Categories
Greinar

Þakklæti á fullveldisafmæli og áskoranir framtíðar

Deila grein

18/07/2018

Þakklæti á fullveldisafmæli og áskoranir framtíðar

Haldið er upp á það í dag að 100 ár eru frá því að samn­ingn­um um full­veldi Íslands var lokið með und­ir­rit­un sam­bands­lag­anna sem tóku gildi 1. des­em­ber 1918. Sjálf­stæðis­bar­átt­an ein­kenndi 19. öld­ina og markaði end­ur­reisn Alþing­is Íslend­inga. Frels­isþráin var mik­il og sner­ist stjórn­má­laum­ræðan einkum um það hvernig Íslend­ing­ar myndu ráða sín­um mál­um sjálf­ir.

Sjálf­stæðis­bar­átt­an færði okk­ur betri lífs­kjör
Full­veld­is­árið 1918 var krefj­andi og stóð ís­lenska þjóðin frammi fyr­ir áskor­un­um af nátt­úr­unn­ar hendi sem settu svip á þjóðlífið. Þá var frosta­vet­ur­inn mikli og haf­ís tor­veldaði sigl­ing­ar víða um landið. Spánska veik­in tók sinn toll af þjóðinni og Katla hóf upp raust sína. Full­veld­inu var fagnað hóf­lega í ljósi þess sem á und­an hafði gengið en árið 1918 færði ís­lensku þjóðinni auk­inn rétt og varðaði mik­il­væg­an áfanga á leið okk­ar til sjálf­stæðis. Á þeim hundrað árum sem liðin eru höf­um við sem frjálst og full­valda ríki náð að bylta lífs­kjör­um í land­inu. Við höf­um borið gæfu til að nýta auðlind­ir lands­ins á sjálf­bær­an hátt og styðja við öfl­ugt vel­ferðarsam­fé­lag, þar sem all­ir eiga að fá tæki­færi til að lifa gæfu­ríku lífi óháð efna­hag. Hins veg­ar er það svo að þrátt fyr­ir að ís­lensku sam­fé­lagi hafi vegnað vel á full­veld­is­tím­an­um er ekki sjálf­gefið að svo verði næstu 100 árin. Því verðum við að vera meðvituð um þær áskor­an­ir sem við stönd­um frammi fyr­ir og tak­ast á við þær af festu. Mig lang­ar til að fjalla um þrjú grund­vall­ar­atriði sem oft eru nefnd sem for­send­ur full­veld­is, en þau eru fólk, land og lög­bundið skipu­lag. Öll þessi atriði skipta máli í fortíð, nútíð og framtíð.

Fólkið og tungu­málið
Ein af þeim áskor­un­um sem ég vil sér­stak­lega nefna er staða ís­lensk­unn­ar. Tung­an hef­ur átt und­ir högg að sækja í kjöl­far örra sam­fé­lags- og tækni­breyt­inga sem hafa breytt dag­legu lífi okk­ar. Til að mynda hef­ur snjall­tækja­bylt­ing­in aukið aðgang að er­lendu afþrey­ing­ar­efni. Þá get­ur fólk talað við tæk­in sín á ensku. Við vilj­um bregðast við þessu og liður í því er fram­kvæmd á mál­tækni­áætl­un fyr­ir ís­lensku 2018-2022. Mark­mið henn­ar er að tryggja að hægt sé að nota ís­lensku í sam­skipt­um við tæki og í allri upp­lýs­inga­vinnslu og gera tungu­málið okk­ar gild­andi í sta­f­ræn­um heimi til framtíðar. Það er hins veg­ar ekki nóg að snara öll­um snjall­tækj­um yfir á ís­lenska tungu. Við verðum sjálf að vera meðvituð um mik­il­vægi þess að leggja rækt við málið okk­ar og nota það. Það eru for­rétt­indi fyr­ir litla þjóð að tala eigið tungu­mál. Því vil ég brýna alla til þess að leggja sitt af mörk­um við að rækta það.

Landið okk­ar og eign­ar­hald
Önnur áskor­un sem ég vil nefna snýr að landi og eign­ar­haldi á því. Lög um eign­ar­rétt og af­nota­rétt fast­eigna kveða á um að eng­inn megi öðlast eign­ar­rétt eða af­nota­rétt yfir fast­eign­um á Íslandi nema viðkom­andi aðili sé ís­lensk­ur rík­is­borg­ari eða með lög­heim­ili á Íslandi. Hins veg­ar get­ur ráðherra vikið frá þessu skil­yrði sam­kvæmt um­sókn frá áhuga­söm­um aðilum, sem ger­ir nú­ver­andi lög­gjöf frem­ur ógagn­sæja. Heim­ild­ir og tak­mark­an­ir er­lendra aðila utan EES-svæðis­ins er lúta að fast­eign­um hér á landi eru einnig óskýr­ar. Það verður að koma í veg fyr­ir að landið hverfi smám sam­an úr eigu þjóðar­inn­ar og að nátt­úru­auðlind­ir glat­ist. Staðreynd­in er sú að land­fræðileg lega Íslands er afar dýr­mæt og mik­il­vægi henn­ar mun aukast í framtíðinni. Í rík­is­stjórn­arsátt­mál­an­um er kveðið á um að skoðaðar verði leiðir til að setja skil­yrði við kaup á landi sem taka mið af stefnu stjórn­valda um þróun byggða, land­nýt­ingu og um­gengni um auðlind­ir. Það er nauðsyn­legt að marka skýr­ari stefnu í þessu máli.

Mik­il­væg þrískipt­ing valds­ins
Í þriðja lagi lang­ar mig að nefna lög­bundið skipu­lag. Það sem felst í því að verða frjálst og full­valda ríki er einka­rétt­ur þjóðar­inn­ar til þess að fara með æðstu stjórn dómsvalds, lög­gjaf­ar- og fram­kvæmd­ar­valds. Það stjórn­ar­far sem reynst hef­ur far­sæl­ast er lýðræðið. Þess vegna er brýnt að efla Alþingi til að styðja við stjórn­skip­an lands­ins. Umboðið sem kjörn­ir full­trú­ar hljóta í kosn­ing­um er afar þýðing­ar­mikið og mik­il­vægt að styðja við það. Alþing­is­mönn­um ber að varðveita þetta umboð af mik­illi kost­gæfni og það er okk­ar hlut­verk að tryggja að op­in­ber stefnu­mót­un taki ávallt mið af því. Alþing­is­menn eru kjörn­ir til að fram­fylgja mál­um sem þeir fá umboð til í kosn­ing­um. Póli­tískt eign­ar­hald á stefnu­mót­un er lyk­il­atriði í því að hún sé far­sæl og sjálf­bær. Ef kjörn­ir full­trú­ar fram­kvæmda­valds­ins missa sjón­ar á umboði sínu og hlut­verki gagn­vart kjós­end­um er lýðræðið sjálft í hættu.

Full­veldið og sá rétt­ur sem því fylg­ir hef­ur gert okk­ur kleift að stýra mál­um okk­ar ásamt því að vera virk­ir þátt­tak­end­ur í alþjóðasam­fé­lag­inu. Á dög­um sem þess­um, þegar við horf­um 100 ár aft­ur í tím­ann, fyll­umst við flest þakk­læti fyr­ir þær ákv­arðanir sem tryggðu okk­ur þessi rétt­indi. Hug­ur­inn leit­ar síðan óneit­an­lega til framtíðar og þeirra verk­efna sem bíða okk­ar, það er okk­ar að tryggja þá far­sæld.

Lilja Dögg Alfreðsdóttirmennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. júlí 2018.

Categories
Fréttir

Sumarlokun flokksskrifstofu

Deila grein

14/07/2018

Sumarlokun flokksskrifstofu

Skrifstofa Framsóknar verður lokuð vegna sumarleyfa starfsmanna frá og með 16. júlí til og með 8. ágúst.
Opnum aftur fimmtudaginn 9. ágúst.
Hægt er að senda erindi og fyrirspurnir á netfangið, framsokn@framsokn.is.
Framsóknarflokkurinn

Categories
Greinar

Íþróttaveisla á Landsmóti UMFÍ

Deila grein

13/07/2018

Íþróttaveisla á Landsmóti UMFÍ

Mikil íþróttaveisla hefst í dag norður á Sauðárkróki, þar sem fram fer Landsmót Ungmennafélags Íslands. Samhliða því verður Landsmót UMFÍ fyrir 50 ára og eldri haldið en Unglingalandsmótið fer síðan fram í Þorlákshöfn í ágúst. Þessi mót eru mikilvægur vettvangur fyrir íþróttafólk á öllum aldri og öllum getustigum og til vitnis um hversu líflegt og fjölbreytt íþróttalíf er í landinu. Landsmótið er með nýju sniði þetta árið, þar sem einstaklingar 18 ára og eldri geta nú skráð sig til leiks, hvort sem þeir eru í íþrótta- og ungmennafélagi eða ekki. Það verður keppt í ríflega 30 greinum en auk þess geta gestir prófað ýmsar íþróttagreinar og hreyfingu á mótinu því boðið verður upp á kennslu, opna tíma og kynningar fyrir áhugasama.

Ungmennafélögin lögðu grunninn að íþróttamenningu hér á landi og þau gegna enn í dag mikilsverðu hlutverki með því að stuðla að fjölbreyttri íþróttaiðkun almennings. Innan Landssambands ungmennafélaganna eru nú 340 félög og félagsmenn rúmlega 160 þúsund, eða um 47% landsmanna. Það var mikil framsýni af stofnendum ungmennafélaganna fyrir daga fullveldisins að leggja ríka áherslu á heilsueflingu í gegnum hreyfingu og félagsstarf. Rannsóknir hafa í seinni tíð sýnt fram á veigamikið samspil hreyfingar, sjálfstrausts og almennrar vellíðanar. Félagslíf ungs fólks á Íslandi var líka fremur fábrotið í árdaga ungmennafélaganna og segja má með sanni að þau hafi einnig lyft grettistaki þar.

Ungmennafélagshreyfingin kemur að ótal verkefnum sem tengjast forvarnarstarfi, menningarmálum og útivist. Einna dýrmætasta starf hennar að mínu mati felst í því að auka virkni fólks, hvort heldur í félagsstörfum eða á íþróttasviðinu. Þessi virkni verður okkur sífellt þýðingarmeiri, ekki síst á tímum þar sem vísbendingar eru um að félagsleg einangrun sé að aukast í samfélaginu.

Það er aðall ungmennafélaganna að allir séu velkomnir og geti tekið þátt í íþrótta- og félagsstarfi og fundið sér hreyfingu við hæfi. Mikilvægi hreyfingar allt lífið er óumdeilt en okkur sem stöndum að íþrótta- og æskulýðsmálum hér á landi er einnig félagslegt og menningarlegt gildi íþrótta afar hugleikið. Þetta nýja fyrirkomulag sem prófað verður á landsmótinu 2018 mun vonandi hvetja fleiri til þess að stíga fram á völlinn – hvort sem þau vilja keppa í fótbolta, frisbígolfi eða stígvélakasti, eða einfaldlega prófa eitthvað alveg nýtt. Það er aldrei of seint að byrja.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. júlí 2018.

Categories
Greinar

Lesum í allt sumar

Deila grein

09/07/2018

Lesum í allt sumar

Mikilvægi lesturs og lesskilnings er ótvírætt. Við höfum lagt á það ríka áherslu síðustu ár að bæta læsi, ekki síst hjá börnunum okkar. Sumarið er tími samverunnar, útivistar og leikja en það er mikilvægt að minna á lesturinn líka. Það er staðreynd að ef barn les ekkert yfir sumartímann getur orðið allt að þriggja mánaða afturför á lestrarfærni þess í sumarfríinu. Góðu fréttirnar eru þó að það þarf ekki mikið til að börn viðhaldi færninni eða taki jafnvel framförum. Rannsóknir sýna að til þess að koma í veg fyrir þessa afturför dugar að lesa aðeins 4-5 bækur yfir sumarið eða lesa að jafnaði tvisvar til þrisvar í viku í um það bil 15 mínútur í senn.

Foreldrarnir besta fyrirmyndin

Sem hvatningu fyrir lesendur á grunnskólaaldri höfum við skipulagt sumarlestrarleik með góðri hjálp, meðal annars frá íslenska karlalandsliðinu í fótbolta og Menntamálastofnun. Það er framhald Söguboltans, samstarfsverkefnis mennta- og menningarmálaráðuneytis, barnabókahöfunda og RÚV sem skipulagt var í tengslum við þátttöku landsliðsins í heimsmeistaramótinu í júní en þar tvinnum við saman tvær ástríður landsmanna, fótbolta og bókmenntir. Söguboltaþættina má finna á vef KrakkaRÚV og lestrarleikurinn fór í loftið um helgina. Hann er einfaldur og til þess gerður að hvetja krakka til þess að lesa, á alla vegu og í allt sumar.

Gleymum því ekki að bestu fyrirmyndir barnanna þegar kemur að lestri eru foreldarnir. Það er vænlegra til árangurs ef fleiri taka sér bók í hönd á heimilinu en börnin. Sem fyrr læra þau það sem fyrir þeim er haft og þess vegna þurfum við öll að muna eftir því að lesa líka. Setjum lesturinn á dagskrá í sumar, leggjum frá okkur snjalltækin og finnum okkur tíma í sól eða regni til þess að njóta góðra bóka. Það eru kannski ekki verðlaun í boði fyrir okkur fullorðna fólkið önnur en lestraránægjan – en hún er líka heilmikils virði.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. júlí 2018.

Categories
Greinar

Jákvæð teikn á lofti í menntamálum

Deila grein

03/07/2018

Jákvæð teikn á lofti í menntamálum

Í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar er lögð sér­stök áhersla á mennta­mál og upp­bygg­ingu á því sviði. Þar hef­ur margt áunn­ist og við erum þegar far­in að sjá vís­bend­ing­ar um ár­ang­ur ým­issa verk­efna sem hrundið var af stað í vet­ur.

Iðn- og verk­nám
Fyrst má nefna það mark­mið okk­ar að efla iðn-, starfs- og verk­nám. Þar er stefna okk­ar að styrkja ut­an­um­hald með verk- og starfsþjálf­un nem­enda og ein­falda aðgengi þeirra að nám­inu. Niður­fell­ing efn­is­gjalda var skref í þá átt. Mik­il­vægt er einnig að kynna bet­ur þá náms- og starfs­kosti sem eru í boði. Sú vinna fer einkar vel af stað og sem dæmi hef­ur inn­rituðum nem­end­um á verk- og starfs­náms­braut­um fram­halds­skóla fjölgað um 33% frá fyrra ári. Kost­ir verk- og starfs­mennt­un­ar eru ótví­ræðir og mik­il eft­ir­spurn er eft­ir fólki með slíka mennt­un á ýms­um sviðum at­vinnu­lífs­ins. Þessi þróun er því mjög ánægju­leg.

Kenn­ara­starfið
Annað brýnt verk­efni okk­ar er styrkja alla um­gjörð í kring­um kenn­ara og auka nýliðun í stétt­inni. Við tók­um í vor við til­lög­um um aðgerðir þar að lút­andi. Verið er að kostnaðarmeta þær þessa dag­ana og ráðgert að í haust muni liggja fyr­ir tíma­sett aðgerðaáætl­un um nýliðun kenn­ara á öll­um skóla­stig­um. Í því sam­hengi er gleðilegt að fá frétt­ir um aukna aðsókn í kenn­ara­nám, bæði í Há­skól­an­um á Ak­ur­eyri, þar sem aukn­ing­in er 53% í grunn­nám í kenn­ara­deild, og við Há­skóla Íslands, þar sem um­sókn­um um grunn­skóla­kenn­ara­nám fjölgaði um 6% og leik­skóla­kenn­ara­nám um 60%. Við höf­um unnið öt­ul­lega í góðu sam­starfi við hagaðila að því að kynna kenn­ara­námið og það er að skila ár­angri.

Brott­hvarf
Aðgerðir gegn brott­hvarfi nem­enda úr fram­halds­skól­um er þriðja stóra verk­efnið sem ég vil tæpa á hér. Mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneytið vinn­ur að stöðuskýrslu í sér­stöku brott­hvarfs­verk­efni þar sem verið er að greina gögn og koma með til­lög­ur að áhersl­um sem nýta má til frek­ari stefnu­mót­un­ar. Reiknað er með að hún verði til­bú­in um miðjan júlí. Niður­stöður út­reikn­inga á ár­legu ný­nem­a­brott­hvarfi sýna að það hef­ur minnkað miðað við gögn síðustu þriggja ára og er það vel. Fjöl­marg­ar aðgerðir hafa þegar verið sett­ar af stað til að sporna við brott­hvarfi, m.a. auk­in fram­lög til fram­halds­skóla­stigs­ins, betri kort­lagn­ing á brott­hvarfs­vand­an­um og verk­efni er teng­ist efl­ingu geðheil­brigðisþjón­ustu.

Það eru því ýmis já­kvæð teikn á lofti þegar við skoðum stöðuna í ís­lensk­um mennta­mál­um. Eitt það mik­il­væg­asta tel ég þann áhuga og sam­vinnu­vilja sem ég skynja á ferðum mín­um og fund­um – ég hef eng­an hitt enn sem ekki hef­ur skoðun á skóla- og mennta­mál­um. Enda snerta mennta­mál okk­ur öll og ekki síst þegar horft er til þess sam­fé­lags sem við vilj­um skapa okk­ur til framtíðar.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir

Höf­und­ur er mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. júlí 2018.

Categories
Uncategorized

SKILMÁLAR VEGNA SKRÁNINGAR Í FRAMSÓKNARFLOKKINN

Deila grein

01/07/2018

SKILMÁLAR VEGNA SKRÁNINGAR Í FRAMSÓKNARFLOKKINN

Framsóknarflokkurinn er stofnaður um tiltekin stefnumál og skoðanir, en ein af forsendum lýðræðis er að frjáls starfsemi um stjórnmálaskoðanir fái að þrífast. Af þeirri ástæðu njóta stjórnmálaflokkar stjórnskipulegrar verndar sem sérstaklega mikilvægar félagagerðir í lýðræðisríki. Með aðild að flokknum er tekið undir grundvallarsjónarmið hans.

Framsóknarflokknum er umhugað um að upplýsa flokksmenn um það sem er að gerast á vettvangi flokksins og stendur því fyrir víðtækri upplýsingamiðlun til flokksfélaga sinna. Jafnan felur aðild í sér að flokkur og flokksmaður eigi í samskiptum, m.a. um stefnumál, fundi, framboð, kosningar, fjármál auk annars sem tengist starfsemi flokksins. 

Með samþykkt skilmála þessa við umsókn um aðild að Framsóknarflokknum undirgengst umsækjandi skilmála þá sem settir eru fram í þessu skjali um öflun, varðveislu og vinnslu persónuupplýsinga í þeim tilgangi sem að neðan er lýst. Á það skal bent, að þegar sótt er um flokksaðild, verður umsækjandi að samþykkja sérstaklega að Framsóknarflokkurinn hafi heimild til að eiga samskipti við félagsmanninn með tölvupósti eða í gegnum síma.

Þær persónuupplýsingar sem gefnar eru upp við skráningu í Framsóknarflokkinn eru vistaðar á skrifstofu hans. Til að tryggja áreiðanleika eru þær uppfærðar eftir þörfum, t.d. með samkeyrslu við þjóðskrá.

Hér að neðan er yfirlit yfir upplýsingar sem flokkurinn kann að afla um flokksmenn og í hvaða tilgangi þessar upplýsingar eru varðveittar.

NAFN

Upplýsingarnar eru notaðar til að halda utan um nöfn þeirra sem aðild eiga að flokknum og einstökum félögum hans. Einnig til að halda utan um þá sem eru í styrktarmannakerfi, greiða félagsgjöld sem og þá sem gegna trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Nöfn, heimilisföng og kennitölur eru notuð til að halda utan um þá sem búa í hverju sveitarfélagi og kjördæmi og eiga m.a. rétt til setu á félagsfundum, njóta kjörgengi í viðkomandi félögum og samböndum og rétt til þátttöku í aðferð við val á framboðslista í aðdraganda alþingis- og sveitarstjórnarkosninga. 

KENNITALA

Fyrir utan ofangreint eru kennitölur einkum nýttar til að aðgreina þá sem bera sömu nöfn hvern frá öðrum. Kennitölur eru jafnframt notaðar til að afla upplýsinga um aldur og kyn flokksfélaga. Auk þess eru þær notaðar til að sækja mánaðarlega uppfærslu í þjóðskrá um lögheimili og aðrar upplýsingar sem þjóðskrá geymir. Sjá nánar í Persónuverndarstefnu flokksins. 

HEIMILISFANG OG PÓSTNÚMER

Upplýsingar um heimilisfang og póstnúmer eru nýttar til þess að skrá flokksfélaga í rétt flokksfélög innan flokksins, þ.e. þau flokksfélög og ráð sem starfrækt eru í því sveitarfélagi/póstnúmeri þar sem viðkomandi býr. Þá eru upplýsingar um heimilisfang og póstnúmer jafnframt notaðar til að koma áleiðis upplýsingum í pósti varðandi flokksstarfið. Sjá nánar í Persónuverndarstefnu flokksins. 

NETFANG

Netföng eru notuð í þeim tilgangi að senda upplýsingar til flokksfélaga, sem geta verið af hvaða tagi sem er og varðað t.d. viðburði, fundi, skilaboð, fjáröflum, stefnumál auk ýmissa hluta í tengslum við kosningar o.fl. Haldið er utan um netföng þeirra sem veitt hafa fyrir því heimild.

SÍMANÚMER

Símanúmer eru notuð í þeim tilgangi að miðla upplýsingum til flokksfélaga, sem geta verið af hvaða tagi sem er og varðað t.d. viðburði, fundi, skilaboð, fjáröflun, stefnumál auk ýmissa hluta í tengslum við kosningar o.fl. Haldið er utan um símanúmer þeirra sem veitt hafa fyrir því heimild. 

MEÐHÖNDLUN FLOKKSSKRÁR

Aðgang að flokksskránni í heild hafa einungis þeir starfsmenn Framsóknarflokksins sem vegna starfa sinna þurfa þess og er henni ekki deilt með þriðja aðila, sjá nánar í kafla um miðlun persónuupplýsinga í persónuverndarstefnu flokksins. 

Í miðlægri flokksskrá er haldið utan um upplýsingar um félagatal hvers aðildarfélags. Aðgang að slíku félagatali hafa einungis formenn þeirra og stjórnir í lögmætum tilgangi til þess að geta rækt skyldur við félagsmenn, m.a. vegna aðal- og félagsfunda auk við aðferð við val á framboðslista. Á það eftir atvikum líka við um flokksmenn í sérstökum trúnaðarstörfum eins og fundarstjóra og starfsmenn félagsfunda auk kjörstjórna og uppstillinganefnda í tengslum við aðferð við val á framboðslista. Stjórnir félaga geta veitt ákveðnum hópi félagsmanna takmarkaðan aðgang að félagatali, í húsnæði á vegum flokksins, til að miðla upplýsingum til annarra félagsmanna, t.a.m. í aðdraganda alþingis- og sveitarstjórnarkosninga. Þegar slík skrá er útbúin koma fram kennitölur, nöfn, heimilisföng, póstnúmer og eftir atvikum símanúmer allra sem aðild eiga að félagi. Félög og sambönd fá ekki afhent netföng úr flokksskrá, en skrifstofa flokksins sendir út skilaboð í tölvupósti á starfssvæði hvers félags og sambands eftir þörfum hverju sinni. Slíkur aðgangur að félagatali er einungis veittur gegn undirritun trúnaðarskuldbindingar um meðferð þess og að meðferð þess samræmist í einu og öllu reglum flokksins og landslögum.

Í tengslum við aðferð við val á framboðslista, röðun og kosningar til trúnaðarstarfa til félaga og sambanda flokksins geta frambjóðendur í þeim fengið aðgang að kjörskrá, þ.e. viðkomandi félagatali, gegn því að undirrita trúnaðarskuldbindingar um meðferð kjörskrárinnar, að meðferð hennar samræmist í einu og öllu reglum flokksins og landslögum. Við gerð kjörskrár eru netföng viðkomandi aldrei afhent þriðja aðila, en einstaka frambjóðendum gefst í aðferð við val á framboðslista kostur á að biðja skrifstofu flokksins um að senda út tölvupóst í sínu nafni á þá aðila sem eru á kjörskrá. 

Megintilgangurinn með öflun og vinnslu persónuupplýsinga er að flokkurinn geti efnt skyldur sínar og rækt hlutverk sitt gagnvart flokksmönnum. Upplýsingar eru ekki nýttar í öðrum tilgangi en þeirra var aflað til. 

Almenn lýsing á öflun og vinnslu persónuupplýsinga er sett fram í persónuverndarstefnu Framsóknarflokksins, sem hægt er að nálgast á heimasíðu flokksins, www.framsokn.is, og skoðast hún sem hluti skilmála þessara. 

Framsóknarflokkurinn hvetur alla sem óska eftir aðild að flokknum til að kynna sér stefnuna vel.