Árás Hamas-liða á Ísrael sl. laugardag á Tóra-helgidegi Gyðinga hefur hrundið af stað atburðarás sem ekki sér fyrir endann á. Ísraelsku þjóðinni er afar brugðið og hefur Yaakov Nagal, fyrrverandi yfirmaður þjóðaröryggisráðs Ísraels, líkt árásinni við árás Japana á Pearl Harbor og svo 11. september. Tvennt er líkt við þá atburðarrás; annars vegar að árásin kom Ísraelsher algjörlega á óvart og hins vegar að mannfallið var mjög umfangsmikið en þúsundir hafa látið lífið eða særst yfir helgina. Utanríkisráðherrann okkar brást hratt við og lét tryggja að íslenskir ríkisborgarar næðu að komast heim. Er það vel.
Langvarandi átök og óvænt árás
Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs hafa verið mjög umfangsmikil og ástandinu oft líkt við púðurtunnu. Stríð hafa oft verið háð á svæðinu og mikil spenna ríkt þar. Á árunum 2005-2006 yfirgáfu Ísraelsmenn Gasasvæðið og hafa að miklu leyti haldið sig frá daglegum málum á Gasa. Árás Hamas-liða um liðna helgi er sú mannskæðasta sem gerð hefur verið á Ísrael frá stofnun ríkisins árið 1948. Þetta er því stórkostlegt áfall fyrir alla þjóðina. Ísraelar hafa lengi lagt mikinn metnað í leyniþjónustustofnanir sínar sem ísraelskur almenningur hefur borið traust til. Samt sem áður ná Hamas-samtökin að skipuleggja og framkvæma flókna og margþætta árás og ráðast yfir landamæri sem Ísraelar töldu örugg. Þau spor hræða óneitanlega í ljósi þess sem gerðist nánast sléttum 50 árum fyrr, þegar Yom Kippur-stríðið braust út með innrás nágrannaþjóða í Ísrael, sem kom Ísraelum algjörlega í opna skjöldu. Sigur Ísraels í því stríði leiddi til þess á endanum að Arabaríki beittu olíuvopninu í fyrsta sinn, drógu úr framleiðslu og hindruðu auk þess útflutning á olíu til Vesturlanda. Þessi atburðarás magnaði verðbólguna sem þegar var komin á kreik á áttunda áratugnum og einkenndi þann áratug. Undanfarið hafa stjórnvöld í Ísrael verið að einblína á ógnanir frá Íran og málefnum Sýrlands. Á sama tíma hafa ísraelsk stjórnvöld verið að semja við Sameinuðu arabísku furstadæmin og Sádi-Arabíu um aukna samvinnu. Það virðist vera að Ísraelar hafi talið ástandið í Palestínu vera stöðugra en raunin var. Óttinn fram undan er að sá árangur sem náðst hefur á síðustu árum í átt að friðsamari Mið-Austurlöndum sé fyrir bí. Við blasir að stigmögnun á þessum átökum getur orðið mikil sem hefur í för með sér mjög slæmar afleiðingar fyrir alþjóðasamfélagið. Það er mikilvægt að stríðið breiðist ekki út og að nágrannaríki eða herskáir hópar þaðan dragist ekki inn í átökin.
Miklar áskoranir í alþjóðamálum
Innrásarstríð Rússa í Úkraínu hefur reynst mikil áraun og við erum ekki farin að sjá fyrir endann á því. Mannfallið heldur áfram að vera mjög mikið og skaðleg áhrif þess á hagkerfi beggja ríkja er gríðarleg. Ljóst er að mikið uppbyggingarstarf er fram undan í Úkraínu að loknu stríði. Að sama skapi hefur stríðið reynst Rússlandi mikil áskorun og hefur hagkerfi landsins gjörbreyst. Refsiaðgerðir Vesturlanda hafa reynst þeim þungur baggi. Olíu- og gasútflutningur heldur hins vegar áfram að vera mikilvægur og hefur hækkun á þessum afurðum aukið gjaldeyristekjur Rússlands. Á móti kemur að einka- og samneysla þjóða breytist, sem einkennir lönd í stríðsátökum og veikir hagkerfið stórkostlega. Kína hefur einnig verið að sýna veikleikamerki og ekki lengur mögulegt að stóla á kröftugan hagvöxt sem hefur meðal annars knúið vöxt heimbúskaparins undanfarna áratugi. Hinn geysistóri gjaldeyrisforði landsins er farinn að dragast saman og eftir því er tekið á fjármálamörkuðum. Spenna heldur áfram að einkenna vinnumarkaðinn í Bandaríkjunum og því telja markaðsaðilar að bandaríski seðlabankinn hafi ekki lokið stýrivaxtahækkunum sínum og ljóst er að vextir þurfa áfram að vera háir. Hækkandi vaxtaumhverfi hefur breytt fjármögnunarleiðum fyrirtækja og mun það hafa áhrif á fjárfestingu þegar fram líða stundir. Bandaríska fjármálakerfið hefur ekki farið varhluta af þessum vaxtahækkunum. Ákveðinn doði virðist einkenna lykilhagkerfi í Evrópu. Skuldabréfaálag á Ítalíu hefur hækkað, þar sem hallinn á fjárlögum er mikill ofan á miklar skuldir. Markaðsaðilar hafa áhyggjur af því að skuldastaða Ítalíu sé ósjálfbær og gæti það smitast inn á evrusvæðið. Að sama skapi er hagvöxtur í Þýskalandi lítill og hefur þessi staða áhrif á markaðsvæntingar. Hins vegar er jákvætt að verðbólgan þar er á hraðri niðurleið.
Staða Íslands er sterk
Ísland er stofnaðildarríki Atlantshafsbandalagsins og hefur tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin ásamt því að vera virkt aðildarríki hjá Sameinuðu þjóðunum. Landfræðileg staða Íslands hefur orðið þess valdandi að bandalagsþjóðir hafa lagt mikið upp úr því að vera í virku öryggis- og varnarsamstarfi. Fyrir innrás Rússlands í Úkraínu má segja að öryggis- og varnarmál hafi ekki verði í brennidepil. Það má segja að á einni nóttu hafi veruleiki Evrópuþjóða breyst með óverjanlegri innrás Rússa í Úkraínu. Stríðið sem þar geisar er grimm áminning um að sú samfélagsgerð við búum við hér á vesturhveli jarðar er ekki sjálfsögð.
Átökin í Úkraínu og stríðið í Ísrael hafa afar neikvæð áhrif á alþjóðasamfélagið. Áhrifin eru margskonar. Alþjóðamarkaðir bregðast illa við óstöðugleika og olíuverð hækkaði strax eftir helgina. Hærra olíuverð skilar sér í hærri verðbólgu en vonandi eru þetta skammvinn áhrif. Verð á útflutningsafurðum Úkraínu hefur verið sveiflukennt, sem hefur aukið á óvissu og óstöðugleika í alþjóðahagkerfinu. Þess vegna er afar brýnt að hagstjórnin sé styrk á Íslandi, þegar alþjóðastjórnmálin eru stödd í ólgusjó sem þessum.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. október 2023.