Categories
Fréttir

16. Landsþing Landssambands framsóknarkvenna

Deila grein

30/07/2013

16. Landsþing Landssambands framsóknarkvenna

lfkmerkiliturBoðað er til 16. Landsþings Landssambands framsóknarkvenna (LFK) laugardaginn 7. september í Framsóknarhúsinu Hverfisgötu 33, 3. hæð í Reykjavík. Skráning fer fram á skrifstofu Framsóknar í síma 540-4300 eða á netfangið framsokn@framsokn.is. Skráning fer fram til 31. ágúst. Mikilvægt er að konur skrái sig tímanlega vegna undirbúnings þingsins.
Þinggjöld eru 1.500 kr. Innifalið í þinggjöldum eru þinggögn, súpa og brauð í hádeginu, kaffi og með því.
Framsóknarkonur vítt og breytt um landið eru því beðnar um að taka þessa daga frá og að taka þátt í öflugu landsþingi LFK og stemmingu sem enginn verður svikin af!
Uppstillingarnefnd hefur hafið störf. Vinsamlega látið vita af framboði ykkar til hennar:

 

Drög að dagskrá:

Laugardagur 7. september 2013

09.00  Þingsetning
09.05  Kosning starfsmanna þingsins:

–  Kosning þingforseta
–  Kosning þingritara
–  Kosning starfsnefndar (3)

09.10   Skýrsla stjórnar og reikningar lagðir fram / umræður
09.40  Ávarp félags- og húsnæðismálaráðherra Eyglóar Harðardóttur
10.00  Kaffihlé
11.15 Málefnahópar kynntir – taka til starfa:
Hópur 1 – Stjórnskipun, mannréttindi, lýðræði og utanríkismál
Hópur 2 – Efnahagsmál
Hópur 3 – Atvinna, samgöngur og umhverfi
Hópur 4 – Menntun, menning og íþróttir
Hópur 5 – Velferð
Hópur 6 – Lagabreytingar og aðrar tillögur
12.00  Hádegishlé
14.30  Niðurstöður hópvinnu og tillögur lagðar fyrir þingið – umræður
15.20  Lagabreytingar
15.30  Kosningar:

– Formaður
– Framkvæmdastjórn (4) og varastjórn (2)
– Landsstjórn (6) og varastjórn (6)
– Skoðunarmenn reikninga (2)
– Varaskoðunarmenn reikninga (2)

15.45 Önnur mál
16.00 Þingslit
Framkvæmdastjórn LFK áskilur sér rétt til breytinga á dagskrá þingsins.
 
FRAMKVÆMDASTJÓRN LFK

Categories
Greinar

Verjum hagsmuni heimilanna

Deila grein

29/07/2013

Verjum hagsmuni heimilanna

Eygló Þóra HarðardóttirÝmsir hafa áhyggjur af stefnu stjórnvalda um leiðréttingu skulda og afnám gjaldeyrishaftanna. Enn er fullyrt að allt fari hér á versta veg ef kröfuhöfum verður ekki tryggður hámarkshagnaður af eignum sínum á kostnað ríkissjóðs og heimilanna. Nú síðast breytti S&P horfum ríkissjóðs úr stöðugum í neikvæðar.

Að gefnu tilefni er því rétt að ítreka eftirfarandi. Stefna stjórnvalda er að leiðrétta stökkbreytt verðtryggð lán heimilanna. Skuldaleiðréttingin mun ekki auka skuldir ríkissjóðs. Nánari útfærsla mun liggja fyrir í nóvember. Bæði bein niðurfærsla höfuðstóls og skattalegar aðgerðir kunna að verða fyrir valinu í samræmi við stefnu stjórnarflokkanna. Mögulegt verður að beita fjárhæðartakmörkunum og öðrum skilyrðum til að tryggja jafnræði og skilvirkni úrræðanna.

Stjórnvöld telja rétt að þeir sem orsökuðu hækkun verðtryggðra skulda greiði fyrir leiðréttinguna. Því sé rétt að það svigrúm sem myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna verði nýtt til að koma til móts við heimilin.

Forsætisráðherra og Seðlabanki Íslands buðu lánshæfismatsfyrirtækinu S&P sérstakan fund til að fara ítarlega yfir áform um skuldaleiðréttingu, grundvöll hennar og fjármögnun. Fyrirtækið ákvað að þiggja ekki það boð en þrátt fyrir það byggir það m.a. ákvörðun sína á að ekki liggi fyrir nægar upplýsingar um fyrirætlanir stjórnvalda. Afstaða þeirra er því ófagleg og illa grundvölluð, en kemur kannski ekki á óvart.

Við vissum ætíð að þetta yrði ekki auðvelt. Gífurlegir hagsmunir eru undir að stoppa baráttu okkar fyrir heimilum landsins. Ef smáríki á borð við Ísland kynni að leiðrétta skuldir heimilanna á kostnað fjármagnseigenda, þá gæti kannski fleirum dottið í hug að gera það sama!

Kannski skýrir þetta mismunandi afstöðu S&P til skuldaleiðréttingar og Icesave-samninganna á sínum tíma. Þá taldi S&P það bæta lánshæfismat Íslands að auka skuldir ríkissjóðs um 200 milljarða króna vegna Icesave. Yrðu samningarnir ekki samþykktir myndi matið hins vegar hugsanlega lækka umtalsvert.

Ísland mun standa við skuldbindingar sínar og stjórnvöld munu standa við loforð sitt. Loforðið er að lækka skuldir. Skuldir heimilanna, skuldir ríkisins og skuldir þjóðarbúsins. Það upplýsist hér með.

Eygló Harðardóttir

Categories
Greinar

Tækifæri og framtíðarsýn

Deila grein

15/07/2013

Tækifæri og framtíðarsýn

VH-e1364902621263Mikið hefur verið rætt og skrifað um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að stofna til sérstaks hagræðingarhóps á vegum ráðherranefndar um ríkisfjármál. Hópurinn skal leggja til aðgerðir til þess að hagræða, forgangsraða og auka skilvirkni í rekstri stofnana ríkisins auk þess sem hópurinn skuli fara yfir stóra útgjaldaliði ríkisins s.s. fjölda stöðugilda, skipulag, rekstur, innkaup og skoða hvort gera megi kerfisbreytingar sem leiða til aukinnar framleiðni og betri nýtingar fjármuna. Hagræðingahópurinn á að starfa út allt kjörtímabilið.

Það vekur undrun mína hversu hart vinstri menn bregðast við þessu verklagi sem ríkisstjórnin leggur til. Því er fundið allt til foráttu og talað niður sem aldrei fyrr. Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið allra landsmanna að hafa ríkissjóð vel rekinn. Megin markmið ríkisstjórnarinnar er að forgangsraða og koma atvinnulífinu af stað. Í því felast feikileg tækifæri ef rétt er staðið að málum. Er ríkisstjórnin síður en svo að feta nýjar brautir í þeim efnum. Ef litið er til Bretlands þá hefur George Osborne fjármálaráðherra boðað mikinn niðurskurð á ríkisútgjöldum til að draga úr hallarekstri hins opinbera þar í landi. Hlífa á grunnstoðunum þar eins og t.d. heilbrigðis – og menntakerfi en auka á fjármagn til uppbyggingar innviða samfélagsins.

Allt ætlaði um koll að keyra þegar ég lét hafa eftir mér að reka þyrfti íslenska ríkið eins og stórt fyrirtæki. Ríkisrekstur er ekkert annað útgjöld og innkoma eins og í fyrirtækja – og heimilisrekstri og útkoman þarf að vera réttu megin við núllið. Nú er staða ríkissjóðs auk þess þannig að rekstrarafgangur þarf að vera mikill á komandi árum. Stórir gjaldagar eru framundan á erlendum lánum og því þarf að huga að uppbyggingu framleiðslugreina sem skila okkur erlendum gjaldeyri til að hægt sé að standa við þær skuldbindingar sem ráðist hefur verið í. Reikningsdæmið er í raun sáraeinfalt. Við Íslendingar eigum gnótt tækifæra í viðskiptalífi heimsins ef rétt er haldið á spilunum.

Að mínu mati er rétti tíminn núna til þess að endurskoða allt er snýr að ríkisútgjöldum og draga saman þar sem hægt er að hagræða og spara án teljandi sársauka. Fyrrverandi ríkisstjórn hafði ekki kjark til að fara í þessa vinnu á síðasta kjörtímabili og bætti enn frekar ofan á ríkisútgjöld með stofnun nýrra ríkisstofnana, nefnda og óábyrgra ákvarðana. Skoða þarf nefndir, stofnanir, ráðuneyti, fyrirtæki sem ríkið á hlut í, ríkisábyrgðir og gjalddaga lána í einni heild. Víðsvegar er hægt að finna verkefni og starfsemi sem er á fleiri en einni hendi og hæglega væri hægt að renna saman. Það eiga ekki margir að vinna sömu verkin og við eigum ekki sífellt að þurfa að vera að finna upp hjólið. Við skulum líta til reynslu annarra þjóða í hagræðingu og niðurskurði. Við skulum líta á þessi verkefni sem tækifæri fyrir þjóðina því það skilar okkur fyrr í mark. Neikvæðni og barlómur skilar engu – þetta verkefni er óumflýjanlegt og því fyrr sem ráðist verður að rót vandans – því fyrr kemst fullvalda Ísland á ný í samkeppnisstöðu við þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. Eins og fram hefur komið þá liggur allt undir í þessu verkefni. Göngum brött og brosandi til verka því kjarkur er allt sem þarf.

Vigdís Hauksdóttir

Grein í DV 15. júlí 2013

Categories
Fréttir

Farsælir þingmenn Framsóknar á landsmóti UMFÍ

Deila grein

10/07/2013

Farsælir þingmenn Framsóknar á landsmóti UMFÍ

haraldur-landsmot-UMFIÞrír þingmenn Framsóknar tóku þátt í 27. Landsmóti UMFÍ á Selfossi um liðan helgi. Þau Haraldur Einarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þorsteinn Magnússon, varaþingmaður, en hann tók sæti á Alþingi rétt fyrir þinglok í fjarveru Frosta Sigurjónssonar.

Unnu þau til nokkurra verðlauna á landsmótinu:

  • Haraldur Einarsson vann til tveggja silfurverðlauna, annars vegar fyrir 400 m. hlaup og hins vegar fyrir 1000 m. boðhlaup.
  • Þá vann lið Haraldar og Þorsteins í heildarstigakeppninni í frjálsum en þeir kepptu fyrir HSK.
  • Silja Dögg vann svo til gullverðlauna fyrir starfshlaupið.

Auk þess að vera farsæl á verðlaunapöllunum voru Haraldur og Silja Dögg fánaberar við setningu Landsmótsins.setning-landsmots-UMFI
 

Categories
Greinar

Að loknu sumarþingi

Deila grein

10/07/2013

Að loknu sumarþingi

Þorsteinn SæmundssonÞað hefur sannarlega verið viðburðaríkt og upplýsandi fyrir nýliða á Alþingi að taka þátt í nýliðnu sumarþingi. Það er vissulega mikil upphefð og mikil ábyrgð að setjast á Alþingi Íslendinga sem kjörinn fulltrúi. Nýliðar þurfa að meðtaka mikinn fróðleik á stuttum tíma, bæði hvað varðar starfsemi þingsins og ekki síður við að setja sig inn í þau mál sem til meðferðar eru hverju sinni. Margt hefur komið á óvart og reynst með öðrum hætti en maður vænti.

Eins og margir hef ég fylgst með störfum Alþingis fyrst og fremst í gegnum umfjöllun og fréttir fjölmiðla en einnig með því að lesa blaðagreinar og kynna mér mál á heimasíðu þingsins. Það hefur komið mér á óvart hversu mikill hluti starfs þingmanna fer fram utan við þingsalinn, einkum í nefndum. Starf í nefndum þingsins er afar yfirgripsmikið, flókið og krefjandi. Starfið er þaulskiplagt sem er nauðsynlegt vegna þeirra erinda, umsagna en ekki síst fjölda gesta sem nefndirnar taka á móti.

Nýliðar á Alþingi fá afskaplega góðar móttökur hjá starfsfólki þingsins sem er boðið og búið að veita okkur aðstoð við hvað sem vera skal. Þar er sannarlega valinn maður í hverju rúmi. Við sem höfum fengið þann heiður að setjast í forsætisnefnd þingsins höfum gaumgæft þingsköpin og verður ærið verkefni að reyna að verða fullnuma í öllu því sem starfandi forseti þarf að kunna skil á. Það er því ómetanlegt að þiggja leiðsögn og fróðleik frá því ágæta fólki sem heldur í höndina á okkur varaforsetunum meðan við erum að byrja að fóta okkur.

Það hefur verið ánægjulegt og fróðlegt að kynnast eldri og reyndari þingmönnum, bæði meðal fulltrúa meirihluta og minnihluta. Þar fara margir reyndir bardagamenn sem búa yfir mikilli þekkingu. Margt má af þeim læra, bæði góða siði og verri. Nokkuð góð samstaða virðist annars ríkja innan þings þó að hart sé tekist á um mikilvæg mál þar sem pólitískar átakalínur liggja. Ekki eigum við eftir að komast fram hjá slíkum átökum en von mín er þó sú að á haustþingi mæti allir undirbúnir og reiðubúnir að afgreiða þau brýnu hagsmunamál fólksins í landinu, kjósenda okkar sem bíða í ofvæni eftir lausnum. Ég vona að vel megi takast til og að breið samstaða myndist.

Þorsteinn Sæmundsson

Categories
Greinar

Apabúrið

Deila grein

10/07/2013

Apabúrið

Silja Dögg GunnarsdóttirAfi minn horfir reglulega á útsendingar frá Alþingi. Hann er með dyggari áhorfendum. Hann talar yfirleitt um Alþingi sem apabúrið. Ég verð að viðurkenna að þessi samlíking særði mig örlítið eftir að ég hlaut kosningu sem alþingismaður.

Ákall um betri ásýnd Alþingis hefur verið hávært og mér heyrðist fyrir kosningar að allir flokkar væru einhuga um að svara því kalli. Ég hugsaði því með mér þegar afi kallaði Alþingi enn einu sinni apabúrið að ég ætlaði nú aldeilis að sýna honum að svona yrði þetta ekki. Nú væru breyttir tímar runnir upp.

Lifandi umræða
Við síðustu þingsetningu tóku rúmlega 40% þingmanna sæti á Alþingi í fyrsta sinn. Við fengum í upphafi kynningu á störfum Alþingis og spurðum nánast öll út í frammíköllin og um reglur um hegðun í þingsal, því öll vildum við jú standa okkur vel. Við fengum þau svör að frammíköll væru leyfileg en þau ættu að vera örstutt og helst hnyttin. Þau hleyptu lífi í umræðuna og því vildu menn ekki banna þau. Gott og vel.

Ein af öpunum
Þinghald hófst. Það fór kröftuglega af stað. Gagnrýnisraddir um svikin kosningaloforð strax í fyrstu viku þingsins voru háværar. Mikil gagnrýni var á forgangsröðun nýrrar ríkisstjórnar og svo framvegis.

Þegar leið á þingið versnaði heldur í því. Apabúrið birtist ljóslifandi og því miður var ég ein af öpunum í búrinu. Ég var ekki stolt. Ég vil þó ekki setja alla undir sama hatt. Þingmenn Samfylkingarinnar höguðu sér langverst í þingsal. Stundum heyrðist ekki í ræðumönnum vegna frammíkalla þingmanna Samfylkingarinnar. Oft voru frammíköllin, að mínu mati, alveg á mörkunum að vera dónaleg.

Hinir nýju þingmenn litu hver á annan og trúðu varla sínum eigin eyrum. Þingmenn Samfylkingar eru allir „reynslumiklir“ þingmenn og ég velti því fyrir mér hvort sú reynsla sé til bóta. Þeir virðast allavega eiga mjög erfitt með að bæta hegðun sína í þingsal.

Þingmenn verða að standa saman í að bæta ásýnd Alþingis. Það er ekki verkefni ríkisstjórnarinnar heldur ALLRA þingmanna. Skiptumst á skoðunum, en verum kurteis, jákvæð og málefnaleg.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Categories
Fréttir

Við munum reyna til þrautar, þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna samþykkt

Deila grein

01/07/2013

Við munum reyna til þrautar, þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna samþykkt

OLYMPUS DIGITAL CAMERAAlþingi hefur samþykkt

Þar er kveðið á um markvissar aðgerðir til þess að mæta skuldavanda íslenskra heimila, sem til er kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra húsnæðislána, sem leiddi af hruni fjármálakerfisins.

„Ég fagna því að Alþingi hafi afgreitt þingsályktunartillöguna sem gerir ráð fyrir því að með heildstæðum hætti verði nú tekið á stöðu mála varðandi skuldavanda heimila hér á landi. Nú förum við á fulla ferð á næstu vikum og mánuðum við að vinna frekar á grundvelli samþykktar Alþingis en um mjög viðamikið og brýnt málefni er að ræða. Við munum reyna til þrautar að koma fram með lausnir sem koma ekki síst til móts við skilvísa skuldara sem hafa lengi mátt búa við óréttlæti og ójafnræði“, segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Frétt forsætisráðuneytisins um málið