Categories
Greinar

Vandasöm sigling

Deila grein

04/07/2022

Vandasöm sigling

Tals­verð óvissa rík­ir um efna­hags­horf­ur á heimsvísu um þess­ar mund­ir og hag­stjórn því vanda­sam­ari en um langt ára­bil. Vand­inn af margþætt­um toga. Nauðsyn­leg­ar efna­hagsaðgerðir stjórn­valda um heim all­an á Covid-19-tím­an­um er lutu að aukn­um rík­is­um­svif­um og rýmri pen­inga­stefnu hafa ýtt und­ir hækk­un á vöru og þjón­ustu. Þessu til viðbót­ar hef­ur árás Rúss­lands inn í Úkraínu haft mik­il áhrif á verðbólgu á heimsvísu, þar sem einn stærsti fram­leiðandi orku ræðst á ríki sem fram­leiðir mikið magn af hveiti til út­flutn­ings. Verð á þess­um nauðsynja­vör­um hef­ur hækkað veru­lega og eru af­leiðing­arn­ar afar nei­kvæðar fyr­ir heims­bú­skap­inn og sér­stak­lega fá­tækri rík­in. Á sama tíma eru mjög ríki enn að fást við far­sótt­ina og hef­ur það lam­andi áhrif fram­leiðslu­keðju heims­ins. Ofan á þetta bæt­ist að skort­ur á vinnu­afli í mörg­um helstu hag­kerf­um heims­ins.

Íslenska hag­kerfið stend­ur traust­um fót­um

Efna­hags­kerfið hef­ur tekið vel við sér eft­ir far­sótt­ina. Drif­kraft­ur hag­kerf­is­ins er góður og spár gera ráð fyr­ir mikl­um hag­vexti í ár eða ríf­lega 5% og rétt um 3% árið 2023. Lausa­fjárstaða þjóðarbús­ins er sterk og veru­lega hef­ur dregið úr at­vinnu­leysi. Eft­ir mik­inn sam­drátt í upp­hafi far­ald­urs­ins er það ferðaþjón­ust­an enn á ný sem dríf­ur hag­vöxt­inn áfram en spár gera ráð fyr­ir að um 1,6 millj­ón ferðamanna muni heim­sækja Ísland á þessu ári. Aðrar út­flutn­ings­grein­ar hafa einnig dafnað vel eins og sjáv­ar­út­veg­ur og stóriðja vegna mik­illa verðhækk­ana á afurðum þess­ara at­vinnu­greina. Að sama skapi er einnig ánægju­legt að sjá að út­flutn­ings­tekj­ur af hug­verkaiðnaðnum hafa auk­ist veru­lega eða farið úr því að nema tæp­um 8% af gjald­eyris­tekj­um í rúm 16% á síðustu árum. Þessi þróun er mik­il­væg í þeirri viðleitni að fjölga stoðunum und­ir ut­an­rík­is­viðskipt­um lands­ins.

Kaup­mátt­ur launa allra á Íslandi hækkaði á ár­inu 2021 og þær skatta­legu aðgerðir sem hef­ur verið hrint í fram­kvæmd miðast all­ar að því að draga úr skatt­byrði hjá þeim sem lægst­ar tekj­ur hafa. Á covid-tím­an­um jókst kaup­mátt­ur um 4,4% að raun­v­irði og var það í sam­ræmi við fyr­ir­ætlan­ir stjórn­valda að verja efna­hag heim­ila og fyr­ir­tækja við upp­haf far­sótt­ar­inn­ar. Í stuttu máli má segja að vel hafi tek­ist til. At­vinnu­leysi mæl­ist nú um 3,8%, skuld­ir heim­il­anna hafa lækkað, hrein skuld­astaða rík­is­sjóðs nem­ur 28,5% af lands­fram­leiðslu og gjald­eyr­is­forðinn nem­ur um 25,5% af lands­fram­leiðslu. Þannig að segja má að staðan sé góð þrátt fyr­ir mikla ágjöf síðustu miss­eri en blik­ur eru á lofti því verðbólgu­horf­ur hafa versnað til skamms tíma.

Auk­in verðbólga víðast hvar í heim­in­um

All­ir helstu seðlabank­ar heims hafa nú hækkað stýri­vexti sína með það að mark­miði að því að draga úr verðbólgu­vænt­ing­um. Verðbólga í Banda­ríkj­un­um í maí mæld­ist 8,6% á árs­grund­velli og er sú mesta í yfir 40 ár. Verðbólg­an á evru­svæðinu er 8,1% og í Bretlandi 7,8%. Mat­arkarf­an á heimsvísu hef­ur hækkað um tæp­an fjórðung. Verð á hveiti á heimsvísu hef­ur hækkað um 56% og mjólkuraf­urðir um 17%.

Ísland hef­ur ekki farið var­hluta af þess­ari þróun, verðbólg­an mæl­ist 8,8% en án hús­næðisliðar­ins er hún 6,5%%. Verðbólgu­vænt­ing­ar hafa einnig auk­ist. Gert er ráð fyr­ir að verðbólga verði um 4,9% árið 2023 og 3,3% árið 2024. Skort­ur hef­ur verið á vinnu­markaði og mik­il eft­ir­spurn eft­ir vinnu­afli. Hækk­un hús­næðisliðar vísi­tölu neyslu­verðs hef­ur haft mest áhrif á þróun verðlags und­an­far­in miss­eri. Fram­boðsvand­inn hef­ur auk­ist á ný vegna stríðsins í Úkraínu og olíu- og hrávöru­verð hef­ur hækkað enn frek­ar.

Meg­in­verk­efni allra leiðandi hag­kerfa verður að ná utan um verðbólgu­vænt­ing­ar og ráðlegg­ur Alþjóðagreiðslu­bank­inn (e. BIS) seðlabönk­um að vera ófeimn­ir að bregðast hratt við til skamms tíma með það að leiðarljósi að til lengri tíma, þá verði búið að snúa verðbólg­unni niður. Agustín Car­stens, banka­stjóri BIS, sagði: „Það er lyk­il­atriði fyr­ir seðlabanka er bregðast skjótt og af festu við áður en verðbólga nær fót­festu.“

Rík­is­stjórn­in leggst á ár­arn­ar með Seðlabank­an­um

Stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar verður að koma bönd­um á verðbólg­una. Stjórn­völd hafa þegar farið í mót­vægisaðgerðir sem fel­ast í því að bæt­ur al­manna­trygg­inga hafa verið hækkaðar, ráðist var í sér­stak­an barna­bóta­auka til þeirra sem eiga rétt á tekju­tengd­um barna­bót­um og hús­næðis­bæt­ur voru hækkaðar. Auk­in­held­ur hafa rík­is­stjórn og Seðlabanki lagst sam­eig­in­lega á ár­arn­ar til þess að tak­ast á við hækk­andi verðbólgu. Kynnti rík­is­stjórn­in í því sam­hengi 27 millj­arða aðhaldsaðgerðir í rekstri hins op­in­bera til að draga úr þenslu og verðbólguþrýst­ingi. Stjórn­völd telja afar mik­il­vægt að gera allt sem í þeirra valdi stend­ur til að sporna við verðbólgu. Sam­keppnis­eft­ir­litið hef­ur meðal ann­ars hafið upp­lýs­inga­öfl­un um þróun verðlags á helstu mörkuðum, til að meta hvort verðlags­hækk­an­ir kunni að stafa af ónægu sam­keppn­is­legu aðhaldi eða óeðli­leg­um hvöt­um. Sér­stök áhersla er lögð á dag­vörumarkað, eldsneyt­is­markað og bygg­ing­ar­vörumarkað. Það ger­ir Sam­keppnis­eft­ir­lit­inu auðveld­ara um vik að greina óhag­stæð ytri áhrif á verðþróun eða greina hvort verðhækk­an­ir kunni að stafa af mögu­leg­um sam­keppn­is­bresti á viðkom­andi mörkuðum. Að auki hef­ur verið skipaður vinnu­hóp­ur til að greina gjald­töku og arðsemi bank­anna. Stór hluti af út­gjöld­um heim­il­anna renn­ur til bank­anna, í formi af­borg­ana af hús­næðis-, bíla- og neyslu­lán­um auk vaxta og þjón­ustu­gjalda. Sam­setn­ing þess­ara gjalda er oft flók­in, sem ger­ir sam­an­b­urð erfiðan fyr­ir neyt­end­ur. Því tel ég brýnt að hlut­ur þess­ara þátta verði skoðaður ofan í kjöl­inn, með vís­an til sam­keppn­isþátta og hags­muna neyt­enda. Mark­miðið er að kanna hvort ís­lensk heim­ili greiði meira fyr­ir al­menna viðskipta­bankaþjón­ustu en heim­ili í hinum nor­rænu ríkj­un­um. Það er verk að vinna til að ná tök­um á verðbólgu, því að tekju­lægstu heim­il­in og þjóðirn­ar fara iðulega verst út úr mik­illi verðbólgu.

Bjart hand­an sjón­deild­ar­hrings­ins

Þrátt fyr­ir að blik­ur séu á lofti í hag­kerf­inu er full ástæða til bjart­sýni. Efna­hags­um­svif hafa tekið vel við sér eft­ir far­sótt­ina. Hag­vöxt­ur er um 5%, út­flutn­ings­grein­ar sterk­ar sem styðja við gjald­miðil­inn og gjald­eyr­is­forði sem nem­ur um 25% af lands­fram­leiðslu. Að auki er gert ráð fyr­ir að aðhalds­samri pen­inga­stefna og rík­is­fjár­mál muni leiða til þess að á næsta ári lækki verðbólg­an. Í ná­granna­lönd­un­um er mik­ill ótti við að fram und­an sé tíma­bil sam­spils stöðnun­ar og verðbólgu (e. stag­flati­on), en eng­in merki eru uppi um slíka stöðnun í okk­ar hag­kerfi. Nokkr­ir veiga­mikl­ir þætt­ir ættu einnig að vinna með efna­hags­kerf­inu.

Í fyrsta lagi eru heild­ar­skuld­ir rík­is­sjóðs rúm­lega 40% af lands­fram­leiðslu, en til sam­an­b­urðar eru skuld­ir Þýska­lands um 60% og Ítal­íu um 140%. Áætlað er að skulda­hlut­fall rík­is­sjóðs verði komið í 33,4% í árs­lok 2023. Er­lend­ar skuld­ir rík­is­sjóðs eru mjög lág­ar og auk þess er hrein er­lend staða þjóðarbús­ins með allra besta móti í ljósi mik­illa eigna hag­kerf­is­ins í út­lönd­um. Í öðru lagi er Ísland með sjálf­stæða pen­inga­stefnu sem þýðir að við get­um hreyft stýri­vexti hraðar en mörg önn­ur ríki og sér í lagi í sam­an­b­urði við þau sem eru aðilar að mynt­banda­lagi Evr­ópu. Þess má geta að verðbólga inn­an ein­stakra ríkja banda­lags­ins nem­ur allt að 20%. Ítal­ía greiðir 1,9 pró­sentu­stig­um meira en Þýska­land í vöxt­um af láni til tíu ára, nærri tvö­falt meira en sem nem­ur álag­inu í árs­byrj­un 2021! Ljóst er að sama vaxta­stefn­an á ekki við öll ríki Evr­ópu­sam­bands­ins og munu þau skuld­sett­ustu geta lent í veru­leg­um erfiðleik­um. Í þriðja lagi, vegna góðs geng­is út­flutn­ings­grein­anna hef­ur gjald­miðill­inn okk­ar staðist ágjöf­ina sem felst í óviss­unni. Í fjórða lagi er Ísland stór­fram­leiðandi á þeim vör­um sem vönt­un er á; ann­ars veg­ar mat­væl­um og hins veg­ar orku. Sök­um þessa er verðbólg­an minni en ella væri. Að lok­um, þá hef­ur hag­stjórn­in verið sveigj­an­leg und­an­farið og verið í aðstöðu til að nýta rík­is­fjár­mál­in til að styðja við hag­kerfið á far­sótt­ar­tím­um en draga nú úr þátt­töku þess í út­gjöld­um og fjár­fest­ing­um til að halda aft­ur af verðbólg­unni.

Efna­hags­stjórn­inni næstu miss­eri má líkja við stýra skipi í öldu­róti. Þrátt fyr­ir að skyggnið geti verið slæmt, þá skip­ir mestu máli í hag­stjórn­inni að huga vel að grunn­innviðum og gera það sem þarf. Rík­is­stjórn­in hef­ur sýnt það í verki í gegn­um þann ólgu­sjó sem far­sótt­in var að hún gat far­sæl­lega siglt á milli skers og báru. Næstu aðgerðir í efna­hags­stjórn­inni munu all­ar miða að því að ná utan um verðbólgu­vænt­ing­ar og ef all­ir ákveða að taka þátt í þeirri veg­ferð, þá mun okk­ur farn­ast vel.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 2. júlí 2022.