Categories
Greinar

Hugsum stórt

Með hag­kvæmri fjár­mögn­un at­vinnu­lífs­ins geta fyr­ir­tæki skapað störf og verðmæti fyr­ir allt sam­fé­lagið, sem er for­senda þess að rík­is­sjóður geti staðið und­ir sam­neysl­unni. Með op­in­ber­um aðgerðum og stuðningi rík­is­ins við at­vinnu­lífið – hluta­bóta­leiðinni, brú­ar- og stuðningslán­um og fjár­veit­ing­um til ótal verk­efna – er stutt við út­lána­vöxt til fyr­ir­tækja, sem verða á brems­unni þar til óvissa minnk­ar. Það má því segja, að mik­il­væg­asta verk­efni stjórn­valda sé að draga úr óviss­unni.

Deila grein

12/09/2020

Hugsum stórt

Í upp­hafi árs­ins var slaki tek­inn að mynd­ast í efna­hags­kerf­inu og blik­ur voru á lofti eft­ir sam­fellt langt hag­vaxt­ar­skeið á Íslandi. Fregn­ir af COVID-19 voru farn­ar að ber­ast frá Kína, en fáir sáu fyr­ir hversu al­var­leg­ar af­leiðing­arn­ar yrðu af hinni áður óþekktu veiru. Smám sam­an breytt­ist þó heims­mynd­in og í byrj­un mars raun­gerðist vand­inn hér­lend­is, þegar fyrstu inn­an­lands­smit­in greind­ust. Höggið á efna­hags­kerfi heims­ins var þungt og enn eru kerf­in vönkuð.

Efna­hags­horf­ur um all­an heim munu hverf­ast um þróun far­ald­urs­ins og hvernig tekst að halda sam­fé­lags­legri virkni, þar til bólu­efni verður aðgengi­legt öll­um eða veir­an veikist. Við þess­ar aðstæður reyn­ir á grunnstoðir sam­fé­laga; heil­brigðis­kerfi, mennta­kerfi og efna­hagsaðgerðir stjórn­valda. Hér­lend­is er eitt mik­il­væg­asta verk­efnið að ráðast í fjár­fest­ing­ar, grípa þau tæki­færi sem fel­ast í krefj­andi aðstæðum og leggja grunn­inn að hag­sæld næstu ára­tuga.

Sam­fé­lags­leg virkni tryggð

Bar­átt­an við veiruna hef­ur um margt gengið vel hér­lend­is. Heil­brigðis­kerfið hef­ur staðist álagið, þar sem þrot­laus vinna heil­brigðis­starfs­fólks og höfðing­legt fram­lag Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar hafa varðað leiðina. Mennta­kerfið hef­ur einnig staðist prófið og Ísland er eitt fárra landa sem hef­ur ekki lokað skól­um. Þá hafa um­fangs­mikl­ar efna­hagsaðgerðir skilað góðum ár­angri og lagt grunn­inn að næstu skref­um.

Skil­virk efna­hags­stjórn­un og framtíðar­sýn er lyk­il­inn að vel­sæld. Gert er ráð fyr­ir tæp­lega 6% sam­drætti í lands­fram­leiðslu á þessu ári, en viðsnún­ing­ur verði á því næsta með 4% hag­vexti. Sam­drátt­ur upp á 9,3% á öðrum árs­fjórðungi 2020 er sögu­leg­ur, en þó til marks um varn­ar­sig­ur í sam­an­b­urði við ríki á borð við Frakk­land (-14%) og Bret­land (-20%). Þótt óviss­an um þróun far­ald­urs­ins og þeirra at­vinnu­greina sem verst hafa orðið úti sé mik­il, geta stjórn­völd ekki leyft sér að bíða held­ur verða þau að grípa í taum­ana. Vinna hratt og skipu­lega, veita fjár­mun­um í innviðaverk­efni af ólík­um toga og skapa aðstæður fyr­ir fjölg­un virðis­auk­andi starfa til skemmri og lengri tíma.

Rík­is­stjórn­ir grípa bolt­ann

Þróuð hag­kerfi heims­ins gripu flest til rót­tækra efna­hagsaðgerða til að örva hag­kerfi sín í upp­hafi heims­far­ald­urs, með kenni­setn­ing­ar John M. Keynes að leiðarljósi. Sterkt sam­spil rík­is­fjár­mála, pen­inga­stefnu og fjár­mála­kerf­is varð leiðarljós rík­is­stjórna í sam­an­b­urðarlönd­un­um, sem hafa tryggt launþegum at­vinnu­leys­is­bæt­ur og fyr­ir­tækj­um stuðning, svo at­vinnu­lífið kom­ist fljótt af stað þegar heilsu­far­sógn­in er afstaðin. Lang­tíma­vext­ir í stærstu iðnríkj­um eru í sögu­legu lág­marki og viðbúið að svo verði um nokk­urt skeið, ekki síst í ljósi spár Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins sem ger­ir ráð fyr­ir 5% sam­drætti á heimsvísu í ár og efna­hags­bat­inn verði hæg­ari en talið var í fyrstu. Í því felst auk­in áskor­un fyr­ir lítið og opið hag­kerfi, eins og það ís­lenska, sem er um margt háð þróun á alþjóðamörkuðum og fólks­flutn­ing­um milli landa. Á hinn bóg­inn verður áfram mik­il eft­ir­spurn eft­ir helstu út­flutn­ings­vör­um Íslend­inga, mat­væl­um og grænni orku.

Op­in­ber­ar fjár­fest­ing­ar gegn sam­drætti

Í árs­byrj­un var staða rík­is­sjóðs Íslands sterk­ari en flestra ríkja Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (OECD). Hrein­ar skuld­ir rík­is­sjóðs voru aðeins um 20% af lands­fram­leiðslu, sem end­ur­spegl­ar styrka stjórn og niður­greiðslu skulda und­an­far­in ár sam­hliða mikl­um hag­vexti. Upp­gjörsaðferðir og lög frá 2015 um stöðug­leikafram­lög frá slita­bú­um fall­inna banka lögðu grunn­inn að þeirri stöðu, auk þess sem ferðaþjón­ust­an skapaði mikið gjald­eyr­is­inn­flæði. Stjórn­völd hafa því verið í kjör­stöðu til að sníða fjár­veit­ing­ar að þörf­inni og munu laga fram­haldsaðgerðir að raun­veru­leik­an­um sem blas­ir við. Op­in­ber­ar fjár­fest­ing­ar munu vega á móti sam­drætti árs­ins og núna er tím­inn til að hugsa til framtíðar. Fjár­festa í metnaðarfull­um innviðaverk­efn­um, mennt­un, ný­sköp­un, rann­sókn­um og þróun. Við eig­um að fjár­festa í veg­um og brúm, upp­bygg­ingu nýrra at­vinnu­greina og stuðningi við þær sem fyr­ir eru. Við eig­um að efla inn­lenda mat­væla­fram­leiðslu, byggja langþráða þjóðarleik­vanga fyr­ir íþrótt­ir og fjár­festa í nýj­um fyrsta flokks gagna­teng­ing­um Íslands við um­heim­inn. Við eig­um að kynna Ísland bet­ur fyr­ir er­lend­um lang­tíma­fjár­fest­um, fyr­ir­tækj­um og laða til lands­ins hæfi­leika­fólk á öll­um sviðum. Við eig­um að setja okk­ur mark­mið um íbúaþróun og sam­fé­lags­leg­an ár­ang­ur, sem bæði er mæld­ur í hag­vexti og al­mennri vel­ferð fólks sem hér býr. Auka þarf sam­starf hins op­in­bera og at­vinnu­lífs­ins í fjár­fest­ing­um og höfða til þeirra sem sjá framtíð í skap­andi grein­um.

Vext­ir í sögu­legu lág­marki 1%

Vaxta­stig er í sögu­legu lág­marki og hef­ur Seðlabanki Íslands ráðist í um­fangs­mikl­ar aðgerðir til að spyrna við slaka í hag­kerf­inu. Raun­vext­ir Seðlabank­ans hafa lækkað sam­hliða lækk­un nafn­vaxta og eru nú -1,7%. Þessi skil­yrði hafa leitt til þess að heim­il­in í land­inu hafa end­ur­fjármagnað óhag­stæðari lán og um leið aukið ráðstöf­un­ar­fé sitt. Aðstæður hafa einnig leitt af sér, að ávöxt­un­ar­krafa skulda­bréfs­ins sem rík­is­sjóður Íslands gaf út á alþjóðamörkuðum í vor nam aðeins tæp­lega 0,7%. Þrátt fyr­ir sögu­lega lága vexti eru fjár­fest­ing­ar at­vinnu­lífs­ins litl­ar og stjórn­valda bíður það verk­efni örva þær. Minnka óvissu og stuðla að efna­hags­leg­um stöðug­leika sem ýtir und­ir fjár­fest­ing­ar at­vinnu­líf­is­ins, á meðan vaxta­kjör eru hag­stæði. Vext­ir á heimsvísu eru líka sögu­lega lág­ir og pen­inga­prentvél­ar stærstu seðlabank­anna hafa verið mjög virk­ar. Hér­lend­is höf­um við tekið meðvitaðar ákv­arðanir um að gera meira en minna, nýta slak­ann til fulls og fjár­festa til framtíðar svo sam­fé­lagið verði sam­keppn­is­hæft til lengri tíma.

Fjár­mála­kerfið stór þátt­ur í viðspyrnu

Eig­in- og lausa­fjárstaða ís­lenska fjár­mála­kerf­is­ins er býsna sterk og bank­arn­ir því í góðri stöðu til að styðja við heim­il­in og fyr­ir­tæk­in í land­inu. Vita­skuld rík­ir í augna­blik­inu ákveðin óvissa um raun­v­irði út­lána­safna, en með sjálf­bæru og fram­sæknu at­vinnu­lífi skap­ast verðmæti fyr­ir þjóðarbúið sem eyk­ur stöðuleika og getu lán­tak­enda til að standa við skuld­bind­ing­ar sín­ar. Með hag­kvæmri fjár­mögn­un at­vinnu­lífs­ins geta fyr­ir­tæki skapað störf og verðmæti fyr­ir allt sam­fé­lagið, sem er for­senda þess að rík­is­sjóður geti staðið und­ir sam­neysl­unni. Með op­in­ber­um aðgerðum og stuðningi rík­is­ins við at­vinnu­lífið – hluta­bóta­leiðinni, brú­ar- og stuðningslán­um og fjár­veit­ing­um til ótal verk­efna – er stutt við út­lána­vöxt til fyr­ir­tækja, sem verða á brems­unni þar til óvissa minnk­ar. Það má því segja, að mik­il­væg­asta verk­efni stjórn­valda sé að draga úr óviss­unni.

Sjálf­bær viðskipta­jöfnuður

Fyr­ir þjóðarbúið er fátt mik­il­væg­ara en sjálf­bær greiðslu­jöfnuður. Það er því sér­takt gleðiefni, að þrátt fyr­ir áföll­in er bú­ist við af­gangi af viðskipta­jöfnuði á ár­inu, sem nem­ur um 2% af lands­fram­leiðslu. Megin­á­stæðan er hag­felld þróun út­flutn­ings­grein­anna, að frá­tal­inni ferðaþjón­ust­unni. Þannig hef­ur ál­verð farið fram úr vænt­ing­um og horf­ur á mörkuðum fyr­ir sjáv­ar­af­urðir eru betri en ótt­ast var. Tekju­fall ferðaþjón­ust­unn­ar dreg­ur sann­ar­lega mikið úr heild­ar­gjald­eyris­tekj­um þjóðarbús­ins, en sök­um þess að sam­drátt­ur á þjón­ustu­jöfnuði er bæði í inn- og út­flutn­ingi mynd­ast minni halli en ætla mætti. Ferðaþjón­ust­an mun taka við sér og skapa aft­ur mik­il verðmæti, en framtíðar­verk­efni stjórn­valda er að fjölga stoðunum und­ir út­flutn­ings­tekj­um þjóðar­inn­ar og tryggja að hag­kerfið þoli bet­ur áföll og tekju­sam­drátt í einni grein.

Sam­vinna er leiðin

Að feng­inni reynslu um all­an heim er ljóst, að stjórn­völd fá það verk­efni að tryggja vel­ferð, hag­sæld og at­vinnu­stig þegar stór áföll ríða yfir. Kost­ir hins frjálsa markaðskerf­is eru marg­ir, en þörf­in á virku sam­spili rík­is og einkafram­taks­ins er bæði aug­ljós og skyn­sam­leg. Hér­lend­is hef­ur þjóðin öll lagst á eitt við að tryggja sem mesta sam­fé­lags­virkni í heims­far­aldr­in­um og ríkið hef­ur fum­laust stigið inn í krefj­andi aðstæður. Því ætl­um við að halda áfram og kveða niður at­vinnu­leys­is­draug­inn, með nýj­um störf­um, sjálf­bær­um verk­efn­um og stuðningi við fyr­ir­tæki, þar sem það á við. At­vinnu­leysið er helsti óvin­ur sam­fé­lags­ins og það er siðferðis­leg skylda okk­ar að auka verðmæta­sköp­un sem leiðir til fjölg­un­ar starfa. Við vilj­um að all­ir fái tæki­færi til að láta reyna á hæfi­leika sína, hrinda hug­mynd­um í fram­kvæmd og skapa sér ham­ingju­samt líf. Með sam­hug og vilj­ann að vopni mun það tak­ast.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. september 2020.