Categories
Greinar

Vor í menntamálum – uppskeran í hús

Deila grein

03/06/2019

Vor í menntamálum – uppskeran í hús

Nú er til­hlökk­un í loft­inu. Tími skóla­slita og út­skrifta hjá yngri kyn­slóðinni, skóla­vet­ur­inn að baki og allt sum­arið framund­an. Þessi upp­skeru­tími er öll­um dýr­mæt­ur, ekki síst kenn­ur­um sem nú horfa stolt­ir á ár­ang­ur sinna starfa. Ég hvet nem­end­ur og for­eldra til þess að horfa stolt­ir til baka á kenn­ar­ana sína og íhuga hlut­deild þeirra og hlut­verk í þeirri veg­ferð sem mennt­un er. Mennt­un er sam­vinnu­verk­efni og kenn­ar­ar eru mik­il­væg­ir áhrifa­vald­ar í lífi nem­enda sinna. Kenn­ar­ar eru líka hreyfiafl okk­ar til góðra verka og fram­fara í ís­lensku mennta­kerfi en starf og ár­ang­ur kenn­ara bygg­ist á sjálf­stæði þeirra og fag­mennsku, næmi fyr­ir ein­stak­lingn­um og þeim ólíku leiðum sem henta hverj­um nem­enda til að byggja upp hæfni sína.

Það eru virki­lega ánægju­leg­ar frétt­ir að um­sókn­um í kenn­ara­nám hef­ur fjölgað veru­lega. Þannig fjölgaði um­sókn­um um fram­halds­nám til kennslu­rétt­inda í leik- og grunn­skóla­kenn­ara­námi við Há­skóla Íslands um 30% miðað við meðaltal síðustu fimm ára, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Menntavís­inda­sviði Há­skóla Íslands, og um­sókn­um í list­kennslu­deild Lista­há­skóla Íslands fjölgaði um 122% frá síðasta ári. Þetta eru að mínu mati góðar vís­bend­ing­ar um að við séum á réttri leið. Kenn­ara­starfið er enda spenn­andi kost­ur sem býður upp á fjöl­breytta starfs­mögu­leika og mikið starfs­ör­yggi.

Fyrr í vor kynnt­um við aðgerðir sem miða að fjölg­un kenn­ara en í þeim felst meðal ann­ars að frá og með næsta hausti býðst leik- og grunn­skóla­kenn­ara­nem­um á loka­ári launað starfs­nám. Þá geta nem­end­ur á loka­ári meist­ara­náms til kennslu­rétt­inda á leik- og grunn­skóla­stigi sótt um náms­styrk sem nem­ur alls 800.000 kr. til að sinna loka­verk­efn­um sín­um sam­hliða launuðu starfs­námi. Enn frem­ur eru veitt­ir styrk­ir til að fjölga kenn­ur­um með sér­hæf­ingu í starfstengdri leiðsögn sem m.a. taka á móti nýj­um kenn­ur­um sem koma til starfa í skól­um. Um­sókn­um um slíkt nám hef­ur fjölgað um 100% milli ára, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Há­skóla Íslands.

Öflugt mennta­kerfi er for­senda fram­fara og það kerfi er borið uppi af kenn­ur­um. Það er eft­ir­tekt­ar­verð gróska í ís­lensk­um skól­um þessi miss­er­in og mik­il og þörf umræða um skólastarf og hlut­verk þess til framtíðar. Ég fagna því um leið og ég óska kenn­ur­um, nem­end­um og öðru skóla­fólki gleðilegs sum­ars.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. júní 2019.