Categories
Fréttir Greinar

Rödd skyn­seminnar

Deila grein

20/10/2024

Rödd skyn­seminnar

Stjórnvöld og ákvarðanir þeirra spegla þann tíðaranda sem er uppi hverju sinni, enda samsett fólki sem er þverskurður samfélagsins. Það er mikilvægt að líta um öxl og horfa gagnrýnum augum á þær ákvarðanir sem stjórnvöld hafa tekið í tilraun til þess að tryggja að ákvarðanir framtíðarinnar séu hafnar yfir persónulegar kreddur, vanþekkingu, fordóma og óöryggi. Stjórnvöld verða að tryggja það að hagsmunir heildarinnar eru hafðir að leiðarljósi um leið og staða þeirra verst settu í samfélaginu er sett á oddinn og bætt með öllum þeim leiðum sem okkur framast er unnt.

Langar mig í framhaldinu að minna á að Ísland á ekki fegurstu söguna þegar kemur að framkomu gagnvart konum og stúlkum. Í því samhengi nefni ég ástandið en bókin Kynlegt stríð eftir Báru Baldursdóttur kom út nýverið og varpar ljósi á tvö lykilskjalasöfn sem varpa algjörlega nýju ljósi á efnið sem við töldum okkur öll þekkja þokkalega vel. Íslensk stjórnvöld stunduðu á þeim tíma miklar persónunjósnir gagnvart konum og börnum og beittu stúlkur ofbeldi og frelsisviptingu vegna mögulegra samneyta þeirra við erlenda karlmenn.

Við verðum að læra af sögunni og vinna markvisst að því að hún endurtaki sig ekki, að við stöndum ekki vörð um kerfi sem eru mannanna verk og verja sérhagsmuni eða halda ákveðnum hópum samfélagsins í fjárhagslegri eða félagslegri gíslingu.

Bakslag um allan heim í stöðu jafnréttismála er einnig merkjanlegt í íslensku samfélagi og jafnréttisparadísin Ísland rétt slefar í það sæti. Við höfum dregist aftur úr okkar helstu viðlíkjendum hvað varðar t.d. heilsu og menntun kvenna og annarra jaðarsettra hópa hér á landi. Við þurfum í okkar stefnu að beina sjónum okkar að því sem viðheldur bágri stöðu kvenna og annarra jaðarsettra hópa.

Eru það þá helst vinnumarkaðstengdir þættir og í fyrsta lagi má nefna lágt virðismat kvennastétta.

Ég verð hér að benda á kjarabaráttu kennara, einnar stærstu kvennastéttarinnar. Það virðist vera „landlægur andskoti“ að kennarar þurfi að sætta sig við lág laun og krefjandi vinnuaðstæður af því að þeir eru svo lánsamir að „fá að kenna“ eins og formaður Samtaka Atvinnulífsins komst svo skemmtilega að orði í fjölmiðlum í vikunni.

Í öðru lagi og tengist einnig vinnumarkaði eru hlutastörf – en þriðjungur kvenna er í hlutastörfum til að geta axlað frekar þau umönnunarstörf sem falla til innan sem utan heimilisins.

Í þriðja lagi og það sem kemur á óvart að er ekki einu sinni breyta í jafnréttismælingum er kynbundið ofbeldi. Við gætum tekið langa stund til að telja upp nýleg atvik sem snúa að kynbundnu ofbeldi þar sem ljótasta birtingarmyndin eru kvenna- og barnamorð.

Bakslag hvað stöðu jafnréttis varðar er svo sannarlega greinanlegt hér á landi. Tölfræðin er svört þegar við skoðum fjölda kvenna sem starfa eða starfað hafa á Alþingi bæði sem kjörnir fulltrúar og sem starfsmenn þingsins og hafa orðið fyrir kynbundinni áreitni eða ofbeldi í starfi eða 80%. Það eru svimandi háar tölur.

Þetta er ekki fasti, þetta er menning sem þarf að uppræta.

Þessar tölur birtast á sama tíma og við þurfum að hvetja konur til að taka aukinn þátt í stjórnmálum svo jafnrétti verði hér náð. En þátttaka kvenna í stjórnmálum er grundvöllur jafnréttis.

Í stjórnmálum höfum við val um stefnu og strauma. Við höfum valið að setja skynsemina á oddinn og tala af yfirvegun og gegn þeirri pólun sem hefur átt sér stað í stjórnmálunum. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að rödd skynseminnar nái í gegnum falsfréttir og popúlisma og komist alla leið inn að ríkisstjórnarborðinu á ný.

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, kennari og formaður Kvenna í Framsókn.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. október 2024.

Categories
Greinar

Ályktun frá LFK vegna bleika skattsins!

Deila grein

29/11/2020

Ályktun frá LFK vegna bleika skattsins!

Landssamband Framsóknarkvenna hvetur stjórnvöld til að hlusta á rödd ungra kvenna um land allt um að afnema „bleika skattinn“.

Skattlagning nauðsynjavara sem helmingur þjóðarinnar þarf að nota er ekki ásættanleg og er mismunun ríkisvalds á þegnum sínum í sinni einföldustu mynd. Fjárhagur heimilanna á ekki að vera valdur því að hluti landsfólks geti ekki nálgast nauðsynjavörur á við tíðavörur þegar á þarf að halda.

LFK hvetur efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til að endurskoða afstöðu sína til skattlagningar á tíðavörum og horfa á málið með jafnréttisgleraugum enda starfa þingmenn í þágu alls landsfólks, ekki bara þeirra sem fara ekki á túr.

Hvetur LFK stjórnvöld enn fremur til þess að fylgja Skotum í þessu máli, en nýlega var þar samþykkt frumvarp sem skyldar sveitarfélög til að tryggja öllum þeim sem á þurfa að halda, tíðarvörur á borð við túrtappa, dömubindi, eða margnota tíðarvörur, gjaldfrjálst.

Í það minnsta hvetur LFK stjórnvöld til að gera skólum og öðrum opinberum stofnunum það skylt að bjóða upp á tíðavörur gjaldfrjálst þeim sem þær þurfa að nota”.

Fyrir hönd Landssambands Framsóknarkvenna,

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, varaformaður LFK.

Categories
Greinar

Fjölskylduflokkurinn

Deila grein

22/11/2020

Fjölskylduflokkurinn

Í dag, 21. nóvember, á Landssamband Framsóknarkvenna 39 ára afmæli. Í 39 ár hafa konur innan Framsóknarflokksins barist ötullega fyrir réttindum kvenna, bæði innan flokksins sem utan hans. Hlutverk kvennahreyfingarinnar er að stuðla að og hvetja konur til þátttöku og ábyrgðar í stjórnmálum. Jafnframt jafna tækifæri kvenna til virkrar þátttöku í félagsstarfi sem og atvinnulífi. Aðeins með virkri þátttöku kvenna í stjórnmálum og á vinnumarkaði náum við fram raunverulegu jafnrétti kynjanna.

Fyrstu lögin um fæðingar- og foreldraorlof var pólitísk aðgerð og til þess fallin að auka jafnrétti og möguleika kvenna til þátttöku á vinnumarkaði. Innleiðing á rétti feðra til fæðingarorlofs var einnig pólitísk aðgerð og þá í þágu jafnréttis karla og kvenna, bæði á vinnumarkaði sem og á heimilum með því að jafna fjölskylduábyrgð og þátttöku í uppeldi barna. Það voru fjölskyldugildi Framsóknar sem komu þessu á legg og nú heldur Framsókn áfram veginn og bætir um betur með frumvarpi Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra. Aukin þátttaka og ábyrgð feðra í uppeldi og umönnun barna sinna styður við stöðu kvenna á vinnumarkaði. Feður, mæður og börn græða á auknu jafnræði eða jafnvægi í töku fæðingarorlofs. Lögin eru ekki óbrigðul og einn helsti galli þeirra er líklega sú kynjaða mynd sem dregin er upp af fjölskyldumynstri, foreldrar eru tveir, karl og kona. Þó það sé sannarlega algengasta formið er það langt frá því það eina. Núgildandi lög gera ráð fyrir því nýja normi sem fjölbreytt fjölskyldumynstur er og halda áfram að gera það í nýju frumvarpi.

En nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof. Helstu breytingarnar frá fyrri lögum eru þær að um lengingu orlofstímans er að ræða. Hrein viðbót við núverandi kerfi. Lengi hefur verið kallað eftir þessari breytingu og nú er þessi lenging í augsýn. Því fögnum við Framsóknarkonur! Með nýjum lögum geta foreldrar verið í 12 mánuði heima með barni sínu í stað 9 mánaða í núgildandi lögum. Sjálfstæðir foreldrar fá 12 mánaða orlof til að verja með sínu barni. Skýr réttur feðra í núverandi lögum er áfram staðfestur en með lengingu orlofsréttar þeirra til jafns við orlofsrétt mæðra.

Rannsóknir sýna að löng fjarvera mæðra frá vinnumarkaði hafði og hefur enn neikvæð áhrif á stöðu þeirra innan vinnumarkaðar. Jafnframt að auknar líkur eru á að mæður snúi aftur í fullt starf eftir barneign eftir að sjálfstæður réttur feðra til fæðingarorlofs kom til.

Með jöfnun sjálfstæðs réttar feðra og mæðra til orlofstöku styrkist staða feðra til að nýta rétt sinn á vinnumarkaði, en rannsóknir sýna að viðhorf launþega er jákvæðara í garð fæðingarorlofs en viðhorf atvinnurekenda. Feður, hvort sem þeir búa með barnsmóður eður ei, verja nú mun meiri tíma í samveru og umönnun barna sinna en áður. Með lengingu á fæðingarorlofinu og auknum rétti feðra til orlofstöku má ætla að verið sé að tryggja betur rétt barna til samvista við við báða foreldra, enda er jafnrétti börnum fyrir bestu.

Frekari fróðleik um breytingar á lögum um fæðingarorlof má finna á www.betrafaedingarorlof.is.

Til hamingju Íslendingar með framsækið frumvarp!

Fyrir hönd stjórnar Landssamband Framsóknarkvenna.

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, varaformaður Landssambands framsóknarkvenna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. nóvember 2020.