Valgerður Sverrisdóttir hefur sett sterkan svip á íslensk stjórnmál sem alþingismaður, ráðherra og formaður Framsóknarflokksins. Hún fæddist þann 23. mars árið 1950 á Lómatjörn í Grýtubakkahreppi í Eyjafirði. Á ferli sínum hefur Valgerður brotið blað í sögu íslenskra stjórnmála, ekki síst sem ein fárra kvenna sem komust til áhrifa innan karllægs umhverfis stjórnmálanna á seinni hluta 20. aldarinnar.

Valgerður tók sæti á Alþingi árið 1987 fyrir Framsóknarflokkinn og sat samfleytt sem þingmaður Norðurlands eystra og síðar Norðausturkjördæmis allt fram til ársins 2009. Valgerður var formaður þingflokks Framsóknarflokksins frá 1995-1999. Hún varð fyrsta konan til að gegna embætti iðnaðarráðherra árið 1999, en hún gegndi embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra til ársins 2006 og síðar utanríkisráðherra, fyrst kvenna, frá 2006 til 2007. Með þessum embættisverkum ruddi hún brautina fyrir konur í íslenskum stjórnmálum og var fyrirmynd margra sem á eftir komu.
Árið 2007 tók Valgerður við formennsku í Framsóknarflokknum tímabundið og varð þar með ein fárra kvenna til að leiða íslenskan stjórnmálaflokk og fyrsta og eina konan til þessa að sinna því embætti.
Þótt formannstíð hennar hafi ekki verið löng markaði hún skýr spor í jafnréttisbaráttu og hvatti til aukinnar þátttöku kvenna í stjórnmálum og stjórnunarstöðum. Áhersla Valgerðar á málaflokka jafnréttis, félagslegra umbóta og eflingu atvinnulífs á landsbyggðinni hefur skapað henni sess sem áhrifaríkum leiðtoga og rödd dreifðra byggða. Hún hefur einnig tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi og komið fram sem málsvari Íslands á erlendum vettvangi, þar sem hún kynnti stöðu íslenskra kvenna og hvatti til aukinnar þátttöku kvenna í stjórnmálum víða um heim. Með þátttöku sinni í slíkum verkefnum hefur Valgerður orðið fyrirmynd ekki aðeins fyrir íslenskar konur heldur einnig alþjóðlega.
Valgerður Sverrisdóttir hefur með störfum sínum sýnt fram á að það er hægt að brjóta múra og ryðja brautina fyrir aukið jafnrétti í stjórnmálum. Hún hefur talað opinskátt um hindranir sem konur hafa mætt á ferlinum og varpað ljósi á hvernig kerfisbreytingar eru nauðsynlegar til að tryggja raunverulegt jafnrétti kynjanna. Þótt Valgerður hafi dregið sig til baka frá virkri stjórnmálaþátttöku heldur hún áfram að tala fyrir jafnrétti og betri stöðu kvenna í samfélaginu. Framlag hennar er vitnisburður um mikilvægi þess að konur séu sýnilegar og virkir þátttakendur í opinberu lífi. Saga hennar minnir okkur á mikilvægi þess að standa vörð um jafnrétti kynjanna og halda áfram þeirri baráttu sem hún tók þátt í að móta og leiða.
Valgerður fagnar um þessar mundir 75 ára afmæli sínu. Fyrir hönd sambands kvenna í Framsókn sendi ég henni kærar kveðjur af tilefninu og um leið innilegar þakkir fyrir sitt mikilvæga framlag til íslenskra stjórnmála og þátttöku kvenna í stjórnmálum.
Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, formaður Kvenna í Framsókn.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. mars 2025.
Mynd: Alþingi.