Categories
Fréttir

Viljum við nýtt bónusland?

Deila grein

29/05/2015

Viljum við nýtt bónusland?

Karl_SRGBKarl Garðarsson, alþingismaður, vakti athygli á hvort að Íslendingar værum ekkert búnir að læra af bónuskerfi í íslensku fjármálalífi. Hann spurði sig hvort að áhugi væri á að viðhalda bónuskerfi í íslensku fjármálalífi hvort sem bónusinn er 25%, 50% eða 100%? Þetta kom fram í störfum þingsins á Alþingi í vikunni.
„Virðulegur forseti. Við lifum í sannkölluðu bónuslandi. Fyrir nokkrum dögum skýrði DV frá því að íslenska umsýslufélagið ALMC, áður Straumur-Burðarás, hefði lagt til hliðar 3.400 millj. kr. sem félagið hygðist greiða í bónusa til lykilstarfsmanna og stjórnarmanna. Að meðaltali nema þessar greiðslur um 100 millj. kr. á hvern starfsmann. Sumir munu fá meira, aðrir minna. 20–30 starfsmenn ALMC eiga von á slíkum bónusum að sögn DV. Í þessum hópi eru bæði Íslendingar og útlendingar,“ sagði Karl.
„Í dag skýrði sami fjölmiðill frá því að tugir núverandi og fyrrverandi starfsmanna Kaupþings eigi von á bónusum sem geti numið tugum milljóna í einstaka tilvikum verði nauðasamningar samþykktir. Samtals er um að ræða hundruð millj. kr. Höfum í huga að þetta eru ekki sérstaklega illa haldnir starfsmenn því að samkvæmt ársreikningi síðasta árs voru þeir með 1,6 millj. kr. að meðaltali í mánaðarlaun.“
Ræða Karls Garðarssonar:

Categories
Greinar

Tækifæri vegna styttingar meðalnámstíma til stúdentsprófs

Deila grein

29/05/2015

Tækifæri vegna styttingar meðalnámstíma til stúdentsprófs

líneikÞað er fagnaðarefni hversu góður árangur er að nást við að stytta meðalnámstíma til stúdentsprófs úr 4 árum í 3. Það er löngu tímabært því í allt of mörg ár hefur tími margra nemenda farið í að endurtaka námsefni á mörkum skólastiga. Breytingin sem verður við styttingu meðalnámstíma á ekki að draga úr sveigjanleika í námstíma eða námi. Í breytingunni felast þvert á móti tækifæri til að auka á einstaklingsmiðun og möguleika nemenda til að stýra sínum hraða, jafnframt því að tryggja námsleiðir fyrir alla.

Það er ljóst að við stöndum á tímamótum sem birtist m.a. í að nemendum á framhaldsskólastigi fækkar, bæði vegna styttingar námstíma og fækkunar fólks á framhaldsskólaaldri.  Á þessum tímamótum eigum við að nýta tækifærið til að styrkja skólastarf með hagsmuni nemenda í fyrirrúmi. Í nokkrum skólum á landsbyggðinni er fyrirsjáanlegt að nemendafjöldi fari niður fyrir þá stærð sem okkur er tamt að líta á sem lágmarks stærð framhaldsskóla.

Sameining er ekki eina leiðin

Gjarnan hefur verið litið á sameiningu skóla sem einu mögulegu viðbrögðin við mikilli fækkun nemenda.  Sameining er hins vegar ekki almenna lausnin á verkefninu sem við blasir. Minnstu skólarnir á landsbyggðinni hafa á síðustu árum þróað dreifnám, kennslu þar sem sérhæfður kennari á einum stað sér um kennslu í fleiri en einum skóla. Uppúr því er sprottinn Fjarmenntaskólinn, skóli sem eykur möguleika minni skólanna til að bjóða fjölbreytt nám og þar eru einnig ýmsar starfsnámsbrautir í boði s.s sjúkra- og félagsliðanám.  Margir af stærri framhaldsskólum landsins bjóða upp á öflugt dreifnám bæði sumar og vetur. Þá er töluvert um að minni grunnskólar á landsbyggðinni nýti dreifnám til að auka valkosti eldri nemenda sem eru tilbúnir að hefja framhaldsskólanám áður en grunnskóla lýkur.  Á grunnskólastigi hefur verið boðið upp á dreifnám fyrir tvítyngda nemendur í móðurmáli en fjölga þyrfti tungumálum í boði.

Möguleikana sem felast í dreifnámi má nýta enn betur til að auka sveigjanleika og einstaklingsmiðun náms. Við höfum ekki efni á öðru í dreifbýlu landi. Gæði dreifnáms geta vissulega verið misjöfn ekki síður en staðbundins nám, en á síðustu 20 árum hefur safnast upp mikil þekking og reynsla auk þess sem tækninni fleygir stöðugt fram.  Við verðum að byggja ofan á þessa reynslu, setja skýr markmið og gera kröfur um gæði.

Samstaf ólíkra aðila

Á þéttbýlli svæðum gætu skapast tækifæri til sameiningar skóla, en á dreifbýlli svæðum þarf að horfa til annars konar samstarfs og þá ekki eingöngu við aðra framhaldsskóla, s.s. við grunnskóla, skólaskrifstofur, símenntunarmiðstöðvar, þekkingarsetur, vinnumiðlanir, starfsendurhæfingu eða heilbrigðisstofnanir.  Það getur vissulega verðir flóknara að koma á samstarfi ólíkra stofnanna og málaflokka.  Slíkt samstarf getur krafist þess að stofnanir sem heyra undir mismunandi ráðuneyti og sveitarfélög þurfi að vinna saman, en það er úrlausnarefni sem þarf að nálgast með opnum huga.

Skynsamleg nálgun væri að horfa á hvaða stofnanir á svæðinu þurfa á tiltekinni þekkingu að halda, s.s. þekkingu námsráðgjafa eða sálfræðings. Í kjölfarið væri hægt að móta aðlaðandi starf og starfsaðstöðu í samstarfi nokkurra stofnana, til að þekkingin yrði til staðar innan samfélagins þrátt fyrir að ekki sé grundvöllur fyrir fullu starfi í hverri stofnun. Með þeim hætti yrði til starf á svæðinu í stað þess að þjónustunni yrði sinnt frá stærri stofnunum í landshlutanum eða jafnvel miðlægri stofnun utan hans.

Það er líka tímabært að taka umræðuna um meira samstarf grunnskóla og framhaldsskóla, samnýtingu stoðþjónustu og kennara.  Nú þegar tilteknir námsþættir sem áður voru á framhaldsskólastigi eru komnir í grunnskólann ættu kennarar að geta unnið á báðum skólastigum eins og nemendur.

Samráð en ekki valdboð

Við val á leiðum sem henta mismunandi skólastofnunum þarf að virkja sem flesta og þar ætti menntamálaráðuneytið, sem ber ábyrgð á málflokknum, að vera leiðandi.

Samráð á ekki að byggja á fundum þar sem fulltrúar yfirvalda mæta og viðra sínar hugmyndir, samráð snýst um að hagsmunaðilum sé falið að koma með tillögur til úrlausnar á verkefninu sem fyrir liggur.  Yfirvöld þurfa svo að taka við tillögunum og vinna með þær og velja leiðir sem síðan eru unnar áfram í samstarfi.  Í framhaldsskólalögum er aðkoma hagsmunaaðila  tryggð í gegnum skólanefndir, skólaráð, foreldraráð og nemendafélög, auk þess er hlutverk sveitarfélaga og stjórnmálmanna mikilvægt.

Samráð þarf snúast um möguleikana í stöðunni og sameiginlega framtíðarsýn en má ekki verða einstefna hugmynda.

Líneik Anna Sævarsdóttir

Greinin birtist í DV 29. maí 2015.

Categories
Greinar

Verðmæti kortlögð

Deila grein

27/05/2015

Verðmæti kortlögð

sigrunmagnusdottir-vefmyndÍ sumar eins og undanfarin ár verða Íslendingar gestgjafar þúsunda erlendra ferðamanna. Það er ánægjulegt að svo margir óski eftir því að sækja Ísland heim en ljóst er að stöðug auking ferðamanna hingað til lands kallar á auknar framkvæmdir til uppbyggingar og verndar náttúru á fjölsóttum og viðkvæmum stöðum. Íslensk náttúra er undirstaða ferðaþjónustunnar og slík auðlind á á hættu á að vera ofnýtt ef átroðningur um einstaka svæði verður of mikill. Ímynd Íslands og orðspor má ekki skaðast. Ábyrgðin er okkar allra og ekki síst þeirra sem njóta.

Langtímastefna í innviðafrumvarpi
Í gær samþykkti ríkisstjórnin 850 milljóna króna framlag til framkvæmda strax í sumar á ferðamannastöðum sem eru í eigu eða umsjón ríkisins. Unnið hefur verið að því í viðkomandi ráðuneytum og stofnunum að kortleggja álagið á landið og forgangsraða bráðaaðgerðum til uppbyggingar á innviðum viðkvæmra ferðamannastaða. Þótt slík átaksverkefni séu góðra gjalda verð er ekki síður mikilvægt að móta stefnu til langtíma. Í frumvarpi sem ég mælti fyrir á Alþingi á mínum fyrstu dögum í embætti er kveðið á um gerð heildstæðrar áætlunar um verndaraðgerðir sem tekur á skipulagi og framtíðarstefnu á ferðamannasvæðum. Afar brýnt er að taka málið föstum tökum en því miður höfum við ekki náð að byggja upp svæði í takt við mikla aukningu ferðamanna á síðustu árum.

Þörfin er brýn
Þetta er í fyrsta sinn hér á landi sem unnið er að heildstæðri áætlun sem nær yfir allt landið. Innviðafrumvarpið, sem bíður annarrar umræðu á Alþingi, rammar inn mikilvæga þætti sem stuðla að því að vernda svæðin og búa undir vaxandi álag. Markmið frumvarpsins er að móta stefnu og samræma tillögur um slíka uppbyggingu og viðhald ferðamannsvæða með náttúruvernd og sjálfbærni að leiðarljósi. Skýr markmið þarf að setja fyrir einstaka svæði, út frá því hvers konar upplifun þau bjóða, til hvaða markhópa þau höfða og ekki síst hversu viðkvæm þau eru. Náttúra landsins er viðkvæm en koma þarf í veg fyrir tjón með því að lagfæra og fyrirbyggja skemmdir eftir traðk, merkja leiðir, byggja göngustíga, göngubrýr, hreinlætisaðstöðu og fleira. Þá þarf öryggi að vera í fyrirrúmi og hönnun hvers konar að falla vel að landslaginu. Þannig er stuðlað að vernd náttúrunnar ásamt upplifun og öryggi einstaklingsins á ferð um landið.

Í frumvarpinu er lagt upp með að svæði í eigu hins opinbera eigi sjálfkrafa aðild að áætluninni og sveitarfélög geri jafnframt tillögu um þau svæði sem staðsett eru innan marka þeirra. Landsvæði í einkaeigu munu falla undir áætlunina, óski viðkomandi landeigandi þess.

Friðlýst svæði
Nú þegar er búið að friðlýsa um 20% landsins og hefur hið opinbera ábyrgðarhlutverki að gegna gagnvart umsjón, rekstri og vöktun á viðkomandi svæðum. Ástand friðlýstra svæða er misgott. Umhverfisstofnun hefur tekið saman lista yfir stöðu friðlýstra svæða og þeirra sem þarf að sinna sérstaklega, sk. rauðan og appelsínugulan lista. Mörg friðlýst svæði eru jafnframt áningarstaðir undir miklu álagi ferðamanna þar sem bregðast þarf skjótt við með markvissum aðgerðum. Samantekt Umhverfisstofnunar um ástand friðlýstu svæðanna sem hlúa þarf sérstaklega að mun nýtast vel inn í vinnuna við þá forgangsröðun verkefna sem framundan er.

Ég bind miklar vonir við innviðafrumvarpið, en við samþykkt þess munu verða tímamót í markvissri uppbyggingu og vernd á ferðamannastöðum með vernd náttúru, sjálfbæra nýtingu og langtímahugsun að leiðarljósi.

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. maí 2015.

Categories
Greinar

Frekjupólitík og kosningatap

Deila grein

26/05/2015

Frekjupólitík og kosningatap

Vigdís HauksdóttirÁ síðasta kjörtímabili var ruðst inn í 14 ára samkomulag um röðun virkjanakosta undir dyggri stjórn Svandísar Svavarsdóttur, þáverandi umhverfisráðherra. Tók hún virkjunarkosti úr nýtingarflokki og setti í biðflokk og öfugt. Vatnsaflsvirkjanir eru langhagkvæmasti og umhverfisvænsti kosturinn. Árnar streyma áfram endalaust í hundruð ára og eru ótakmörkuð auðlind. Háhitasvæði eru takmörkuð auðlind og duga í 25-80 ár eftir svæðum. Áhrif jarðvarmavirkjana eru lítið rannsökuð hér á landi og útblástur frá þeim veldur mengun.

Þessi umhverfissjónarmið viku á síðasta kjörtímabili. Umhverfisráðherrann Svandís sem fékk á sig Hæstaréttardóm vegna Þjórsármála, sagðist vera í pólitík en þyrfti ekki að lúta lögum – gerði það að tillögu sinni að ráðast inn á friðlýst svæði og fólkvanga á Reykjanesi og setti virkjunarkosti þar í nýtingu. Allt í samráði við þáverandi iðnaðarráðherra sem þurfti að »sýna sig« á heimavelli. Auk þess var bætt um betur og þónokkrir virkjunarkostir á Kröflusvæðinu á heimasvæði þáverandi formanns VG, Steingríms J. Sigfússonar, settir í nýtingarflokk. Gjaldið var eftirgjöf VG í ESB-málinu og þar með stærstu kosningasvik stjórnmálaflokks hér á landi.

Hér á eftir fara valdir kaflar úr bók Össurar Skarphéðinssonar, Ár drekans, sem lýsir því sem gerðist á bak við tjöldin í pólitískum hrossakaupum á síðasta kjörtímabili – sem á ekkert skylt við umhverfisvernd. Gefum Össuri orðið: »Mánudagur 5. mars. Hefðbundinn ráðherrafundur sem byrjar í friðsemd snýst upp í hvassar hnippingar milli mín og Jóhönnu Sigurðardóttur út af rammanum og ESB. Það byrjar með því að forsætisráðherra og Oddný G. Harðardóttir, sem er líka iðnaðarráðherra í bili, segja að þær hafi lokið samningum við VG og niðurstaðan feli í sér frestun á virkjunum í Hágöngum og Skrokköldu og rök Orra Vigfússonar um laxastofna eigi að útskýra frestun Þjórsár. Hins vegar ætti að taka Eldvörp á Suðurnesjum inn í nýtingarflokk. Það er væntanlega til að styrkja Helguvíkurdæmið. Stöllurnar vilja taka málið í gegnum ríkisstjórn á morgun – og leggja áherslu á að allir ráðherrarnir tryggi að þingflokkurinn styðji málið. Með »allir ráðherrar« eiga þær náttúrlega við mig. Þær vita vel að ramminn fer aldrei svo breyttur í gegnum þingflokkinn nema ég beiti mér fyrir því. Jóhanna segir að VG geti ekki lifað við aðra niðurstöðu. Það mundi leiða til slita á ríkisstjórninni. Ég dreg hins vegar ekki í efa orð hennar um að þessi niðurstaða sé samstarfsflokknum jafn mikilvæg og aðildarumsóknin okkur. Ég vil að Jóhanna, sem formaður flokksins, fái ESB-málið á hreint við VG áður en ramminn haldi áfram. Hún hafi sjálf lagt þessi mál að jöfnu og þá finnst mér rétt að þau haldist í hendur.« Össur heldur áfram og rifjar upp laugardaginn 24. mars 2012: »Innan VG er hópur sterkra umhverfissinna sem m.a. tengist Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, Björgu Evu Erlendsdóttur og Bergi Sigurðssyni, framkvæmdastjóra þingflokksins, sem mun frekar yfirgefa VG en láta Þjórsárvirkjanir yfir sig ganga. Hópurinn er þegar hundfúll út í ráðherra VG fyrir að hafa fallist á að taka Eldvörpin á Suðurnesjum inn í nýtingarflokk og tengja réttilega við fyrirhugað álver í Helguvík. Ráðherrum VG, sem sækja fast að ramminn verði afgreiddur með breytingum sem Jóhanna hefur fallist á, líst ekki á blikuna þegar stór hluti þingflokks Samfylkingarinnar bakkar ekki upp tillögu formannsins. Það er í fyrsta skipti sem það hefur gerst. Ofan á hlaðast svo hótanir um refisaðgerðir frá Evrópu sem vekja sterkar öldur innan flokksins. VG er með böggum hildar yfir stöðunni. Sjálfur hef ég ekki farið dult með að vilja seinka rammanum til að hafa hann sem vogarafl til að tryggja starfsfrið hjá VG gagnvart ESB-umsókninni fram eftir ári.« Þann 18. júní 2014 hafði Össur skrifað þetta í dagbók sína og birtir í bók sinni: »Út af stendur ramminn. Hann verður ekki afgreiddur fyrr en í haust. Fyrir VG er hann jafn mikils virði og ESB er okkur. Það er á flestra vitorði að ég lít á rammann sem tryggingu fyrir því að VG stöðvi ekki ESB-málið.«

Höfuðdjásn Vinstri grænna, að friða Ísland, og höfuðdjásn Samfylkingarinnar, að ganga í Evrópusambandið, var í húfi hjá báðum flokkum – og báðir flokkar lögðu allt undir.

Ágæti lesandi – þessum pólitísku hrossakaupum Samfylkingarinnar og VG er nú verið að snúa til baka. Þjóðþingið er um það bil að leggjast á hliðina – slík er frekjupólitík stjórnarandstöðunnar í málinu. Öllum brögðum er beitt og allir dagskárliðir misnotaðir. Fyrir þessu fer fyrrverandi umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, sem leggur allt undir í málinu. Undir kápunni hennar glittir í gamla Steingrím J. »umhverfissinna« og stóryrði eins og gamaldag stóriðjupólitík, spúandi álverksmiðjur, gamaldags karlapólitík, gamla stóriðjudólgastefnan, blind dólgastóriðjusjónarmið, forneskjur á þingi, risaeðlur sem vilja gömlu tímana í umhverfismálum og subbuleg vinnubrögð eru aftur orðin orðfæri þingmannsins.

Þessir flokkar voru kosnir eftirminnilega frá völdum í alþingiskosningunum 2013 en neita að sleppa völdum.

Vigdís Hauksdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. maí 2015.

Categories
Greinar

Tími aðgerða er runninn upp

Deila grein

26/05/2015

Tími aðgerða er runninn upp

EÞHKynjajafnrétti er stórmál sem snertir lífsgæði allra, kvenna og karla. Aftur og aftur hefur verið sýnt fram á að með jafnrétti og bættri stöðu kvenna er hægt að auka hagvöxt og efnahagsstöðugleika og bæta samkeppnisstöðu ríkja. Því var ánægjulegt að í vikunni voru tímamótaupplýsingar kynntar um launamun kynjanna og um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði sem unnar voru að frumkvæði aðgerðahóps stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins. Þær staðfesta að áratuga barátta fyrir launajöfnuði er að skila árangri en minna jafnframt á að enn er fullt tilefni til að vinna áfram að launajafnrétti á vinnumarkaði og auknum aðgangi kvenna að samfélagslegum valdastöðum.

Launarannsóknin nær til áranna 2008-2013 og er sú fyrsta hér á landi sem nær til vinnumarkaðarins í heild. Í henni kemur í ljós að kynbundinn launamunur mælist um 7,6%. Jafnframt sýna gögnin að óleiðréttur launamunur á reglulegum launum mældist um 17% árið 2014. Hann hefur minnkað jafnt og þétt síðastliðin ár og mælist meiri hjá eldri aldurshópum en þeim yngri. Af því má álykta að góð menntun yngri kynslóða kvenna hafi jákvæð áhrif og að líklegt sé að launamunurinn í heild muni halda áfram að minnka. Samanburður við þrjár nýlegar, norrænar rannsóknir um launamun kynjanna sýnir að hann er svipaður hér og annars staðar á

Norðurlöndunum, litlu meiri en í Svíþjóð en minni en í Danmörku og Noregi.

Úreltar hugmyndir
Rannsóknaskýrslan um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði staðfestir að jafnrétti kynjanna, eða öllu heldur skorturinn á því, hefur margvíslegar birtingarmyndir og margir samverkandi og flóknir þættir hafa áhrif á laun og stöðu kvenna og karla. Báðar rannsóknirnar staðfesta að kynferði einstaklinga hefur áhrif á laun og launamyndun. Að stór hluti launamunarins sé innbyggður í hugarfar okkar og væntingar sem byggir á úreltum hugmyndum um að eðlilegt sé að karlar hafi hærri laun en konur þar sem þeir séu líklegri til að vera fyrirvinnur heimilisins. Þessi viðhorf eru ekki í samræmi við veruleika dagsins í dag og þau þarf að uppræta.

Staðalímyndir, verkaskipting á heimilum, fæðingarorlof, samræming fjölskyldu- og atvinnulífs, ólíkir starfsþróunarmöguleikar og aðgengi að valda- og áhrifastöðum hafa mótandi áhrif á vinnumarkaðinn sem einkennist af kynjaskiptingu starfa. Afleiðingarnar birtast í launamun sem undantekningarlaust er konum í óhag og byggir á vanmati á virði starfa þeirra. Þessi kynjaskipting dregur úr sveigjanleika á vinnumarkaði og stendur í vegi fyrir að mannauður samfélagsins sé nýttur til fulls.

Á liðnum árum hefur verið ráðist í ýmis átaksverkefni til að jafna kynjahlutföll í hinum ýmsu starfsgreinum. Átaksverkefni ein og sér duga ekki til, heldur þarf stefnumótun, framtíðarsýn og markvissar aðgerðir sem byggja á langtímaáætlunum til að brjóta upp kynskiptan vinnumarkað. Gerð slíkrar langtímaáætlunar er verkefni aðgerðahóps um launajafnrétti en hann mun á næsta ári skila mér tillögum um stefnumótun um leiðir og aðgerðir til að brjóta upp kynbundinn vinnumarkað og auðvelda körlum og konum samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs. Mikilvægt er að stefnumótun í málaflokknum sé heildstæð, byggi á þekkingu og tryggi framfarir á öllum þeim sviðum sem hér hafa verið nefnd.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 23. maí 2015.

Categories
Fréttir

Minningarbók um Halldór Ásgrímsson

Deila grein

20/05/2015

Minningarbók um Halldór Ásgrímsson

IMG_1731Á skrifstofu Framsóknarflokksins liggur frammi minningarbók þar sem þeir sem vilja heiðra minningu Halldórs Ásgrímssonar geta ritað nafn sitt.
Hægt verður að koma við á skrifstofu Framsóknarflokksins í dag, miðvikudag, á fimmtudaginn og á föstudaginn frá kl. 10:00-16:00, og á þriðjudag og miðvikudag í næstu viku á sama tíma.
Framsóknarflokkurinn.

Categories
Fréttir

Halldór Ásgrímsson látinn

Deila grein

19/05/2015

Halldór Ásgrímsson látinn

flokksthing2015-HalldórÁsgrímssonHalldór Ásgrímsson, fyrrv. forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, er látinn. Halldór lést í gær, á Landsspítalanum í Reykjavík. Hann var 67 ára.
Halldór fæddist á Vopnafirði 8. september 1947. Hann var sonur hjónanna Ásgríms Halldórssonar, framkvæmdastjóra á Höfn á Hornafirði og Guðrúnar Ingólfsdóttur. Eftirlifandi kona Halldórs er Sigurjóna Sigurðardóttir, læknaritari. Dætur þeirra eru Helga, Guðrún Lind og Íris Huld.
Halldór lauk samvinnuskólaprófi 1965. Varð löggiltur endurskoðandi 1970. Halldór fór í framhaldsnám við verslunarháskólana í Björgvin og Kaupmannahöfn 1971–1973. Lektor var hann við viðskiptadeild Háskóla Íslands 1973–1975.
Halldór var varaformaður Framsóknarflokksins 1980–1994 og formaður hans 1994–2006.
Halldór var alþingismaður Austurlandskjördæmis 1974–1978 og 1979–2003 og Reykjavíkurkjördæmis norður 2003–2006.
Halldór var skipaður sjávarútvegsráðherra 1983–1991 og samstarfsráðherra um norræn málefni 1985–1987, dóms- og kirkjumálaráðherra 1988–1989, samstarfsráðherra Norðurlanda 1995–1999, utanríkisráðherra 1995–2004, forsætisráðherra 2004–2006.
Gegndi Halldór fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum bæði á Íslandi og erlendis. Halldór var síðast framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, 2007-2013.
Framsóknarmenn minnast mikils foringja með djúpri virðingu og þakklæti. Aðstandendum er vottuð samúð og þakkir fyrir ómældar fórnir í þágu Framsóknarflokksins og íslensku þjóðarinnar.
Myndatexti: Halldór Ásgrímsson á flokksþingi Framsóknarmanna í apríl 2015.

Categories
Greinar

Horfum á heildarmyndina af flugsamgöngum á landinu

Deila grein

15/05/2015

Horfum á heildarmyndina af flugsamgöngum á landinu

líneikSamgöngur skipta okkur Íslendinga öllu máli við að nýta tækifærin sem Ísland bíður upp á, margir sækja vinnu um langan veg og skipulag þjónustu er þannig að við reiðum okkur á samgöngur til að nýta hana.  Samgöngur eru því heilbrigðismál, menntamál, velferðarmál, atvinnumál og þannig mætti áfram telja.

Flugið hefur mikið vægi í samgöngum hér,  og skipulag þjóðfélagsins byggist á því að við komust hratt á milli landshluta og landa, svo ekki sé talað um að vöxtur atvinnulífsins síðustu ár byggir á verulegu leiti á flugi til og frá landinu.

Samvinna millilandaflugs og innanlandsflugs

Flugið um Keflavíkurvöll og sá skurðpunktur austur og vesturs sem þar hefur myndast gefur okkur ótal tækifæri sem mikilvægt er að hlúa að.   Samhliða uppbyggingu í Keflavík felast mikil tækifæri í að koma á millilandaflugi til eins eða fleiri flugvalla á landsbyggðinni.   Reglulegt flug til annnarra landshluta getur breikkað markhóp ferðaþjónustunnar, dreift álagi á landið, skapað atvinnutækifæri, aukið fjárfestingu og  tryggt framboð á þjónustu allt árið.

Nýlega ákvað ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að skipa starfshóp sem hefur það hlutverk að kanna hvernig koma megi á reglulegu millilandaflugi um flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Niðurstaða hópsins á að geta nýst hvar sem er á landinu þó sérstaklega sé unnið með þessa tvo velli.

Innanlandsflugið getur einnig nýst betur til að dreifa ferðamönnum um landið. Nauðsynlegt er að horfa á tækifærin sem í því felast sem sérstakt verkefni og það ættu hagsmunaaðilar að kanna frekar. Þar þarf m.a. að huga að samgöngum milli Keflavíkurflugvallar  og Reykjavíkurflugvallar og því hvort þjónusta við ferðamenn geti bætt nýtingu í innanlandsflugi án þess að úr verði árekstrar við hlutverk flugsins í almenningssamgöngum.

Alvarleg aðför að samgöngum

Núverandi staða á Reykjavíkurflugvelli skapar hins vegar margháttað óöryggi. Mikilvægasti hluti innanlandsflugsins er að sjá fyrir almenningssamgöngum til landsvæða sem liggja fjarri höfuðborginni eða eru „eyjar“ með tilliti til annarra samgangna. Þessu hlutverki má ekki stefna í hættu með gerræðislegum vinnubrögðum borgaryfirvalda.

Nýlegar skýrslur vinnuhópa innanríkisráðherra um gjaldtöku og  félagshagfræðilega greiningu á innanlandsflugi sýna glöggt að íbúar landsins treysta á flugið en kostnaður við það er of hár. Þá sýna niðurstöður nýlegra kannana að margir íbúar landsins hafa áhyggjur af stöðu Reykjavíkurflugvallar og könnun MMR frá því í apríl 2015  sýnir að 78 % landsmanna vilja að  neyðarbrautin verið opin áfram.   Í Reykjavík eru 68 % á móti lokun brautarinnar.

Í fréttum í vikunni var vitnað til þess að braut 06/24 á Reykjavíkurflugvelli, neyðarflugbrautin var notuð 128 sinnum á fyrstu 119 dögum þessa árs.  Lendingar og flugtök voru 54.590 á árinu 2014 og að fara þarf allt aftur til ársins 2007 til að finna meiri notkun á flugvellinum.  Flugfélög og þeir sem nýta flugið, einstaklingar, fyrirtæki og opinberar stofnanir,  hafa orðið fyrir umtalsverðum viðbótarkostnaði vegna tíðrar röskunar á flugi í vetur og ekki væri kostnaðurinn og tafirnar minni ef brautirnar á vellinum væru færri.

Í ljósi þessa er það alvarlegt mál að nýlega gaf Reykjavíkurborg út framkvæmdaleyfi í nálægð við völlinn en ljóst er að þær framkvæmdir geta  vart haldið áfram í samræmi við áætlanir nema fyrst verði  farið í breytingar á skipulagsreglum borgarinnar.  Þessi ákvörðun  er í hæsta máta undarleg í ljósi þess að á sama tíma fjallar Samgöngustofa um möguleg áhrif af lokun flugbrautar 06/24 og að nefnd um könnun flugvallarkosta undir forystu Rögnu Árnadóttur hefur ekki lokið störfum.

Sameiginlegt hagsmunamál okkar allra

Ólöf Nordal innanríkisráðherra sendi nýlega bréf til Reykjavíkurborgar þar sem  er áréttað er mikilvægi þess að Reykjavíkurborg fylgi gildandi  skipulagsreglum og virði þá stjórnsýslumeðferð sem nú er í gangi, hjá Samgöngustofu og Rögnunefndinni.

Þá hafa þingmenn Framsóknarflokksins lagt fram frumvarp á Alþingi um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.  Þar er lagt er til að Alþingi beri ábyrgð á gerð skipulagsáætlana og taki þátt í veitingu framkvæmdaleyfa og byggingarleyfa á Reykjavíkurflugvelli.

Flugvöllur á höfuðborgarsvæðinu er forsenda þess að flug geti gegnt hlutverki í almenningssamgöngum á landinu.  Í ljósi þessa hlutverks er því grundvallarkrafa að flugvöllurinn verði ekki skertur nema aðrar lausnir séu til staðar. Við verðum að horfa á heildar samspil millilandaflugs og innanlandsflugs í framtíðinni og nálgast málið af ábyrgð. Samgöngur í strjálbýlu landi eru ekki einkamál ákveðinna sveitarfélaga, heldur mikilvægt og sameiginlegt hagsmunamál okkar allra.

Líneik Anna Sævarsdóttir

Greinin birtist í DV 15. maí 2015.

Categories
Fréttir

Ingvar Mar nýr formaður FR

Deila grein

15/05/2015

Ingvar Mar nýr formaður FR

Nýr formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur, Ingvar Mar Jónsson 41 árs gamall flugstjóri hjá Icelandair, var kjörinn á aðalfundi félagsins á miðvikudaginn. Ingvar Mar hefur verið flugmaður og síðar flugstjóri hjá Icelandair frá árinu 1996. Ingvar er menntaður atvinnuflugmaður og flugkennari frá Flugskóla Íslands.
Ingvar Mar hefur verið fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í Menningar- og ferðamálaráði borgarinnar frá 2014 og er stjórnarformaður tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga. Ingvar Mar er kvæntur Sigríði Nönnu Jónsdóttur flugfreyju og eiga þau fjögur börn.
ingvarMyndatexti: Ingvar Mar Jónsson, nýr formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur.
Talsverð endurnýjun varð í stjórninni en auk Ingvars sitja þau Ásgerður Jóna Flosadóttir, varaformaður, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Dorata Zaorska, Kristinn Jónsson, Stefán Þór Björnsson, Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, Trausti Harðarsson og Hólmfríður Þórisdóttir í nýrri stjórn félagsins.

Categories
Fréttir

Biðlistar allt að 18 mánuðir á BUGL

Deila grein

13/05/2015

Biðlistar allt að 18 mánuðir á BUGL

Elsa-Lara-mynd01-vefurElsa Lára Arnardóttir, alþingismaður, gerði að umtalsefni í störfum þingsins á Alþingi í gær nýja úttekt á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) er landlæknisembættið framkvæmdi.
„Markmið úttektarinnar var að skoða öryggi og gæði valinna þjónustuþátta í þeim tilgangi að koma með leiðir til úrbóta,“ sagði Elsa Lára.
Og hún hélt áfram, „í úttektinni kom fram að biðlistar eftir greiningu séu allt að 18 mánuðir. Þetta er ekki nýtt vandamál og þetta er ekki eitthvað sem er að gerast fyrst núna.“
Elsa Lára vill að við þessu verði að brugðist en ánægjulegt var að ríkisstjórnin gaf í er varðar heilbrigðismálin í síðustu fjárlögum og hefur landlæknir staðfest það í ýmsum þáttum.
„Við sjáum það að ef við komum fram og hjálpum þeim einstaklingum sem eiga í vanda fyrr en síðar þá skilar það sér í auknum lífsgæðum fyrir viðkomandi einstaklinga,“ sagði Elsa Lára.
Ræða Elsu Láru Arnardóttur: