Categories
Fréttir Greinar

Stað­bundið neyslu­rými: Stórt skref í skaða­minnkun

Deila grein

08/08/2024

Stað­bundið neyslu­rými: Stórt skref í skaða­minnkun

Í nokkur ár hefur Rauði Krossinn rekið færanlegt skaðaminnkandi úrræði í bíl, Frú Ragnheiði, sem þjónustað hefur fjölda fólks sem glímt hefur við fíknisjúkdóma. Markmið Frú Ragnheiðar, sem ekur um götur borgarinnar og sækir fólk heim, er að fyrirbyggja þann skaða og þá áhættu sem kann að hljótast af notkun vímuefna fremur en að fyrirbyggja notkunina sjálfa og koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og óafturkræfan skaða. Þar er veitt lágþröskuldaþjónusta svo sem nálaskiptaþjónusta.

Fyrir þremur árum gerðu velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Rauði Krossinn samning um rekstur færanlegs neyslurýmis í bíl, kallað Ylja. Neyslurými er lagalega verndað umhverfi þar sem neytendur vímuefna sem eru 18 ára og eldri geta sprautað ávana- og fíkniefnum í æð undir eftirliti starfsfólks og gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna. Markmiðið með slíkum rýmum er skaðaminnkun við notkun vímuefna. Í neyslurými er notanda m.a. boðið upp á almennar ráðleggingar um sprautubúnað og sprautunotkun og aðrar hættuminni aðferðir við inntöku efna og almenna ráðgjöf um hreinlæti og sjálfshjálp til að koma í veg fyrir sýkingar og draga úr líkum á sjálfsskaða. Þar er dreift hreinum sprautubúnaði fyrir hvern notanda og tekið við notuðum sprautubúnaði til förgunar. Sem og að notanda er veitt upplýsingar um heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu sem honum stendur til boða. Er því um þarfa heilbrigðisþjónustu að ræða sem hefur það markmið að auka lífsgæði, bæta heilsu og stuðla að ábyrgari neysluhegðun þeirra sem nota vímuefni.

Þegar samningur Reykjavíkurborgar við Rauða Krossinn var við að renna út óskaði Velferðarráð Reykjavíkurborgar eftir áframhaldandi samstarfi við Rauði Krossins um rekstur Ylju, en talið var betra að rekstur slíks rýmis væri á föstum stað. Var það meðal annars vegna þess að bílar eiga það til að hristast þegar hvasst er úti og þá getur verið varasamt að nota sprautubúnað. Í staðbundnu húsnæði er þá hægt að bjóða fleiri einstaklingum inn í einu og byggja upp og veita aukna heilbrigðisþjónustu.

Staðbundið neyslurými

Í dag opnar neyslurýmið Ylja formlega við Borgartún. Rauði Krossinn mun reka þetta neyslurými samkvæmt samningi við Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, en ekki er hægt að fjalla um þetta án þess að minnast á þátt heilbrigðisráðherra, Willums Þórs Þórssonar. Willum Þór hefur verið mikill stuðningsmaður úrræðisins og hvatt til þess neyslurými yrði fundinn fastur staður. Heilbrigðisráðuneytið stendur undir kostnaði við reksturinn.

Það er afar jákvætt að þessi starfsemi, sem er mikilvægt skref í minnkun á þeim skaða sem fíknisjúkdómar geta valdið, hefur fengið fastan samastað og um leið viðurkenningu á mikilvægi þessa úrræðis. Þessu skrefi ber að fagna og viljum við þakka þeim sem hafa starfað í málaflokknum um árabil, oft við erfiðar aðstæður.

Magnea Gná Jóhannsdóttir og Þorvaldur Daníelsson, fulltrúar Framsóknar í Velferðarráði Reykjavíkurborgar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. ágúst 2024.

Categories
Greinar

Ó­sýni­lega fólkið í Reykja­vík

Deila grein

10/05/2022

Ó­sýni­lega fólkið í Reykja­vík

Það er kunnara en frá þurfi að segja að framboð á húsnæði til kaups hefur verið viðvarandi vandamál í langan tíma í Reykjavík og verð á húsnæði hefur hækkað umfram allt. Óháð framboðsskortinum er stór hópur fólks sem hefur verið án húsnæðis í langan tíma. Ósýnilega fólkið. Heimilislausir. Við í Framsókn reiknum ekki með að heimilislausir bruni á kjörstað 14. maí en eins og með aðra hópa í borginni þá ber okkur skylda til að huga að málefnum þessa hóps.

Samfélög eru dæmd af framkomu við hetjurnar sem há sínar orrustur á götunni á hverjum degi fyrir lífi sínu.

Okkur ber skylda til þess að tryggja heimilislausum athvarf. Þak yfir höfuðið. Öryggi. Sérfræðingar segja að heimilisleysi sé oftar en ekki afleiðing áfalla sem fólk hefur orðið fyrir og sífellt fleiri rannsóknir segja okkur að langflestir sem séu á götunni hafi orðið fyrir einhvers konar áföllum.

Við í Framsókn viljum bæta aðstæður þessa hóps. Reykjavíkurborg hefur eytt hundruðum milljóna króna í smáhýsi sem hafa annað hvort verið sett niður á vonlausum stöðum fyrir fólkið eða alls ekki sett í notkun. Að minnsta kosti 10 smáhýsi hafa staðið fullbúin en óhreyfð í þrjú ár á geymslusvæði þar sem pólitískan kjark hefur skort til þess að finna þeim stað. Við í Framsókn viljum hafa búsetuúrræði fyrir heimilislausa sem næst þeirri þjónustu sem þeir þurfa að sækja og helst að hafa þessi úrræði í öllum hverfum borgarinnar – en ekki þar sem almenningssamgöngur og önnur þjónusta eru hvergi sjáanleg. Það er ekki forsvaranlegt að fela heimilislausa enn frekar með því að koma þeim fyrir úti í móa.

Á sama tíma þurfum við að koma fram með raunhæfar lausnir á öðrum þeim vanda sem oft fylgir því að vera heimilislaus, en það er fíknivandinn. Það eru til leiðir til þess að draga úr vandamálum sem fylgja fíknisjúkdómum og þar verðum við að vera hugrökk, hlusta á hópinn sem á að þjónusta og ráðast í aðgerðir sem henta og þjóna hópnum.

Reykjavíkurborg verður að styðja við hvers konar starfsemi sem tekur við fólki að meðferð lokinni. Aðskilja þarf annars vegar edrú-miðaða þjónustu og hins vegar skaðaminnkandi úrræði. Hvort tveggja mikilvæg úrræði sem þurfa að vera til staðar.

Allra best væri að þessi vandi allur yrði upprættur en það er stærra mál og myndi þurfa mjög afgerandi, snemmtæka íhlutun til þess að eiga einhvern möguleika á því, en það er efni í aðra grein.

Er ekki kominn tími á breytingar í Reykjavík?

Þorvaldur Daníelsson

Höfundur er frambjóðandi í 5. sæti á lista Framsóknar til borgarstjórnar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. maí 2022.