Categories
Greinar

Er fjársvelti háskólanna að þurrka upp viskubrunn landsins?

Deila grein

12/05/2017

Er fjársvelti háskólanna að þurrka upp viskubrunn landsins?

Sandra Rán Ásgrímsdóttir, formaður SUF

Það er óumdeilt að fjárfesting í menntun og rannsóknum skilar sér til baka með beinum áhrifum á framleiðni og hagvöxt þjóða. Umræður hafa verið um að þau störf sem nýfædd börn í dag muni starfa við í framtíðinni sé ekki enn búið að finna upp. Nýsköpun og þekkingarþróun munu verða grunnurinn að farsæld og samkeppnishæfni þjóða á komandi árum. Sterkir háskólar sem stunda öflugar rannsóknir munu því verða kjarninn í því að tryggja samkeppnishæfni Íslands á alþjóðlegum vettvangi.

Staða háskóla og vísindasamfélagsins á Íslandi er hins vegar grafalvarleg þar sem háskólar landsins hafa verið fjársveltir í lengri tíma. Fyrir kosningar ríkti pólitísk samstaða meðal allra stjórnmálaflokka og ungliðahreyfinga þeirra, að opinber fjárframlög á hvern háskólanema skyldu ná meðaltali OECD-ríkjanna á komandi kjörtímabili. Þó gert sé ráð fyrir einhverri hækkun í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar þá er hún engan veginn í takt við þá þörf sem hefur skapast meðal háskólanna. Það er velmegun í landinu og bjart fram undan en til að tryggja velferð landsins til framtíðar þarf að fjárfesta í framtíðinni.

Við búum við þá hættu að Ísland dragist aftur úr þegar kemur að menntun, rannsóknum og nýsköpun. Við þurfum að skapa okkur framtíðarsýn um háskólastig landsins, hvert viljum við stefna og hvernig við ætlum að komast þangað? Ungt Framsóknarfólk telur að grunnurinn að því að geta tryggt gæði háskólanáms í landinu sé að fjárframlög nái meðaltali OECD-ríkjanna en það er of seint að ná því árið 2030. Þróunin er að gerast núna og hún gerist mun hraðar en áður – við þurfum að bregðast við áður en það er of seint.

Fækkun háskólanema eða háskólamenntaðra er ekki lausnin, við viljum búa í fjölbreyttu samfélagi þar sem fólk hefur fjölbreytta menntun og fjölbreytt atvinnutækifæri. Því verður ekki neitað að háskólarnir spila stóran þátt í þessu markmiði þar sem þeir bjóða upp á fjölbreyttar námsleiðir. Við viljum ekki sníða alla í sama formið, sterkt iðnnám er gríðarlega mikilvægt en sama gildir um háskólanám og rannsóknir. Hættan er sú að ef við bætum ekki úr og tryggjum gæði háskólanna til framtíðar missum við allt okkar hæfileikaríkasta fólk til landa þar sem gæði náms og rannsókna eru tryggð. Er fjársvelti háskólanna að þurrka upp viskubrunn landsins?

Sandra Rán Ásgrímsdóttir

Categories
Fréttir

Arðgreiðslur Landsvirkjunar gætu numið allt að 10–20 milljörðum kr. á næstu þremur til fjórum árum

Deila grein

04/05/2017

Arðgreiðslur Landsvirkjunar gætu numið allt að 10–20 milljörðum kr. á næstu þremur til fjórum árum

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður

,,Hæstv. forseti. Ég ætla að tala um Landsvirkjun. Ég fékk loksins svar við fyrirspurninni, sá það í gær. Umhverfis- og orkumál sem og matvælaframleiðsla eru hin stóru mál framtíðarinnar. Ísland er mjög framarlega í heiminum í framleiðslu á nýtingu grænnar orku, þ.e. virkjun fallvatna og jarðvarma. Á þeim sviðum hefur orðið til gríðarleg þekking hér á landi á síðastliðnum áratugum sem okkur ber að miðla eftir bestu getu til annarra þjóða. Hlutverk okkar í ýmsum þróunarsamvinnuverkefnum eru til að mynda á þeim sviðum, sem er vel, auk miðlunar á þekkingu varðandi landgræðslu, sjávarútveg og síðast en ekki síst í jafnréttismál, svo eitthvað sé nefnt.
Víkjum aftur að orkuframleiðslunni hér á landi og framtíðarsýn hvað varðar eigandastefnu orkufyrirtækja. Landsvirkjun er gríðarlega öflugt orkufyrirtæki í eigu þjóðarinnar. Starfsemi Landsvirkjunar hefur haft jákvæð áhrif á lífsgæði á Íslandi, bæði með auknu öryggi, afhendingu á raforku og miklum gjaldeyristekjum. Þau lífsgæði sem við höfum hér í formi tiltölulega ódýrrar grænnar orku eru alls ekki sjálfsögð. Því er það samfélagslega afar mikilvægt að Landsvirkjun verði áfram í eigu ríkisins.
Í svari sem ég fékk frá hæstv. fjármálaráðherra nýlega um eigandastefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart Landsvirkjun kemur fram að ekki standi til að einkavæða fyrirtækið að hluta eða öllu leyti. Það eru mjög góðar fréttir. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson hefur lagt fram þingsályktunartillögu ásamt þingmönnum Framsóknarflokksins um að Landsvirkjun verði áfram í eigu íslenska ríkisins. Í greinargerð málsins kemur m.a. fram að forstjóri Landsvirkjunar hefur bent á að fjárhagsleg staða fyrirtækisins verði sífellt sterkari og arðsemi aukist. Í lok ársins 2016 var eiginfjárhlutfall landsvirkjunar 45,4% og hefur aldrei verið hærra. Þetta mun leiða til þess að arðgreiðslur í sameiginlegan sjóð landsmanna munu fara stighækkandi. Þær gætu numið allt að 10–20 milljörðum kr. á næstu þremur til fjórum árum. Ríkisstjórnin áformar að setja fram eigandastefnu fyrir Landsvirkjun, það kom fram í svari ráðherra, og það er því afar mikilvægt á þeim tímapunkti að vilji Alþingis gagnvart þessu máli komi skýrt fram.”
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins, 3. maí 2017.

Categories
Fréttir

Mikilvæg skref eru stigin með nýju greiðsluþátttökukerfi en ganga þarf lengra

Deila grein

04/05/2017

Mikilvæg skref eru stigin með nýju greiðsluþátttökukerfi en ganga þarf lengra

,,Hæstv. forseti. Þann 1. maí sl. tók nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúklinga gildi samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi sl. sumar. Þetta er eitt af þeim málum sem afgreitt var í þverpólitískri sátt frá hv. velferðarnefnd. Eitt af markmiðum þessara lagabreytinga er að verja langveika sjúklinga fyrir háum kostnaði vegna meðferðar við sjúkdómum, sjúklinga sem hingað til hafa þurft að greiða mjög mikinn kostnað vegna veikinda sinna. Öll höfum við heyrt umræðuna og þörfina á því að þessu greiðsluþátttökukerfi yrði breytt til hins betra.
Þessi lagabreyting um nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúklinga er skref í rétta átt þótt enn sé talsvert í land og mun ég beina umræðunni að þeim þáttum sem við Framsóknarmenn leggjum áherslu á sem næstu skref í þessum efnum.
Fyrst ætla ég aðeins að fjalla um vinnslu málsins í hv. velferðarnefnd síðasta sumar en við efnislega vinnslu málsins var það m.a. gagnrýnt að greiðsluþátttökukerfið næði ekki til allrar heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt þessu nýja greiðsluþátttökukerfi eru t.d. tannlækningar, sálfræðiþjónusta, ferðakostnaður og hjálpartæki utan kerfisins. Við vinnslu málsins innan hv. velferðarnefndar töldu nefndarmenn æskilegt að allur kostnaður af heilbrigðisþjónustu og lyfjum félli undir eitt greiðsluþátttökukerfi. Með samþykkt frumvarpsins og gildistöku laganna náðum við þó á síðasta kjörtímabili að stíga skref í rétta átt og fella sjúkraiðju og talþjálfun undir almenna kerfið. Í nefndaráliti hv. velferðarnefndar í fyrravor var skýrt kveðið á um að stefna ætti í þá átt að fella enn fleiri tegundir heilbrigðisþjónustu undir greiðsluþátttökukerfið en þá yrði að auka verulega fjárveitingar til málaflokksins.
Ég ætla að fá að lesa örlítinn bút úr nefndaráliti hv. velferðarnefndar frá því í fyrrasumar. Þar stendur, með leyfi forseta:
„Jafnframt stendur til að greiðsluþátttaka sjúklinga verði minni en ráðgert var í fyrrnefndum drögum að reglugerð. Endanlegar tölur ráðast af fjárlögum næsta árs en miðað er við að almennar hámarksgreiðslur sjúkratryggðra verði ekki hærri en 50.000 kr. á ári.
Nefndin fagnar yfirlýsingu ráðherra og telur sig hafa fullvissu fyrir því að auknir fjármunir komi til í fjáraukalögum þessa árs og fjárlögum ársins 2017 sem leiði til þess að heilsugæslan verði styrkt og almennar hámarksgreiðslur sjúkratryggðra verði ekki hærri en 50.000 kr. á ári.“
50.000 kr. þakið var forsenda þess að þverpólitísk sátt næðist um málið innan nefndarinnar á síðasta kjörtímabili en núna, í nýja greiðsluþátttökukerfinu, er þakið í einhverjum tilvikum 70.000 á ári. Það er ekki sú upphæð sem sátt náðist um. Ég er þess fullviss, miðað við umræðuna í velferðarnefnd á síðasta kjörtímabili, að ekki hefði náðst þverpólitísk sátt um afgreiðslu þessa frumvarps ef 70.000 kr. þakið hefði verið lagt fram þegar unnið var að málinu.
Virðulegur forseti. Þegar við skoðum ríkisfjármálaáætlun, nánar tiltekið á bls. 299 og 300 þar sem fjallað er um greiðsluþátttökukerfið, eru framtíðarmarkmið þessara aðgerða nokkuð óljós. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í þau framtíðaráform sem eru uppi varðandi frekari aðgerðir í greiðsluþátttökukerfi sjúklinga. Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að einstaklingar með langvinna sjúkdóma eigi kost á gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi áður en þetta kjörtímabil er á enda? Það er nefnilega nógu erfitt fyrir einstaklinga að missa heilsuna, jafnvel vinnuna, þegar erfið veikindi herja á. Mikilvæg skref eru stigin með nýju greiðsluþátttökukerfi en ganga þarf lengra.
Einnig spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann ætli sér að sameina greiðsluþátttökukerfi vegna heilbrigðis- og lyfjakostnaðar á þessu kjörtímabili. Samspil þessara tveggja kerfa gerir að verkum að í of mörgum tilvikum þurfa sjúklingar oft að greiða of mikinn kostnað þrátt fyrir að við séum búin að innleiða nýtt greiðsluþátttökukerfi með lægra þaki en áður hefur verið.
Að lokum spyr ég hvort hæstv. heilbrigðisráðherra ætli að bæta fleiri þáttum heilbrigðisþjónustu í greiðsluþátttökukerfið og í hvaða skrefum það verði þá gert. Þar get ég nefnt þætti eins og að koma í auknum mæli til móts við ferðakostnað einstaklinga sem þurfa að sækja þjónustu á heilbrigðisstofnunum eða spítalanum í Reykjavík og þurfa margsinnis að koma til Reykjavíkur og fá þjónustu. Á að koma meira til móts við þessa einstaklinga? Hvað með tannlækningar og sálfræðiþjónustu?
Í þessari umræðu hef ég farið yfir helstu þætti sem unnið var að í hv. velferðarnefnd sl. vor. Þar voru fyrstu skrefin stigin en fast kveðið á um í nefndaráliti hv. velferðarnefndar (Forseti hringir.) að ganga yrði lengra og því kalla ég eftir svörum hér.”

Elsa Lára Arnardóttir

Ræða Elsu Láru Arnardóttur, 3. maí 2017.