COVID-19 faraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á okkur öll og fram undan eru miklar áskoranir fyrir íslenskt samfélag. Heilu atvinnugreinarnar eru lamaðar og ljóst er að fjöldi fyrirtækja hefur orðið fyrir eða mun verða fyrir miklum og jafnvel óyfirstíganlegum vanda.
Um leið og faraldurinn ágerðist var brugðist við með markvissum aðgerðum. Ég lagði strax um miðjan mars fram frumvarp um hlutaatvinnuleysisbætur sem gerði atvinnurekendum kleift að minnka starfshlutfall niður í allt að 25% og Atvinnuleysistryggingasjóður greiddi atvinnuleysisbætur á móti. Markmiðið með þessu var að viðhalda ráðningarsambandi fólks við vinnuveitendur sína og tryggja öfluga viðspyrnu þegar þessu tímabundna óveðri slotaði. Verkefnið fram undan er að taka ákvörðun um hvort og með hvaða hætti lögin um hlutaatvinnuleysisbætur verði framlengd. Ég held að öllum sé ljóst að það óvissuástand sem nú ríkir á vinnumarkaði muni vara lengur en við gerðum ráð fyrir í fyrstu og við getum gert ráð fyrir því að fjöldaatvinnuleysi muni dragast á langinn. Í öllum þeim skrefum sem við tökum er það fyrst og fremst skylda okkar að tryggja stöðu heimilanna og framfærslu fjölskyldna í landinu við þessar krefjandi aðstæður.
Nú er ríkisstjórnin að vinna að nýjum aðgerðapakka sem er ætlað að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur á viðkvæma hópa í okkar samfélagi. Við ætlum að setja fókusinn á börnin og beina sjónum sérstaklega að því að styðja við foreldra í viðkvæmri stöðu, svo sem vegna umönnunar á langveiku eða fötluðu barni. Við munum einnig kynna fjölþættar aðgerðir sem miða að því að auka stuðning við viðkvæma hópa en munum einnig halda áfram markvissum aðgerðum gegn heimilisofbeldi, en reynslan sýnir að það eykst í því ástandi sem er nú.
Við verðum alltaf að hafa hugfast að fólkið og fjölskyldur landsins eru dýrmætasta eign samfélagsins og þess vegna ætlum við áfram að vinna að aðgerðum til að bæta stöðu viðkvæmra hópa næstu vikur og mánuði.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. apríl 2020.