Í síðustu viku mælti undirrituð fyrir þremur frumvörpum í þingsal sem koma til með að skipta veigamiklu máli fyrir velferð barna. Þessi þrjú frumvörp má setja saman í einn pakka um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, en þau eru afurð mikillar vinnu að hálfu félags- og barnamálaráðherra yfir kjörtímabilið með það að markmiði að bæta hag allra þeirra barna hér á landi sem þurfa á þjónustu að halda. Fylgst verður með velferð barna og metin þörf fyrir þjónustu og sem mikilvægt er að samráð sé á milli þjónustuveitenda með það að markmiði að þjónustan verði samfelld og samþætt í þágu velferðar barna og fjölskyldna þeirra.
Róttækar breytingar í þágu farsældar barna
Til að ná því markmiði þarf róttækar og veigamiklar breytingar á því kerfi sem er til staðar í dag. Rauði þráðurinn í þessum róttæku og veigamiklu breytingum er snemmtæk íhlutun, þ.e. að gripið verði fyrr inn í að þjónusta börn en áður. Einnig er í fyrsta sinn kveðið á um samræmda mælikvarða sem lýsa stigskiptingu þjónustu í þágu farsældar barna. Öll þjónusta til barna í vanda verður stigskipt eftir því hversu mikil þörfin á þjónustu er. Slík „farsældarþjónusta“ er skilgreind allt frá grunnþjónustu, sem stendur öllum börnum til boða, til mjög sérhæfðrar þjónustu sem gert er ráð fyrir að einungis lítill hluti barna þurfi á að halda. Með heildstæðri mynd af stigskiptri þjónustu í þágu farsældar barna er ætlunin að stuðla að meðalhófi, skilvirkni og samfellu í veitingu þjónustu.
Snemmtæk íhlutun
Eins og áður kom fram er snemmtæk íhlutun þungamiðjan þeirra breytinga sem félags- og barnamálaráðherra hefur hrint af stað. Snemmtækri íhlutun hefur verið beitt á síðustu árum, og nokkur sveitarfélög hafa unnið slíka vinnu innan sinna raða. Sú vinna er talin hafa skilað þeim góðum árangri. Snemmtæk íhlutun er mikilvæg á fyrstu æviárunum fyrir allan síðari þroska einstaklingsins og getur því komið í veg fyrir erfiðleika síðar á lífsleiðinni. Í kjölfarið er þeim börnum fyrr veitt þjónusta en kerfið gerir ráð fyrir í dag.
Framtíðin er björt
Það liggur fyrir að kostnaður fylgi róttækum og stórum breytingum á kerfinu. Hins vegar er talið að arðsemin til lengri tíma verði gríðarleg bæði fyrir sveitarfélög og ríki. Ávinningurinn felst í minni inngripum síðar á ævinni og með því að veita umræddan stuðning sem fyrst hjá börnum er verið að skila þeim sterkari inn í fullorðinsárin. Með samþykkt þessara mála félags- og barnamálaráðherra stígum við skref í átt að því markmiði og leggjum hönd á plóg við að auka farsæld barna hér á landi.
Vegna alls þessa bind ég vonir við það að allir þingmenn á Alþingi sjái hversu jákvætt umrædd mál eru og smelli á græna takkann þegar að því kemur. Framtíðin krefst þess.
Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir flokkinn í Norðvesturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst á visir.is 8. júní 2021.