Categories
Greinar

Galdur orðaforðans

Deila grein

29/08/2018

Galdur orðaforðans

Við leggj­um mikla áherslu á að auka og bæta læsi, sér­stak­lega hjá börn­um og ung­menn­um. Lestr­ar­færni er lyk­ill að lífs­gæðum og raun­ar grund­völl­ur að flestu öðru námi. Við vit­um líka að lest­ur er ein flókn­asta hug­ræna aðgerðin sem börn þurfa að ná tök­um á í skól­an­um. Þekk­ing á grunnþátt­um læsis og hvaða viðfangs­efni eru best til þess að efla lestr­ar­færni hef­ur auk­ist mjög og hafa rann­sókn­ir á því sviði leitt til fram­fara í lestr­ar­kennslu, ekki síst fyr­ir börn sem glíma við lestr­ar­erfiðleika.

Á dög­un­um var hald­in fróðleg ráðstefna á veg­um Rann­sókn­ar­stofu um þroska, mál og læsi sem skipu­lögð var til heiðurs dr. Hrafn­hildi Ragn­ars­dótt­ur sem er einn merk­asti fræðimaður okk­ar og kenn­ari á sviði þroska- og mál­vís­inda. Ann­ar aðal­fyr­ir­les­ara ráðstefn­unn­ar var Vi­beke Gröver, pró­fess­or og fyrr­um for­seti Menntavís­inda­sviðs Osló­ar-há­skóla en hún kynnti meðal ann­ars merki­lega rann­sókn sína á tengsl­um orðaforða og lesskiln­ings. Að sögn Gröver er hægt að sjá mark­tæk­ar fram­far­ir í orðaforða, frá­sagn­ar­hæfni og skiln­ingi á sjón­ar­horn­um annarra með ákveðnum aðferðum og inn­gripi. Allt eru þetta al­ger­ir und­ir­stöðuþætt­ir lesskiln­ings. Þess­ar niður­stöður eiga er­indi við alla for­eldra barna sem vinna að því að auka lestr­ar­færni sína. For­eldr­ar eru fyr­ir­mynd­ir barna sinna, ekki síst þegar kem­ur að tungu­mál­inu og hvernig við not­um það. Góður orðaforði gagn­ast vel í námi og hann er auðvelt að auka. Það er göm­ul saga og ný að orð eru til alls fyrst.

Hinn aðal­fyr­ir­les­ar­inn á ráðstefn­unni var dr. Cat­her­ine Snow, pró­fess­or við Har­vard há­skóla. Hún er meðal virt­ustu fræðimanna heims á sviði málþroska og læsis og hef­ur stýrt tíma­mót­a­rann­sókn­um á læsi og lesskiln­ingi barna og ung­menna sem orðið hafa leiðarljós í stefnu­mót­un á öll­um skóla­stig­um í Banda­ríkj­un­um. Í sínu er­indi ræddi hún mik­il­vægi sam­ræðunn­ar fyr­ir þróun lesskiln­ings og orðaforða og nefndi að ein ár­ang­urs­rík­asta leiðin til þess að auka þá færni væri að virkja nem­end­ur í umræðum um al­vöru mál­efni í skóla­stof­unni.

Mennt­a­rann­sókn­ir á borð við þær sem kynnt­ar voru á fyrr­greindri ráðstefnu eru sam­fé­lag­inu afar mik­il­væg­ar. Í sínu stóra sam­hengi styðja þær við stefnu­mót­un og áhersl­ur við mót­un mennta­kerfa og þar með sam­fé­laga. Við stönd­um frammi fyr­ir mörg­um áskor­un­um um þess­ar mund­ir og ég tel mik­il­vægt að ís­lenskt mennta­kerfi sé hreyfiafl breyt­inga og fram­fara til framtíðar. For­senda þess að verða virk­ur þátt­tak­andi í lýðræðisþjóðfé­lagi er góð lestr­ar­færni; að geta lesið, skrifað og gert grein fyr­ir skoðunum sín­um með hjálp ólíkra miðla. Það er sam­fé­lags­legt verk­efni að bæta læsi og lestr­ar­færni á Íslandi, þar höf­um við allt að vinna.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. ágúst 2018.

Categories
Fréttir

Ingi Tryggvason látinn

Deila grein

28/08/2018

Ingi Tryggvason látinn

Ingi Tryggvason, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins er látinn. Ingi lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík 22. ágúst, 97 ára að aldri.
Ingi var alþingismaður Norðurlands eystra 1974–1978, en hafði verið varaþingmaður Norðurlands eystra mars 1972, janúar–febrúar og nóvember 1973 og maí 1974.
Ingi var fæddur á Litlu-Laugum í Reykjadal 14. febrúar 1921. Foreldrar hans voru Tryggvi Sigtryggsson bóndi á Laugabóli í Reykjadal og Unnur Sigurjónsdóttir. Eiginkona Inga var Anna Septíma Þorsteinsdóttir kennari og húsmóðir. Synir Inga og Önnu eru: Haukur Þór, Tryggvi, Þorsteinn Helgi, Steingrímur og Unnsteinn. Sambýliskona Inga síðustu árin var Unnur Kolbeinsdóttir.
Ingi tók kennarapróf KÍ 1942 og sótti kennaranámskeið í Askov á Jótlandi 1946. Hann nam í kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn 1946–1947 og í The Polytechnic School of Modern Languages í Lundúnum 1947–1948.
Kennari í Lundarreykjadal 1942–1943, við barnaskólann á Eskifirði 1943–1944, skólastjóri barnaskólans í Grenivík 1944–1945, kennari við Héraðsskólann á Laugum 1945–1946 og 1949–1970 og við Gagnfræðaskólann á Siglufirði 1948–1949. Sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykdæla 1952–1974. Bóndi á Kárhóli í Reykjadal 1955–1986. Ferðaþjónustubóndi á Narfastöðum í Reykjadal frá 1988.
Ingi var í stjórn Sparisjóðs Reykdæla 1952–1982. Í hreppsnefnd Reykdælahrepps 1966–1974. Í stjórn Sambands íslenskra sparisjóða 1967–1981. Í stjórn Stéttarsambands bænda 1969–1987, formaður stjórnarinnar frá 1981. Skipaður 1971 í endurskoðunarnefnd laga um framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. Í Sexmannanefnd — verðlagsnefnd landbúnaðarins 1972–1987. Í skólanefnd Héraðsskólans á Laugum 1974–1982, formaður 1974–1978. Í tryggingaráði 1974–1978. Í stjórn Landverndar 1975–1981. Í Framleiðsluráði landbúnaðarins 1976–1987, formaður þess frá 1980. Forstöðumaður ullar- og skinnaverkefnis Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins 1978–1980. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1978. Stjórnarformaður Grænmetisverslunar landbúnaðarins 1980–1987. Í stjórn Norrænu bændasamtakanna 1981–1987. Í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins 1982–1990 og í stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins 1982–1988.
Við Framsóknarmenn minnumst alþingismanns með djúpri virðingu og þakklæti og vottum aðstandendum innilega samúð.

Categories
Greinar

Endurbætur á vegakerfinu aldrei meiri en nú

Deila grein

13/08/2018

Endurbætur á vegakerfinu aldrei meiri en nú

Vegakerfi okkar samfélags er yfir 12 þúsund kílómetrar að lengd. Umferð hefur stóraukist, ekki síst vegna komu ferðamanna sem flestir fara út á vegina yfir sumarið. Árið 2010 kom hingað um hálf milljón ferðamanna, sjö árum seinna voru þeir 2,2 milljónir. Á síðustu tíu árum hefur umferðin aukist um 30% á hringveginum. Á sama tíma hefur vegakerfið liðið fyrir stórfelldan niðurskurð fjármuna. Það er því víða laskað og þörf á viðhaldi og þjónustu afar aðkallandi.

Auknir fjármunir

Viðhald á vegakerfinu hefur aldrei verið meira en nú. Umferðaröryggi verður að tryggja sem best og hefur auknu fjármagni verið veitt til ýmissa úrbóta til að flýta vegabótum. Fjármagn til viðhalds og lagfæringa á vegum var 5,5 milljarðar 2016 og í ár er það 12 milljarðar. Auknir fjármunir hafa verið settir í vegaþjónustu og viðhald víðsvegar um landið. Fyrr í sumar var fjórum milljörðum bætt við gildandi áætlun þessa árs til að verja vegakerfið fyrir frekari skemmdum í kjölfar stóraukins umferðarþunga. Þá er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir sérstöku 5,5 milljarða árlegu framlagi sem bætist við til næstu þriggja ára. Í heildina er gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu á næstu 5 árum (2019-2023). Við forgangsröðun fjármuna verður litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða. Slík vinna stendur nú sem hæst og mun birtast í samgönguáætlun sem verður lögð fram á Alþingi nú í haust.

Aukinn kostnaður

Aukinni umferð fylgir aukinn kostnaður. Á síðustu árum hafa framlög til vegakerfisins verið í öfugu hlutfalli við fjölda notenda og ekna kílómetra á vegum. Afleiðing þess er að ýmsar brýnar framkvæmdir til að auka umferðaröryggi, hafa setið á hakanum. Hægt yrði að tvöfalda þá upphæð sem rynni til vegakerfisins með sérstöku notendagjaldi af einstökum mannvirkjum, s.s. brúm og göngum. Það er ein þeirra leiða sem eru í skoðun til að tryggja aukið fjármagn í vegakerfið til framtíðar – til hagsbóta fyrir okkur öll.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra