Categories
Greinar

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára?

Deila grein

01/05/2022

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára?

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri þá Reykjavík orðin kolefnishlutlaus, fyrst höfuðborga? Væri hverfisskipulag byggt út frá umhverfissjónarmiðum þar sem fólk fær notið náttúru innan hverfis? Væri Reykjavík borg þar sem almenningssamgöngur eru skilvirkar, notendavænar og betri kostur en annar ferðamáti? Væri næturstrætó enn gangandi? Væru hleðslustöðvar aðgengilegar um alla borg til að auðvelda fólki orkuskipti í rafknúin hjól og bíla?

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri hér húsnæðisskortur? Væri ungt fólk fast á heimilum foreldra sinna í mörg ár vegna þess að fasteignaverð er uppsprengt eða myndu öll eiga þess kost að eignast þak yfir höfuðið? Ætli hér væri byggt nógu mikið af stúdentaíbúðum þannig að enginn stúdent myndi þurfa að fara á biðlista eftir heimili? Væri ekki líka komin heimavist fyrir framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðið? Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára væri grunnþjónusta í 15 mínútna göngu- eða hjólafjarlægð? Þannig að öll geti sótt grunnþjónustu innan hverfis hvort sem það er leikskóli, grunnskóli, sundlaug, kaffi- og veitingahús eða matvöruverslun.

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri þá ekki búið að eyða öllum biðlistum á leikskóla? Væru leikskólarnir ekki með sveigjanlegri opnunartíma til að mæta foreldrum á vinnumarkaði eða í námi? Væri búið að tryggja betra starfsumhverfi leikskólakennara? Myndu foreldrar kannski fá að ráða hvenær á sumrin leikskólabörnin þeirra taka sumarfrí eftir því hvenær hentar fjölskyldunni?

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri ekki búið að byggja kerfi sem tekur vel á móti innflytjendum og eykur tækifæri fólks af erlendum uppruna til að nýta hæfileika sína? Væri stutt sérstaklega við nýsköpunarstarf, sprotafyrirtæki og aðra atvinnuuppbyggingu fyrir ungt fólk á þeirra forsendum? Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri ekki búið að tryggja öryggi kvenna og alls fólks á djamminu?

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri innviðir borgarinnar í lagi? Þannig að grunnskólabörn myndu ekki þurfa að sækja skóla í öðru hverfi vegna myglu í sínum hverfisskóla? Væru ungmennahús í öllum hverfum borgarinnar og félagsmiðstöðvastarf eflt? Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri ekki búið að jafna leikinn með því að tryggja að frístundakort barna veiti öllum börnum þess kost að stunda þær tómstundir sem þau dreymir um? Væri ekki búið að byggja upp öfluga íþróttaæfingaraðstöðu í öllum hverfum borgarinnar og þjóðarleikvang?

Við sem erfum ákvarðanir dagsins í dag verðum að vera þátttakendur í ákvarðanatöku sem munu varða okkar framtíð. Það er mikilvægt að við nýtum kosningaréttinn okkar og kjósum ungt fólk, að við kjósum Framsókn sem treystir ungu fólki með því að hafa ungt fólk í forystusætum í borginni! Ef þú kýst ekki mun eldra fólk kjósa fyrir þig og ráða þinni framtíð með sinni forgangsröðun á verkefnalista borgarstjórnar. Nýtum kosningaréttinn okkar 14. maí.

Er ekki kominn tími á breytingar í borginni?

Magnea Gná Jóhannsdóttir, 25 ára háskólanemi og skipar 3. sæti á lista Framsóknar í borgarstjórnarkosningunum sem fara fram 14. maí n.k.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. maí 2022.

Categories
Greinar

Barnasáttmálinn brotinn – óþarfar aðgerðir á kynfærum barna

Deila grein

22/11/2020

Barnasáttmálinn brotinn – óþarfar aðgerðir á kynfærum barna

Dagur mannréttinda barna er í dag, 20. nóvember. Dagurinn er helgaður fræðslu um mannréttindi barna en Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur þennan dag fyrir 31 ári. Fyrir rúmu ári síðan skrifaði ég grein í tilefni þessa dags um þá tímaskekkju sem umskurður drengja er og hvernig slíkar aðgerðir samræmast ekki Barnasáttmálanum. Á Íslandi eru óþarfar og óafturkræfar aðgerðir á kynfærum barna enn leyfðar á börnum sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni og drengbörnum sem fæðast með dæmigerð kyneinkenni. Ódæmigerð kyneinkenni (intersex) er meðal annars þegar einstaklingur fæðist með kynfæri, æxlunarfæri og/eða litningamynstur sem falla ekki að dæmigerðum skilgreiningum á karl- eða kvenkyni. Aðgerðir á drengbörnum með dæmigerð kyneinkenni (umskurður) er þegar forhúð er skorin af lim oftast á nýfæddu drengbarni með beittum hníf. Hins vegar var umskurður stúlkubarna gerður refsiverður árið 2005.

Það sem er barninu fyrir bestu?

Umskurður drengja er varanleg og óafturkræf aðgerð sem felur í sér mikil inngrip á kynfærum barns ásamt því að geta valdið barninu sársauka, hættu á sýkingum og varanlegum skaða. Í vissum tilfellum getur verið nauðsynlegt að framkvæma umskurð, til dæmis ef forhúðin er of þröng eða í kjölfar alvarlegra sýkinga. Annað gildir hins vegar um læknisfræðilega óþarfan umskurð þar sem fullkomlega eðlilegur vefur sem gegnir mikilvægu hlutverki í kynfæra- og kynlífsheilbrigði drengabarna er fjarlægður af kynfærum þeirra. Á Íslandi er ekkert regluverk um umskurð drengja og geta því forsjáraðilar tekið ákvörðun um slíka aðgerð.

Rauði þráðurinn í íslenskum barnalögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, er að ávallt skuli hafa það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi þegar teknar eru ákvarðanir um hag þess. Barnasáttmálinn kveður einnig á um að börn eigi rétt á að tjá sig um öll þau málefni er þau varða og því samræmist það illa sáttmálanum að foreldrar taki ákvarðanir um óafturkræfar aðgerðir á líkama barns, líkt og umskurður drengja og aðgerðir á intersex börnum án læknisfræðilegrar nauðsynjar eru.

Það kann að vera að drengir vilji láta umskera sig af til að mynda trúar- eða menningarlegum ástæðum en ákvörðun um það verða þeir sjálfir að taka þegar þeir hafa náð aldri og þroska til þess að skilja hvað slíkar aðgerðir geta haft í för með sér. Í því samhengi er vert að árétta að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verndar börn gegn hefðum sem eru skaðlegar heilbrigði þeirra og skyldar aðildarríki sáttmálans til þess að ryðja slíkum hefðum úr vegi. Hið sama gildir um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Ákvörðun um hvort framkvæma eigi aðgerð á þeirra kynfærum ætti vera þeirra.

Nýlega lagði forsætisráðherra fram frumvarp til breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði. Frumvarpið tryggir sjálfsákvörðunarrétt barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni (intersex) yfir eigin líkama. Um er að ræða mikilvægt og þarft framfaraskref sem ber að fagna. Hins vegar kemur fram í greinargerð frumvarpsins að það nái ekki til barna sem fæðast með dæmigerð kyneinkenni. Læknisfræðilega óþarfur umskurður drengbarna sem fæðast með dæmigerð kyneinkenni hefur því verið undanskilinn breytingartillögunni.

Óþarfar aðgerðir á kynfærum barna eru tímaskekkja

Íslendingar ættu að standa fremst þjóða í að verja rétt barna til yfirráða yfir eigin líkama. Ótækt er að forsjáraðilar barna hafi heimild til þess að taka svo afgerandi ákvörðun um kynfæri barna sinna sem eru enn of ung til þess að tjá sig um aðgerðina, séu ekki knýjandi heilsufarsrök fyrir aðgerðinni. Réttur barna yfir eigin líkama og einstaklingsfrelsi á að ganga framar rétti forsjáraðila til að taka óafturkræfar trúar-, tilfinningalegar-, og menningarlegar ákvarðanir um líkama barna. Börn á Íslandi eiga að hafa öruggt skjól og vernd í íslenskum lögum fyrir óþarfa og óafturkræfu inngripi á líkama þeirra.

Ég skora á Alþingi að banna öll læknisfræðileg óþörf inngrip í líkama barna og tryggja þar með öllum börnum sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin líkama.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, laganemi og í stjórn SUF, Sambands ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. nóvember 2020.