Categories
Greinar

„Sá stórhugi, sem gleymir stríðinu en seilist eftir sigrinum“

Deila grein

31/12/2018

„Sá stórhugi, sem gleymir stríðinu en seilist eftir sigrinum“

Matthías Jochumsson spyr í Þjóðólfi árið 1874 hvað sé sannur þjóðvilji og svarar: „Það er almenn framfarastefna í landinu, bygð á frjálslyndi, viti og réttvísi. Með þess konar þjóðvilja stendr og fellr velferð og hamingja vor. Kærir landsmenn! Þjóð vor er enn skamt á veg komin, ekki einungis í verkunum, heldr í sannri menntan, sem er frelsisins andlegi grundvöllr. En allt er bætt ef andinn lifir, framfaralöngunin, lífskjarkurinn, metnaðurinn, sá stórhugi, sem gleymir stríðinu en seilist eftir sigrinum.“

Þessi sýn sem séra Matthías setur fram er grundvölluð á upplýsingarstefnunni og þeirri framfaratrú sem Framsóknarflokkurinn og Samvinnuhreyfingin byggir síðar á og byggir enn. Tímarnir eru ólíkir en sýnin hin sama. Sumir segja að tímarnir séu flóknari nú áður og líta til hinna „gömlu góðu daga“ með söknuði. Það eina sem truflar slíka fortíðarþrá er að aðstæður hins almenna manns hafa aldrei verið betri en nú. Einfaldleiki fortíðarinnar og hörð lífsbarátta stenst ekki fjölbreytileika og tækifæri okkar tíma þótt að sjálfsögðu megi gera betur á mörgum sviðum.

 

Sanngjarnar leikreglur

Samfélagið breytist stöðugt. Við hverja nýja löggjöf, hverja nýja reglugerð verður breyting á umhverfi okkar. Íslendingum hefur auðnast að byggja upp það sem á marga mælikvarða er fyrirmyndarsamfélag. Mikilvægt er að skapa samfélaginu leikreglur sem veita öllum jöfn tækifæri til að blómstra. Við getum öll verið sammála um að húsnæðiskostnaður er of hár og lægstu laun of lág. Við þurfum samt sem áður að rannsaka betur hvort að í samfélagsgerðinni eru fátæktargildrur eða hvort fólk staldrar stutt við á lægstu launatöxtum. Rannsóknir sýna að Ísland býr við mesta félagslega hreyfanleika allra þjóða sem þýðir að fólk getur unnið sig hratt upp með menntun og dugnaði.

 

Samvinna er lykillinn að framförum

Síðustu ár hafa verið umbrotatími í stjórnmálum víða um heim: Brexit, forsetakosningar í Bandaríkjunum, uppgangur popúlista víða í Evrópu og gul vesti eru allt dæmi um öfgavæðingu samfélaga. Ólíkt flestum nágrannalöndum okkar var niðurstaða síðustu alþingiskosninga ríkisstjórn sem endurspeglar allt pólitíska litrófið frá vinstri til hægri og er grunnur að stöðugleika sem við hljótum flest að vera sammála um að sé mikilvægur. Umræðan er hins vegar oft öfgafull og hlutum snúið á hvolf: Samvinna er svik, trúnaður er leynd, bjartsýni er naívismi. Hafi Íslendingar þó eitthvað að kenna heiminum varðandi stjórnmál þá er það að samvinna skilar okkur áfram. Við í Framsókn lítum á verkefni sem þarf að vinna frekar en vandamál sem þarf að leysa. Samtakamáttur og samvinna eru lykilinn að því að færa okkur fram á við. Við horfum á þann góða grunn sem samfélagið byggir á og styðjum við breytingar á því sem þarf að laga. Framsókn er ekki flokkur byltinga, við erum flokkur framfara sem byggjast á menntun, dugnaði og hugsjónum.

 

Við erum ekki margar þjóðir

Við erum fámenn þjóð í stóru landi. Við erum ekki margar þjóðir. Hagsmunir okkar fara að mestu leyti saman þótt stundum skerist í odda. Nú, eins og áður, er menntun og atvinna grunnurinn að framförum og auknum lífsgæðum. Framsókn hefur átt stóran þátt í að byggja það samfélag sem við búum í. Við getum litið yfir 100 ára sögu fullveldisins og séð að áhersla flokksins hefur verið á atvinnu, menntun, velferð og frjálslyndi. Fjölbreytt baráttumál flokksins hafa til dæmis skilað sjálfsögðum réttindum feðra til fæðingarorlofs og hjónaböndum samkynhneigðra.

 

Tæring fordómanna

Margar þjóðir standa frammi fyrir vandamálum sem tengjast því að hópar innan samfélagsins einangrast og fordómar skjóta rótum. Mér hefur stundum dottið í hug að Ísland ætti að vera of lítið fyrir átök og fordóma því að í okkar litla samfélagi þarf mikla orku til að vera illa við einhvern einstakling af því hann tilheyrir einhverjum sérstökum hópi. Fordómar láta undan við samtöl og samskipti. Við höfum öll ólík hlutverk í samfélaginu og án hvert annars værum við veikari heild.

 

Skynsemin verður að ráða

Eftir fordæmalausa aukningu kaupmáttar frá síðustu kjarasamningum spá margir erfiðum vetri á vinnumarkaði. Ríkisstjórnin hefur fundað reglulega, alls fjórtán sinnum, með aðilum vinnumarkaðarins og þannig undirstrikað mikilvægi þess að skynsemi á báða bóga ráði för í komandi samningaviðræðum. Það er áríðandi að fólk setjist niður og komi sér að minnsta kosti saman um mælikvarða og markmið til að niðurstaða náist sem skilar okkur áfram fremur en aftur á bak.

 

Heiðarleg, sanngjörn og opin stjórnmál

Spilaborg eða „House of Cards“ er ekki heimildarmyndaröð um íslensk stjórnmál þótt sumir virðist líta svo á. Þingmenn vinna að heilindum að þeim verkum sem þjóðin hefur kosið þá til þótt stundum fari einstaka út af sporinu. Mikilvægt er að við höldum stjórnmálaumræðu okkar heiðarlegri, opinni og sanngjarnri. Átök í stjórnmálum og í samfélaginu eru eðlileg svo lengi sem þau grundvallast á baráttu hugmynda. Rökræður eru leið samfélaga að niðurstöðu, að þjóðvilja, eins og Matthías nefndi það í Þjóðólfi. Þeir eru þó til sem líta á pólitísk átök sem persónulegar árásir en sagan sýnir að slíkum mönnum reynast stjórnmálin og sagan erfið.

 

Samhljómur í umhverfismálum

Heimurinn stendur frammi fyrir umfangsmiklum og knýjandi verkefnum þar sem umhverfismál eru í brennidepli. Stór skref hafa verið stigin af ríkisstjórn Íslands á fyrsta starfsári hennar. Það er líka rétt að hafa í huga að þegar kemur að umhverfismálum er samhljómur í máli flestra stjórnmálamanna um að sjálfbær þróun sé lykilatriði. Enginn flokkur er með það á stefnuskrá sinni að ráðast í frekari uppbyggingu mengandi stóriðju eða byggingu risavirkjana. Sá tími er einfaldlega liðinn. Hagsmunir náttúrunnar eru þáttur í ákvarðanatöku stjórnvalda en þau eru hins vegar ekki eini þátturinn því sjálfbær þróun felur líka í sér efnahagslega og samfélagslega þætti sem eru einnig mikilvægir.

Málflutningur sem einkennist af ofstopa skilar okkur ekki áfram í málum umhverfisins frekar en á öðrum sviðum. Líkt og þegar mokað er ofan í skurði til að endurheimta votlendi þarf að moka ofan í skotgrafirnar í umræðu um umhverfismál til að ná nauðsynlegum árangri. Það er einfaldlega ekkert annað í boði en að við hysjum upp um okkur og tökumst á við verkefnin framundan. Hér verður skynsemin að ráða för.

Þau eru falleg tímamótin þegar ár mætir ári og sólin lengir dvöl sína með okkur dag frá degi. Hækkar sól, hækkar brá og við göngum léttum sporum inn í nýtt ár með ný verkefni. Styðjum hvort annað til góðra verka og hugsum til orða þjóðskáldsins í Sigurhæðum: „En allt er bætt ef andinn lifir, framfaralöngunin, lífskjarkurinn, metnaðurinn, sá stórhugi, sem gleymir stríðinu en seilist eftir sigrinum.“

Gleðilegt ár.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2018.

Categories
Fréttir

Gleðileg jól!

Deila grein

24/12/2018

Gleðileg jól!

Framsókn sendir landsmönnum öllum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár!

Categories
Greinar

Sérfræðiþjónusta lækna á landsbyggðinni

Deila grein

23/12/2018

Sérfræðiþjónusta lækna á landsbyggðinni

Sérfræðiþjónusta lækna á landsbyggðinni á undir högg að sækja og er mismunandi eftir búsetu. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur boðað að endurskoða skuli fyrirkomulag sérfræðilæknaþjónustu með aukinni áherslu á göngudeildarþjónustu á Landspítalanum, frekar en að sjálfstætt starfandi sérfræðilæknar taki á móti sjúklingum á stofum sínum. Hætti læknir störfum sökum aldurs eða búferlaflutninga í einkageiranum hafa nýir sérfræðilæknar ekki fengið samning við Sjúkratryggingar Íslands til þess að taka við. Þetta hefur komið í veg fyrir alla nýliðun og haft þær afleiðingar að fólk af landsbyggðinni neyðist til að sækja í síauknum mæli sérfræðiþjónustu til höfuðborgarinnar.

Við sem búum úti á landi erum meðvituð um að ekki er raunhæft að veita alla sérfræðiþjónustu á hinum ýmsu svæðum landsins en vissulega er hægt að gera betur.Nú hefur legið fyrir að rammasamningar hins opinbera við sérfræðilækna renni út um áramótin. Rammasamningur felur í sér að ríkið niðurgreiðir og tekur þátt í kostnaði við þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er utan opinbera heilbrigðiskerfisins að stórum hluta.Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur lagt til að rammasamningur Sjúkratrygginga við sérfræðilækna verði framlengdur um eitt ár og boðar samráð við Sjúkratryggingar og sérfræðilækna um kerfisbreytingar. Sérfræðilæknar hafa aftur á móti ekki verið tilbúnir að framlengja samninginn að óbreyttu.

Mikilvægt er að ráðast í greiningu á þeirri þjónustu sem er í boði á landsbyggðinni og áætla þörf, sjá hvaða þjónustu skortir en þá mun án efa koma í ljós sá mikli munur sem er á aðgengi á heilbrigðisþjónustu eftir búsetu. Markmið laga um sjúkratryggingar (nr.112, 2008) er meðal annars að tryggja jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Jafnframt skal leitast við að tryggja þjónustu við sjúkratryggða hvar á landinu sem þeir eru búsettir og að veitendur þjónustu gæti þess að sjúkratryggðir njóti jafnræðis. Að mínu mati er uppbygging göngudeildarþjónustu á Landspítala á kostnað sérfræðilæknisþjónustu úti á landi ekki til þessa fallin.

Mörg okkar sem búum úti á landi tökum því nánast sem sjálfsögðum hlut að fara til læknis í Reykjavík, með tilheyrandi vinnutapi, kostnaði og fyrirhöfn. Í dag taka Sjúkratryggingar Íslands þátt í ferðakostnaði fyrir fólk utan af landsbyggðinni en þó aðeins ef ekki er starfandi sérfræðingur í viðkomandi sérgrein í heimabyggð. Það hlýtur í þessu samhengi að liggja í augum uppi að það sé hagstæðara fyrir þjóðarbúið að senda einn lækni út á land til að vinna í nokkra daga í mánuði í stað þess að tugir manna þurfi að taka sig upp og sækja þjónustuna suður. Landsbyggðarfólk á skýlausan rétt á sömu þjónustu og íbúar á höfuðborgarsvæðinu og gott aðgengi að þeim fáu sérfræðilæknum sem starfa úti á landi er okkur sérlega dýrmætt. Því er verulegt áhyggjuefni að sérfræðiþjónusta er nú enn og aftur sett í uppnám.

Vil ég nýta tækifærið hér og hvetja heilbrigðisráðherra til að flýta vinnu við endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi þessa málafloks og útbúa heildstætt kerfi svo heilbrigðisþjónusta verði aðgengileg fólki óháð búsetu.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. desember 2018.

Categories
Greinar

Barnafjölskyldur í fyrirrúmi í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar

Deila grein

14/12/2018

Barnafjölskyldur í fyrirrúmi í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar

Fyrsta fjárhagsáætlun Akureyrarkaupstaðar á þessu kjörtímabili hefur nú verið samþykkt í bæjarstjórn. Forgangsverkefni á árinu 2019 og á kjörtímabilinu verður að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölbreyttum leiðum. Undirbúningur er þegar hafin að byggingu nýs leikskóla við Glerárskóla sem taka á í notkun árið 2021 og þar að auki á að hefja undirbúning á frekari fjölgun leikskólarýma í upphafi næst árs. Næsta haust verður börnum mánuði yngri en áður boðið rými á leikskóla samhliða því sem að á árinu 2019 verða hafnar jöfnunargreiðslur til foreldra barna 17 mánaða og eldri hjá dagforeldrum til jafns við kostnað á leikskólum. Veittir verða stofnstyrkir til dagforeldra, þeir studdir til endur- og símenntunar og dagforeldrum gefinn kostur á að nýta önnur rými en eigin heimahús til starfseminnar. Með þessum vonumst við til að fjölga dagforeldrum hratt og örugglega á meðan unnið er að fjölgun leikskólarýma.

Samfella í skóla- og frístundastarfi: frístundastyrkir hækkaðir

Hafinn er vinna við nýja og metnaðarfulla skólastefnu tónlistar-, leik- og grunnskóla Akureyrarbæjar, sem sérstaklega á að taka mið af kröfum nútímasamfélags, heilsu og vellíðunar barna. Færa á ráðgjöf og stoðþjónustu í auknu mæli inn í leik- og grunnskóla og sjálfstæði skóla aukið. Næsta haust verður komið á tilraunaverkefni um samfellu í skóla- og frístundastarfi. Frístundastyrkir til barna- og ungmenna verða hækkaðir í 35.000 krónur. Komið verður á aðgerðaráætlun vegna verkefnisins Heilsueflandi samfélag og haldið verður áfram að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Farið verður í samstarfi við ÍBA í þarfagreiningu byggða á hugmynd um þriggja kjarna starfsemi íþróttahreyfingarinnar á Akureyri og samhliða gera langtíma áætlun um uppbyggingu íþróttamannvirkja og viðhaldi þeirra. Tekin verður í notkun ný skíðalyfta og keyptur umhverfisvænn snjótroðari í Hliðarfjall.

Snemmtæk íhlutun og samvinna í velferðarmálum

Þjónusta við aldraða, forvarnir og þjónusta við fatlað fólk skipar stórt rúm í fjárhagsáætlun. Sem dæmi um verkefni má nefna að byggja á búsetukjarna fyrir fatlað fólk, þróa á notendaráð fatlaðs fólks og innleiða notendastýrða persónulega aðstoð í samræmi við lög.  Samþætta á heimaþjónustu, dagþjálfun, heimahjúkrun, heilsugæslu og annarrar þjónustu með það að markmiði að styðja þjónustuþega til sjálfstæðrar búsetu. Unnið verður í samstarfsverkefni með Reykjavíkurborg og Velferðarráðuneytinu um velferðartækni, skima á fyrir kvíða og þunglyndi hjá 5. og 6.bekk í samstarfi við HSN og þróa á frekar samvinnu sviða vegna barna í áhættu fyrir neyslu vímuefna. Þróa á verklag um meðferð vegna barna sem eru þolendur heimilisofbeldis og taka þátt í evrópuverkefni á vegum Jafnréttisstofu sem fjallar um þverfaglega samvinnu gegn heimilisofbeldi. Horft verður sérstaklega til snemmtækrar íhlutunar með aukinni þjónustu við barnafjölskyldur með áherslu á fjölskyldumiðaða nálgun.

Fjölbreytt menningarlíf, blómlegt umhverfi og framúrskarandi þjónusta við bæjarbúa

Framlag til verkefnisins “Greiðum listamönnum” verður aukið á næsta ári og menningarsjóður verður efldur og hluti hans nýttur til styrktar ungum og efnilegum listamönnum. Framlög til Menningarfélags Akureyrar verða hækkuð, stutt verður með öflugum hætti við barnamenningarhátíð og skapandi sumarstörfum verður fjölgað. Ákveðið hefur verið að auka framlag Akureyrarbæjar til Vistorku, settur hefur verið á laggirnar hópur til að sporna við vaxandi svifryksmengun og vinna á markvisst í því að draga úr plastnotkun. Tekinn verður í notkun nýr umhverfisvænn strætó og unnið er að framtíðarsýn í sorpmálum. Akureyrarbær mun áfram taka þátt í verkefninu Brothættar byggðir auk þess sem fjármunir verða tryggðir til hverfisnefnda Hríseyjar og Grímseyjar vegna sérstöðu þeirra sem eyja sveitarfélagsins. Leggja á sérstaka áherslu á aukna upplýsingagjöf til íbúa um þjónustu bæjarins og auka rafræna þjónustu. Við munum leggja áherslu á íbúalýðræði og gagnsæi í stjórnsýslunni m.a. með því að þróa upplýsingagjöf um fjármál og áætlunarferli.

Ábyrg fjármálastjórn

Samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir jákvæðri afkomu A og B hluta reksturs Akureyrarbæjar um 660 m.kr. Til þess að halda í við verðlagsþróun er viðmiðunarhækkun á gjaldskrám sveitarfélagsins um 3%, en þjóðhagsspá Hagstofu Íslands spáir 3,6% verðbólgu. Bæjarstjórn samþykkti lækkun álagningarprósentu fasteignaskatts í 0,33% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis, ásamt lækkun í 1,63% af fasteignarmati af öðru húsnæði og hækkaði tekjumörk afsláttar elli- og örorkulífeyrisþega um 7%.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson

Ingibjörg Isaksen

Halla Björk Reynisdóttir

Hilda Jana Gísladóttir

Andri Teitsson

Dagbjört Pálsdóttir

Bæjarfulltrúar Framsóknar, L-lista fólksins og Samfylkingar í bæjarstjórn Akureyrar

Greinin birtist fyrst á vikudagur.is 13. desember 2018.

Categories
Fréttir

Barnafjölskyldur í fyrirrúmi í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar

Deila grein

14/12/2018

Barnafjölskyldur í fyrirrúmi í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar

Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Ingibjörg Ísaksen, bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri, skrifa grein í Vikudag ásamt öðrum bæjarfulltrúm meirihlutans, um forgangsverkefni á árinu 2019 og á kjörtímabilinu verði að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölbreyttum leiðum.
„Undirbúningur er þegar hafin að byggingu nýs leikskóla við Glerárskóla sem taka á í notkun árið 2021 og þar að auki á að hefja undirbúning á frekari fjölgun leikskólarýma í upphafi næsta árs. Næsta haust verður börnum mánuði yngri en áður boðið rými á leikskóla samhliða því sem að á árinu 2019 verða hafnar jöfnunargreiðslur til foreldra baran 17 mánaða og eldir hjá dagforeldrum til jafns við kostnað á leikskólum,“ segja Guðmundur Baldvin og Ingibjörg, ásamt öðrum bæjarfulltrúm meirihlutans.
Ennfremur segja bæjarfulltrúar meirihlutans, „veittir verða stofnstyrkir til dagforeldra, þeir studdir til endur- og símenntunar og dagforeldrum gefinn kostur á að nýta önnur rými en eigin heimahús til starfseminnar. Með þessu vonumst við til að fjölga dagforeldrum hratt og örugglega á meðan unnið er að fjölgun leikskólarýma.“
Greinina má lesa hér.

Categories
Fréttir

Landgræðsla – nýmæli um landgræðsluáætlun

Deila grein

14/12/2018

Landgræðsla – nýmæli um landgræðsluáætlun

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, fór yfir í ræðu á Alþingi í dag, frumvarp um landgræðslu. Markmið með nýjum lögum er að vernda, endurheimta og bæta þær auðlindir þjóðarinnar sem fólgnar eru í gróðri og jarðvegi og tryggja sjálfbæra nýtingu lands.
„Með þessu frumvarpi um landgræðslu verða mjög mikilvæg tímamót þar sem þau koma í stað 50 ára gamalla laga um landgræðslu og jafnframt í stað laga gegn landbroti,“ sagði Líneik Anna.
„Landgræðsla er mjög mikilvæg fyrir okkur til að varðveita þá auðlind sem jarðvegur og gróður er í landinu. En landgræðslan er líka mikilvæg á heimsvísu. Því að við hér höfum í gegnum árin flutt út þekkingu sem nýtist annarsstaðar í heiminum þar sem landeyðing er mjög víða mikið vandamál, sérstaklega í Afríku, svo að sú heimsálfa sé nefnd, en einnig í Mið-Asíu og víðar. En hingað hafa þessar þjóðir sótt sér þekkingu í gengum Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna, sem er sú stofnun sem vinnur gegn landeyðingu í heiminum og horfir til þess hvernig við Íslendingar höfum nálgast þau mál,“ sagði Líneik Anna.
Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur, alþingismanns, á Alþingi 14. desember 2018.

Landgræðsluáætlun er nýmæli fest í sessi í frumvarpinu og er ætlað að kveða á um framtíðarsýn og stefnu stjórnvalda í landgræðslu með hliðsjón af markmiðum um:

  • hvernig nýting lands styður best við atvinnu og byggðir í landinu,
  • hvernig gæði lands eru best varðveitt og
  • hvernig efla megi og endurheimta vistkerfi sem skert hafa verið og koma með tillögur um breytingar á nýtingu lands, t.d. friðun fyrir tiltekinni nýtingu þar sem það á við.

Einnig á að nýta betur fjármagn og mannafla og samþætta áætlunina við aðrar áætlanir ríkis og sveitarfélaga sem og alþjóðlegar skuldbindingar.
„Áætlunin getur verið leiðbeinandi fyrir aðalskipulagsvinnu sveitarfélaga. Í raun er gert ráð fyrir að sveitarfélög geti tekið upp áform um landgræðsluáætlun við endurskoðun aðalskipulagsáætlana sinna.
Gert er ráð fyrir að áætlunin þurfi að fara í gegnum umhverfismat áætlana þar sem hún getur falið í sér mörkun stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum og einnig þarf hún að taka mið af landsskipulagsstefnu,“ segir í greinargerð.

Categories
Fréttir

„Aflið er svo sannarlega afl til góðs í samfélaginu“

Deila grein

14/12/2018

„Aflið er svo sannarlega afl til góðs í samfélaginu“

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur gert samning við samtökin Aflið á Akureyri, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi. Aflið á Akureyri fær 18 milljóna króna framlag til að standa straum af starfsemi sinni. Ásmundur Einar og Hjalti Ómar Ágústsson fyrir hönd Aflsins undirrituðu samninginn á Akureyri í gær.
„Aflið er svo sannarlega afl til góðs í samfélaginu. Sjálfboðaliðar og fagfólk sinna störfum sínum af miklum metnaði og það er augljóst, því miður, að þörfin fyrir þessa starfsemi er mikil. Það er því ástæða til að þakka fjárlaganefnd Alþingis fyrir að hafa greitt götu Aflsins með ákvörðun um 18 milljóna króna framlag á næsta ári til starfseminnar. Samningurinn byggist á því,“ segir Ásmundur Einar Daðason.
Ásmundur Einar segir starfsemi Aflsins skipta miklu máli eins og komi glöggt fram í nýjustu ársskýrslu samtakanna þar sem meðal annars er birt tölfræði sem varpar ljósi á umfangið. Árið 2017 fjölgaði til að mynda einstaklingsviðtölum um 15,3% frá fyrra ári og voru þá rúmlega 1400 talsins, nýjum skjólstæðingum fjölgaði um 43% milli ára og svo mætti áfram telja.
Þjónusta Aflsins felst í faglegri ráðgjöf og stuðningi við þolendur, forvarnarfræðslu og handleiðslu. Aflið var stofnað árið 2002 í framhaldi af tilraunastarfsemi Stígamóta og Jafnréttisstofu. Undanfarin ár hefur Aflið verið með þjónustusamning við Akureyrarbæ og átt í samvinnu við bæjaryfirvöld sem á móti veitt hafa félaginu afnot af húsnæði fyrir starfsemi sína í Aðalstræti 14. Samstarfið felst meðal annars í viðveru og sýnileika sjálfboðaliða á vegum Aflsins á fjölmennum viðburðum og einnig á tjaldstæðum og víðar þegar margmennt er í bænum um helgar. Auk þess veita ráðgjafar Aflsins fræðslu í grunnskólum bæjarins samkvæmt samkomulagi.

Á myndinni eru frá hægri: Hjalti Ómar Ágústsson, Ásmundur Einar Daðason og Elínbjörg Ragnarsdóttir

Heimild: stjornarradid.is

Categories
Fréttir

Símenntun og fullorðinsfræðsla – heildarlög um nám fullorðinna

Deila grein

13/12/2018

Símenntun og fullorðinsfræðsla – heildarlög um nám fullorðinna

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, svaraði fyrirspurn um símenntun og fullorðinsfræðslu á Alþingi í vikunni. Fyrirspyrjandi var Guðjón S. Brjánsson, alþingismaður.
„Þörfin á símenntun og endurmenntun er sífellt að aukast vegna þeirra tæknibreytinga sem eru að eiga sér stað í okkar samfélagi með sjálfvirknivæðingu og öðru slíku. Og svo er það líka þannig að málefni líðandi stundar eru að breytast talsvert mikið, m.a. vegna þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað varðandi loftslagsmálin. Samfélög eru að verða sífellt meðvitaðri um það sem er að gerast og þau sem taka á þessum málum á skilvirkan og uppbyggilegan hátt mun vegna betur er varðar samkeppnishæfni þjóða,“ sagði Lilja Dögg.
Ræða Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi 10. desember 2018.

„Hv. þingmaður spurði hvaða áform væru uppi um stefnumótun í fullorðinsfræðslu og starfsemi símenntunarstöðva, ekki síst á landsbyggðinni. Þá vil ég nefna að á vegum ráðuneytisins er nú verið að undirbúa frumvarp til laga um nám fullorðinna og undir þá vinnu fellur endurskoðun á lögum um framhaldsfræðslu. Þau lög taka sérstaklega til fullorðinna sem ekki hafa lokið formlegu námi á framhaldsskólastigi og afmarkast við starfsemi sem ekki er skipulögð á grundvelli laga um framhaldsskóla eða háskóla.
Hugtakið fullorðinsfræðsla nær yfir mun stærri hóp. Þessi víðari nálgun er en megin ástæða þess að ákveðið var að hefja vinnu við ný heildarlög um nám fullorðinna og um leið einfalda regluverkið og breyta hugtakarammanum þannig að lögin ávarpi stærra mengi en ella. Þannig getum við enn betur styrkt stoðirnar undir það að allir búi yfir nægilegri grunnfærni til að lifa og starfa og mæta áskorunum dagsins í dag. Ég legg mikla áherslu á það að heyra rödd hagsmunaaðila í þessum málaflokki. Þess vegna skipaði ég 20 manna samráðshóp um nám fullorðinna í byrjun þessa árs og gildir skipunin til fjögurra ára,“ sagði Lilja Dögg.
„Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að setja þessi mál á dagskrá þingsins. Þau skipta máli er varðar framvindu málaflokksins og við viljum efla grunnfærni sem flestra á íslenskum vinnumarkaði svo að hægt sé að efla hann,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir.

Categories
Fréttir

„Þetta er ekki ásættanlegt“

Deila grein

13/12/2018

„Þetta er ekki ásættanlegt“

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, skrifaði nýlega grein um mikilvægi þess að auðvelda ungu fólki kaup á fyrstu fasteign. Samkvæmt nýjustu könnun Íbúðalánasjóðs telja 57% leigjenda sig búa við húsnæðisöryggi samanborið við 94% þeirra sem búa í eigin húsnæði. Einungis 8% leigjenda eru á leigumarkaði vegna þess að þeir vilja vera þar en 64% leigjenda segjast vera á leigumarkaðnum af nauðsyn.
„Þetta er ekki ásættanlegt,“ sagði Ásmundur Einar.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir: „Ríkisstjórnin mun fara í aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn. Í því augnamiði verða stuðningskerfi hins opinbera endurskoðuð þannig að stuðningurinn nýtist fyrst og fremst þessum hópum. Meðal annars verða skoðaðir möguleikar á því að hægt verði að nýta lífeyrissparnað til þess.“
„Í Sviss er heimilt að nýta uppsafnaðan lífeyrissparnað til að afla eiginfjárframlags vegna íbúðakaupa. Ýmist er hægt að fá sparnaðinn fyrirframgreiddan eða veðsetja hann. Almennur lífeyrissparnaður má vera allt að 90% kaupverðs en viðbótarlífeyrissparnaður allt að 100%,“ sagði Ásmundur Einar.
„Nýlega lagði ég fram tillögu í ríkisstjórn um að farið væri í að útfæra fyrrgreindar lausnir hér á landi. Ég bind miklar vonir við að úrbætur til handa fyrstu kaupendum verði til þess að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn,“ sagði Ásmundur Einar Daðason.
Greinina má lesa hér.

Categories
Fréttir

Barnalífeyrir – mikilvægt áherslumál

Deila grein

13/12/2018

Barnalífeyrir – mikilvægt áherslumál

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, var fyrsti flutningsmaður, frumvarps til laga um breytingu á lögum um barnalífeyrir í þessu hausti. En þetta var einnig fyrsta þingmál Framsóknar á núverandi þingi og því mikilvægt áherslumál. Frumvarpið gekk út á að við bættist ný grein, svohljóðandi:
„Barnalífeyrir vegna sérstakra útgjalda. Tryggingastofnun ríkisins getur ákveðið sérstakt framlag vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni.“
„Um 900 börn á Íslandi sem nú eru á aldrinum 0–18 ára hafa misst foreldri. Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef foreldri er látið eða er elli-, örorku- eða endurhæfingarlífeyrisþegi. Einnig geta einstæðir foreldrar sótt um barnalífeyri í stað meðlags ef ekki er hægt að feðra barnið, það getur t.d. átt við um tæknifrjóvgun. Frá 1. janúar 2018 er barnalífeyrir 33.168 kr. á mánuði með hverju barni eða 398.016 kr. á ári,“ sagði Silja Dögg.
„Samkvæmt 60. gr. barnalaga, nr. 76/2003, má úrskurða meðlagsskyldan aðila til greiðslu framlaga vegna skírnar, fermingar, gleraugnakaupa, tannréttinga, sjúkdóms eða greftrunar. Önnur tilefni geta einnig orðið grundvöllur slíkra framlaga en þó aðeins ef þau eru sérstaks en ekki almenns eðlis, enda er reglubundnum meðlagsgreiðslum ætlað að standa straum af almennri framfærslu barns. Dómsmálaráðuneytið gefur út leiðbeiningar til sýslumanna um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um sérstök framlög og ber að uppfæra þær árlega miðað við vísitölu neysluverðs. Samkvæmt upplýsingum á vef sýslumanna á þessu ári þykja fjárhæðirnar hæfilega ákveðnar sem hér segir:
72.000–95.000 kr. vegna fermingar,
19.000–24.000 kr. vegna skírnar,
72.000–106.000 kr. vegna greftrunar.
Ekki eru gefnar út leiðbeiningar vegna annarra framlaga sem hér eru talin.
Sambærilega heimild er ekki að finna til handa barnalífeyrisþegum þar sem staðan er þó sú sama á þann veg að einn framfærandi ber hitann og þungann af öllum kostnaði sem upp kemur. Flutningsmenn telja að með því sé börnum einstæðra foreldra mismunað, þ.e. eftir því hvort báðir foreldrar eða annar er á lífi. Í 2. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna kemur fram að nauðsynlegt sé að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað, t.d. vegna stöðu foreldra þess. Slík mismunun fer einnig gegn hugmyndum jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár Íslands,“ sagði Silja Dögg.
Í greinargerðinni kemur fram að „flutningsmenn telja að hér sé verið að mismuna börnum sem hafa misst annað foreldri sitt og rétt að sambærileg heimild verði fest í lög um almannatryggingar á þann veg að framfæranda barnalífeyrisþega verði heimilt að óska eftir viðbótarbarnalífeyri vegna sérstakra útgjalda. Í frumvarpinu er miðað við að sömu sjónarmið verði höfð til hliðsjónar við mat á viðbótarframlagi og stuðst er við í 60. gr. barnalaga. Beiðni um slíkt framlag skal beint til sýslumanns sem úrskurðar um hvort ríkinu beri að greiða viðbótarframlag vegna sérstakra aðstæðna.“
Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarmanna, sagði við afgreiðslu málsins við þriðju umferð: „Hæstv. forseti. Fyrir hönd jafnréttis- og samvinnufólksins í þingflokki [Framsóknarmanna] vil ég þakka góðar undirtektir og fagna þessum áfanga.“
Lagafrumvarpið varð að lögum með samþykkt 55 þingmanna, en 8 voru fjarstaddir.