Categories
Greinar

Vegir hálendisins

Deila grein

28/05/2021

Vegir hálendisins

Framtíðarsýn fyrir þjóðvegi á hálendinu er mikilvægari nú en nokkru sinni fyrr. Viðfangsefnið er spennandi þar sem margir ólíkir hagsmunir koma að. Vegakerfið á þjóðvegum landsins fylgir ákveðinni stefnu í samgönguáætlun, en á hálendinu eru tækifæri til að móta skýra sýn. Hægt er að fara margar leiðir í því. Á meðan uppbygging vega er þyrnir í augum sumra er hún tækifæri í augum annarra sem vilja gott aðgengi að hálendi Íslands, óháð fararskjótum. Í mínum huga er mikilvægt að móta framtíðarsýn um það hvaða vegi við viljum að séu greiðfærir og uppbyggðir svo allir komist og hvaða vegi við viljum að aðeins að vel útbúnar bifreiðar komist yfir.

Aðgengi fyrir alla

Með auknum ferðalögum fólks inn á hálendi Íslands og fjölgun ferðamanna undanfarinn áratug hafa augu fólks opnast fyrir nauðsyn þess að byggja upp innviði á hálendinu. Stofnvegirnir eru lífæð hálendisins, Kjalvegur, Sprengisandsleið, Kaldadalsvegur og Fjallabaksleið Nyrðri eiga að geta þjónað allri almennri umferð. Vegirnir eru núna lítið sem ekkert uppbyggðir og aðeins færir vel búnum bifreiðum. Töluvert vantar upp á að allir hafi jafnan aðgang og geti upplifað dulmögnuð svæði hálendisins.

Sú stefna sem er sett fram í landsskipulagsstefnu um samgöngur á miðhálendinu byggist á þeirri stefnu sem sett var með svæðisskipulagi miðhálendisins. Þar var gert ráð fyrir að stofnvegir um miðhálendið skyldu vera byggðir upp sem góðir sumarvegir með brúuðum ám og færir fólksbílum.

Kjalvegur

Kjalvegur er til að mynda stofnleið með töluverða umferð, þverar landið frá suðri til norðurs og er annar tveggja þekktustu fjallvega landsins. Vegurinn er að stærstum hluta malarvegur. Annars vegar eru rúmlega 53 km niðurgrafnir, krókóttir og sums staðar mjór. Hins vegar hafa rúmlega 107 km verið byggðir upp, þar af tæplega 19 km með bundnu slitlagi. Umferð um Kjöl hefur aukist. Svæðið er magnað eins og við þekkjum, vinsælt útivistarsvæði og dregur að sér fjölbreyttan hóp ferðamanna, hestafólk, göngufólk, skíðafólk, hjólafólk, þá sem fara um á bifreiðum o.fl. Víða myndast stórir pollar í vegum hálendisins sem gerir það að verkum að menn leita út fyrir þá og er því töluverður utanvegaakstur meðfram þeim. Með ört vaxandi umferð er mikilvægt að hægt sé að gera lagfæringar og hugsa til framtíðar eins og Vegagerðin hefur gert, í þeim tilgangi að gera viðhald auðveldara, með því að vinna að styrkingu og lítillega að uppbyggingu, þó aðeins á stuttum köflum í senn.

Fyrirvarar þingflokks Framsóknar við miðhálendisþjóðgarð

Þingflokkur Framsóknar fjallaði um uppbyggingu Kjalvegar í fyrirvörum sínum við frumvarp um miðhálendisþjóðgarð. Fyrirvara um að nauðsynlegt sé að viðurkenna og setja inn í frumvarpstexta að byggja þurfi upp vegi t.a.m. Kjalveg og setja fjármuni í umhverfismat og hönnun. Einnig voru fyrirvarar um að jaðarsvæðið taki tillit til uppbyggingar Kjalvegar og skipulags annarra vega með beinni skírskotun til skipulags og umráðaréttar sveitarfélaga.

Orkuskipti

Þá staðfesti ég fyrir tveimur árum síðan samning við Neyðarlínuna um lagningu ljósleiðara milli Hveravalla og Blöndudals. Að því verkefni loknu komst á óslitin ljósleiðaratenging milli Suðurlands og Norðurlands sem bætir bæði öryggi og afkastagetu grunnkerfis fjarskipta hér á landi. Samhliða lagningu ljósleiðara um Kjöl var lagður raforkustrengur sem leysir af hólmi dísilvélar sem rekstraraðilar hafa hingað til reitt sig á. Raforkustrengurinn er liður í því að tryggja að Ísland nái  markmiðum Parísarsamkomulagsins til 2030 og markar framtíðarsýn fyrir Kjöl og þá uppbyggingu þarf að vera til staðar svo flestir geti notið þess að fara um á fjölbreyttum fararskjótum. Rafstrengurinn er með flutningsgetu sem í náinni framtíð verður hægt að nýta til að setja upp hleðslustöðvar fyrir rafknúna umferð um Kjalveg. Og vegna þess að við erum jú í orkuskiptum í samgöngum verða innviðirnir að haldast í hendur við nýja tíma því innan fárra ára verðar flestir bílar rafmagnsbílar.

Öryggi umfram allt

Ef horft er til umfangs ferðamennsku á hálendinu er það brýnt öryggismál í mínum huga að innviðir, hvort um er að ræða vegi eða fjarskipti geti þjónað þeim sem um svæðið fara. Til að hægt sé að uppfylla kröfur um að allir hafi sama aðgang og uppfylla ákvæði vegalaga um frjálsa för fólks um þjóðvegi þá þarf uppbygging innviða að miðast við að rafmagnsbílar komist um, hvort sem um er að ræða fólksbíla, jeppa eða rútur seinna meir. Rafstrengurinn á Kjalvegi boðar byltingu og dísilolía á tunnum heyrir nú sögunni til. Enginn þarf lengur að koma að köldum og saggafullum húsum utan mesta hlýindatímans. Þetta skapar alveg nýja möguleika og tækifæri fyrir fólk til að njóta útivistar á hálendinu. Ég vona að sem flestir sjái sér fært að njóta hálendisins, því hvergi er betra að vera, hvort sem er ríðandi eða akandi, við smalamennsku eða sem ferðamaður.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 27. maí 2021.