Categories
Greinar

Tíminn til að lesa meira

Deila grein

30/04/2020

Tíminn til að lesa meira

Bók­mennta­arfur Ís­lendinga sprettur úr frjóum jarð­vegi ís­lenskrar sögu og menningar. Um aldir hafa Ís­lendingar haft ríka þörf fyrir að segja, lesa og hlusta á sögur. Þá þörf höfum við enn, líkt og blóm­leg bóka­út­gáfa og glæsi­leg stétt rit­höfunda er til marks um. Grunnurinn að þessari sagna­hefð var lagður fyrir nærri þúsund árum, þegar stór­menni á borð við Snorra Sturlu­son unnu stór­kost­leg menningar­af­rek með skrifum sínum. Bók­menning þjóðarinnar hefur haldið á­fram að þróast í gegnum tíðina og laga sig að breyttum heimi.

Á síðasta ári tóku gildi lög um stuðning við út­gáfu bóka á ís­lensku. Við sjáum strax árangurinn af þessari lög­gjöf, þar sem met voru slegin í út­gáfu ís­lenskra skáld­verka og út­gefnum barna­bókum fjölgaði um 47% milli ára. Ís­lendingar standa því undir nafni, sem sagnaog bóka­þjóð. Það hefur sýnt sig í yfir­standandi sam­komu­banni, sem þjóðin hefur nýtt til að lesa sér til gagns og gamans. Margir hafa skráð lesturinn á vef á­taks­verk­efnisins Tími til að lesa, þar sem rúm­lega 8 milljónir lesmínútna hafa verið skráðar í apríl.

Á mið­nætti lýkur á­takinu og ég þakka öllum sem tóku þátt. Þátt­tak­endur í þessu þjóðar­á­taki eru á öllum aldri. Þannig hafa þeir lesið mest sem eru 60 ára og eldri, en fast á hæla þeim komu 10 til 12 ára börn sem hafa skráð rúm­lega milljón lesmínútur í mánuðinum.

Orða­forði og les­skilningur eykst með auknum lestri og því er ó­metan­legt fyrir börn að lesa, taka glósur og spyrja út í orð sem þau þekkja ekki. Orða­forði barna skiptir miklu máli fyrir vel­líðan og árangur í skóla og býr þau undir virka þátt­töku í sam­fé­laginu. Með aukinni menntun eykst sam­keppnis­hæfni þjóðarinnar og geta hennar til að standa undir eigin vel­ferð. Það er lykil­at­riði að styrkja mennta­kerfið okkar til fram­tíðar. Með lestrinum ræktum við menningar­arfinn okkar og því meira sem við lesum, því betra! Til hamingju með árangurinn, kæra bóka­þjóð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. apríl 2020.