Af öllum þeim gildum sem mér voru innrætt í æsku hefur þrautseigjan líklega reynst mér best. Sá eiginleiki að gefast ekki upp þótt móti blási, að standa aftur upp þegar maður missir fótanna og trúa því að dropinn holi steininn. Að lærdómurinn sem við drögum af mistökum styrki okkur og auki líkurnar á að sett mark náist. Þannig hef ég komist gegnum áskoranir í lífi og starfi og stundum náð árangri sem mér þótti fjarlægur í upphafi.
Seigla hefur frá aldaöðli þótt mikil dyggð. Til hennar er vísað með beinum og óbeinum hætti í helstu trúarritum heimsins, heimspeki og stjórnmálum. Jesús Kristur og Búdda töluðu um þrautseigju, John Stuart Mill um seiglu og Martin Lúther King sagði fólki að hlaupa ef það gæti ekki flogið, ganga ef það gæti ekki hlaupið og skríða ef það gæti ekki gengið. Lykilatriði væri, að hreyfast fram á við hversu hratt sem maður færi!
Í gömlu máltæki segir að þolinmæði vinni allar þrautir, en hitt er nær sanni að þrautseigjan geri það. Það dugar ekki alltaf að anda rólega þegar eitthvað bjátar á, heldur þarf að bretta upp ermar. „Trúðu á sjálfs þíns hönd, en undur eigi – upp með plóginn, hér er þúfa í vegi,“ orti Einar Ben í hvatningarljóði til þjóðarinnar fyrir 120 árum og þau skilaboð eiga enn við. Þannig mun slagurinn við heimsfaraldur aðeins vinnast ef við tökum saman höndum. Vinnum sem einn maður að því að tryggja heilsu almennings, velferð, atvinnustig og menntun þeirra sem erfa landið. Það síðastnefnda hefur tekist ótrúlega vel, enda hafa hagaðilar í menntakerfinu unnið náið saman, sýnt mikið úthald og þrautseigju. Það er því viðeigandi að þrautseigjan sé tilgreind sem eitt af gildum nýrrar menntastefnu sem nú er rædd á Alþingi.
Megininntak menntastefnunnar er að allir geti lært og allir skipti máli. Þar gildir einu bakgrunnur fólks, félagslegar aðstæður og meðfæddir eiginleikar, því saman ætlum við að stuðla að jöfnum tækifærum allra nemenda. Skipuleggja menntun og skólastarf út frá ólíkum þörfum fólks og gefast ekki upp þótt móti blási. Það er nefnilega ekki vöggugjöfin sem skýrir námsárangur heldur viðhorfið til menntunar, vinnusiðferðið og tiltrúin á að námsgeta sé ekki fasti heldur vaxi þegar hlúð er að henni. Á sama hátt ræðst árangur okkar í lífinu ekki af forskrifuðum örlögum, heldur líka vinnunni sem við leggjum á okkur, afstöðu okkar til málefna og siðferðinu sem við ræktum með okkur.
Stundum er sagt að seigla sé þjóðareinkenni Íslendinga. Hún hafi haldið lífinu í okkur í þúsund ár, á meðan við kúrðum í torfbæjum fyrri alda. Vafalaust er margt til í því, þótt Íslendingar einir geti tæpast slegið eign sinni á seigluna. Þvert á móti hefur hún verið uppspretta framfara um allan heim og verður það áfram.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. nóvember 2020.