Categories
Greinar

Að bera virðingu fyrir sjálf­stæðis­bar­áttunni

Deila grein

02/01/2025

Að bera virðingu fyrir sjálf­stæðis­bar­áttunni

Sjálfstæðisbarátta Íslendinga er einn helsti hornsteinn íslenskrar sögu. Áratugalöng barátta fyrir sjálfsforræði á 19. og 20. öld tryggði fullveldi árið 1918 og varð hápunktur í stofnun lýðveldisins árið 1944. Þessi barátta var ekki aðeins tákn um sjálfstæði þjóðarinnar, heldur líka grundvöllur fyrir lýðræði, menningu og frelsi. Þjóðin stóð saman í þeirri trú að Íslendingar ættu að vera herrar í eigin landi, ráðstafa eigin auðlindum og ákvarða eigin framtíð.

En nú, á tímum þar sem fullveldi okkar ætti að vera fast í sessi, virðist sjálfstæði Íslands standa frammi fyrir nýrri ógn. Ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins hefur sett það á stefnu sína að taka upp viðræður við Evrópusambandið (ESB), sem felur í sér beina ógn við sjálfstæði þjóðarinnar.

Frá fullveldi til lýðveldis – Barátta sem mótaði þjóðina

Íslendingar háðu langa baráttu við að losa sig undan stjórn Dana og öðlast rétt til að ráða eigin málum. Árið 1918 varð Ísland fullvalda ríki með eigin stjórnarskrá og stjórnarhætti. Það var þó ekki fyrr en 1944, þegar lýðveldið Ísland var stofnað, að þjóðin varð algjörlega laus við erlend yfirráð. Þetta tímabil markaði upphaf nýrrar aldar, þar sem Ísland réði eigin málum og byggði upp samfélag í anda íslensks sjálfsforræðis.

Þessi saga er ekki aðeins söguleg staðreynd, heldur sjálfsmynd þjóðarinnar. Sjálfstæðið hefur gert Íslandi kleift að nýta auðlindir sínar, stjórna eigin fiskimiðum og vera fyrirmynd í sjálfbærni og stjórnmálum á alþjóðavettvangi.

Af hverju innganga í ESB er ógn við sjálfstæðið

Nú virðist ríkisstjórnin tilbúin að kasta þessum grunni fyrir borð. Með því að taka upp viðræður við ESB er verið að undirbúa afsal á fullveldi til stórveldis sem hefur engan áhuga á sérstöðu Íslands. Aðild að ESB myndi fela í sér eftirfarandi:

  • Tap á yfirráðum yfir auðlindum: Ísland myndi missa stjórn á fiskimiðunum sínum, sem hafa verið grundvöllur efnahagslegs sjálfstæðis okkar. Reglugerðir ESB myndu ráða för og veikja íslenska fiskveiðistjórnun.
  • Minnkandi lýðræðislegt sjálfsforræði: Ísland yrði bundið af lögum og reglum sem eru settar í Brussel, oft án beins áhrifavalds Íslands í ákvarðanatökuferlinu.
  • Skert sjálfstæði í utanríkismálum: Ísland yrði hluti af sameiginlegri stefnu ESB, þar sem minni þjóðir oft verða undir í samningum.

Þetta er skýrt afsal á sjálfstæðinu sem forfeður okkar börðust fyrir af svo mikilli elju. Þjóð sem hefur verið frjáls í tæpa öld ætti ekki að samþykkja svo alvarlega skerðingu á fullveldi sínu.

Af hverju sjálfstæði skiptir enn máli

Sumir halda því fram að innganga í ESB sé nauðsynleg í heimi hnattvæðingar. En sannleikurinn er sá að Ísland hefur sýnt að sjálfstætt ríki getur þrifist í alþjóðlegu samhengi. Í gegnum EES-samninginn hefur Ísland aðgang að evrópskum mörkuðum án þess að fórna sjálfstæði sínu. Með því að standa utan ESB hefur Ísland líka getað tekið ákvarðanir sem henta best hagsmunum þjóðarinnar.

Sjálfstæði er ekki gamaldags hugtak. Það er nauðsynleg forsenda þess að þjóðin geti viðhaldið eigin menningu, stjórnskipan og efnahagsstefnu. Þegar ríkisstjórn leggur til inngöngu í ESB, þá er hún ekki aðeins að fórna þessum grundvallarstoðum, heldur líka að svíkja arfleifð sjálfstæðisbaráttunnar.

Þjóðin á krossgötum

Ný ríkisstjórn vill nú feta braut sem gæti leitt Ísland í ógöngur. Það er á ábyrgð þjóðarinnar að hafna þessari stefnu og standa vörð um það sjálfstæði sem var svo dýru verði keypt. Íslendingar eiga ekki að sætta sig við að verða enn ein jaðarríkið í stórveldi þar sem hagsmunir stórra þjóða ráða ferðinni.

Sjálfstæðisbarátta Íslands var ekki til einskis, og það er okkar að tryggja að hún verði ekki gleymd eða gerð að engu. Við eigum að varðveita þann rétt sem forfeður okkar unnu fyrir okkur: réttinn til að stjórna eigin landi, eigin auðlindum og eigin framtíð. Þetta er það sem sjálfstæði þýðir – og það skiptir enn máli.

Ný ríkistjórn ætti að tileinka sér það að að bera virðingu fyrir sjálfstæðisbaráttunni.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. janúar 2025.

Categories
Greinar

Uppgjör við ár áskorana og árangurs í bæjarmálunum í Suðurnesjabæ

Deila grein

23/12/2024

Uppgjör við ár áskorana og árangurs í bæjarmálunum í Suðurnesjabæ

Kæru íbúar í Suðurnesjabæ!

Senn líður að áramótum og tel ég því mikilvægt að líta yfir farinn veg.

Árið hefur verið tíðindamikið á vettvangi stjórnmálanna og ekki síst hér í bæjarpólitíkinni í Suðurnesjabæ. Margt hefur áunnist og erum við í Framsókn(B) stolt af mörgum þeim málum sem við náðum að klára og höfum unnið markvisst að frá kosningunum 2022. Nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks (D) Bæjarlistans(O) og Samfylkingar(S) tók til starfa á 71. fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar, fimmtudaginn 11. júlí 2024. Við í B-lista Framsóknar erum stolt af störfum okkar síðustu tveggja ára í meirihluta Suðurnesjabæjar. Við horfum ánægð yfir farinn veg á þau áherslumál sem flokkurinn kom í framkvæmd. Reynslunni ríkari höldum við áfram og hlökkum til að starfa áfram saman af heilindum fyrir fólkið í Suðurnesjabæ, nú í minnihluta.

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir – stórt framfaraskref

Eitt af áherslumálum Framsóknar í Suðurnesjabæ fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar var að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir fyrir börn. Þessi mikilvæga hugsjón var samþykkt á síðasta fundi mínum sem formaður bæjarráðs í vor, og voru gjaldfrjálsar máltíðir innleiddar í grunnskólum sveitarfélagsins í haust. Við höfum unnið markvisst að hækkun niðurgreiðslna til foreldra og innleitt systkinaafslátt. Svo kom þessi aðgerð til fulls í kjölfar kjarasamningsgerðar og auðvitað fannst okkur það mikilvægt að Suðurnesjabær yrði fyrirmynd og stigi skrefið til fulls, enda eitt af megináherslum okkar í Framsókn.

Við lítum á þetta sem stórt velferðar- og jafnréttismál. Með því að tryggja öllum börnum heita máltíð óháð stöðu foreldra stuðlum við að jafnræði og bætum lífsgæði barna. Á Íslandi er skólaskylda, og því er það eðlileg og réttmæt krafa að grunnskólamenntun sé gjaldfrjáls, án aðgreiningar.

Þetta framfaraskref styrkir samfélagið og tryggir að börn fái nauðsynlega næringu til að læra og þroskast í öruggu umhverfi. Það er ánægjulegt að sjá þessa framtíðarsýn okkar verða að veruleika.

Grettistaki lyft í leikskólamálum

Leikskólamál hafa verið í brennidepli í Suðurnesjabæ, og nú hefur nýr kafli hafist með opnun leikskólans Grænuborgar í Sandgerði. Gamla leikskólahúsnæðið var löngu orðið úrelt, og endurnýjun þess var tímabær og brýn. Við í Framsókn studdum þetta metnaðarfulla verkefni heilshugar, enda markar það stórt framfaraskref í þjónustu við börn og fjölskyldur í bænum.

Grænaborg er sex deilda leikskóli sem býður framúrskarandi aðstöðu fyrir bæði börn og starfsfólk. Skólinn, sem er 1.135 fermetrar að flatarmáli, hefur rúmgott eldhús, stoðrými og veglega aðstöðu fyrir starfsfólk. Leikskólalóðin, sem er 3.800 fermetrar, býður upp á fjölbreytt leiktæki og öruggt umhverfi fyrir börn.

Eftir opnun Grænuborgar hefur öllum börnum sem sótt hafa um pláss verið tryggt leikskólapláss. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir bæjarfélagið og stórt skref í átt að jafnari tækifærum og betri velferð fyrir fjölskyldur í Suðurnesjabæ. Nú þurfum við að huga að samskonar uppbyggingu í Garði og setja í gang markvissa vinnu til að hefja þá vegferð.

Heilbrigðisþjónusta í heimabyggð

Í sveitarstjórnarkosningunum 2022 setti B-listi Framsóknar sér skýr markmið um að þrýsta á ríkið að koma á heilbrigðisþjónustu í Suðurnesjabæ. Sveitarfélagið er það stærsta á landinu sem hefur ekki heilsugæslu. Suðurnesjabær, sem er 4.200 manna sveitarfélag sem varð til við sameiningu Sandgerðis og Garðs árið 2018, hefur séð mikla fjölgun íbúa síðustu ár.

Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa lengi kallað eftir því að heilsugæsluþjónusta verði veitt í sveitarfélaginu. Við í Framsókn hófum tafarlaust samtöl við þáverandi þingmenn okkar í Suðurkjördæmi, Sigurð Inga, fráfarandi fjármálaráðherra, Jóhann Friðrik og Hafdísi Hrönn, til að þrýsta á málið. Einnig áttum við fundi og samtöl við Willum Þór Þórsson, fráfarandi heilbrigðisráðherra. Með miklum samtakamætti og samvinnuhugsjón að leiðarljósi er þetta mikilvæga réttlætismál nú að raungerast – heilbrigðisþjónusta verður brátt í boði í heimabyggð fyrir okkar íbúa. Þann 30. ágúst var undirrituð viljayfirlýsing um opnun heilsugæslustöðvar í Suðurnesjabæ sem mun opna á nýju ári.

Ábyrgð kjörinna fulltrúa mikil

Það er grundvallarskylda okkar, sem störfum í umboði almennings sem kjörnir fulltrúar, að fara vel með fjármuni samfélagsins. Virðing fyrir almannafé krefst ábyrgðar og gagnsæis í allri ákvarðanatöku. Við verðum að spyrja okkur spurninga eins og: Eru þessi útgjöld réttlætanleg? Er verið að hámarka notagildi fjárins? Hvernig mun þessi ákvörðun koma samfélaginu til góða? Óskynsamleg eða óréttmæt ráðstöfun almannafjár getur grafið undan trausti almennings á stjórnvöldum. Það er því hlutverk okkar að tryggja að hver króna sé nýtt á sem skilvirkastan hátt og að forgangsröðun fjárveitinga taki mið af hagsmunum heildarinnar, ekki sérhagsmuna.

Deilur um íþróttamannvirki í Suðurnesjabæ

Undanfarið hefur mikið verið rætt og ritað um fyrirhugaða uppbyggingu íþróttamannvirkja í Suðurnesjabæ. Þetta viðkvæma mál hefur skapað talsverðar deilur og hafði bein áhrif á fall meirihluta Framsóknarflokks(B) og Sjálfstæðisflokks(D) í vor. En hvað olli þessum ágreiningi?

Í fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2024 gerði oddviti D-listans þá kröfu við B-lista að mannvirkið, gervigrasvöllur, yrði sett á dagskrá fjárfestingaráætlunar fyrir árið 2024. Þetta var krafa Sjálfstæðismanna, sem vildu gera ráð fyrir verkefninu á komandi ári. Við í Framsókn töldum þessa kröfu fremur bratta, þar sem verkefnið er mjög fjárfrekt, og ekki væri komin niðurstaða um hvar ætti að reysa það – sérstaklega á sama tíma og við vorum í stórri fjárfestingu vegna byggingar nýs leikskóla.

Samt sem áður var sammælst um að setja 200 milljónir króna í verkefnið fyrir árið 2024 með því skilyrði okkar í Framsókn að ákvörðun um staðsetningu vallarins lægi fyrir í mars/apríl sama ár. Okkur fannst mikilvægt að virða samstarfsflokkinn og setja þetta verkefni inn, þar sem uppbygging íþróttamannvirkja var hluti af málefnasamningi listanna í meirihlutasamstarfinu.

Fyrir lá skýrsla frá verkfræðistofunni Verkís, sem kom út í maí árið 2022. Oddvitar D- og B-lista sammæltust um að setja málið á dagskrá bæjarráðs strax í janúar 2024 til að koma hreyfingu á málið og reyna að ljúka því. Á vinnufundi voru oddvitar D- og B-lista einnig sammála um að eina rökrétta lausnin til að halda kostnaði við rekstur í lágmarki væri að mannvirkið risi á öðrum hvorum aðalvelli Reynis eða Víðis.

Í kjölfar þess lagði knattspyrnufélagið Víðir til aðalvöll sinn fyrir verkefnið, þó hann hefði ekki verið tekinn með í skýrslunni frá Verkís. Var þá ákveðið að fara í svokallaða valkostagreiningu á báðum aðalvöllum félaganna. Verkís var falið að meta báða kosti.

Ef skoðaður er samanburðurinn í valkostagreiningunni, sem verkfræðingar hjá Verkís gerðu á milli aðalvallar Reynis í Sandgerði og aðalvallar Víðis í Garði, sýnir hann að það er mun hagstæðara að byggja gervigrasvöllinn í Sandgerði út frá kostnaðarsjónarmiðum og styrk innviða. Kostnaður við að byggja völlinn í Sandgerði er áætlaður 472 milljónir króna, samanborið við 509 milljónir króna fyrir Garð, sem gerir 36 milljóna króna sparnað. Auk þess eru innviðir eins og félagsheimili og stærri stúka þegar til staðar í Sandgerði, sem dregur úr viðbótarkostnaði. Sandgerði býður einnig upp á fleiri og betri bílastæði og hefur betri aðstöðu fyrir vallarinnviði með tilbúnum tækjageymslum, almenningssalernum og steinsteyptri stúku sem rúmar 340 manns.

Niðurstaðan er því skýr: Sandgerði er bæði skynsamlegri og hagkvæmari kostur fyrir staðsetningu gervigrasvallarins.

Ef við skoðun kostnaðartölur úr skýrslu Verkís sem kom út í maí 2022 er mismunurinn þar á milli malarvallarins í Garði og aðalvelli Reynis í Sandgerði. Þá eru efri mörkin 121.100.000 ISK krónur í mismun og áætlunin er 80.781.000 ISK krónur í mismun á verðlagi í maí 2022. Mismunurinn er því gríðarlega mikill í kostnaðarauka fyrir bæjarsjóð að setja gervigrasvöllinn á malarvöllinn í Garðinum útreiknað af verkfræðingum Verkís.

Bæjarráð fundaði oft og stíft um málið fram á vorið 2024, bæði á formlegum fundum og óformlegum vinnufundum. Sigursveinn Bjarni Jónsson fyrir hönd S-lista lagði fram tillögu í bæjarráði og bæjarstjórn um að reisa ætti mannvirkið á aðalvelli Reynis í Sandgerði. Jónína Magnúsdóttir fyrir hönd O-lista lagði það til á fundi bæjarráðs að mannvirkið ætti að reisa á milli byggðarkjarnanna, en eins og áður hefur komið fram töldu D- og B-listi það óraunhæft vegna mikils kostnaðar, þar sem engir innviðir eru til staðar í miðjunni. Auk þess er eignarhald á þeirri landspildu í blandaðri eigu margra aðila.

Ýmsir aðilar voru kallaðir til, þar á meðal forsvarsmenn íþróttafélaganna Víðis og Reynirs og sérfræðingar sveitarfélagsins á sviði skipulagsmála. Við greiningu á eignarhaldi kom í ljós að aðalvöllur Víðis stendur að hluta til í landi einkaaðila, svokallaðri Miðhúsajörð þar sem sveitarfélagið greiðir umtalsverða lóðarleigu, en aðalvöllur Reynirs er í landi sveitarfélagsins.

Við í Framsókn töldum því þrjár ástæður fyrir því að völlurinn ætti að rísa á aðalvelli Reynis:

  • Skýrsla Verkís.
  • Valkostagreiningin.
  • Yfirráð sveitarfélagsins yfir landinu undir mannvirkið.

Við reyndum hvað við gátum að mynda breiða pólitíska sátt um málið. Þrátt fyrir þetta var tillögum S- og O-lista í bæjarráði og bæjarstjórn, sem beindust í ólíkar áttir, ítrekað frestað. Við sendum Sjálfstæðismönnum skýr skilaboð: Framsóknarflokkurinn styður skýrslu og valkostagreiningu Verkís bæði gögnin og leggur hag bæjarsjóðs til grundvallar. Á þessum tímapunkti voru allir flokkar tilbúnir með sína afstöðu í málinu nema D-listi Sjálfstæðismanna.

Samráðsteymi um gervigras sett á laggirnar til að bjarga meirihlutanum

Oddviti D-listans Einar Jón Pálsson lagði til aðeins 30 mínútum fyrir 139. fund bæjarráðs, haldinn 26. mars 2024, að stofnað yrði samráðsteymi. Þar var oddviti D-listans Einar Jón Pálsson efnislega ósammála oddvita B-listans, Anton Guðmundssyni sem þá var formaður bæjarráðs, og fulltrúa D-listans Magnús Sigfúsi Magnússyni í bæjarráði um efnislega afgreiðslu á málinu. Tilgangur teymisins var að koma með tillögu að lausn á máli gervigrasvallar í Suðurnesjabæ.

Í teyminu voru starfsmenn sveitarfélagsins, fulltrúi frá KSÍ (sem þó var aldrei kallaður til fundar), og forsvarsmenn íþróttafélaganna Víðis og Reynis. Þegar niðurstöður samráðsteymisins lágu fyrir og málið var tekið fyrir í bæjarráði á ný, kom í ljós að bæjarráði hafði ekki borist öll gögn í málinu fyrir fundinn. Þrátt fyrir að þessi gögn hefðu borist stjórnsýslu Suðurnesjabæjar höfðu þau ekki verið sett í fundargáttina.

Meðal þeirra gagna var yfirlýsing frá Ólafi Þór Ólafssyni, formanni aðalstjórnar Reynis, þar sem hann lýsti því yfir að hann hefði ekki haft umboð frá íþróttafélaginu Reyni til að taka ákvarðanir í málinu. Hann hafði því dregið til baka stuðning Reynis við samráðsteymisniðurstöðuna. Samkvæmt pósti sem hann hafði sent öllum í samráðsteyminu ásamt byggingarfulltrúa og bæjarstjóra.

Þessi yfirlýsing hafði afgerandi áhrif á málið. Þar með varð ljóst að verið var að halda gögnum og upplýsingum frá sem höfðu afgerandi áhrif á málið.

Tillaga lögð fram á 143. fundi bæjarráðs 29. maí 2024

Fulltrúar B-lista (Anton Guðmundsson) og D-lista (Magnús S Magnússon) lögðu fram eftirfarandi tillögu:

„Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að íþróttamannvirkið gervigrasvöllur í Suðurnesjabæ fyrir bæði lið sveitarfélagsins verði reist á aðalvellinum í Sandgerði. Allir nauðsynlegir innviðir eru til staðar á aðalvellinum í Sandgerði, eins og til dæmis 340 manna stúka, salernisaðstaða fyrir áhorfendur, vélageymsla og plássgott félagsheimili.

Auk þess leggur bæjarráð til að starfshópur um uppbyggingu íþróttamannvirkja, sem þegar hefur verið skipaður af bæjarráði, geri þarfagreiningu og skili af sér tillögum um uppbyggingu íþróttamannvirkja til næstu ára.

Starfshópurinn hafi það að leiðarljósi að jafnræðis skuli gætt milli byggðakjarna sveitarfélagsins þegar kemur að frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja.“

Bæjarráð þakkaði verkfræðistofunni Verkís ásamt starfsmönnum Suðurnesjabæjar fyrir þeirra framlag í málinu.

Málið fer fyrir bæjarstjórn

Á 70. fundi bæjarstjórnar, þann 5. júní 2024, var tillagan samþykkt með 2 atkvæðum B-lista, 2 atkvæðum S-lista og 1 atkvæði D-lista, gegn 2 atkvæðum O-lista og 2 atkvæðum frá D-lista, að íþróttamannvirkið – gervigrasvöllur – yrði reist á aðalvelli Reynis í Sandgerði.

Þessi ákvörðun var í samræmi við niðurstöður Verkís og valkostagreiningar sem lögðu til þessa staðsetningu út frá kostnaðar- og rekstrarsjónarmiðum. Í kjölfar þessarar samþykktar sprakk meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Nýr meirihluti var myndaður í sveitarfélaginu. Meirihluti Bæjarlistans (O), Samfylkingar (S) og tveggja fulltrúa Sjálfstæðisflokks (D) tók við, og málið var tekið upp á ný á 74. fundi bæjarstjórnar, þann 6. nóvember 2024. Þar samþykktu 2 fulltrúar D-lista, 2 fulltrúar O-lista og 2 fulltrúar S-lista að byggja gervigrasvöllinn á gamla malarvellinum í Garði, þvert á ráðleggingar Verkís. Á móti greiddu 2 fulltrúar B-lista og Magnús S. Magnússon, sem hafði áður verið fulltrúi D-lista.

Einnig gerðust þau tíðindi í millitíðinni á 149. fundi bæjarráðs, sem haldinn var 28. ágúst, þar barst erindi frá Knattspyrnufélaginu Víði. Í erindinu var lögð fram tillaga um að staðsetja nýtt íþróttasvæði á miðsvæði milli byggðarkjarnanna í Suðurnesjabæ.

Nýr meirihluti D-, S- og O-lista svaraði erindi Víðis með þeim upplýsingum að bæjarstjórn hefði þegar samþykkt staðsetningu á gervigrasvelli. Á aðalvelli Reynis í Sandgerði Fram kom að unnið væri samkvæmt þeirri samþykkt, þar sem forsendur ákvörðunarinnar hefðu ekki breyst.

Hvenær á að taka mark á Samfylkingunni í Suðurnesjabæ?

Það er óumflýjanlegt að spyrja sig: Hvenær á að taka mark á S-lista? Er það á sumri eða vetri?

Í júní samþykkti S-listinn, ásamt B-lista og hluta D-lista, að fylgja niðurstöðum faglegra ráðlegginga Verkís, þar sem lagt var mat á hagkvæmustu og skynsamlegustu lausnina. Í nóvember, aðeins fimm mánuðum síðar, samþykkti S-listinn hins vegar að hunsa þessar sömu ráðleggingar og velja óhagkvæmari valkost, þvert á þau sjónarmið sem áður voru lögð til grundvallar.

Þessi stefnubreyting vekur upp spurningar um ábyrgð og stöðugleika í ákvarðanatöku. Er verið að taka ákvarðanir með almannahagsmuni að leiðarljósi eða með tilliti til annarra sjónarmiða?

Við í Framsókn teljum mikilvægt að byggja upp íþróttamannvirki í Suðurnesjabæ, en það verður að gera á skynsaman og ábyrgan hátt. Kostnaðarsöm verkefni eins og aukin gatnagerð, bygging nýs leikskóla í Garði, stækkun Sandgerðisskóla og nauðsynlegt viðhald á fráveitum og götum bíða okkar einnig í náinni framtíð. Fjármagn er takmarkað og því verðum við að taka ákvarðanir með langtímahagsmuni bæjarins að leiðarljósi og setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum.

Það er eina leiðin til að byggja upp sterkt og sjálfbært samfélag. Umsvifamiklar lántökur eru ekki langtímalausnir, þær duga skammt þar sem þær auka á fjármagnskostnað og verðbætur bæjarsjóðs, sem skilar minni rekstrarafgangi.

Aukið framboð lóða til úthlutunar – Lausn á húsnæðisvandanum

Til að mæta vaxandi þörf á húsnæði í Suðurnesjabæ þarf að auka framboð lóða til úthlutunar. Húsnæðismarkaðurinn hefur verið undir miklu álagi, og skortur á byggingarlóðum hefur hindrað möguleika fjölskyldna og einstaklinga á að koma sér upp húsnæði. Með því að fjölga lóðum sköpum við ný tækifæri fyrir íbúabyggð. Það þarf að setja aukinn kraft í það verkefni, til dæmis með þéttingu á óbyggðum byggingarreitum bæði í Garði og Sandgerði.

Markviss rekstrarrýni til framtíðaruppbyggingar

Til að styrkja fjárhagsstöðu Suðurnesjabæjar og tryggja sjálfbæran rekstur til framtíðar er nauðsynlegt að rýna enn betur í rekstur bæjarins. Með því að auka samlegðaráhrif milli stofnana og reksturs sveitarfélagsins getum við aukið rekstrarafgang, sem svo má nýta til mikilvægra fjárfestinga í innviðum og samfélagsþjónustu.

Þessi nálgun stuðlar að betri nýtingu fjármuna og dregur úr þörf á lántökum, sem styrkir fjárhag sveitarfélagsins til lengri tíma. Með ábyrgum og markvissum aðgerðum tryggjum við að bæjarfélagið geti haldið áfram að vaxa og dafna án þess að auka skuldbindingar á íbúa þess. Þetta er lykillinn að sjálfbæru og vel reknu samfélagi.

Grunninnviðir í almannaeigu

Á 56. fundi framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar lagði Einar Jón Pálsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins og formaður ráðsins, fram starfsáætlun fyrir vatnsveituna. Þar kom í ljós að viðræður væru hafnar við HS Veitur um möguleg kaup á vatnsveitunni í Sandgerði.

Á 155. fundi bæjarráðs, þann 4. desember síðastliðinn, lagði Sigursveinn Bjarni Jónsson, oddviti S-lista og formaður bæjarráðs, fram minnisblað frá bæjarstjóra um Vatnsveitu Suðurnesjabæjar.

Minnihlutinn hefur ekki atkvæðisrétt í bæjarráði, og tíðkast það hvergi á byggðu bóli á Íslandi nema í Suðurnesjabæ. Þar samþykkti bæjarráð samhljóða að fela bæjarstjóra að eiga viðræður við HS Veitur ehf. um mögulegan samruna Vatnsveitu Suðurnesjabæjar við HS Veitur ehf.

Kjarngóðar umræður sköpuðust á síðasta bæjarstjórnarfundi um málið að frumkvæði minnihlutans. HS Veitur eru að stórum hluta í eigu einkaaðila.

Við í Framsókn teljum að grunninnviðir eins og vatnsveita séu lífsnauðsynlegir fyrir samfélagið. Opinber eign á slíkum innviðum tryggir aðgang allra óháð búsetu eða efnahag. Þegar auðlindir og grunninnviðir færast í hendur einkaaðila er hætta á að þjónustan verði ekki lengur veitt á jafnræðisgrundvelli, þar sem hagsmunir fjárfesta geta orðið fyrirferðarmiklir.

Við eigum að standa vörð um vatnsveituna sem almannaeign og tryggja að hún haldist í opinberri eigu. Það er á ábyrgð okkar að tryggja að auðlindir okkar séu ekki seldar frá okkur.

Kæru íbúar Suðurnesjabæjar.

Nú fer í hönd tími jólanna. Ég vil óska ykkur öllum gleðilegra jóla og friðsællar hátíðar. Megi þessi tími færa ykkur og fjölskyldum ykkar hlýju, gleði og góðar stundir í faðmi ástvina. Megi árið 2025 verða ykkur gæfuríkt og gott.

Með ósk um gleðilega hátíð,
Anton Guðmundsson
Oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Categories
Greinar

Fram­sókn í 108 ár!

Deila grein

16/12/2024

Fram­sókn í 108 ár!

Í dag fögnum við 108 ára afmæli Framsóknarflokksins!

Framsóknarflokkurinn var stofnaður þann 16. desember 1916 við samruna Bændaflokksins og Óháðra bænda og er elsti starfandi stjórnmálaflokkurinn á Íslandi. Flokkurinn átti upphaf sitt í samvinnuhreyfingunni og ungmennafélagshreyfingunni, og markmiðið var skýrt: að efla lífskjör, byggja upp innviði og tryggja jöfnuð fyrir landsmenn.

Á þessum tíma var Ísland töluvert dreifbýlt og Framsóknarflokkurinn sótti fylgi sitt fyrst og fremst til landsbyggðarinnar. Í upphafi var áherslan lögð á hagsmuni bænda og dreifbýlisfólks, en með breyttum samfélagsháttum, sérstaklega eftir miðja 20. öld, þróaðist flokkurinn í það að verða flokkur allra stétta. Kjarninn var þó alltaf sá sami: samvinna, jöfnuður og lausnamiðuð stjórnmál.

Í gegnum árin hefur Framsóknarflokkurinn verið burðarás í íslensku samfélagi. Með uppbyggingu skólakerfisins, stuðningi við samvinnuhreyfinguna, félagslegum réttindum og stórum innviðaverkefnum hefur flokkurinn lagt grunn að mörgum af þeim framfaramálum sem við njótum í dag.

Framsóknarflokkurinn hefur staðið vörð um jafnvægi milli þéttbýlis og dreifbýlis, og með áherslu á nýsköpun, menntun og framtíðarsýn hefur hann verið ómissandi hluti af sögu og þróun Íslands.

Þótt Framsóknarflokkurinn hafi séð betri daga hvað fylgistölur varðar, þá er það staðföst trú mín að hann muni rísa á ný – sterkari en nokkru sinni fyrr. Rætur hans liggja djúpt í jarðvegi landsins,

Til hamingju með daginn allt Framsóknarfólk!

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. desember 2024.

Categories
Greinar

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á þarfir Suðurnesjamanna

Deila grein

23/11/2024

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á þarfir Suðurnesjamanna

Það er óhætt að segja að stór skref hafi verið stigin í heilbrigðismálum á Suðurnesjum undanfarið. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur, í samstarfi við sveitarstjórnarmenn og heimamenn, lyft grettistaki í málaflokknum og tryggt umbætur sem umbylta heilbrigðisþjónustu svæðisins. Framsóknarflokkurinn hefur sett heilbrigðismál Suðurnesjamanna í forgang, enda var þörfin brýn. Með skýrri stefnu og samvinnu hefur tekist að byggja upp heilbrigðisinnviði sem standast auknar kröfur samfélagsins.

Fyrsta einkarekna heilsugæslan utan HBS

Á síðasta ári opnaði fyrsta einkarekna heilsugæslan utan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HBS) í Reykjanesbæ. Þetta er mikilvæg nýjung fyrir Suðurnesjamenn sem eykur valkosti í heilbrigðisþjónustu og tryggir betra aðgengi fyrir íbúa.

Umtalsverðar umbætur á HSS

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) hefur gengið í gegnum umfangsmiklar endurbætur sem bæta þjónustu og efla rekstur stofnunarinnar:

Ný bráðamóttaka: Þjónustan hefur stórbatnað með opnun nýrrar og nútímalegrar  bráðamóttöku, þar sem skjólstæðingar fá betri þjónustu og starfsfólk vinnur í betri aðstæðum.

Ný legudeild: Ný og betrumbætt legudeild var tekin í notkun, sem eykur rými og bætir aðstöðu fyrir bæði sjúklinga og starfsfólk.

Röntgendeild byltingarkennd: Á síðasta ári var tekin í notkun ný röntgendeild með háþróuðum röntgen- og sneiðmyndatækjum. Þessi búnaður eykur myndgæði og hraðar þjónustu, sem er til mikilla hagsbóta fyrir sjúklinga og starfsmenn.

Bætt geðheilbrigðisþjónusta

Geðheilsuteymi HSS hefur flutt í nýtt og stærra húsnæði við Hafnargötu 90. Þessi breyting skapar betri starfsaðstöðu og mun stórbæta þjónustu við skjólstæðinga. Aðstaðan er nú í samræmi við nútímakröfur og styður við markvissari vinnu teymisins.

Aukið hjúkrunarrými á Nesvöllum

Hjúkrunarheimilið Nesvellir hefur verið stækkað úr 60 rýmum í 80. Þetta er mikilvæg viðbót fyrir eldra fólk á Suðurnesjum og tryggir betra aðgengi að hjúkrunar- og umönnunarþjónustu.

Heilbrigðisþjónusta í Suðurnesjabæ og Vogum

Heilbrigðisþjónusta er að verða að veruleika í Suðurnesjabæ og vogum sem tryggir íbúum þessara svæða betra aðgengi að heilbrigðisþjónustu í heimabyggð.

Í nýlegri viljayfirlýsingu, sem undirrituð var á dögunum, kemur fram að unnið verði markvisst að því að opna heilbrigðisþjónustu í Suðurnesjabæ. Starfsemin mun fara fram í húsnæði Suðurnesjabæjar að Miðnestorgi 3 eigi síðar en 1. maí 2025 og tryggja þannig íbúum aðgengi að þjónustunni í heimabyggð. Grundvöllur skipulags heilbrigðisþjónustunnar er að allir íbúar séu skráðir á heilsugæslustöð sem næst lögheimili, þannig verður heilsugæslan sterk undirstaða heilbrigðiskerfisins. Willum Þór heilbrigðisráðherra hefur sagt að það sé algjört forgangsatriði að bæta heilsugæsluna á Suðurnesjum, og það hefur hann sýnt í verki.

Ný heilsugæslustöð í Innri Njarðvík

Ný heilsugæslustöð í Innri Njarðvík er fjármögnuð og í útboðsferli. Þetta er mikilvægt skref í að tryggja aukið aðgengi íbúa á svæðinu að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og minnka álag á aðrar heilbrigðisstofnanir.

Betri mannaforði og ný forysta

Heilbrigðisstofnunin gengur nú betur að manna stöður og ráða starfsfólk, sem eykur stöðugleika í rekstri og þjónustu. Auk þess hefur nýr forstjóri tekið við starfi og hefur þegar sett mark sitt á framgang og umbætur stofnunarinnar.

Tryggjum áframhaldandi framfarir

Framfarir í heilbrigðismálum á Suðurnesjum hafa verið stórstígar á undanförnum árum, og mikilvægt er að halda áfram á þessari braut. Fjárfestingar, nýjungar og umbætur í þjónustu hafa stórbætt lífsgæði íbúa svæðisins og lagt grunn að sterkari heilbrigðisinnviðum til framtíðar.

Tryggjum áframhaldandi framfarir í heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum! og veljum Framsókn til forystu – setjum X við B þann 30. nóvember 2024

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á vf.is 22. nóvember 2024.

Categories
Greinar

Full­veldinu er fórnað með aðild að Evrópu­sam­bandinu

Deila grein

22/11/2024

Full­veldinu er fórnað með aðild að Evrópu­sam­bandinu

Alþingiskosningar fara fram þann 30. nóvember 2024. Þá er mikilvægt að staldra við, íhuga vandlega og spyrja: Hvert ætlum við að stefna? Og hvert erum við að fara?

Frá stofnun lýðveldisins hefur Ísland lagt áherslu á sjálfstæði sitt og sterka stöðu sem fullvalda ríki. Sjálfstæði hefur ekki aðeins verið hornsteinn íslenskrar þjóðar heldur einnig lykillinn að velgengni hennar á sviði efnahags, menningar og auðlindarmála. Það er sú sýn sem Framsóknarflokkurinn hefur staðið fyrir í áratugi. Þessi afstaða byggir ekki á tilfinningum heldur á skynsamlegri greiningu og sögulegri reynslu, sem hefur sannað gildi sitt.

Af hverju standa utan ESB?

Ísland hefur byggt upp sterka stöðu sem smáríki sem ræður eigin málum. Fyrirmyndir okkar í þessu efni eru lönd eins og Noregur og Sviss, sem bæði njóta meiri hagvaxtar og betri kaupmáttar en mörg aðildarríki Evrópusambandsins. Þessi lönd hafa sýnt að það er hægt að tryggja efnahagslegan stöðugleika án þess að ganga í sambandið. Þau halda sjálfstæði í mikilvægum málaflokkum, svo sem í sjávarútvegi og viðskiptasamningum, og hafa þar af leiðandi sveigjanleika til að bregðast við áskorunum og nýta tækifæri á eigin forsendum.

Fyrir Ísland, sem er ríkt af náttúruauðlindum, sérstaklega í sjávarútvegi, væri aðild að ESB skaðleg. Með inngöngu í sambandið myndi Ísland þurfa að fylgja sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB, sem myndi skerða rétt okkar til að stýra nýtingu fiskistofna í eigin lögsögu.

Hvað myndi Ísland fá í ESB?

Ein röksemd fyrir inngöngu í Evrópusambandið er aukin aðkoma að ákvarðanatöku innan Evrópu. En sú aðkoma er í raun lítil fyrir smærri lönd. Ísland, með tæplega 400.000 íbúa, myndi aðeins fá sex þingmenn á Evrópuþingið – sex röddum af samtals 705. Í reynd væri rödd Íslands því lítil og áhrifamátturinn takmarkaður.

Sjálfstæði og sveigjanleiki eru styrkleikar

Þrátt fyrir að ESB sé oft talið grundvöllur efnahagslegs stöðugleika sýnir reynslan að mörg aðildarríki sambandsins glíma við alvarleg efnahagsvandamál, svo sem háa atvinnuleysistíðni og hægan hagvöxt. Íslenska hagkerfið hefur, með sínum sveigjanleika, sannað getu sína til að sigrast á áskorunum með sjálfstæðum ákvörðunum. Þetta kom glöggt í ljós eftir fjármálahrunið, þegar Ísland náði að endurreisa hagkerfið á eigin forsendum.

Framtíðin byggð á þjóðlegum grunni

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að framtíð Íslands byggist á áframhaldandi sjálfstæði og styrk sambands við þau lönd sem við deilum sameiginlegum gildum með. Að byggja framtíðina á hagsmunum þjóðarinnar tryggir stöðugleika, sjálfbærni og hagsæld fyrir komandi kynslóðir. Ísland hefur sannað að það getur staðið á eigin fótum – og það er leiðin fram á við.

Við eigum ekki að bindast böndum sem skerða sjálfstæði okkar. Þess í stað eigum við að efla tengsl við önnur sjálfstæð ríki og tryggja áframhaldandi hagsæld með því að halda þeirri stefnu sem hefur reynst okkur vel. Stöndum vörð um fullveldið. Setjum X við B og tryggjum íslenska framtíð á þjóðlegum grunni.

„Það þarf magnað þor til að vera sannur maður,

Meta sinn vilja fremur en fjöldans daður,

Fylgja í verki sannfæringu sinni

Sigurviss, þó freistingarnar ginni.“


–  Árni Grétar Finnsson

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. nóvember 2024.

Categories
Greinar

Á­form um einka­væðingu á vatns­veitu Sand­gerðis

Deila grein

13/10/2024

Á­form um einka­væðingu á vatns­veitu Sand­gerðis

Í nútímasamfélagi er eitt mikilvægasta verkefni okkar að tryggja jafnan aðgang að grunninnviðum eins og vatni og rafmagni. Nú liggja fyrir áform um einkavæðingu á vatnsveitu Sandgerðis í Suðurnesjabæ, áform sem geta haft víðtækar og ófyrirséðar afleiðingar fyrir íbúa. Samkvæmt tillögu núverandi meirihluta bæjarstjórnar – Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Bæjarlistans – er til skoðunar að selja vatnsveituna til HS Veitna. Við teljum þetta mál kalla á athygli og þátttöku íbúa.

Ákvörðun um einkavæðingu grunninnviða á borð við vatnsveitu á ekki aðeins við um rekstur heldur snýr hún beint að því hvernig við tryggjum jafnan og sanngjarnan aðgang að nauðsynlegum auðlindum. Með því að selja vatnsveituna til einkaaðila, eins og núverandi meirihluti leggur til, er verið að opna á möguleika þess að þjónusta muni fara frá almannaeign yfir í hendur einkafjárfesta, með ófyrirséðum afleiðingum. Þar sem þjónustugæði og verðlagning geta ráðist af arðsemiskröfum fjárfesta frekar en samfélagslegum hagsmunum.

Við þekkjum dæmi þar sem slík sala hefur farið fram áður, til dæmis í Garði, þar sem vatnsveitan var seld einkaaðilum. Þar missti sveitarfélagið yfirráð yfir mikilvægum vatnsréttindum við Árnarétt, sem nú gegnir lykilhlutverki á Reykjanesi vegna jarðhræringa. Nú er rekstur vatnsveitunnar í höndum HS Veitna, fyrirtækis sem er að stórum hluta í eigu einkafjárfesta. Reynslan ætti því að vera okkur víti til varnar þar sem slík sala hefur ekki endilega leitt til aukinna hagsbóta fyrir íbúa.

Upptaktur að einkavæðingu

Á 56. fundi framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar lagði Einar Jón Pálsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins og formaður ráðsins, fram starfsáætlun fyrir vatnsveituna. Þar kom í ljós að viðræður væru hafnar við HS Veitur um möguleg kaup á vatnsveitunni í Sandgerði, án þess að formleg umræða hefði átt sér stað innan stjórnsýslu Suðurnesjabæjar. Því er afar mikilvægt að íbúar Suðurnesjabæjar viti hvaða afleiðingar einkavæðing getur haft og hvaða áhrif hún hefur á rekstur og stjórnun vatnsveitunnar. Með því að vera vel upplýst og taka virkan þátt í umræðunni getum við tryggt að hagsmunir íbúa séu settir í forgang.

Grunninnviðir í eigu almennings

Grunninnviðir eins og vatnsveita eru lífsnauðsynlegir fyrir samfélagið. Opinber eign á slíkum innviðum tryggir aðgang allra óháð búsetu eða efnahag. Þegar auðlindir og grunninnviðir færast í hendur einkaaðila, er hætta á að þjónustan verði ekki lengur veitt á jafnræðisgrundvelli, þar sem hagsmunir fjárfesta geta orðið fyrirferðarmiklir.

Gagnsæi og aðkoma íbúa

Við eigum að standa vörð um vatnsveituna sem almannaeign og tryggja að hún haldist í opinberri eigu. Það er á ábyrgð okkar að tryggja að auðlindir okkar séu ekki seldar frá okkur án þess að við fáum tækifæri til að segja okkar skoðun.

Aðkoma íbúa að svona stórum ákvörðunum er lykilatriði. Stöndum saman og tryggjum að grunnþjónusta, eins og vatnsveitan, verði áfram í höndum almennings. Það er mikilvægt að íbúar séu vel upplýstir um slík áform og fái tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri þegar kemur að sölu á sameiginlegum innviðum.

Anton Guðmundsson og Úrsúla María Guðjónsdóttir bæjarfulltrúar Framsóknar í Suðurnesjabæ.
Sunneva Ósk Þóroddsdóttir varabæjarfulltrúi Framsóknar.
Magnús Sigfús Magnússon óháður bæjarfulltrúi.

Categories
Greinar

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið

Deila grein

04/10/2024

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið

Þrátt fyrir að þjóðin sé lítil í alþjóðlegu samhengi, skiptir innlend matvælaframleiðsla miklu máli fyrir fæðuöryggi, efnahag og menningu landsins. Í ljósi vaxandi óvissu í heiminum varðandi matvælaöryggi, loftslagsmál og alþjóðlegar birgðakeðjur, er mikilvægi íslensks landbúnaðar meira en nokkru sinni fyrr.

Fæðuöryggi í ótryggum heimi

Einn mikilvægasti þátturinn í íslenskum landbúnaði er fæðuöryggi. Ísland, sem eyland, hefur alltaf þurft að hugsa vel um sínar auðlindir. Þótt innflutningur hafi aukist verulega á undanförnum áratugum, eru innlend matvæli enn þá lykilþáttur í því að tryggja að þjóðin hafi aðgang að öruggum og hollum matvörum. Og þann þátt eigum við að efla.

Heimsfaraldurinn, stríðsátök og aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður sýna okkur hversu mikilvægt það er að treysta ekki um of á innfluttar matvörur. Með því að styðja við innlenda matvælaframleiðslu tryggjum við að þjóðin sé ekki eins viðkvæm fyrir áföllum í alþjóðlegum matvælamörkuðum. Íslenskir bændur eru lykilaðilar í því ferli að viðhalda þessu fæðuöryggi.

Stuðningur við byggðir landsins

Íslenskur landbúnaður er ekki aðeins mikilvægur fyrir matvælaframleiðslu, heldur er hann líka burðarás margra sveitarsamfélaga. Búskapur veitir störf á landsbyggðinni og stuðlar að byggðafestu. Án öflugs landbúnaðar gæti margt af þessum samfélögum átt undir högg að sækja.

Störf í landbúnaði eru ekki aðeins bundin við akrana og fjósin – þau teygja sig einnig yfir í matvælavinnslu, dreifingu og sölu. Með öðrum orðum, þegar við kaupum íslenskar landbúnaðarvörur erum við ekki aðeins að styðja bændur, heldur líka fjölda annarra starfa sem treysta á þessa framleiðslu.

Í þessu samhengi eru íslenskir landbúnaðarframleiðendur lykilþáttur í þeirri sjálfbærnistefnu sem Ísland hefur sett sér. Með því að auka innlenda framleiðslu minnkum við kolefnisspor sem fylgir innflutningi og getum jafnframt stutt við vistvænni matvælaframleiðslu.

Gæði íslenskra vara og menningararfur

Íslenskar landbúnaðarafurðir eru þekktar fyrir gæði sín. Þessi gæði byggja á hreinu lofti, óspilltu vatni og ströngum reglum um dýravelferð. Þessar vörur, hvort sem það eru mjólkurvörur, kjöt eða grænmeti, eru ekki aðeins mikilvægar fyrir neytendur hér á landi, heldur hafa þær einnig aukið samkeppnishæfni Íslands á alþjóðamarkaði. Íslenskar vörur njóta vaxandi vinsælda vegna upprunans og þeirrar tryggingar sem fylgir því að þær séu framleiddar við hrein og örugg skilyrði.

Landbúnaðurinn hefur einnig menningarlegt gildi.

Íslenskar búskaparhefðir, s.s. framleiðsla á skyri, hangikjöti og öðrum hefðbundnum afurðum, eru mikilvægur hluti af menningu þjóðarinnar. Þetta er ekki aðeins arfur sem tengir okkur við fortíðina, heldur einnig mikilvægur þáttur í því að viðhalda sjálfstæði og sérstöðu íslenskrar matarmenningar.

Framtíð íslensks landbúnaðar

Framtíðin kallar á aukna nýsköpun og tækni í landbúnaði. Með því að nýta tækifærin sem felast í tækniframförum, svo sem aukinni sjálfvirkni og betri ræktunaraðferðum, getur íslenskur landbúnaður haldið áfram að þróast í takt við alþjóðlegar kröfur um gæði, umhverfisvernd og sjálfbærni.

Íslenskir bændur og samfélagið allt standa frammi fyrir áskorunum, en einnig fjölmörgum tækifærum. Með því að efla íslenskan landbúnað getum við tryggt ekki aðeins fæðuöryggi og sjálfbærni, heldur einnig sterka stöðu okkar í heiminum. Það er því ljóst að landbúnaður er ekki aðeins lífsnauðsynlegur fyrir tilveru bændanna sjálfra, heldur fyrir alla Íslendinga.

Landbúnaður er, og mun áfram vera, ómissandi hluti af sjálfstæði og sjálfbærni íslensks samfélags.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 2. október 2024.

Categories
Greinar

Hvað verður um ís­lenska þjóð­menningu?

Deila grein

16/09/2024

Hvað verður um ís­lenska þjóð­menningu?

Íslensk þjóðmenning er einstök og hefur mótast af sögu landsins, náttúru og samfélagi í meira en eitt þúsund ár. Hún er byggð á arfleifð frá landnámsmönnum, menningararfleifð miðalda, og hinum sterku tengslum þjóðarinnar við náttúruna og sjálfstæði hennar. Á tímum hnattvæðingar, þar sem áhrif erlendra menningarstrauma hafa aldrei verið sterkari, er mikilvægt að standa vörð um þessa þjóðmenningu og viðhalda því sem gerir Ísland einstakt.

Tungumálið sem undirstaða þjóðarvitundar

Íslenska tungumálið er ein af hornsteinum íslenskrar þjóðmenningar. Það hefur varðveist að miklu leyti óbreytt frá því á tímum Snorra Sturlusonar og er lykillinn að því að skilja menningu, sögu og bókmenntir þjóðarinnar. Tungumálið tengir okkur við forn handrit, sögur og ljóð sem geyma dýrmæta þekkingu og gildi. Í hnattrænu samfélagi, þar sem enskan hefur orðið ráðandi, er hætta á að íslenskan týnist eða veikist. Það er því nauðsynlegt að stuðla að notkun hennar í daglegu lífi, menntakerfi og á vinnumarkaði.

Auk þess er íslenskan það verkfæri sem íslenskir rithöfundar, tónlistarmenn og listamenn nota til að skapa menningarverk sem endurspegla veruleika Íslendinga. Ef íslenskan dvínar, gæti það haft áhrif á framtíð sköpunar og fræðilegra rannsókna á Íslandi. Með því að standa vörð um tungumálið, tryggjum við framtíð íslenskrar menningar.

Menningararfurinn – arfleifð sem við berum ábyrgð á

Íslendingar hafa lengi verið stoltir af hinum ríka menningararfi sem mótað hefur þjóðina. Handritin, þjóðsögurnar, sagnirnar og bókmenntir frá miðöldum gegna enn mikilvægu hlutverki í sjálfsmynd landsins. En menningararfurinn er ekki aðeins fornminjar eða sögur frá liðnum tíma – hann er lifandi þáttur í daglegu lífi, hvort sem það er í matargerð, listum, tónlist eða hátíðum. Það er því okkar ábyrgð að viðhalda honum og stuðla að því að komandi kynslóðir njóti hans og læri að meta hann.

Menningararfurinn tengir okkur ekki aðeins við fortíðina, heldur einnig hvert annað. Þjóðhátíðir, hefðir og siðir skapa samheldni í samfélaginu og styrkja tengslin milli fólks. Hátíðir á borð við Þorrablót og Jónsmessu eru ekki aðeins gleðskapur, heldur áminning um þau gildi og hefðir sem sameina þjóðina. Með því að standa vörð um þessar hefðir viðheldur samfélagið einingu og sjálfsmynd sinni.

Ógnir hnattvæðingar og áhrif alþjóðlegra menningarstrauma

Hnattvæðingin hefur leitt til fjölbreyttra menningarlegra áhrifa á Íslandi, sem hefur bæði kosti og galla. Áhrif frá bandarískri, breskri og annarri vestrænni menningu eru orðin ríkjandi í kvikmyndum, tónlist, fatnaði og tækni. Þó að alþjóðleg áhrif auðgi menningu og opni á nýja strauma, eru hættur fólgnar í of miklum áhrifum sem geta veiklað staðbundna menningu og gera þjóðir einsleitari.

Menningin er í sífelldri þróun, en það er mikilvægt að á sama tíma og við tökum þátt í alþjóðasamfélaginu, gleymum við ekki rótum okkar. Við verðum að passa að íslenskar hefðir og menning haldi sér sterkar í bland við nýja strauma. Það krefst meðvitaðrar stefnu af hálfu stjórnvalda og samfélagsins að verja og styrkja íslenskan menningararf og halda í það sem gerir hann sérstakan.

Hlutverk menntunar og fjölmiðla

Menntakerfið gegnir lykilhlutverki í að viðhalda og miðla íslenskri þjóðmenningu. Með því að kenna börnum og unglingum um sögu landsins, þjóðsögur, bókmenntir og listir getum við tryggt að komandi kynslóðir beri virðingu fyrir og haldi áfram að byggja á menningararfleifðinni. Skólarnir þurfa að leggja áherslu á mikilvægi íslenskunnar, kenna nemendum um handritin og sögulegan bakgrunn þeirra, en líka hvetja til skapandi hugsunar sem byggir á rótgróinni menningu.

Fjölmiðlar bera einnig mikla ábyrgð á því að halda íslenskri þjóðmenningu á lofti. Það er mikilvægt að íslenskt efni sé aðgengilegt á sjónvarpsstöðvum, útvarpi og í öðrum fjölmiðlum, ekki síst í samkeppni við erlenda fjölmiðla sem eru sífellt meira áberandi. Fjölmiðlar eiga að miðla íslenskri menningu og koma henni á framfæri á nýjan og áhugaverðan hátt, svo hún haldi áfram að lifa og dafna.

Framtíð íslenskrar þjóðmenningar

Það er ljóst að íslensk þjóðmenning stendur frammi fyrir áskorunum í nútímasamfélagi. En meðvitaðar ákvarðanir um að verja tungumálið, viðhalda hefðum og styrkja menningararfinn eru nauðsynlegar til að tryggja að hún glatist ekki. Við verðum að meta það sem gerir okkur að þeirri þjóð sem við erum – hvort sem það er tungumálið, bókmenntirnar, þjóðsögurnar eða hefðirnar sem hafa borist milli kynslóða.

Við þurfum að standa vörð um íslenska þjóðmenningu og tryggja að hún haldi áfram að vera lifandi, sjálfbær og hluti af daglegu lífi Íslendinga, þrátt fyrir hnattræn áhrif. Þetta er ekki bara skylda okkar við fortíðina, heldur einnig við framtíðina – til að tryggja að íslensk menning blómstri og dafni í komandi kynslóðum.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­sóknar­flokkurinn tryggir heil­brigðis­þjónustu í Suðurnesjabæ

Deila grein

02/09/2024

Fram­sóknar­flokkurinn tryggir heil­brigðis­þjónustu í Suðurnesjabæ

Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa lengi kallað eftir því að heilsugæsluþjónusta verði veitt í sveitarfélaginu. Við í Framsókn hófum tafarlaust samtöl við þingmenn okkar í Suðurkjördæmi, Sigurð Inga, fjármálaráðherra, Jóhann Friðrik og Hafdísi Hrönn, til að þrýsta á málið. Einnig höfum við átt fundi og samtöl við Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. Með miklum samtakamætti og samvinnuhugsjónina að leiðarljósi er þetta mikilvæga réttlætismál nú að raungerast – heilbrigðisþjónusta verður brátt í boði í heimabyggð fyrir okkar íbúa. Með tvo bæjarfulltrúa í Suðurnesjabæ, þrjá þingmenn í Suðurkjördæmi og heilbrigðisráðherra er slagkraftur okkar í Framsókn mikill.

Ráðherra sem lætur verkin tala

Framsóknarflokkurinn hefur tekið mikilvægt skref í átt að því að tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir íbúa Suðurnesjabæjar. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, hefur unnið þrekvirki í því að efla heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum.

Í nýlegri viljayfirlýsingu, sem undirrituð var á dögunum, kemur fram að unnið verði markvisst að því að opna heilbrigðisþjónustu í Suðurnesjabæ. Starfsemin mun fara fram í húsnæði Suðurnesjabæjar að Miðnestorgi 3 eigi síðar en 1. maí 2025 og tryggja þannig íbúum aðgengi að þjónustunni í heimabyggð. Grundvöllur skipulags heilbrigðisþjónustunnar er að allir íbúar séu skráðir á heilsugæslustöð sem næst lögheimili, þannig verður heilsugæslan sterk undirstaða heilbrigðiskerfisins. Willum Þór heilbrigðisráðherra hefur sagt að það sé algjört forgangsatriði að bæta heilsugæsluna á Suðurnesjum, og það hefur hann sýnt í verki.

Samtal sveitarstjórnarmanna við þingmenn og ráðherra skiptir máli

Það er staðföst trú mín að samtal á milli sveitarstjórnarmanna, þingmanna og ráðherra skipti gríðarlega miklu máli. Við, sem sveitarstjórnarfólk, skynjum betur nærumhverfið og erum í nánari tengslum við byggðarkjarnana sem við störfum í og þarfir þeirra. Þess vegna er mikilvægt að miðla þessum upplýsingum áfram inn í landsmálin, svo að allir rói í sömu átt. Samtal við þingmenn og ráðherra Framsóknarflokksins hefur verið einstaklega gott, og mikill skilningur hefur verið á því að veita þessu stóra og mikilvæga málefni framgöngu. Einnig hafa Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS), og Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ, unnið frábæra vinnu og sett mikinn kraft í verkefnið svo það geti raungerst með skjótum hætti.

Stefna Framsóknarflokksins um heilbrigðismál undirstrikar þetta vel: „Heilbrigðiskerfið er hornsteinn samfélagsins og byggir undir hagsæld þjóðarinnar. Heilbrigðiskerfið byggir á félagslegum grunni þar sem hið opinbera tryggir landsmönnum jafnt aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Framsókn leggur áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um heilbrigðiskerfið og umfram allt tryggja jafnt og tímanlegt aðgengi að öflugri heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu.“

Framsóknarflokkurinn er flokkur samvinnu og frjálslyndis og er hreyfiafl framfara í samfélaginu. Þetta hefur Willum Þór heilbrigðisráðherra sýnt í verki.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. ágúst 2024.

Categories
Greinar

Mikil­vægi þess að taka hús­næðis­liðinn úr neyslu­vísi­tölunni

Deila grein

23/08/2024

Mikil­vægi þess að taka hús­næðis­liðinn úr neyslu­vísi­tölunni

Vísitala neysluverðs (VNV) er ein af mikilvægustu mælieiningum sem notuð er til að meta verðlagsbreytingar á Íslandi. Vísitalan hefur bein áhrif á fjármál heimilanna, til dæmis með því að hafa áhrif á verðtryggðar skuldir og húsnæðislán. VNV inniheldur ýmsa þætti, þar á meðal verðlag á hrávöru og húsnæði. Húsnæðisverð hefur undanfarið haft mikið vægi í vísitölunni vegna verulegra verðhækkana á fasteignamarkaði, sem stafar að miklu leyti af mikilli umframeftirspurn eftir íbúðarhúsnæði. Þessar hækkanir hafa kynt undir verðbólgu, sem stendur nú í 6,3%.

Verðbólguhvetjandi þáttur

Þar sem húsnæðisverð hefur svo mikil áhrif á VNV, verður það sjálfkrafa verðbólgu hvetjandi þáttur. Þegar húsnæðisliðurinn hækkar, hækkar vísitalan í heild sinni, sem aftur hækkar verðtryggðar skuldir heimila. Þetta býr til vítahring þar sem verðbólga kallar á hærri afborganir, sem gerir fjárhag heimila enn erfiðari.

Það er því mikilvægt að Alþingi taki málið til skoðunar og setji á dagskrá að fjarlægja húsnæðisliðinn úr VNV. Með því að gera það væri unnt að ná fram skýrari mynd af raunverulegum verðlagsbreytingum sem hafa ekki tengsl við fasteignamarkaðinn. Þetta gæti dregið úr áhrifum húsnæðisverðs á verðbólgu og létt á fjárhag heimila með verðtryggð lán.

Húsnæðisverð á ekki að vera drifkraftur verðbólgu

Húsnæðisverð á ekki að vera drifkraftur verðbólgu, og því er nauðsynlegt að endurskoða samsetningu neysluvísitölunnar til að tryggja að hún endurspegli betur raunverulegt verðlag í landinu. Með því að taka húsnæðisliðinn úr VNV gæti verið mögulegt að ná fram stöðugra efnahagsumhverfi, sem er hagstætt fyrir bæði heimili og fyrirtæki. Alþingi ber ábyrgð á því að taka skref í þessa átt og tryggja sanngjarnt og stöðugt efnahagskerfi.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. ágúst 2024.