Categories
Fréttir Greinar

Framfarir í úrgangsmálum

Deila grein

13/10/2023

Framfarir í úrgangsmálum

Hvernig við komum frá okkur sorpi snertir hvert einasta heimili og er lögbundið verkefni sveitarfélaga. Það verða því flestir varir við það þegar verða breytingar í málaflokknum.

Á síðustu mánuðum hafa verið innleiddar mestu breytingar í úrgangsmálum sem orðið hafa um langa hríð á höfuðborgarsvæðinu. Aukin flokkun sorps frá heimilum er stórt verkefni sem hefur, þegar á heildina er litið, gengið mjög vel og er strax farið að skila miklum árangri.
Það má þó ekki gleyma því að íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru vanir að flokka en 60% af þeim úrgangi sem kemur frá heimilum er skilað á endurvinnslustöðvar Sorpu og 40% er sótt í tunnur við heimili.

Áframhaldandi starfsemi í Álfsnesi – raunhæf markmið um lokun

En hvað verður svo um sorpið? Það er kannski viðfangsefni sem Mosfellingar hafa haft meiri áhyggjur af á síðustu árum og sú staðreynd að urðunarstaðurinn í Álfsnesi er kominn ansi nálægt byggðinni okkar. Síðasta áratuginn hefur verið í gildi samkomulag milli eigenda Sorpu, sem eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, um að hætta urðun í Álfsnesi.
Á þessum tíma hefur ýmislegt verið gert. Það verður þó að viðurkennast að framfarirnar hafa ekki verið nægar til að raunhæft sé að loka urðunarstaðnum í lok þessa árs. Leit að nýjum urðunarstað fyrir höfuðborgarsvæðið er umfangsmikið verkefni á meðan við urðum ennþá eins mikið magn og raun ber vitni.

Annar viðauki hefur því verið gerður við þetta samkomulag og teljum við í bæjarstjórn Mosfellsbæjar raunhæft að við náum árangri í því að loka urðunarstaðnum innan næstu fimm ára eins og markmið samkomulagsins er.

Samkomulagið kveður þó ekki á um óbreytt ástand. Í fyrsta lagi tökum við stórt skref með aukinni flokkun. Sorpa hefur gert samninga við önnur sorpsamlög og fyrirtæki um móttöku á lífrænum úrgangi frá fyrirtækjum enda verður bannað að urða lífrænt í Álfsnesi frá og með næstu áramótum. Þar verður eingöngu leyfilegt að urða óvirkan úrgang sem gefur ekki frá sér lykt.

Annar stór áfangi er að hefja útflutning á blönduðum brennanlegum úrgangi. Útflutningur hefur verið boðinn út og hefst núna á allra næstu vikum. Bara þetta tvennt breytir starfseminni í Álfsnesi gríðarlega.

Gætum hagsmuna Mosfellinga

Samþykkt annars viðauka varðandi lokun urðunarstaðarins og enn frekari frestun á því er ekki eitthvað sem bæjarfulltrúar í Mosfellsbæ eru sátt við eða ánægð með. Við komumst hins vegar að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að það væri óábyrgt að ganga ekki til samninga um framhaldið en að öðrum kosti hefði skapast ófremdarástand í úrgangsmálum á höfuðborgarsvæðinu.

Við gerðum okkar allra besta til að tryggja hagsmuni Mosfellinga í samkomulaginu og meðal annars með því að fá eigendur Sorpu og landeiganda Álfsness, sem er Reykjavíkurborg, til að samþykkja að ekki verði byggð sorpbrennsla í Álfsnesi. Auk þess sem farið verður í umfangsmiklar mótvægisaðgerðir til að ná tökum á lyktarmengun frá þeim úrgangi sem þegar hefur verið urðaður þarna. Lykilatriði er að fylgja þessum ákvæðum eftir og það munum við gera.

Aldís Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi og stjórnarkona í Sorpu BS

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 12. október 2023.

Categories
Greinar

Að reka sveitarfélag

Deila grein

01/11/2022

Að reka sveitarfélag

Á síðustu vikum hefur sveitarstjórnarfólk af öllu landinu komið saman til að fjalla um rekstur og málefni sveitarfélaga.
Í lok september var haldið Landsþing sambands íslenskra sveitarfélaga og í október var fjármálaráðstefna.
Það er mjög gagnlegt fyrir fólk sem kemur að því að stýra þessum mikilvægu innviðum um allt land að hittast og bera saman bækur sínar. Bæði kjörnir fulltrúar og bæjar- og sveitarstjórar. Áskoranirnar eru miklar en það sést best á því að sveitarfélögum sem uppfylla ekki lágmarksviðmið eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga hefur fjölgað um helming nú í kjölfar heimsfaraldursins. Mosfellsbær er sem betur fer ekki í þeim hópi.
Hluti af skýringunum á þessum rekstrarerfiðleikum er flutningur á málaflokki fatlaðs fólks til sveitarfélaga fyrir um 10 árum. Síðan þá hefur þjónustan þróast í samræmi við breytingar á lögum og verið verið nútímavædd og kostnaðurinn að sama skapi aukist mikið án aukningar á mótframlagi frá ríkinu. Breyting á þjónustu skýrir líka aukinn kostnað í fleiri málaflokkum. Þar er hægt að nefna leikskólamál. Kostnaður sveitarfélaga vegna leikskóla eru um 60 milljarðar króna á landsvísu.
Á síðustu áratugum hafa sveitarfélög byggt upp leikskóla sem standast nútímakröfur þar sem vistunartími hefur verið lengdur bæði með tilliti til aldurs barna og einnig með tilliti til lengdar á vistunartíma. Nú heyrir það til undantekninga ef börn eru ekki komin á leikskóla á öðru aldursári og að þau dvelji þar að minnsta kosti í átta tíma á dag. Hluti af skýringunni á erfiðum rekstri sveitafélaga er líka mikil fólksfjölgun og fjárfestingarþörf sem fylgir henni. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur til að mynda fjölgað um rúmlega 30 þúsund á síðustu 10 árum.

Ég er með þessum skrifum ekki að leggja til neina töfralausn á rekstri sveitarfélaga. Því miður. Heldur er ég frekar að deila þeim upplýsingum sem liggja fyrir og hugleiðingum þeim tengdum. Mér finnst mikilvægt að þau sem taka að sér að taka ákvarðanir um rekstur okkar sameiginlegu sjóða upplýsi um það hvernig gengur og af hverju ekki er hægt að gera allt fyrir alla strax.
En ég er hinsvegar bjartsýn á að okkur muni áfram farnast vel hér í Mosfellsbæ við það krefjandi verkefni að takast á við mikla fjölgun íbúa á sama tíma og við nútímavæðum og bætum þjónustuna.
Það þýðir að við þurfum að vera skynsöm og forgangsraða með tilliti til fjárfestingargetu hverju sinni. Það þýðir líka að við þurfum að leggja áherslu á stefnumótun þannig að við vitum hvert við erum að fara og með samtalinu finnum við út úr því hvernig á að komast þangað.

Aldís Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ.

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 27. október 2022.