Categories
Fréttir Greinar

Vörður fullveldis

Deila grein

25/08/2025

Vörður fullveldis

Full­veldi Íslands varð ekki til fyr­ir til­vilj­un. Það er afrakst­ur langr­ar bar­áttu forfeðra okk­ar, sem höfðu skýra sýn og trú á framtíð Íslands. Það sem við höf­um í dag sem sjálf­stætt lýðveldi er til­komið vegna ákvörðunar og ábyrgðar þeirra sem komu á und­an okk­ur. Vörður full­veld­is, helstu áfang­ar sjálf­stæðis­bar­átt­unn­ar, minna okk­ur á að þjóð sem stend­ur á eig­in fót­um og tek­ur ábyrgð á sín­um mál­um, stend­ur á sterk­um grunni.

End­ur­reisn Alþing­is árið 1845, eft­ir ald­ir und­ir kon­ungs­valdi, var fyrsta stóra skrefið í átt til nú­tíma­sjálf­stæðis. Alþingi varð aft­ur vett­vang­ur þar sem rödd þjóðar­inn­ar fékk að heyr­ast. Með stjórn­ar­skránni 1874 var stigið næsta skref. Þótt vald þjóðar­inn­ar væri enn tak­markað var það tákn um að Íslend­ing­ar ættu að setja sín eig­in lög.

Heima­stjórn­in 1904 færði fram­kvæmda­valdið heim og með því feng­um við raun­veru­lega stjórn á okk­ar eig­in for­send­um. Það var ekki bara tækni­leg breyt­ing, held­ur staðfest­ing á því að við vær­um fær um að bera ábyrgð á sam­fé­lag­inu okk­ar. Þannig mótuðum við framtíðina sjálf sem þjóð.

Sam­bands­lög­in 1918 viður­kenndu Ísland sem full­valda ríki í kon­ungs­sam­bandi við Dan­mörku, með eig­in fána og laga­setn­ingu. Loka­skrefið kom svo árið 1944, þegar þjóðin sam­einaðist á Lög­bergi við Öxará og stofnaði lýðveldi með skýr­an vilja um að Ísland skyldi vera sjálf­stætt, frjálst og full­valda.

Við sem búum hér í dag þurf­um að horfa til þess­ara varða, ekki bara sem minn­is­varða um liðna tíð, held­ur sem sigra sem gerðust ekki af sjálfu sér. Því miður sést í sam­tím­an­um þróun sem vinn­ur gegn þess­um grunn­gild­um. Þrýst­ing­ur frá ákveðnum öfl­um hér­lend­is um að ganga í Evr­ópu­sam­bandið er til staðar. Til eru stjórn­mála­menn sem þrá hvað heit­ast að fram­selja vald þjóðar­inn­ar og áhrif til yfir þjóðlegra stofn­ana. Í stefnu­skrá rík­is­stjórn­ar Kristrún­ar Frosta­dótt­ur kem­ur fram að kjósa skuli um aðild­ar­viðræður við Evr­ópu­sam­bandið eigi síðar en 2027.

Á hvaða veg­ferð erum við sem þjóð, ef við erum til­bú­in að fram­selja áunnið vald forfeðra okk­ar úr landi? Ég tel að slíkt sam­ræm­ist ekki hags­mun­um Íslands. Við þurf­um ekki að af­sala okk­ur sjálf­stæði til að vinna með öðrum. Sam­starf á að byggj­ast á jafn­ræði og gagn­kvæmri virðingu, og slíkt er hægt að byggja upp meðal ann­ars með fríversl­un­ar­samn­ing­um á milli þjóða.

Við verðum að standa vörð um full­veldi okk­ar – ekki aðeins af virðingu við sög­una, held­ur til að tryggja framtíðina. Vörður full­veld­is minna okk­ur á að ef þjóð læt­ur und­an þrýst­ingi og gleym­ir rót­um sín­um, get­ur hún auðveld­lega tapað því sem erfitt var að vinna. En þjóð sem stend­ur með sjálfri sér og ræður för – hún á sér sterka og bjarta framtíð.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar­flokks­ins í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Landbúnaðurinn kallar á pólitískt hugrekki

Deila grein

19/08/2025

Landbúnaðurinn kallar á pólitískt hugrekki

Það er óumdeilanlegt að íslenskur landbúnaður stendur á krossgötum. Íslenskir bændur eru burðarás í framleiðslu hollra og öruggra matvæla fyrir þjóðina, bændur hafa mátt þola versnandi starfsum-hverfi á undanförnum árum. Nýliðun í greininni er lítil sem engin og fjárhagslegt svigrúm margra bænda þrengist sífellt. Þetta er alvarlegt ástand sem krefst tafarlausra aðgerða, til þess að tryggja framtíð landbúnaðarins í landinu.

Á sama tíma og bændur standa frammi fyrir auknum kostnaði, ekki síst vegna hárra stýrivaxta og vax-andi innflutnings á landbúnaðarvörum sem fluttar eru til landsins í gegnum EES-samninginn, hafa þeir þurft að fjárfesta mikið í innviðum vegna innleiðingar á ströngu EES-regluverki um velferð dýra. Slíkt regluverk er vissulega mikilvægt og nauðsynlegt, en það hefur verið dýrt og nær alfarið fjármagnað af bændum sjálfum, án þess að kerfið hafi tekið nægjanlegt tillit til ástands atvinnugreinarinnar.

Við þessar aðstæður er brýn nauðsyn að styðja íslenska bændur með markvissum aðgerðum. Endur-skoða þarf tollaumhverfi landbúnaðar, sérstaklega krónutölutolla sem ekki hafa verið uppfærðir í samræmi við verðlagsþróun. Slík skekkja skapar ósanngjarna samkeppnisstöðu fyrir innlenda fram-leiðendur og grefur undan sjálfbærni greinarinnar.

Framsókn hefur lagt ríka áherslu á að bæta starfsumhverfi bænda. Það er nauðsynlegt skref til að snúa þróuninni við. Ungt fólk velur sífellt síður að hefja búskap, ekki vegna skorts á vilja eða hugsjón, heldur vegna þess að raunverulegir hvatar og aðstæður eru ófullnægjandi. Ef við viljum sjá nýliðun verðum við að bjóða raunhæfa framtíðarsýn.

Sterkt samspil ríkis og bænda – forsenda framtíðar

Þjóð sem tryggir ekki eigið matvælaöryggi setur sig í óviðunandi stöðu. Það er frumskylda hvers sam-félags að tryggja íbúum næg og heilnæm matvæli á viðráðanlegu verði. Til þess þarf að vera skýrt, gagnsætt og traust samstarf milli ríkisvalds og bænda. Slíkt samstarf verður að grundvallast á þremur stoðum:

Stuðningi við innlenda matvælaframleiðslu, þar sem tryggt er að matvæli séu framleidd innanlands og byggð upp af fagfólki

Byggðastuðningi, með áherslu á virkt atvinnulíf í dreifbýli allt árið

Stuðningi við loftslagsvænan landbúnað, sem gerir greinina að virkum þátttakanda í baráttunni gegn loftslagsbreytingum

Fjárhagslegar úrbætur – hvatakerfi sem virka

Nýliðun í landbúnaði krefst einnig fjárhagslegra úrbóta. Nauðsynlegt er að bjóða upp á skattaívilnanir og langtímalán fyrir unga bændur sem vilja taka sín fyrstu skref í greininni. Við getum litið til fyrir-mynda í Noregi og innan EES þar sem skattalegir hvatar hafa reynst áhrifaríkir við kaup og sölu búj-arða til áframhaldandi landbúnaðarstarfsemi.

Framsókn hefur talað fyrir hlutdeildarlánum þar sem ríkið leggur til 25-30% af kaupverði bújarða, með möguleika á endurgreiðslu síðar. Enn fremur er mikilvægt að stórbæta fjármögnun í gegnum Byggðastofnun og veita lágvaxtalán með langtímaáætlunum, í anda gömlu stofnlánadeildarinnar.

Endurskoðun stuðningskerfa – markviss og réttlát skipting

Það þarf að líta gagnrýnið á stuðningskerfi landbúnaðarins og taka það til endurskoðunar með það að markmiði að þeir sem stunda landbúnað í atvinnuskyni fái hlutfallslega meiri stuðning. Það eykur

framleiðslugetu. Halda þarf inni greiðslumarki, sem hefur reynst lykilatriði í rekstraröryggi sauðfjár-bænda, að minnsta kosti þar til önnur jafnvirk leið hefur verið þróuð.

Landbúnaður er ekki aðeins atvinnugrein, hann er lífsnauðsynlegur þáttur í öryggi og sjálfbærni þjóðarinnar. Nú þarf að sýna pólitískt hugrekki og viljastyrk til að taka afgerandi skref í þágu íslenskra bænda.

Það sem stendur undir íslenskum landbúnaði er ekki eingöngu fjárhagslegt virði, heldur samfélags-legt, menningarlegt og þjóðhagslegt mikilvægi sem ekki verður metið til fulls í krónum og aurum.

Nú er tíminn til að bregðast við. Tíminn til að snúa vörn í sókn. Fyrir framtíð íslensks landbúnaðar – og fyrir framtíð þjóðarinnar allrar.

Höfundur er Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. ágúst 2025

Categories
Fréttir Greinar

Matvælaöryggi og framtíð landbúnaðarins

Deila grein

19/08/2025

Matvælaöryggi og framtíð landbúnaðarins

Íslenskur landbúnaður stendur á tímamótum. Á sama tíma og sauðfjárbændur gera þá eðlilegu kröfu að afkoma búanna standi undir rekstrinum, blasir við stærri mynd að matvælaöryggi þjóðarinnar er ekki sjálfgefið og að það krefst markvissrar og víðtækrar uppbyggingar á innlendri framleiðslu.

Reynsla síðustu ára, ekki síst heimsfaraldur og efnahagslegar sveiflur á alþjóðavísu og ófriður í Evrópu hefur sýnt okkur hversu brothætt alþjóðlegt matvælakerfi getur verið. Stríðsátök, loftslagsbreytingar, röskun á aðfangakeðjum og hækkanir á flutnings og aðfangakostnaði geta leitt til þess að öruggt aðgengi að matvælum verður ekki lengur sjálfsagt mál, jafnvel í ríkustu ríkjum heims. Í þessu samhengi verður ljóst hversu mikils virði innlend matvælaframleiðsla er og hversu dýrt það getur reynst að vanrækja hana.

Öflug innlend framleiðsla er hornsteinn matvælaöryggis

Það er ekki hægt að tala um raunverulegt matvælaöryggi nema þjóð geti að verulegu leyti treyst á eigin framleiðslu. Því þarf að stórefla innlenda matvælaframleiðslu ekki bara til að tryggja stöðugt framboð, heldur einnig til að verja íslenskan neytanda gegn sveiflum á heimsmarkaði og ófyrirséðum utanaðkomandi áföllum.

Sauðfjárrækt, nautakjöts framleiðsla og annar hefðbundinn búrekstur eru ómissandi hluti af þessu öryggisneti. En ef bændur fá ekki réttláta afkomu, ef verð fyrir naut og dilkakjöt stendur ekki undir kostnaði jafnvel með stuðningskerfum og ef ekki er raunverulegt svigrúm til fjárfestinga, þá brotnar þessi undirstaða smám saman niður.

Samfélagið þarf að taka afstöðu

Það þarf skýra stefnu, pólitíska ábyrgð og vilja til þess að tryggja að íslensk matvælaframleiðsla njóti þeirra rekstrarskilyrða sem hún þarfnast. Sú stefna þarf að vera meira en skammtímastuðningur hún þarf að vera hluti af öryggisstefnu ríkisins, rétt eins og orkuöryggi eða heilbrigðisþjónusta. Við Framsóknarmenn höfum slíka stefnu sem má finna á heimasíðu flokksins.

Nýir búvörusamningar verða að endurspegla þessa sýn. Þeir þurfa ekki aðeins að tryggja sjálfbæra afkomu bænda, heldur verða einnig að leggja grunn að sterkari, fjölbreyttari og sjálfbærari matvælaframleiðslu innanlands. Þar þarf að styðja við nýsköpun, og að tryggja að landbúnaðurinn laði að ungt fólk með framtíðarsýn og áhuga á að þróa greinar sínar áfram.

Matvælaöryggi sem sameiginlegt samfélagsmarkmið

Þetta er ekki aðeins verkefni bænda. Það er sameiginlegt verkefni neytenda, stjórnvalda, atvinnulífs og menntakerfis að styðja við innlenda framleiðslu og sjá til þess að hún verði raunverulegur kostur í hillum, í huga neytenda og í stefnu stjórnvalda.

Matvælaöryggi er ekki eitthvað sem má taka sem sjálfsagðan hlut. Það þarf að byggja það upp með markvissri fjárfestingu, raunhæfum rekstrarskilyrðum og virðingu fyrir þeirri vinnu sem felst í að framleiða holl, hrein og örugg matvæli innanlands.

Nýir búvörusamningar þurfa því að vera meira en tryggingakerfi þeir þurfa að vera framtíðarsýn um það hvernig við viljum byggja íslenskan landbúnað sem öflugan burðarás í matvælaöryggi þjóðarinnar, sem traustan atvinnuveg með raunverulegum aðgerðum.

Búvörusamningar renna út árið 2026

Núgildandi búvörusamningar milli ríkisins og bænda voru undirritaðir árið 2016 og gilda í tíu ár, eða til ársloka 2026. Samningarnir fela í sér bæði almennan rammasamning og sérsamninga fyrir mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt. Þar sem aðeins rúmt ár er eftir af samningstímanum, stendur nú yfir undirbúningur að nýjum samningum sem munu móta framtíð íslensks landbúnaðar til næstu ára og áratuga. Því er mikilvægt að sjónarmið bænda, neytenda og samfélagsins alls fái skýra og ákveðna rödd í þeirri vinnu sem fram undan er. Nýverið sendi deild sauðfjárbænda innan Bændasamtaka Íslands frá sér fréttatilkynningu sem má með sanni kalla neyðarkall. Þar er vakin athygli á alvarlegri stöðu greinarinnar og því að brýnt sé að bregðast strax við – bæði með breyttum rekstrarskilyrðum og skýrri framtíðarsýn í nýjum búvörusamningum.

Anton Guðmundsson, Oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 13. ágúst 2025

Categories
Fréttir Greinar

Fasteignagjöld í brennidepli – mikilvægt að huga að stöðu íbúanna

Deila grein

13/08/2025

Fasteignagjöld í brennidepli – mikilvægt að huga að stöðu íbúanna

Nýtt fasteignamat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) fyrir árið 2026 sýnir að hækkunin á Suðurnesjum er meiri en að meðaltali á landsvísu. Á landsvísu hækkar fasteignamat um 9,2% milli ára, en á Suðurnesjum og Norðurlandi er hækkunin mest.

Í Suðurnesjabæ hækkar fasteignamat íbúðarhúsnæðis að meðaltali um 17,2% um næstu áramót og er það ein sú mesta hækkun á landvísu. Þetta er umtalsverð hækkun sem kemur á tíma þegar margir íbúar glíma nú þegar við aukinn kostnað vegna vaxta og verðbólgu. Slík hækkun mun óhjákvæmilega hafa áhrif á fjárhagsstöðu heimilanna, ef ekki er brugðist við í álagningarstuðli fasteignagjaldanna.

Bæjarráð Suðurnesjabæjar hefur þegar lýst vilja sínum til að bregðast við þessari þróun með því að lækka álagningarhlutfall fasteignagjalda. Nánari útfærsla á lækkuninni verður unnin samhliða við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026. Við í Framsókn, sem eigum fulltrúa í bæjarráði, og munum við að sjálfsögðu fylgja málinu eftir í þeirri vinnu að 17,2% hækkun fari ekki beint ofan á núverandi reiknistuðul fasteignargjalda.

Hækkun fasteignamats mun einnig hafa áhrif á aðra reiknistuðla í sveitarfélaginu, til dæmis gjaldskrá vatnsveitu Sandgerðis sem er í eigu Suðurnesjabæjar, Þar hefur meirihluti Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Bæjarlistans lýst vilja til að selja eignarhlut sveitarfélagsins í vatnsveitunni.

Við í Framsókn teljum slíka sölu ekki skynsamlega og í raun óafturkræfa. Það er mikilvægt að grunninnviðir sveitarfélagsins séu í eigu þess sjálfs, því slíkar eignir eru ekki aðeins fjárhagsleg verðmæti heldur einnig trygging fyrir að samfélagið hafi stjórn á eigin þjónustu og verðlagningu. Ef slíkur eignarhlutur er seldur til einkaaðila, hverfur þessi stjórn og framtíðaráhrif geta orðið íbúum kostnaðarsöm.

Því teljum við að réttara sé að endurskoða reiknistuðul vatnsskattarins til að jafna greiðslubyrði á milli byggðarkjarna í Suðurnesjabæ, Garði og Sandgerði. Með því er hægt að ná sanngjarnari skiptingu án þess að selja mikilvæga innviði.

Slík nálgun er betri kostur en að selja innviði sveitarfélagsins úr sameiginlegri eigu. Það er á ábyrgð okkar kjörinna fulltrúa að verja hagsmuni íbúa, tryggja að þjónusta og innviðir haldist í traustri eigu sveitarfélagsins og kappkosta að halda álögum á íbúa okkar í lágmarki.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á vf.is 13. ágúst 2025.

Categories
Greinar

Veiðigjöld ógn við sjávarbyggðir

Deila grein

05/06/2025

Veiðigjöld ógn við sjávarbyggðir

Frum­varp til breyt­inga á lög­um um veiðigjald hef­ur nú verið lagt fyr­ir Alþingi. Því miður hef­ur það verið gert án nægi­legs sam­ráðs við þau sveit­ar­fé­lög sem kunna að verða fyr­ir mest­um af­leiðing­um — sjáv­ar­út­vegs­sveit­ar­fé­lög­in. Við í Suður­nesja­bæ höf­um lýst mikl­um áhyggj­um yfir þessu ferli sem við telj­um bæði ófull­nægj­andi og að sumu leyti ábyrgðarlaust.

Við tök­um und­ir að auðlind­ir í þjóðar­eigu eigi að vera nýtt­ar á sann­gjarn­an hátt og að rétt sé að greiða fyr­ir af­not af þeim. Hins veg­ar má ekki gleyma því að sjáv­ar­út­veg­ur er burðarstoð í at­vinnu­lífi margra bæj­ar­fé­laga víðs veg­ar um landið. Í Suður­nesja­bæ eru fisk­veiðar og fisk­vinnsla gríðarlega mik­il­væg­ar at­vinnu­grein­ar – þær vega um 14% í út­svars­grunni bæj­ar­ins sam­kvæmt grein­ingu KPMG. Þar fyr­ir utan eru fjöl­mörg störf og þjón­usta sem byggj­ast beint eða óbeint á sjáv­ar­út­vegi. Þetta skipt­ir sam­fé­lagið hér miklu máli.

Við gagn­rýn­um harðlega að þegar frum­varpið var kynnt voru eng­ar grein­ing­ar á áhrif­um þess á sveit­ar­fé­lög lagðar fram af hálfu rík­is­ins – þvert á það sem lög­in kveða á um. Í 129. grein sveit­ar­stjórn­ar­laga seg­ir skýrt að slík áhrif þurfi að liggja fyr­ir þegar frum­vörp eru lögð fram sem snerta hags­muni sveit­ar­fé­laga.

Við höf­um ít­rekað bent á þetta – bæði í fyrri um­sögn­um og nú á ný. Sam­tök sjáv­ar­út­vegs­sveit­ar­fé­laga hafa þurft að grípa til þess ráðs að fá ut­anaðkom­andi aðila til að greina áhrif­in þar sem ríkið hef­ur ekki sinnt skyld­um sín­um. Þetta er ekki ásætt­an­legt. Og þrátt fyr­ir lof­orð í stefnu­yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­inn­ar um bætt sam­ráð og stuðning við dreifðar byggðir hef­ur það sam­ráð ekki átt sér stað í þessu máli.

Við hvetj­um Alþingi ein­dregið til að staldra við. End­ur­skoðið frum­varpið. Takið mark á gögn­un­um og talið við okk­ur – þau sveit­ar­fé­lög sem lifa og hrær­ast í þeirri at­vinnu­grein sem verið er að leggja aukn­ar byrðar á. Við vilj­um öfl­ugt sam­fé­lag með fjöl­breyttu at­vinnu­lífi en til þess þarf að tryggja stöðug­leika og rétt­láta meðferð í laga­setn­ingu.

Þetta er ekki aðeins bar­átta um krón­ur og aura – þetta snýst um framtíð byggða, störf fólks og traust á stjórn­sýslu.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar­flokks­ins í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. júní 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Heil­brigðisþjónusta í heima­byggð – loksins orðin að veru­leika

Deila grein

05/06/2025

Heil­brigðisþjónusta í heima­byggð – loksins orðin að veru­leika

4. júní 2025 markaði stór tímamót fyrir okkur í Suðurnesjabæ, því þá opnaði ný heilsugæsla í Vörðunni í Suðurnesjabæ. Þetta er árangur sem margir hafa beðið eftir lengi og sannar að samvinna, staðfesta og skýr forgangsröðun skilar raunverulegum árangri fyrir samfélagið okkar.

Frá fyrsta degi höfum við í Framsóknarflokknum barist fyrir því að bæta heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Okkar sýn hefur verið skýr: Fólk á rétt á góðri þjónustu, sama hvar það býr. Eftir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2022 hófum við tafarlaust samtal við Willum Þór Þórsson, þáverandi heilbrigðisráðherra, sem og þingmenn Framsóknar í Suðurkjördæmi. Þau tóku vel í málið og sýndu því þann skilning sem það átti skilið, meðal annars með þingsályktunum.

Það samtal leiddi til viljayfirlýsingar sem var undirrituð 30. ágúst 2024 af þáverandi heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórssyni. Þar var markmið okkar skýrt: að opna nýja heilsugæslu fyrir 1. maí 2025. Þótt opnunin drægist um skamman tíma, var markmiðinu í raun náð – því nú í júní 2025 er heilsugæslan opin og tilbúin að veita íbúum þá þjónustu sem þeir eiga rétt á.

Það er staðföst trú mín að samtal á milli sveitarstjórnarmanna, þingmanna og ráðherra skipti gríðarlega miklu máli. Við, sem störfum í sveitarstjórn, erum í nánum tengslum við byggðarkjarnana og þekkjum þarfir heimafólks betur en margir. Þess vegna er mikilvægt að við miðlum því sjónarhorni áfram inn í landsmálin – svo allir rói í sömu átt.

Ég vil líka sérstaklega þakka þeim sem hafa staðið með okkur í þessu mikilvæga verkefni: þingmönnum og ráðherrum Framsóknarflokksins fyrir öfluga liðveislu og skilning, Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, fyrir faglega og drífandi forystu, og Magnúsi Stefánssyni, bæjarstjóra, fyrir eindreginn stuðning. Allt þetta fólk lagði sitt af mörkum til að verkefnið gæti raungerst með skjótum hætti.

Stefna Framsóknarflokksins í heilbrigðismálum undirstrikar vel þá sýn sem við höfum haldið á lofti:

„Heilbrigðiskerfið er hornsteinn samfélagsins og byggir undir hagsæld þjóðarinnar. Framsókn leggur áherslu á að tryggja jafnt og tímanlegt aðgengi að öflugri heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu.“

Með opnun heilsugæslunnar í Vörðunni í Suðurnesjabæ erum við að sjá þessa stefnu verða að veruleika. Þetta er ekki bara sigur fyrir Framsókn – þetta er sigur fyrir allt samfélagið okkar í Suðurnesjabæ.

Við í Framsókn trúum á samvinnu, ábyrgð og árangur. Og við munum halda áfram að vinna af heilindum fyrir bæjarbúa – því verkefnin eru fleiri og framtíðin björt þegar við vinnum saman.

Til hamingju með þennan áfanga, kæru íbúar Suðurnesjabæjar.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. júní 2025.

Categories
Greinar

Brýn þörf á auknum fjárveitingum vegna sjávarflóða

Deila grein

19/05/2025

Brýn þörf á auknum fjárveitingum vegna sjávarflóða

Sjáv­ar­flóð eru nátt­úru­vá sem Íslend­ing­ar þurfa að búa við og mik­il­vægt er að bregðast við á viðeig­andi hátt. Líkt og í bar­átt­unni við of­an­flóð, þar sem sterk og mark­viss varn­ar­vinna hef­ur skilað góðum ár­angri, er nauðsyn­legt að setja upp öfl­ug­ar sjóvarn­ir til að lág­marka skaða af völd­um sjáv­ar­flóða.

Hækk­andi sjáv­ar­staða og aukn­ar veður­sveifl­ur gera það að verk­um að mik­il­vægi sjóvarna hef­ur aldrei verið meira. Sam­kvæmt áætl­un­um sam­göngu­áætlun­ar er gert ráð fyr­ir að verja 150 millj­ón­um króna ár­lega í sjóvarn­ir á landsvísu. Það er ljóst að þessi upp­hæð er langt frá því að nægja til að mæta þeirri gríðarlegu þörf sem skap­ast hef­ur á und­an­förn­um árum, sér­stak­lega á þeim svæðum sem eru hvað viðkvæm­ust fyr­ir ágangi sjáv­ar.

Á Suður­nesj­um hafa ít­rekað komið upp til­vik þar sem sjáv­ar­flóð hafa ógnað byggð og innviðum. Í Suður­nesja­bæ varð stór­tjón 1. mars 2025 þegar hafn­ar­mann­virki og aðrar eign­ir urðu fyr­ir mikl­um skaða af völd­um sjáv­ar­flóða. Bænd­ur og land­eig­end­ur urðu fyr­ir veru­legu tjóni og ann­ar golf­völl­ur­inn í sveit­ar­fé­lag­inu var illa leik­inn. Kirkju­g­arðar voru einnig í stór­hættu á að verða fyr­ir ágangi sjáv­ar.

Ástandið er þannig að jafn­vel þyrfti í raun að nýta alla þá fjár­hæð sem ætluð er í sjóvarn­ir á landsvísu ein­göngu í Suður­nesja­bæ til að tryggja nauðsyn­leg­ar varn­ir þar. Þetta und­ir­strik­ar hversu brýnt það er að end­ur­skoða fjár­mögn­un sjóvarna hér á landi.

Eitt mögu­legt úrræði væri að skoða stofn­un sér­staks sjáv­ar­flóðasjóðs að fyr­ir­mynd of­an­flóðasjóðs. Þannig mætti tryggja sam­ræmda stefnu og stöðugan fjár­hags­leg­an stuðning við varn­ir gegn sjáv­ar­flóðum um landið allt. Að sama skapi mætti horfa til þess að auka fjár­veit­ing­ar rík­is­ins í sjóvarn­ir og setja slíkt á dag­skrá rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Þegar horft er til framtíðar er ljóst að vand­inn mun aðeins aukast. Lofts­lags­breyt­ing­ar, hækk­andi sjáv­ar­staða og auk­in tíðni óveðra eru staðreynd­ir sem ekki er hægt að líta fram­hjá. Nú er tím­inn til að bregðast við – áður en kostnaður­inn við aðgerðir verður óviðráðan­leg­ur.

Ég skora á rík­is­stjórn Sam­fylk­ing­ar, Viðreisn­ar og Flokki fólks­ins að setja sjáv­ar­flóð og sjóvarn­ir á dag­skrá. Það er deg­in­um ljós­ara að þörf­in er knýj­andi og hún á aðeins eft­ir að aukast á kom­andi árum. Nú er mik­il­vægt að grípa til aðgerða til að tryggja vernd viðkvæmra svæða fyr­ir sjáv­ar­flóðum.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar­flokks­ins í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. maí 2025.

Categories
Greinar

Íslenskan – lífæð þjóðarinnar

Deila grein

02/05/2025

Íslenskan – lífæð þjóðarinnar

Íslensk­an er æðaslátt­ur þjóðar­inn­ar. Í gegn­um ald­irn­ar hafa mæðurn­ar kennt börn­um sín­um fyrstu orðin, þau orð sem verða und­ir­staða allr­ar hugs­un­ar, allr­ar menn­ing­ar og allra fram­fara. Í móður­mál­inu býr sá kraft­ur sem held­ur þjóð í heilu lagi, bind­ur sam­an fortíð, samtíð og framtíð.

Nú, á þess­um tím­um örra breyt­inga, þegar er­lend mál ryðja sér til rúms í huga og máli ungu kyn­slóðar­inn­ar, ber okk­ur skylda – já, heil­ög skylda – til að standa vörð um tungu okk­ar. Sótt er að ís­lensk­unni bæði úr menn­ingu og tækni, með er­lend­um áhrif­um sem smám sam­an vinna á þol­in­móðri, en þraut­seigri, tungu okk­ar.

Það verður ekki nægi­legt að mæla fag­ur­gala um gildi ís­lensk­unn­ar – við verðum að bretta upp erm­arn­ar og grípa til aðgerða. Efl­um ís­lensku­kennslu í skól­um lands­ins. Gef­um kenn­ur­um okk­ar betri aðbúnað og öfl­ugri verk­færi til að efla mál­vit­und barna og ung­menna.

En ekki aðeins það: við verðum að horf­ast í augu við að framtíð ís­lensk­unn­ar ræðst einnig á vett­vangi tækni og ný­sköp­un­ar. Við verðum að styðja dyggi­lega við ís­lenska tungu í sta­f­ræn­um heimi; fjár­festa í þróun mál­tækni, sjálf­virkr­ar þýðing­ar, tal­grein­ing­ar og annarra lausna sem tryggja að ís­lensk­an verði lif­andi og aðgengi­leg á öll­um sviðum nú­tíma­sam­fé­lags.

Þá ber okk­ur einnig að gæta þess, að með til­komu er­lends vinnu­afls hingað til lands verðum við sem þjóð að sýna festu og rækt­ar­semi. Við verðum að tala ís­lensku við þá sem hingað koma, svo þeir læri tungu þjóðar­inn­ar og verði virk­ir þátt­tak­end­ur í ís­lensku sam­fé­lagi. Mál þeirra og menn­ing á virðingu skilið – en hér á landi skal ís­lensk­an vera sam­ein­ing­ar­táknið sem all­ir stefna að.

Ef við van­rækj­um þetta, ef við sofn­um á verðinum, glöt­um við ekki aðeins tung­unni held­ur sjálf­um okk­ur. Því án móður­máls­ins verður þjóðin rót­laus og upp­runa­lít­il, eins og tré sem miss­ir sín­ar dýpstu ræt­ur.

Meg­um við öll, ung sem göm­ul, axla þá ábyrgð að varðveita ís­lensk­una sem dýr­mæt­asta arf þjóðar­inn­ar – og skila henni áfram, sterk­ari og rík­ari, til þeirra sem á eft­ir okk­ur koma.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgnblaðinu 2. maí 2025.

Categories
Greinar

Þegar inn­flutningurinn ræður ríkjum

Deila grein

29/04/2025

Þegar inn­flutningurinn ræður ríkjum

Í kosningabaráttunni töluðu forystumenn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins fjálglega um velferð, sjálfbærni og þjóðaröryggi. Nú blasir við óþægileg mynd: algjört stefnuleysi í landbúnaðarmálum og áhugaleysi gagnvart fæðuöryggi þjóðarinnar.

Íslenskur landbúnaður glímir við gríðarlegar áskoranir. Bændur búa við hækkandi framleiðslukostnað, hörð samkeppni frá innfluttum vörum og sífellt meiri kröfur um umhverfisvænan rekstur – án raunverulegs stuðnings stjórnvalda. Þrátt fyrir að umhverfisvæn ræktun og innlend framleiðsla ættu að vera hornsteinar grænnar framtíðar, hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar verið fáar og kraftlausar.

Það sem er enn alvarlegra er að ríkisstjórnin virðist ekki skilja hvernig íslenskur landbúnaður virkar. Samkeppni í íslenskum landbúnaði kemur ekki á milli innlendra afurðarstöðva – heldur erlendis frá, með linnulausum innflutningi sem ryður íslenskum vörum út af markaðnum.

Ríkisstjórnin hefur frekar kosið að líta undan gagnvart linnulausum innflutningi sem grefur undan íslenskum bændum og traustum stoðum samfélagsins. Meðal annars er nú flutt inn lambakjöt frá Írlandi sem selt er undir villandi merkjum, og þannig blekktir íslenskir neytendur, meðan bændur eiga í vaxandi basli.

Samfylkingin lofaði að tryggja sjálfbærni og framtíðaröryggi en hefur hvorki mótað skýra matvælastefnu né sýnt vilja til að efla íslenskan landbúnað. Viðreisn hélt á lofti stefnum um ábyrga markaðsstefnu, en hefur horft aðgerðalaus á innflutninginn vaxa. Flokkur fólksins hét því að vera rödd fólksins en hefur þagað þegar kemur að því að verja lífsviðurværi bænda og grunnþætti íslensks fæðuöryggis.

Þegar markaðsöfl, án nokkurra skilyrða, fá að grafa undan grunnstoðum landsins verður Ísland sífellt háðara öðrum ríkjum um að brauðfæða sitt eigið fólk. Slík þróun er ekki ábyrg, heldur skammsýn og hættuleg.

Í heimi sem einkennist af loftslagsbreytingum, vaxandi spennu í alþjóðaviðskiptum og óútreiknanlegum náttúruvá, verður fæðuöryggi þjóðar mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Ef alþjóðlegir flutningsstraumar stöðvast – eins og gerðist í heimsfaraldrinum – stendur Ísland berskjaldað eftir ef innlend framleiðsla hefur verið látin grotna niður. Það eru ekki aðeins sveitirnar sem tapa ef íslenskur landbúnaður tapar. Öll þjóðin tapar – sjálfstæðið, öryggið og geta landsins til þess að framfleyta þjóð sinni þegar á reynir.

Það er tímabært að krefjast raunverulegra aðgerða: leggja fram skýra stefnu í þágu innlendrar matvælaframleiðslu, tryggja bændum sanngjörn starfsskilyrði, umbuna þeim fyrir umhverfisvænan rekstur og gera fæðuöryggi að hluta af þjóðaröryggisstefnu Íslands, og hjálpa ungu fólki að hefja búskap.

Þetta snýst ekki um að setja fram fallegar yfirlýsingar – heldur um að framkvæma. Ef ríkisstjórnin bregst áfram skyldum sínum, verður Ísland sífellt veikara.

Þegar innflutningurinn ræður ríkjum, er það ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á því.

Stórauka þarf innlenda matvælaframleiðslu. Íslensk matvæli eru einstök og teljast meðal þeirra hreinustu í heiminum. Hvergi í veröldinni er minna notað af sýklalyfjum í landbúnaði en hér á Íslandi. Og nóg eigum við að hreinu og tæru vatni á íslandi , sem er okkar stærsta auðlind. Það er skylda okkar að nýta þessa sérstöðu til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar – fyrir okkur sjálf og komandi kynslóðir.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 29. apríl 2025.

Categories
Greinar

Takk Willum Þór

Deila grein

14/04/2025

Takk Willum Þór

Suður­nesja­bær er ört vax­andi sveit­ar­fé­lag á Suður­nesj­um, og íbú­um fjölg­ar jafnt og þétt.

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Þjóðskrá Íslands er íbúa­fjöldi í Suður­nesja­bæ nú kom­inn yfir 4.000, eða alls 4.312 nú í byrj­un apríl. Þegar Suður­nesja­bær varð til við sam­ein­ingu Sand­gerðis­bæj­ar og Sveit­ar­fé­lags­ins Garðs fyr­ir sjö árum var íbúa­fjöld­inn um 3.400. Íbúum hef­ur því fjölgað um 912 manns á þess­um tíma, sem sam­svar­ar rúm­lega 26,8% fjölg­un.

Upp­bygg­ing í heil­brigðismál­um á Íslandi hef­ur verið tölu­verð á und­an­förn­um árum.

Fyrr­ver­andi heil­brigðisráðherra, Will­um Þór Þórs­son, lagði mikla vinnu í þau mik­il­vægu verk­efni sem hon­um voru fal­in og sýndi mikla vinnu­semi á þeim tíma sem hann gegndi embætt­inu.

Heil­brigðisþjón­usta í heima­byggð að raun­ger­ast

Bæj­ar­yf­ir­völd í Suður­nesja­bæ hafa lengi kallað eft­ir því að heilsu­gæsluþjón­usta verði veitt í sveit­ar­fé­lag­inu. Við bæj­ar­full­trú­ar Fram­sókn­ar í Suður­nesja­bæ hóf­um taf­ar­laust sam­töl við þing­menn okk­ar í Suður­kjör­dæmi og heil­brigðisráðherra eft­ir sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arn­ar 2022, enda var þetta eitt af helstu áherslu­mál­um okk­ar – að tryggja heil­brigðisþjón­ustu í heima­byggð.

Eft­ir góð og grein­argóð sam­töl við þing­menn Fram­sókn­ar í Suður­kjör­dæmi og Will­um Þór Þórs­son, þáver­andi heil­brigðisráðherra, var skrifað und­ir vilja­yf­ir­lýs­ingu þann 30. ág­úst 2024 um að opna skyldi heilsu­gæslu­stöð í Suður­nesja­bæ.

Mark­mið verk­efn­is­ins er skýrt

Mark­miðið er að bæta aðgengi að heilsu­gæslu í sveit­ar­fé­lag­inu, færa þjón­ust­una nær íbú­um og styrkja þannig þjón­ustu við fólk í heima­byggð. Á starfs­stöðinni verður boðið upp á al­menna heilsu­gæslu á ákveðnum tím­um og fell­ur þetta fyr­ir­komu­lag vel að áhersl­um stjórn­valda um jafnt aðgengi að heil­brigðisþjón­ustu – óháð bú­setu.

Það er því sér­stak­lega ánægju­legt að sjá þetta mik­il­væga rétt­læt­is­mál raun­ger­ast, þetta mikla bar­áttu­mál okk­ar í Fram­sókn.

Opn­un er áætluð í maí 2025, í sam­ræmi við vilja­yf­ir­lýs­ingu ráðherra, þar sem fram kom að þjón­ust­an skyldi hefjast ekki síðar en 1. maí 2025.

Með mikl­um sam­taka­mætti og sam­vinnu­hug­sjón að leiðarljósi er þessi mik­il­væga þjón­usta nú að verða að veru­leika – heil­brigðisþjón­usta fyr­ir íbúa í heima­byggð.

Stefna Fram­sókn­ar­flokks­ins um heil­brigðismál und­ir­strik­ar þetta vel: „Heil­brigðis­kerfið er horn­steinn sam­fé­lags­ins og bygg­ir und­ir hag­sæld þjóðar­inn­ar. Heil­brigðis­kerfið bygg­ir á fé­lags­leg­um grunni þar sem hið op­in­bera trygg­ir lands­mönn­um jafnt aðgengi að nauðsyn­legri heil­brigðisþjón­ustu. Fram­sókn legg­ur áherslu á mik­il­vægi þess að standa vörð um heil­brigðis­kerfið og um­fram allt tryggja jafnt og tím­an­legt aðgengi að öfl­ugri heil­brigðisþjón­ustu, óháð efna­hag og bú­setu.“

Ég leit við í hús­næðið á dög­un­um og þar er allt á fullu og fram­kvæmd­ir ganga vel og áætl­un stefnt er á opn­un núna í maí.

Takk fyr­ir sam­starfið í þessu mik­il­væga verk­efni Will­um Þór Þórs­son.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. apríl 2025.