Áskoranir íslensks landbúnaðar eru margar ótvíræðar. Sá tollasamningur sem tók hér gildi í maí sl. hefur í för með sér að 97,4% af tollaskránni í heild sinni eru orðin tollfrjáls. Það litla sem eftir er er á lækkuðum tolli. Þetta mun óhjákvæmilega auka samkeppni á innlendum kjötmarkaði. Á sama tíma hangir óvissa um afnám frystiskyldunnar yfir bændum, miklar óhagstæðar gengissveiflur og lokanir markaða í Evrópu – ekki síst í Noregi – hafa valdið algjörum markaðsbresti. Allt þetta og fleira til hefur valdið því að raunverð til sauðfjárbænda hefur lækkað um 38% frá 2015. Það er ljóst að hér er verk að vinna.
Sauðfjárbændur upplifa mikinn velvilja í garð framleiðslu sinnar, enda er hún einstök á heimsmælikvarða. En það er ekki nóg. Upprunamerkingar þurfa að vera nægar og skýrar og eftirlit með þeim þarf að vera til staðar, ekki síst í veitingarekstri og þjónustu. Þá má hvergi slá slöku við að upplýsa almenning um sérstöðu íslensks landbúnaðar, þann einstaka stofn sem hvorki étur sýklalyf né hormóna.
Það er mikið hagsmunamál að slátur- og kjötiðnaður fái að þróast til aukinnar hagræðingar til þess standast samkeppni. Staðreyndin er sú að íslensk sláturhús eru örfyrirtæki í alþjóðlegum samanburði en nú kemur samkeppnin einmitt þaðan – að utan. Þingmenn Framsóknar hafa nú lagt fram frumvarp þess efnis að undanskilja afurðastöðvar í kjötiðnaði ákvæðum samkeppnislaga eins og þekkist reyndar víða um heim. Þetta er gert til þess að fyrirtækin geti samnýtt og hagrætt í rekstri sínum sem vonandi skilar sér á endanum í hærra afurðaverði til bænda og lægra verði til neytenda. Málið er framfara-, samvinnu-, og hagsmunamál neytenda sem og bænda.
Það er staðreynd að fákeppni ríkir á innanlandsmarkaði í kjöti [DK1]. Þær raddir sem tala á móti því að íslenskur kjötmarkaður verði undanþeginn þessu samkeppnisákvæði benda á að það komi sér illa fyrir neytendur og hækki verð á matvælum. Samkeppni verði bara til þess að bændur aðlagi sig breyttu umhverfi með betri vöru og hagkvæmari fyrir neytendur.
Hagur neytenda snýst einnig um að hér sé áfram gott og vistvænt innlent kjöt sem lýtur ströngum heilbrigðiskröfum, ásamt því að bera miklu minna kolefnisspor heldur en innflutt kjöt. Fákeppni í verslun hér á landi er ekki nein trygging fyrir vistvænum kjötmarkaði á viðráðanlegu verði. Með þessu frumvarpi er verið að tryggja íslenskum neytendum áfram góð matvæli sem tikka í öll box krafna hérlendis.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. janúar 2019.