Fasteignagjöld sveitarfélaganna hafa verið mikið til umræðu undanfarna daga og ekki að ósekju. Fasteignamat fyrir árið 2023 hefur hækkað um tugi prósenta um allt land og miðað við óbreytt álagningarhlutfall þá leiðir hækkun fasteignamats sjálfkrafa til aukinnar skattheimtu óháð öðrum þáttum, s.s. launaþróun á viðkomandi svæði, íbúaþróun eða hvort þjónustuþörf hefur aukist að ráði. Þetta er óheppilegt fyrirkomulag þegar sveiflur eru miklar og fyrirsjáanleikinn lítill sem enginn, hvorki fyrir íbúa sem skattgreiðendur eða fyrir sveitarfélögin sem þurfa að skipuleggja sín útgjöld.
Álögur á húseigendur og fyrirtæki aukast um 400 milljónir
Milli áranna 2022 og 2023 hækkar fasteignamat atvinnuhúsnæðis á Akureyri um 11,7% og íbúðarhúsnæðis um 25,6%. Miðað við óbreytta álagningarprósentu má gera ráð fyrir að tekjur Akureyrarbæjar gætu aukist um tæpar 400 milljónir króna vegna fasteignaskatts á árinu 2023 frá árinu í ár. Með öðrum orðum, heimilin taka á sig aukna og ófyrirséða byrði og fjölskyldur greiða hærra hlutfall af tekjum sínum í fasteignaskatt. Skattbyrði fyrirtækjanna hér í bæ þyngist að sama skapi og fátt sem kemur á móti í rekstrarumhverfi þeirra sem auðveldar þeim að standa undir þessari auknu byrði.
Eiga heimili inni lækkun hjá Akureyrarbæ?
Þegar borin eru saman átta fjölmennustu sveitarfélögin, með 10.000 íbúa eða fleiri, kemur í ljós að Akureyri trónir á toppnum með hæstu álagningarprósentu fasteignaskatts íbúðarhúsnæðis. Sé horft til síðustu fimm ára og skoðað hver þróunin hefur verið þá er ljóst að hún miðar heilt yfir í sömu átt og þá að sveitarfélögin hafa verið að lækka fasteignaskattsálagninguna. Akureyrarbær rekur hins vegar lestina hvað þessa þróun varðar, þ.e.a.s. fyrir utan Reykjavíkurborg sem hefur framan af verið með lægsta álagningarhlutfallið. Meðaltalslækkun álagningarhlutfalls á 5 ára tímabili hjá hinum sveitarfélögunum er 17,8% en hjá Akureyrarbæ er lækkunin á sama tíma aðeins 5,7%.
Ef við setjum okkur í hóp með fjórum fjölmennustu sveitarfélögunum (Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Reykjanesbæ) þá hefur álagður fasteignaskattur hlutfallslega hækkað mest hjá Akureyrarbæ á þessu sama tímabili. Tekjur vegna fasteignaskatta hafa með öðrum orðum aukist meira hér þrátt fyrir þá staðreynd að fólksfjölgun hefur verið hægari en í hinum sveitarfélögum, ef frá er talinn Hafnarfjörður, sem gerir samanburðinn enn óhagstæðari fyrir Akureyri. Ef við horfum til næstu þriggja sveitarfélaga á eftir okkur í stærð (Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Árborgar) þá hafa tekjur þeirra vegna fasteignaskatta aukist meira í samanburði við Akureyri, en þar hefur fólksfjölgun hins vegar verið mun hraðari, sem skýrir að stórum hluta auknar tekjur.
Við skerum okkur því sannarlega úr og ekki víst að það sé jákvæður samanburður. Það er vissulega einn af grunnþáttum í starfi bæjarstjórnar að ábyrg fjármálastjórn sé höfð að leiðarljósi. Það ætti þó ekki síður að vera kappsmál bæjarfulltrúa að gæta hófs í gjaldtöku og skattheimtu á íbúa – og á einhverjum tímapunkti hlýtur það að vera sanngirnismál að sækja ekki síauknar tekjur frá heimilum og fyrirtækjum frá ári til árs. Við vitum ekki enn hvaða ákvörðun önnur fjölmennari sveitarfélög koma til með að taka í sinni fjárhagsáætlanagerð en kjörnir fulltrúar flestra þeirra sveitarfélaga sem hér hafa verið nefnd gáfu það þó út í vor að álagningarprósentan yrði lækkuð í takt við hækkun fasteignamats.
Getum við lækkað fasteignaskatta?
Ein stærsta áskorunin í þeirri fjárhagsáætlanagerð sem nú stendur yfir er vaxtaumhverfi núlíðandi stundar. Rétt viðbrögð við þeirri áskorun er hins vegar að fara varlega í fjárfestingar sem kalla á miklar lántökur, aukinn rekstrarkostnað og aukinn fjármagnskostnað. Rétt viðbrögð, gagnvart íbúum okkar, er að horfa til mótvægisaðgerða sem verja lífskjör heimilanna. Í núverandi vaxta- og verðbólguumhverfi þá eigum við að horfa til þess hvort við getum lækkað álagningarhlutfall fasteignagjalda til móts við hækkun fasteignamats, þannig að álagningin, að teknu tilliti til verðlags, hækki ekki milli ára.
Í vikunni var fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árin 2023 – 2026 lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir óbreyttri álagningarprósentu fasteignaskatts og þar með auknum útgjöldum heimila og fyrirtækja. Við bæjarfulltrúar Framsóknar lögðum hins vegar til að þetta yrði endurskoðað áður en fjárhagsáætlunin er lögð fram til seinni umræðu. Ég á raunar ekki von á öðru en að meirihlutinn skoði það vel og leiti leiða til þess að lækka álögur á bæjarbúa, enda gefur málefnasamningurinn frá í vor ekki tilefni til annars en bjartsýni í þeim efnum.
Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.
Greinin birtist fyrst á akureyri.net 2. nóvember 2022.