Categories
Greinar

Vaxtarstyrkur fyrir þitt barn

Deila grein

08/09/2021

Vaxtarstyrkur fyrir þitt barn

Fjölbreytt og gott íþrótta- og tómstundastarf er okkur flestum tiltölulega aðgengilegt hér á landi. Það er eitthvað sem við sem samfélag getum státað okkur af og það sem meira er, þá getum við verið nokkuð stolt af því. Rannsóknir hafa sýnt og sannað að kostir þess að stunda skipulagt íþrótta- og tómstundastarf eru óumdeilanlegir. Slíkt starf hefur jákvæð áhrif á félagsfærni barna, þroska þeirra sem og á andlega og líkamlega heilsu. Það á við hvort sem þau æfa boltaíþróttir, fimleika, júdó, skák, á fiðlu, rafíþróttir eða hvað annað. Það er mikilvægt að virkja börn til þátttöku í skipulögðu íþrótta- eða tómstundastarfi og um leið að tryggja tækifæri allra til að njóta góðs af því.

Jöfn tækifæri barna til að blómstra

Ríki og sveitarfélög hafa átt gott samstarf og unnið hefur verið náið með íþrótta- og tómstundahreyfingum landsins að lækkun greiðslubyrði fjölskyldna vegna þátttöku barna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Við getum þó enn gert betur. Fyrir margar fjölskyldur er það þungur róður að standa straum af kostnaði við þátttöku barna sinna í slíku starfi. Sérstaklega getur borið á þeirri stöðu nú í kjölfar áhrifa COVID-19 á efnahag og vinnumarkaðinn hér á landi.

Slík staða getur verið öllum erfið og ósanngjörn; sérstaklega gagnvart börnum. Við viljum tryggja jöfn tækifæri allra barna til að blómstra í þeirri íþrótt eða þeirri tómstund sem höfðar til þeirra og þau finna sig í óháð efnahag eða félagslegra aðstæðna. Mörg sveitarfélög niðurgreiða þátttöku í íþróttum eða tómstundum í formi frístundastyrks. Það hefur vissulega leitt til þess að aukning iðkenda hefur orðið í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi þeirra sveitarfélaga. Hins vegar eru enn fjölskyldur sem sjá sig ekki fjárhagslega færa til að greiða fyrir íþrótta- og tómstundiðkun barna sinna og úr því þarf að bæta.

Launsin liggur í vaxtarstyrk Framsóknar

Við í Framsókn viljum létta enn frekar undir með barnafjölskyldum og tryggja það að öll börn njóti góðs af skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi með því að tryggja hverju barni 60 þúsund króna árlegan vaxtarstyrk. Sem dæmi myndi þriggja barna fjölskylda fá 180 þúsund króna vaxtarstyrk árlega og er það til viðbótar við þann frístundastyrk sem sveitarfélög bjóða upp á. Léttum lífið og fjárfestum í fólki.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar og skipar 2. sætið á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. september 2021.