Categories
Greinar

Úr stöðnun í uppbyggingu um land allt

Deila grein

27/08/2021

Úr stöðnun í uppbyggingu um land allt

Undanfarna áratugi hefur ríkt viðvarandi stöðnun á húsnæðismarkaði víða um land með þeim afleiðingum að atvinnuuppbygging og eðlileg samfélagsþróun hefur tafist. Til þess að bregðast við þessari þróun hefur Framsókn sett húsnæðismál á landsbyggðinni á oddinn síðustu ár. Árangurinn af þessum aðgerðum er farinn að sjást víða um land. Sú stöðnun sem áður var í húsbyggingum í landsbyggðunum hefur nú verið rofin með fjölþættum aðgerðum stjórnvalda.

Vandinn staðfestur

Í skýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um þróun húsnæðismarkaðar utan suðvesturhornsins, sem kom út í vetur, er það augljósa staðfest, þ.e. að stöðnun hefur ríkt í húsnæðismálum margra byggðarlaga. Í sömu skýrslu er einnig farið yfir ástæður þess að uppbygging á landsbyggðinni hefur verið sáralítil í samanburði við höfuðborgarsvæðið.

„Helstu ástæður má rekja til þess að víða á landsbyggðinni stendur söluverð eigna ekki undir byggingarkostnaði, seljanleiki eigna er minni og fólksfækkun hefur verið í sumum sveitarfélögum sem veldur minni eftirspurn. Á sama tíma hefur fjölgun verið í öðrum sveitarfélögum sem hefur skapað húsnæðisskort. Þá hafa lánastofnanir haft minni áhuga á að lána til íbúðarkaupa og íbúðauppbyggingar á landsbyggðinni,“ segir í skýrslunni

Framsókn gengur í verkið

Þær aðgerðir sem komnar eru til framkvæmda í húsnæðismálum undir forystu Framsóknar snúa einmitt að þessum þáttum sem bent er á og ráðast að rót vandans. Þær eru sérstök landsbyggðarlán, stofnframlög og byggðaframlög, hlutdeildarlán, samstarf við opinbera leigufélagið Bríeti og tilraunaverkefni á vegum HMS í samstarfi við sveitarfélög.

Finna má yfirlit yfir allar þessar aðgerðir á vefnum Tryggð byggð, tryggdbyggd.is, sem er samstarfsvettvangur allra þeirra sem koma að húsnæðismálum á landsbyggðinni. Vefur verkefnisins sýnir árangurinn af þessum aðgerðum svart á hvítu, en framkvæmdir eru hafnar við yfir 400 íbúðir í 36 sveitarfélögum og heildarfjárfestingin eru rúmlega 10 milljarðar. Upplýsingarnar á vefnum geta nýst öllum sem hugsa til húsbygginga á landsbyggðinni við leit að leiðum og fyrirmyndum.

Þróum verkefnin áfram

Það er mikilvægt að halda áfram á þessari braut og tryggja aðgengi að fjölbreyttum húsnæðiskostum við hæfi, óháð búsetu. Allar þær aðgerðir sem nú eru farnar í gang eru hugsaðar sem langtímaverkefni. Mikil tækifæri liggja í að þróa verkefnin áfram. Til dæmismætti útfæra hlutdeildarlán enn frekar fyrir hópa sem hafa átt erfitt með að eignast hentugt húsnæði.

Þá liggur fyrir að finna þurfi leiðir til að greiða aðgengi einstaklinga að lánsfjármagni óháð búsetu því margir vilja og þurfa sjálfir að byggja sitt húsnæði.

Við komumst þangað saman.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar og í 2. sæti á framboðslista flokksins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 26. ágúst 2021.