Sjaldan hefur fæðuöryggi skipt okkur Íslendinga meira máli en nú, ófriður í Evrópu vegur þar þungt í umræðunni, víða eru menn farnir að finna fyrir vöruskorti og hækkandi verði á allri hrávöru.
En hvað þýðir þetta orð, fæðuöryggi? Þegar talað er um fæðuöryggi samkvæmt skilgreiningu matvælaráðuneytisins er átt við að allt fólk, á öllum tímum, hafi raunverulegan og efnahagslegan aðgang að nægum heilnæmum og næringarríkum mat sem fullnægir þörfum þess til að lifa virku og heilsusamlegu lífi.
Núverandi búvörusamningar tóku gildi 1. janúar 2017. Þeir eru gerðir milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands en þar er fjallað um stjórn á framleiðslu búvara og framlaga til landbúnaðarins af hálfu ríkisins. Framlög á fjárlögum vegna búvörusamninganna í ár hljóða upp á 17,2 miljarða króna, nautgriparækt fær um 8,4 miljarða, sauðfjárrækt 6,2 miljarða, garðyrkja rúman milljarð og svo erum við með rammasamninginn sem hljóðar upp á 1,5 milljarða króna. Rammasamningur á að taka utan um jarðræktarstyrki og nýliðun svo fátt eitt sé nefnt.
Búvörusamningarnir gilda í 10 ár með tveimur endurskoðunarákvæðum, fyrst árið 2019 og nú stendur þessi síðari endurskoðun fyrir dyrum 2023. Staðreyndin er sú að krefjandi tímar eru fram undan í landbúnaði með hækkun á öllum aðföngum til bænda.
Einnig verðum við að horfast í augu við þá staðreynd að meðalaldur bænda er um 60 ár og nýliðun lítil í bændastéttinni. Leggja þarf aukið fé til búvörusamninga að mínu mati til að stuðla að tilvist bænda í íslenskum landbúnaði. Einnig þarf að setja aukið fé í rammasamninginn og vinna markvisst að því að hvetja ungt og kraftmikið fólk til starfa í landbúnaði.
Við vitum það Íslendingar að okkar kjöt er eitt það besta í heimi; mjög lítil notkun sýklalyfja, ásamt aðgangi að hreinu og tæru vatni og fæði, tryggir gæðin í okkar matvælaframleiðslu.
Ég skora því á samflokksmenn mína, þingmenn og ráðherra Framsóknarflokksins, að beita sér fyrir því að þessi endurskoðun búvörusamninga tryggi styrkari stoð undir fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar.
Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. febrúar 2023.