Categories
Fréttir

„Góðar fréttir fá jafnvel litla athygli“

„Skemmst er frá því að segja að nú hefur kerfið verið bætt á 60 stöðum, settar hafa verið upp varaaflsstöðvar og færanlegar rafstöðvar eru orðnar 25. Þetta er einungis hluti aðgerða sem lúta að því að bæta búsetuskilyrði um landið allt. Það var því gott að heyra áðurnefndan forstjóra Neyðarlínunnar koma fram í fréttum og segja að nú verði tryggt að landsmenn geti hringt í 112 þótt rafmagnsleysi verði.“

Deila grein

16/11/2020

„Góðar fréttir fá jafnvel litla athygli“

„Margar stórfréttir renna hjá á þessum skrýtnu tímum sem við lifum nú, en þær lifa stutt og gleymast stundum hratt. Góðar fréttir fá jafnvel litla athygli, en það er einmitt ein slík sem ég vil vekja athygli á. Hún kom fram fyrir nokkru síðan, en til að setja það í samhengi og tímalínu var það um það leyti þegar jörðin skalf hvað harðast,“ sagði Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins í liðinni viku. 

„Sumar fréttir fjölluðu um hve stöku þingmenn hlaupa hratt en aðrar um hve aðrir eru magnaðir í að sitja sem fastast. Sitt sýnist hverjum og allir eru góðir í einhverju en enginn er góður í öllu. En fréttina, sem ég vil draga athygli að, má rekja til þess að mikið óveður skall á landið í lok síðasta árs sem varð m.a. til þess að víðtæk og viðamikil truflun varð á fjarskiptum.“

„Forstjóri Neyðarlínunnar, Þórhallur Ólafsson, kallaði eftir stórátaki til að koma í veg fyrir endurtekningu á þessu ástandi því truflun á fjarskiptum orsakaðist í um 80% tilvika af rafmagnsskorti. Í kjölfarið var skipaður átakshópur um eflingu innviða á flutningskerfi og dreifikerfi raforku og fjarskipta. Markmið hópsins var að kortleggja nauðsynlegar úrbætur á innviðum. Hópurinn lagði m.a. til að traust grunnnet fjarskipta yrði tryggt, m.a. með hliðsjón af aðgengi og öryggi. Fjarskiptasambönd skulu uppfylla þarfir almennings og viðbragðsaðila í neyðartilvikum, t.d. sambærilegu óveðri,“ sagði Þórunn.

„Skemmst er frá því að segja að nú hefur kerfið verið bætt á 60 stöðum, settar hafa verið upp varaaflsstöðvar og færanlegar rafstöðvar eru orðnar 25. Þetta er einungis hluti aðgerða sem lúta að því að bæta búsetuskilyrði um landið allt. Það var því gott að heyra áðurnefndan forstjóra Neyðarlínunnar koma fram í fréttum og segja að nú verði tryggt að landsmenn geti hringt í 112 þótt rafmagnsleysi verði.“

„Hæstv. forseti. Það gerist nefnilega margt gott þessa dagana þótt vissulega reyni á, nú þegar við erum á aukaæfingu í óvissuþoli og þrautseigju. Áfram veginn,“ sagði Þórunn að lokum.

  • Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins 13. nóvember 2020.