Categories
Uncategorized

Framsókn í verðmætasköpun

Deila grein

11/04/2022

Framsókn í verðmætasköpun

Kröftugt atvinnulíf er forsenda þess að við eflum okkar bæ, löðum að nýja íbúa og tryggjum að unga fólkið okkar geti snúið heim aftur eftir nám. Við í Framsókn leggjum áherslu á gott samstarf við atvinnulífið og að við tölum okkur upp sem öflugt atvinnusvæði. 

Hlutverk sveitarfélagsins er að markaðssetja bæinn sem öflugt atvinnusvæði, móta skipulag sem býður upp á atvinnuþróun, vera vakandi fyrir tækifærum í ytra umhverfi, styrkja við nýsköpun, tryggja raforku og í samstarfi við atvinnulífið kynna fyrir nemendum störf tengd verk- og tæknigreinum. 

Hömpum því sem vel er gert

Sem dæmi kom fram á opnum fundi um sjávarútveg á Akureyri á dögunum að aðeins 7% fiskafla er fluttur óunninn úr landi, rest er unnið hér innanlands. Þannig skapast störf.  Á sama tíma flytur Noregur helming síns afla óunninn úr landi.

Á ársfundi Norðurorku var erindi sem fjallaði um uppbyggingu Skógarbaðanna og magnað að sjá þann metnað sem lagður var í að leggja lagnir og hjóla- og göngustíg á mettíma. Hömpum því sem vel er gert. 

Verðmætasköpun og velferð er sitthvor hliðin á sama peningnum  

Á Eyjafjarðarsvæðinu hefur matvælaframleiðsla lengi verið ein af mikilvægustu atvinnugreinunum. Af því hafa skapast fjöldi afleiddra starfa og skipt sköpum í verkefnastöðu margra fyrirtækja í bænum, svo sem Frost, Vélfag, Slippurinn, verkfræðistofur eins og Mannvit, Efla og Raftákn og lengi mætti telja. 

Það er mikill gróska í byggingariðnaði og fyrirtæki eins og SS Byggir, BE Húsbyggingar, Húsheild, Trétak, BB Byggingar blómstra sem aldrei fyrr ásamt fleiri fyrirtækjum. Verktakar í mannvirkjageiranum eru margir hverjir öflugir eins og Áveitan, Bútur, Rafeyri, Rafmenn, Múrey, Blikkrás og Blikk og tækni. Það er gaman að sjá verktakafyrirtæki eins og Nesbræður vaxa hratt á öflugum verktakamarkaði ásamt Finni ehf, GV Gröfum og G. Hjálmarssyni. 

Kynnumst atvinnulífinu

Við í Framsókn hlökkum til að heimsækja fyrirtæki á Akureyri á næstu vikum og fræðast enn frekar um starfsemi þeirra því við trúum á framsókn í verðmætasköpun. Það er nefnilega þannig að við byggjum ekki upp það velferðarsamfélag sem við viljum búa í nema vegna þeirra öflugu fyrirtækja sem starfa í bænum. 

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 11. apríl 2022.