merkjum Móður jarðar. Alls konar heimagerðar afurðir má finna um allt land og þeir sem hyggjast reyna sig við að skapa nýjar vörur geta fengið aðstoð hjá þróunarsetrum.
Sjálfbærni á mörgum sviðum er hugsun unga fólksins sem við, eldra fólkið, styðjum heils hugar. Við í Framsókn verðum sterk rödd í umhverfismálum framtíðarinnar.
Þórunn Sveinbjörnsdóttir.
Höfundur er í 3. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík norður og skógarbóndi. basendi6@simnet.is