Við veitum því ekki eftirtekt í daglegu lífi en snúningur jarðar gerir það að verkum að við erum í raun á ríflega 700 kílómetra hraða á klukkustund alla daga hér á Íslandi. Að sama skapi er samfélagið á fleygiferð þótt við tökum ef til vill ekki alltaf eftir því. Það er áhugavert, á köflum átakanlegt, að hlusta á málflutning ríkisstjórnarflokkanna þar sem þeim verður tíðrætt um að „rjúfa kyrrstöðuna“. Fyrir skömmu fór þingflokksformaður Samfylkingarinnar mikinn í Vikulokunum á Rás 1 og þingmaður Viðreisnar, María Rut Kristinsdóttir, skrifaði grein í sama anda í Morgunblaðinu 19. febrúar. Ragnar Þór Ingólfsson, þingmaður Flokks fólksins, ritar grein í sama dúr hinn 25. febrúar. Yfirlýsingar þeirra eru reistar á ótrúlegri staðreyndafirringu – eða þá að staðreyndirnar skipta þau hreinlega engu máli.
Húsnæðismál: Öflugasta uppbygging í áratugi
Á undanförnum misserum hefur gríðarlegur þungi verið lagður í uppbyggingu húsnæðis. Sigurður Ingi Jóhannsson og Framsókn hafa leitt margvísleg mikilvæg verkefni sem beinast að því að tryggja jafnvægi á húsnæðismarkaði og auka húsnæðisöryggi landsmanna.
• Síðastliðin sjö ár hefur fullbúnum íbúðum á landinu fjölgað um 25.000 og aldrei áður hafa jafn margar íbúðir verið byggðar utan höfuðborgarsvæðisins.
• Tímamótasamningur ríkis og sveitarfélaga var undirritaður árið 2022 um að byggja 35.000 íbúðir frá 2023 til 2032. Þar af eiga 30% að vera hagkvæm fyrir tekju- og eignaminni hópa og 5% félagslegt húsnæði. Þetta markmið skal endurskoða árlega og Reykjavík reið á vaðið með sérstakan samning um 16.000 nýjar íbúðir á tíu árum.
• Ríkisstjórnin hefur stóraukið stofnframlög og hlutdeildarlán; um 4.300 íbúðir hafa verið fjármagnaðar með þessum hætti og stuðningur ríkisins við húsnæðismál hleypur á tugum milljarða króna.
• Sérstakur vaxtastuðningur var greiddur út vegna hækkandi vaxta, 5,5 milljarðar króna sem náðu til tæplega 56 þúsund einstaklinga.
• Réttarstaða leigjenda var styrkt með endurskoðun á húsaleigulögum og sveitarfélög fengu auknar heimildir til að tryggja að byggingarframkvæmdir gengju eftir, meðal annars með tímabundnum uppbyggingarheimildum.
Stórsókn í samgöngumálum
Önnur fullyrðing sem oft heyrist frá talsmönnum „kyrrstöðukórsins“ er að ekkert miði í samgöngum. Staðreyndirnar segja annað:
• Fjárfestingar í samgöngum hafa verið með mesta móti síðustu ár og verulega verið bætt í viðhald vega. Alþingis bíður að fjalla um og staðfesta nýja samgönguáætlun, en á þeirri samgönguáætlun sem lögð var fyrir þingið síðastliðinn þingvetur fyrir árin 2024-2038 eru 909 milljarðar króna í beina fjárfestingu á fimmtán árum, þar af 263 milljarðar fyrstu fimm árin. Þar að auki bætist við fjármögnun í samstarfsverkefnum eins og Sundabraut og Ölfusárbrú.
• Einbreiðum brúm fækkar stöðugt og stefnt er að því að engin einbreið brú verði eftir að loknu áætlunartímabilinu. Gríðarlegt átak í bundnu slitlagi heldur áfram, auk samgönguverkefna á borð við Reykjanesbraut, Suðurlandsveg, Kjalarnes, Fossvogsbrú, framkvæmdir sem tilgreindar eru í jarðgangaáætlun og aðrar framkvæmdir víða um land. Framkvæmdir við Sundabraut eru komnar á rekspöl þannig að stefnt er að opnun árið 2031.
• Varaflugvallargjald var leitt í lög til að byggja upp innanlandsflugvelli og veruleg uppbygging hefur átt sér stað meðal annars á Akureyrarflugvelli.
Heilbrigðismál: Aldrei meiri fjárfesting
Sjaldan hafa orðið jafn víðtækar framfarir í heilbrigðiskerfinu og á síðustu árum. Willum Þór Þórsson fv. heilbrigðisráðherra beitti sér af miklu afli fyrir fjölbreyttum aðgerðum til að bæta þjónustu og lækka greiðsluþátttöku sjúklinga:
• Langtímasamningar við sjúkraþjálfara, sérgreinalækna og tannlækna sem teknir voru upp eftir fjögurra ára samningsleysi.
• Stóraukin endurhæfingarrými, uppbygging á bráðamóttökum og heilsugæslustöðvum um allt land; m.a. í Reykjanesbæ og á Akureyri.
• Margir biðlistar hafa styst með samningum til að mynda um kaup á liðskiptaaðgerðum og aðgerðum vegna endómetríósu.
• Fjarskiptalæknir og uppbygging tæknibúnaðar við bráðaþjónustu um land allt, til að jafna aðgengi og bæta öryggi.
• Miklar framkvæmdir standa yfir vegna Nýja Landspítalans (stærsta opinbera framkvæmd Íslandssögunnar) upp á samtals 210 milljarða, auk þess sem ráðist hefur verið í undirbúning að áfanga 2 og nýju geðsjúkrahúsi. Svo mætti lengi áfram telja.
Kyrrstaðan í efnahagsmálum?
Ein furðulegasta goðsögnin er að íslensk efnahagsmál séu í kyrrstöðu. Þvert á móti hefur hagvöxtur verið kröftugur og atvinnuleysi með því minnsta sem þekkist í Evrópu.
Ísland hefur staðið af sér miklar áskoranir, frá falli WOW til heimsfaraldurs covid-19 og jarðhræringa á Reykjanesi. Þrátt fyrir það hefur hagkerfið sýnt ótrúlega þrautseigju, þar sem hagvöxtur hefur haldist sterkur og atvinnuleysi verið minna en í ESB undanfarinn áratug. Raunar hefur helsta áskorun Seðlabankans verið að halda aftur af þessum mikla krafti m.a. með hækkun vaxta.
Kyrrstaðan um ESB
Eina raunverulega kyrrstaðan sem þessi ríkisstjórn gæti rofið er kyrrstaðan um aðild að Evrópusambandinu. Sá leiðangur var genginn til þrautar síðast þegar Samfylkingin sat í forsætisráðuneytinu og að lokum var viðræðum slitið. Í ljós hafði komið, sem margir höfðu raunar bent á löngu áður, að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan sambandsins. Leiðangurinn var kostnaðarsamur og tímafrekur, skipti íslenskri þjóð upp í fylkingar og niðurstaðan fyrirsjáanleg. Nú á að gera sömu mistökin aftur.
Það eina sem hefur breyst er að nýútgefnar skýrslur staðfesta að Evrópa stendur frammi fyrir verulegum áskorunum, atvinnuleysi er óviðunandi, hagvöxtur slakur og skortur á samkeppnishæfni verulegt áhyggjuefni. Á sama tíma hefur íslenskt efnahagslíf einkennst af miklum þrótti síðustu ár og ein helsta áskorunin falist í því að halda aftur af spennu og afleiddri verðbólgu.
Þegar allt kemur til alls
Er allt fullkomið? Nei. Auðvitað ekki. Áskoranir við stjórnun og framþróun samfélagsins munu alltaf fyrirfinnast og verkefni nýrrar ríkisstjórnar verður án efa krefjandi þótt hún taki sannarlega við góðu búi fyrri ríkisstjórnar. Upp munu koma áskoranir sem ekki eru á sjóndeildarhringnum þegar þetta er skrifað og öll getum við sameinast í því að óska þeim sem fara með valdið velfarnaðar.
Allt tal um að rjúfa kyrrstöðu er innantómt þegar horft er til staðreynda. Það má kannski gefa talsmönnum Samfylkingar og Viðreisnar prik fyrir snjalla pólitík, því það er sannarlega auðvelt að „rjúfa kyrrstöðu“ sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Áróður þeirra skilaði nokkrum árangri í síðustu kosningum, en nú væri vert að þau nálguðust verkefni sín af virðingu og ábyrgð og hættu þessum fyrirslætti.
Svo má kannski svona á léttum nótum í restina, úr því þingmaður Viðreisnar er áhugasamur um að skíra börn sem nálgast fermingu með vísan í skrif hennar um fyrri ríkisstjórn, gefa nýrri ríkisstjórn nafn við hæfi. Nafnið „endurvinnslustjórnin“ færi þeim vel, enda er lítið að frétta af þeim bænum annað en framlagning frumvarpa fyrri ríkisstjórnar.
Helgi Héðinsson, framkvæmdastjóri Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. mars 2025.