Þótt heimsfaraldur kórónuveiru hafi í undantekningartilfellum haft áhrif á daglegt líf bænda stefnir í afkomubrest í landbúnaði. Það mun hafa langtímaáhrif á íslenskan landbúnað verði ekkert að gert. Íslenskur landbúnaður er ekki bara kjöt í búð. Einstaklingar, fjölskyldur og heilu byggðarlögin byggja afkomu sína á landbúnaði. Öflugur íslenskur landbúnaður er verðmæti.
Áhrif faraldursins á afkomu bænda og afurðastöðva stafar af hruni í komu ferðamanna og breytinga á mörkuðum vegna sóttvarnaaðgerða. Þannig dróst sala á kjöti (alifugla-, hrossa-, svína-, nautgripa- og lambakjöti) saman um 9,1% á tímabilinu ágúst til október. Samspil aukins innflutnings erlendra búvara og hruns í komu ferðamanna skapar eitrað samspil á kjötmarkaði. Auk þess hefur komið upp ágalli í tollframkvæmd.
Vill einhver að íslenskum landbúnaði blæði út?
Nei, ekki á okkar vakt. Þær almennu aðgerðir sem stjórnvöld hafa þegar farið í nýtast bændum og afurðastöðvum að takmörkuðu leyti. Enda ekki mögulegt að leggja rekstur sem byggist á búvöruframleiðslu í tímabundinn dvala. Stjórnvöld verða að bregðast við og þá blasa við tvær meginleiðir; bæta starfsumhverfið eða bæta í beinan stuðning ríkisins við bændur.
Það eru tækifæri til umbóta í tollamálum sem má skipta í þrennt.
1. Fyrirkomulag útboða þarf að vera skýrt en jafnframt þurfa að vera til staðar heimildir til að bregðast við tímabundnu ójafnvægi og fresta útboðum. Innflutningur á sambærilegu magni á matvöru erlendis frá í ár og síðasta ár leiðir einfaldlega til matarsóunar og enn verri afkomu bænda og taps á störfum hjá afurðastöðvum.
2. Tollskrá þarf að vera í samræmi við alþjóðlega tollskrá. Það er hagur jafnt innflytjenda og bænda að hún sé skýr. Þannig er hægt að komast bæði hjá mistökum og ásökunum um vísvitandi svindl. Þetta er ekki flókið, ost og aðra matvöru sem flutt er til Íslands á að flokka í réttan tollflokk í samræmi við alþjóðlega tollskrá. Öllu skiptir að tollframkvæmd sé rétt þannig að raunveruleg tollvernd sé til staðar í samræmi við ákvæði tollalaga og milliríkjasamninga. Þá hefur rétt tollafgreiðsla áhrif á skráningu hagtalna og ákveðna þætti matvælaeftirlits.
3. Endurskoða þarf tollasamninga við ESB í kjölfar Brexit. Það er satt að þegar bráðabirgðafríverslunarsamningur Íslands og Bretlands tekur gildi munu ríkin veita hvort öðru gagnkvæma tollkvóta. Áfram standa samt tollasamningar við ESB, en helmingur alls kindakjöts sem flutt hefur verið út fór á Bretlandsmarkað og tollkvótar fyrir skyr voru fyrst og fremst hugsaðir fyrir Bretland. Með tilkomu Brexit munu þeir takmörkuðu tollkvótar sem samið var um fyrir íslenskar búvörur á Evrópumarkaði ekki nýtast eins og til stóð. Það er forsendubrestur.
Nágrannalöndin styðja við landbúnað í faraldrinum
Staða bænda í nágrannalöndunum er á margan hátt betri en á Íslandi, einkum í Noregi og aðildarríkjum Evrópusambandsins. Stjórnvöld þar hafa mun meiri heimildir til að grípa til aðgerða vegna tímabundins ójafnvægis á markaði, auk þess sem gripið hefur verið til viðamikilla stuðningsaðgerða.
Þessi aðstöðumunur birtist með almennum hætti í Noregi þar sem bændur og afurðasölufyrirtæki eru undanþegin gildissviði samkeppnislaga. Þá hefur verið gripið til umfangsmikilla stuðningsaðgerða á meginlandi Evrópu þar sem beinir fjárstyrkir og hagstæð lánafyrirgreiðsla stendur bændum til boða. Vegna ójafnvægis á mörkuðum með landbúnaðarvörur hefur verið innleidd tímabundin undanþága frá evrópskum samkeppnisreglum fyrir landbúnaðinn.
Ganga þyrfti miklu lengra hér á landi
Nú liggur frumvarp landbúnaðarráðherra um tímabundnar breytingar á lagaumhverfi við úthlutun samningsbundinna tollkvóta fyrir Alþingi. Það er sagt eiga að lágmarka áhrif faraldursins á innlenda framleiðslu landbúnaðarafurða og draga úr því tjóni sem innlendir framleiðendur hafa nú þegar orðið fyrir. Það er vissulega skref í rétta átt og viðurkenning á stöðunni en það verður að ganga lengra.
Væri ekki áhrifaríkara að fresta öllum útboðum tollkvóta meðan þessi alvarlega staða er uppi? Til þess þarf vissulega lagabreytingu en það mun varla vefjast fyrir Alþingi. Þá er ekki eftir neinu að bíða með að koma á heimild til samvinnu á kjötmarkaði eins og þingmenn Framsóknarflokksins hafa ítrekað lagt til. Eða drífa í að kanna sérstaklega hagkvæmni og skilvirkni í matvælaframleiðslu eins og boðað var í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tilefni af viðræðum um forsendur lífskjarasamningsins í haust.
Þannig væri hægt að bæta stöðuna verulega og auðvelda bændum sjálfum að bregðast við, koma í veg fyrir matarsóun og fækkun starfa í landinu. Það gæti sparað samfélaginu milljarða. Ef ekki verða umbætur á starfsumhverfinu þyrfti að stórauka beinan ríkisstuðning til bænda. Varla ætlumst við til að bændur eigi einir stétta að bera allan skaðann sem þeir verða fyrir vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
Ein af jákvæðum áhrifum ástandsins er að verslun í landinu hefur aukist. Ætla Samtök atvinnulífsins virkilega að leggjast gegn því að brugðist verði við vanda bænda í heimsfaraldri?
Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir, alþingismenn Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. desember 2020.