Categories
Greinar

Ólafur, ertu að grínast?

Deila grein

06/12/2020

Ólafur, ertu að grínast?

Þótt heims­far­ald­ur kór­ónu­veiru hafi í und­an­tekn­ing­ar­til­fell­um haft áhrif á dag­legt líf bænda stefn­ir í af­komu­brest í land­búnaði. Það mun hafa lang­tíma­áhrif á ís­lensk­an land­búnað verði ekk­ert að gert. Íslensk­ur land­búnaður er ekki bara kjöt í búð. Ein­stak­ling­ar, fjöl­skyld­ur og heilu byggðarlög­in byggja af­komu sína á land­búnaði. Öflug­ur ís­lensk­ur land­búnaður er verðmæti.

Áhrif far­ald­urs­ins á af­komu bænda og afurðastöðva staf­ar af hruni í komu ferðamanna og breyt­inga á mörkuðum vegna sótt­varnaaðgerða. Þannig dróst sala á kjöti (ali­fugla-, hrossa-, svína-, naut­gripa- og lamba­kjöti) sam­an um 9,1% á tíma­bil­inu ág­úst til októ­ber. Sam­spil auk­ins inn­flutn­ings er­lendra búvara og hruns í komu ferðamanna skap­ar eitrað sam­spil á kjöt­markaði. Auk þess hef­ur komið upp ágalli í toll­fram­kvæmd.

Vill ein­hver að ís­lensk­um land­búnaði blæði út?

Nei, ekki á okk­ar vakt. Þær al­mennu aðgerðir sem stjórn­völd hafa þegar farið í nýt­ast bænd­um og afurðastöðvum að tak­mörkuðu leyti. Enda ekki mögu­legt að leggja rekst­ur sem bygg­ist á bú­vöru­fram­leiðslu í tíma­bund­inn dvala. Stjórn­völd verða að bregðast við og þá blasa við tvær meg­in­leiðir; bæta starfs­um­hverfið eða bæta í bein­an stuðning rík­is­ins við bænd­ur.

Það eru tæki­færi til um­bóta í tolla­mál­um sem má skipta í þrennt.

1. Fyr­ir­komu­lag útboða þarf að vera skýrt en jafn­framt þurfa að vera til staðar heim­ild­ir til að bregðast við tíma­bundnu ójafn­vægi og fresta útboðum. Inn­flutn­ing­ur á sam­bæri­legu magni á mat­vöru er­lend­is frá í ár og síðasta ár leiðir ein­fald­lega til mat­ar­sóun­ar og enn verri af­komu bænda og taps á störf­um hjá afurðastöðvum.

2. Toll­skrá þarf að vera í sam­ræmi við alþjóðlega toll­skrá. Það er hag­ur jafnt inn­flytj­enda og bænda að hún sé skýr. Þannig er hægt að kom­ast bæði hjá mis­tök­um og ásök­un­um um vís­vit­andi svindl. Þetta er ekki flókið, ost og aðra mat­vöru sem flutt er til Íslands á að flokka í rétt­an toll­flokk í sam­ræmi við alþjóðlega toll­skrá. Öllu skipt­ir að toll­fram­kvæmd sé rétt þannig að raun­veru­leg toll­vernd sé til staðar í sam­ræmi við ákvæði tolla­laga og milli­ríkja­samn­inga. Þá hef­ur rétt tollaf­greiðsla áhrif á skrán­ingu hagtalna og ákveðna þætti mat­væla­eft­ir­lits.

3. End­ur­skoða þarf tolla­samn­inga við ESB í kjöl­far Brex­it. Það er satt að þegar bráðabirgðafr­íversl­un­ar­samn­ing­ur Íslands og Bret­lands tek­ur gildi munu rík­in veita hvort öðru gagn­kvæma toll­kvóta. Áfram standa samt tolla­samn­ing­ar við ESB, en helm­ing­ur alls kinda­kjöts sem flutt hef­ur verið út fór á Bret­lands­markað og toll­kvót­ar fyr­ir skyr voru fyrst og fremst hugsaðir fyr­ir Bret­land. Með til­komu Brex­it munu þeir tak­mörkuðu toll­kvót­ar sem samið var um fyr­ir ís­lensk­ar bú­vör­ur á Evr­ópu­markaði ekki nýt­ast eins og til stóð. Það er for­sendu­brest­ur.

Ná­granna­lönd­in styðja við land­búnað í far­aldr­in­um

Staða bænda í ná­granna­lönd­un­um er á marg­an hátt betri en á Íslandi, einkum í Nor­egi og aðild­ar­ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins. Stjórn­völd þar hafa mun meiri heim­ild­ir til að grípa til aðgerða vegna tíma­bund­ins ójafn­væg­is á markaði, auk þess sem gripið hef­ur verið til viðamik­illa stuðningsaðgerða.

Þessi aðstöðumun­ur birt­ist með al­menn­um hætti í Nor­egi þar sem bænd­ur og afurðasölu­fyr­ir­tæki eru und­anþegin gild­is­sviði sam­keppn­islaga. Þá hef­ur verið gripið til um­fangs­mik­illa stuðningsaðgerða á meg­in­landi Evr­ópu þar sem bein­ir fjár­styrk­ir og hag­stæð lána­fyr­ir­greiðsla stend­ur bænd­um til boða. Vegna ójafn­væg­is á mörkuðum með land­búnaðar­vör­ur hef­ur verið inn­leidd tíma­bund­in und­anþága frá evr­ópsk­um sam­keppn­is­regl­um fyr­ir land­búnaðinn.

Ganga þyrfti miklu lengra hér á landi

Nú ligg­ur frum­varp land­búnaðarráðherra um tíma­bundn­ar breyt­ing­ar á lagaum­hverfi við út­hlut­un samn­ings­bund­inna toll­kvóta fyr­ir Alþingi. Það er sagt eiga að lág­marka áhrif far­ald­urs­ins á inn­lenda fram­leiðslu land­búnaðar­af­urða og draga úr því tjóni sem inn­lend­ir fram­leiðend­ur hafa nú þegar orðið fyr­ir. Það er vissu­lega skref í rétta átt og viður­kenn­ing á stöðunni en það verður að ganga lengra.

Væri ekki áhrifa­rík­ara að fresta öll­um útboðum toll­kvóta meðan þessi al­var­lega staða er uppi? Til þess þarf vissu­lega laga­breyt­ingu en það mun varla vefjast fyr­ir Alþingi. Þá er ekki eft­ir neinu að bíða með að koma á heim­ild til sam­vinnu á kjöt­markaði eins og þing­menn Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ít­rekað lagt til. Eða drífa í að kanna sér­stak­lega hag­kvæmni og skil­virkni í mat­væla­fram­leiðslu eins og boðað var í yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­inn­ar í til­efni af viðræðum um for­send­ur lífs­kjara­samn­ings­ins í haust.

Þannig væri hægt að bæta stöðuna veru­lega og auðvelda bænd­um sjálf­um að bregðast við, koma í veg fyr­ir mat­ar­sóun og fækk­un starfa í land­inu. Það gæti sparað sam­fé­lag­inu millj­arða. Ef ekki verða um­bæt­ur á starfs­um­hverf­inu þyrfti að stór­auka bein­an rík­is­stuðning til bænda. Varla ætl­umst við til að bænd­ur eigi ein­ir stétta að bera all­an skaðann sem þeir verða fyr­ir vegna heims­far­ald­urs kór­ónu­veiru.

Ein af já­kvæðum áhrif­um ástands­ins er að versl­un í land­inu hef­ur auk­ist. Ætla Sam­tök at­vinnu­lífs­ins virki­lega að leggj­ast gegn því að brugðist verði við vanda bænda í heims­far­aldri?

Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir, alþingismenn Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. desember 2020.

Categories
Fréttir

Er ekki boðið í hlaðborð bænda!

Deila grein

18/11/2020

Er ekki boðið í hlaðborð bænda!

„Hæstv. forseti. Fuglar eru bæði fallegir og skemmtilegir og gaman er að fylgjast með þeim í náttúrunni. En aukið fæðuframboð veldur fjölgun í stofnum. Síðustu ár hefur álft og gæs fjölgað gríðarlega. Fuglarnir vita sínu viti. Þeir sækja í hlaðborð af góðu grasi og kornið sem er í boði bænda en hlaðborðið er reyndar ekki þeim ætlað. Á vissum svæðum hafa álft og gæs hreinlega gleypt í sig alla uppskeruna. Þær eru gjörsamlega lausar við allar áhyggjur af beitarstýringu og lúta eðlilega engum reglum mannanna,“ sagði Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins í dag.

„Ágangur álfta og gæsa veldur bændum miklu fjárhagslegu tjóni. Bændur hafa reynt að verjast ágangi fugla með ýmsum hætti, bæði með sjónrænum og hljóðrænum aðferðum. Þær duga þó skammt þar sem fuglinn er fljótur að venjast fælunum og kemur fljótt aftur í tún og akra. Með vörnunum er aðeins verið að hrekja fuglana tímabundið af ákveðnum svæðum en þeir leita þá gjarnan til næsta bónda. Slík tilfærsla á vandamálinu er ekki skynsamleg lausn til lengdar og er því nauðsynlegt að bregðast við. Þess vegna hefur sú sem hér stendur ásamt fleirum lagt fram þingsályktunartillögu. Þar er lagt til að umhverfis- og auðlindaráðherra útbúi tillögu til tímabundinna og skilyrtra veiða á álft og gæs utan hefðbundins veiðitíma,“ sagði Þórunn.

„Ef ekki verður brugðist við ákalli bænda, um verkfæri til að verja ræktarlönd, má jafnvel búast við að kornrækt leggist af á ákveðnum svæðum. Það fellur engan veginn að hugmyndum um Matvælalandið Ísland. Hér er ekki lögð fram tillaga um að heimila veiðar úti um allt land alla daga heldur einskorðast tillagan við tjónveiðar á afmörkuðu tímabili þegar sýnt er fram á þungar búsifjar. Hér er um að ræða undanþágu til veiða á þeim svæðum þar sem þörf er talin á aðgerðum vegna ágangs og fugla á tún og akra. Samhliða þessu verður einnig gerð áætlun um að tryggja vernd stofnanna. Nýting og vernd þurfa alltaf að vera í jafnvægi,“ sagði Þórunn að lokum.

Categories
Fréttir

„Góðar fréttir fá jafnvel litla athygli“

Deila grein

16/11/2020

„Góðar fréttir fá jafnvel litla athygli“

„Margar stórfréttir renna hjá á þessum skrýtnu tímum sem við lifum nú, en þær lifa stutt og gleymast stundum hratt. Góðar fréttir fá jafnvel litla athygli, en það er einmitt ein slík sem ég vil vekja athygli á. Hún kom fram fyrir nokkru síðan, en til að setja það í samhengi og tímalínu var það um það leyti þegar jörðin skalf hvað harðast,“ sagði Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins í liðinni viku. 

„Sumar fréttir fjölluðu um hve stöku þingmenn hlaupa hratt en aðrar um hve aðrir eru magnaðir í að sitja sem fastast. Sitt sýnist hverjum og allir eru góðir í einhverju en enginn er góður í öllu. En fréttina, sem ég vil draga athygli að, má rekja til þess að mikið óveður skall á landið í lok síðasta árs sem varð m.a. til þess að víðtæk og viðamikil truflun varð á fjarskiptum.“

„Forstjóri Neyðarlínunnar, Þórhallur Ólafsson, kallaði eftir stórátaki til að koma í veg fyrir endurtekningu á þessu ástandi því truflun á fjarskiptum orsakaðist í um 80% tilvika af rafmagnsskorti. Í kjölfarið var skipaður átakshópur um eflingu innviða á flutningskerfi og dreifikerfi raforku og fjarskipta. Markmið hópsins var að kortleggja nauðsynlegar úrbætur á innviðum. Hópurinn lagði m.a. til að traust grunnnet fjarskipta yrði tryggt, m.a. með hliðsjón af aðgengi og öryggi. Fjarskiptasambönd skulu uppfylla þarfir almennings og viðbragðsaðila í neyðartilvikum, t.d. sambærilegu óveðri,“ sagði Þórunn.

„Skemmst er frá því að segja að nú hefur kerfið verið bætt á 60 stöðum, settar hafa verið upp varaaflsstöðvar og færanlegar rafstöðvar eru orðnar 25. Þetta er einungis hluti aðgerða sem lúta að því að bæta búsetuskilyrði um landið allt. Það var því gott að heyra áðurnefndan forstjóra Neyðarlínunnar koma fram í fréttum og segja að nú verði tryggt að landsmenn geti hringt í 112 þótt rafmagnsleysi verði.“

„Hæstv. forseti. Það gerist nefnilega margt gott þessa dagana þótt vissulega reyni á, nú þegar við erum á aukaæfingu í óvissuþoli og þrautseigju. Áfram veginn,“ sagði Þórunn að lokum.

  • Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins 13. nóvember 2020.
Categories
Greinar

For­sendu­brestur tolla­samninga

Deila grein

09/11/2020

For­sendu­brestur tolla­samninga

Ferðamönnum til Íslands hefur fækkað stórlega með tilkomu Covid 19. Hótel og matsölustaðir standa tómir, samdráttur í ferðaþjónustu hefur víða áhrif. Blikur eru á lofti í íslenskum landbúnaði, mun minni sala hefur verið á íslenskum landbúnaðarvörum en í venjulegu árferði. Um er að ræða gríðarlegan samdrátt á markaði en það að er ekki það eina, fyrirséð útganga Breta úr Evrópusambandinu mun hafa áhrif á inn- og útflutning á landbúnaðarvörum sem leiðir til forsendubrests tollasamninga við Evrópusambandið.

Tollasamningur við ESB

Tollasamningur Íslands við ESB hefur stóraukið framboð á innfluttum landbúnaðarvörum, afleiðingar af því hefur verið lækkandi verð til bænda ásamt því að biðtími eftir slátrun hefur aukist þar sem of mikið magn af kjöti hefur verið flutt inn. Því miður hefur lækkandi verð til bænda ekki skilað sér til neytenda í formi lægra vöruverðs. Ísland veitir tollfrjálsa kvóta fyrir um 11-12 kg pr. íbúa af landbúnaðarvörum, en á móti fær Ísland ca. 0.02 kg pr. íbúa Evrópusambandsins. Ekki er hægt að sjá að þessi samningur mjög hagstæður fyrir íslenskan landbúnað. Gríðarleg aukning hefur verið á tollkvótum fyrir ferskt og frosið nauta-, svína, og alifuglakjöt eða úr 650 tonnum í 2600 tonn, á móti hefur tollkvóti Íslands til ESB fyrir lambakjöt aukist úr 1850 tonnum í 3000 tonn.

Áhrif Brexit á samninginn

Síðastliðin ár hefur verið meiri útflutningur á lambakjöti og ostum til Bretlands en allra annara landa innan ESB. Meira en helmingur alls útflutnings á kindakjöti til ESB hefur farið á Bretlandsmarkað. Með útgöngu Breta af Evrópumarkaði þá eru samningsforsendur algjörlega brostnar. Þeir takmörkuðu tollkvótar sem samið var um fyrir íslenskar vörur á Evrópumarkaði munu ekki nýtast eins og til stóð, það hlýtur að teljast sem alvarlegur forsendubrestur. Það verður að endurskoða tollasamninga, ekki er hægt að hafa þá óbreytta samhliða því að þurfum svo að semja aukalega við Bretland til viðbótar við þá tollkvóta sem nú eru til staðar.

Afkomubrestur ef ekki er brugðist við

Ef ekkert er að gert þá er nokkuð víst að samkeppnisstaða innlendrar framleiðslu muni versna ásamt því að innlend framleiðsla mun dragast saman. Fyrirséð er að afkomubrestur í greininni muni hafa mikil og varanleg áhrif á íslenskan landbúnað. Það er því brýn nauðsyn að endurskoða tollasamninga við Evrópusambandið ásamt því að grípa til annara nauðsynlegra aðgerða. Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem afurðarstöðvum í kjötiðnaði er veitt undanþága frá samkeppnislögum og þeim heimilað að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu ásamt því að hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Í Noregi eru bændur og afurðarstöðvar með undanþágur frá samkeppnislögum, það ætti því að vera sjálfsagt að veita þessar undanþágur hérlendis.

Það er nauðsynlegt í ljósi aðstæðna að grípa til aðgerða strax til þess að koma í veg fyrir tjón og tryggja hagsmuni íslenskra bænda. Þá þurfum við ávallt og alla daga að vinna að því að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar, með því erum við einnig að teysta atvinnu í landinu. Það hlýtur að vera markmið í sjálfur sér að tryggja fæðuöryggi og skapa atvinnu, þannig vinnum við saman. Áfram veginn.

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Þingflokks Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Lengi lifi ís­lensk kvik­mynda­gerð!

Deila grein

07/10/2020

Lengi lifi ís­lensk kvik­mynda­gerð!

Í dag er ég er glöð því í fyrsta skipti í sögu þessarar þjóðar er lögð fram heildstæð stefna íslenskra stjórnvalda í kvikmyndagerð. Því ber að fagna. Íslenskri kvikmyndagerð hefur fleygt fram og er nú í hæsta gæðaflokki. Það færi verðum við að nýta. Í stefnu Framsóknarflokksins er lögð áhersla á að styðja við skapandi greinar, listir og menningarstarfsemi, ekki síst vegna þess að sýnt hefur verið fram á að slíkur stuðningur skilar sér margfalt til baka til samfélagsins. Lilja Dögg Alfreðsdóttir Mennta og menningarmálaráðherra Framsóknarflokksins hefur komið áherslum flokksins áfram með myndarlegri kvikmyndarstefnu sem ber nafnið Kvikmyndastefna til ársins 2030 – listgrein á tímamótum.

Ísland land tækifæranna

Markmiðið með kvikmyndastefnunni er að auðga kvikmyndarmennningu, sem styrkir sjálfsmynd þjóðarinnar og eflir íslenska tungu. Bjóða á uppá fjölbreyttari og metnaðarfyllri kvikmyndamenntun, styrkja samkeppnisstöðu greinarinnar og styðja við að Ísland verði þekkt alþjóðlegt vörumerki á sviði kvikmyndagerðar. Stefnan er komin, nú þurfum við bara að vinna saman og ná þessum markmiðum. Við Íslendingar getum verið stoltir yfir þeim góðu listamönnum sem hér búa, það er ekki sjálfgefið að svo fámenn þjóð eigi jafn marga frambærilega listamenn. Með auknu framboði í námi í kvikmyndagerð verður stuðlað að áframhaldandi vexti íslenskra listamanna.

Kvikmyndagerð skapar atvinnu

Kvikmyndagerð er listgrein en hún er líka svo miklu meiri en það. Hún er ört vaxandi iðngrein sem hefur alla burði til að styðja við verðmætasköpun og samkeppnishæfni þjóðarbúsins á næstu árum og áratugum. Kvikmyndagerð skapar umtalsverð verðmæti fyrir ríkissjóð, skapar á fjórða þúsund beinna og afleiddra starfa og laðar að erlenda fjárfestingu. Á bakvið eina bíómynd eru mörg handtök og mörg sérhæfð störf lista- og kvikmyndagerðarmanna en við framleiðslu á kvikmynd skapast fjöldi annarra afleiddra starfa. Með því að laða til landsins stór erlend verkefni styður það enn frekar við íslenska ferðaþjónustu út um allt land hvort sem um er að ræða t.d. gistiheimili, hótel, leiðsögumenn, bílaleigur eða veitingastaði. Er þá ótalinn öll sú landkynningin sem kvikmyndagerð getur fært okkur til framtíðar. Allt helst þetta í hendur. Áfram veginn!

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokks.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. október 2020.

Categories
Fréttir

Munu bændur einir sitja uppi með þetta tjón?

Deila grein

05/10/2020

Munu bændur einir sitja uppi með þetta tjón?

Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður og formaður Þingflokks Framsóknarmanna, hefur kallað eftir svörum frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvort ekki verði séð til þess að aukið fjármagn verði sett í Bjargráðasjóð. Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

„Óveðrið sem gekk yfir landið i desember í fyrra hafði miklar og afleiðingar eins og okkur er öllum kunnugt. Ríkið brást hratt við og gengið hefur verið í mikilvæga vinnu varðandi t.d. rafmagnsmál. Vinnu við að koma rafmagni í jörð hefur verið hraðað og munu um 250 km. komast í jörð á þessu ári. Landsmönnum hefur því verið tryggt meira öryggi og aukin lífsgæði. Ætla verður að þetta styrki byggð um land allt.,“ sagði Þórunn.

„En veðurofsinn kubbaði niður girðingar á stórum landsvæðum og eru girðingar stór kostnaðarliður á hverju búi. Til viðbótar kom í ljós kal í túnum á stórum svæðum norðan- og austanlands. Samkvæmt mínum heimildum eru svæði þar sem í raun enginn sleppur við kalskemmdir,“ sagði Þórunn.

Bændur brugðust við með því að endurvinna tún og ræktun en veðráttan var áfram erfið og á Norðurlandi var vorið afar þurrt og stór hluti endurvinnslunnar mistókst af þeim sökum. Þá hefur ágangur gæsa og álfta einnig verið mikill.

„Nú er staðan sú að margir eru tæpir á hey og þurfa því að taka ákvörðun um hvort mæta eigi því með fækkun á búfé eða hvort kosta eigi upp á kostnaðarsöm heykaup. Heyrist mér bændur ekki allir bjartsýnir á að hið opinbera komi að þessu með þeim því ekki hefur verið sett aukið fjármagn í Bjargráðasjóð. Síðast var sótt um aukafjármagn í hann árið 2013. 

Sýnist mér regla vera sú að alltaf þegar áföll hafa orðið þá hafi verið sótt um aukaframlög. Stjórnvöld hafa farið þá leið að safna ekki upp fjármunum í sjóðinn en alltaf komið til aðstoðar þegar áföll hafa orðið.“

Fyrir Bjargráðasjóði eru nú umsóknir vegna 4700 hektara  af kalskemmdum og eins umsóknir vegna um 200 km. af girðingum.

„Ég vil því spyrja hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að aukið fjármagn verði sett í Bjargráðasjóð, því ekki trúi ég því að bændur eigi að sitja einir með þetta tjón,“ sagði Þórunn að lokum.

Categories
Greinar

Byltingar­kennd lausn

Deila grein

04/09/2020

Byltingar­kennd lausn

Alþingi hefur samþykkt frumvarp um hlutdeildarlán, þau eru byltingarkennd lausn á húsnæðismarkaði og kemur til móts við ungt fólk og tekjulága. Markmiðið með lögunum er að auðvelda þessum hópi að eignast sína fyrstu íbúð. Húsnæðismál hafa verið eitt af helstu áherslumálum Framsóknarflokksins í gegnum tíðina, áhersla flokksins hefur verið að allir eigi rétt á að eignast tryggt heimili óháð fjárhagsstöðu. Það eru sjálfsögð mannréttindi og hluti af grunnþörfum einstaklinga og fjölskyldna að eiga öruggt þak yfir höfuðið. Í langan tíma hefur ungt fólk átt í erfiðleikum með að eignast heimili og fjölskyldur sem misstu húsnæðið sitt í hruninu hafa verið fastar á leigumarkaði.

Með hlutdeildarlánum veitir ríkið 20% viðbótarlán fyrir húsnæðiskaup sem endurgreitt er við sölu eignarinnar, kaupandi þarf aðeins að leggja út eigið fé sem nemur að lágmarki 5%. Með þessu er verið að brúa bil á milli lána sem veitt eru af fjármálafyrirtækjum eða lífeyrissjóðum og kaupverðs. Nú er því komin raunverulegur möguleiki fyrir tekjulága fyrstu kaupendur að eignast húsnæði. Hlutdeildarlánin bera hvorki vexti né afborganir á lánstímanum heldur fylgja þau fasteigninni og endurgreiðast við sölu eða 25 árum frá lántöku, er þá miðið við sama hlutfall af verðmæti eignarinnar og upphafleg lánveiting hljóðaði uppá.

Með hlutdeildarlánum er Húsnæðis- og mannvirkjastofnun veitt heimild til að veita lán til fyrstu kaupenda og kaupenda sem ekki hafa átt fasteign síðastliðin fimm ár og hafa tekjur undir 7.560.000 kr. á ári miðað við einstakling eða 10.560.000 kr. samanlagt fyrir hjón á ári miðað við síðastliðna 12 mánuði. Við þá fjárhæð bætast 1.560.000 kr. fyrir hvert barn eða ungmenni fram að 20 ára sem býr á heimilinu. Aðeins er lánað fyrir nýjum íbúðum en heimilað verður að veita hlutdeildarlán til kaupa á hagkvæmum íbúðum í eldra húsnæði utan höfuðborgarsvæðisins sem hlotið hefur gagngerar endurbætur, enda sé ástand þeirra þannig að jafna megi til nýrrar íbúðar. Með þessari leið skapast aukin hvati til þess að byggja hagkvæmar og góðar íbúðir sem henta fyrir þennan hóp. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telur þessa leið ekki þess valdandi að lækka húsnæðisverð þar sem áætlað er að um fjórum milljörðum króna verði varið árlega við kaup á fjögur til fimmhundruð íbúðum.

Í alltof langan tíma hafa tekjulágir setið eftir læstir inni í viðjum oft og tíðum ósanngjarns leigumarkaðar og ekki átt möguleika á að koma sér upp eigin húsnæði fyrir. Við hljótum öll að fagna því að þessi hópur hefur nú raunverulegan möguleika á að koma sér upp húsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína. Til hamingju Ísland áfram veginn.

Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi og formaður Þingflokks Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. september 2020.