Nú er tilhlökkun í loftinu. Tími skólaslita og útskrifta hjá yngri kynslóðinni, skólaveturinn að baki og allt sumarið framundan. Þessi uppskerutími er öllum dýrmætur, ekki síst kennurum sem nú horfa stoltir á árangur sinna starfa. Ég hvet nemendur og foreldra til þess að horfa stoltir til baka á kennarana sína og íhuga hlutdeild þeirra og hlutverk í þeirri vegferð sem menntun er. Menntun er samvinnuverkefni og kennarar eru mikilvægir áhrifavaldar í lífi nemenda sinna. Kennarar eru líka hreyfiafl okkar til góðra verka og framfara í íslensku menntakerfi en starf og árangur kennara byggist á sjálfstæði þeirra og fagmennsku, næmi fyrir einstaklingnum og þeim ólíku leiðum sem henta hverjum nemenda til að byggja upp hæfni sína.
Það eru virkilega ánægjulegar fréttir að umsóknum í kennaranám hefur fjölgað verulega. Þannig fjölgaði umsóknum um framhaldsnám til kennsluréttinda í leik- og grunnskólakennaranámi við Háskóla Íslands um 30% miðað við meðaltal síðustu fimm ára, samkvæmt upplýsingum frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands, og umsóknum í listkennsludeild Listaháskóla Íslands fjölgaði um 122% frá síðasta ári. Þetta eru að mínu mati góðar vísbendingar um að við séum á réttri leið. Kennarastarfið er enda spennandi kostur sem býður upp á fjölbreytta starfsmöguleika og mikið starfsöryggi.
Fyrr í vor kynntum við aðgerðir sem miða að fjölgun kennara en í þeim felst meðal annars að frá og með næsta hausti býðst leik- og grunnskólakennaranemum á lokaári launað starfsnám. Þá geta nemendur á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi sótt um námsstyrk sem nemur alls 800.000 kr. til að sinna lokaverkefnum sínum samhliða launuðu starfsnámi. Enn fremur eru veittir styrkir til að fjölga kennurum með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn sem m.a. taka á móti nýjum kennurum sem koma til starfa í skólum. Umsóknum um slíkt nám hefur fjölgað um 100% milli ára, samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands.
Öflugt menntakerfi er forsenda framfara og það kerfi er borið uppi af kennurum. Það er eftirtektarverð gróska í íslenskum skólum þessi misserin og mikil og þörf umræða um skólastarf og hlutverk þess til framtíðar. Ég fagna því um leið og ég óska kennurum, nemendum og öðru skólafólki gleðilegs sumars.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. júní 2019.