Categories
Greinar

Græn skyn­semi og Fram­sókn

Deila grein

09/03/2021

Græn skyn­semi og Fram­sókn

Velsæld allra byggðarlaga á Íslandi er háð því að hægt sé að nýta hugvit til að skapa verðmæti á sjálfbæran hátt í sátt við náttúru og samfélag. Verðmætasköpun er grundvöllur þeirrar samhjálpar og velferðar sem gerir öllum kleift að njóta lífsins í samræmi við sínar eigin óskir og þrár. Um þetta snúast stjórnmál. Hið hárrétta jafnvægi velmegunar og lífshamingju er línudans á miðjunni þar sem öfgum bæði til hægri og vinstri er haldið í skefjum með skynsemi og samvinnu. Þennan dans hefur Framsókn fullkomnað.

Velmegun byggir á verðmætasköpun

Velmegun Íslands byggir á skynsamlegri nýtingu auðlinda. Við erum í grunninn matvælaframleiðsluþjóð sem byggir nútíma lífsskilyrði sín á skilvirkum landbúnaði og sjávarútvegi þar sem öflugir bændur og hugdjarfir sjómenn hafa hellulagt stíginn frá fátækt til bjargálna. Við eigum öll mikið undir því að framleiðslugreinum hér á landi verði búin sanngjörn og hvetjandi umgjörð. Um það snúast íslensk stjórnmál að stórum hluta. Þar þarf að láta verkin tala.

Umgjörðin verður að virka

Sú umgjörð þarf að vera skynsamleg með sjálfbærni í forgangi. Verðmætin verða til hjá fólki og fyrirtækjum þegar gjafir náttúrunnar til sjávar og sveita eru nýttar með dugnaði, frumkvöðlakrafti og hugviti. Hvorki Alþingi né stjórnsýslustofnanir í Reykjavík mega þvælast fyrir því að nýjar búgreinar eins og kolefnisjöfnun geti skotið rótum. Það er afar mikilvægt að allt regluverk og lagaumgjörð sé eins og best er á kosið. Stefnan þarf að vera skýr og við Íslendingar verðum að setja grænar áherslur á oddinn.

Vegurinn áfram er grænn

Framsóknarflokkurinn hefur lengi verið rödd hinna dreifðu byggða á Alþingi. Hann talar fyrir velferð sem byggir á raunverulegri verðmætasköpun um allt land. Flokkurinn hafnar öfgum til vinstri og hægri og er rödd skynseminnar á Alþingi. Þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt mun ýta undir fjölgun starfa um allt land. Beitarskógar og kolefnisjöfnun eru önnur græn verkefni sem fjölga möguleikum þeirrar kynslóðar sem er að vaxa úr grasi. Lífræn ræktun, handverksbrugghús, heimaslátrun og önnur vinnsla afurða bjóða upp á fjölmörg tækisfæri þar sem þörfin er mest.

Fjölbreytni og samvinna

Eigi íslenskur landbúnaður að blómstra verður að hlúa að fjölbreytninni en á sama tíma verður að hagræðis og búa til skynsamlegan ramma utan um stóru framleiðsluna sem þjónar fjöldanum. Lagabreyting sem auðveldar þeim samstarf eða sameiningu kjötafurðastöðva er nauðsynleg til þess að greinin blómstri í alþjóðlegri samkeppni. Slík undanþága getur leitt til mikillar hagræðingar sem skilar sér í hærra afurðaverði til bænda og öflugri rekstri fyrirtækjanna.

Öflug stjórnsýsla þjóni þjóðinni

Efling matvælaframleiðslu er mikilvægt hagsmunamál fyrir lífskjör okkar allra. Það eru landgræðslu og loftslagsmálin líka. Þetta þarf að fara saman svo sjávarplássin og sveitirnar blómstri. Við verðum að láta verkin tala í þessum efnum og breyta því sem við sjáum að virkar ekki sem skyldi. Sameining umhverfismála og landbúnaðar í eitt ráðuneyti gæti hjálpað okkur á þessari vegferð. Fáar aðrar breytingar á stjórnkerfinu myndu leiða til álíka aukningar í verðmætasköpun eða fjölgun starfa.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. mars 2021.

Categories
Greinar

Samvinna bænda í sölu búvara

Deila grein

25/02/2021

Samvinna bænda í sölu búvara

Um aldir voru ýmsar landbúnaðarafurðir helsta útflutningsvara landsmanna, á eftir skreið. Allt fram að stofnun kaupfélaganna, þess fyrsta fyrir 119 árum (20. febrúar 1882), áttu landsmenn sér engin samtök um slík viðskipti heldur kom hver og einn bóndi fyrir kaupmenn með afurðir sínar. Einokunarverslun Danakonungs á tímabilinu 1602–1787 sá um að arður af Íslandsverslun skilaði sér refjalaust í fjárhirslur konungs. Eftir lok einokunar tók við tímabil svokallaðrar fríhöndlunar, sem bannaði Íslendingum að versla við aðra en þegna Danakonungs, en hún leiddi til þess að lífinu var haldið í landsmönnum með lægsta mögulega samnefnara á afurðaverði.

Samvinna bænda á sér langa sögu

Á 19. öld hófst alþjóðleg þróun þar sem framleiðendur ýmiss varnings tóku sig saman og bundust samtökum til að sameina krafta sína. Þessa þróun má rekja allt aftur til 1860, fyrst í Frakklandi, Þýskalandi, Austurríska-Ungverska keisaradæminu og Bretlandi. Þetta var hluti af alþjóðavæðingu þess tíma. Sauðasala íslenskra bænda var fjárhagsleg lyftistöng til sveita á sínum tíma og grunnurinn að stofnun kaupfélaganna hér á landi. Síðan hefur æði mikið vatn runnið til sjávar. Það vekur nokkra athygli að hlýða á forstjóra Samkeppniseftirlitsins á Íslandi vísa ítrekað til þessarar þróunar á sínum tíma, ekki bara hér á landi heldur líka t.d. í Bandaríkjunum, eins og hann gerði á fundi sem Félag atvinnurekenda stóð fyrir þann 11. febrúar sl. Raunar var að heyra að hann teldi þetta einmitt mjög gott skipulag fyrir afurðasölumál.

Sami forstjóri eða sú stofnun sem hann veitir forstöðu hefur ítrekað tjáð sig um afurðasölumál í landbúnaði. Í umsögn sem stofnun veitti Alþingi sl. haust um þingmál 376 segir m.a.:

„Hafa ber í huga í þessu sambandi að það aðhald sem bændum er kleift að sýna viðsemjendum sínum, þ.e. afurðastöðvum, hefur farið þverrandi. Þannig er t.d. ekki til að dreifa samkeppni í kaupum á mjólk frá bændum, auk þess sem bændur eru ekki lengur eigendur kjötafurðastöðva nema að hluta til og geta því ekki beitt eigendaaðhaldi nema að takmörkuðu leyti.“

Viljandi er Sláturfélag Suðurlands þar talið með fyrirtækjum sem teljast í einkaeigu þó eigendur í A-deild stofnsjóðs (bændur) hafi atkvæðisrétt á stjórnar- og aðalfundum og stjórni þannig fyrirtækinu. Einnig telur Samkeppniseftirlitið Sláturfélag Vopnfirðinga hf., Norðlenska ehf. og Fjallalamb hf. með í þessum hópi þó þau séu að verulegu leyti í eigu bænda eða félaga þeirra. Hið rétta er því að stærstur hluti slátrunar á sauðfé, nautgripum og hrossum fer fram í fyrirtækjum sem eru í eigu og/eða stjórnað af bændum. Bændur reka því enn í dag á samstarfsgrunni fyrirtæki sem sjá um vinnslu og sölu afurða þeirra.

Um stjórnsýslu Samkeppniseftirlitsins

En víkjum aðeins að stjórnsýslu Samkeppniseftirlitsins. Sama dag og yfirlýsingar forstjóra þess um verndaraðgerðir á krepputímum rötuðu á síður Viðskiptablaðsins, birtist í því grein eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS, og Maríu Kristjánsdóttur lögmann, þar sem stjórnsýsluframkvæmd Samkeppniseftirlitsins var gerð að umtalsefni. Í þessari grein var m.a. vakin athygli á því að samrunaeftirlit stofnunarinnar byggist, líkt og í Noregi og ESB, á tveimur hlutum – fasa I og fasa II; almennt er gert ráð fyrir því að tilkynntir samrunar fari í fasa I en einungis mál sem komi til með að hafa skaðleg áhrif á samkeppni fari í fasa II. Hin furðulega staða er hins vegar uppi að t.a.m. í bæði Noregi og ESB fara 2-3% tilkynntra samruna í fasa II á meðan hlutfallið hér á landi var að meðaltali tæp 44% á tímabilinu 2017-2020. Ekki er hægt að draga af þessu aðra ályktun en að stjórnsýsla Samkeppniseftirlitsins sé mjög frábrugðin stjórnsýslu systurstofnunar þess í Noregi og framkvæmdastjórnar ESB.

Hvað leggur Samkeppniseftirlitið svo til?

Fyrr er vikið að því að stofnun kaupfélaganna virðist forstjóra Samkeppniseftirlitsins hugleikin. En stofnunin hefur einnig bent á aðrar leiðir fyrir bændur til að styrkja stöðu sína í afurðasölumálum. Í fyrr tilvitnaðri umsögn til Alþingis er bent á að með breytingum á regluumhverfi megi gera bændum betur kleift að „… vinna afurðir sínar sjálfir og bjóða þær neytendum á grundvelli eigin hugvits og nýsköpunar. Með því gætu bændur sýnt bæði kjötafurðastöðvum og dagvöruverslunum aukið aðhald.“

Fákeppni á smásölumarkaði

Þessi nálgun Samkeppniseftirlitsins, sem lausn á því viðfangsefni bænda að kaupendur varanna eru að stærstum hluta tvær smásölukeðjur, hljóma nánast útópískar. Verslanir Haga (Bónus og Hagkaup) auk Krónunnar fara með 76% verslunar á smásölustigi hér á landi. Hvernig dettur forstjóra Samkeppniseftirlitsins í hug að það  bæti stöðu bænda að mæta á pikköppunum sínum á planinu fyrir framan skrifstofur þessa fyrirtækja með kjöt af heimaslátruðu á pallinum? Kjötið þarf að selja sem fyrst því bændur hafa ekki geymslur fyrir það. Ég læt lesendum eftir að geta sér til um niðurstöðuna. Stofnun kaupfélaganna á sínum tíma var einmitt ætlað að vera svar við sambærilegri stöðu. Á sama hátt styður t.d. ESB við það að bændur skipuleggi afurðasölustarf sitt með samvinnu – hefur ESB haft það að stefnu sinni allt frá gerð Rómarsáttmálanna 1958. Sameina þarf slagkraft margra til að mæta fákeppni á smásölumarkaði og samkeppni erlendis frá eins og ríkir hér á landi.

Bætum stöðu íslensks landbúnaðar

Aukið svigrúm landbúnaðar í nágrannalöndum okkar til að skipuleggja samstarf í skjóli undanþága frá samkeppnislögum hlýtur að teljast hluti af samkeppnisforskoti hans gagnvart okkar landbúnaði. Samkeppniseftirlitinu væri nær að benda á þennan óeðlilega mun og hvetja stjórnvöld til að minnka hann, fremur en að freista þess að koma í veg fyrir að hann sé jafnaður að hluta með því að auka lítils háttar svigrúm íslensks landbúnaðar gagnvart samkeppnisreglum.

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Ef við viljum í al­vöru standa með neyt­endum og inn­lendri fram­leiðslu þá er til leið

Deila grein

18/02/2021

Ef við viljum í al­vöru standa með neyt­endum og inn­lendri fram­leiðslu þá er til leið

Í útvarpsþættinum á Sprengisandi fyrr í vikunni var rætt við Pál Gunnar Pálsson forstjóra Samkeppniseftirlitsins um samkeppnismál. Páll Gunnar ræddi m.a. um mikilvægi þess að samkeppnislögin væru virt, það væri mikilvægt fyrir heildarhagsmuni neytenda. Hann talaði um að það væri lenska í efnahagskreppu að taka samkeppnislögin úr sambandi og grípa til verndartolla sem kæmi síðan niður á nýsköpun, vöruþróun og vöruverði til neytenda.

Undirrituð hafa lagt fram frumvarp til breytinga á búvörulögum þess efnis að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga þá sé afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Þetta frumvarp fæddist ekki í þeirri efnahagslægð sem nú ríkir heldur var það fyrst lagt fram á haustdögum 2018, löngu áður efnahagskreppa af völdum COVID 19 var í kortunum. Þessar breytingar eiga sér sannarlega tilverurétt nú sem aldrei fyrr.

Samræmist EES og ESB

Verði tillagan að lögum er fullvíst að mikil hagræðing getur átt sér stað bæði í slátrun sem og vinnslu á kjöti. Allar líkur eru á að hagræðing sem þessi muni skila betri afkomu afurðastöðva, hærra afurðaverði til bænda og lægra vöruverði til neytenda. Það er ekkert í EES rétti sem kemur í veg fyrir að slíka breytingu megi leiða í lög hér á landi og mikilvægt er að hafa í huga að landbúnaður innan ESB er undanþeginn samkeppnislögum að miklu leiti.

Við erum ekki að finna upp hjólið

Árið 2004 var starfsumhverfi mjólkuriðnaðarins gerbreytt með breytingu á 71. gr. búvörulaga. Sú breyting veitti afmarkaða undanþágu til afurðarstöðva í mjólkuriðnaði frá gildissviði samkeppnislaga. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur orðið mikil nýsköpun og stórfelld hagræðing í söfnun, vinnslu og dreifingu mjólkur og mjólkurvara. Árangurinn sést meðal annars af því að heildarþáttaframleiðni í greininni hefur vaxið um 2,2% á ári frá 2000-2018. Til samanburðar má nefna að í grónum atvinnugreinum er slíkur vöxtur að jafnaði um 1% á ári. Árlegur ávinningur af þessum breytingum er um 3 milljarðar króna á ári á verðlagi ársins 2020. Þessum ábata hefur verið skilað til bænda í gegnum afurðaverð og til neytenda í gegnum heildsöluverð mjólkurvara. Þessi undanþága er þannig forsenda stöðugleika og stórfelldrar hagræðingar sem fylgt hefur verið eftir með vöruþróun og nýsköpun sem aftur er forsenda þess að hafa traustan markað fyrir mjólkurvörur meðal neytenda.

Nærsamfélagsframleiðsla og hagsmunir neytenda.

Síðustu misseri hafa kröfur neytenda tekið verulegum breytingum. Margt kemur þar til s.s. aukin vefverslun, kröfur um að draga úr notkun umbúða, minni matarsóun auk áherslu á að minnka kolefnisspor afurða. Neytendur og bændur eru samstíga að horfa í átt til þess að framleiða heilnæmar og hreinar afurðir í nærumhverfi markaðarins. Þetta á jafnt við þau sem neyta dýraafurða sem og grænkera. Hagsmunir bænda og neytenda fara þannig saman og stjórnvöld verða hlýða því kalli. Innlend framleiðsla á það skilið að staðið sé vörð um um hana til hagsbóta fyrir bændur og neytendur. Aukin hagkvæmni í virðiskeðju búvara er mikilvægt lóð á þær vogarskálar, og stjórnvöld geta lagt lið með breyttri löggjöf. Aukin samvinna í afurðavinnslu mun leiða af sér aukna vöruþróun og hagræðingu þannig hugum við að heildarhagsmunum íslenskra neytenda til framtíðar. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson, þingmenn Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Sam­vinna bænda í sölu bú­vara

Deila grein

17/02/2021

Sam­vinna bænda í sölu bú­vara

Um aldir voru ýmsar landbúnaðarafurðir helsta útflutningsvara landsmanna, á eftir skreið. Allt fram að stofnun kaupfélaganna, þess fyrsta fyrir 119 árum (20. febrúar 1882), áttu landsmenn sér engin samtök um slík viðskipti heldur kom hver og einn bóndi fyrir kaupmenn með afurðir sínar. Einokunarverslun danakonungs á tímabilinu 1602 – 1787 sá um að arður af Íslandsverslun skilaði sér refjalaust í fjárhirslur konungs. Eftir lok einokunar tók við tímabil svokallaðrar fríhöndlunar, sem bannaði Íslendingum að versla við aðra en þegna Danakonungs, en hún leiddi til þess að lífinu var haldið í landsmönnum með lægsta mögulega samnefnara á afurðaverði.

Samvinna bænda á sér langa sögu

Á 19. öld hófst alþjóðlega þróun þar sem framleiðendur ýmiss varnings tóku sig saman og bundust samtökum til að sameina krafta sína. Þessa þróun má rekja allt aftur til 1860, fyrst í Frakklandi, Þýskalandi, Austurríska-Ungverska Keisaradæminu og Bretlandi. Þetta var hluti af alþjóðavæðingu þess tíma. Sauðasala íslenskra bænda var fjárhagsleg lyftistöng til sveita á sínum tíma og grunnurinn að stofnun kaupfélaganna hér á landi. Síðan hefur æði mikið vatn runnið til sjávar. Það vekur nokkra athygli að hlýða á forstjóra Samkeppniseftirlitsins á Íslandi vísa ítrekað til þessarar þróunar á sínum tíma ekki bara hér á landi heldur líka t.d. í Bandaríkjunum eins og hann gerði á fundi sem Félag atvinnurekenda stóð fyrir þann 11. febrúar sl. Raunar var að heyra að hann teldi þetta einmitt mjög gott skipulag fyrir afurðasölumál.

Sami forstjóri eða sú stofnun sem hann veitir forstöðu hefur ítrekað tjáð sig um afurðasölumál í landbúnaði. Í umsögn sem stofnun veitti Alþingi sl. haust um þingmál 376, sjá hér, segir m.a.:

„Hafa ber í huga í þessu sambandi það aðhald sem bændum er kleift að sýna viðsemjendum sínum, þ.e. afurðastöðvum, hefur farið þverrandi. Þannig er t.d. ekki til að dreifa samkeppni í kaupum á mjólk frá bændum, auk þess sem bændur eru ekki lengur eigendur kjötafurðastöðva nema að hluta til og geta því ekki beitt eigendaaðhaldi nema að takmörkuðu leyti.“

Viljandi er Sláturfélag Suðurlands þar talið með fyrirtækjum sem teljast í einkaeigu þó eigendur í A-deild stofnsjóðs (bændur) hafi atkvæðisrétt á stjórnar og aðalfundum og stjórni þannig fyrirtækinu. Einnig telur Samkeppniseftirlitið Sláturfélag Vopnfirðinga hf., Norðlenska ehf. og Fjallalamb hf. með í þessum hópi þó þau séu að verulegu leyti í eigu bænda eða félaga þeirra. Hið rétta er því að stærstur hluti slátrunar á sauðfé, nautgripum og hrossum fer fram í fyrirtækjum sem eru í eigu og/eða stjórnað af bændum. Bændur reka því enn í dag á samstarfsgrunni fyrirtæki sem sjá um vinnslu og sölu afurða þeirra.

Um stjórnsýslu Samkeppniseftirlitsins

En víkjum aðeins að stjórnsýslu Samkeppniseftirlitsins. Sama dag og yfirlýsingar forstjóra þess um verndaraðgerðir á krepputímum rötuðu á síður Viðskiptablaðsins, birtist í því grein eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS, og Maríu Kristjánsdóttur, lögmann, þar sem stjórnsýsluframkvæmd Samkeppniseftirlitsins var gerð að umtalsefni.

Í þessari grein var m.a. vakin athygli á því að samrunaeftirlit stofnunarinnar byggist, líkt og í Noregi og ESB, á tveimur hlutum – fasa I og fasa II; almennt er gert ráð fyrir því að tilkynntir samrunar fari í fasa I en einungis mál sem komi til með að hafa skaðleg áhrif á samkeppni fari í fasa II. Hin furðulega staða er hins vegar uppi að t.a.m. í bæði Noregi og ESB fara 2-3% tilkynntra samruna í fasa II á meðan hlutfallið hér á landi var að meðaltali tæp 44% á tímabilinu 2017-2020. Ekki er hægt að draga af þessu aðra ályktun en að stjórnsýsla Samkeppniseftirlitsins sé mjög frábrugðin stjórnsýslu systurstofnunar þess í Noregi og framkvæmdastjórnar ESB.

Hvað leggur Samkeppniseftirlitið svo til?

Fyrr er vikið að því að stofnun kaupfélaganna virðist forstjóra Samkeppniseftirlitsins hugleikin. En stofnunin hefur einnig bent á aðrar leiðir fyrir bændur til að styrkja stöðu sína í afurðasölumálum. Í fyrr tilvitnaðri umsögn til Alþingis er bent á að með breytingum á regluumhverfi megi gera bændum betur kleift að „…vinna afurðir sínar sjálfir og bjóða þær neytendum á grundvelli eigin hugvits og nýsköpunar. Með því gætu bændur sýnt bæði kjötafurðastöðvum og dagvöruverslunum aukið aðhald.“

Fákeppni á smásölumarkaði

Þessi nálgun Samkeppniseftirlitsins, sem lausn á því viðfangsefni bænda að kaupendur varanna eru að stærstum hluta tvær smásölukeðjur, hljóma nánast útópískar. Verslanir Haga (Bónus og Hagkaup) auk Krónunnar fara með 76% verslunar á smásölustigi hér á landi. Hvernig dettur forstjóra Samkeppniseftirlitsins í hug að það bæti stöðu bænda að mæta á pikköppunum sínum á planinu fyrir framan skrifstofur þessa fyrirtækja með kjöt af heimaslátruðu á pallinum. Kjötið þarf að selja sem fyrst því bændur hafa ekki geymslur fyrir það. Ég læt lesendum eftir að geta sér til um niðurstöðuna. Stofnun kaupfélaganna á sínum tíma var einmitt ætlað að vera svar við sambærilegri stöðu. Á sama hátt styður t.d. ESB við það að bændur skipuleggi afurðasölustarf sitt með samvinnu – hefur ESB haft það að stefnu sinni allt frá gerð Rómarsáttmálanna 1958. Sameina þarf slagkraft margra til að mæta fákeppni á smásölumarkaði og samkeppni erlendis frá eins og ríkir hér á landi.

Bætum stöðu íslensks landbúnaðar

Aukið svigrúm landbúnaðar í nágrannalöndum okkar til að skipuleggja samstarf í skjóli undanþága frá samkeppnislögum hlýtur að teljast hluti af samkeppnisforskoti hans gagnvart okkar landbúnaði. Samkeppniseftirlitinu væri nær að benda á þennan óeðlilega mun og hvetja stjórnvöld til að minnka hann, fremur en að freista þess að koma í veg fyrir að hann sé jafnaður að hluta með því að auka lítilsháttar svigrúm íslensks landbúnaðar gagnvart samkeppnisreglum.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Ný tækifæri í smærri innlendri áfengisframleiðslu

Deila grein

03/02/2021

Ný tækifæri í smærri innlendri áfengisframleiðslu

Mikil gróska hefur verið í innlendri áfengisframleiðslu síðastliðin ár, og þá sérstaklega hjá smærri innlendum framleiðendum á öli og sterku áfengi. Mikil nýsköpun og vöruþróun á sér stað innan veggja þeirra, en hefur þróun á atvinnurekstri þeirra einnig átt sér stað. Þá er sérstaklega átt við jákvæða þróun í átt að ferðaþjónustu. Einnig hafa íslenskir áfengisframleiðendur farið í ákveðna útrás, en íslensk áfengisframleiðsla hefur unnið til alþjóðlegra viðurkenninga og birst á erlendum áfengismörkuðum. Jákvæð landkynning á sér stað með slíkri útrás, en umræddir framleiðendur nýta almennt íslenska sögu og menningu við nýsköpun, þróun og markaðsetningu þeirra. Ásamt þessu hefur áhugi neytenda á innlendri áfengisframleiðslu aukist til muna.

Þrátt fyrir þetta eiga smærri innlendir áfengisframleiðendur enn á brattan að sækja. Þeir eru háðir Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) með afkomu sína, en mikið tekjutap felst í því ef verslunin kýs að hafa ekki vörur þeirra til sölu á ákveðnum stöðum. Aukin netverslun neytenda á áfengum vörum frá erlendum netverslunum hefur einnig leitt til neikvæðra áhrifa á samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda, ásamt þeim neikvæðu umhverfisáhrifum og neikvæðu áhrifum á afkomu ríkissjóðs sem fylgir slíkri netverslun. Einnig verður markaðurinn sífellt alþjóðlegri þar sem vörur frá öllum ríkjum heims hafa greiðan aðgang að innlendum markaði. Allt þetta gerir samkeppnishæfi smærri innlendra áfengisframleiðenda gagnvart stórum erlendum og innlendum framleiðendum töluvert verri en má vera. Mikilvægt er að örva innlenda framleiðslu ásamt því að tryggja aukin atvinnutækifæri um land allt.

Undirritaður hefur lagt fram frumvarp fyrir Alþingi um stuðning til smærri innlenda áfengisframleiðendur með afslætti af áfengisgjaldi og leyfi fyrir sölu á framleiðslustað. Frumvarpið er lagt fram með það markmið að styðja við bakið á þessum framleiðendum, tryggja samkeppnishæfi þeirra, stuðla að auknu frelsi á markaðinum, hagstæðari verði til neytenda og auknum atvinnutækifærum um allt land.

Afsláttur af áfengisgjaldi til smærri innlenda áfengisframleiðenda er til þess fallinn að lækka framleiðslukostnað þeirra og með því stuðla að frekari nýsköpun ásamt því að gera þá samkeppnishæfari á markaði. Smærri innlendir áfengisframleiðendur framleiða vörur sínar í minna magni og með því er framleiðslukostnaður þeirra hærri fyrir hvert eintak en hjá stærri framleiðendum. Þessi stærðarhagkvæmi endurspeglast í verðlagningu til neytenda, en vegna þessa neyðast smærri áfengisframleiðendur að selja sínar vörur á hærra verði en þeir stærri. Með þessu er einnig stuðlað að lægri verðlagningu til neytenda, sem gerir vörur smærri innlenda áfengisframleiðanda að ákjósanlegri kost í áfengisinnkaupum. Það er ekki ásættanlegt að innlendar framleiðsluvörur kosti jafnvel þrefalt hærra heldur en innfluttar vörur í áfengisútsölustöðum landsins.

Með leyfi til sölu á framleiðslustað er átt við að smærri innlendir áfengisframleiðendur geti fengið leyfi til að selja framleiðsluvörur sínar á framleiðslustað þeirra eða nærliggjandi húsnæði. Þá er salan bein og milliliðalaus, „beint frá býli“. Í dag bjóða margir smærri framleiðendur upp á skoðunar- og kynningarferðir um framleiðslustaði þeirra. Einnig hafa þeir boðið upp á smökkun á sínum vörum. Þó er smærri innlendum áfengisframleiðendum óheimilt að selja vörur sínar til einstaklinga sem sækja þá heim. Margir hafa gagnrýnt þá staðreynd, þ.e. bæði meðal neytenda og atvinnurekenda. Sem dæmi um aðila má nefna Samtök íslenskra handverksbrugghúsa, sem hafa lagt fram ýmsar góðar hugmyndir um hvernig hægt er að bæta rekstrarumhverfi smærri innlendra áfengisframleiðenda á jákvæðan máta.

Þessar breytingar skila sér til neytenda sem og framleiðenda. Við ætlum að styðja við bakið á smærri innlendum áfengisframleiðendum og tryggja samkeppnishæfi þeirra. Þó með ákveðnum þrepaskiptum takmörkunum með lýðheilsusjónarmið til hliðsjónar. Markmið frumvarpsins er ekki að fjölga skemmtistöðum eða auka áfengisneyslu, heldur að tryggja tækifæri smærri innlendra áfengisframleiðenda bæði á innlendum sem erlendum markaði. Með þessum aðferðum heldur ekki verið að finna upp hjólið, en báðar aðferðir eru viðurkenndar meðal nágrannaríkja okkar í átt að þeim markmiðum sem fram hafa komið. Aðferðirnar hafa reynst þeim vel, og þá vona ég að með samþykkt frumvarpsins á Alþingi náum við sama árangri.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.