Categories
Fréttir

Framhald varna, verndar og viðspyrnu tryggð

Deila grein

29/04/2020

Framhald varna, verndar og viðspyrnu tryggð

Ríkisstjórnin hefur kynnt framhald hlutastarfaleiðar og aukinn stuðningur við fyrirtæki sem orðið hafa fyrir umfangsmiklu tekjutapi og koma þannig í veg fyrir fjöldagjaldþrot. Fyrirtækjum verður gefinn kostur á að sækja um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti til að tryggja réttindi launafólks.
Hlutastarfaleiðin verður framlengd til hausts með breytingum og settar verða einfaldari reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja sem miða að því þau geti komist í skjól með einföldum hætti.
Ríkisstjórnin hefur samþykkt þrjár tillögur um stuðning við launafólk og fyrirtæki. Markmið þeirra er að  draga úr þeim skaða sem umfangsmiklar uppsagnir og fjöldagjaldþrot valda þannig að staðinn verði vörður um réttindi launafólks á sama tíma og stuðlað verði að kröftugri viðspyrnu efnahagslífsins.

  • Hlutastarfaleið verður framlengd en hefði að óbreyttu fallið úr gildi þann 1. júní nk. Afkoma tugþúsunda launafólks hefur verið varin frá því að leiðin tók gildi en ljóst er að efnahagshorfur hafa breyst umtalsvert á þeim rúma mánuði sem liðinn er frá gildistöku hennar. Hlutastarfaleiðin verður því framlengd án breytinga með 25% lágmarksstarfshlutfalli út júní en lágmarkið hækkar í 50% í júlí. Leiðin verður í boði til 31. ágúst. Sækja þarf um framlengingu leiðarinnar og skilyrði fyrir þátttöku verða endurskoðuð.
  • Settar verða tímabundið einfaldari reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Byggt verður á núgildandi grunnreglum en breytingar miða að því að fyrirtæki geti komist í skjól á einfaldan hátt á meðan verið er að meta stöðu þeirra og uns meiri vissa fæst um framtíðarhorfur. Breytingar lúta m.a. að skilyrðum fjárhagslegrar endurskipulagningar, beiðni og umfjöllun um hana, tímafrestur, heimildum til ráðstafana og riftunar- og vanefndaheimildum viðsemjenda.
  • Í því skyni að tryggja réttindi launafólks og forða gjaldþrotum eins og kostur er verður fyrirtækjum gefinn kostur á að sækja um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Stuðningurinn verður í formi greiðslu að hámarki 633 þús. kr. á mánuði í allt að þrjá mánuði auk orlofs og einskorðast við fyrirtæki sem orðið hafa fyrir að lágmarki 75% tekjufalli og sjá fram á áframhaldandi tekjufall að minnsta kosti út þetta ár. Áætlað er að um fjórðungur fyrirtækja hafi orðið fyrir slíku tekjutapi. Hámarkshlutfall stuðnings ríkisins verður 85%. Starfsmenn skulu eiga forgang til starfs þegar starfsemi hefst að nýju og halda tilteknum áunnum réttindum. Sett verði nánari skilyrði, til að mynda um rekstrarhæfi fyrirtækis, fyrir aðild að þessu úrræði og um endurkröfurétt. Leiðin er í boði frá 1. maí til 30. september.

Unnið er að frumvörpum um tillögurnar í félagsmála-, fjármála- og efnahags- og dómsmálaráðuneyti. Samráð verður haft við aðila vinnumarkaðarins um endanlegar útfærslu.
Ríkisstjórnin hefur áður kynnt á að sérstök áhersla sé lögð á uppbyggingu með nýsköpun í aðgerðaáætlun stjórnvalda. Lögð hafa verið til aukin framlög til fjárfestingar í sprotafyrirtækjum og hækkun endurgreiðsluhlutfalls og fjárhæðarþaks til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar, en áhrif þessara aðgerða er talið nema tæpum 4,5 milljörðum króna. Stefnt sé að því að flýta endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar fyrir árið 2019. Auk þess verður sótt verði fram í matvælaframleiðslu, meðal annars með nýsköpun og markaðssetningu. Þá verði framlög til listamannalauna aukin þannig að úthluta megi rúmlega 600 verkefnamánuðum til viðbótar á árinu 2020.

Félagsleg úrræði með stuðningi við viðkvæma hópa, atvinnuleitendur og námsmenn vega þungt í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar. Verður 2,2 milljörðum króna varið til að skapa 3000 tímabundin störf í sumar fyrir námsmenn 18 ára og eldri og 300 m.kr. til að efla nýsköpun meðal ungra frumkvöðla gegnum Nýsköpunarsjóð námsmanna. Auk þess verður 800 m.kr. veitt til að bjóða sumarönn í framhalds- og háskólum sem nýtist bæði nemendum og fólki á atvinnuleysis- eða hlutabótum. Einnig verður ráðist í aðgerðir til að hlúa að viðkvæmum hópum, vinna gegn ofbeldi og félagslegri einangrun aldraðra og öryrkja, styðja við virkni atvinnuleitenda og tryggja tækifæri barna úr tekjulágum fjölskyldum til að taka þátt í frístundastarfi. Hugað verður sérstaklega að því að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og fjarheilbrigðisþjónusta verður efld. Alls verður um 8,5 ma.kr. varið til félagslegra aðgerða í þessum áfanga.

Veittir verða lokunarstyrkir til fyrirtækja sem var gert að hætta starfsemi vegna sóttvarna, allt að 2,4 m.kr. Lítil og meðalstór fyrirtæki í rekstrarörðugleikum geta sótt um allt að 6 m.kr. óverðtryggð stuðningslán á sömu vöxtum og sjö daga bundin innlán lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands, sem nú eru 1,75%. Ljóst er að stór hluti fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustu mun geta nýtt leiðina þar sem hlutfall lítilla og meðalstórra fyrirtækja er töluvert meira í ferðaþjónustu en öðrum greinum. Áætluð heildarútgjöld vegna þessara tveggja aðgerða eru talin geta numið rúmlega 30 milljörðum króna. Einnig verður fyrirtækjum heimilt að jafna vegna tekjuskatts allt að 20 m.kr. af fyrirsjáanlegu tapi ársins 2020 á móti hagnaði ársins 2019.