Tækniframfarir og vísindauppgötvanir eru stærsta hreyfiafl samfélaga. Endurbætt gufuvél hins skoska James Watts lagði grunninn að vélvæðingu iðnbyltingarinnar, uppgötvun rafmagnsins breytti meiru en orð fá lýst, uppgötvun baktería og löngu síðar sýklalyfja bylti líkast til meiru í mannkynssögunni en allar hefðbundnar byltingar samanlagt!
Enn og aftur horfir allur heimurinn til vísindanna. Nú er þess beðið að vísindamenn heimsins uppgötvi vopn í baráttunni við óvin okkar allra – kórónuveiruna sem veldur COVID-19. Vísindakapphlaupið 2020 er þó ólíkt mörgum öðrum í sögunni því fordæmalaus samstaða og samhugur er í vísindasamfélaginu, sem stundum hefur einkennst af innbyrðis samkeppni. Sannarlega er samkeppnin enn til staðar en almennt eru vísindamenn að deila upplýsingum með öðrum í þeirri von að mannslífum og hagkerfum heimsins verði bjargað.
Við erum öll í sama liðinu
COVID-19 er stærsta áskorunin sem þjóðir heims hafa staðið frammi fyrir í langan tíma. Með áhrifum á heilsu fólks hefur óværan gríðarlegar efnahagsafleiðingar. Veiran hefur veikt öll stærstu hagkerfi heims og það mun taka langan tíma fyrir þau að ná heilsu á ný. Það leiðir til tekjutaps einstaklinga og ríkissjóða um allan heim, sem getur haft miklar afleiðingar á velferð þjóða. Það sést greinilega á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, sem þessa dagana sveiflast með vísindafréttum. Þeir taka við sér þegar góðar vísindafréttir berast, en falla þegar vonir bresta. Hlutabréf á alþjóðamörkuðum féllu til að mynda eftir að tilraunir með bóluefni gegn COVID-19 báru ekki árangur. Það bendir allt til þess, að líf manna muni ekki komast í eðlilegt horf fyrr en bóluefni hefur verið fundið.
Þessa stundina vinna yfir áttatíu hópar vísindamanna og fimmtán lyfja- og líftæknirisar að þróun bóluefnis. Í þeirra hópi eru vafalaust margir sem vilja verða fyrstir – sjá fordæmalaus viðskiptatækifæri og frama í slíkum árangri – en áðurnefnt vísindasamstarf verður vonandi til þess að heilbrigði þjóða verður sett í fyrsta sæti þegar rannsóknarvinnan skilar árangri. Það skiptir á endanum ekki máli hvaðan meðalið kemur, heldur hvernig það verður notað. Í því samhengi er ástæða til bjartsýni, því alþjóðleg samvinna hefur áður skilað heiminum bóluefnum gegn hræðilegum sjúkdómum; barnaveiki, stífkrampa og miltisbrandi svo dæmi séu nefnd.
Ísland leggur sitt af mörkum
Í baráttunni við hinn sameiginlega óvin hefur Ísland vakið nokkra athygli umheimsins. Aðferðafræðin hefur þótt til eftirbreytni og árangurinn með ágætum, en einnig það merka framtak Decode Genetics að bjóða Íslendingum upp á skimun fyrir veirunni, fyrstri þjóða. Hátt í 50 þúsund sýni hafa verið tekin hér á landi. Afraksturinn nýtist heiminum öllum, þar sem ótal afbrigði veirunnar hafa fundist. Það framlag Kára Stefánssonar og samstarfsfólks hans allra er ómetanlegt í þróun bóluefnisins sem veröldin bíður eftir.
Á sama tíma hafa aðrir rannsóknar- og vísindamenn hérlendis unnið þrekvirki. Svo dæmi séu nefnd kynntu vísindamenn fljótt spálíkan um líklega þróun sem gæti nýst við ákvarðanatöku um viðbrögð og skipulag heilbrigðisþjónustu. Á örstuttum tíma höfðu sérfræðingar Íslenskrar erfðagreiningar og samstarfsfólk hjá Landlæknisembættinu og Landspítala sent vísindagrein í New England Journal of Medicine um útbreiðslu veirunnar á Íslandi. Nú síðast tilkynntu vísindamenn í Háskóla Íslands að þeir hefðu hug á að rannsaka áhrif faraldursins á líðan og lífsgæði landsmanna til þess að geta brugðist betur við samfélagslegum áhrifum á borð við heimsfaraldur. Heilbrigðisstarfsmenn og almannavarnir hafa staðið vaktina með viljann að vopni og smitrakningarteyminu tekist að rekja flest smit sem hafa komið upp hér á landi. Þetta er sannanlega árangur sem Íslendingar geta verið stoltir af.
Vísindin efla alla dáð
Eins og oft áður komst ljóðskáldið og vísindamaðurinn Jónas Hallgrímsson vel að orði þegar hann orti til heiðurs vísindamanninum Pål Gaimard í Kaupmannahöfn:
Vísindin efla alla dáð, orkuna styrkja, viljann hvessa,
vonina glæða, hugann hressa,
farsældum vefja lýð og láð;
tífaldar þakkir því ber færa
þeim sem að guðdómseldinn skæra
vakið og glætt og verndað fá
viskunnar helga fjalli á.
Jónas var brautryðjandi á sviði náttúruvísinda og helgaði líf sitt skrifum um þau. Hann vissi það að rannsóknir, vísindi og hagnýting hugvits væru forsendur fjölbreytts atvinnulífs, velferðar og styrkrar samkeppnisstöðu þjóða. Eitt af því sem hefur einkennt íslenskt vísindasamfélag í gegnum tíðina er mikil virkni í alþjóðasamstarfi enda er fjölþjóðlegt samstarf íslenskum rannsóknum nauðsynlegt. Það er því hlutverk okkar sem störfum á þessum vettvangi, hvort sem það er við stefnumótun um vísindamál eða framkvæmd rannsókna, að virkja og efla þekkingu almennings á vísindastarfi og hvetja til öflugra alþjóðasamstarfs.
Á þessum tímapunkti tekst heimurinn á við heimsfaraldur. Þjóðir heimsins taka höndum saman og leiða saman þekkingu og rannsóknir. Ísland gefur ekkert eftir og mun vonandi verða leiðandi afl í alþjóðasamstarfi framtíðarinnar. Faraldurinn er í mikilli rýrnun hér á landi en þó er ekki hægt að hrósa sigri enda baráttunni ekki lokið. Það hefur þó sýnt sig á síðustu mánuðum að alþjóðlegt vísindasamstarf greiðir leiðina að bjartari framtíð. Það býður bæði upp á þá von að lausn finnist á núverandi krísu, ásamt því að byggja upp samstarfsvilja milli ríkja um að sameinast í átt að betri og öruggari framtíð.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. apríl 2020.