Húsnæðismál eru eitt stærsta velferðarmál þjóðarinnar. Þak yfir höfuðið er ein af grunnþörfum mannsins og öruggt húsnæði óháð efnahag og búsetu er ein af grunnforsendum öflugs samfélags.
Húsnæðismarkaðurinn hér á landi hefur einkennst af miklum sveiflum í gegnum tíðina, ekki síst síðastliðinn áratug. Í dag er staðan sú að stór hópur fólks býr við þröngan kost og óöryggi í húsnæðismálum og margir, einkum þeir tekjulægri, hafa takmarkaðan aðgang að viðunandi húsnæði. Þeir verja sömuleiðis of stórum hluta tekna sinna í húsnæði. Við það verður ekki unað.
Núverandi ríkisstjórn hefur frá upphafi haft skýra stefnu í húsnæðismálum. Hún er að tryggja jafnvægi á húsnæðismarkaði og nægjanlegt framboð af viðunandi húsnæði fyrir alla, óháð efnahag og búsetu.
Húsnæðismál hafa verið sett í skýran forgang en til marks um það má nefna að þriðjungur þeirra 38 aðgerða sem ríkisstjórnin lagði fram í tengslum við lífskjarasamningana snýr að húsnæðismálum. Gert er ráð fyrir að Íbúðalánasjóður fylgi þeim aðgerðum eftir og skili stöðuskýrslu þrisvar á ári svo að sem best yfirsýn fáist yfir framgang þeirra.
Til að skapa aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði þarf breytta umgjörð í húsnæðismálum, sem grundvallast á stefnumótun og áætlanagerð til langs tíma og er byggð á áreiðanlegum upplýsingum. Mörg mikilvæg skref hafa verið stigin í þá átt á nýliðnum vetri. Íbúðalánasjóði hefur verið falið mikilvægt hlutverk í þeim efnum með breytingu á lögum um húsnæðismál og er það fagnaðarefni að sterk stofnun fari nú með samhæfingu og framkvæmd húsnæðismála á landsvísu.
Þá hefur sveitarfélögunum verið falið veigamikið hlutverk við gerð húsnæðisáætlana en þær munu framvegis vera lykilþáttur í stefnumótun stjórnvalda í húsnæðismálum. Í þeirri aðgerð kristallast mikilvægi þess að gott samstarf sé á milli ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að húsnæðismálum.
Í apríl síðastliðnum skilaði starfshópur á mínum vegum skýrslu með fjórtán tillögum til að auðvelda ungu fólki og tekjulágum að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Þær miða sérstaklega að því að auðvelda fyrrnefndum hópum að safna fyrir útborgun í íbúð og létta hjá þeim afborgunarbyrði lána. Eru þær nú í vinnslu innan stjórnsýslunnar til endanlegrar útfærslu.
Markvisst hefur einnig verið unnið að fjölgun hagkvæmra leiguíbúða í gegnum uppbyggingu almenna íbúðakerfisins sem studd er af stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga. Ljóst er að mikil þörf er á slíku úrræði en almenna íbúðakerfið mun auka aðgengi tekju- og eignalágra að öruggu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði.
Á haustmánuðum fór Íbúðalánasjóður jafnframt af stað með tilraunaverkefni að mínu frumkvæði í því skyni að leita leiða til þess að bregðast við langvarandi stöðnun á húsnæðismarkaði á landsbyggðinni. Í samvinnu við Byggðastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga valdi sjóðurinn sjö sveitarfélög sem eru að glíma við ólíkar áskoranir í húsnæðismálum en eiga það sameiginlegt að óvirkur íbúða- og/eða leigumarkaður hefur staðið framþróun fyrir þrifum.
Unnið hefur verið að því með tilraunasveitarfélögunum að greina þann vanda sem þau standa frammi fyrir og á grundvelli þeirrar vinnu hefur Íbúðalánasjóður unnið tillögur að lausnum til þess að mæta þeim áskorunum sem steðja að. Þær snúa meðal annars að því hvernig hægt sé að koma til móts við það misvægi sem ríkir á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs á stórum hluta landsins, ásamt því að tryggja aðgengi að fjármagni á sambærilegum kjörum og fást á virkari markaðssvæðum. Þegar lausnirnar verða komnar til framkvæmda verður lagt mat á áhrif þeirra á köldum markaðssvæðum á landsbyggðinni með tilliti til þess hvort þær geti orðið að varanlegum úrræðum til að bregðast við óvirkum íbúða- eða leigumarkaði á landsbyggðinni til framtíðar.
Sem stendur funda Íbúðalánasjóður og Mannvirkjastofnun með sveitarfélögum um allt land en stefnan er að efla samvinnu ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að stefnumótum í húsnæðismálum og skipan húsnæðismála til framtíðar. Tilgangur þeirra funda er að kynna tvö ný stjórntæki hins opinbera; ríkis og sveitarfélaga, sem koma til með að skipta sköpum í húsnæðismálum til framtíðar. Þetta eru húsnæðisáætlanir sveitarfélaga og byggingargátt sem munu gera það betur kleift að greina þörf fyrir húsnæði, gera áætlanir til þess að mæta þeirri þörf og fylgjast með því hvort verið sé að byggja húsnæði í samræmi við þörf á hverjum tíma.
Aðgengi að viðunandi húsnæði er öllum nauðsynlegt. Í þeim efnum bera stjórnvöld ríka ábyrgð. Ég er þess fullviss að þau skref sem við höfum stigið síðustu misseri marki ákveðin vatnaskil, leggi grunninn að bættri umgjörð í húsnæðismálum og færi okkur í áttina að því markmiði að tryggja jafnvægi á húsnæðismarkaði ásamt nægjanlegu framboði af húsnæði fyrir alla, óháð efnahag og í öllum byggðum landsins.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júní 2019.