Categories
Fréttir

Viðspyrna fyrir Ísland – efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19

Deila grein

21/03/2020

Viðspyrna fyrir Ísland – efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynntu aðgerðirnar í Hörpu í dag.
  • Ríkið greiðir allt að 75% launa fólks næstu mánuði
  • Ríkisábyrgð á brúarlánum til fyrirtækja
  • Frestun og afnám opinberra gjalda
  • Ferðaþjónusta styrkt
  • Sérstakur barnabótaauki með öllum börnum
  • Heimild til úttektar séreignarsparnaðar
  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna framkvæmda
  • Framkvæmdum flýtt og fjárfest í tækniinnviðum
  • Umfang aðgerða um 230 milljarðar króna

Umfang aðgerða fyrsta áfanga stjórnvalda til að bregðast við áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru nemur um 230 ma.kr. eða tæplega 8% af landsframleiðslu. Aðgerðirnar eru þríþættar og miða að því að tryggja afkomu fólks og fyrirtækja, verja grunnstoðir samfélagsins og skapa öfluga viðspyrnu fyrir efnahagslífið.
Aðgerðir stjórnvalda munu veita öflugt mótvægi við efnahagsáhrif vegna COVID-19. Þær miða fyrst og fremst að því að verja störf og auðvelda heimilum og fyrirtækjum að takast á við það tímabundna tekjutap sem þau kunna að verða fyrir. Í ljósi minnkandi umsvifa munu stjórnvöld í krafti hlutastarfaleiðarinnar greiða allt að 75% launa starfsfólks sem lækkar í starfshlutfalli, að hámarki 700 þúsund kr., og gera þannig  launafólki og atvinnurekendum kleift að halda ráðningarsambandi. Úrræðið gildir næstu tvo og hálfan mánuð en reynslan af úrræðinu verður endurmetin í maí nk.
Fyrirtækjum verður gefinn kostur á að fresta greiðslum opinberra gjalda til næsta árs til að bæta lausafjárstöðu í atvinnurekstri og gistináttaskattur verður afnuminn til ársloka 2021. Útlánasvigrúm verður aukið með lækkun bankaskatts og ríkisábyrgð á lánum til lífvænlegra fyrirtækja, sem er ætlað að auðvelda þeim að standa í skilum, sérstaklega vegna launagreiðslna. Með því að hjálpa fyrirtækjum að standa í skilum og viðhalda ráðningarsambandi launafólks og vinnuveitenda má stytta þann tíma sem fyrirtæki þurfa til að ná viðspyrnu á ný.
Heimilin í brennidepli 
Afkoma heimilanna er í brennidepli aðgerðanna. Þegar hafa verið tryggðar greiðslur til fólks í sóttkví sem er grundvallaratriði til að hjálpa fólki við að taka ábyrgar ákvarðanir til að draga úr útbreiðslu veirunnar. Hlutastarfaleiðinni er ætlað að verja störf og afkomu fólks við þrengingar á vinnumarkaði. Einnig verður veitt heimild til að taka út séreignarsparnað að hámarki 800 þ.kr. á mánuði í 15 mánuði og endurgreiðslur vegna viðhaldsvinnu við heimili og frístundahúsnæði hækkaðar í úr 60% í 100%. Að auki verður endurgreiðsluúrræðið útvíkkað til heimilisþjónustu og tekin upp ný heimild fyrir þriðja geirann svokallaða, sem nær m.a. til almannaheilla- og íþróttafélaga, til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu fólks við byggingaframkvæmdir á þeirra vegum. Loks verður greiddur út sérstakur barnabótaauki 1. júní 2020 með öllum börnum undir 18 ára aldri. Foreldrar með lægri meðaltekjur en 927 þús. kr. á mánuði árið 2019 fá 40 þús. kr. á hvert barn og aðrir 20 þús kr.
Farið verður í sérstakt 20 ma.kr. fjárfestingarátak árið 2020, þar sem hið opinbera og félög þess setja aukinn kraft í samgöngubætur, fasteignaframkvæmdir, og upplýsingatækni, auk þess sem framlög verða aukin í vísinda- og nýsköpunarsjóði. Fram kom á fundi ráðherranna að inntak þess átaks verður nánar kynnt innan skamms.
Spurt og svarað um aðgerðirnar má lesa hér
Ýtarleg glærukynning, Viðspyrna fyrir íslenskt samfélag

Heimild: stjornarrad.is

Categories
Fréttir

„Sleginn nýr tónn hjá versluninni“

Deila grein

20/03/2020

„Sleginn nýr tónn hjá versluninni“

„Við lifum á ótrúlegum tímum, fordæmalausum í nútímasamfélagi, og við skulum vona að það sem þjóðin er að fara í gegnum núna muni styrkja hana og verða til þess að efla samhug og samvinnu fólks í framtíðinni — sem verður björt, því hef ég alla vega fulla trú á,“ sagði Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í dag.

„En hvað er það sem við getum treyst á í þessum erfiðu aðstæðum? Eitt af því er okkar eigin landbúnaðarframleiðsla. Það er gott að vita til þess að hér er framleiðsla á mjólk, kjöti, eggjum og grænmeti sem við getum treyst á og á að vera í boði fyrir neytendur, og ekki þarf að treysta fullkomlega á aðrar þjóðir í því. Mjólk, egg og grænmeti er framleitt hér á hverjum degi og kjötbirgðir eru góðar,“ sagði Þórarinn Ingi.

„Afurðastöðvar og bændur munu gera sitt besta til að tryggja að dreifing matvæla verði eins hnökralaus og hægt er þannig að tryggja megi að afurðir komist á markað. Einnig er áhugavert að sjá að verslunin er farin að kalla eftir styrkingu landbúnaðarkerfisins í þessu ástandi hvað varðar innlenda framleiðslu, til að mynda í grænmeti. Fram kom á vef Morgunblaðsins í morgun að verslunarfyrirtækið Samkaup hefði skorað á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að ýta undir innlenda grænmetisframleiðslu í boðuðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna ástandsins. Leiddar eru líkur að því í bréfi þessu, samkvæmt fréttinni, að grænmetisframleiðsla í heiminum muni dragast saman og nú þegar séu tafir á flutningsleiðum.“

„Þarna er sleginn nýr tónn hjá versluninni og hún er greinilega tilbúin að ganga í lið með bændum og fólkinu í landinu. Sá sem hér stendur lýsir hér með yfir stuðningi við þessar hugmyndir Samkaupa. Það á að nota tækifærið núna og inn í framtíðina og efla innlenda framleiðslu þjóðinni allri og landbúnaði til heilla,“ sagði Þórarinn Ingi.

Categories
Fréttir

Þegar rykið sest verður farið fullum krafti í að efla atvinnulífið

Deila grein

20/03/2020

Þegar rykið sest verður farið fullum krafti í að efla atvinnulífið

„Í dag eru vorjafndægur. Nú eru dagur og nótt jafningjar, myrkur og ljós takast á. Á morgun nær dagurinn yfir. Vonin er að brátt heyrist vorfuglar kvaka. Við getum haldið í þá vissu á jafn skrýtnum tímum sem uppi eru núna. Það er líka þekkt að upp úr krísum myndast ný tækifæri, eins og kom í ljós í síðustu krísu. Þjóðarskútan mun rétta við og það þekkjum við öll sem búum á landi elds og ísa og stöndum saman nú sem fyrr,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í dag.
„Í dag greiðum við atkvæði um tvö frumvörp sem koma frá ríkisstjórninni og taka utan um stóran hóp fólks sem má eiga von á nokkurri röskun á sínu daglega lífi, annars vegar frumvarp sem grípur þá sem lenda í samdrætti fyrirtækja og hins vegar frumvarp vegna tímabundinna greiðslna til fólks sem þarf að sæta sóttkví,“ sagði Halla Signý.

„Ég vil nota tækifærið og þakka velferðarnefnd fyrir góða umfjöllun og mikla vinnu við málið. Það var einhugur um að koma þessu máli sem fyrst í gegn. Með stuðningi ríkisstjórnarinnar náðust fram ítarlegri og öflugri aðgerðir en farið var af stað með. Gera má ráð fyrir því að Covid-19 muni ganga hér yfir á einhverjum mánuðum og eru stjórnvöld að taka málið föstum tökum. Fyrir liggur að einhverjar raskanir verða tímabundið á hefðbundnu lífi borgaranna en stjórnvöld stefna á að lágmarka þær. Samheldni þjóðarinnar skiptir máli og hefur hún sýnt það í verki með því að fara eftir leiðbeiningum Almannavarna og landlæknis sem er gríðarlega mikilvægt. Þannig komumst við standandi niður úr þessu falli. Þegar rykið sest verður hægt að fara af fullum krafti í að efla atvinnulífið. Verður það m.a. gert með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur boðað, eins og með öflugu markaðsátaki í ferðaþjónustu og með því réttum við við einn stærsta atvinnuveg landsins,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

Tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda

Deila grein

19/03/2020

Tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, mælti fyrir frumvarpi til laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að sýna merki þess að vera sýktir á Alþingi í gær.
Frumvarpið byggir á yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem undirrituð var 5. mars sl. um samfélagslega nauðsyn þess að hægja á útbreiðslu veirunnar Covid-19.

„Það var áskilið í yfirlýsingunni sem undirrituð var 5. mars að þetta frumvarp skyldi koma fram og var það lagt fram föstudaginn 13. mars. Í yfirlýsingunni kom fram að markmið sóttvarna væri að hægja á útbreiðslu veirunnar, vernda viðkvæma hópa fyrir smiti og draga úr álagi á heilbrigðiskerfið og innviði samfélagsins á meðan veiran gengur yfir. Sóttkví er mikilvægt úrræði í þessu skyni og þess vegna hefur því verið beint til almennings að hann virði fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda um að dvelja í sóttkví fái fólk slík fyrirmæli. Ákvörðun um sóttkví er tekin með hagsmuni heildarinnar í huga og því mikilvægt að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að fara í sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni,“ sagði Ásmundur Einar.
„Frumvarpinu er fyrst og fremst ætlað að koma til móts við atvinnurekendur sem greiða launamönnum laun á meðan þeir sæta sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að árétta þetta sérstaklega vegna þess að yfirlýsingin sem undirrituð var á milli atvinnulífs, verkalýðsfélaga og ríkisstjórnarinnar fól það í sér að Samtök atvinnulífsins beina þeim tilmælum til félagsmanna sinna að greiða einstaklingum sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda full laun en að atvinnurekandinn geti síðan sótt greiðslur til ríkisins upp að ákveðinni upphæð. Ljóst þykir að áhrif veirunnar á vinnumarkaðinn kunna að verða slík að einhverjum atvinnurekendum geti reynst ómögulegt að greiða laun starfsmanna vegna tekjufalls,“ sagði Ásmundur Einar.

„Frumvarpinu er því jafnframt ætlað að koma til móts við þá launamenn sem verða fyrir tekjufalli þar sem þeir fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda á meðan þeir sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Það er einfaldlega gert vegna þess að þetta eru bara tilmæli af hálfu Samtaka atvinnulífsins til félagsmanna sinna en þarna eru ákvæði um að einstaklingarnir geti líka sótt í þessar greiðslur. Það á þó að heyra til undantekningartilfella.
Þá er frumvarpinu ætlað að koma til móts við sjálfstætt starfandi einstaklinga sem verða fyrir tekjutapi þegar þeir sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Í þessum tilteknu tilvikum verður því unnt að sækja um greiðslur úr ríkissjóði enda séu tiltekin skilyrði uppfyllt. Vinnumálastofnun mun annast afgreiðslu þessara umsókna.“
„Gert er ráð fyrir að hámarksgreiðsla verði sú sama, miðað við heilan almanaksmánuð, og hámarksábyrgð Ábyrgðasjóðs launa á kröfum launamanna, þ.e. 633.000 kr., sem þýðir þá að hámarki 21.000 kr. fyrir hvern dag sem launamaður sætir sóttkví.
Frumvarpið tekur til atvinnurekenda og einstaklinga á almennum vinnumarkaði þar sem ríki og sveitarfélög hafa lýst því yfir að starfsmenn þeirra fái greidd laun komi til þess að þeir sæti sóttkví. Þetta á bara við um almenna vinnumarkaðinn. Gert er ráð fyrir að tímabilið sem um ræðir miðist við 1. febrúar sl. en heilbrigðisyfirvöld gáfu fyrstu fyrirmælin um sóttkví í byrjun febrúar. Mikil óvissa ríkir þó um þróun þessa faraldurs og ómögulegt er að segja til um hversu lengi þurfi að grípa til sértækra aðgerða vegna hans. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tímabilinu ljúki 30. apríl nk. Það yrði þá sjálfstæð ákvörðun ef tekin yrði ákvörðun um að framlengja það eftir þann tíma.“

Categories
Fréttir

Að vinnuveitendur haldi ráðningarsambandi við starfsmenn

Deila grein

19/03/2020

Að vinnuveitendur haldi ráðningarsambandi við starfsmenn

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, mælti fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa í tengslum við minnkað starfshlutfall launamanna á Alþingi í gær.
„Það var alveg ljóst að við þyrftum að koma með aðgerðir til að bregðast við þeim þrengingum sem eru að verða, tímabundnum vil ég trúa, í íslensku efnahagslífi og íslensku atvinnulífi vegna Covid-19. Við höfðum gert ráð fyrir því og höfum átt samtal um það, m.a. við aðila vinnumarkaðar, að þessi úrræði yrðu teiknuð upp. Verið er að teikna upp fjölmörg önnur atriði til að koma til móts við þennan hóp fólks og fyrirtækja sem eru að ganga í gegnum þessar þrengingar. Við höfðum gert ráð fyrir að taka í það um tvær vikur sem er ekki sérstaklega langur tími til lagasetningar. Á fimmtudagsmorgun, þegar ljóst var að Bandaríkin höfðu lokað á allt flug frá Evrópu og þar með væri ferðaþjónustan í enn meira uppnámi en áætlanir gerðu ráð fyrir, ákváðum við síðan að við skyldum klára þetta frumvarp og reyna að koma því inn í þingið sem fyrst þannig að fyrirtæki sem væru að ráðast í endurskipulagningu, og eru að því bara þessa klukkutímana, gætu brugðist við. Rétt rúmum sólarhring síðar, um 30 klukkustundum síðar, var þetta frumvarp afgreitt úr ríkisstjórn, úr þingflokkum stjórnarflokkanna og var síðan dreift á Alþingi á föstudagskvöldið,“ sagði Ásmundur Einar.

„Það er alveg ljóst að við munum þurfa að gera breytingar á þessu frumvarpi og ganga lengra en hér er kynnt. Við getum rætt það í umræðunni á eftir. Eins og ég sagði er þetta frumvarp lagt fram í ljósi fordæmalausra aðstæðna á vinnumarkaði. Með frumvarpinu er m.a. leitast við að koma til móts við fyrirtæki sem eiga í tímabundnum rekstrarvanda og á sama tíma sporna gegn hópuppsögnum og auknu atvinnuleysi vegna samdráttar í ferðaþjónustu og fleiri atvinnugreinum hér á landi.“

Markmið frumvarpsins er að stuðla að því að vinnuveitendur haldi ráðningarsambandi við starfsmenn sína eins og frekast er unnt þótt það kunni að vera nauðsynlegt að minnka starfshlutfall þeirra að einhverju leyti. Frumvarpinu er líka ætlað að koma til móts við aðstæður launamanna sem þurfa að taka á sig kjaraskerðingu í formi minnkaðs starfshlutfalls vegna tímabundins rekstrarvanda fyrirtækis þess sem þeir starfa hjá. Það er ljóst að það er samfélaginu öllu til heilla að sem flestir haldi virku ráðningarsambandi við vinnuveitanda sinn þrátt fyrir tímabundinn samdrátt á vinnumarkaði.
Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að einstaklingur sem sækir um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir hið skerta starfshlutfall án þess að laun fyrir það starfshlutfall sem hann heldur eftir komi til frádráttar atvinnuleysisbótum, enda séu tiltekin skilyrði uppfyllt.
Jafnframt er gert ráð fyrir því að sjálfstætt starfandi einstaklingi verði gert kleift að sækja um atvinnuleysisbætur hafi hann tilkynnt um verulegan samdrátt í rekstri og breytingu á reiknuðu endurgjaldi til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra. Þá er gert ráð fyrir breytingum á lögum um Ábyrgðasjóð launa þannig að í þeim tilfellum þegar starfshlutfall launamanns hefur verið lækkað vegna samdráttar í starfsemi vinnuveitanda verði miðað við tekjur launamannsins líkt og þær voru áður en starfshlutfall var lækkað við útreikninga á greiðslum úr sjóðnum.
„Þá vík ég aðeins að ákvæðum frumvarpsins. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að starfshlutfall geti lækkað hlutfallslega um 20% hið minnsta og að launamaður geti haldið að lágmarki 50% starfshlutfalli. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að viðkomandi sé í 51–80% starfi en geti farið á hlutabætur á móti.
Jafnframt er gert ráð fyrir því að laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geti aldrei numið hærri fjárhæð en 80% af meðaltali heildarlauna launamanns og þrátt fyrir það eru ákvæði um að þessi upphæð samanlagt, þ.e. minnkaða starfshlutfallsins og atvinnuleysisbótanna, geti aldrei orðið hærri en 650.000 kr. á mánuði. Í ljósi aðstæðna og þeirra breytinga sem hafa orðið held ég að þessi ákvæði muni þurfa að rýmka. Við erum að reikna það út núna hvaða kostnað það kunni að hafa í för með sér og hvort það geti þá náð til fleiri fyrirtækja. Ég vænti þess að í þeirri vinnu munum við þurfa að eiga gott samstarf við velferðarnefnd og ég ítreka ánægju mína með að hafa fengið að kynna málið fyrir henni. Þegar við erum í aðstæðum sem eru fordæmalausar og þegar við erum að hlaupa hraðar en kerfið gerir ráð fyrir að við gerum er gríðarlega mikilvægt að samstarfið þarna á milli sé gott,“ sagði Ásmundur Einar.

Categories
Fréttir

Endurskoðun kosningalaga

Deila grein

19/03/2020

Endurskoðun kosningalaga

Í október 2018 skipaði forseti Alþingis starfshóp um endurskoðun kosningalaga til að fara yfir fyrri tillögur um efnið með tilliti til hagkvæmni og skilvirkni. Jafnhliða skyldi starfshópurinn kanna kosti þess að setja heildarlöggjöf um framkvæmd allra almennra kosninga og skoða eftir því sem tími og aðstæður leyfa kosti rafrænnar kjörskrár. Í starfshópnum sitja fulltrúar landskjörstjórnar, dómsmálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Þjóðskrár Íslands auk fulltrúa forseta Alþingis.
Þau ákvæði kosningalaga sem lúta að undirbúningi og framkvæmd kosninga hér á landi hafa í raun lítið breyst um áratugaskeið. Má þar nefna að mörg ákvæði laga um kosningar til Alþingis eru nær eins og fyrir stofnun lýðveldisins. Helstu breytingar sem gerðar hafa verið á kosningalöggjöfinni síðustu ár ná til ákvæða sem bundin eru í stjórnarskrá, svo sem um kosningarrétt og kjörgengi, kjördæmaskipan, vægi atkvæða og úthlutun þingsæta. Aftur á móti hafa litlar breytingar orðið á ákvæðum er lúta að kjörstjórnum, framboðum stjórnmálasamtaka, réttindum og skyldum umboðsmanna stjórnmálasamtaka, meðferð kjörgagna og atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og á kjördag.
Vegna tíðra kosninga á undanförnum árum hefur þeim sem að framkvæmd þeirra hafa komið orðið æ ljósari þörf til breytinga. Kjörbréfanefnd Alþingis hefur bent á að huga beri að almennri endurskoðun laga um kosningar til Alþingis og hefur það sama komið fram hjá landskjörstjórn, sem telur einnig að stefna beri að setningu nýrrar heildarlöggjafar um kosningar. Enn fremur hafa borist athugasemdir og ábendingar frá sérfræðinganefnd Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) við kosningalöggjöfina hér á landi og framkvæmd við alþingiskosningar árin 2009, 2013 og 2017 sem aðallega snúa að stjórnsýslu kosninga og vikið verður að hér síðar. Fyrir Hæstarétti hefur reynt á kosningalöggjöfina vegna stjórnlagaþings og forsetakjörs og umboðsmaður Alþingis hefur sent frá sér úrlausnir vegna málsmeðferðarreglna yfirkjörstjórna. Eftir ákvarðanir Hæstaréttar og úrlausnir umboðsmanns Alþingis hafa vaknað spurningar um gildissvið kosningalaga gagnvart upplýsingalögum, stjórnsýslulögum og lögum um umboðsmann Alþingis.
Þá hefur verið bent á að annars staðar á Norðurlöndunum hafa verið tekin upp ákvæði í kosningalög sem heimila að beitt sé nýjustu tækni til að auðvelda alla framkvæmd kosninga, t.d. rafræn eyðublöð og form við ýmsar umsóknir í kosningaferlinu. Í því sambandi hafa enn fremur verið tekin upp ákvæði í löggjöf sumra nágrannalanda okkar sem heimila notkun rafrænnar kjörskrár, að sveitarfélög hafi val um að nota rafræna kjörskrá eða kjörskrá á pappír eða hvort tveggja samtímis.
Starfshópurinn hefur nú útbúið drög að frumvarpi til kosningalaga. Lagt er til að lögin gildi um kosningar til Alþingis og sveitarstjórna, um framboð og kjör forseta Íslands og um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Markmið frumvarpsins er að styrkja lýðræði með því að viðhalda trausti á framkvæmd kosninga og tryggja að beinar, frjálsar og leynilegar kosningar séu haldnar reglulega. Meginefni frumvarpsins lúta að breyttri stjórnsýslu kosninga og einföldun regluverks.
Helstu nýmæli sem frumvarpið felur í sér eru eftirfarandi:

  1. Einn lagabálkur mun gilda um kosningar í stað fjögurra áður. Lög um kosningar til Alþingis, lög um kosningar til sveitarstjórna, lög um framboð og kjör forseta Íslands og lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna falla brott.
  2. Stjórnsýsla kosningamála verður einfölduð og samræmd og einum aðila, landskjörstjórn, falið skýrt samræmingar- og yfirstjórnarhlutverk. Yfirkjörstjórnir kjördæma verða lagðar niður og landskjörstjórn tekur við hlutverki Hæstaréttar við forsetakjör.
  3. Yfirstjórn kosningamála verður færð frá dómsmálaráðuneyti til sjálfstæðrar stjórnsýslunefndar (landskjörstjórnar) sem, auk þess að bera ábyrgð á framkvæmd kosninga, sinnir viðvarandi verkefnum milli kosninga. Komið verður á fót úrskurðarnefnd kosningamála sem tekur til úrskurðar ýmsar kærur á þessu sviði, m.a. um lögmæti forsetakjörs, sveitarstjórnarkosninga og þjóðaratkvæðagreiðslna.
  4. Miðlæg vinnsla kjörskrár mun fara fram hjá Þjóðskrá Íslands og rafræn kjörskrá verður meginregla. Stjórnmálasamtök og frambjóðendur í forsetakjöri munu geta óskað eftir rafrænum aðgangi að kjörskrá.
  5. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar mun ekki geta hafist fyrr en öll framboð hafa komið fram og heimilað verður að viðhafa bréfkosningu þegar greidd eru atkvæði utan kjörfundar. Henni lýkur erlendis daginn fyrir kjördag og kl. 17 innan lands á kjördag. Framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar verður einfölduð sem og utanumhald kjörstjóra.
  6. Kjósandi mun eingöngu geta greitt atkvæði einu sinni í hverjum kosningum; annaðhvort utan kjörfundar eða á kjörfundi.
  7. Kosningaathöfnin verður einfaldari og öruggari með því að kjörstjórn stimplar kjörseðil áður en kjósandi leggur hann í atkvæðakassa. Ekki verði haldið sérstakt bókhald eða uppgjör um fjölda notaðra og ónotaðra kjörseðla.
  8. Talning mun fara fram á kjörstöðum í því skyni að einfalda talningu og auka öryggi í meðferð atkvæða.
  9. Öllum sem þess þurfa verður heimilað að fá aðstoð við kosningar hvort sem er vegna fötlunar, veikinda, elli eða af öðrum ástæðum.
  10. Kosningaréttur þeirra sem búsettir eru erlendis verður rýmkaður verulega í alþingiskosningum, forsetakjöri og þjóðaratkvæðagreiðslum. Fólk mun geta kosið í 16 ár eftir að það flytur lögheimili sitt af landinu, í stað átta ára nú, en á móti er lagt til að rétturinn falli niður að þeim tíma liðnum. Rétturinn endurnýjast aftur við flutning lögheimilis til landsins.
  11. Útgáfu kjörbréfa verður hætt.

Vinsamlegast sendið umsagnir og athugasemdir til lagaskrifstofu Alþingis á netfangið kosningalog@althingi.is eigi síðar en 8. apríl 2020. Frumvarpið verður einnig sett inn á samráðsgátt stjórnvalda. Að loknu samráðsferli mun starfshópurinn fara yfir athugasemdir sem berast og í kjölfarið skila forseta Alþingis fullbúnu frumvarpi.

Ljósmynd: Rakel Guðmundsdóttir.

Categories
Fréttir

„Samheldni þjóðarinnar skiptir miklu máli“

Deila grein

19/03/2020

„Samheldni þjóðarinnar skiptir miklu máli“

„Samheldni þjóðarinnar skiptir miklu máli og hefur hún sýnt það í verki með því að fara eftir leiðbeiningunum almannavarna og landlæknis sem er gríðarlega mikilvægt. Þannig komumst við standandi niður úr þessu falli,“ segir Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í yfirlýsingu á Facebook, en lesa má greina hennar í Fréttablaðinu í dag.

Categories
Fréttir

Á erfiðleikatímum verðum við að standa saman

Deila grein

19/03/2020

Á erfiðleikatímum verðum við að standa saman

„Þetta er hættuástand sem fá okkar hafa upplifað fyrr. Faraldurinn bitnar hart á öllum norrænu löndunum og virðir engin landamæri. Við slíkar aðstæður er afar mikilvægt að halda heildarsýn og missa ekki sjónar á gagnsemi þess að samhæfa aðgerðir milli landa. Norrænt samstarf og alþjóðlegt samstarf opna á möguleika sem gagnast hverju og einu landanna,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar og forseti Norðurlandaráðs í yfirlýsingu.
Silja Dögg leggur áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um aldraða og aðra sem tilheyra áhættuhópum. Hún hefur skilning á því að yfirvöld neyðist til að grípa til róttækra aðgerða á þessum fordæmalausu tímum.
„Um leið er traustvekjandi að sjá að almenningur á norrænu löndunum treystir því virkilega að yfirvöld taki réttar ákvarðanir. Það sýnir á hve sterkum grunni okkar norrænu samfélög byggja.“
Samfélagsöryggi forgangsmál í Norðurlandaráði
Samfélagsöryggi og samstarf á hættutímum eru mikilvæg svið fyrir Norðurlandaráð. Nú síðast á þingi ráðsins í október 2019 samþykkti það einróma nýtt stefnuskjal um samfélagsöryggi. Í stefnuskjalinu er lagt til að samstarf verði aukið á ýmsum sviðum, meðal annars hvað varðar framfærslu- og heilbrigðisviðbúnað.
„Norrænu löndin eiga nú þegar í frábæru samstarfi á mörgum ólíkum sviðum. Stefnuskjalið inniheldur ýmsar raunhæfar tillögur að því hvernig samstarfið geti orðið enn betra á hættutímum, nokkuð sem Norðurlandaráð vill vinna áfram með,“ segir Silja Dögg.
Starfið heldur áfram á formi fjarfunda
Kórónufaraldurinn sem nú stendur yfir hefur einnig áhrif á störf Norðurlandaráðs. Meðal annars hefur þemaþingi ráðsins, sem fara átti fram 30.–31. mars í Helsinki, verið aflýst og sama gildir um málþing ráðsins í Brussel 17.–18. mars.
Hið pólitíska starf Norðurlandaráðs heldur þó áfram þrátt fyrir faraldurinn. Fjöldi fjarfunda fer fram og undirbúningur að áframhaldandi starfi eftir að faraldrinum linnir er í fullum gangi.

Heimild: norden.org

Categories
Fréttir

Framundan er þétt samvinna Norðurlandanna

Deila grein

19/03/2020

Framundan er þétt samvinna Norðurlandanna

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, átti fjarfund í dag með samstarfsráðherrum Norðurlandanna. Ráðherrarnir leggja áherslu á mikilvægi þéttrar samvinnu og upplýsinga til að mæta þeirri óvissu og áskorunum sem heimurinn tekst á við. Brýnt sé að finna lausnir og bregðast skjótt við til að minnka áhrif á efnahagslífið og auka þjónustu við ríkisborgara Norðurlandanna.
„Síðustu daga höfum við séð hvernig löndin bregðast ólíkt við heima fyrir en við höfum jafnframt séð hve þýðingarmikil norræn samvinna er, sérstaklega þegar kemur að þjónustu við íbúa Norðurlanda. Þar stöndum við sterkt að vígi og þurfum að vinna þétt saman. Öll Norðurlöndin eru með ríkisborgara víða um heim sem vilja koma heim eða munu þurfa á aðstoð að halda seinna meir. Við þurfum á hvort öðru að halda nú sem aldrei fyrr. Þessi fundur er liður í því að sýna samstöðu og samstarfsvilja,“ segir Sigurður Ingi.
Samstarfsráðherrar Norðurlanda voru sammála um að vera áfram í virku sambandi um þær áskoranir sem munu koma upp vegna yfirstandandi aðgerða gegn útbreiðslu COVID-19 veirunnar og nýta styrkleika norræns samstarf til að leysa úr þeim.

Heimild: stjornarradid.is

Categories
Fréttir

Umfangsmesta rannsókn á ferða- og samgönguvenjum landsmanna kynnt

Deila grein

19/03/2020

Umfangsmesta rannsókn á ferða- og samgönguvenjum landsmanna kynnt

„Ferðavenjukönnunin er umfangsmesta rannsókn á ferða- og samgönguvenjum landsmanna sem gerð hefur verið. Það er mikill ávinningur fólginn í því að ferðavenjur séu nú mældar samtímis á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, en við það fást samanburðarhæfar niðurstöður. Gögnin sem fást úr þessari könnun eru verðmæt og munu nýtast við stefnumótun og áætlanagerð í samgöngu- og byggðamálum á öllum sviðum hins opinbera. Þær munu einnig nýtast vel í hvers konar greiningar- og rannsóknarvinnu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Í fyrsta sinn náði ferðavenjukönnunin til alls landsins en sambærilegar kannanir hafa verið gerðar fjórum sinnum áður fyrir höfuðborgarsvæðið. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Samgöngustofa, Isavia og Vegagerðin stóðu að könnuninni fyrir hönd samgönguráðs ásamt Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH).
Gallup framkvæmdi könnun á ferðavenjum Íslendinga sem fór fram í október og nóvember 2019 og byggði á 22.790 manna úrtaki. Svarhlutfall var 42,1% sem þykir góð niðurstaða fyrir jafn umfangsmikla könnun og stórt úrtak. Í fyrsta sinn náði ferðavenjukönnunin til alls landsins en sambærilegar kannanir hafa verið gerðar fjórum sinnum áður fyrir höfuðborgarsvæðið. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Samgöngustofa, Isavia og Vegagerðin stóðu að könnuninni fyrir hönd samgönguráðs ásamt Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH).
„Það er ánægjulegt að sjá þessa könnun verða að veruleika. Niðurstöður hennar munu nýtast vel í vinnu við undirbúning samgönguáætlana framtíðar. Þær ákvarðanir sem þar eru teknar skipta gríðarlegu máli, bæði þar sem háar fjárhæðir eru í húfi en ekki síður vegna þess að þær eru lykilþáttur í sjálfbærni byggða og atvinnulífs. Könnunin hjálpar okkur að skilja betur þarfir og væntingar almennings og geta þannig komið betur til móts við þær,“ sagði Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður og formaður samgönguráðs.
Ferðavenjur höfuðborgar og landsbyggðar líkar
Í könnuninni voru ferðavenjur fólks mældar fyrir alla samgöngumáta og eru tölur birtar fyrir landið allt, einstaka landshluta, sveitarfélög og hverfi þar sem það á við. Þar sem könnunin nær til alls landsins í fyrsta sinn er nú hægt að bera saman landshluta. Athygli vekur að ferðavenjur höfuðborgarbúa og þeirra sem búa á landsbyggðinni eru merkilega líkar.
Könnunin staðfestir að daglegum ferðum fólks óháð ferðamátum fækkar jafnt og þétt. Þær voru 4,3 að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu árið 2011 en mældust 3,8 nú. Á landsbyggðinni eru farnar 3,6 ferðir að meðaltali. Flestar ferðir voru farnar í Reykjavík og Kópavogi (3,9) en fæstar voru þær á Austurlandi (3,3).
Meðal annarra áhugaverðra niðurstaðna var að konur (3,9) fara fleiri ferðir en karlar (3,6). Á hinn bóginn fara karlar mun fleiri ferðir (43,1) til höfuðborgarsvæðisins af landsbyggðinni en konur (33,9).
Notkun einkabíls minnkar á höfuðborgarsvæðinu
Ef litið er til höfuðborgarsvæðisins sérstaklega sést að notkun hlutfall einkabíls minnkar um 2 prósentustig en notkun almenningssamgangna hækkar í 5%, en það hlutfall hafði haldist nokkuð stöðugt í 4% í öllum fyrri könnunum frá 2002.
Hlutfall ferða með einkabíl (sem bílstjóri eða farþegi) virðist nokkuð svipað í sveitarfélögum um land allt. Í flestum sveitarfélögum er það hlutfall á bilinu 70-80%. Eitt sveitarfélag skar sig þó talsvert úr öðrum, Langanesbyggð. Þar var hlutdeild einkabíls aðeins 35% og þar áberandi meirihluti sem sagðist fara sínar ferðir gangandi.
Sérstaklega var spurt um umhverfisvitund og samgöngur. Í ljós kom að meginþorri landsmanna er sammála þeirri fullyrðingu að þeir „hugsi mikið um hvað þeir geti gert til að draga úr þeim áhrifum sem þeir hafi á loftslagið/umhverfið“. Svör benda til þess að íbúar þéttbýlli svæða hugsi meira um umhverfisáhrif sín en þeir sem búa á dreifbýlli svæðum. Einnig virðast konur hugsa talvert meira um umhverfisáhrif en karlar.
Verðlag hefur mest áhrif á innanlandsflug
Notkun fólks á innanlandsflugi var könnuð sérstaklega. Notkun innanlandsflugs er langmest á Vestfjörðum, Norðurlandi eystra og Austurlandi og undirstrikar mikilvægi ferðamátans fyrir þá landshluta sem fjærst eru höfuðborgarsvæðinu. Aðspurðir í könnuninni sögðu flestir verðlag hafa mest áhrif á það hvort það nýtti innanlandsflug, sérstaklega á þeim svæðum þar sem notkun innanlandsflugs er mest.

Heimild: stjornarrad.is