Categories
Fréttir Greinar

Ruglið um kyrrstöðuna

Deila grein

06/03/2025

Ruglið um kyrrstöðuna

Við veit­um því ekki eft­ir­tekt í dag­legu lífi en snún­ing­ur jarðar ger­ir það að verk­um að við erum í raun á ríf­lega 700 kíló­metra hraða á klukku­stund alla daga hér á Íslandi. Að sama skapi er sam­fé­lagið á fleygi­ferð þótt við tök­um ef til vill ekki alltaf eft­ir því. Það er áhuga­vert, á köfl­um átak­an­legt, að hlusta á mál­flutn­ing rík­is­stjórn­ar­flokk­anna þar sem þeim verður tíðrætt um að „rjúfa kyrr­stöðuna“. Fyr­ir skömmu fór þing­flokks­formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar mik­inn í Viku­lok­un­um á Rás 1 og þingmaður Viðreisn­ar, María Rut Krist­ins­dótt­ir, skrifaði grein í sama anda í Morg­un­blaðinu 19. fe­brú­ar. Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, þingmaður Flokks fólks­ins, rit­ar grein í sama dúr hinn 25. fe­brú­ar. Yf­ir­lýs­ing­ar þeirra eru reist­ar á ótrú­legri staðreyndafirr­ingu – eða þá að staðreynd­irn­ar skipta þau hrein­lega engu máli.

Hús­næðismál: Öflug­asta upp­bygg­ing í ára­tugi

Á und­an­förn­um miss­er­um hef­ur gríðarleg­ur þungi verið lagður í upp­bygg­ingu hús­næðis. Sig­urður Ingi Jó­hanns­son og Fram­sókn hafa leitt marg­vís­leg mik­il­væg verk­efni sem bein­ast að því að tryggja jafn­vægi á hús­næðismarkaði og auka hús­næðis­ör­yggi lands­manna.

• Síðastliðin sjö ár hef­ur full­bún­um íbúðum á land­inu fjölgað um 25.000 og aldrei áður hafa jafn marg­ar íbúðir verið byggðar utan höfuðborg­ar­svæðis­ins.

• Tíma­móta­samn­ing­ur rík­is og sveit­ar­fé­laga var und­ir­ritaður árið 2022 um að byggja 35.000 íbúðir frá 2023 til 2032. Þar af eiga 30% að vera hag­kvæm fyr­ir tekju- og eignam­inni hópa og 5% fé­lags­legt hús­næði. Þetta mark­mið skal end­ur­skoða ár­lega og Reykja­vík reið á vaðið með sér­stak­an samn­ing um 16.000 nýj­ar íbúðir á tíu árum.

• Rík­is­stjórn­in hef­ur stór­aukið stofn­fram­lög og hlut­deild­ar­lán; um 4.300 íbúðir hafa verið fjár­magnaðar með þess­um hætti og stuðning­ur rík­is­ins við hús­næðismál hleyp­ur á tug­um millj­arða króna.

• Sér­stak­ur vaxt­astuðning­ur var greidd­ur út vegna hækk­andi vaxta, 5,5 millj­arðar króna sem náðu til tæp­lega 56 þúsund ein­stak­linga.

• Rétt­arstaða leigj­enda var styrkt með end­ur­skoðun á húsa­leigu­lög­um og sveit­ar­fé­lög fengu aukn­ar heim­ild­ir til að tryggja að bygg­ing­ar­fram­kvæmd­ir gengju eft­ir, meðal ann­ars með tíma­bundn­um upp­bygg­ing­ar­heim­ild­um.

Stór­sókn í sam­göngu­mál­um

Önnur full­yrðing sem oft heyr­ist frá tals­mönn­um „kyrr­stöðukórs­ins“ er að ekk­ert miði í sam­göng­um. Staðreynd­irn­ar segja annað:

• Fjár­fest­ing­ar í sam­göng­um hafa verið með mesta móti síðustu ár og veru­lega verið bætt í viðhald vega. Alþing­is bíður að fjalla um og staðfesta nýja sam­göngu­áætlun, en á þeirri sam­göngu­áætlun sem lögð var fyr­ir þingið síðastliðinn þing­vet­ur fyr­ir árin 2024-2038 eru 909 millj­arðar króna í beina fjár­fest­ingu á fimmtán árum, þar af 263 millj­arðar fyrstu fimm árin. Þar að auki bæt­ist við fjár­mögn­un í sam­starfs­verk­efn­um eins og Sunda­braut og Ölfusár­brú.

• Ein­breiðum brúm fækk­ar stöðugt og stefnt er að því að eng­in ein­breið brú verði eft­ir að loknu áætl­un­ar­tíma­bil­inu. Gríðarlegt átak í bundnu slit­lagi held­ur áfram, auk sam­göngu­verk­efna á borð við Reykja­nes­braut, Suður­lands­veg, Kjal­ar­nes, Foss­vogs­brú, fram­kvæmd­ir sem til­greind­ar eru í jarðganga­áætl­un og aðrar fram­kvæmd­ir víða um land. Fram­kvæmd­ir við Sunda­braut eru komn­ar á rek­spöl þannig að stefnt er að opn­un árið 2031.

• Vara­flug­vall­ar­gjald var leitt í lög til að byggja upp inn­an­lands­flug­velli og veru­leg upp­bygg­ing hef­ur átt sér stað meðal ann­ars á Ak­ur­eyr­arflug­velli.

Heil­brigðismál: Aldrei meiri fjár­fest­ing

Sjald­an hafa orðið jafn víðtæk­ar fram­far­ir í heil­brigðis­kerf­inu og á síðustu árum. Will­um Þór Þórs­son fv. heil­brigðisráðherra beitti sér af miklu afli fyr­ir fjöl­breytt­um aðgerðum til að bæta þjón­ustu og lækka greiðsluþátt­töku sjúk­linga:

• Lang­tíma­samn­ing­ar við sjúkraþjálf­ara, sér­greina­lækna og tann­lækna sem tekn­ir voru upp eft­ir fjög­urra ára samn­ings­leysi.

• Stór­auk­in end­ur­hæf­ing­ar­rými, upp­bygg­ing á bráðamót­tök­um og heilsu­gæslu­stöðvum um allt land; m.a. í Reykja­nes­bæ og á Ak­ur­eyri.

• Marg­ir biðlist­ar hafa styst með samn­ing­um til að mynda um kaup á liðskiptaaðgerðum og aðgerðum vegna en­dómetríósu.

• Fjar­skipta­lækn­ir og upp­bygg­ing tækni­búnaðar við bráðaþjón­ustu um land allt, til að jafna aðgengi og bæta ör­yggi.

• Mikl­ar fram­kvæmd­ir standa yfir vegna Nýja Land­spít­al­ans (stærsta op­in­bera fram­kvæmd Íslands­sög­unn­ar) upp á sam­tals 210 millj­arða, auk þess sem ráðist hef­ur verið í und­ir­bún­ing að áfanga 2 og nýju geðsjúkra­húsi. Svo mætti lengi áfram telja.

Kyrrstaðan í efna­hags­mál­um?

Ein furðuleg­asta goðsögn­in er að ís­lensk efna­hags­mál séu í kyrr­stöðu. Þvert á móti hef­ur hag­vöxt­ur verið kröft­ug­ur og at­vinnu­leysi með því minnsta sem þekk­ist í Evr­ópu.

Ísland hef­ur staðið af sér mikl­ar áskor­an­ir, frá falli WOW til heims­far­ald­urs covid-19 og jarðhrær­inga á Reykja­nesi. Þrátt fyr­ir það hef­ur hag­kerfið sýnt ótrú­lega þraut­seigju, þar sem hag­vöxt­ur hef­ur hald­ist sterk­ur og at­vinnu­leysi verið minna en í ESB und­an­far­inn ára­tug. Raun­ar hef­ur helsta áskor­un Seðlabank­ans verið að halda aft­ur af þess­um mikla krafti m.a. með hækk­un vaxta.

Kyrrstaðan um ESB

Eina raun­veru­lega kyrrstaðan sem þessi rík­is­stjórn gæti rofið er kyrrstaðan um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. Sá leiðang­ur var geng­inn til þraut­ar síðast þegar Sam­fylk­ing­in sat í for­sæt­is­ráðuneyt­inu og að lok­um var viðræðum slitið. Í ljós hafði komið, sem marg­ir höfðu raun­ar bent á löngu áður, að hags­mun­um Íslands væri bet­ur borgið utan sam­bands­ins. Leiðang­ur­inn var kostnaðarsam­ur og tíma­frek­ur, skipti ís­lenskri þjóð upp í fylk­ing­ar og niðurstaðan fyr­ir­sjá­an­leg. Nú á að gera sömu mis­tök­in aft­ur.

Það eina sem hef­ur breyst er að ný­út­gefn­ar skýrsl­ur staðfesta að Evr­ópa stend­ur frammi fyr­ir veru­leg­um áskor­un­um, at­vinnu­leysi er óviðun­andi, hag­vöxt­ur slak­ur og skort­ur á sam­keppn­is­hæfni veru­legt áhyggju­efni. Á sama tíma hef­ur ís­lenskt efna­hags­líf ein­kennst af mikl­um þrótti síðustu ár og ein helsta áskor­un­in fal­ist í því að halda aft­ur af spennu og af­leiddri verðbólgu.

Þegar allt kem­ur til alls

Er allt full­komið? Nei. Auðvitað ekki. Áskor­an­ir við stjórn­un og framþróun sam­fé­lags­ins munu alltaf fyr­ir­finn­ast og verk­efni nýrr­ar rík­is­stjórn­ar verður án efa krefj­andi þótt hún taki sann­ar­lega við góðu búi fyrri rík­is­stjórn­ar. Upp munu koma áskor­an­ir sem ekki eru á sjón­deild­ar­hringn­um þegar þetta er skrifað og öll get­um við sam­ein­ast í því að óska þeim sem fara með valdið velfarnaðar.

Allt tal um að rjúfa kyrr­stöðu er inn­an­tómt þegar horft er til staðreynda. Það má kannski gefa tals­mönn­um Sam­fylk­ing­ar og Viðreisn­ar prik fyr­ir snjalla póli­tík, því það er sann­ar­lega auðvelt að „rjúfa kyrr­stöðu“ sem á sér enga stoð í raun­veru­leik­an­um. Áróður þeirra skilaði nokkr­um ár­angri í síðustu kosn­ing­um, en nú væri vert að þau nálguðust verk­efni sín af virðingu og ábyrgð og hættu þess­um fyr­ir­slætti.

Svo má kannski svona á létt­um nót­um í rest­ina, úr því þingmaður Viðreisn­ar er áhuga­sam­ur um að skíra börn sem nálg­ast ferm­ingu með vís­an í skrif henn­ar um fyrri rík­is­stjórn, gefa nýrri rík­is­stjórn nafn við hæfi. Nafnið „end­ur­vinnslu­stjórn­in“ færi þeim vel, enda er lítið að frétta af þeim bæn­um annað en fram­lagn­ing frum­varpa fyrri rík­is­stjórn­ar.

Helgi Héðinsson, fram­kvæmda­stjóri Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Á­fengið innan seilingar

Deila grein

31/08/2024

Á­fengið innan seilingar

Coca Cola, eitt verðmætasta vörumerki heims um áratuga skeið, náði framúrskarandi árangri með ákaflega einfaldri hugmyndafræði. Ofuráhersla á dreifingu, að vera ætíð innan seilingar (e. within arm‘s reach). Við þekkjum þetta frá sjálfsölum, þegar við ferðumst um heiminn og hvert sem litið er má sjá vörur þeirra, en einnig hér heima á Íslandi þegar við förum í verslanir, sjoppur, bensínstöðvar, sundlaugar og svo framvegis. Að margra mati er þetta einhver árangursríkasta áhersla í sögu markaðsmála, enda árangur Coca Cola óumdeildur. Fyrirtækið er nú verðmetið á ríflega 43 þúsund milljarða króna.

Lögmálin

Þegar kemur að árangri í sölu á vörum er í megin atriðum fernt sem máli skiptir. Varan sjálf og eiginleikar hennar, verðið, kynningar- og markaðsstarf og dreifing. Þetta er þaulrannsakað og litið á sem lögmál í markaðsfræðum. Áherslur Coca Cola komu upp í huga undirritaðs í tengslum við umræðu um sölu og dreifingu á áfengi í Íslandi. Sögu Coca Cola og lögmál markaðsfræðinnar þekkja auðvitað hagsmunaöfl sem vilja auka aðgengi og dreifingu á áfengi þó oft sé leitast við í umræðunni að skauta fram hjá þeirri staðreynd og því slegið fram að hér sé um einhvers konar mannréttindi að ræða. Að frelsið standi og falli með auknu aðgengi að áfengi sem nú þegar er all nokkuð og að þetta skipti í raun engu máli. Þá er því gjarnan slegið fram að takmörkun á aðgengi og dreifingu sé tímaskekkja og gamaldags, en því fer sannarlega fjarri, enda dreifing eitt allra mikilvægasta verkfærið þegar kemur að sölu á vörum. Það lögmál stendur og hefur ekkert breyst.

Íslenska forvarnamódelið

Um árabil hefur hér á landi ríkt fyrirkomulag og stefna sem byggir á því að virkja allt samfélagið með forvörnum, takmörkuðu aðgengi og stýringu í gegnum ÁTVR. Það fyrirkomulag, sem aðrar þjóðir líta öfundaraugum, hefur tryggt okkur einhverja bestu stöðu í heimi þegar kemur að áfengisneyslu, ekki síst meðal ungmenna. Ástæður þess hafa verið tíundaðar í fjölda greina meðal annars eftir heilbrigðisráðherra og sérfræðinga á sviði forvarna og óþarft að fara nánar út í hér, en það er ekki tilviljun að hvergi bólar á aðilum sem koma að heilbrigðismálum eða félagasamtökum á sviði heilbrigðismála sem tala fyrir auknu aðgengi og þar með aukinni neyslu á áfengi.

Þegar allt kemur til alls

Þegar allt kemur til alls er málið í raun einfalt. Baráttan um aukið aðgengi og dreifingu á áfengi snýst aðeins um hagsmuni. Annars vegar er um að ræða hagsmuni samfélagsins, kostnað sem leggst á samfélagið vegna áfengisneyslu og harm sem áfengisneysla veldur og við þekkjum svo mörg. Hins vegar eru þarna undir gífurlegir einkahagsmunir aðila sem sjá hag í því að auka dreifingu og þar með neyslu á áfengi. Við þurfum einfaldlega að velta því fyrir okkur hvort við viljum verja það fyrirkomulag sem reynst hefur vel og skipað okkur í fremstu röð meðal þjóða í þessum málaflokki, eða láta undan einkahagsmunum og talsmönnum þeirra.

Helgi Héðinsson, markaðsfræðingur og framkvæmdastjóri Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. ágúst 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Gæði sem skipta máli ‒ tökum flugið

Deila grein

21/05/2024

Gæði sem skipta máli ‒ tökum flugið

Síðustu ár hafa orðið miklar framfarir þegar kemur að millilandaflugi um Akureyrarflugvöll. Við þekkjum lífsgæðin sem því fylgja, enda er ferðlagið til Keflavíkur oft kostnaðarsamasti og tímafrekasti leggur ferðalagsins þegar haldið er utan. Beint millilandaflug um Akureyrarflugvöll skiptir atvinnulífið einnig verulegu máli enda ein megin forsenda fyrir auknum komum ferðamanna, ekki síst utan háannatíma þegar ferðalög eru að jafnaði styttri. Stærsti einstaki áfanginn á þessari leið er tilkoma Easy Jet, sem flogið hefur beint milli Akureyrar og London frá því síðastliðið haust. Ekkert kemur til af sjálfu sér og fjölmargt hefur þurft að koma saman svo að Akureyri og Egilsstaðir séu raunhæfir valkostir þegar kemur að millilandaflugi.

Heimafólk dregur vagninn

Um árabil hefur heimafólk unnið þrotlaust að því að efla Akureyrarflugvöll, sem þjónar ekki aðeins höfuðstað Norðurlands, heldur víðfeðmu nærsvæði Akureyrar. Má þar nefna frumkvöðla í fluggeiranum, bæjarfulltrúa, áhugafólk um samgöngur og aðra sem lagt hafa hönd á plóg. Markaðsstofa Norðurlands hefur með ýmsum hætti unnið að og sett þrýsting á þróun vallarins og markaðssetningu á honum. Sama má segja um Austurbrú og íbúa Austurlands, þó þróun flugs um Egilsstaðaflugvöll sé skemur á veg komin. Þessi vinna skiptir miklu máli og skilar árangri.

Flugþróunarsjóður

Ein varðan á langri leið var stofnun Flugþróunarsjóðs. Grunnurinn var lagður árið 2015, en sjóðurinn tók til starfa árið 2016. Flugþróunarsjóður hefur það að markmiði að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði. Þannig er stuðlað að betri dreifingu ferðamanna um landið í samræmi við Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030, bættri nýtingu innviða ríkisins, bættum búsetuskilyrðum og lífsgæðum heimamanna og bættum rekstrarskilyrðum atvinnureksturs á Norður- og Austurlandi. Frá stofnun sjóðsins hefur verið unnið markvisst að kynningu hans til flugfélaga og ferðaskrifstofa. Sú vinna er farin að skila sér þrátt fyrir miklar áskoranir. Til að mynda Covid faraldurinn, sem setti verulegt strik í reikninginn.

Uppbygging innviða

Uppbygging og rekstur flugvalla er kostnaðarsöm og veigamikil fjárfesting og ekki sjálfsagt að fjármunum sé forgangsraðað í þágu slíkrar uppbyggingar. Á síðustu árum hefur gríðarmikil uppbygging verið sett á oddinn, bæði hvað varðar uppbyggingu á Akureyrarflugvelli, en einnig á Egilsstöðum. Má þar nefna fjárfestingar í tæknibúnaði, flugstöð og flughlöðum. Síðastliðið sumar var nýtt flughlað tekið í notkun við Akureyrarflugvöll og undirbúningur framkvæmda við Egilsstaðaflugvöll er á fullu skriði. Skóflustunga að nýrri flugstöð við Akureyrarflugvöll markaði langþráð tímamót og nýverið fóru fyrstu farþegarnir í millilandaflugi þar í gegn. Innan skamms verður flugstöðin fullgerð og má með sanni segja að uppbyggingin marki nýja sókn þegar kemur að lífsgæðum íbúa og starfsskilyrðum atvinnulífs á svæðinu. Stefnan til framtíðar var formfest í Flugstefnu Íslands árið 2019, en þar kemur fram að stutt verði við uppbyggingu Akureyrar- og Egilsstaðarflugvalla sem alþjóðlegra fluggátta. Enn fremur að við uppbyggingu innviða vallanna verði lögð áhersla á að þeir mæti sem best þörfum flugrekenda fyrir varaflugvelli hér á landi, en þar verði Egilsstaðaflugvöllur í forgangi.

Stefna Framsóknar

Stefna Framsóknar er skýr þegar kemur að þessu máli, enda hafa þingmenn og ráðherrar flokksins stutt rækilega við þetta brýna verkefni um langt skeið. Sérstaklega má í því samhengi nefna áherslur og verk Sigurðar Inga Jóhannssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem farið hefur með samgöngumál og þar með talið flugvelli landsins um árabil og Lilju Daggar Alfreðsdóttur, viðskipta- og menningarráðherra sem fer með málefni ferðaþjónustunnar. Flokkurinn stendur heilshugar að baki þessum áherslum en í nýsamþykktri ályktun 37. Flokksþings Framsóknar kemur fram að: ,,Framsókn leggur áherslu á styrkingu millilandaflugs um Akureyri og Egilsstaði til að stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna um landið. Tryggja þarf samkeppnishæfni flugvallanna m.t.t. aðstöðu, lendingargjalda og eldsneytisverðs. Byggja þarf upp samhæft samgöngunet í landinu, sem tengir saman innlent og alþjóðleg samgöngunet, hvort heldur sem er flug eða áætlunarferðir á sjó og landi.“

Að lokum

Mikilvægt er að áfram verði unnið markvisst að uppbyggingu beins flugs til Akureyrar og Egilsstaða. Nauðsynlegt er að þróun innviða á alþjóðaflugvöllunum taki mið af framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 einkum hvað varðar dreifingu ferðamanna, samkeppnishæfni og ávinning heimamanna.

Við þekkjum vel hversu viðkvæmt verkefnið er, það krefst úthalds og þrautseigju og þó það ári vel núna megum við ekki missa dampinn. Samstaða og framsýni allra sem að þessu verkefni koma skiptir verulegu máli því alltaf verða til staðar tækifæri til að gera enn betur.

Helgi Héðinsson, varaþingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi og framkvæmdastjóri Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 20. maí 2024.

Categories
Greinar

Bætt landnýting – mikilvægasta tækifærið í loftslagsmálum?

Deila grein

14/09/2021

Bætt landnýting – mikilvægasta tækifærið í loftslagsmálum?

Landnýting og sjálfbær landbúnaður er mikilvægasta loftslagmálið á Íslandi. Á heimsvísu er losun gróðurhúsalofttegunda frá landi um fjórðungur af heildarlosun, en hér á landi er hlutfall losunar ríflega 60%.

Það er eðlilegt, enda erum við fá og búum í stóru landi á norðlægum slóðum. Í þessu samhengi er gott að hafa í huga að losun frá landi er um 9-10 milljónir tonna, á meðan losun frá vegasamgöngum er tæp milljón tonna af CO2.

Vegna þessa þurfum við markvissa Framsókn í grænni fjárfestingu ríkisins í landbúnaði og bættri landnýtingu. Með því að auka stuðning við sjálfbæra landnýtingu, auka skógrækt og vinna að strategískum landbótaverkefnum leggur Ísland ekki eingöngu mikið til baráttunnar gegn loftslagsvánni heldur styður jafnframt við tækifæri og framfarir um land allt. Afleiddu áhrifin eru m.a. þessi:

Aukin fæðuframleiðsla og minni þörf fyrir innflutt aðföng, í kjölfar stórátaks í uppbyggingu skjólbelta víða um land. Slík uppbygging skjólbelta hefur í för með sér aukna möguleika til kornræktar. Í dag flytjum við inn ríflega 100 þúsund tonn á ári af korni, til notkunar í landbúnaði. Stefna ætti að því að draga úr þessum innflutningi um 10-15% á ári, samhliða aukinni áherslu á innlenda kornrækt.

Græn störf skapast um allt land og fjölbreytt tækifæri fyrir bændur og umsjónarmenn lands, enda liggja mikil værðmæti í kolefnisbindingunni sem fyrirsjáanlega munu aukast næstu ár og áratugi. Slíkt getur stutt við að snúa þeirri ósjálfbæru byggðaþróun sem hefur átt sér stað síðustu áratugi. Í dag búa um 86% landsmanna á suðvestur-horni landsins. Slíkt hefur haft í för með sér lóðaskort á höfuðborgarsvæðinu, aukna þörf fyrir risafjárfestingar í umferðarmannvirkjum (sem kalla á aukna losun CO2) og minni kraft til uppbyggingar í dreifðum byggðum.

Með áherslu á nýsköpun um allt land, samhliða strategískum landbótaverkefnum, byggist upp mannauður á sviði sjálfbærrar landnýtingar, rannsóknastarfsemi og grænna lausna. Ný skýrsla OECD (https://read.oecd-ilibrary.org/economics/oecd-economic-surveys-iceland-2021_c4edf686-en?_ga=2.144527228.834598284.1630318730-1831108037.1630318729#page91) bendir á nákvæmlega þessi atriði sem mikilvægustu skrefin fyrir Ísland, í samhengi loftslagsmála.

Áhersla á landnýtingu

Geta lands til kolefnisbindingar er afar mikil. Asparskógur getur bundið í kringum 20 tonn af CO2 per hektara. Uppbygging birkiskóga og landgræðsla skilar ekki jafn miklu á hvern hektara, en þó mjög miklu þegar lagt er saman og í samanburði við aðrar lausnir, sem kosta mun meiri fjárfestingu og hafa fyrst og fremst staðbundin áhrif á þéttbýlustu svæðunum. Með þessu er ekki verið að gera lítið úr orkuskiptum, t.d. bílaflotans, heldur fyrst og fremst bent á mikilvægi þess að fjárfesta í loftslagslausnum sem skila miklu fyrir Ísland og umheiminn allan.

Það eru fjölmargar leiðir færar til fjármögnunar grænnar umbyltingar í landnýtingu. Efla þarf græn hvatakerfi og styrki til verkefna á þessu sviði. OECD bendir á mikilvægi kolefnisskatta, sem taka mætti undir, svo lengi sem horft verði til þess að slík skattlagning dragi ekki úr möguleikum til uppbyggingar í dreifðum byggðum landsins. Í því samhengi væri eðlilegt að þær tekjur sem koma frá kolefnissköttum renni til fjárfestingar í landbótum og nýsköpun í landnýtingu. Þannig ýtum við undir sjálfbærar grænar fjárfestingar, Íslandi og umheiminum öllum til framdráttar – í nútíð og framtíð!

Helgi Héðinsson og
Þórarinn Ingi Pétursson,
frambjóðendur Framsóknarflokksins í Norð­austurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu

Categories
Greinar

Fókus á ferðaþjónustu!

Deila grein

11/09/2021

Fókus á ferðaþjónustu!

Á síðasta áratug hefur ferðaþjónusta á Íslandi blómstrað. Fjöldi erlendra ferðamanna fjórfaldaðist frá 2010 til ársins 2019. Þessum vexti hafa fylgt margvísleg tækifæri fyrir byggðir landsins og víða má sjá uppbyggingu, tækifæri, mikinn kraft og lífleg samfélög um land allt. Umræðan í kringum ferðaþjónustuna hefur þó að einhverju leyti einkennst af vaxtarverkjum þar sem áherlan er æði oft á neikvæðar hliðar, fremur en þá staðreynd að ferðaþjónustan renndi þriðju stoðinni undir atvinnulíf landsins og átti gríðarstóran þátt í þeim efnahagsbata sem nú gerir okkur kleyft að vaxta út úr Covid kreppunni.

Öllum er ljóst að fólk og fyrirtæki í ferðaþjónustu urðu fyrir miklu og sértæku áfalli af völdum Covid. Tekjufall varð í mörgum tilfellum gríðarlegt og ef ekki hefðu komið til mjög markvissar aðgerðir stjórnvalda hefðu mörg þeirra staðið frammi fyrir gjaldþroti á liðnum vetri, ef ekki fyrr. Nú horfir hins vegar til betri vegar og ferðaþjónustan mun taka hratt og vel við sér, enda býr Ísland að einstakri náttúrufegurð, mannlífi og nú í hinum sí heitari heimi, loftslagi sem er bærilegt að sumarlagi.

Nýverið birtu Pétur Snæbjörnsson og félagar grein hér á vefnum sem ber heitið Framtíð ferðaþjónustu á Íslandi þar sem velt er vöngum yfir því hvernig hafi tekist að vinna í takt við þá stefnu sem við ræðum jafnan á tillidögum og snýr gjarnan að því að ná til hinna betur borgandi, stuðla að sjálfbærni og því að dreifa ferðamönnum. Niðurstöður þeirra eru sumpart sláandi og sýna svart á hvítu hversu mikið verk við eigum óunnið og hve illa okkur hefur í reynd tekist til.

Sem dæmi voru árið 2009 um 51% af gestakomum á höfuðborgarsvæðinu, en það hlutfall var 63% árið 2019. Á sama tímabili fjölgaði ferðamönnum úr tæplega hálfri milljón í ríflega tvær. Þetta gerist á sama tíma og talað er um mikilvægi þess að dreifa ferðamönnum um landið. Ein afleiðing þessa er að upplifun margra var átroðningur á mjög afmörkuðum svæðum, sem er eiginlega með ólíkindum þegar litið er til þess að nánast hvergi eru færri ferðamenn miðað við stærð lands en á Íslandi.

Áhrifin á fasteignamarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu eru þekkt með tilkomu Airbnb. Hvað hina betur borgandi varðar þá liggur fyrir að meðaleyðsla ferðamanna hefur dregist saman um nærri þriðjung á umræddu tímabili. Sjálfbærni í ferðaþjónustu er svo nánast á byrjunarreit og í raun er það verulegt umhugsunarefni hversu skammt við erum komin í þeim efnum og því miður var andrýmið á Covid tímanum ekki nýtt með nægilega markvissum hætti. Á því sviði er aðkallandi að auka menntun, fræðslu og stuðla að skilvirkri uppbyggingu á ferðamannastöðum og stofnunum ferðaþjónustunnar sem nú eru á víð og dreif um stjórnkerfið.

Hvað þarf að gera?

Það er ódýrt að benda á það sem miður er án þess að koma með tillögur að því sem betur má fara og það er ljóst að í hinum nýja heimi sem blasir við okkur eftir Covid og á tímum loftlagsbreytinga er þörf á ítarlegri naflaskoðun. 

Í fyrsta lagi verðum við að horfa til jafnvægis á milli efnahags-, umhverfis- og samfélagslegra áhrifa í ferðaþjónustu þar sem uppbygging og starfsemi tekur mið af sjálfbærni og sjálfbærri nýtingu auðlinda.

Í öðru lagi, líkt og fram kemur í grein Péturs og félaga, þurfum við að horfa til markvissari aðgerða sem styðja við dreifingu ferðamanna eða öllu heldur tækifæri þeirra til að dreifa sér sjálfir, ekki síst um gullfallega landsbyggðina. Í því samhengi mætti horfa til allra samgöngukerfa landsins með samþættingu að leiðarljósi. Sérstaklega er nauðsynlegt að horfa til uppbyggingar flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum og ryðja úr vegi hindrunum á þeirri vegferð, til að mynda ofuráherslu ISAVIA á uppbyggingu Keflavíkurflugvallar.

Í þriðja lagi þurfum við að bæta uppbyggingu og aðgangsstýringu á fjölförnustu ferðamannastöðum landsins sem í raun ættu að lúta sömu lögmálum og auðlindir sjávar þar sem áherslan er á sjálfbæra nýtingu á grunni rannsókna. Slík áhersla myndi styrkja uppbyggingu áfangastaða um land allt, en einnig styrkja upplifun gesta okkar og ímynd landsins til lengri tíma. 

Í fjórða lagi þarf áhersla í markaðsstarfi að taka mið af þeim markmiðum sem sett eru með það fyrir augum að laða hingað verðmætari ferðamenn en nú er. 

Að lokum er löngu tímabært að ferðaþjónustan fái viðeigandi vægi og rödd innan stjórnkerfisins.

Helgi Héðinsson.

Höfundur hefur starfað í ferðaþjónustu í 16 ár og skipar 4. sætið á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. september 2021.

Categories
Greinar

Börnin okkar

Deila grein

20/08/2021

Börnin okkar

Í heimi sem einkennist af síauknum hraða og kapphlaupi við lífsins gæði, hættir okkur til að gleyma því sem mestu máli skiptir. Við gleymum að hugsa um heilsuna og vöknum upp við það einn daginn að við erum komin upp við vegg. Við gleymum að rækta samböndin sem allt í einu eru kulnuð. Við gætum ekki að því að njóta samvista með börnunum okkar sem allt í einu eru orðin fullorðin. Við gerum öll sömu mistökin. Dag eftir dag, ár eftir ár.

Mörg höfum við orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að ala upp börn. Börn setja alla hluti í annað samhengi og opna fyrir okkur víddir sem við vissum ekki að væru til. Allt í einu er ekkert eins og áður. Við grátum af gleði. Við óttumst skyndilega hluti sem áður voru sjálfsagðir. Við upplifum tilfinningar af áður óþekktum styrk og það rennur upp fyrir okkur þegar við horfum á börnin að í þeim koma saman allir geislar sólarinnar. Allar gersemar mannlegrar tilvistar.

Framfarir

Mörg helstu framfaraskref sögunnar eiga það sameiginlegt að vera svo augljós, en aðeins þegar einhver annar hefur rutt veginn. Oft af ómældum metnaði sem drifinn er áfram af skýrri sín á markmiðið og tilganginn. Mér varð hugsað til þess þegar ég las viðtal við Ásmund Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra Framsóknarflokksins, þar sem hann lýsti því hvers vegna hann setti málefni barna í algeran forgang, að þarna hefði hann stigið skref af þessu tagi. Augljóst framfaraskref og vakti mann til umhugsunar hvers vegna þetta hafði ekki verið gert fyrir löngu. Hvað gæti eiginlega skipt meira máli?

Vegferð Ásmundar og þess öfluga Framsóknarfólks sem er honum að baki hefur verið aðdáunarverð og á skömmum tíma hefur hann hrundið í framkvæmd kerfisbreytingum sem skipta munu sköpum í lífi barna og aðstandenda þeirra. Í stað þess að börn og aðstandendur þurfi að aðlaga sig að flóknu kerfinu verður kerfið aðlagað til að mæta fjölbreyttum þörfum barnanna. Börnin miðpunkturinn og þarfir þeirra aðalatriðið. Við þurfum nefnilega æði mörg stuðning og aðstoð þegar á reynir og hvert einasta barn sem við náum að styðja til betra lífs er verðmætara en allt gull heimsins. Margt er enn óunnið, en ég vona sannarlega að Ásmundur leiði þá vegferð sem hann hefur komið af stað á komandi kjörtímabili. Það er kjósenda að tryggja að svo verði.

Helgi Héðinsson, oddviti Skútustaðahrepps og frambjóðandi Framsóknarflokksins í komandi alþingiskosningum.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. ágúst 2021.