Categories
Greinar

Við gefumst aldrei upp þótt móti blási

Í gömlu mál­tæki seg­ir að þol­in­mæði vinni all­ar þraut­ir, en hitt er nær sanni að þraut­seigj­an geri það. Það dug­ar ekki alltaf að anda ró­lega þegar eitt­hvað bját­ar á, held­ur þarf að bretta upp erm­ar. „Trúðu á sjálfs þíns hönd, en und­ur eigi – upp með plóg­inn, hér er þúfa í vegi,“ orti Ein­ar Ben í hvatn­ing­ar­ljóði til þjóðar­inn­ar fyr­ir 120 árum og þau skila­boð eiga enn við. Þannig mun slag­ur­inn við heims­far­ald­ur aðeins vinn­ast ef við tök­um sam­an hönd­um. Vinn­um sem einn maður að því að tryggja heilsu al­menn­ings, vel­ferð, at­vinnu­stig og mennt­un þeirra sem erfa landið. Það síðast­nefnda hef­ur tek­ist ótrú­lega vel, enda hafa hagaðilar í mennta­kerf­inu unnið náið sam­an, sýnt mikið út­hald og þraut­seigju. Það er því viðeig­andi að þraut­seigj­an sé til­greind sem eitt af gild­um nýrr­ar mennta­stefnu sem nú er rædd á Alþingi.

Deila grein

05/12/2020

Við gefumst aldrei upp þótt móti blási

Af öll­um þeim gild­um sem mér voru inn­rætt í æsku hef­ur þraut­seigj­an lík­lega reynst mér best. Sá eig­in­leiki að gef­ast ekki upp þótt móti blási, að standa aft­ur upp þegar maður miss­ir fót­anna og trúa því að drop­inn holi stein­inn. Að lær­dóm­ur­inn sem við drög­um af mis­tök­um styrki okk­ur og auki lík­urn­ar á að sett mark ná­ist. Þannig hef ég kom­ist gegn­um áskor­an­ir í lífi og starfi og stund­um náð ár­angri sem mér þótti fjar­læg­ur í upp­hafi.

Seigla hef­ur frá aldaöðli þótt mik­il dyggð. Til henn­ar er vísað með bein­um og óbein­um hætti í helstu trú­ar­rit­um heims­ins, heim­speki og stjórn­mál­um. Jesús Krist­ur og Búdda töluðu um þraut­seigju, John Stu­art Mill um seiglu og Mart­in Lúther King sagði fólki að hlaupa ef það gæti ekki flogið, ganga ef það gæti ekki hlaupið og skríða ef það gæti ekki gengið. Lyk­il­atriði væri, að hreyf­ast fram á við hversu hratt sem maður færi!

Í gömlu mál­tæki seg­ir að þol­in­mæði vinni all­ar þraut­ir, en hitt er nær sanni að þraut­seigj­an geri það. Það dug­ar ekki alltaf að anda ró­lega þegar eitt­hvað bját­ar á, held­ur þarf að bretta upp erm­ar. „Trúðu á sjálfs þíns hönd, en und­ur eigi – upp með plóg­inn, hér er þúfa í vegi,“ orti Ein­ar Ben í hvatn­ing­ar­ljóði til þjóðar­inn­ar fyr­ir 120 árum og þau skila­boð eiga enn við. Þannig mun slag­ur­inn við heims­far­ald­ur aðeins vinn­ast ef við tök­um sam­an hönd­um. Vinn­um sem einn maður að því að tryggja heilsu al­menn­ings, vel­ferð, at­vinnu­stig og mennt­un þeirra sem erfa landið. Það síðast­nefnda hef­ur tek­ist ótrú­lega vel, enda hafa hagaðilar í mennta­kerf­inu unnið náið sam­an, sýnt mikið út­hald og þraut­seigju. Það er því viðeig­andi að þraut­seigj­an sé til­greind sem eitt af gild­um nýrr­ar mennta­stefnu sem nú er rædd á Alþingi.

Meg­in­inn­tak mennta­stefn­unn­ar er að all­ir geti lært og all­ir skipti máli. Þar gild­ir einu bak­grunn­ur fólks, fé­lags­leg­ar aðstæður og meðfædd­ir eig­in­leik­ar, því sam­an ætl­um við að stuðla að jöfn­um tæki­fær­um allra nem­enda. Skipu­leggja mennt­un og skólastarf út frá ólík­um þörf­um fólks og gef­ast ekki upp þótt móti blási. Það er nefni­lega ekki vöggu­gjöf­in sem skýr­ir náms­ár­ang­ur held­ur viðhorfið til mennt­un­ar, vinnusiðferðið og til­trú­in á að náms­geta sé ekki fasti held­ur vaxi þegar hlúð er að henni. Á sama hátt ræðst ár­ang­ur okk­ar í líf­inu ekki af forskrifuðum ör­lög­um, held­ur líka vinn­unni sem við leggj­um á okk­ur, af­stöðu okk­ar til mál­efna og siðferðinu sem við rækt­um með okk­ur.

Stund­um er sagt að seigla sé þjóðarein­kenni Íslend­inga. Hún hafi haldið líf­inu í okk­ur í þúsund ár, á meðan við kúrðum í torf­bæj­um fyrri alda. Vafa­laust er margt til í því, þótt Íslend­ing­ar ein­ir geti tæp­ast slegið eign sinni á seigl­una. Þvert á móti hef­ur hún verið upp­spretta fram­fara um all­an heim og verður það áfram.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. nóvember 2020.