Á lokadögum þingsins var samþykkt frumvarp til laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða frá félags- og barnamálaráðherra. Viðbótarstuðningurinn tekur til eldri borgara sem búsettir eru hér á landi og eiga engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingum. Þessi hópur hefur fallið óbættur hjá garði og haft litla sem enga framfærslu og jafnvel þurft að reiða sig á fjárhagsstuðning sveitarfélaga frá mánuði til mánaðar. Þetta nær til einstaklinga sem hafa náð 67 ára aldri, hafa fasta búsetu og lögheimili á Íslandi og dvelja hér varanlega. Þegar lögin eru sett er talið að hópurinn telji um 400 einstaklinga. Til að eiga rétt á viðbótarstuðningi þurfa erlendir ríkisborgarar að hafa ótímabundið dvalarleyfi á Íslandi og eiga lítinn sem engan rétt frá sínu heimalandi. Það á einnig við um Íslendinga sem eru að koma heim eftir langa fjarveru á erlendri grundu. Frumvarpið byggist á niðurstöðum starfshóps um kjör aldraðra þar sem fjallað var um þann hóp aldraðra sem býr við lökustu kjörin.
Þessi hópur hefur verið jaðarsettur þar sem íslenska almannatryggingakerfið hefur byggst á því að fólk hafi búið hér alla sína starfsævi og því áunnið sér rétt í 40 ár þegar eftirlaunaaldri er náð. Við búum í fjölmenningarsamfélagi og þeir einstaklingar sem hafa flust hingað til landsins með lítil eða engin réttindi frá sínu heimalandi eru margir hverjir fastir í fátæktargildru, með þessari breytingu er verið að tryggja þeim lágmarksframfærslu.
Það var ánægjulegt að fá að fylgja þessu máli í gegnum velferðarnefnd, þar sem ég var framsögumaður málsins, og lenda því í samhljómi þingmanna við lokaafgreiðslu málsins inni í þingsal.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. júlí 2020.