Categories
Fréttir

Sigmundur Davíð kynnir formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni

Deila grein

30/10/2013

Sigmundur Davíð kynnir formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sat í dag þing Norðurlandaráðs og tók þátt í umræðu um ungt fólk og samkeppnishæfni á Norðurlöndunum. Þá kynnti forsætisráðherra formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni fyrir árið 2014 sem ber yfirskriftina „Gróska og lífskraftur“.
Í ræðu sinni fjallaði Sigmundur Davíð um þau verkefni sem Ísland hyggst setja á oddinn í formennskutíð sinni, líkt og norræna lífhagkerfið, norræna spilunarlistann og norrænu velferðarvaktina, auk þess að leggja aukna rækt við vestnorrænt samstarf. Þá mun á formennskuárinu fara fram endurskoðun á norðurskautsáætlun Norrænu Ráðherranefndarinnar og starfrækt verður sérstakt norrænt landamæraráð sem ætlað er að vinna áfram að afnámi stjórnsýsluhindrana á Norðurlöndunum.

Categories
Fréttir

Samband eldri framsóknarmanna stofnað

Deila grein

29/10/2013

Samband eldri framsóknarmanna stofnað

sef-stjornSamband eldri framsóknarmanna, SEF, var stofnað í dag í Framsóknarhúsinu við Hverfisgötu. Tilgangur SEF verður m.a. að efla og samræma starf félagsmanna sinna, 60 ára og eldri, og vinna að málefnum eldri borgara með virku starfi að stefnumótun og samþykktum á flokksþingum. Jafnframt er því ætlað að vera stofnunum Framsóknarflokksins til ráðgjafar í öllum málum sem varða eldra fólk og hagsmuni þess.
Fyrsti formaður SEF er Hörður Gunnarsson og með honum í aðalstjórn voru kjörin, Hákon Sigurgrímsson, Ragnhildur Jónasdóttir, Einar G. Harðarson og Ólafía Ingólfsdóttir.
Einnig var kosið í trúnaðarráð með fulltrúum úr hverju kjördæmi og er því ætlað að vera stjórn til ráðgjafar og liðssinnis, eftir því sem þurfa þykir, um málefni, er snerta einstök kjördæmi eða landið í heild.
Var það rómur manna að sambandið gæti orðið Framsóknarflokknum til farsældar og eðlilegt að fylgja eftir góðum árangri flokksins í kosningunum í vor því baráttumál hans snertu ekki síst þann hóp borgara, sem studdu Framsóknarflokkinn frekar en áður.
Á myndinni er nýkjörin stjórn SEF ásamt formanni þingflokks Framsóknarmanna, Sigrúnu Magnúsdóttur.

Categories
Fréttir

Sigmundur Davíð á Sprengisandi

Deila grein

28/10/2013

Sigmundur Davíð á Sprengisandi

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson var á Sprengisandi á Bylgjunni í gær, sunnudag. Hann ræddi þar um stjórnmálaviðhorfið, þær aðgerðir sem framundan eru í skuldamálum heimilanna og sagði mjög ofsagt að deilur væru millum stjórnarflokkanna í þeim efnum. Þeir sem helst hefðu áhyggjur af því að ekki yrði staðið við gefin fyrirheit, væru mestu andstæðingar hugmyndanna um aðstoð við skuldsett heimili.
Enginn ágreiningur er um aðgerðir vegna skuldugra heimila innan ríkisstjórnarinnar sagði Sigmundur Davíð, hann sagði jafnframt að sá kostnaður sem talað væri um vegna leiðréttingar til handa heimilum væri undir þeim tölum sem hafa verið í umræðunni og svigrúmið sem myndast samhliða afnámi hafta rúmaði þá upphæð og vel það.
Sigmundur Davíð var spurður út í fjölmargar kjaftasögur sem hafa grasserað um hann í þjóðfélaginu upp á síðkastið. Hann kvaðst orðinn ýmsu vanur í þeim efnum, þetta hafi verið töluvert áberandi fyrst í stað, svo hafi það lagast, en undanfarið hafi rógurinn og kjaftasögurnar aftur komist í hæstu hæðir. „Þetta á ekkert bara við um mig, heldur stjórnmálamenn almennt. Ég get bara talað út frá eigin reynslu og sé að menn nýta sér þetta sem tæki í pólitískri baráttu. Þannig er ekki langt síðan skipulega var hringt inn á fréttastofur til að reyna að koma því á kreik að ég ætti von á barni með einhverri annarri konu en konunni minni.“ Umsjónarmaður Sprengisands greip þá inn í og staðfesti þetta og sagðist meðal annars að hringt hefði verið í sig með slíkar sögur.
Hér er hægt að nálgast upptökur af viðtalinu við Sigmund Davíð:
Sprengisandur: SDG 1. hluti. Sigmundur ætlar að standa við allt
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir ekki vafa um að staðið verði við gefin loforð.
https://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=21945
Sprengisandur: SDG 2. hluti. Sigmundur og kjaftasögurnar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að um sig gangi vondar kjaftasögur og umræðunnar vegna sé erfitt að fá fólk til að taka þátt í stjórnmálum.
https://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=21946
Sprengisandur: SDG 3. hluti. Ráðherrar ráða niðurskurði
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að hagræðingarnefndin skili tillögum til ráðherranefndar sem ákveði síðan hvað verði skorið og hvað ekki.
https://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=21947

Categories
Greinar

Njóta stóru bankarnir þrír ríkisábyrgðar í reynd?

Deila grein

28/10/2013

Njóta stóru bankarnir þrír ríkisábyrgðar í reynd?

Frosti SigurjónssonLandsbankinn, Arionbanki og Íslandsbanki eru taldir of stórir til að falla. Það þýðir að ef einhver þessara þriggja banka yrði gjaldþrota, þá myndi ríkissjóður koma til bjargar og lýsa yfir ríkisábyrgð á innstæðum.

Það má segja að á innstæðum í þessum þrem stærstu bönkum verði ekki komist hjá ríkisábyrgð. Eðlilegt væri því að þessir bankar greiddu ríkisábyrgðargjald í ríkissjóð í samræmi við lög um ríkisábyrgðir. Slíkt gjald myndi skila nokkrum milljörðum í ríkissjóð og jafna aðstöðu á bankamarkaði.

Njóti banki ríkisábyrgðar í reynd, án þess að greiða ríkisábyrgðargjald, þá má jafna ábyrgðinni við ríkisstyrk. Það er vafamál hvort tilefni sé til að ríkið styrki stærstu bankana sérstaklega og spurning hvort smærri bankar, sem ekki njóta sömu fyrirgreiðslu, eigi að sætta sig við slíka mismunun á markaði.

Í hruninu lýsti þáverandi ríkisstjórnin því yfir á ögurstundu að ríkisábyrgð væri á öllum innstæðum í innlendum bönkum. Yfirlýsingin dugði til þess að stöðva peningaflótta úr bönkunum. Hún bindur þó vart ríkissjóð, þar sem hún var aldrei samþykkt sem lög frá Alþingi. Ekki veit ég til þess að bankar hafi greitt ríkisábyrgðargjald vegna yfirlýsingarinnar. Yfirlýsinguna mætti afturkalla til að taka af allan vafa í hugum fólks.

Innstæðutryggingasjóði er ætlað að koma innstæðuhöfum til bjargar ef banki fellur. Sjóðurinn er fjármagnaður með iðgjöldum sem bankar greiða og á honum er ekki bakábyrgð ríkisins. Í hruninu voru um 20 milljarðar í sjóðnum, sem hefði kannski dugað til að bjarga litlum banka eða sparisjóði, en ekki neinum af stóru bönkunum.

Ríkissjóður mun því þurfa að hlaupa undir bagga ef stór banki fellur, jafnvel þótt bankinn hafi greitt samviskusamlega í tryggingasjóð innstæðna.

Ríkisábyrgð á innstæðum í stóru bönkunum virðist því miður óumflýjanleg hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Best væri því að horfast í augu við þá staðreynd, skilgreina ríkisábyrgðina nánar og sjá til þess að stóru bankarnir greiði vegna hennar sanngjarnt gjald í ríkissjóð.

Innstæður í stóru bönkunum 30.6.2013 

Arion banki        467 milljarðar
Íslandsbanki      476 milljarðar
Landsbanki       449 milljarðar
Samtals:       1.392 milljarðar

Ríkið þyrfti ekki að ábyrgjast allar þessar innstæður. Líklega gæti meiri hluti þessara innstæðna beðið á meðan fallinn banki væri settur í gjaldþrotameðferð. Takmarka þyrfti ábyrgðina við þær innstæður sem brýnast væri að tryggja. Til dæmis mætti hugsa sér að hámarkstrygging á hvern einstakling væri 3 milljónir kr. og hjá lögaðilum mætti tryggja innstæður að hámarki 3 milljónir á hvert stöðugildi hjá fyrirtækinu. Þannig gæti stór hluti einstaklinga og fyrirtæki þraukað, kannski í 3-6 mánuði, á meðan greitt væri úr mesta vanda bankans, eða eignir hans seldar upp í forgangskröfur.

Mjög gróft áætlað, mætti líklega takmarka ríkisábyrgð á innstæðum stóru bankanna við 4-500 milljarða í heild. Með því mætti afstýra mesta tjóninu af falli stórs banka. Væri ríkisábyrgðargjaldið 1% af þeirri fjárhæð myndi það skila 4-5 milljörðum árlega í ríkissjóð.

 

Frosti Sigurjónsson

 

 

Categories
Fréttir

Flugvöllurinn áfram í Vatnsmýrinni

Deila grein

25/10/2013

Flugvöllurinn áfram í Vatnsmýrinni

photo-2Forsætisráðherra, innanríkisráðherra, borgarstjóri, formaður borgarráðs og forstjóri Icelandair Group undirrituðu samkomulag um að norður-suðurflugbraut Reykjavíkurflugvallar verður ekki lokað árið 2016, eins og ráðgert hafði verið.
Þetta er þáttur í nýju samkomulagi ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group um framtíð innanlandsflugs. Samkvæmt því fær norður-suður-brautin að halda sér allt til 2022 en jafnframt verður farið í úttekt á framtíðarstaðsetningu innanlandsflugs, með áherslu á að miðstöð þess verði á höfuðborgarsvæðinu. Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, mun nú stýra starfshóp sem mun reyna að finna nýjan stað fyrir flugvöllinn.
Á flokksþingi framsóknarmanna í febrúar var ályktað mjög skýrt um að flugvöllurinn í Reykjavík verði áfram í Vatnsmýrinni sem hornsteinn fyrir samgöngur landsmanna, vegna almennings- og öryggishagsmuna.

Categories
Greinar

Helgi og kröfuhafar

Deila grein

25/10/2013

Helgi og kröfuhafar

Eygló HarðardóttirÍ nýlegri fyrirspurn til fjármálaráðherra spurði Helgi Hjörvar hvort skuldaleiðrétting verðtryggðra húsnæðislána ætti að vera hluti af samningum við erlenda kröfuhafa um afnám gjaldeyrishaftanna.

Þessi fyrirspurn hefur angrað mig nokkuð síðustu daga.

Ekki þó vegna áhuga Helga á skuldaleiðréttingunni. Ég er sannfærð um að hann hefur raunverulegan áhuga á skuldamálum heimilanna, ólíkt ýmsum öðrum í hópi fyrrverandi stjórnarliða. Nei, heldur því að hann skuli gefa sér að erlendir fjármagnseigendur hafi eitthvað með ákvarðanir íslenskra stjórnvalda að gera.

Við erum ekki í neinum samningum við þá um uppgjör þrotabúanna. Líkt og Seðlabankinn, fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafa sagt er hlutverk slitastjórna hinna föllnu banka að koma með tillögur að nauðasamningum sem ógna ekki fjármálalegum stöðugleika landsins.

Sem ógna ekki fjárhagslegu sjálfstæði Íslands.

Slitastjórnirnar eiga að vinna sitt starf, að ljúka uppgjöri gömlu bankanna með einum eða öðrum hætti.

Ríkisstjórn Íslands mun vinna sitt starf, – að stjórna landinu.

Kannski er þetta ný hugsun fyrir suma, en hún fellur mér mun betur en að sitja og standa eins og kröfuhafar vilja.

 

Eygló Harðardóttir

 

Categories
Greinar

Þekking til framfara

Deila grein

24/10/2013

Þekking til framfara

Sigmundur Davíð GunnlaugssonKvennafrídagurinn 24. október er merkilegur dagur í sögu íslenskrar kvennahreyfingar því segja má að þann dag árið 1975 hafi hún á ný risið upp sem hin öfluga, fjölmenna samstöðuhreyfing sem hefur mótað samfélag okkar æ síðan. Framlag hennar er mikilvægt fyrir þróun jafnréttisbaráttunnar, en ekki síður fyrir þróun stjórnmálanna og lýðræðisins.

Frá upphafi hefur áherslan verið á réttindi kvenna á vinnumarkaði, launajafnrétti og aðgengi að menntun, störfum og valdastöðum innan atvinnulífs og stjórnmála. Þess vegna er 24. október hátíðar- og baráttudagur og mikilsvert tilefni til að minna okkur öll á ríkulegt framlag kvenna til lífsgæða, mannréttinda og auðlegðar Íslands.

Í tilefni af 30 ára afmæli kvennafrídagsins á sínum tíma og í þakkarskyni við framlag jafnréttishreyfingarinnar til þróunar samfélagsins var stofnað til Jafnréttissjóðs til að styrkja nýsköpun þekkingar á sviði jafnréttis- og kynjafræða með sérstakri áherslu á stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Í því fólst viðurkenning á nauðsyn þess að efla rannsóknir á hlutskipti kvenna og karla og að skjóta sterkari stoðum þekkingar undir starf að jafnrétti kynjanna á margvíslegum vettvangi, bæði á vegum stjórnsýslunnar sem annarra.

Sérstaklega skyldi styðja ungar fræðikonur við uppbyggingu á fræðimannsferli sínum. Að auki höfðu sterkar líkur verið leiddar að því að konur sem umsækjendur eða rannsóknarverkefni á sviði jafnréttis kynja gætu borið skarðan hlut frá borði við samkeppni um fé í rannsóknarsamfélaginu í heild.

Jafnréttissjóður hefur nú styrkt hátt á þriðja tug rannsóknarverkefna. Í dag er úthlutað styrkjum til fimm ólíkra rannsókna sem öll munu nýtast í jafnréttisstarfinu. Rannsóknirnar snúa að launajafnrétti kynjanna, viðhorfum unglinga til verkaskiptingar kynja, ólíkum áhrifum atvinnuleysis á sálræna líðan karla og kvenna auk þess sem sjónum verður beint að orðræðu samfélagsins sem tengist móðurhlutverkinu.

Loks ber að nefna rannsóknarverkefni þar sem kastljósinu verður beint að fjarveru kvenna á sýningum íslenskra menningarminjasafna. Með þessu leggur Jafnréttissjóður sitt lóð á vogarskálarnar til eflingar þekkingar sem nýtist jafnréttisbaráttunni og samfélaginu öllu.
Til hamingju með daginn.

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

(Greinin birtist í FRÉTTABLAÐINU 24. október 2013)

Categories
Fréttir

Auglýst eftir framboðum í Árborg

Deila grein

22/10/2013

Auglýst eftir framboðum í Árborg

xblogo2013Á almennum félagsfundi í Framsóknarfélagi Árborgar í byrjun október var ákveðið að stilla upp á lista fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 31. maí 2014. Á fundinum var jafnframt kjörin fimm manna uppstillingarnefnd undir forystu Gissurar Jónssonar.
Við sama tækifæri tilkynntu Helgi S. Haraldsson, núverandi bæjarfulltrúi flokksins, og Íris Böðvarsdóttir, varabæjarfulltrúi, að þau gefi áfram kost á sér til starfa fyrir sveitarfélagið Árborg í kosningunum næsta vor.
Framsóknarfélag Árborgar auglýsir hér með eftir framboðum og ábendingum um áhugasamt og hæfileikaríkt fólk með brennandi áhuga á málefnum sveitarfélagsins til að taka sæti á lista Framsóknarflokksins í Árborg.
Ef þú hefur hefur áhuga að taka sæti á listanum eða tillögu um fólk á listann biðjum við þig að vera í sambandi við uppstillinganefnd á netfangið xb.arborg@gmail.com. Frambjóðendur geta þeir einir orðið sem hafa kjörgengi til sveitarstjórnar Árborgar.
Framboðsfrestur er til fimmtudagsins 31. október 2013. Stefnt er að því að samþykkja framboðslista á félagsfundi í lok nóvember.
Nánari upplýsingar eru veittar hjá Gissuri í síma 894-5070.
Takk fyrir aðstoðina og munum að það er gaman saman í Framsókn.

Categories
Fréttir

Náttúruverndarlög – endurskoðun

Deila grein

21/10/2013

Náttúruverndarlög – endurskoðun

ege-jokulsarlonid
Í undirbúningi er innan umhverfisráðuneytisins að mynda hóp með sérfræðingum og fagaðilum til að endurskoða náttúruverndarlög nr. 60/2013. Umhverfisráðherra mun leggja frumvarp til endurskoðaðra laga fyrir Alþingi áður en lög nr. 60/2013 taka gildi.
Markmiðið verður að ná sem víðtækastri sátt um lögin og ná lausnamiðari sátt sem yrði til jákvæðra breytinga fyrir okkur öll sem una okkar fallega landi sem og hinna fjöldamarga ferðamanna sem til landsins koma. Lögð verður áhersla á að horfa á málið út frá lausnum, hugsa fram á við og setja sér eftirsóknarverð markmið. Í þeirri vinnu verður tekið tillit til þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram um að ekki hafi verið nægjanlegt samráð við fjölmarga hagsmunaaðila. Það þarf að fara í vinnu með ýmis sjónarmið t.d. skógræktarinnar, sveitarfélaganna, Ferðafrelsis og Landsambands landeigenda.
Tryggja þarf nægilegt samráð við fjölmarga aðila og sérfræðinga við vinnuna. Fara vel yfir athugasemdir sem bárust og ekki var tekið tillit til. Frumvarpið fékk afar knappan tíma til umfjöllunar og á endanum fannst lausn sem enginn var fyllilega sáttur við og var það afgreitt undir lok þingsins undir mikilli tímapressu.
Helstu ágreiningsefni snérust að ákvæðum um almannarétt, umferð um hálendið og óskýrar orðaskilgreiningar. Heildstæðari sýn þarf að vera á umhverfismál í lagaumhverfinu, einnig snerist gagnrýnin um ákvæði um framandi tegundir, heimild til að tjalda, hlutverki einstakra stofnanna við framkvæmd laganna og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þá þarf að stíga viðráðanleg skref, hvað kostnað varðar.
Verður hér gerð grein fyrir nokkrum athugasemdum sem þarf að skoða frekar.

Eignarréttur – almannaréttur.

Vernd eignarréttar og umráðaréttur landeigenda yfir landi sínu er mikilvægur grundvallarréttur sem ber að vernda, en með sama hætti er nauðsynlegt að tryggja eðlilegan rétt almennings og ferðafólks til að njóta náttúru landsins, svo fremi að ekki sé gengið á rétt og hagsmuni landeigenda með spjöllum, ónæði eða öðru slíku. Augljóst er að hér er um að ræða vaxandi vandamál víða um landið, samhliða mikilli fjölgun ferðamanna. Hér er um að ræða viðfangsefni sem leiða þarf til lykta með víðtækara og nánara samráði við landeigendur, útivistarsamtök, ferðaþjónustuaðila og aðra hagsmunaaðila svo að löggjöfin og breytingar á henni verði ekki uppspretta endalausra deilna á komandi árum.

Umferð hjólreiðamanna.

ege-umferdinÍ lögunum segir: „Þegar farið er á reiðhjólum um landið skal fylgt vegum og skipulögðum reiðhjólastígum eins og kostur er.“
Sífellt fleiri nýta sér fjallahjól til ferðalaga og útivistar. Hjólin eru orðin mun betri en áður og fleiri geta nú hjólað erfiðar fjallahjólaleiðir. Það má velta því fyrir sér hvort hjólreiðar fara nokkuð verr með stíga, þegar allt er tekið með í reikninginn eða annað í náttúrinni heldur en umferð gangangi fólks. Lítið er um skipulagða reiðhjólastíga á hálendinu og því er búið að útiloka þennan ferðamöguleika. Koma verður til móts við þennan hóp.

Akstur utan vega.

Öllum er ljóst hvaða skaða akstur utan vega getur valdið fyrir náttúru landsins, skýrar reglur þurfa því að vera um akstur utan vega. Útfæra þarf slíkt vel svo það gangi upp bæði lagalega og í framkvæmd. Mikil gagnrýni hefur komið frá útivistarfólki, vönum ferðamönnum og bændum, sem vel þekkja til aðstæðna og bera mikla umhyggju fyrir náttúru landsins.
Margir umsagnaraðilar hafa gagnrýnt það að í lagatexta komi ekki skýr ákvæði um undanþágur vegna aksturs utan vega. Það er mikilvægt að slíkar undanþágur sé skýrar og að þær séu samdar í samráði við þá aðila sem málið varða. Fjölmargir aðilar þurfa starfs síns vegna að aka utan vega og yfirleitt er um að ræða akstur á léttum fjórhjólum sem ekki skemma land sé þeim ekið af skynsemi. Dæmi sem okkur er öllum umhugað um er að björgunarsveitir séu ávallt í stakk búnar til að bjarga öllum í krefjandi aðstæðum, hvar og hvenær sem er. Útköll björgunarsveita á hálendinu hafa margfaldast með tilkomu vaxandi útivistar almennings sem og ferðamanna sem sækja okkur heim. Skv lögum þessum fá björgunarsveitir einungis heimild til aksturs utan vega við björgunarstörf en að öðru leyti eiga æfingar að fara fram á sérstökum æfingasvæðum. Æfingar björgunarsveita við raunverulegar aðstæður eru mikilvægur þáttur í starfsemi þeirra og getur reynsluleysi við raunverulegar aðstæður verið dýrkeypt. Mikilvægt er að björgunarsveitum sé veitt rýmri heimild til æfinga utan vega.

ege-thjodveginumKortagrunnur um vegi og vegslóða.

Í lögunum segir að ráðherra skuli í reglugerð kveða á um gerð kortagrunns þar sem merktir skulu vegir og vegslóðar sem heimilt er að aka vélknúnum ökutækjum um.
Mikil gagnrýni og tortryggni hefur komið fram og snúast áhyggjurnar um hömlur á ferðafrelsi sem eru ekki í samræmi við ferðavenjur um náttúru landsins. Menn hafa farið um hálendið um árabil, til að njóta landsins og náttúrinnar en ekki til að skaða hana. Fara þarf betur yfir hvernig menn ætla að nálgast markmiðið. Hugsa í lausnum. Eins og lagt er upp með í lögunum þá er hættan sú að slóðar sem eru settir inn verða öllum kunnir, það þýðir meiri átroðning og þá er markmiðið fallið um sjálft sig og engin náttúruvernd í því. Einnig hafa menn áhyggjur af því að mat á refsinæmi sé óraunhæft og of þrengjandi að byggja á því að tæmandi séu allir þeir vegir og slóðar sem heimilt er að aka um. Skilja verði eftir svigrúm fyrir þá sem ferðast um landið til að taka tillit til aðstæðna hverju sinni og á hverjum stað um leið og lögð sé á þá almenn kvöð um að virða náttúru landsins og valda ekki skaða á viðkvæmri náttúru.

Óskýrar orðaskilgreiningar.

Ýmsar orðaskilgreiningar eru óljósar, villandi og eða rangar, úr því þarf að bæta. Óskýr lagasetning skilar ekki tilsettum árangri, leiðir til ágreinings og færir dómstólum aukin völd.
Dæmi:

  • 5. töluliður 5. gr.  Ræktað land: Land sem nýtt er til framleiðslu nytjajurta með íhlutun, svo sem sléttun, þurrkun, áburðargjöf, jarðvinnslu, sáningu eða öðrum ræktunaraðgerðum. Land telst óræktað eftir langvarandi notkunarleysi. Skóglendi telst ræktað land þangað til trén hafa náð þeim þroska að venjuleg umferð sakar ekki. Ýmsar spurningar vakna hér. Hættir skóglendi að vera ræktað land þegar trén hafa náð þroska? Hvað með land sem er nýtt til beitar fyrir búfénað, t.d. hross og nautgripi, og ætti því að flokkast sem „ræktað land“ eða land í notkun? Í þessum lögum væri til dæmis heimild tjöldun almennings til skamms tíma á slíkum landsvæðum enda væri þetta svæði flokkað sem „óræktað land“. Það er mikilvægt að skilgreina hvað er óræktað land. Skynsamlegra væri að nota hugtökin nytjaland og land sem ekki er nytjað í stað orðanna ræktað og óræktað land.
  • 28. töluliður 5. gr. Þéttbýli: Svæði afmarkað með sérstökum merkjum sem tákna þéttbýli. Virðist eingöngu miða að því að skilgreina hvar þéttbýli endar við þjóðvegi en eðli málsins skv. hlýtur það að vera þar sem byggðin endar. Eðlilegra væri að vísa til samþykkts skipulags.
  •  Í kafla IV Almannaréttur, útivist og umgengni. 25. gr. Takmörkun umferðar. „Umhverfisstofnun getur í verndarskyni takmarkað umferð um eða lokað svæðum í óbyggðum ef hætta er á verulegu tjóni af völdum ágangs á svæðið.“ Þegar svona tilvik koma upp þá þarf að hafa samráð við sveitarfélög áður en ákvörðun er tekin.
  • Í VI. kafla um Náttúruminjaskrá. 37. gr. Réttaráhrif skráningar minja á náttúruminjaskrá. „Ráðherra er heimilt að kveða á um tímabundið bann við framkvæmdum eða nýtingu sem skaðað getur verndargildi náttúruminja sem teknar eru á framkvæmdaáætlun (B-hluta).“ Sama sagan, vantar að tryggja aðkomu sveitarfélaga.
  • Í X. kafla um Vernd jarðminja, vistkerfa, vistgerða og tegunda. 57. gr. 3. mgr. Sérstök vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Orðalag getur orðið til þess ákvarðanir sveitarfélaga geta verið kærðar á þeim grundvelli að framkvæmd þyki ekki nauðsynleg. Orðalagið má ekki verða til þess að nánast allar ákvarðanir sveitarfélaga um leyfisveitingar verði kærðar á þeim grundvelli að framkvæmd þyki ekki nauðsynleg.

Fleiri greinar skarast á við skipulagsvald sveitarfélaga. Lögin varða þau á margan hátt og sveitarfélögin eru dæmi um aðila sem hefðu átt að koma fyrr að málinu heldur en þau gerðu.

Categories
Greinar

Að gefnu tilefni – ekki stutt í fullbúinn samning við ESB

Deila grein

17/10/2013

Að gefnu tilefni – ekki stutt í fullbúinn samning við ESB

Gunnar Bragi SveinssonÍ tilefni af því að framkvæmdastjórn ESB gaf í gær út skýrslur sínar um einstök ríki sem eru í aðildarferli að ESB lýsti stækkunarstjóri ESB því mati sínu að „…við höfum ekki verið það langt frá því að leggja fyrir Íslendinga samning sem hefði tekið tillit til sérstöðu Íslands en um leið grundvallarreglna Evrópusambandsins og allra reglna leiksins.“

Hér er farið heldur frjálslega með. Staðreynd málsins er sú að öll stærstu málin í þessum viðræðum stóðu enn út af þegar hlé var gert á þeim. Þrátt fyrir að margir samningskaflar höfðu verið opnaðir og um þriðjungi lokað, þá fær það ekki staðist að stutt hafi verið í samningsniðurstöðu þegar kaflar um sjávarútveg og landbúnað höfðu ekki verið opnaðir svo ekki sé minnst á þá staðreynd að ESB hafði ekki einu sinni afgreitt sína eigin rýniskýrslu um sjávarúvegskaflann.

Þessi fullyrðing stækkunarstjórans sýnir að það er brýnt að réttar upplýsingar um stöðu viðræðnanna við ESB séu á borðinu. Þess vegna mun sá þáttur einmitt verða hluti af þeirri úttekt sem ég mun kynna fljótlega á nýju ári.

 

Gunnar Bragi Sveinsson