Categories
Greinar

Óvissuflugið þarf að enda

Deila grein

16/08/2022

Óvissuflugið þarf að enda

Reykjanesskagi hefur enn á ný bært á sér. Jarðvísindamenn halda því fram að eldgosið í Meradölum og gosið í Geldingardölum gætu verið upphafið að löngu eldgosatímabili á Reykjanesskaga. Ekki er útilokað að þetta gostímabil gæti virkjað eldstöðvar nær Reykjavík þótt litlar líkur séu þó á því. Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, en með vitneskju um mögulega ógn af hraunrennsli næstu ár er eðlilegt að við hugum að því hvaða uppbyggingu við viljum fjárfesta í á svæðinu.

Óvissan um Hvassahraun

Síðustu ár hefur mikið verið rætt um uppbyggingu á nýjum flugvelli í Hvassahrauni. Undanfarna daga hefur greinilega komið fram í umræðunni að eldgos á Reykjanesi breytir mati og viðhorfum sérfræðinga og almennings til flugvallarkostsins í Hvassahrauni og enn einu sinni kemur í ljós að Reykjavíkurflugvöllur er afar mikilvægur hvort sem litið er á hann sem varaflugvöll eða almennan flugvöll fyrir innanlandsflug, sjúkraflug, þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar o.fl. Þegar Hvassahraun þótti vænlegasti staðurinn fyrir uppbyggingu flugvallar byggði það á spám um að ekki myndi gjósa á Reykjanesskaga næstu tvær aldir. Nú er komin upp ný staða sem ekki er hægt að líta fram hjá. Veðurstofan hefur það verkefni nú að meta áhættuna og stefnt er að því að hún skili því verkefni af sér á fyrrihluta næsta árs. Ef niðurstaða þess verkefnis leiðir í ljós að Hvassahraun sé ekki vænlegur kostur þarf að skoða hvort og ef annar og betri staður finnst. Slíkt tekur mörg ár, en það tekur um 15-20 ár að meta, hanna og byggja slíkan völl. Á sama tíma eru önnur stór og dýr verkefni framundan s.s. Sundabraut, Borgarlína og Landspítali, ásamt því að bæta þarf og byggja upp flugvelli á Akureyri og Egilsstöðum svo nýta megi þá flugvelli betur þar sem kröfur eru sífellt að aukast, bæði vegna ferðaþjónustu og fraktflutninga á ferskvöru.

Við eigum flugvöll

Styrkur Reykjavíkurflugvallar er gríðarlegur. Mikilvægt er að hefjast handa við að efla hann enn frekar og bæta. Reykjavíkurflugvöllur er samfélagslega mikilvægur, nálægð við miðborg, stjórnsýslu, háskóla og Landspítala spilar þar lykilhlutverk. Í umræðunni um uppbyggingu íbúðabyggðar í Vatnsmýrinni gleymist oft mikilvægi nálægðar Reykjavíkurflugvallar við Landspítalann. Samkvæmt lögum eiga allir landsmenn rétt á sömu heilbrigðisþjónustu. Í því samhengi er mikilvægt að einfalt sé að nálgast þá þjónustu, flugvöllur í Reykjavík tryggir það. Vissulega er nauðsynlegt að bæta heilbrigðisþjónustu út á landi en óraunhæft er að veita alla þá þjónustu þar sem þörf kann að vera á. Þá er völlurinn einnig afar mikilvægur fyrir ferðaþjónustu um allt land. Á næstu árum er fyrirséð að miklar tækniframfarir komi til með að eiga sér stað í fluginu. Rafmagnsflugvélar eru á næsta leiti og Reykjavíkurflugvöllur getur orðið einn af styrkleikum borgarinnar til næstu áratuga með rafmagnsflugvélar í notkun nálægt stærsta atvinnu og háskólasvæði höfuðborgarinnar, vísinda og grósku í nýsköpun í Reykjavík Science City og með Landspítala á sama svæði.

Nú er mál að linni

Ef litið er til skýrslu vinnuhóps sem hét „Flugvallarkostir á suðvesturhluta landsins“ (skýrsla Eyjólfs Árna Rafnssonar frá árinu 2019), er ekkert sem bendir til þess að Reykjavíkurflugvöllur fari næstu 15-20 árin og afar vafasamt að Hvassahraun sé álitlegur kostur, ekki síst í ljósi síðustu atburða, þótt hann komi þar helst til greina. Vegna óvissu hefur Reykjavíkurflugvöllur ekki fengið nauðsynlega yfirhalningu í 20 ár. Beðið hefur verið með viðhald vegna hugmynda um nýjan flugvöll sem nú virðast vera að renna út í sandinn, já eða út í hraun. Við þurfum að hætta þessari óvissu um Reykjavíkurflugvöll og þrengja ekki meir að vellinum. Nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum, við getum ekki látið önnur 20 ár líða.

Ingibjörg Isaksen,  þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Níu ára stöðnun rofin

Deila grein

20/06/2022

Níu ára stöðnun rofin

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að Ísland eigi að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu. Við viljum að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn loftlagsvánni og ætlum okkur að uppfylla ákvæði Parísarsamningsins. Við höfum jafnframt sett okkur markmið um að Íslands nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Þetta eru góð markmið en umhverfisvernd felst ekki síður í því að vernda loftslagið og það gerist ekki nema með orkuskiptum. Orkuskipti eru ríkur þáttur í framlagi Íslands til að ná árangri í baráttunni við loftlagsvánna. En svo þeim markmiðum sé náð verðum við að tryggja aðgang að grænni orku með sjálfbærri þróun að leiðarljósi.

Hvaðan kemur orka framtíðarinnar?

Það liggur fyrir að auka þarf framboð á innlendri, endurnýjanlegri orku svo hægt sé að leysa af hólmi aðflutta orkugjafa líkt og olíu. En mikilvægt er að sátt ríki um þær virkjanir sem þarf til þess að byggja upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag. Mestu skiptir að það verði gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins samhliða því að horft sé til betri orkunýtingar, þá þarf að koma í veg fyrir tap á orku úr orkukerfinu ásamt því að bæta nýtingu á þeim virkjunum sem fyrir eru. Vernd og friðun á tilteknum landsvæðum er nauðsynleg, en gæta þarf varúðar þegar ákveðið er að friðlýsa stór svæði til framtíðar. Enn er ósvarað um hvaðan orka framtíðarinnar eigi að koma og það er komandi kynslóða að taka ákvarðanir um það. Þó að með rammaáætlun nú séu ekki teknar ákvarðanir að setja tiltekin svæði í vernd þýðir það þó ekki að þau eigi að fara í nýtingu heldur skiljum við þær ákvarðanir eftir fyrir þingmenn framtíðarinnar. Orkusjálfstæði þjóða verður sífellt mikilvægara í kvikum heimi og nauðsynlegt að þjóðir geti brugðist hratt við breyttum forsendum.

Varfærin skref stigin með rammaáætlun

Rammaáætlunin er mikilvægt stjórntæki sem varðar vernd svæða og orkunýtingu og sem vert er að halda í og styrkja enn frekar. Hún nær yfir helstu orkulindir landsins og í meðferð hennar á að taka tillit til ólíkra hagsmuna á breiðum grundvelli. Því miður hefur það tafið framfarir hversu lengi rammaáætlun hefur staðið föst í þinginu því það er nauðsynlegt að fá hreyfingu á málin svo við getum staðið við skuldbindingar okkar. Það er mikilvægt að við nýtum landið okkar af varfærni því við viljum að komandi kynslóðir fái áfram að njóta náttúru landsins. Okkar dýrmætasti arfur til komandi kynslóða er hrein og tær náttúra, en svo við getum skilað af okkur arfinum með þeim hætti þurfum við að skipuleggja hvernig við göngum um náttúru landsins með skýrri framtíðarsýn. Rammaáætlun er ætlað að tryggja að nýting landsvæða byggist á langtímasjónarmiðum og víðtæku samráði um verndargildi náttúru og menningar, hagkvæmni og arðsemi. Lýðræðislegu ferli rammaáætlunar er nú lokið og langþráðu markmiði hefur verið náð.

Biðflokkur er ekki nýting

Í samræmi við markmið stjórnarsáttmálans hefur kostum í biðflokki verið fjölgað. Betra fer á því að virkjunarkostir séu flokkaðir í biðflokk heldur en verndar eða nýtingarflokk á meðan frekari gagna er aflað. Mikilvægt er að samfélagsleg áhrif og óvissa um raunveruleg áhrif framkvæmda á náttúru og lífríki liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin um hvort svæði eigi að fara í verndar eða nýtingaflokk. Ég vil árétta að þó svæði séu flutt í biðflokk þýðir ekki að þau séu sjálfkrafa komin í nýtingarflokk eða verndarflokk heldur er verið að endurmeta og endurskoða þessa kosti. Svæði geta aftur verið færð í fyrri flokka en það er langt síðan að fyrri verkefnastjórn gerði tillögu um þessi svæði og eðlilegt að þau séu endurskoðuð.

Þá hafa einnig kostir sem ekki áttu heima í biðflokki verið teknir út. Athugasemdir komu fram að fjölmarga virkjunarkosti væri að finna í biðflokki áætlunarinnar sem enginn virkjunaraðili hafi óskað eftir mati á. Um er að ræða 28 virkjunarkosti, ýmist til nýtingar vatnsafls eða jarðhita. Ástæða þess að viðkomandi virkjunarkostir eru flokkaðir í biðflokk er fyrst og fremst sú að ekki eru til nægjanleg gögn um viðkomandi virkjunarkost og því ekki nægilegar forsendur til að hægt sé að leggja til flokkun í verndarflokk eða nýtingarflokk. Á meðan virkjunarkosturinn flokkast í biðflokk eru takmörk lögð á aðra landnýtingu á svæðinu.

Þannig eru dæmi um að ekki sé hægt að friðlýsa virkjunarkosti í verndarflokki gegn orkuvinnslu þar sem virkjunarkostur innan sama svæðis er í biðflokki. Því mætti segja að viðkomandi virkjunarkostur sé að vissu leyti fastur í biðflokki þar sem enginn virkjunaraðili er að vinna í þróun hans og þar á meðal öflun nauðsynlegra gagna til að hægt sé að leggja til endanlega flokkun í vernd eða nýtingu.

Framtíðin býr í vindinum

Þá er beislun vindorku loksins komin á dagskrá fyrir alvöru. Fjölbreytni í orkuöflun stuðlar að bættu orkuöryggi og sveigjanleika orkukerfisins. Þó að Ísland búi enn yfir óbeisluðu vatnsafli

og jarðvarma, er skynsamlegt að auka fjölbreytni í orkugjöfum með hagnýtingu vindorku og annarra nýrra endurnýjanlegra orkukosta fyrir raforkuvinnslu. Vindorka er bæði hagkvæm og endurnýjanleg og sem slík einn af betri kostum til framtíðar orkuvinnslu.

Vindorkukostinum í Búrfellslundi var í meðförum þingsins færður úr biðflokki í nýtingarflokk. Meiri hlutinn nefndarinnar taldi að Búrfellslundur geti verið mikilvægur hluti þess að tryggja betur nýtingu þeirra vatnsaflsvirkjana sem fyrir eru á svæðinu auk þess sem það rennir styrkari stoðum undir orkuöryggi. Öll sú orka sem býr í vindinum getur verið lykilþáttur þegar kemur að því að tappa af þeim þrýstingi sem skapast hefur á kerfið síðustu ár vegna tafa í afgreiðslu á rammanum. Framtíðin býr svo sannarlega í vindinum.

Við þurfum að horfa til framtíðar

Í dag státar engin önnur þjóð af jafn háu hlutfalli grænnar orku af heildar orkunotkun og við Íslendingar gerum og af því getum við verið stolt. Langan tíma tekur að virkja nýja orkukosti, langtímaáætlanir þurfa að gera ráð fyrir orkukostum til að mæta framtíðarþörfum og auka þannig fyrirsjáanleika og stöðugleika. Því skiptir gríðarlegu máli að sú stöðnun sem ríkt hefur síðustu níu ár hafi verið rofin aðeins þannig er hægt að halda áfram nauðsynlegri vinnu. Möguleikar til þess að ná loftlagsmarkmiðum og orkuskiptum lifir nú áfram.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. júní 2022.

Categories
Greinar

Fram­tíðin er í sam­ræmdum vef­gáttum

Deila grein

23/05/2022

Fram­tíðin er í sam­ræmdum vef­gáttum

Áhverju ári kemur fram ný tækni sem auð­veldar okkur lífið og við verðum að vera dug­leg að nýta okkur hana og til­einka. Sí­fellt fleiri mögu­leikar opnast með raf­rænum lausnum og mikil­vægt er að ríkið sé til­búið að inn­leiða þær í sitt verk­lag. Raf­rænar vef­gáttir hafa verið að ryðja sér til rúms í auknum mæli, enda eru þær til þess fallnar að spara tíma, tryggja betra að­gengi al­mennings að gögnum á­samt því að auka skil­virkni og að­hald í vinnu­brögðum.

Mikil­vægt er að við nýtum kosti raf­rænnar þjónustu til hins ýtrasta. Því hef ég lagt fram þings­á­lyktunar­til­lögu um sam­ræmda vef­gátt leyfis­veitinga og ein­földun á ferli við undir­búning fram­kvæmda. Í slíkri gátt mætti finna öll gögn í máls­með­ferð vegna leyfis­veitinga fram­kvæmda og nauð­syn­legra undan­fara hennar. Með gáttinni væri ferli leyfis­veitinga auð­veldað til muna, en máls­með­ferð þeirra og mat á um­hverfis­á­hrifum er flókið, tíma­frekt og ó­skil­virkt ferli í nú­verandi mynd.

Ein­földum ferlið

Með raf­rænni þjónustu geta ó­líkar stofnanir unnið í sömu gátt og með því tryggt greiðara flæði gagna milli máls­með­ferða. Með raf­rænni gátt og breyttu verk­lagi má ein­falda ferlið til muna.

Tals­vert er um tví­verknað í kerfinu. Sömu gögn eru í­trekað lögð fram og aðilar þurfa oft að koma að sama máli. Um­sagnar- og kynningar­ferli tekur mikinn tíma og þá er ó­gagn­sæið tölu­vert. Einnig er að­gengi að gögnum erfitt sem gerir það tor­velt að fylgja málum eftir. Nokkur árangur náðist við að gera ferla tengda um­hverfis­mati mark­vissari með setningu nýrra laga um um­hverfis­mat fram­kvæmda og á­ætlana, nr. 111/2021, en mikil­vægt er að ganga enn lengra í sam­þættingu og ein­földun á öllum ferlum.

Gagna- og sam­ráðs­gátt mikil­vægt skref en ekki nóg

Hér ber að nefna að á­kveðið var að koma upp gagna- og sam­ráðs­gátt sem Skipu­lags­stofnun á að starf­rækja. Hún á að taka til skipu­lags, um­hverfis­mats og fram­kvæmda­leyfis. Skipu­lags­gáttin sem unnið er að mun fela í sér veiga­mikla breytingu varðandi að­gengi að upp­lýsingum og skil­virkni skipu­lags­ferla. Hún mun líka vera hvati til sam­ræmdra vinnu­bragða.

Hér þarf hins vegar að hafa í huga að ferli fram­kvæmda tekur til mun fleiri þátta en þessara og því mikil­vægt að sam­ráðs­gátt taki til allra ferla frá upp­hafi til enda. Hér er vísað til þess að margar fram­kvæmdir, eins og auð­linda­nýting ýmiss konar, hefjast á ferli rann­sókna og gagna­söfnunar sem háð er um­sóknum, leyfum, gagna­skilum, upp­lýsinga­gjöf o.fl. til opin­berra aðila, sem koma svo aftur inn í aðra ferla síðar í fram­kvæmda­ferlinu.

Því er mikil­vægt að gagna- og sam­ráðs­gátt sé ekki bundin við Skipu­lags­stofnun heldur ætti hún að standa utan stofnana ef svo má segja, og að allar hlutað­eig­andi stofnanir sem koma að hverri og einni fram­kvæmd, frá upp­hafi til enda hennar, hafi að­gang að gáttinni.

Stígum inn í nú­tímann

Þeir sem þekkja til við ferlið hafa líkt því við Ást­rík og þrautirnar tólf. Með öll þau tæki­færi sem eru til staðar árið 2022 er það ekki boð­legt. Á­vinningur af sam­ræmdri vef­gátt er aug­ljós og því er mikil­vægt að stuðla að fram­þróun í takt við breytta tíma og bætta tækni.

Ingibjörg Isaksen

Höfundur er þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. maí 2022.

Categories
Fréttir Greinar

Nýtum kosningaréttinn

Deila grein

13/05/2022

Nýtum kosningaréttinn

Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum að kosningar eru á næsta leiti en á síðustu vikum hafa frambjóðendur Framsóknar verði á ferð og flugi um sveitarfélagið til þess að kynnast íbúum, fyrirtækjum og einstaklingum og vita hvað brennur á þeim.

Það er gríðarlega mikilvægt að ná snertingu við íbúana. Þessi samtöl taka frambjóðendur með sér sem veganesti næstu fjögur árin. Það hefur verið tekið vel á móti frambjóðendum Framsóknar og það er ánægjulegt að finna meðbyrinn. Fyrir það ber að þakka.

Það er mikilvægt að í sveitastjórnir veljist fólk sem hefur ríka samvinnuhugsjón. Við í Framsókn höfum ávallt lagt áherslu á samvinnu innan bæjarstjórna, nefnda og ráða sem og samvinnu við íbúa. Við þurfum að hlusta á þá sem þiggja þjónustuna.

Sveitarstjórnarkosningar eru á fjögra ára fresti, ólíkt kosningum til Alþingis þar sem hægt er að rjúfa þing og boða til kosninga ef ósætti kemur upp. Því skiptir máli að það fólk sem velst í sveitarstjórn sem með hugann að samvinnu allt kjörtímabilið

Það skiptir fleira máli en stefnumál

Í Framsókn býr mikil mannauður, ólíkir einstaklingar sem koma úr ólíkum hópum en ganga saman í takt. Það skiptir máli að hafa kröftugt fólk í framboði sem hefur áhuga, vilja og getu til að leysa hnúta saman og ganga í framkvæmdir. Á lista Framsóknar í Múlaþingi situr traust fólk í hverju sæti sem státar af mikill og breiðri reynslu. Fólk sem vill leggja sitt fram til þess að gera gott samfélag enn betra.

Stefnumál skipta vissulega máli, en það sem skiptir mestu er að í sveitastjórn sé fólk sem vinnur af samviskusemi, samheldni og samvinnu að leiðarljósi. Framboð Framsóknar í Múlaþingi hefur svo sannarlega þá eiginleika til að bera.

Höfum áhrif á nærsamfélagið

Á laugardaginn fáum við tækifæri til þess að nýta kosningarétt okkar. Fullt af frambærilegu fólki hefur gefið kost á sér, og það er svo sannarlega ekki sjálfgefið. Í kosningunum höfum við tækifæri til þess að hafa bein áhrif á stjórn í okkar nær samfélagi og það er mikilvægt að sem flestir nýti þann rétt. Ég vil biðla til ykkar að mæta á kjörstað og nýta kosningaréttinn Þá vil ég biðla til þín kæri kjósandi að veita Framsókn traust til þess að starfa fyrir þig og setja X við B á kjördag.

Ingibjörg Isaksen

Undirrituð er þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 13. maí 2022.

Categories
Greinar

Stuðningur á erfiðum stundum

Deila grein

04/04/2022

Stuðningur á erfiðum stundum

Í síðustu viku voru samþykkt í ríkisstjórn tvö frumvörp sem hófust í félagsmálaráðuneytinu í tíð Ásmundar Einars Daðasonar en frestuðust því miður vegna kórónuveirufaraldursins. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur nú lagt þau fram og koma þau til umræðu á Alþingi á næstu dögum.

Sorgarorlof

Annars vegar er um að ræða frumvarp um sorgarorlof, en hingað til hefur það verið undir vinnuveitanda komið hvort foreldrar fái orlof eða leyfi eftir að þeir missa barn. Að sjálfsögðu á það að vera hlutverk ríkisins að grípa utan um foreldra og fjölskyldur sem verða fyrir áfalli sem þessu. Ekkert foreldri á að þurfa að standa í því að hafa áhyggjur af framfærslu eða vinnuskyldu þegar tekist er á við sorgina við að missa barn. Með frumvarpinu verður foreldrum á vinnumarkaði tryggt leyfi frá störfum auk þess sem þeir fá greiðslur til að koma til móts við tekjutap á tilteknu tímabili í tengslum við fjarveru frá vinnumarkaði í kjölfar barnsmissis. Foreldrum á vinnumarkaði sem verða fyrir barnsmissi verður því tryggður réttur til sorgarleyfis í sex mánuði sem og greiðslur til að koma til móts við tekjutap á tímabilinu. Markmiðið með frumvarpinu er að viðurkenna áhrif sorgarinnar vegna barnsmissis á fjölskylduna í heild, ásamt því að auka líkur á að foreldrar eigi farsæla endurkomu á vinnumarkað og taki frekar virkan þátt í samfélaginu í kjölfar barnsmissis.

Varla er til verri tilhugsun hjá foreldrum en að missa barnið sitt, getur það tekið langan tíma að vinna úr sorginni og áfalli við barnsmissi. Margir foreldra eru lítt vinnufærir fyrstu mánuðina eða árið og þurfa sumir hverjir að leita sér aðstoðar í langan tíma. Í mínum hug er það skylda ríkisins að styðja við þá örfáu foreldra sem missa börn sín ár hvert. Það er það minnsta sem við sem samfélag getum gert.

Umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna

Hins vegar er um að ræða frumvarp um umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna. Þar er lagt er til að sett verði sérstök lög um greiðslur til umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna sem koma í stað gildandi laga, með það að markmiði að styðja betur við umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna. Meðal annars með því að auka skilvirkni stuðningskerfisins og draga úr félagslegri einangrun umönnunaraðila. Frumvarp um umönnunargreiðslur er byggt á skýrslu starfshóps um umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna, en hópurinn skilaði skýrslu til ráðherra í ársbyrjun 2020 með tillögum um breytingar á stuðningskerfinu. Þetta frumvarp er mikið framfaraskref, en það fylgir því oft gríðarlegt álag að eiga fatlað eða langveikt barn sem krefst mikillar umönnunar. Markmiðið með frumvarpinu er að létta byrðarnar á foreldrum þessara barna þannig að þeirra kraftur geti farið í sinna því sem mikilvægast er, barninu.

Einstaklingar sem lenda í þeirri stöðu að missa eða annast langveikt barn eiga ekki að þurfa að glíma við fjárhagsáhyggjur ofan á allt annað. Nóg er álagið fyrir. Ég fagna því að þessi mál eru að koma til umræðu á Alþingi og bind einlægar vonir við þau komist hratt í gegnum þingið. Við hljótum að vera sammála um það hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. apríl 2022.

Categories
Greinar

Meira bíó!

Deila grein

01/04/2022

Meira bíó!

Nýlega fjallaði RÚV um gott gengi kvikmyndaiðnaðarins hér á landi en áætlað er að hann hafi skilað samfélaginu 9 milljörðum króna á síðasta ári. Þá er gert er ráð fyrir áframhaldandi velgengni íslenskrar kvikmyndagerðar á næstkomandi árum. Þetta er fagnaðarefni en kemur þó lítið á óvart, enda býr Ísland yfir stórum hópi af fagfólki í greininni sem vinnur frábært starf á hverjum degi hvort sem um er að ræða leikstjóra, leikara, tónskáld, tæknimenn eða aðra. Velgengni Íslendinga er aðdáunarverð og hróður íslenskar kvikmyndagerðar hefur farið vaxandi á erlendri grundu síðustu ár.

Suðupottur tækifæra

Íslenskt kvikmyndaefni er sýnt í erlendri dagskrá í auknu mæli ásamt erlendum kvikmynda- og sjónvarpsverkefnum sem tekin hafa verið upp hér á landi. Af því leiðir að Ísland fær mikilvæga landkynningu sem hefur aftur jákvæð áhrif á ferðaþjónustu og ímynd landsins. Tækifærin sem felast í öflugum kvikmyndaiðnaði eru fjölmörg. Við sjáum að erlendir aðilar sækja til landsins í auknu mæli. Nú um stundir er verið að taka upp fjögur erlend kvikmyndaverkefni í stærri kantinum hér á landi. Þar á meðal er stórt verkefni frá Sony og annað frá Netflix og BBC. Eitt af þessum verkefnum er hasarmyndin Heart of Stone, sem framleidd er af Netflix. Um er að stóra framleiðslu, fyrstu myndina í flokki mynda sem ætlað er að sverja sig í ætt við hasarmyndir á borð við Mission: Impossible og James Bond myndirnar. Söguþráður myndarinnar á sér stað að hluta til hér á landi og ýmis konar kennileiti Íslands koma til sögunnar. Þvílík auglýsing fyrir Ísland.

Auknum umsvifum í kvikmyndagerð fylgja fjölbreytt og spennandi atvinnutækifæri um land allt sem kallar á ýmsa sérfræðiþekkingu. Á bak við eina bíómynd eru mörg handtök og mörg sérhæfð störf lista- og kvikmyndagerðarmanna. Þá skapast við framleiðslu á kvikmynd fjöldi annarra afleiddra starfa. Hótel, gistiheimili, leiðsögumenn, bílaleigur og veitingastaðir víða um land njóta góðs af. Þúsundir starfa og auknar tekjur í ríkissjóð eru skýr dæmi um jákvæð áhrif kvikmyndagerðar hér á landi – og þar getum við náð enn lengra. Framsókn lagði ríka áherslu á kvikmyndagerð fyrir síðustu alþingiskosningar en við höfum óbilandi trú á getu kvikmyndaiðnaðarins til að skapa raunveruleg verðmæti fyrir samfélagið.

Í orði og á borði

Þessi þróun sýnir og sannar að afslættir til iðnaðarins virka. Í stóru myndinni leiða þeir til aukinnar velmegunar innan hans til lengri tíma. Ríkisstjórnin hefur sett það á oddinn að hækka endurgreiðsluhlutfall í kvikmyndagerð til þess að laða stór verkefni sem væru að stærstum hluta tekin upp hér á landi. Það er í samræmi við fyrstu heildstæðu kvikmyndastefnuna fyrir Ísland sem Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra kynnti til leiks á síðasta kjörtímabili. Í stefnunni er að finna metnaðarfullar aðgerðir sem munu auka verulega samkeppnishæfni kvikmyndagerðar hér á landi. Strax hefur verið hafist handa við að hrinda þeim í framkvæmd.

Við í Framsókn skiljum mikilvægi þess að styðja við íslenska kvikmyndagerð. Á okkar vakt hefur verið staðið fyrir stofnun Kvikmyndasjóðs Íslands og Kvikmyndasafns Íslands ásamt því að komið var á fyrstu endurgreiðslum í kvikmyndagerð á laggirnar. Sagan hefur sannað gildi þessara mikilvægu aðgerða og undirstrikað tækifærin sem felast í kvikmyndagerð fyrir land og þjóð. Framtíðin er björt og það verður ánægjulegt að taka þátt í því að styðja menningarmálaráðherra og ríkisstjórnina í því verkefni að ná enn lengra fyrir kvikmyndagerð í landinu.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. mars 2022.

Categories
Greinar Uncategorized

 Við drögum ekki orkuna upp úr hatti

Deila grein

16/03/2022

 Við drögum ekki orkuna upp úr hatti

Það virðist sem að á síðustu árum hafi ríkt ákveðin hræðsla að ræða orkumál á Íslandi sem leitt hefur til ákveðnar stöðnunar hér á landi. Skort hefur hugrekki til þess að taka þessa umræðu af fullri alvöru og afleiðingarnar blasa við okkur. Staðan í orkumálum er alvarleg, ný útgefin grænbók – stöðuskýrsla áskorana í orkumálum staðfestir það. Áframhaldandi orkuskortur er fram undan og þá eru til staðar flutningstakmarkanir á milli landsvæða, það á tímum þegar græn orka hefur aldrei verið mikilvægari.

Takmarkað hefur verið virkjað á undanförnum árum miðað við eftirspurn og engin ný virkjun yfir 10 MW hefur fengið virkjunarleyfi sl. 5 ár, en veitt hafa verið virkjunarleyfi fyrir aflaukandi aðgerðum í vatnsafls og jarðvarmavirkjunum sem og fyrir allnokkrum smávirkjunum. Þær sviðsmyndir sem dregnar eru upp í Grænbókinni um aukna orkuþörf Íslands með vísan í loftslagsmarkmið spanna allt frá lítilli sem engri viðbót við raforkuframleiðslu Íslands til ríflega tvöföldunar hennar eða 124% aukningar fram til ársins 2040. Allt eftir því hvort stefnt er að stöðnun eða auknum hagvexti.

Verndun og nýting getur haldist í hendur eins og dæmin hafa sannað. En mikilvægt er að framtíðarorkuvinnslu sé fundin staður í skipulagi þar sem mest sátt ríkir um staðsetningu þeirra, jafnframt sem að umhverfisáhrif verði lágmörkuð eins og kostur er.

Ísland og græna orkan

Stærsta framlag Íslands til loftlagsmála er nýting þjóðarinnar á grænni orku. Í dag státar engin önnur þjóð af jafn mikilli nýtingu á grænni orku líkt og við Íslendingar gerum. 85-90% af allri orku sem Íslendingar nota er græn orka. Við getum verið stolt af því. Þá skilaði þverpólitísk nefnd orkustefnunni til ársins 2050 í mikilli sátt og horfa stjórnvöld á þá stefnu sem leiðarljós inn í framtíðina. Í stefnunni voru sett metnaðarfull markmið þar sem lögð er áhersla á að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneti fyrir 2050.

Þá tilkynnti Forsætisráðherra efld markmið Íslands í loftlagsmálum á leiðtogafundi í desember síðastliðnum. Þar er markið fært úr 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2030, í 55% samdrátt. Þessum efldu aðgerðum fylgir fjármagn sem er vel, eftir því sem við aukum metnað okkar í loftlagsmálum þurfum við meiri græna orku – græna orkan er lykillinn.

Sjálfbærni er eftirsóknarverð

Það er einlægur vilji minn að þjóðin verði sjálfbær hvað eldsneyti varðar og hætti alfarið að kaupa olíu og bensín erlendis frá. Við hljótum öll að vilja ná þessum markmiðum og leggja okkar af mörkum í loftlagsmálum. Ávinningurinn fyrir loftslagið er eitt en ef Ísland nær að verða sjálfbært varðandi orku mun það einnig hafa jákvæð efnahagsleg áhrif fyrir Ísland. Við komum til með að spara gríðarlegar gjaldeyristekjur ásamt því að mörg verðmæt störf geta skapast.

Ísland hefur öll tækifæri til þess að verða leiðandi í grænum lausnum sem leysa munu jarðefnaeldsneyti af hólmi og því samhengi er mikilvægt að hið opinbera og almenningur styðji við nýsköpunarfyrirtæki. Sjálfbærni er eftirsóknarvert markmið hvort heldur sé í eldsneyti eða fæðuöryggi þjóða og hagvöxtur framtíðarinnar mun byggjast á grænni orku.

Hvernig ætlum við okkur að ná í þessa orku?

Orkustefnan segir að orkuþörf samfélagsins verði mætt með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma og að jafn aðgangur verði á landsvísu að orku á samkeppnishæfu verði. Að við verðum alltaf með græna orku til heimila og fyrirtækja. Þessi markmið eru metnaðarfull og góð en spurningunni hvernig við ætlum að afla þessarar grænu orku er enn ósvarað. Nú þurfum við að fara að taka ákvarðanir, sem sumum geta þótt erfiðar, en þær eru þó nauðsynlegar.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. mars 2022

Categories
Greinar

Landsvirkjun er ekki til sölu

Deila grein

09/03/2022

Landsvirkjun er ekki til sölu

Undanfarna daga hefur sú umræða sprottið upp hvort íslenska ríkið eigi að selja hluti sína í Landsvirkjun til að bregðast við halla á ríkissjóði sem tilkominn er vegna kórónuveirufaraldursins. Einstaka þingmenn hafa viðrað hugmyndir um að selja hluti í Landsvirkjun en þingmenn Framsóknar eru alfarið á móti þessum hugmyndum og koma ekki til með að breyta þeirri afstöðu.

Landsvirkjun er samfélagslega mikilvægt fyrirtæki og mun halda því áfram með aukinni eftirspurn eftir grænni orku á komandi árum. Landsvirkjun hefur verið að greiða upp skuldir sínar og mun því geta á næstu árum farið að skila ríkissjóði arði árlega. Sá hagnaður getur skipt sköpum um afkomu ríkissjóðs, sem þarf traustan og tryggan hagnað næstu áratugi, sérstaklega eftir efnahagslegar aðgerðir ríkisins vegna Covid-19. Fjölbreyttur kaupendahópur mun smám saman styðja við og auka verðmæti seldrar orku, þ.e. hámarka afrakstur orkuauðlindanna á eðlilegum nýtingartíma.

Framsókn tekur afstöðu með almenningi

Það er skýrt að samfélagið allt á að njóta arðsins sem Landsvirkjun mun skila um ókomin ár. Landsvirkjun gegnir lykilhlutverki í nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa til framtíðar. Áframhaldandi eignarhald íslenska ríkisins í Landsvirkjun getur leitt til mikillar hagsældar fyrir þjóðina. Við stjórnmálamenn allra flokka þurfum að hlusta á og vinna að vilja almennings, enda er vilji hans skýr að orkumál verði ekki færð í hendur einkaaðila. Áskorunin er að sigra þann freistnivanda sem myndast við skjótan gróða af einkavæðingu. Einkavæðing getur lagað fjárhag ríkisins í nokkur ár, en í stóru myndinni er langtímahagnaður af áframhaldandi eignarhaldi í Landsvirkjun töluvert meira aðlaðandi. Það hefur aldrei talist góð hugmynd að slátra mjólkurkúnni fyrir skjótfenginn gróða.

Við eigum að nýta náttúruauðlindir þjóðarinnar af varúð og virðingu. Nýting þeirra á að vera samfélaginu öllu til hagsbóta. Arðurinn á að vera til uppbyggingar og velferðar. Landsvirkjun er eitt af fjöreggjum þjóðarinnar og mun gegna lykilhlutverki í nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa til framtíðar. Því kemur ekki til greina að einkavæða félagið, selja í því hluti eða framkvæmdir. Ekki á okkar vakt.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. mars 2022.

Categories
Greinar

Framfarir í flugmálum

Deila grein

02/03/2022

Framfarir í flugmálum

Stundum er sagt að flugsamgöngur séu lestarsamgöngur okkar Íslendinga. Það gefur auga leið að með flugi styttist ferðatími milli áfangastaða og með greiðari aðgengi að flugi styttist ferðatíminn enn meira. Því var sérlega ánægjulegt þegar fregnir bárust af ákvörðun Lilju Alfreðsdóttur ferðamálaráðherra um að verja 40 milljónum króna til Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrúar til þess að efla kynningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sem alþjóðaflugvöllum og setja aukinn slagkraft í markaðssetningu á Norður- og Austurlandi sem vænlegum áfangastöðum með beinu millilandaflugi. Í þessu eru fólgin mikilvæg skilaboð um stefnu stjórnvalda í ferðaþjónustu; hana skal efla um allt land.

Hluti af nútímasamfélagi

Um mikið hagsmunamál er að ræða fyrir atvinnuþróun á svæðunum og ekki síður íbúa þeirra. Beint millilandaflug er ein skilvirkasta leiðin við að dreifa ferðamönnum betur um landið. Því má líkja við vítamínsprautu fyrir svæðisbundna ferðaþjónustu, meðal annars með betri nýtingu innviða utan háannatíma. Að sama skapi breytir miklu máli fyrir íbúa svæðanna að geta flogið beint úr heimabyggð í stað þess að ferðast í fjölda klukkustunda á alþjóðaflugvöllinn í Keflavík. Í nútímasamfélagi er það hluti af lífsgæðum að eiga kost á greiðum samgöngum til útlanda – hvort sem er í leik eða starfi.

Aðgerðir og árangur

Undanfarin ár hefur gangskör verið gerð í flugmálum og er fyrrnefndur stuðningur við flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum liður í því. Þannig kynnti Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra fyrstu flugstefnuna fyrir Ísland – en hún gildir til ársins 2034. Með henni var lögð fram heildstæð stefna í flugmálum, sem hafist hefur verið handa við að hrinda í framkvæmd. Má þar meðal annars nefna Loftbrúna, sem notið hefur mikilla vinsælda. Með henni eiga íbúar á landsbyggðinni sem búa fjarri höfuðborginni kost á lægri flugfargjöldum. Loftbrú veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi fyrir allar áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu, þrjár ferðir á ári. Innviðir hafa einnig verið bættir en fjármagn var tryggt í stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri, meðal annars með millilandaflug í huga, en framkvæmdum mun ljúka árið 2023. Endurbætur hafa einnig átt sér stað á Egilsstaðaflugvelli, en árið 2021 var nýtt malbik lagt á flugbrautina og unnið er að tillögum um stækkun flughlaðs og lagningu akbrauta. Einnig hefur flugþróunarsjóður verið starfræktur til þess að styðja flugfélög í að þróa og markaðssetja bein flug til Akureyrar og Egilsstaða. Allt þetta skiptir máli.

Nýverið bárust gleðitíðindi um stofnun flugfélagsins Niceair, sem mun hefja beint áætlunarflug frá Akureyri til útlanda í sumar. Bætist það við félagið Voigt Travel sem einnig er á markaðnum.

Áfram veginn

Það eru fjölmörg tækifæri fólgin í ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi rétt eins og fjölmargir Íslendingar hafa kynnst á ferðalögum sínum um landið undanfarin tvö sumur. Gæði gisti- og veitingastaða, innviði og afþreying hafa aukist og eru eitthvað sem við getum verið stolt af. Þessum gæðum viljum við deila með erlendum gestum og breiða út fagnaðarerindinu. Að sama skapi hlakka ég sem íbúi til þess að geta bókað mér flug úr kjördæminu til útlanda og njóta þess hægðarauka sem því fylgir. Ég er því bjartsýn á framtíð innlendrar sem og erlendrar ferðaþjónustu í kjördæminu okkar og er sannfærð um að hún muni vaxa vel og dafna.

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 2. mars 2022.

Categories
Greinar

Komdu inn úr kuldanum

Deila grein

17/02/2022

Komdu inn úr kuldanum

Þing­flokk­ur Fram­sókn­ar mun eins og und­an­far­in ár leggja upp með metnaðarfulla fundaröð í kjör­dæm­a­viku. Við verðum með opna fundi Fram­sókn­ar í kjör­dæm­a­viku um land allt. Það er okk­ur mik­il­vægt að ná að nálg­ast og hlusta á radd­ir kjós­enda, ekki aðeins á fjög­urra ára fresti, held­ur með reglu­bundn­um hætti. Þannig leggj­um við okk­ar af mörk­um til að hlusta á fólkið okk­ar og skapa okk­ur öll­um sam­fé­lag sem við erum stolt af, tryggja fólki góð lífs­kjör og treysta bú­setu í land­inu. Það er og verður meg­in­verk­efni okk­ar í þing­flokki Fram­sókn­ar nú sem endra­nær.

Í kosn­inga­bar­átt­unni síðasta haust fund­um við vel að fólk vill sjá alþing­is­menn sinna brýn­um hags­mun­um sam­fé­lags­ins. Kjós­end­ur vildu heyra að við ynn­um að lausn­um, um­bót­um og jafn­vel rót­tæk­um kerf­is­breyt­ing­um. Þing­flokk­ur Fram­sókn­ar hef­ur sýnt fram á að hann er hóp­ur fólks er hef­ur fólk í fyr­ir­rúmi, við fjár­fest­um í fólki og mun­um halda því áfram. Við fór­um m.a. í rót­tæk­ar kerf­is­breyt­ing­ar á mál­efn­um barna. Slík­ar breyt­ing­ar og fleiri til hafa og munu skipta fólk máli, um land allt.

Í grunn­stef­inu Fram­sókn­ar seg­ir að við aðhyll­umst frjáls­lynda hug­mynda­fræði og að far­sæl­ast sé að ná fram niður­stöðu með sam­vinnu ólíkra afla og hags­muna sem byggð er á hóf­semi og heiðarleika. Það er aldrei mik­il­væg­ara en nú að hlusta vel á ólík­ar radd­ir og leiða mál til lykta með sam­vinnu. Við tryggj­um öfl­ugri og sterk­ari þing­flokk Fram­sókn­ar með því að hlusta á þarf­ir og vænt­ing­ar fólks á brýn­um hags­muna­mál­um.

Við erum nefni­lega rétt að byrja!

Okk­ur alþing­is­mönn­um er kjör­dæm­a­vika sér­stak­lega mik­il­væg. Okk­ur gefst tími og ráðrúm til að sinna hags­mun­um kjör­dæm­anna, það þarf sterka full­trúa með skýra sýn til að styðja og styrkja það val fólks að halda byggð í land­inu. Þing­flokk­ur Fram­sókn­ar vill áfram vera for­ystu­afl í brýn­um hags­mun­um lands­byggðar. Við vilj­um tryggja áfram að sam­göng­ur, mennt­un, menn­ing og síðast en ekki síst fjöl­breytt tæki­færi á at­vinnu­markaði séu fyr­ir hendi.

Ég vil nefna sér­stak­lega gríðarlega mik­il­vægt tæki­færi er við upp­götvuðum í heims­far­aldr­in­um; að fólk gat unnið heim­an frá sér, og þetta eig­um við að nýta og skapa já­kvæðan hvata til að fram­kvæma í frek­ari mæli. Nýta okk­ur þekk­ing­una og tækn­ina og skapa um leið sterk­ari byggðir. Fram­sókn er stjórn­mála­aflið til að standa við orð sín og gerðir.

Skyn­sem­in ligg­ur á miðjunni.

Ingibjörg Isaksen, formaður þing­flokks Fram­sókn­ar.

ingi­bjorg.isak­sen@alt­hingi.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. febrúar 2022.