Categories
Greinar

Verðmæti kortlögð

Deila grein

27/05/2015

Verðmæti kortlögð

sigrunmagnusdottir-vefmyndÍ sumar eins og undanfarin ár verða Íslendingar gestgjafar þúsunda erlendra ferðamanna. Það er ánægjulegt að svo margir óski eftir því að sækja Ísland heim en ljóst er að stöðug auking ferðamanna hingað til lands kallar á auknar framkvæmdir til uppbyggingar og verndar náttúru á fjölsóttum og viðkvæmum stöðum. Íslensk náttúra er undirstaða ferðaþjónustunnar og slík auðlind á á hættu á að vera ofnýtt ef átroðningur um einstaka svæði verður of mikill. Ímynd Íslands og orðspor má ekki skaðast. Ábyrgðin er okkar allra og ekki síst þeirra sem njóta.

Langtímastefna í innviðafrumvarpi
Í gær samþykkti ríkisstjórnin 850 milljóna króna framlag til framkvæmda strax í sumar á ferðamannastöðum sem eru í eigu eða umsjón ríkisins. Unnið hefur verið að því í viðkomandi ráðuneytum og stofnunum að kortleggja álagið á landið og forgangsraða bráðaaðgerðum til uppbyggingar á innviðum viðkvæmra ferðamannastaða. Þótt slík átaksverkefni séu góðra gjalda verð er ekki síður mikilvægt að móta stefnu til langtíma. Í frumvarpi sem ég mælti fyrir á Alþingi á mínum fyrstu dögum í embætti er kveðið á um gerð heildstæðrar áætlunar um verndaraðgerðir sem tekur á skipulagi og framtíðarstefnu á ferðamannasvæðum. Afar brýnt er að taka málið föstum tökum en því miður höfum við ekki náð að byggja upp svæði í takt við mikla aukningu ferðamanna á síðustu árum.

Þörfin er brýn
Þetta er í fyrsta sinn hér á landi sem unnið er að heildstæðri áætlun sem nær yfir allt landið. Innviðafrumvarpið, sem bíður annarrar umræðu á Alþingi, rammar inn mikilvæga þætti sem stuðla að því að vernda svæðin og búa undir vaxandi álag. Markmið frumvarpsins er að móta stefnu og samræma tillögur um slíka uppbyggingu og viðhald ferðamannsvæða með náttúruvernd og sjálfbærni að leiðarljósi. Skýr markmið þarf að setja fyrir einstaka svæði, út frá því hvers konar upplifun þau bjóða, til hvaða markhópa þau höfða og ekki síst hversu viðkvæm þau eru. Náttúra landsins er viðkvæm en koma þarf í veg fyrir tjón með því að lagfæra og fyrirbyggja skemmdir eftir traðk, merkja leiðir, byggja göngustíga, göngubrýr, hreinlætisaðstöðu og fleira. Þá þarf öryggi að vera í fyrirrúmi og hönnun hvers konar að falla vel að landslaginu. Þannig er stuðlað að vernd náttúrunnar ásamt upplifun og öryggi einstaklingsins á ferð um landið.

Í frumvarpinu er lagt upp með að svæði í eigu hins opinbera eigi sjálfkrafa aðild að áætluninni og sveitarfélög geri jafnframt tillögu um þau svæði sem staðsett eru innan marka þeirra. Landsvæði í einkaeigu munu falla undir áætlunina, óski viðkomandi landeigandi þess.

Friðlýst svæði
Nú þegar er búið að friðlýsa um 20% landsins og hefur hið opinbera ábyrgðarhlutverki að gegna gagnvart umsjón, rekstri og vöktun á viðkomandi svæðum. Ástand friðlýstra svæða er misgott. Umhverfisstofnun hefur tekið saman lista yfir stöðu friðlýstra svæða og þeirra sem þarf að sinna sérstaklega, sk. rauðan og appelsínugulan lista. Mörg friðlýst svæði eru jafnframt áningarstaðir undir miklu álagi ferðamanna þar sem bregðast þarf skjótt við með markvissum aðgerðum. Samantekt Umhverfisstofnunar um ástand friðlýstu svæðanna sem hlúa þarf sérstaklega að mun nýtast vel inn í vinnuna við þá forgangsröðun verkefna sem framundan er.

Ég bind miklar vonir við innviðafrumvarpið, en við samþykkt þess munu verða tímamót í markvissri uppbyggingu og vernd á ferðamannastöðum með vernd náttúru, sjálfbæra nýtingu og langtímahugsun að leiðarljósi.

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. maí 2015.