Categories
Fréttir

Norðurlandabúar geti sem fyrst ferðast óhindrað yfir landamæri

Deila grein

20/04/2020

Norðurlandabúar geti sem fyrst ferðast óhindrað yfir landamæri

„Þessi heimsfaraldur mun ganga yfir, svo mikið er víst, og vonandi fyrr en síðar. En þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á sviði loftslagsmála eru ekki á förum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda. „Þess vegna er mikilvægt að um leið og við gerum meira á norrænum vettvangi til að mæta áhrifum COVID-19, vinnum við áfram að markmiðinu um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Við Íslendingar skulum nýta uppbyggingarstarfið sem er framundan til að ná því markmiði.“
Samstarfsráðherrar Norðurlanda ákváðu á fjarfundi í dag að fjármagna aðgerðir á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar til að mæta áhrifum COVID-19 heimsfaraldursins. Norræna ráðherranefndin hefur þegar gripið til vissra ráðstafana eins og að auka rannsóknarstarf á vegum Norrænu rannsóknarstofnunarinnar, NordForsk. Norrænir heilbrigðisráðherrar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hafa átt náið samráð um aðgerðir í bráð og lengd. Öllum fagráðherraráðum innan Norrænu ráðherranefndarinnar verður falið að koma með tillögur um það hvernig Norðurlöndin geti í sameiningu brugðist með enn markvissari hætti við núverandi ástandi en ljóst er að COVID-19 faraldurinn mun hafa víðtæk áhrif á atvinnulíf, vinnumarkað og samfélag.
Á fundinum kom fram skýr vilji til að draga lærdóma af viðbrögðum Norðurlandanna hingað til, sem að sumu leyti hafa verið ólík. Það verði einnig gert til þess að geta metið næstu skref og ekki síst til að undirbúa Norðurlöndin betur fyrir sambærilegum áföllum í framtíðinni.
Samstarfsráðherrarnir voru sammála um að ný framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar, sem samþykkt var í fyrra á formennskuári Íslands og leggur áherslu á loftslagsmál og samþættingu Norðurlandanna, ætti áfram að vera leiðarljós norræns samstarfs en með aukinni áherslu á heilbrigðissamstarf.
Á fundinum var einnig rætt um mikilvægi þess að Norðurlandabúar geti sem fyrst ferðast óhindrað yfir landamæri. Verulega hefur reynt á það vegna sóttvarnaraðgerða og hafa norrænar upplýsingaskrifstofur svarað rúmlega 200 þúsund fyrirspurnum frá íbúum Norðurlandanna á síðastliðnum mánuði. Á fundinum kom fram að vestnorrænt samstarf hefur einnig sannað gildi sitt en Færeyjar og Grænland hafa m.a. átt samstarf um skimun fyrir veirunni. Þá þökkuðu fulltrúar Grænlands íslenskum stjórnvöldum fyrir að hafa aðstoðað við gerð loftbrúar milli Nuuk og Kaupmannahafnar með viðkomu í Keflavík.

Heimild: stjornarradid.is

Categories
Fréttir

Áhersla á velferð nemenda og stuðningur við kennara

Deila grein

20/04/2020

Áhersla á velferð nemenda og stuðningur við kennara

„Áhrif COVID-19 draga fram mikilvægi grunnstoða allra samfélaga. Mikilvægi menntunar er rauður þráður í viðbrögðum stjórnvalda í Evrópu og við áttum góðan fund, deildum reynslu okkar og ræddum aðgerðir,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, um veffund evrópskra menntamálaráðherra í vikunni. Frá þessu segir á vef stjórnarráðsins.
Fram kom á fundi menntamálaráðherranna að öll aðildaríki Evrópusambandsins hafa annað hvort lokað menntastofnunum sínum að hluta eða að fullu og eru nú að huga að því hvernig best sé að haga afléttingu þeirra lokana. Sérstaða íslenskra leik- og grunnskólar sem hafa verið að mestu opnir, þrátt fyrir takmarkanir, er umtalsverð í því samhengi og hafa borist þónokkrar fyrirspurnir um þá nálgun til mennta- og menningarmálaráðuneytisins bæði frá erlendum fjölmiðlum og sendiráðum.
„Það er afrek í mínum huga að okkur hefur tekist að halda mikilvægri starfsemi leik- og grunnskólanna gangandi þrátt fyrir þessa erfiðleika og því er að þakka þolgæði, útsjónarsemi og forgangsröðun íslenskra kennara og skólafólks. Samtakamátturinn er okkar sterkasta vopn gegn þessari skæðu veiru,“ segir ráðherra.
Áhersla á velferð nemenda og stuðningur við kennara bar mikið á góma á fundi evrópsku ráðherranna en alls tóku 30 menntamálaráðherrar þátt í fyrrgreindum fundi og ræddu þar sínar aðgerðir og áskoranir í samhengi við COVID-19. Mikið var rætt um fjarnám og nýtingu stafrænna lausna í skólastarfi, fyrirkomulag námsmats á ólíkum skólastigum, flæði nemenda á milli skólastiga og hvernig best má huga að félagslega viðkvæmum nemendahópum.
„Það er ljóst að staðan er afar ólík innan Evrópu en það er mikill áhugi á því að deila reynslu og þekkingu – við höfum margt fram að færa og læra hvert af öðru á þessum flóknu tímum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Heimild: stjornarradid.is

Categories
Greinar

Skylda okkar að standa með fólki og fjölskyldum

Deila grein

20/04/2020

Skylda okkar að standa með fólki og fjölskyldum

Þær sótt­varn­araðgerðir sem nauðsyn­legt hef­ur verið að ráðast í vegna COVID-19 hafa haft mjög mik­il áhrif á vinnu­markaðinn. Heilu at­vinnu­grein­arn­ar eru lamaðar og ljóst er að fjöldi fyr­ir­tækja hef­ur eða mun lenda í mikl­um og jafn­vel óyf­ir­stíg­an­leg­um vanda.Við höf­um síðustu vik­ur unnið út frá því að um tíma­bundið ástand væri að ræða, eng­ar tekj­ur yrðu af ferðaþjón­ustu í skamm­an tíma en síðan færi að rofa til. Sem ráðherra vinnu­markaðsmá­la lagði ég höfuðáherslu á að bregðast hratt við og koma strax fram með frum­varp um hluta­at­vinnu­leys­is­bæt­ur þar sem hægt væri að minnka starfs­hlut­fall niður í allt að 25% og At­vinnu­leys­is­trygg­inga­sjóður greiddi at­vinnu­leys­is­bæt­ur á móti. Með þessu mynd­um við tryggja að ráðning­ar­sam­bandi fólks og fyr­ir­tækja yrði viðhaldið gegn­um þetta tíma­bundna óveður. Mark­miðið var að verja störf og fram­færslu fólks.

Nú eru um 33.000 ein­stak­ling­ar skráðir á um­rædd­ar hluta­at­vinnu­leys­is­bæt­ur og jafn­framt eru 15.000 ein­stak­ling­ar að fullu skráðir án at­vinnu. Staðan er því sú að um 25% af öll­um sem eru á vinnu­markaði eru skráð að fullu eða að hluta á at­vinnu­leys­is­bæt­ur. Þetta hef­ur í för með sér að út­greidd­ar at­vinnu­leys­is­bæt­ur munu lík­lega nálg­ast allt að 100 millj­arða á þessu ári og er það um 70 millj­örðum hærra en ráðgert var.

Hluta­at­vinnu­leys­is­bæt­ur höfðu skýrt mark­mið

Framund­an er að taka ákvörðun um hvaða úrræði taka við fyr­ir starfs­menn sem hafa verið á hluta­at­vinnu­leys­is­bót­um. Við þurf­um m.a. að leggja mat á hvort telja megi að það tíma­bundna ástand sem við vor­um að brúa með hluta­at­vinnu­leys­is­bót­un­um sé í raun að verða var­an­legt og ef svo er með hvaða hætti sé hægt að hlúa sem best að fólki og búa til ný störf.Í öll­um skref­um sem stig­in eru þá er það fyrst og síðast skylda okk­ar að aðgerðir í þess­um mál­um tryggi stöðu fólks­ins í land­inu, fram­færslu fjöl­skyldna og heim­ila þeirra. Við verðum að hafa hug­fast, þótt óvin­sælt kunni að reyn­ast, að stjórn­völd geta ekki bjargað öll­um fyr­ir­tækj­um gegn­um skafl­inn með fjár­fram­lög­um úr sam­eig­in­leg­um sjóðum lands­manna. Með þessu er ekki verið að tala gegn aðgerðum til að aðstoða fyr­ir­tæki held­ur verið að minna á þá staðreynd að ekki sé hægt að vænta stuðnings af hendi hins op­in­bera um­fram það sem tal­ist get­ur mik­il­vægt út frá al­manna­hags­mun­um.

Við eig­um sókn­ar­færi sem nú þarf að nýta

Stór­aukið at­vinnu­leysi kall­ar jafn­framt á að við stíg­um stærri skref í að nýta vannýtt sókn­ar­færi til efl­ing­ar á inn­lendri fram­leiðslu og auk­inni verðmæta­sköp­un í ís­lensku hag­kerfi. Þarna má t.d. nefna aðgerðir sem þarf að ráðast í til að efla land­búnað, einkum græn­met­is­rækt, auka mögu­leika ís­lenskr­ar kvik­mynda­gerðar, styrkja sókn­ar­færi í hug­vitsiðnaði o.fl. Oft og tíðum þarf ein­fald­ar kerf­is­breyt­ing­ar og/​eða fjár­veit­ing­ar til að hægt sé að sækja fram á þess­um sviðum og þær eig­um við að fram­kvæma núna.Við ætl­um ekki og mun­um ekki sem sam­fé­lag sætta okk­ur við at­vinnu­leysi líkt og það sem er nú um stund­ir. Und­ir ligg­ur öll sam­fé­lags­upp­bygg­ing okk­ar og vel­ferð þjóðar­inn­ar.

Ásmundur Einar Daðason, fé­lags- og barna­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. apríl 2020.

Categories
Greinar

Norðurlöndin þjappa sér saman

Deila grein

17/04/2020

Norðurlöndin þjappa sér saman

Við væntum þess öll, og vonum innilega, að bráðlega verði hið versta yfirstaðið í Covid-faraldrinum. Vissulega er brekkan brött, við stöndum í þeirri öfundsverðu stöðu að geta byrjað að létta af takmörkunum, eftir þrjár vikur, ef allt gengur að óskum. Allir eru að gera sitt besta. Við horfum á hvað þessi veira gerir því að hún er óvissuþátturinn. Og hvað gerir hún nú?

Mun hún leggjast í dvala eða koma upp aftur og aftur? Við vitum það ekki. Nú þegar smitum fer fækkandi þá þurfum við að huga hratt að því hvernig við getum komið Íslandi aftur í gang. Þess vegna þurfum við að vera viðbúin öllu og erum að vinna að efnahagsaðgerðum nr. 2.

Norðurlöndin hafa hvert um sig farið sínar leiðir í viðbrögðum en á flestan hátt erum við á sömu braut. Öll byggja Norðurlöndin aðgerðir í sóttvörnum á besta mati fagfólks og stefna Norðurlandanna til að styðja við fjölskyldur og atvinnulíf hefur verið fumlaus og skýr.

Norðurlöndin hafa líka átt náið samráð sín á milli. Þar búum við Íslendingar að því að hafa þar til um síðustu áramót verið í formennsku í Norrænu ráðherranefndinni þar sem ég leyfi mér að fullyrða að okkur hafi tekist að blása lífi og krafti í norrænt samstarf með áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. Norræna samstarfið heldur nú áfram en við gjörbreyttar aðstæður.

Eitt af því mikilvægasta framundan er að opna landamæri og koma samgöngum aftur í samt lag. Vöruflutningar hafa sem betur fer haldið áfram, öfugt við fólksflutninga. Ferðaþjónustan hefur nánast stöðvast. Við ætlum okkur að koma þessari grundvallaratvinnugrein aftur af stað og það mun krefjast útsjónarsemi og úthalds.

Margt bendir til þess að veröldin muni opnast í skrefum. Þá kann það að gerast að nærsvæðin – í okkar tilviki Norðurlöndin og vestnorræna svæðið – opnist fyrst. Kannski verður þróunin sú að ferðalög og viðskipti milli Norðurlandanna muni aukast umtalsvert á næstum misserum, því á milli okkar ríkir traust og samstaða. Þar skiptir samstarfið við Norðurlöndin miklu máli.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda.

Categories
Greinar

Íslenskur landbúnaður í breyttum heimi

Deila grein

16/04/2020

Íslenskur landbúnaður í breyttum heimi

Við lifum á einkennilegum tímum. Við sótthreinsum á okkur hendur og setjum á okkur hanska þegar við förum í kjörbúðina og ekki er ólíklegt að við rekumst á fólk með andlitsgrímur í verslunum og á förnum vegi. Við erum flest, ef ekki öll, orðin meðvitaðri um hvað við snertum, hvort heldur það er hurðarhúnar eða andlit okkar.

Okkur er ráðlagt af yfirvöldum að heilsa ekki með handabandi, kossum eða faðmlögum. Fyrir nokkrum vikum hefðum við litið á slíkt ástand sem kafla úr vísindaskáldsögu, jafnvel hryllingssögu. Þessi fjandans veira hefur mikil áhrif á daglegt líf okkar og mun eflaust hafa það um ókomna tíð.

Vísindi og lýðheilsa

Eitt af því sem ég tel að þessar einkennilegu vikur muni hafa áhrif á er viðhorf til matvæla. Norrænir fréttamiðlar hafa á síðustu dögum fjallað um að sýklalyfjaónæmi gæti verið einn þeirra þátta sem hafi áhrif á alvarlegar afleiðingar Covid-19. Ekki er nema rúmt ár síðan Framsókn stóð fyrir fjölsóttum fundi um sýklalyfjaónæmi þar sem amerískur prófessor, Lance Price, lofaði íslenska matvælaframleiðslu fyrir ábyrgð og framsýni hvað varðar notkun sýklalyfja í framleiðslu sinni. Á þessum fundi var einnig framsögumaður Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir, sem hefur verið einn helsti baráttumaðurinn í því að vekja athygli á þeim ógnum sem fylgja óheftri notkun sýklalyfja í landbúnaði. Við sjáum honum bregða fyrir í fréttum þessa dagana þar sem hann berst við kórónuveiruna ásamt frábæru íslensku heilbrigðisstarfsfólki.

Það var á grunni vísinda og lýðheilsu sem Framsókn barðist fyrir því að íslensk stjórnvöld lýstu því yfir að Ísland yrði fyrsta landið í heiminum til að banna sölu og dreifingu á matvælum með sýklalyfjaónæmum bakteríum. Þar stigum við mikilvægt skref sem á síðustu vikum sýnir mikilvægi sitt enn frekar.

Hráa kjötið

Innflutningur á hráu kjöti til landsins hefur verið mikið hitamál enda mikið undir fyrir bændur en þó einn meira fyrir íslenska neytendur sem eru vanir því að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að það sem þeir kaupa í verslunum, hvort heldur það er í kjötborði eða grænmetisdeild, sé ekki örugg fæða. Ástæðan fyrir því að opna varð á innflutning er sú að árið 2004 gerðu íslensk stjórnvöld ekki kröfu um bann við innflutning á hráu kjöti, heldur aðeins lifandi dýrum og erfðaefni. Það er þó ljóst að atburðir síðustu vikna hljóta að breyta stöðunni. Þjóðir Evrópu hafa tekið ákvarðanir sem eflaust eiga eftir að hafa gríðarleg áhrif á samvinnuna innan Evrópu. Þar sannast hið fornkveðna: Það er ekkert til sem heitir vinátta þjóða, aðeins hagsmunir.

Sáttmáli um fæðuöryggi

Velta má því fyrir sér hvort komið sé að gerð sáttmála milli matvælaframleiðenda, neytenda,  verslunarinnar og ríkisvaldsins þar sem fæðuöryggi þjóðarinnar yrði tryggt. Sáttmála um að umhverfi matvælaframleiðslunnar verði tryggt. Þjóðin treystir á innlendan mat, það sannast núna á þessum erfiðu tímum. Við verðum sem þjóð, sér í lagi vegna landfræðilegrar staðsetningar okkar að tryggja það að matvælaframleiðsla standi sterkum fótum og víkka út þá geira sem fyrir eru á jötunni. Þá liggur fyrst og beinast við að koma til móts við grænmetisbændur varðandi flutningsverð á raforku. Um það hefur verið rætt og á ég von á að það verði hægt innan skamms.

Ábyrg framleiðsla

Hætt er við því að sú efnahagsdýfa sem hafin er og tímabundin fækkun ferðamanna á Íslandi mun hafa einhver áhrif á íslenska bændur og allt það fólk sem starfar í matvælageiranum. Framtíðin er þó björt sé rétt haldið á spilum. Sá grunnur sem íslenskur landbúnaður stendur á með sinni hreinu matvælaframleiðslu er lýðheilsulegur fjársjóður fyrir íslensku þjóðina. Vörur úr þeim jarðvegi geta einnig orðið eftirsóttar fyrir íbúa annarra þjóða nú þegar allir gera sér grein fyrir því hvað óábyrg framleiðsla og óábyrg meðhöndlun matvæla getur haft alvarleg áhrif á heilsu og hag fólks um allan heim.

Ég efast ekki eina mínútu um að við komumst í gegnum þetta ef við stöndum saman. Við mætum þessum vanda af yfirvegun og æðruleysi eins og stórhríðunum sem við þekkjum vel. Öll él birtir um síðir. Það kemur vor og það kemur sól og daginn lengir. Við höfum áður tekist á við erfiðleika og staðið sterkari eftir. Við getum gert það aftur.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrist í Bændablaðinu 15. apríl 2020.

Categories
Fréttir

„Við þurfum að halda samstöðunni“

Deila grein

15/04/2020

„Við þurfum að halda samstöðunni“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, sagði m.a. í ræðu sinni á Alþingi í gær í umræðu um áhrif Covid-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda, að við værum „að horfa á efnahagsaðgerðir nr. 2, sem við getum vonandi unnið í lok þessarar viku eða í byrjun næstu viku. Þar munum við án efa halda áfram að horfa á einhvers konar vernd samfélagsins og á félagslegar áherslur, til að mynda tengsl náms og námsmanna við störf og frekara nám, koma fleira fólki til starfa. Við munum horfa án efa á varnir, leita allra leiða til að tryggja lausafé og rekstur fyrirtækja. Hér hafa verið nefnd í dag litlu fyrirtækin sem var lokað af völdum sóttvarna. Auðvitað þurfum við að skoða stöðu þeirra. Það liggur í augum uppi. Þau voru að verja samfélagið og það er eðlilegt að samfélagið verji þau.“

„Ríkisstjórnin og landbúnaðarráðherra eru einfaldlega þessa dagana að vinna að samningum við garðyrkjubændur. Þar hlýtur að verða horft í lækkun á dreifikostnaði raforku, eins og við höfum oft talað um, og viðhalda þeim stuðningi eins háum og hægt er. Það hljóta að koma til álita einhvers konar landgreiðslur til að hvetja til útiræktunar á grænmeti sem við höfum séð að hefur hrapað í hlutfalli miðað við innflutning á síðustu árum.“
„Ef við meinum eitthvað með því að auka innlenda matvælaframleiðslu á þessum tíma þá hljótum við að skoða, og það hefur verið til skoðunar í landbúnaðarráðuneytinu, tollana, tollverndina. Tollar eru jú notaðir til að vega upp kostnað, mismunandi stofnkostnað, rekstrarkostnað við framleiðslu. Það er hugsunin á bak við tolla. Við höfum látið það óáreitt í mjög langan tíma. Ef við meinum eitthvað með því að við ætlum að auka innlenda framleiðslu er það nokkuð augljós leið að skoða það líka, myndi ég telja.“
„Við þurfum að horfa á sjávarútveginn. Við þurfum að horfa á það sem hefur verið okkar stærsta tækifæri, ekki síst í útflutningi, að auka virði sjávarútvegs. Það getur komið inn átak á heimsvísu í að selja ímynd okkar, vöru og gæði. Sjávarútvegurinn sjálfur hefur getað staðið undir því en vegna þess að aðrir auðlindageirar eru að gefa mjög mikið eftir á þessu ári gætum við þurft að velta því fyrir okkur hvort við ættum að nota þá frábæru stöðu sem við erum búin að skapa með því að byggja upp sterka stofna að veiða einfaldlega meira í eitt skipti í því skyni að búa til tekjur fyrir samfélagið. Það er eitt af því sem mér finnst að við ættum alla vega að velta vöngum yfir.“
„Það er augljóst að við þurfum að viðurkenna það að aðgerðirnar sem við erum að velta fyrir okkur núna munu án efa ekki duga. Ef veiran hagar sér með versta hætti getur vel verið að við þurfum að grípa inn á næstu mánuðum og jafnvel lengra inn í framtíðina. Við vitum það einfaldlega ekki. Við þurfum bara á hverjum tíma að grípa til þeirra aðgerða sem við teljum skynsamlegastar.“

„Mín lokaorð er einfaldlega þessi: Við þurfum að halda samstöðunni. Við náum sigri, samfélagið allt, við munum ná því að lokum en fögnum ekki sigri of fljótt. Á næstu vikum og mánuðum gætum við þurft að velta vöngum yfir því hvernig við ætlum að ná sem sterkastri viðspyrnu og þar er augljóst að innlend framleiðsla mun skipta mjög miklu máli,“ sagði Sigurður Ingi.

Categories
Greinar

Innlend matvæli aldrei mikilvægari

Deila grein

15/04/2020

Innlend matvæli aldrei mikilvægari

Ísland er land náttúruauðlinda, hreinleika og heilbrigðis, fegurðar og gróðursældar. Ísland er gjöfult land sem getur í senn laðað fram allt það besta hjá okkur sem byggjum það og samtímis boðið gestum sínum nær endalausar upplifanir í náttúru sinni og hreinleika matvælanna, vatnsins og loftsins. Þess vegna eigum við að örva áhuga ungs fólks á verðmætum landsins og hvetja til menntunar og starfa á þeim vettvangi.

Mikilvægi sjálfbærar matvælaframleiðslu

Veröldin er að breytast vegna COVID-19 faraldursins sem fært hefur hörmungar yfir mörg samfélög. Þjóðir slá nú skjaldborg um heilbrigði sinna þegna og flest verja með öllum ráðum þá sem minnst mega sín.

Samfélagslegur kostnaður þjóða vegna farsóttarinnar er fordæmalaus og sum staðar þarfnast sjálf samfélagsgerðin endurskoðunar. Víða eru matvælaöryggimál ofarlega á baugi og þar er Ísland ekki undanskilið. Hér er matvælaöryggi eitt þeirra mála sem margir telja sjálfsagt, án þess þó að hafa leitt hugann mikið að því eða lagst á árarnar. Þannig er það með fleiri samfélagsmál, sem vert er að halda á lofti og berjast fyrir í blíðu og stríðu. Það á við um tjáningarfrelsið í lýðræðisríkinu, þéttriðið öryggisnet velferðarsamfélagsins og samstöðu þjóðarinnar.

Margir ganga að íslenskum landbúnaði sem vísum og þiggja einstakar afurðirnar án sérstakrar umhugsunar. Hreinar afurðir, náttúrulegar og án sýklalyfja að telja má miðað við samanburðarlöndin. Ýmsir hafa leynt og ljóst haft horn í síðu greinarinnar og jafnvel gert slíkan málflutning að atvinnu sinni í ræðu og riti, án þess að hafa endilega áttað sig á mikilvægi matvælaöryggis þjóða.  Allt í einu hefur það ljós runnið upp fyrir okkur, að sjálfbærni í matvælaframleiðslu þjóðarinnar sé gulls ígildi. Í alþjóðasamskiptum að undanförnu hefur bersýnilega komið í ljós, að hver þjóð er sjálfri sér næst þegar eitthvað bjátar á. Enda þótt veruleikinn hafi að undanförnu snúist um spritt, andlitsgrímur og lækningatæki má gera ráð fyrir því að sömu lögmál muni gilda ef alvarlegur matvælaskortur gerir vart við sig í heiminum. Við getum ekki gengið að því sem vísu að tekið yrði tillit til Íslands í slíkri stöðu. Þetta er síður en svo nýr veruleiki, en hann hefur verið mörgum hulinn á undanförnum árum. Þess vegna er fjöregg þjóðarinnar fólgið í sjálfbærum búskaparháttum til sjávar og sveita. Þar liggja grunnstoðir verðmætasköpunar okkar og um leið er varðveisla þeirra eitt brýnasta samstarfsverkefni allrar þjóðarinnar. Ísland hefur fjárfest í heilnæmum landbúnaði og það er fjárfesting sem mun skila sér til framtíðar. Matvælaöryggi verður raunverulega til skoðunar í aðstæðum sem þessum þegar hið alþjóðlega markaðshagkerfi riðlast, ekki eingöngu þegar allir markaðir eru opnir og aðgangur greiður. Þess vegna þarf að hlúa að landbúnaði við allar aðstæður, en ekki eingöngu þegar við erfiðleika er að etja.

Stefna Framsóknarflokksins í landbúnaðarmálum og nýsköpun

Framsóknarflokkurinn hefur staðið þétt við bak íslensks landbúnaðar í blíðu og stríðu. Ekkert hefur haggað þeirri grundvallarsýn flokksins að sveitir landsins geymi einn okkar dýrmætasta menningararf og án blómlegrar byggðar um allt land væri samfélagið ekki sjálfbært. Sú skoðun hefur staðið af sér pólitíska vinda og tíðarandann og hin órofa varðstaða um matvælaframleiðslu er og verður eitt af okkar aðalsmerkjum.

Landbúnaðurinn er lyftistöng fyrir samfélagið. Án hans væri hér lítil sem engin matvælaframleiðsla. Án hans væri ekkert íslenskt kjöt, engin íslensk mjólk, ekkert íslenskt grænmeti. Farsælasta leiðin til að styðja við hann er að efla nýsköpun. Gott dæmi um augljósa arðsemi slíks þróunarstarfs eru nýtilkomin tækifæri til nýtingar á mysu sem fellur til við ostaframleiðslu. Til skamms tíma var tugmilljónum lítra af ostamysu hleypt til sjávar með öllum sínum próteinum og mjólkursykri, en nú eru unnin hundruð tonna af þurrkuðu hágæðapróteini úr henni. Lífræn ræktun hefur skapað nýja markaði og með framsækinni matvæla- og vöruþróun úr landbúnaðarafurðum verður stærri hluti virðiskeðjunnar eftir í sveitum. Við erum í kjöraðstæðum til að efla ræktun á íslensku grænmeti og eigum að nýta orku landsins til þess. Við eigum í auknu mæli að líta gagnrýnið á samkeppnishæfni þjóðarbúsins og sjá hvar við eigum að stíga fastar niður fæti. Við eigum að hlúa að og rækta alla slíka sprota, efla nýsköpun og tryggja hámarksnýtingu á landsins gæðum. Þegar litið er til landfræðilegrar legu landsins, fámennis, strjálbýlis, veðurfars og fleira er morgunljóst að nauðsynlegt er að gera mun betur til þess að styðja viðsjálfstæði í matvælaframleiðslu og fjárfesta um leið í öllum þeim beinu og óbeinu verðmætum sem fólgin eru í landvörslu íslenskra bænda. Það er brýnt að landið sé nýtt og eignarhald á jörðum taki mið af þörfum samfélagsins, en ekki einkahagsmunum.

Við eigum að hugsa heildrænt um íslenskan landbúnað og styðja hann með ráðum og dáð í víðfeðmu hlutverki sínu til nýrrar sóknar. Við eigum að auka áhuga ungs fólks á landbúnaði, efla menntun, vísindi, rannsóknir og þróun landbúnaðarins. Bæta þarf rekstrarumhverfi bænda og auðvelda ungu fólki aðgengi að bújörðum og nýsköpun í landbúnaði. Framsóknarflokkurinn mun ekki láta okkar eftir liggja í þeim efnum.

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 15. apríl 2020.

Categories
Greinar

Það styttir alltaf upp og lygnir

Deila grein

14/04/2020

Það styttir alltaf upp og lygnir

Alþjóðleg­ur dag­ur lista er í dag. Víða um ver­öld hef­ur menn­ing­in gert það sem hún ger­ir best á erfiðum tím­um; veitt hugg­un, afþrey­ingu og inn­blást­ur. Íslend­ing­ar eru list­hneigðir og menn­ing­ar­neysla hér á landi er meiri en víðast ann­ars staðar. Í ferðalög­um okk­ar inn­an­húss höf­um við nýtt tím­ann til að lesa góðar bæk­ur, horfa á kvik­mynd­ir og þátt­araðir og njóta tón­list­ar. Skoða má heilu mynd­list­ar- og hönn­un­ar­sýn­ing­arn­ar gegn­um streym­isveit­ur og fjöl­miðla.

Ekk­ert af þessu er þó sjálfsagt. Menn­ing­ar­líf verður að rækta og viðhalda. Nú­ver­andi aðstæður hafa til dæm­is komið illa við tón­list­ar­menn og sviðslista­fólk sem hef­ur orðið fyr­ir miklu tekjutapi vegna viðburða, sýn­inga og tón­leika sem fallið hafa niður. Í könn­un sem Banda­lag ís­lenskra lista­manna (BÍL) gerði meðal fé­lags­manna sinna sögðust um 70% sjálf­stætt starf­andi lista­manna hafa orðið at­vinnu- og verk­efna­laus­ir vegna COVID-19. BÍL spá­ir því að á þrem­ur mánuðum muni þetta eiga við um 90% þeirra.

Vegna mik­il­væg­is menn­ing­ar hef­ur rík­is­stjórn­in ákveðið að veita strax viðspyrnu og verður yfir hálf­um millj­arði í fyrsta aðgerðapakk­an­um varið til menn­ing­ar, lista og skap­andi greina. Þessu fjár­magni er ætlað að brúa bilið fyr­ir lista­fólkið okk­ar þar til hjól sam­fé­lags og at­vinnu­lífs fara að snú­ast á nýj­an leik. Með aðstoð miðstöðva lista og skap­andi greina fer fjár­magnið í gegn­um sjóði og fag­stjórn­ir þeirra sem taka munu við um­sókn­um og út­hluta styrkj­um strax í maí. Þá fer hluti fjár­magns­ins til mik­il­vægra verk­efna sem snú­ast um menn­ing­ar­minj­ar og að gera menn­ing­ar­arf okk­ar aðgengi­legri.

Afrakst­ur þess­ar­ar fjár­fest­ing­ar er óum­deild­ur. Menn­ing og list­ir eru auðlind sem skil­ar efna­hags­leg­um gæðum til sam­fé­lags­ins í formi at­vinnu, fram­leiðslu á vöru og þjón­ustu til neyslu inn­an­lands og út­flutn­ings. Við þurf­um ekki annað en að horfa til þeirra landa sem fremst eru, þar sem rann­sókn­ir sýna að skap­andi at­vinnu­grein­ar eru ekki ein­ung­is hratt vax­andi burðargrein­ar, held­ur eru þær sveigj­an­legri, vaxa hraðar en aðrar at­vinnu­grein­ar, skapa aukið virði inn­an annarra at­vinnu­greina og eru oft ná­tengd­ar því sem helst virðist horfa til framtíðar. Þessi lönd hafa með ýms­um hætti reynt að greiða leið frum­kvöðla og fyr­ir­tækja á sviði skap­andi greina með hvetj­andi aðgerðum.

Nú er rétti tím­inn til að sækja fram. Menn­ing­in verður efld og við reiðum okk­ur á skap­andi grein­ar til framtíðar. Ljóst er að þar er einn okk­ar mesti auður og vilj­um við rækta hann áfram. Þrátt fyr­ir mikla ágjöf vegna far­sótt­ar­inn­ar, þá mun­um við kom­ast í gegn­um þetta eða eins og fram kem­ur í texta Jóns R. Jóns­son­ar: „Það hvess­ir, það rign­ir en það stytt­ir alltaf upp og lygn­ir.“

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. apríl 2020.

Categories
Greinar

Markviss viðbrögð vegna COVID-19-faraldurs

Deila grein

13/04/2020

Markviss viðbrögð vegna COVID-19-faraldurs

Síðustu vik­ur hafa svo sann­ar­lega verið for­dæma­laus­ar vegna COVID-19-far­ald­urs­ins sem hef­ur haft áhrif á okk­ur öll. Ég vil hér stikla á stóru yfir þær aðgerðir sem gripið hef­ur verið til í fé­lags­málaráðuneyt­inu vegna far­ald­urs­ins.Rétt­ur til greiðslu hluta­at­vinnu­leys­is­bóta hef­ur verið rýmkaður en launþegar, sjálf­stætt starf­andi og náms­menn geta nýtt úrræðið. Starfs­hlut­fall launþega get­ur minnkað niður í 25% og eru tekju­tengd­ar at­vinnu­leys­is­bæt­ur greidd­ar á móti í réttu hlut­falli. Þá hef ég, auk mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra, stofnað sam­hæf­ing­ar­hóp til að skoða stöðu at­vinnu­leit­enda og náms­manna við þær aðstæður sem nú eru uppi. Þeir sem ekki fá laun frá vinnu­veit­anda meðan sótt­kví var­ir og geta ekki unnið að heim­an fá greiðslur úr rík­is­sjóði.

Ég lagði fram frum­varp, unnið í sam­starfi við heil­brigðisráðuneytið, ut­an­rík­is­ráðuneytið og Vinnu­eft­ir­lit rík­is­ins, um tíma­bundna und­anþágu frá kröfu um CE-merk­ingu á slíkri vöru vegna fyr­ir­sjá­an­legs skorts. Ekki er þó slegið af ör­ygg­is- og heil­brigðis­kröf­um.

Fé­lags- og vel­ferðarþjón­usta

Ég, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra og Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga boðuðum til víðtæks sam­starfs rík­is, sveit­ar­fé­laga og hags­munaaðila um land allt til að tryggja áfram­hald nauðsyn­legr­ar þjón­ustu. Með al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra var stofnað viðbragðsteymi um þjón­ustu við viðkvæma hópa sem vinn­ur í ná­inni sam­vinnu við fjölda aðila. Teymið hef­ur m.a. komið því til leiðar að vef­ur­inn covid.is hef­ur verið þýdd­ur á fjölda tungu­mála sem og að ýms­ar upp­lýs­ing­ar á vefn­um hafa verið gerðar aðgengi­legri fólki með fatlan­ir.Mönn­un nauðsyn­legr­ar starf­semi get­ur orðið flók­in vegna far­ald­urs­ins, t.d. á hjúkr­un­ar­heim­il­um og þjón­ustu við fatlað fólk. Var því sett á fót bakv­arðasveit í vel­ferðarþjón­ustu þar sem fólki gefst kost­ur á að skrá sig. Skráðir nú eru rúm­lega 1.300 ein­stak­ling­ar.

Hjálp­arsím­inn 1717 og vef­ur­inn 1717.is eru nú opin all­an sól­ar­hring­inn og þar starfa þjálfaðir sjálf­boðaliðar sem veita stuðning og geta all­ir haft sam­band þangað. Auk þess er hjálp­arsím­inn nú tengd­ur við sér­hæfðari aðila sem hægt er að vísa fólki áfram til.

Auk­in hætta á of­beldi inni á heim­il­um

Ég vil einnig minna á að við erum öll barna­vernd. Fé­lags­málaráðuneytið, í sam­starfi við dóms­málaráðuneytið og Rauða kross Íslands, hef­ur dreift mynd­bönd­um á helstu sam­fé­lags­miðlum til vit­und­ar­vakn­ing­ar um aðstæður barna. Okk­ur ber öll­um skylda til að til­kynna gegn­um 112 höf­um við ástæðu til að ætla að aðstæður barna séu ófull­nægj­andi.Þá má m.a. bæta við að bænd­um sem veikj­ast af COVID-19 hef­ur verið gert kleift að ráða til sín af­leys­ing­ar. Neyðar­mót­tök­um fyr­ir tíma­bundið heim­il­is­lausa hef­ur verið komið upp í Reykja­vík. Góð ráð til for­eldra hafa verið gef­in út og ég hef veitt 55 millj­ón­ir króna til frjálsra fé­laga­sam­taka vegna auk­ins álags. Vegna ferðatak­mark­ana um gjörv­all­an heim hafa regl­ur um aðstoð við Íslend­inga er­lend­is verið út­víkkaðar tölu­vert meðan ástandið var­ir og reynt að aðstoða sem flesta við að kom­ast heim.

Næstu vik­ur verða krefj­andi fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag en sam­an klár­um við verk­efnið. Gleðilega páska!

Ásmundur Einar Daðason, fé­lags- og barna­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. apríl 2020.

Categories
Fréttir

Gleðilega páska

Deila grein

12/04/2020

Gleðilega páska

Kæru félagar!

Við upplifum nú páska sem munu lifa í minningum okkar sem einkennilegustu páskar sem við höfum lifað. Páskarnir þar sem yfirvöld biðluðu til okkar að halda okkur heima við, fara ekki í bústað, halda ekki boð fyrir fjölskyldu og vini. Þetta eru erfiðir tímar, það verður ekki annað sagt, erfiðir vegna þess að við óttumst mörg um heilsu okkar nánustu, erfiðir vegna þess að óvissan er þungbær um hvernig næstu vikur verða. Það er þó þannig að tíminn líður og við verðum að takast á við þau verkefni sem mæta okkur á hverjum degi, hversu erfið sem þau kunna að virðast, af æðruleysi og dugnaði. Tíminn líður og við þreifum okkur í gegnum stórhríðina af því við vitum að öll él birtir um síðir. Það er einfaldlega ekki í boði að bíða með hendur í skauti, heldur verðum við að sinna okkar störfum af krafti, hver sem þau eru, og búa í haginn fyrir framtíðina. Og þegar hríðinni slotar verður allt gott aftur og þau störf sem við höfum unnið verða okkur mikilvæg viðspyrna.

Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með okkar sterka og færa heilbrigðisstarfsfólki sem hefur staðið vaktina í baráttunni við veiruna. Það sýnir okkur sem ekki verður um villst að heilbrigðiskerfið sem Íslendingar hafa byggt upp á síðustu áratugum er sterkt og byggir á framúrskarandi menntun hjúkrunarfólksins okkar.

Veturinn hefur verið okkur erfiður. Veður hafa verið válynd. Við höfum fundið fyrir smæð okkar andspænis náttúrunni. Og finnum enn frekar fyrir smæðinni þegar við stöndum frammi fyrir heimsfaraldri og afleiðingum hans, bæði heilsufarsvánni og efnahagslegum afleiðingum hennar um allan heim. En um leið og við finnum fyrir smæð okkar sem einstaklinga höfum við fundið fyrir styrk okkar sem samfélags. Það er enginn einn sem mun leiða okkur í gegnum þessa tímabundnu erfiðleika heldur munum við komast í gegnum þá saman sem samfélag.

Það fyllir mig stolti að sjá hvernig fólk hefur almennt brugðist við erfiðum aðstæðum. Fólk hefur boðið sig fram í bakvarðasveitir heilbrigðiskerfisins og velferðarþjónustunnar. Við sjáum að umhyggja fólks fyrir sínum nánustu finnur sér nýjar leiðir með hjálp tækninnar. Við sjáum hversu mikilvæg menningin er fyrir samfélagið og hvað það sem gæti virst einfalt og smátt atriði eins og heimatónleikar Helga Björnssonar færir okkur mikla gleði og samkennd.

Ég er stoltur af þeirri ríkisstjórn sem við í Framsókn erum hluti af. Sú pólitíska breidd sem stjórnin hefur er mikilvæg fyrir þjóðina á erfiðum tímum. Samanlagt endurspegla þeir flokkar sem sitja í stjórninni viðhorf mikils meirihluta Íslendinga. Það er mikilvægt að þær ólíku raddir sem flokkarnir þrír hafa heyrist þegar við mætum þeim verkefnum sem veiran hefur sett í hendur okkar.

Þetta eru fordæmalausir tímar en kerfið sem við Íslendingar höfum byggt upp til að hlúa að þeim veikari í samfélaginu er sterkt. Heilbrigðiskerfið hlúir að þeim sjúku, velferðarkerfið grípur þá sem missa atvinnuna tímabundið og menntakerfið skapar þekkingu og tækifæri framtíðarinnar. Þessi kerfi eru sköpuð af þjóðinni fyrir þjóðina – þjóðina alla. Það er síðan stóra verkefnið okkar í forystu þjóðarinnar að koma með framtíðarsýn og lausnir sem gera okkur kleift að rísa hratt og örugglega upp sem samfélag. Það er engin einföld lausn. Ríkisstjórnin hefur það vandasama hlutverk að flétta saman ólíka þræði til að mynda eina sterka línu til að verja lífsgæði fjölskyldnanna í landinu til skemmri tíma og veita öfluga viðspyrnu fyrir frekari sókn og verðmætasköpun til lengri tíma. Sú sterka lína verður ekki kynnt á einum viðburði, einum blaðamannafundi, heldur verður fléttuð áfram eftir því sem tíminn líður og staðan skýrist.

Samstaða og samvinna eru mikilvægir þættir til að bregðast við óvissu. Samstaða og samvinna eru mótefni við kvíða sem getur haft lamandi áhrif á okkur sem einstaklinga. Við vitum ekki gjörla hvað það tekur langan tíma að ráða niðurlögum veirunnar en við vitum að við erum á réttri leið í þeirri baráttu. Við vitum líka að þegar sést til sólar verðum við sem samfélag tilbúið til að halda áfram þeirri lífsgæðasókn sem er okkur eðlislæg.

Við erum sterkt samfélag. Við höfum áður gengið í gegnum erfiðleika og sigrast á þeim.

Og nú finnum við fyrir vorinu þegar við göngum út í bjartan daginn og heyrum fuglasönginn. Gleðilega páska.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.