Þann 9. september sl. kynnti samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hina skosku leið, sem hefur fengið nafnið Loftbrú hér á landi. Að láta skosku leiðina verða að veruleika var eitt stærsta kosningarloforð Framsóknarflokksins fyrir þetta kjörtímabil. Skoska leiðin er hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og fór inn í samgönguáætlun við gerð hennar. Málið var síðan samþykkt á Alþingi og er nú orðið að veruleika. Það er mikið fagnaðarefni að okkur hafi tekist að uppfylla þetta loforð að fullu, en Framsókn hefur þurft að hoppa yfir ýmsar hindranir til að ná þessu baráttumáli í gegn.
Loftbrú gerir innanlandsflugið að enn fýsilegri kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar, þ.e. fyrir fólk sem býr á bilinu 200-300 km akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Þetta á líka við íbúa Vestmannaeyja. Þeir sem geta nýtt sér Loftbrúna fá 40% afslátt af heildarfargjaldi innanlandsflugs fyrir allt að 6 flugleggi á ári til og frá höfuðborgarsvæðinu. Alls ná afsláttarkjörin til rúmlega 60 þúsund íbúa landsbyggðarinnar.
Gert er ráð fyrir undantekningum fyrir skilyrði um búsetu á landsbyggðinni. Þær undantekningar gilda fyrir framhaldsskólanema af landsbyggðinni sem fært hefur fært lögheimili sitt tímabundið á höfuðborgarsvæðið vegna náms og börn sem eru með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu en eiga foreldra eða forráðamenn sem hafa búsetu á landsbyggðinni. Unnið er að útfærslu á þessum undanþágum.
Markmið verkefnisins er að efla innanlandsflug og stuðla að betri tengingu landsins með uppbyggingu almenningssamgangna. Á landsbyggðinni er oft skortur á aðgengi að mikilvægri þjónustu, en þeir sem búsettir eru langt utan höfuðborgarsvæðisins þurfa oft að ferðast langan veg til að nýta sér þjónustu á höfuðborgarsvæðinu sem er jafnvel bara í boði þar. Með Loftbrú er verið að tryggja greiðara aðgengi íbúa á landsbyggðinni að þjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Þessar aðgerðir stuðla að því að þeir sem búa langt frá höfuðborgarsvæðinu sitji ekki á hakanum vegna búsetu sinnar. Einnig er vert að nefna að nýta megi þessa afslætti í þeim tilgangi að sækja menningu á höfuðborgarsvæðinu og til að heimsækja ættingja og vini sem búsettir eru þar.
Þarna er verið að auka aðgengi að þjónustu sem ekki er til staðar í heimabyggð, t.a.m. konur sem eru að fara í sónarskoðun og það hafa ekki allir aðgengi að tannlæknaþjónustu í heimabyggð svo fátt eitt sé nefnt. Síðan verður leiðin styttri í leikhús okkar þjóðarinnar því höfuðborgin er okkar allra, hér er því verið að stuðla að frekara jafnrétti fólks, óháð búsetu, og mikilvægt byggðarmál.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. september 2020.