Categories
Fréttir Greinar

Grindavík og samstaða þjóðar

Deila grein

11/11/2025

Grindavík og samstaða þjóðar

Tvö ár eru liðin frá því að Grindavík var rýmd vegna jarðhræringa. Föstudagskvöldið stendur ljóslifandi í minni flestra Íslendinga, en þá þurftu íbúar bæjarins að yfirgefa heimili sín. Slíkir atburðir eru afar þungbærir en sem betur fer fátíðir í sögulegu samhengi. Íbúar Grindavíkur hafa sýnt einstaka þrautseigju og seiglu í þessum aðstæðum, bæði í því að finna sér nýjan samastað en um leið að huga að framtíð síns bæjar. Samstarf og samvinna við íbúa Grindavíkur var afar mikilvæg í öllum þessum hremmingum. Margt gekk vel en sumt hefði verið hægt að gera betur. Aðalatriðið er að þegar vá stendur fyrir dyrum er brýnt að við stöndum saman og setjum okkur í spor annarra.

Saga Grindavíkur er merk en byggð hefur verið þar frá landnámi. Landnámsmenn í Grindavíkurhreppi voru þeir Molda-Gnúpur Hrólfsson og Þórir Vígbjóðsson. Þrátt fyrir hrjóstrugt og vatnssnautt land í gegnum aldirnar, þá nýttu Grindvíkingar sér auðlindir sjávar og fjörunnar til matar og fóðurs. Fiskur, söl, þang, fjörugrös og selir veittu mikilvægan viðbótarafla þegar hey og bithagar brugðust. Með dugnaði gátu Grindvíkingar lifað af í harðbýlu landi. Atvinnulífið hefur ávallt verið öflugt í Grindavík og sést það einna skýrast á öflugum fyrirtækjum bæjarins.

Jarðhræringarnar samtímans eru ekki eina áfallið sem íbúar Grindavíkur hafa þurft að lifa með. Um Jónsmessuleytið árið 1627 varð sá atburður sem lengi sat í minni Grindvíkinga en það var Tyrkjaránið svonefnda. Þá gerðu sjóvíkingar frá Alsír strandhögg á Íslandi, og bar eitt af fjórum skipum þeirra að landi í Grindavík. Talið er að sjóvíkingarnir hafi numið á brott um tólf einstaklinga frá Grindavík, en alls er talið að 400 manns hafi verið rænt af landinu öllu. Framsæknir einstaklingar í Grindavík og víðar á landinu standa fyrir því að minnast þessara atburða á næsta ári.

Þessi misserin er líf smám saman aftur að fæðast í hinum merka bæ Grindavík. Endurreisnin er hafin og afar ánægjulegt sjá dugnaðinn sem er þar á ferð. Ljóst er í mínum huga að fólkið frá Grindavík þurfti að fást við aðstæður sem reyndu gríðarlega á þrek þeirra og sálu. Við sem búum á þessu gjöfula landi en erfiða verðum ávallt að hafa það hugfast að hugsa um náunga okkar og sérstaklega þegar neyð blasir við. Þrátt fyrir að tvö ár séu liðin frá þessum náttúruhamförum eru þau líklega sem heil eilífð í huga þeirra sem þurftu að yfirgefa heimili sín. Ljóð Einars Benediktssonar á vel við:

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. nóvember 2025.

Categories
Fréttir

„Rukkunarleiðangur á meðan atburðirnir eru enn í gangi?“

Deila grein

10/11/2025

„Rukkunarleiðangur á meðan atburðirnir eru enn í gangi?“

Jóhann Friðrik Friðriksson, varaþingmaður, gagnrýndi harðlega á Alþingi áform um að meta varnaraðgerðir almannavarna á Reykjanesi með það fyri augum að þeir aðilar sem nutu þeirra beri hluta kostnaðarins. Hann spurði hvort fjármálaráðherra hygðist „fara í rukkunarleiðangur á Reykjanesi“ á meðan náttúruhamfarir væru enn yfirstandandi.

Í ræðu sinni minnti Jóhann Friðrik á umfang aðgerða á svæðinu undanfarin misseri, byggingu varnargarða, hraunkælingu og varahitaveitur, sem hann sagði hafa reynst „ómetanlegar“ fyrir íbúa Suðurnesja, sem og til verndar Grindavíkurbæ og alþjóðaflugvellinum.

„Í vikunni sem leið bárust fréttir af því að fjármálaráðherra hefði óskað eftir mati á aðgerðum almannavarna á Reykjanesi og þeim verðmætum sem þær björguðu,“ sagði hann og bætti við að samkvæmt tilkynningu teldi ríkissjóður eðlilegt að skoða hvort rétt væri að hagsmunaaðilar á svæðinu bæru hluta kostnaðarins. „Þetta sætir mikilli furðu.“

Jóhann Friðrik ítrekaði að tveir ár væru liðin frá rýmingu Grindavíkur og atburðarásin enn ófyrirsjáanleg. „Það gæti auðvitað byrjað að gjósa seinni partinn eða í kvöld á Reykjanesi,“ sagði hann og varaði við því að hefja kostnaðarúthlutun meðan hættustigið væri enn raunverulegt.

Jóhann Friðrik beindi jafnframt spurningum til ráðherra um umfang fyrirhugaðs mats: „Er það virkilega ætlun að óska eftir upplýsingum frá öllum fyrirtækjum sem nutu góðs af forvarnaaðgerðum almannavarna í neyðarástandi? Hvaða fyrirtæki falla þar undir? Eru það fyrirtæki í Grindavík? Á Keflavíkurflugvelli?“

Jóhann Friðrik velti einnig fyrir sér hvort fordæmi yrðu þá sett gagnvart fyrirtækjum annars staðar á landinu sem notið hefðu snjóflóðavarna eða gert hefðu áætlanir á grundvelli opinberra aðgerða, auk stuðnings sem veittur var í heimsfaraldri. „Mega fyrirtæki í landinu búast við sömu meðferð?“ spurði hann.

Categories
Fréttir

Ingibjörg kallar eftir endurskoðun VSK-laga vegna fjáröflunar björgunarsveita

Deila grein

10/11/2025

Ingibjörg kallar eftir endurskoðun VSK-laga vegna fjáröflunar björgunarsveita

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, hvatti á Alþingi til endurskoðunar á lögum um virðisaukaskatt þannig að starfsemi viðurkenndra heildarsamtaka björgunarsveita, á borð við Slysavarnafélag Landsbjargar, falli ekki lengur undir skattskyldu. Ingibjörg sagði björgunarsveitirnar vera „burðarás í öryggiskerfi þjóðarinnar“ og benti á að rekstur þeirra byggðist alfarið á gjöfum, styrkjum og sjálfboðaliðavinnu.

Ingibjörg minnti á að um land allt starfi 93 björgunarsveitir með rúmlega 3.500 sjálfboðaliðum sem haldi úti þjónustu allan sólarhringinn, árið um kring. Þrátt fyrir það renni umtalsverður hluti af tekjum sem safnast í fjáröflunum til ríkissjóðs í gegnum skatta og gjöld. „Af þeim fjármunum sem sjálfboðaliðar safna til að tryggja öryggi okkar landsmanna rennur fimmtungur í ríkissjóð í stað þess að nýtast óskert til björgunar- og öryggisstarfa,“ sagði hún og vísaði þar sérstaklega til flugeldasölu björgunarsveita.

Ingibjörg nefndi að flugeldasalan væri stærsta einstaka fjáröflun björgunarsveitanna og skilaði allt að 60-70% af sjálfsafla sveitanna; hjá sumum sveitum gæti hlutfallið orðið allt að 90%. Allt þetta starf væri unnið af sjálfboðaliðum án launakostnaðar. Þá minnti hún á árlega sölu Neyðarkallsins, þar sem undanþága frá virðisaukaskatti gildi aðeins í fimm daga. Að þeim tíma loknum þurfi að greiða virðisaukaskatt af seldum Neyðarköllum.

„Í því ljósi vil ég spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann sé reiðubúinn til að láta fara fram endurskoðun laga um virðisaukaskatt varðandi starfsemi viðurkenndra heildarsamtaka björgunarsveita,“ sagði Ingibjörg og lagði áherslu á að fjármunir sem safnast í þágu öryggis og almannavarna nýtist sem mest óskertir.

Í ræðunni minntist hún einnig á Neyðarkall ársins sem er helgað minningu Sigurðar Kristófers, sjálfboðaliða sem lést í slysi við björgunaræfingu í Tungufljóti í fyrra. Hún hvatti almenning til að sýna stuðning í verki með þátttöku í söfnunum björgunarsveita.

Categories
Fréttir

Landsstjórn samþykkir viðmiðunarreglur vegna sveitar- og borgarstjórnarkosninga

Deila grein

10/11/2025

Landsstjórn samþykkir viðmiðunarreglur vegna sveitar- og borgarstjórnarkosninga

Landsstjórn Framsóknar hefur samþykkt samræmdar viðmiðunarreglur um val á framboðslista sem gilda um alla valkosti í öllum sveitarfélögum. Kjördæmaþing, fulltrúaráð eða félagsfundur í hverju sveitarfélagi tekur ákvörðun um aðferð við röðun á lista.

Fjórar leiðir í boði við val frambjóðenda

Sveitarfélög geta valið eina af eftirfarandi aðferðum við val á frambjóðendum: a) rafræn kosning, b) lokað prófkjör, c) uppstilling og d) opið prófkjör. Jafnframt var samþykkt að Kjördæmasambandið í Reykjavík gæti viðhaft tvöfallt kjördæmaþing við val á frambjóðendum.

Aðildarfélög í viðkomandi sveitarfélagi bera ábyrgð á framboði til sveitarstjórnar, ákveða aðferð við val frambjóðenda, sjá um framkvæmd valsins og ganga frá framboðslista. Ef framboð er í samstarfi við aðra flokka eða samtök setur fulltrúaráð/félagsfundur framsóknarfélags reglur um framkvæmd slíks samstarfs.

Landsstjórn samþykkt að ekki skulu vera fleiri en þrír af sama kyni í 5 efstu sætum framboðslistans. Jafnframt gildir að framboðslisti skuli hlutur hvors kyns ekki vera lægri en 40%, nema þegar gagnsæjar og augljósar ástæður eru því til fyrirstöðu.

Kjörskrá lokar 30 dögum fyrir valdag og framboðsfrestur rennur út 15 dögum fyrir valdag.

Hagnýtar upplýsingar vegna framboðsleiðanna:

  • Aðferð við val: rafræn kosning, lokað prófkjör, uppstilling eða opið prófkjör. Tvöfallt kjördæmaþing er heimilt að viðhafa í Reykjavík.
  • Valdagur: dagsetning kosningar í efsta eða efstu sæti.
  • Kjörskrá lokar: 30 dögum fyrir valdag.
  • Framboðsfrestur rennur út: 15 dögum fyrir valdag.
Categories
Fréttir

Sauðagötur Brussel-borgar áhugaverðari?

Deila grein

06/11/2025

Sauðagötur Brussel-borgar áhugaverðari?

„Hvar er planið?“ spurði Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi og krafðist þess að ríkisstjórnin setti fram skýrar og sýnilegar aðgerðir í efnahagsmálum. Hún beindi fyrirspurn sinni að utanríkisráðherra og gagnrýndi aðgerðarleysi stjórnvalda á sama tíma og hún sagði efnahagslífið hafa orðið fyrir „hverju högginu á fætur öðru“.

Ingibjörg lýsti áhyggjum af víðtækum áhrifum á atvinnulíf og heimili og sagði „frostavetur“ hafa færst yfir íslenskt efnahagslíf. „Svo virðist sem hæstv. ráðherra hafi meiri áhuga á því að feta troðnar sauðagötur Brussel-borgar heldur en að bregðast við ástandinu,“ sagði hún.

Röð áfalla og þrenginganna hafa markað síðustu mánuði

Ingibjörg nefndi að starfsemi PCC hefði stöðvast, flugfélagið Play væri fallið, samdráttur hefði orðið í aflaheimildum, nær 70% starfsemi Norðuráls hefði stöðvast og fasteignamarkaðurinn væri „botnfrosinn“. Þá gengju landeldisverkefni hægar en vonir stóðu til, verðbólga væri á uppleið, vextir enn „allt of háir“ og merki væru um aukið atvinnuleysi án þess að hagræðingaraðgerðir sæjust. „Ofan á þetta bætist samdráttur í ferðaþjónustu sem hefur verið ein af burðarstoðum þjóðarbúsins,“ sagði hún og bætti við að „verkstjórnin er hreinlega ekki mætt í vinnu.“

Ingibjörg gagnrýndi skort á stefnu þvert á ráðuneyti og kvað brýnt að ráðast í markvissar aðgerðir til að bregðast við verðbólgu, fjármagnskostnaði og veikingu lykilgreina. „Það virðist sem það sé bara algert stefnuleysi í efnahagsmálum þrátt fyrir öll þessi áföll,“ sagði hún.

Ingibjörg spurði að lokum hvar og hvenær landsmenn mættu sjá „raunverulegar aðgerðir“ til að bregðast við stöðunni. „Spurningin mín er einföld: Hvar er planið?“

Categories
Fréttir

Endurskoðun almannavarnalaga

Deila grein

06/11/2025

Endurskoðun almannavarnalaga

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, beindi athygli að endurskoðun laga um almannavarnir í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi og gagnrýndi að málið hefði ekki enn komið fram þrátt fyrir áætlanir. Hann sagði drátt á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar vera „einhvers konar mælikvarða á … verkstjórn eða alla vega hægagang“ og spurði dómsmálaráðherra hvenær frumvarpið yrði lagt fram.

Sigurður Ingi sagði þingflokk Framsóknar og borgarfulltrúa í Reykjavík hafa heimsótt Rauða krossinn og Landsbjörgu í liðinni viku. Þar hafi verið undirstrikað mikilvægi þess að endurskoðun laganna nái utan um breytt umhverfi almannavarna. „Ég tel þetta vera mjög mikilvægt mál,“ sagði hann og benti á að samkvæmt þingmálaskrá hefði frumvarp átt að koma fram í október.

Varar við „lögreglunálgun“

Sigurður Ingi vakti sérstaka athygli á umsögnum í samráðsgátt stjórnvalda þar sem varað sé við því að færa almannavarnir í auknum mæli undir lögreglu. „Við séum e.t.v. ekki algerlega á réttri leið með því að færa almannavarnir … í sífellt meiri mæli undir lögregluvaldið,“ sagði hann og nefndi að sú nálgun gæti haft áhrif á samvinnu og uppbyggingu eftir áföll.

Hann rifjaði upp ábendingar sem hafi borist úr Vestmannaeyjum í kjölfar eldgossins í Grindavík: Ef núverandi kerfi hefði gilt á sínum tíma væri „ef til vill“ óvíst hvort uppbygging í Eyjum hefði tekist með sama hætti. Þá gagnrýndi hann breytingar á fyrirkomulagi samhæfingar, þar sem Samhæfingarstöðin hefur horfið úr Skógarhlíð. „Það er ekki þessi samstaða allra þeirra aðila sem þarna eru,“ sagði hann.

Verður tekið tillit til umsagna?

Að lokum spurði Sigurður Ingi dómsmálaráðherra hvenær frumvarp um endurskoðun almannavarnalaga kæmi fram og hvort tekið yrði mark á þeim sjónarmiðum sem fram hafi komið í samráðsgáttinni. „Verður tekið tillit til þessara sjónarmiða sem eru úti í samfélaginu?“ spurði hann.

Categories
Greinar

Lagt til að fasteignaskattar hækki ekki á næsta ári

Deila grein

06/11/2025

Lagt til að fasteignaskattar hækki ekki á næsta ári

Nýtt fasteignamat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) fyrir árið 2026 sýnir að hækkunin á Suðurnesjum er meiri en að meðaltali á landsvísu.

Á landsvísu hækkar fasteignamat um 9,2% milli ára, en á Suðurnesjum og Norðurlandi er hækkunin mest.

Í Suðurnesjabæ hækkar fasteignamat íbúðarhúsnæðis að meðaltali um 17,2% um næstu áramót, sem er ein sú mesta hækkun á landinu. Þetta er veruleg hækkun sem kemur á tíma þegar margir íbúar glíma nú þegar við aukinn kostnað vegna vaxta og verðbólgu.

Slík hækkun þýðir í raun að núverandi fasteignagjöld myndu hækka að sama skapi um 17,2 % ef ekki er brugðist við með breytingum á álagningarstuðli fasteignagjaldanna. Það myndi óhjákvæmilega hafa áhrif á fjárhagsstöðu heimilanna í Suðurnesjabæ.

Hækkun fasteignamats hefur einnig áhrif á aðra reiknistuðla í sveitarfélaginu, til dæmis gjaldskrá vatnsveitu Sandgerðis sem er í eigu Suðurnesjabæjar. Þar er gjaldtakan bundin við fasteignamat, en það er hægt að breyta með ákvörðun bæjarstjórnar til að tryggja sanngirni og jafnræði milli íbúa.

Að standa vörð um heimilin í krefjandi efnahagsumhverfi

Á síðasta fundi bæjarstjórnar, þann 5. nóvember 2025, lögðum við – bæjarfulltrúar B-lista Framsóknar ásamt Magnúsi S. Magnússyni – fram tvær tillögur við vinnu fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins fyrir árið 2026.

Á tímum þar sem háir vextir, þrálát verðbólga og mikill kostnaður á húsnæðismarkaði þrýsta á heimilin, viljum við tryggja að sveitarfélagið bæti ekki við þá byrði. Því leggjum við til að fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði í Suðurnesjabæ verði óbreyttir árið 2026.

Efnahagslegt ástand hefur verið krefjandi um langt skeið, háir vextir hafa aukið greiðslubyrði heimila, verðbólga hefur dregið úr ráðstöfunartekjum og húsnæðismarkaðurinn er í ójafnvægi. Við teljum að í slíku ástandi beri sveitarfélaginu að sýna samfélagslega ábyrgð og hófsemi í gjaldtöku. Við leggjum því til að fasteignaskattar hækki ekki árið 2026.

Jafnræði í vatnsgjöldum

Önnur tillaga okkar snýr að því að leiðrétta ósanngjarnt misræmi í vatnsgjöldum milli íbúa í Sandgerði og Garði.

Við leggjum til að sveitarfélagið noti sömu reikni stuðla og HS Veitur í Garðshluta við útreikning á köldu vatni, svo allir íbúar greiði samkvæmt sama kerfi. Það er einfaldlega óeðlilegt að íbúar í sama sveitarfélagi greiði gjöld eftir mismunandi reglum – þar sem annars staðar er miðað við fasteignamat, en annars staðar við rúmmetra.

Slíkt misræmi gengur gegn jafnræði og gagnsæi, og Framsókn mun halda áfram að beita sér fyrir því að réttlæti og samræmi ráði í allri gjaldtöku sveitarfélagsins.

Ábyrgð í þágu íbúa

Við fögnum því að bæjarstjórn samþykkti samhljóða að vísa tillögum okkar til frekari vinnu við fjárhagsáætlun 2026. Það er skref í rétta átt – og vonandi merki um að meirihlutinn sé tilbúinn að taka undir ábyrgðina gagnvart íbúum.

Framsókn í Suðurnesjabæ mun áfram standa vörð um heimilin, hagsmuni íbúa og ábyrga fjármálastjórn sem byggir á jafnræði, hófsemi og heilbrigðri forgangsröðun.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á vf.is 6. nóvember 2025.

Categories
Fréttir

Sjálfbærni lykilatriði í rekstri íslenskra fyrirtækja

Deila grein

06/11/2025

Sjálfbærni lykilatriði í rekstri íslenskra fyrirtækja

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, lagði áherslu á í störfum þingsins að ábyrgir viðskiptahættir og sjálfbær þróun væru „lykilatriði fyrir framtíð íslenskra fyrirtækja“ og að þau yrðu að byggja rekstur sinn á langtímahugsun þrátt fyrir óvissu í efnahagsmálum. Hann sagði að „undanfarið hefur mátt greina ákveðna loftslagsþreytu meðal almennings og fyrirtækja“ og að umræðan um sjálfbærni gæti virst flókin, en það gerði mikilvægi hennar ekki minna.

Þórarinn Ingi benti á að fyrirtæki ættu að horfa inn á við og festa sjálfbærni í sessi sem samkeppnisforskot. „Hún felur einfaldlega í sér að fara vel með það sem okkur er trúað fyrir, fólk, náttúru og verðmæti framtíðarinnar um leið og fyrirtækin skila hagnaði og styrkja samkeppnishæfni sína,“ sagði hann.

Hann gagnrýndi jafnframt að hagræðingartillögur ríkisstjórnarinnar væru enn ókomnar og að óvissa í efnahagsmálum færi vaxandi. Af því leiddi enn ríkari þörf á skýrri stefnu og sjálfbærri verðmætasköpun, sem að hans mati ætti að verða lykilþáttur í nýrri atvinnustefnu stjórnvalda.

Þórarinn Ingi hvatti stjórnvöld til að nýta alþjóðlega vettvanga sem styðja fyrirtæki í umbótum á þessu sviði. Hann nefndi sérstaklega UN Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna og atvinnulífs um ábyrga starfshætti, sem nýlega hafi opnað skrifstofu hér á landi. „Um er að ræða áhrifamesta vettvang heims fyrir ábyrga, hagkvæma og sjálfbæra viðskiptahætti,“ sagði Þórarinn Ingi og beindi erindi sínu m.a. til forsætisráðuneytisins sem fer með verkefnið „Sjálfbært Ísland“.

Þórarinn Ingi minnti á væntingar ungu kynslóðarinnar til vinnustaða: „Unga kynslóðin vill umfram allt vinna fyrir fyrirtæki sem hafa tilgang, sýna ábyrgð og horfa til framtíðar.“

„Ég vil óska UN Global Compact innilega til hamingju með að hafa opnað skrifstofu hér á landi,“ sagði Þórarinn Ingi að lokum.

Categories
Fréttir

„Um hvað eru eiginlega allir þessir fundir?“

Deila grein

05/11/2025

„Um hvað eru eiginlega allir þessir fundir?“

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins að íslenskum læknum sé orðið „mun erfiðara eða nánast ómögulegt“ að komast í sérnám í Svíþjóð vegna breytinga á sænskum reglum. Sagði hún að Svíar geri nú kröfu um að kandídatsári sé lokið í Svíþjóð, en hingað til hafi íslenska kandídatsárið gilt.

Halla Hrund segir þetta hafa alvarleg áhrif á íslenska heilbrigðisþjónustu: „Um helmingur íslenskra lækna sækir nám í Svíþjóð og hlutfallið er enn hærra í skurðlækningum,“ sagði hún og lagði áherslu á að verja þurfi þann farveg sem hefur tryggt að læknar komi heim með menntun frá „einhverjum bestu háskólasjúkrahúsum í heimi“.

Halla Hrund sagði bæði heilbrigðisráðuneytið og utanríkisráðuneytið hafa unnið að málinu „án þess að nokkuð hafi gerst“. Hún minnti jafnframt á að ráðherra háskólamála, utanríkisráðherra og forsætisráðherra hefðu nýverið farið til Svíþjóðar, auk þess sem forseti hafi farið í sérstaka ferð um heilbrigðismál með heilbrigðisráðherra. „Samt tekst ekki að leysa úr því einfalda máli að leyfa íslenskum læknum að halda áfram að fara í sérnám til Svíþjóðar,“ sagði hún og spurði: „Um hvað eru eiginlega allir þessir fundir?“

Halla Hrund hvatti að lokum ríkisstjórnina „til dáða“ og tók fram að samvinna frá minni hluta myndi ekki skorta. Hún spurði jafnframt hvernig stjórnvöld hygðust vernda hagsmuni Íslands á öðrum stórum sviðum ef ekki tækist „að leysa úr slíkum einföldum praktískum málum,“ sagði Halla Hrund að lokum.

Categories
Fréttir Greinar

Frosta­veturinn mikli

Deila grein

05/11/2025

Frosta­veturinn mikli

Það er ekki laust við að það hafi gengið illa hjá ríkisstjórninni að ná heyinu í hlöðu á hinu svokallaða “verðmætasköpunarhausti” sem boðað var af miklum móð seinni part sumars. Ríkisstjórnin virðist þó hafa verið meira spennt fyrir því að ætla að skattleggja atvinnuvegi, sér í lagi þá sem skipta mestu máli fyrir landsbyggðina ef vel gengi í verðmætasköpunarhaustinu. Því hið meinta verðmætasköpunarhaust sem boðað var átti nefnilega að vera upptaktur af skattlagningu á skattlagningu ofan á atvinnuvegina. Það var byrjað með áhlaupi á útgerðina í vor. Kjarnorkuákvæðinu var beitt til að beygja andstöðuna í duftið og svo skáluðu stjórnarliðar vel og vandlega fyrir því að hafa haft útgerðina undir. Þau áttuðu sig kannski ekki að svona hlutir hafa afleiðingar sem eru farnar að birtast nú þegar í uppsögnum starfsfólks, sölu á skipum og lokun á fiskvinnslum.

Það snjóaði snemma

Um það leyti sem verðmætasköpunarhaustið var boðað hjá ríkisstjórninni fóru hins vegar skýin að hrannast upp og fyrstu hretin fóru að gera vart við sig. PCC á Bakka búið að loka og óvíst að það opni aftur, Play fór í þrot, nær 70% af framleiðslugetu álversins á Grundartanga úr leik, fasteignamarkaðurinn botnfrosinn og samdráttur í ferðaþjónustu sem birtist meðal annars í hópuppsögn og minna framboði hjá Icelandair. Einnig er algjör óvissa í lánamálum vegna dóms Hæstaréttar þar sem ríkisstjórnin var ekki tilbúin með aðgerðir til að bregðast við, þrátt fyrir að það hafi legið fyrir mjög lengi að þetta yrði líklega niðurstaðan. Svo ofan í kaupið er verið að bæta hlaðborði af sköttum og álögum á venjulegt fólk í framlögðu fjárlagafrumvarpi. Svo sem vörugjöld á bíla, kílómetragjald og skattlagningu á ferðamenn. Allt þetta er síðan gert í kraft þeirrar sannfæringar að það sé „gott“ fyrir fólk að borga þessa skatta til að auka veg ríkisbáknsins af því að ríkisstjórnin kunni betur að fara með þessa peninga en fólkið í landinu.

Kafaldsbylur

Þegar hretið sem gekk yfir þjóðina var farið að breytast í byl ákvað Frostavetursríkisstjórnin að boða til fundar til að kynna stóran húsnæðispakka. Sem reyndist eftir á að hyggja vera meira í líkingu við smápakka eða skógjöf á aðventunni. Þar var aftur tilkynnt um enn eina skattlagninguna sem í þetta skiptið beinist gegn leigutekjum þeirra einstaklinga sem eiga fleiri en eina íbúð. Sem mun aðeins gera eitt, leigan mun hækka. Sem aftur mun hafa áhrif á vísitölu neysluverðs og skapa hækkandi verðbólgu sem mun þýða enn hærri vexti og lánin hjá almenningi hækka. Það var reyndar einnig tilkynnt að það ætti að byggja nokkur þúsund íbúðir í almenna íbúðakerfinu fyrir venjulegt fólk, það gleymdist bara að taka fram að það kerfi er fyrir fólk undir tekju og eignamörkum og er leigukerfi en ekki eigna fyrirkomulag. Þannig að ríkisstjórnin ætlar að reyna halda fólki á leigumarkaði frekar en að fólk geti eignast eigið húsnæði. En það hefði hún getað gert með því að miða aðgerðir að lækkun verðbólgu og lækkun vaxta.

Átakanlegt aðgerðaleysi

Þegar allt þetta er saman dregið er komin kreppa á Íslandi.

Hundruðir einstaklinga hafa misst vinnuna, fyrirtæki eru byrjuð að fara í þrot, verðbólga hækkar bara, vextir lækka ekki neitt, húsnæðismarkaður og byggingargeirinn að leggjast í dvala og ekkert er gert. Ríkisstjórnin hefur öll vopn í höndum sínum til að snúa þessu við en trú þeirra á sinn eigin sannleika um hvernig samfélaginu skal fyrir komið vefst fyrir þeim. Það þarf nefnilega ennþá að framleiða og búa til verðmæti til þess að standa undir velferð. Verðmætin verða ekki til í ríkissjóði þau verða til hjá fyrirtækjunum í landinu. Ríkisstjórnin gæti til að mynda sett myndarlegt framlag í markaðsetningu í ferðaþjónustu og fjölgað ferðamönnum á ný, aukið gjaldeyristekjur fjölgað störfum o.s.frv. Þetta hefur ferðaþjónustan sjálf meðal annars bent á. Hún gæti líka losað um höft á húsnæðismarkaði með lagasetningu á sveitarfélög til að tryggja framboð á byggingarlóðum og svo margt margt fleira.

Frasapólitíkin hefur náð yfirhöndinni með stórum orðum en engu innihaldi. Það er ekkert plan, sleggjan er horfin og sennilega er hann genginn í garð veturinn sem allir óttuðust; Frostaveturinn mikli.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, ritari Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. nóvember 2025.