Categories
Greinar

Tryggjum fæðuöryggi þjóðar

Deila grein

07/02/2023

Tryggjum fæðuöryggi þjóðar

Sjald­an hef­ur fæðuör­yggi skipt okk­ur Íslend­inga meira máli en nú, ófriður í Evr­ópu veg­ur þar þungt í umræðunni, víða eru menn farn­ir að finna fyr­ir vöru­skorti og hækk­andi verði á allri hrávöru.

En hvað þýðir þetta orð, fæðuör­yggi? Þegar talað er um fæðuör­yggi sam­kvæmt skil­grein­ingu mat­vælaráðuneyt­is­ins er átt við að allt fólk, á öll­um tím­um, hafi raun­veru­leg­an og efna­hags­leg­an aðgang að næg­um heil­næm­um og nær­ing­ar­rík­um mat sem full­næg­ir þörf­um þess til að lifa virku og heilsu­sam­legu lífi.

Nú­ver­andi bú­vöru­samn­ing­ar tóku gildi 1. janú­ar 2017. Þeir eru gerðir milli rík­is­ins og Bænda­sam­taka Íslands en þar er fjallað um stjórn á fram­leiðslu búvara og fram­laga til land­búnaðar­ins af hálfu rík­is­ins. Fram­lög á fjár­lög­um vegna bú­vöru­samn­ing­anna í ár hljóða upp á 17,2 milj­arða króna, naut­griparækt fær um 8,4 milj­arða, sauðfjár­rækt 6,2 milj­arða, garðyrkja rúm­an millj­arð og svo erum við með ramma­samn­ing­inn sem hljóðar upp á 1,5 millj­arða króna. Ramma­samn­ing­ur á að taka utan um jarðrækt­ar­styrki og nýliðun svo fátt eitt sé nefnt.

Bú­vöru­samn­ing­arn­ir gilda í 10 ár með tveim­ur end­ur­skoðun­ar­á­kvæðum, fyrst árið 2019 og nú stend­ur þessi síðari end­ur­skoðun fyr­ir dyr­um 2023. Staðreynd­in er sú að krefj­andi tím­ar eru fram und­an í land­búnaði með hækk­un á öll­um aðföng­um til bænda.

Einnig verðum við að horf­ast í augu við þá staðreynd að meðal­ald­ur bænda er um 60 ár og nýliðun lít­il í bænda­stétt­inni. Leggja þarf aukið fé til bú­vöru­samn­inga að mínu mati til að stuðla að til­vist bænda í ís­lensk­um land­búnaði. Einnig þarf að setja aukið fé í ramma­samn­ing­inn og vinna mark­visst að því að hvetja ungt og kraft­mikið fólk til starfa í land­búnaði.

Við vit­um það Íslend­ing­ar að okk­ar kjöt er eitt það besta í heimi; mjög lít­il notk­un sýkla­lyfja, ásamt aðgangi að hreinu og tæru vatni og fæði, trygg­ir gæðin í okk­ar mat­væla­fram­leiðslu.

Ég skora því á sam­flokks­menn mína, þing­menn og ráðherra Fram­sókn­ar­flokks­ins, að beita sér fyr­ir því að þessi end­ur­skoðun bú­vöru­samn­inga tryggi styrk­ari stoð und­ir fæðuör­yggi ís­lensku þjóðar­inn­ar.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Gjald­frjálsar skóla­mál­tíðir í Suður­nesja­bæ

Deila grein

03/05/2022

Gjald­frjálsar skóla­mál­tíðir í Suður­nesja­bæ

Næring er ein af grunnþörfum mannsins. Vannæring getur haft varanleg neikvæð áhrif á andlegan og líkamlegan þroska barna. Næring er lykilatriði til að allir nemendur ljúki á jafnréttisgrundvelli grunnskólastigi án aðgreiningar og endurgjalds.

Öll viljum við að börnin okkar séu vel nærð í amstri dagsins og teljum við í Framsókn því sjálfsagt að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum Suðurnesjabæjar. Þannig stuðlum við jafnræði á milli heimila óháð efnahag og stöðu foreldra.

Lykilatriði fyrir gott og heilbrigt samfélag er að réttindi barna og tækifæri þeirra sé sem best til að dafna og þroska hæfileika sína. Við viljum vera stolt af Suðurnesjabæ.

Skólaskyldu er ætlað að leggja grunn að virkri þátttöku barna í lýðræðissamfélagi og veita viðeigandi undirbúning og fjölbreytt tækifæri fyrir frekara nám eða störf á vinnumarkaði. Tryggjum börnunum okkar bjarta framtíð.

Framsókn vill vera hreyfiafl framfara í samfélaginu!

Anton Kristinn Guðmundsson, skipar 1. sæti á framboðslista Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. maí 2022.