Categories
Greinar

Tíminn til að lesa meira

Deila grein

30/04/2020

Tíminn til að lesa meira

Bók­mennta­arfur Ís­lendinga sprettur úr frjóum jarð­vegi ís­lenskrar sögu og menningar. Um aldir hafa Ís­lendingar haft ríka þörf fyrir að segja, lesa og hlusta á sögur. Þá þörf höfum við enn, líkt og blóm­leg bóka­út­gáfa og glæsi­leg stétt rit­höfunda er til marks um. Grunnurinn að þessari sagna­hefð var lagður fyrir nærri þúsund árum, þegar stór­menni á borð við Snorra Sturlu­son unnu stór­kost­leg menningar­af­rek með skrifum sínum. Bók­menning þjóðarinnar hefur haldið á­fram að þróast í gegnum tíðina og laga sig að breyttum heimi.

Á síðasta ári tóku gildi lög um stuðning við út­gáfu bóka á ís­lensku. Við sjáum strax árangurinn af þessari lög­gjöf, þar sem met voru slegin í út­gáfu ís­lenskra skáld­verka og út­gefnum barna­bókum fjölgaði um 47% milli ára. Ís­lendingar standa því undir nafni, sem sagnaog bóka­þjóð. Það hefur sýnt sig í yfir­standandi sam­komu­banni, sem þjóðin hefur nýtt til að lesa sér til gagns og gamans. Margir hafa skráð lesturinn á vef á­taks­verk­efnisins Tími til að lesa, þar sem rúm­lega 8 milljónir lesmínútna hafa verið skráðar í apríl.

Á mið­nætti lýkur á­takinu og ég þakka öllum sem tóku þátt. Þátt­tak­endur í þessu þjóðar­á­taki eru á öllum aldri. Þannig hafa þeir lesið mest sem eru 60 ára og eldri, en fast á hæla þeim komu 10 til 12 ára börn sem hafa skráð rúm­lega milljón lesmínútur í mánuðinum.

Orða­forði og les­skilningur eykst með auknum lestri og því er ó­metan­legt fyrir börn að lesa, taka glósur og spyrja út í orð sem þau þekkja ekki. Orða­forði barna skiptir miklu máli fyrir vel­líðan og árangur í skóla og býr þau undir virka þátt­töku í sam­fé­laginu. Með aukinni menntun eykst sam­keppnis­hæfni þjóðarinnar og geta hennar til að standa undir eigin vel­ferð. Það er lykil­at­riði að styrkja mennta­kerfið okkar til fram­tíðar. Með lestrinum ræktum við menningar­arfinn okkar og því meira sem við lesum, því betra! Til hamingju með árangurinn, kæra bóka­þjóð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. apríl 2020.

Categories
Fréttir

Framhald varna, verndar og viðspyrnu tryggð

Deila grein

29/04/2020

Framhald varna, verndar og viðspyrnu tryggð

Ríkisstjórnin hefur kynnt framhald hlutastarfaleiðar og aukinn stuðningur við fyrirtæki sem orðið hafa fyrir umfangsmiklu tekjutapi og koma þannig í veg fyrir fjöldagjaldþrot. Fyrirtækjum verður gefinn kostur á að sækja um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti til að tryggja réttindi launafólks.
Hlutastarfaleiðin verður framlengd til hausts með breytingum og settar verða einfaldari reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja sem miða að því þau geti komist í skjól með einföldum hætti.
Ríkisstjórnin hefur samþykkt þrjár tillögur um stuðning við launafólk og fyrirtæki. Markmið þeirra er að  draga úr þeim skaða sem umfangsmiklar uppsagnir og fjöldagjaldþrot valda þannig að staðinn verði vörður um réttindi launafólks á sama tíma og stuðlað verði að kröftugri viðspyrnu efnahagslífsins.

 • Hlutastarfaleið verður framlengd en hefði að óbreyttu fallið úr gildi þann 1. júní nk. Afkoma tugþúsunda launafólks hefur verið varin frá því að leiðin tók gildi en ljóst er að efnahagshorfur hafa breyst umtalsvert á þeim rúma mánuði sem liðinn er frá gildistöku hennar. Hlutastarfaleiðin verður því framlengd án breytinga með 25% lágmarksstarfshlutfalli út júní en lágmarkið hækkar í 50% í júlí. Leiðin verður í boði til 31. ágúst. Sækja þarf um framlengingu leiðarinnar og skilyrði fyrir þátttöku verða endurskoðuð.
 • Settar verða tímabundið einfaldari reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Byggt verður á núgildandi grunnreglum en breytingar miða að því að fyrirtæki geti komist í skjól á einfaldan hátt á meðan verið er að meta stöðu þeirra og uns meiri vissa fæst um framtíðarhorfur. Breytingar lúta m.a. að skilyrðum fjárhagslegrar endurskipulagningar, beiðni og umfjöllun um hana, tímafrestur, heimildum til ráðstafana og riftunar- og vanefndaheimildum viðsemjenda.
 • Í því skyni að tryggja réttindi launafólks og forða gjaldþrotum eins og kostur er verður fyrirtækjum gefinn kostur á að sækja um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Stuðningurinn verður í formi greiðslu að hámarki 633 þús. kr. á mánuði í allt að þrjá mánuði auk orlofs og einskorðast við fyrirtæki sem orðið hafa fyrir að lágmarki 75% tekjufalli og sjá fram á áframhaldandi tekjufall að minnsta kosti út þetta ár. Áætlað er að um fjórðungur fyrirtækja hafi orðið fyrir slíku tekjutapi. Hámarkshlutfall stuðnings ríkisins verður 85%. Starfsmenn skulu eiga forgang til starfs þegar starfsemi hefst að nýju og halda tilteknum áunnum réttindum. Sett verði nánari skilyrði, til að mynda um rekstrarhæfi fyrirtækis, fyrir aðild að þessu úrræði og um endurkröfurétt. Leiðin er í boði frá 1. maí til 30. september.

Unnið er að frumvörpum um tillögurnar í félagsmála-, fjármála- og efnahags- og dómsmálaráðuneyti. Samráð verður haft við aðila vinnumarkaðarins um endanlegar útfærslu.
Ríkisstjórnin hefur áður kynnt á að sérstök áhersla sé lögð á uppbyggingu með nýsköpun í aðgerðaáætlun stjórnvalda. Lögð hafa verið til aukin framlög til fjárfestingar í sprotafyrirtækjum og hækkun endurgreiðsluhlutfalls og fjárhæðarþaks til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar, en áhrif þessara aðgerða er talið nema tæpum 4,5 milljörðum króna. Stefnt sé að því að flýta endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar fyrir árið 2019. Auk þess verður sótt verði fram í matvælaframleiðslu, meðal annars með nýsköpun og markaðssetningu. Þá verði framlög til listamannalauna aukin þannig að úthluta megi rúmlega 600 verkefnamánuðum til viðbótar á árinu 2020.

Félagsleg úrræði með stuðningi við viðkvæma hópa, atvinnuleitendur og námsmenn vega þungt í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar. Verður 2,2 milljörðum króna varið til að skapa 3000 tímabundin störf í sumar fyrir námsmenn 18 ára og eldri og 300 m.kr. til að efla nýsköpun meðal ungra frumkvöðla gegnum Nýsköpunarsjóð námsmanna. Auk þess verður 800 m.kr. veitt til að bjóða sumarönn í framhalds- og háskólum sem nýtist bæði nemendum og fólki á atvinnuleysis- eða hlutabótum. Einnig verður ráðist í aðgerðir til að hlúa að viðkvæmum hópum, vinna gegn ofbeldi og félagslegri einangrun aldraðra og öryrkja, styðja við virkni atvinnuleitenda og tryggja tækifæri barna úr tekjulágum fjölskyldum til að taka þátt í frístundastarfi. Hugað verður sérstaklega að því að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og fjarheilbrigðisþjónusta verður efld. Alls verður um 8,5 ma.kr. varið til félagslegra aðgerða í þessum áfanga.

Veittir verða lokunarstyrkir til fyrirtækja sem var gert að hætta starfsemi vegna sóttvarna, allt að 2,4 m.kr. Lítil og meðalstór fyrirtæki í rekstrarörðugleikum geta sótt um allt að 6 m.kr. óverðtryggð stuðningslán á sömu vöxtum og sjö daga bundin innlán lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands, sem nú eru 1,75%. Ljóst er að stór hluti fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustu mun geta nýtt leiðina þar sem hlutfall lítilla og meðalstórra fyrirtækja er töluvert meira í ferðaþjónustu en öðrum greinum. Áætluð heildarútgjöld vegna þessara tveggja aðgerða eru talin geta numið rúmlega 30 milljörðum króna. Einnig verður fyrirtækjum heimilt að jafna vegna tekjuskatts allt að 20 m.kr. af fyrirsjáanlegu tapi ársins 2020 á móti hagnaði ársins 2019.

Categories
Greinar

Vísindakapphlaupið 2020

Deila grein

27/04/2020

Vísindakapphlaupið 2020

Tækni­fram­far­ir og vís­inda­upp­götv­an­ir eru stærsta hreyfiafl sam­fé­laga. End­ur­bætt gufu­vél hins skoska James Watts lagði grunn­inn að vél­væðingu iðnbylt­ing­ar­inn­ar, upp­götv­un raf­magns­ins breytti meiru en orð fá lýst, upp­götv­un bakt­ería og löngu síðar sýkla­lyfja bylti lík­ast til meiru í mann­kyns­sög­unni en all­ar hefðbundn­ar bylt­ing­ar sam­an­lagt!

Enn og aft­ur horf­ir all­ur heim­ur­inn til vís­ind­anna. Nú er þess beðið að vís­inda­menn heims­ins upp­götvi vopn í bar­átt­unni við óvin okk­ar allra – kór­ónu­veiruna sem veld­ur COVID-19. Vís­indakapp­hlaupið 2020 er þó ólíkt mörg­um öðrum í sög­unni því for­dæma­laus samstaða og sam­hug­ur er í vís­inda­sam­fé­lag­inu, sem stund­um hef­ur ein­kennst af inn­byrðis sam­keppni. Sann­ar­lega er sam­keppn­in enn til staðar en al­mennt eru vís­inda­menn að deila upp­lýs­ing­um með öðrum í þeirri von að manns­líf­um og hag­kerf­um heims­ins verði bjargað.

Við erum öll í sama liðinu

COVID-19 er stærsta áskor­un­in sem þjóðir heims hafa staðið frammi fyr­ir í lang­an tíma. Með áhrif­um á heilsu fólks hef­ur óvær­an gríðarleg­ar efna­hagsaf­leiðing­ar. Veir­an hef­ur veikt öll stærstu hag­kerfi heims og það mun taka lang­an tíma fyr­ir þau að ná heilsu á ný. Það leiðir til tekjutaps ein­stak­linga og rík­is­sjóða um all­an heim, sem get­ur haft mikl­ar af­leiðing­ar á vel­ferð þjóða. Það sést greini­lega á alþjóðleg­um fjár­mála­mörkuðum, sem þessa dag­ana sveifl­ast með vís­inda­frétt­um. Þeir taka við sér þegar góðar vís­inda­frétt­ir ber­ast, en falla þegar von­ir bresta. Hluta­bréf á alþjóðamörkuðum féllu til að mynda eft­ir að til­raun­ir með bólu­efni gegn COVID-19 báru ekki ár­ang­ur. Það bend­ir allt til þess, að líf manna muni ekki kom­ast í eðli­legt horf fyrr en bólu­efni hef­ur verið fundið.

Þessa stund­ina vinna yfir átta­tíu hóp­ar vís­inda­manna og fimmtán lyfja- og líf­tækn­iris­ar að þróun bólu­efn­is. Í þeirra hópi eru vafa­laust marg­ir sem vilja verða fyrst­ir – sjá for­dæma­laus viðskipta­tæki­færi og frama í slík­um ár­angri – en áður­nefnt vís­inda­sam­starf verður von­andi til þess að heil­brigði þjóða verður sett í fyrsta sæti þegar rann­sókn­ar­vinn­an skil­ar ár­angri. Það skipt­ir á end­an­um ekki máli hvaðan meðalið kem­ur, held­ur hvernig það verður notað. Í því sam­hengi er ástæða til bjart­sýni, því alþjóðleg sam­vinna hef­ur áður skilað heim­in­um bólu­efn­um gegn hræðileg­um sjúk­dóm­um; barna­veiki, stíf­krampa og milt­is­brandi svo dæmi séu nefnd.

Ísland legg­ur sitt af mörk­um

Í bar­átt­unni við hinn sam­eig­in­lega óvin hef­ur Ísland vakið nokkra at­hygli um­heims­ins. Aðferðafræðin hef­ur þótt til eft­ir­breytni og ár­ang­ur­inn með ágæt­um, en einnig það merka fram­tak Decode Genetics að bjóða Íslend­ing­um upp á skimun fyr­ir veirunni, fyrstri þjóða. Hátt í 50 þúsund sýni hafa verið tek­in hér á landi. Afrakst­ur­inn nýt­ist heim­in­um öll­um, þar sem ótal af­brigði veirunn­ar hafa fund­ist. Það fram­lag Kára Stef­áns­son­ar og sam­starfs­fólks hans allra er ómet­an­legt í þróun bólu­efn­is­ins sem ver­öld­in bíður eft­ir.

Á sama tíma hafa aðrir rann­sókn­ar- og vís­inda­menn hér­lend­is unnið þrek­virki. Svo dæmi séu nefnd kynntu vís­inda­menn fljótt spálík­an um lík­lega þróun sem gæti nýst við ákv­arðana­töku um viðbrögð og skipu­lag heil­brigðisþjón­ustu. Á ör­stutt­um tíma höfðu sér­fræðing­ar Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar og sam­starfs­fólk hjá Land­læknisembætt­inu og Land­spít­ala sent vís­inda­grein í New Eng­land Journal of Medic­ine um út­breiðslu veirunn­ar á Íslandi. Nú síðast til­kynntu vís­inda­menn í Há­skóla Íslands að þeir hefðu hug á að rann­saka áhrif far­ald­urs­ins á líðan og lífs­gæði lands­manna til þess að geta brugðist bet­ur við sam­fé­lags­leg­um áhrif­um á borð við heims­far­ald­ur. Heil­brigðis­starfs­menn og al­manna­varn­ir hafa staðið vakt­ina með vilj­ann að vopni og smitrakn­ing­ar­t­eym­inu tek­ist að rekja flest smit sem hafa komið upp hér á landi. Þetta er sann­an­lega ár­ang­ur sem Íslend­ing­ar geta verið stolt­ir af.

Vís­ind­in efla alla dáð

Eins og oft áður komst ljóðskáldið og vís­indamaður­inn Jón­as Hall­gríms­son vel að orði þegar hann orti til heiðurs vís­inda­mann­in­um Pål Gaim­ard í Kaup­manna­höfn:

Vís­ind­in efla alla dáð, ork­una styrkja, vilj­ann hvessa,

von­ina glæða, hug­ann hressa,

far­sæld­um vefja lýð og láð;

tí­fald­ar þakk­ir því ber færa

þeim sem að guðdómseld­inn skæra

vakið og glætt og verndað fá

visk­unn­ar helga fjalli á.

Jón­as var brautryðjandi á sviði nátt­úru­vís­inda og helgaði líf sitt skrif­um um þau. Hann vissi það að rann­sókn­ir, vís­indi og hag­nýt­ing hug­vits væru for­send­ur fjöl­breytts at­vinnu­lífs, vel­ferðar og styrkr­ar sam­keppn­is­stöðu þjóða. Eitt af því sem hef­ur ein­kennt ís­lenskt vís­inda­sam­fé­lag í gegn­um tíðina er mik­il virkni í alþjóðasam­starfi enda er fjölþjóðlegt sam­starf ís­lensk­um rann­sókn­um nauðsyn­legt. Það er því hlut­verk okk­ar sem störf­um á þess­um vett­vangi, hvort sem það er við stefnu­mót­un um vís­inda­mál eða fram­kvæmd rann­sókna, að virkja og efla þekk­ingu al­menn­ings á vís­inda­starfi og hvetja til öfl­ugra alþjóðasam­starfs.

Á þess­um tíma­punkti tekst heim­ur­inn á við heims­far­ald­ur. Þjóðir heims­ins taka hönd­um sam­an og leiða sam­an þekk­ingu og rann­sókn­ir. Ísland gef­ur ekk­ert eft­ir og mun von­andi verða leiðandi afl í alþjóðasam­starfi framtíðar­inn­ar. Far­ald­ur­inn er í mik­illi rýrn­un hér á landi en þó er ekki hægt að hrósa sigri enda bar­átt­unni ekki lokið. Það hef­ur þó sýnt sig á síðustu mánuðum að alþjóðlegt vís­inda­sam­starf greiðir leiðina að bjart­ari framtíð. Það býður bæði upp á þá von að lausn finn­ist á nú­ver­andi krísu, ásamt því að byggja upp sam­starfs­vilja milli ríkja um að sam­ein­ast í átt að betri og ör­ugg­ari framtíð.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. apríl 2020.

Categories
Greinar

Íslensk matvæli, gjörið svo vel

Deila grein

23/04/2020

Íslensk matvæli, gjörið svo vel

Í öðrum aðgerðapakka rík­is­stjórn­ar­inn­ar Viðspyrna fyr­ir Ísland er lögð mik­il áhersla á inn­lenda fram­leiðslu og verðmæta­sköp­un. Ný­sköp­un er þar í önd­vegi enda lengi verið ljóst að skjóta verður fleiri stoðum und­ir ís­lensk­an efna­hag. Síðustu vik­urn­ar hef­ur helsta umræðuefni fólks um heim all­an verið heilsa og heil­brigði. Fólk ótt­ast þenn­an vá­gest sem kór­ónu­veir­an er og legg­ur mikið á sig til að kom­ast hjá smiti. Veik­ind­in leggj­ast misþungt á fólk og hef­ur ekki verið út­skýrt að fullu hvað veld­ur þeim mun. Hins veg­ar er ljóst að sum­ir hóp­ar eru veik­ari fyr­ir en aðrir og hef­ur til dæm­is í Banda­ríkj­un­um verið bent á að þeir sem stríða við lífs­stíls­sjúk­dóma geta orðið sér­stak­lega illa fyr­ir barðinu á Covid-19. Þegar heils­an er okk­ur svo of­ar­lega í huga er ekki laust við að maður þakki fyr­ir þá öf­undsverðu stöðu sem við Íslend­ing­ar erum í varðandi mat­væla­fram­leiðslu, hvort held­ur það er land­búnaður eða sjáv­ar­út­veg­ur. Rúmt ár er nú frá því við í Fram­sókn héld­um fjöl­menn­an fund þar sem Lance Price, pró­fess­or við Washingt­on-há­skóla, hélt fyr­ir­lest­ur um þá ógn sem mann­kyn­inu staf­ar af sýkla­lyfja­ónæm­um bakt­erí­um. Á sama fundi hélt er­indi Karl G. Krist­ins­son, helsti sér­fræðing­ur okk­ar í sýkla­fræði, og sjá­um við hon­um bregða fyr­ir á skján­um um þess­ar mund­ir í tengsl­um við heims­far­ald­ur­inn sem nú herj­ar á okk­ur. Fund­inn héld­um við til að vekja fólk til vit­und­ar um að sér­fræðing­ar telja að árið 2050 muni tíu millj­ón­ir manna deyja í heim­in­um af völd­um sýkla­lyfja­ónæm­is og ekki vild­um við síður benda á þau verðmæti sem fel­ast í ís­lensk­um land­búnaði sem er ásamt Nor­egi með minnsta notk­un sýkla­lyfja í land­búnaði í heim­in­um. Mat­væla­fram­leiðsla er gríðarlega mik­il­væg­ur þátt­ur í ís­lenska hag­kerf­inu og sann­kallaður lýðheilsu­fjár­sjóður. Rík­is­stjórn­in ákvað í fyrra að Ísland yrði fyrsta landið í heim­in­um til að banna sölu og dreif­ingu á mat­vöru, kjöti, fiski og græn­meti, sem inni­held­ur sýkla­lyfja­ónæm­ar bakt­erí­ur. Þannig vernd­um við heilsu Íslend­inga og und­ir­strik­um þau miklu gæði sem ein­kenna ís­lenska mat­væla­fram­leiðslu. Hluti af öðrum aðgerðapakka rík­is­stjórn­ar­inn­ar er auk­inn stuðning­ur við græn­met­is­bænd­ur, bæði beinn og einnig með end­ur­greiðslu kostnaðar vegna dreif­ing­ar og flutn­ings raf­orku bænda. Þar er stigið gríðarlega mik­il­vægt skref til að efla grein­ina og munu ís­lensk­ir neyt­end­ur njóta þess þegar fram­leiðsla á ís­lensku græn­meti eykst. Von­andi stend­ur versl­un­in með þjóðinni og ís­lensk­um mat­væla­fram­leiðend­um og gef­ur ís­lensku græn­meti heiðurssess. Það er bjarg­föst trú mín að það séu gríðarleg tæki­færi fram und­an fyr­ir ís­lensk­an land­búnað og ís­lensk­an sjáv­ar­út­veg. Því ef fólk er al­mennt orðið meðvitaðra um heils­una hugs­ar það meira um hvað það læt­ur ofan í sig. Ég segi því að lok­um: Íslenskt, gjörið svo vel.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. apríl 2020. 

Categories
Greinar

Samvinna afurðastöðva

Deila grein

22/04/2020

Samvinna afurðastöðva

Á undanförnum árum hafa afurðastöðvar í kjöti mátt þola gríðarmiklar breytingar í sínu samkeppnisumhverfi. Þar sem innflutningur á kjöti hefur aukist verulega frá löndum þar sem aðstæður til framleiðslu eru mun hagfelldari út frá mörgum sjónarhornum, t.d. aðbúnaði dýra, launakostnaði og veðurfari. Einnig er slátrun og vinnsla í mörgum þessara landa mun hagkvæmari vegna stærðarhagkvæmni og lægri launakostnaðar svo eitthvað sé nefnt. Þetta gerir það að verkum að íslenskar kjötafurðastöðvar hafa glímt við erfiðan rekstur undanfarin ár.

Þessi fyrirtæki skapa fjölmörg störf, flest á landsbyggðinni, og eru mikilvægur hlekkur í innlendri framleiðslu matvæla sem enn og aftur sannar sig nú á hinum erfiðu tímum Covid-19. Vegna þessa erfiðu aðstæðna í rekstri hafa afurðastöðvar meðal annars ekki getað hækkað verð til bænda í takt við það sem eðlilegt væri og heldur ekki náð að endurnýja og fjárfesta í rekstri sínum eins og ákjósanlegt væri.

Breytingar á búvörulögum

Það er augljóst að ef gæta á sanngirni í þessum heimi þarf að jafna samkeppnisstöðu afurðastöðva á Íslandi. Ef vel ætti að vera þyrfti að horfa til sambærilegs fyrirkomulags og viðhaft er í mjólkuriðnaðinum. Þar sem afurðastöðvar hafa leyfi til þess að hafa með sér ákveðið samstarf og verkaskiptingu á markaði. Með því mætti sjá mikla hagræðingu á ýmsum sviðum í þessum rekstri sem myndi skapa fyrirtækjunum betri rekstur og rými skapast til að borga bændum hærra verð fyrir sínar afurðir. Hefur undirritaður lagt fram á Alþingi frumvarp þess efnis að breytingar verði gerðar í þá átt sem reifað hefur verið í grein þessari á búvörulögum á síðasta haustþingi með það að markmiði að efla innlenda framleiðslu og tryggja afkoma bænda og þar með fæðuöryggi þjóðarinnar. Í krísum sem þessari sannast hið fornkveðna að hollur er heimafenginn baggi. Íslendingar munu eins og aðrar þjóðir þurfa að leggja mikla áherslu á það á næstu árum að efla og tryggja sína matvælaframleiðslu. Við Íslendingar eigum að vera stoltir af okkar matvælaframleiðslu og standa vörð um hana sem aldrei fyrr.

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 22. apríl 2020.

Categories
Fréttir

Varnir, vernd og viðspyrna

Deila grein

22/04/2020

Varnir, vernd og viðspyrna

Sérstök áhersla er lögð á uppbyggingu með nýsköpun í aðgerðaáætlun stjórnvalda. Lögð eru til aukin framlög til fjárfestingar í sprotafyrirtækjum og hækkun endurgreiðsluhlutfalls og fjárhæðarþaks til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar, en áhrif þessara aðgerða nema tæpum 4,5 milljörðum króna. Stefnt er að því að flýta endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar fyrir árið 2019. Auk þess verður sótt fram í matvælaframleiðslu, meðal annars með nýsköpun og markaðssetningu. Þá verða framlög til listamannalauna aukin þannig að úthluta megi rúmlega 600 verkefnamánuðum til viðbótar á árinu 2020.
Veittir verða lokunarstyrkir til fyrirtækja sem var gert að hætta starfsemi vegna sóttvarna, allt að 2,4 m.kr. Lítil og meðalstór fyrirtæki í rekstrarörðugleikum geta sótt um allt að 6 m.kr. óverðtryggð stuðningslán á sömu vöxtum og sjö daga bundin innlán lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands, sem nú eru 1,75%. Ljóst er að stór hluti fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustu mun geta nýtt leiðina þar sem hlutfall lítilla og meðalstórra fyrirtækja er töluvert meira í ferðaþjónustu en öðrum greinum. Áætluð heildarútgjöld vegna þessara tveggja aðgerða eru talin geta numið rúmlega 30 milljörðum króna. Einnig verður fyrirtækjum heimilt að jafna vegna tekjuskatts allt að 20 m.kr. af fyrirsjáanlegu tapi ársins 2020 á móti hagnaði ársins 2019.
Félagsleg úrræði með stuðningi við viðkvæma hópa, atvinnuleitendur og námsmenn vega þungt í aðgerðapakkanum. Verður 2,2 milljörðum króna varið til að skapa 3000 tímabundin störf í sumar fyrir námsmenn 18 ára og eldri og 300 m.kr. til að efla nýsköpun meðal ungra frumkvöðla gegnum Nýsköpunarsjóð námsmanna. Auk þess verður 800 m.kr. veitt til að bjóða sumarönn í framhalds- og háskólum sem nýtist bæði nemendum og fólki á atvinnuleysis- eða hlutabótum. Einnig verður ráðist í aðgerðir til að hlúa að viðkvæmum hópum, vinna gegn ofbeldi og félagslegri einangrun aldraðra og öryrkja, styðja við virkni atvinnuleitenda og tryggja tækifæri barna úr tekjulágum fjölskyldum til að taka þátt í frístundastarfi. Hugað verður sérstaklega að því að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og fjarheilbrigðisþjónusta verður efld. Alls verður um 8,5 ma.kr. varið til félagslegra aðgerða í þessum áfanga.
Til að styðja við fjölræði og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði verður einkareknum fjölmiðlum tryggður sérstakur rekstrarstuðningur á yfirstandandi ári, en þeir hafa tapað miklum tekjum á sama tíma og eftirspurn eftir þjónustu þeirra hefur aukist. Komið verður til móts við lausafjárvanda ferðaskrifstofa með lagabreytingu sem heimilar þeim að endurgreiða vissar ferðir með inneignarnótum.
Til þess að liðka fyrir markmiði sveitarfélaga um flýtiframkvæmdir er lagt til að þeim verði veittur tímabundinn réttur til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað auk þess sem Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fær heimild til að veita styrki til sveitarfélaga. Þá stendur yfir kortlagning á viðkvæmum svæðum á landsvísu og stafræn þjónusta sveitarfélaga verður efld.

 • Virkni á vinnumarkaði – úrræði til að efla fólk í atvinnuleit
 • Geðheilbrigði í forgangi, átak gegn ofbeldi og fjarheilbrigðisþjónusta efld
 • Margþættur stuðningur við börn – sérstakur frístundastyrkur til tekjulágra
 • Álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks vegna Covid-19

***

 • Lokunarstyrkir til fyrirtækja sem var gert að hætta starfsemi vegna sóttvarna
 • Stuðningslán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja
 • Fyrirtækjum heimilað að jafna tekjuskatt 2019 með tapi 2020

***

 • Sumarúrræði fyrir námsmenn – störf, nám og frumkvöðlaverkefni
 • Efling matvælaframleiðslu með nýsköpun og markaðssetningu
 • Frekari sókn til nýsköpunar – fjárfestingar auknar, hærra hlutfall endurgreiðslu og þök hækkuð vegna rannsókna og þróunar

Lítil fyrirtæki í rekstrarörðugleikum fá stuðning, brugðist er við vanda námsmanna, félagsleg úrræði efld og sjónum er beint að nýsköpun til framtíðar. Þetta er hluti af framhaldsaðgerðum stjórnvalda sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hafa kynnt vegna heimsfaraldurs kórónaveiru. Jafnframt greindu þau frá því að framlínufólk í heilbrigðisþjónustu sem búið hefur við aukið álag og mikla smithættu fái álagsgreiðslu.

Categories
Greinar

Leiðin til öflugra Íslands

Deila grein

21/04/2020

Leiðin til öflugra Íslands

Ríkisstjórnin kynnti í dag annan hluta Viðspyrnu fyrir Ísland í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Heldur þannig áfram vinna stjórnvalda til að bregðast við þeim mikla vanda sem heimsfaraldur kórónuveiru hefur skapað um allan heim. Eins og í fyrri pakka þá eru aðgerðirnar þrískiptar: Varnir, vernd og viðspyrna.

Aðgerðirnar eru fjölbreyttar. Varnirnar felast í því að veita þeim fyrirtækjum styrki sem hefur verið gert að hætta tímabundið starfsemi vegna sóttvarna, fyrirtækjum verða veitt lán með ríkisábyrgð til að standa straum af föstum rekstrarkostnaði og fyrirtækjum verður gert kleift að jafna saman tapi ársins 2020 og hagnaðar ársins 2019. Allt er þetta mikilvægt til að veita aðstoð lífvænlegum fyrirtækjum sem mikilvæg eru í viðspyrnunni.

Verndarhlutinn felur í sér áherslu á að veita fjölskyldum og einstaklingum tækifæri til að vinna sig í gegnum vandann og koma eftir fremsta megni í veg fyrir óafturkræf félagsleg vandamál sem fylgja áföllum eins og þeim sem við göngum nú í gegnum. Stutt verður duglega við námsmenn, bæði með því að bjóða upp á sumarnám og 3000 sumarstörf, sexföldun Nýsköpunarsjóðs námsmanna auk þess sem námsmönnum verður auðveldað að fá atvinnuleysisbætur. Einnig er háum fjárhæðum varið til þess að auka virkni atvinnulausra og gefa þeim kost á námi samhliða bótum. Áætlað er að úrræðið nái til um 15 þúsund manns á árinu. Fjarheilbrigðisþjónusta verður efld sem styrkir mjög aðgang fólks um allt land að þjónustu heilbrigðiskerfisins. Þá er 600 milljónum veitt til sveitarfélaga til að styðja við 12 þúsund börn á tekjulægri heimilum til að stunda íþrótta- og frístundastarf.

Nú er ekki síst þörf á því að horfa til framtíðar. Nauðsyn er að styrkja enn stoðir íslensks atvinnulífs með mikilli áherslu á nýsköpun. Framlög til endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði verður aukin 2,5 milljarða króna auk þess sem umgjörð fjármögnunar sprota- og nýsköpunarfyrirtækja verður styrkt með sérstakri áherslu á grænar tæknilausnir.

Ég hef áður bent á mikilvægi þess að hlúð verði að íslenskri matvælaframleiðslu. Þar er ekki aðeins um fjárhagslegt mál að ræða heldur er augljóst að lýðheilsusjónarmið eru þar mikilvæg. Þau skref sem eru stigin í þeim aðgerðum sem kynntar voru í dag eru mikilvæg og felast í nýjum Matvælasjóði þar sem hálfum milljarði verður bætt við það fjármagn sem áður fór í Framleiðnisjóð landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóð í sjávarútvegi. Þá fagna ég því að nýr samningur við garðyrkjubændur feli í sér aukningu um 200 milljónir auk þess að fjármagn verður aukið til endurgreiðslu flutnings- og dreifingarkostnaðar á rafmagni.

Leiðin framundan er grýtt en eftir því sem tíminn líður sjáum við smátt og smátt landslagið breytast fyrir framan okkur, göturnar verða greiðfærari og bjartara yfir. Við verðum að halda hópinn og styðja hvert annað á leiðinni. Þá fer allt vel.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. apríl 2020.

Categories
Fréttir

Spurt og svarað um efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19 — 2. hluti

Deila grein

21/04/2020

Spurt og svarað um efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19 — 2. hluti

Ríkisstjórnin hefur kynnt framhald efnahagsaðgerða sinna vegna áhrifa Covid-19 heimsfaraldursins.

Markmið aðgerða ríkisstjórnarinnar er að verja grunnstoðir samfélagsins, vernda afkomu fólks og fyrirtækja, og tryggja öfluga viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf. Eftir því sem neikvæð efnahagsleg áhrif Corona-faraldursins raungerast ber aukna nauðsyn til að huga að félagslegu öryggi og velferð.

Aðgerðir sem snúa beint að einstaklingum eru tvíþættar. Áhrifa faraldursins gætir víða í samfélaginu og eru af bæði efnahagslegum og félagslegum toga. Annars vegar er aðgerðum ætlað að styðja við þá hópa sem talið er að þurfi bráða aðstoð vegna samfélagslegra afleiðinga COVID-19. Hins vegar er markmiðið að skapa tímabundin náms- og atvinnutækifæri fyrir námsmenn, fólk á atvinnuleysisbótum og aðra sem kunna að sækjast eftir slíkum tækifærum. Helstu aðgerðir eru eftirfarandi:

 • Geðheilbrigði og fjarþjónusta: Efling geðheilbrigðisþjónustu, heilsugæslu og fjarþjónustu
 • Vernd fyrir börn og viðkvæma hópa: Átak gegn ofbeldi, stuðningur vegna tómstunda og veikinda og úrræði gegn félagslegri einangrun
 • Sértækur stuðningur: Framlínuálag fyrir heilbrigðisstarfsfólk
 • Vegir til virkni í námi og starfi: Átak til að fjölga námsúrræðum og tímabundnum störfum
 • Efling nýsköpunar og lista: Auknir nýsköpunarstyrkir, fleiri mánuðir listamannalauna

Afkoma heimila var í brennidepli í þeim aðgerðum sem kynntar voru í mars síðastliðnum, s.s. með atvinnuleysisbótum vegna minnkaðs starfshlutfalls, eingreiðslu til barnafólks og öryrkja og tímabundinni heimild til úttektar á séreignarsparnaði. Þrjár þeirra aðgerða sem nú eru kynntar miða að því að styrkja starfsgrundvöll fyrirtækja í erfiðu efnahagsástandi og standa þannig vörð um störf og afkomu heimila. Nánari upplýsingar um þær aðgerðir má sjá undir flipanum „fyrirtæki“ hér að ofan.
Þeim aðgerðum sem snúa beint að fyrirtækjum er ætlað að styðja þau til að takast á við mjög erfiðar efnahagsaðstæður sem orðið hafa vegna COVID-19 heimsfaraldursins og þeirra sóttvarnaraðgerða sem grípa hefur þurft til:

 • Lokunarstyrkir: Rekstrarstyrkir vegna fyrirmæla um lokun starfsemi
 • Stuðningslán: Rekstrarlán til minni fyrirtækja í lægð vegna faraldursins
 • Tekjuskattsjöfnun: Heimild til að jafna tap þessa árs á móti hagnaði í fyrra

Aðgerðir taka mið af þeim úrræðum sem þegar hafa komið til framkvæmda og má sjá nánari upplýsingar um hér[BB3] . Einnig hafa verið kynntar aðgerðir til viðspyrnu sem snúa sérstaklega að sprotum og nýsköpunarfyrirtækjum og má sjá nánari upplýsingar undir viðeigandi flipa hér að ofan.
Sú kreppa sem við göngum nú í gegnum er tímabundin. Viðspyrnan kemur þó óvíst sé hversu lengi þurfi að bíða hennar. Undirstöður hagkerfisins eru góðar til að takast á við þá áskorun að byggja upp öflug fyrirtæki bæði á útflutningsmarkaði og heimamarkaði og vinna til baka markaði sem lokuðust vegna COVID-19. Sérstaklega er mikilvægt að byggja upp atvinnugreinar sem byggja á nýsköpun og ótakmörkuðum auðlindum hugvits sem hraða munu uppbyggingu, fjölga störfum og auka hagvöxt. Um það fjalla þær aðgerðir sem snúa beint að sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og frumkvöðlum:

 • Efling nýsköpunar: Auknar R&Þ endurgreiðslur og styrkir
 • Fjármögnun sprota: Mótframlög og fjárfestingar í sprota- og vaxtarfyrirtækjum
 • Aukning innlendrar verðmætasköpunar: Nýr matvælasjóður til að efla nýsköpun og markaðssetningu, aukning á listamannalaunum
Categories
Greinar

Við eigum og ætlum að standa með fjölskyldum

Deila grein

21/04/2020

Við eigum og ætlum að standa með fjölskyldum

COVID-19 faraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á okkur öll og fram undan eru miklar áskoranir fyrir íslenskt samfélag. Heilu atvinnugreinarnar eru lamaðar og ljóst er að fjöldi fyrirtækja hefur orðið fyrir eða mun verða fyrir miklum og jafnvel óyfirstíganlegum vanda.

Um leið og faraldurinn ágerðist var brugðist við með markvissum aðgerðum. Ég lagði strax um miðjan mars fram frumvarp um hlutaatvinnuleysisbætur sem gerði atvinnurekendum kleift að minnka starfshlutfall niður í allt að 25% og Atvinnuleysistryggingasjóður greiddi atvinnuleysisbætur á móti. Markmiðið með þessu var að viðhalda ráðningarsambandi fólks við vinnuveitendur sína og tryggja öfluga viðspyrnu þegar þessu tímabundna óveðri slotaði. Verkefnið fram undan er að taka ákvörðun um hvort og með hvaða hætti lögin um hlutaatvinnuleysisbætur verði framlengd. Ég held að öllum sé ljóst að það óvissuástand sem nú ríkir á vinnumarkaði muni vara lengur en við gerðum ráð fyrir í fyrstu og við getum gert ráð fyrir því að fjölda­atvinnuleysi muni dragast á langinn. Í öllum þeim skrefum sem við tökum er það fyrst og fremst skylda okkar að tryggja stöðu heimilanna og framfærslu fjölskyldna í landinu við þessar krefjandi aðstæður.

Nú er ríkisstjórnin að vinna að nýjum aðgerðapakka sem er ætlað að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur á viðkvæma hópa í okkar samfélagi. Við ætlum að setja fókusinn á börnin og beina sjónum sérstaklega að því að styðja við foreldra í viðkvæmri stöðu, svo sem vegna umönnunar á langveiku eða fötluðu barni. Við munum einnig kynna fjölþættar aðgerðir sem miða að því að auka stuðning við viðkvæma hópa en munum einnig halda áfram markvissum aðgerðum gegn heimilisofbeldi, en reynslan sýnir að það eykst í því ástandi sem er nú.

Við verðum alltaf að hafa hugfast að fólkið og fjölskyldur landsins eru dýrmætasta eign samfélagsins og þess vegna ætlum við áfram að vinna að aðgerðum til að bæta stöðu viðkvæmra hópa næstu vikur og mánuði.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. apríl 2020.

Categories
Fréttir

„Liður í að skapa störf bæði í bráð og lengd“

Deila grein

20/04/2020

„Liður í að skapa störf bæði í bráð og lengd“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, segir að samvinnuverkefni (PPP) í samgöngum hafa verið til umfjöllunar á Alþingi sem hluta af samgönguáætlun, tvo síðustu þingvetra. „Við afgreiðslu samgönguáætlunar fyrir ári síðan var samþykkt (með auknum meirihluta án mótatkvæða) að fela samgönguráðherra að útfæra leiðir til að auka fjármagn í til vegasamgangna og þar á meðal þessa leið. (38 já, 18 greiddu ekki atkv., 7 fjarstaddir).“ Þetta kemur fram í færslu hennar á Facebook.
„Þar fékk samgönguráðherra skýr skilaboð Alþingis um að útfæra leiðina og leggja útfærsluna fyrir Alþingi – í dag átti að mæla fyrir málinu til að tryggja að það kæmist til umsagnar í samfélaginu. Umfjöllun tryggir að ólík sjónarmið varðandi málið komi fram og Alþingi geti fjallað um það þegar regluleg þingstörf hefjast aftur.
Verkefnin sem tilgreind eru í tillögunni eru:

a. Hringvegur norðaustan Selfoss og brú á Ölfusá.
b. Hringvegur um Hornafjarðarfljót.
c. Axarvegur.
d. Tvöföldun Hvalfjarðarganga.
e. Hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli.
f. Sundabraut.

Sum gætu hafist í ár og orðið mikilvægur liður í að skapa störf bæði í bráð og lengd, sagði Líneik Anna.