Categories
Fréttir Greinar

Ég þarf ekki að læra ís­lensku til að búa hérna

Deila grein

25/10/2025

Ég þarf ekki að læra ís­lensku til að búa hérna

„Ég þarf ekki að læra íslensku til að búa hérna,“ sagði leigubílstjórinn og brosti í baksýnisspeglinum.

Hann hafði búið hér í nokkur ár, talaði varla orð á íslensku en var augljóslega metnaðarfullur og hlýr ungur maður. Hann kom frá Evrópu og í heimalandi sínu hafði hann starfað í slökkviliðinu en kom hingað í leit að betra lífi. Með þrautseigju í byggingarvinnu og leigubílaakstri hafði hann náð því sem marga Íslendinga dreymir um – hann hafði keypt sér íbúð.

Þegar ég spurði hvort hann ætlaði þá að setjast hér að, svaraði hann án hiksta: „Já, Ísland er frábært land, hér er gott að búa.“

En þegar ég spurði hvort hann ætlaði að læra íslensku svaraði: „Við hvern á ég eiginlega að tala? Ég þekki engan Íslending.“

Hann sagðist hafa farið á ýmis námskeiði en aldrei ná að æfa sig. „Vinir mínir eru allir frá öðrum löndum og utan vinnu kemst maður ágætlega af með ensku.“

Byggjum brýr tungumálsins

Ég hugsaði um orð hans lengi eftir ferðina.

Þetta er ekki einstök saga. Ég hef heyrt hana aftur og aftur, sögur fólks sem elskar landið en lifir samt lífi sínu á landinu utan tungumálsins. Við finnum öll að íslenskan á í vök að verjast í daglegu lífi.

Erlendu vinnuafli hefur fjölgað um 50.000 manns á örfáum árum. Hlutfall erlendra íbúa nálgast nú fimmtung þjóðarinnar. Það er hraðari breyting en í flestum Evrópulöndum.

Langflestir koma hingað til að leggja samfélaginu lið, vinna í heilbrigðiskerfinu, byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Þeir eru ómissandi hluti af daglegu lífi okkar. En sú fjölgun reynir á tungumálið, og við finnum það í kringum okkur svo sem í verslunum, á vinnustöðum, í leikskólum og á kaffihúsum.

Þetta er staða sem krefst aðgerða, ekki aðeins fallegra orða. Tyllidagaræður og góðar yfirlýsingar nægja ekki lengur. Nú þarf raunverulegar lausnir – fjölbreyttar, mannlegar og framkvæmanlegar.

Við höfum byggt brýr yfir straumharðar jökulár, en við erum hætt að byggja brýr á milli fólks?

Tungumálið – mikilvægasti innviðurinn okkar

Við tölum oft um fjárfestingar í innviðum – brýr, vegi og hafnir. Það er eðlilegt; slík mannvirki tengja byggðir saman og gera fólki og fyrirtækjum kleift að skapa verðmæti. En við gleymum stundum öðrum, jafn mikilvægum innviði: tungumálinu. Það eru brýrnar og vegirnir sem tengja okkur hvert við annað. Góð samskipti og

sameiginlegt tungumál efla skilning, samkennd, traust og kærleika og leggja þannig grunn að samfélaginu sjálfu.

Án þess grunns eykst hættan á klofningi. Þá skapast „við og þið“ menning sem hefur grafið undan samheldni og stöðugleika í mörgum löndum og er þegar farin að gera það hér.

Við þurfum því að bregðast við, af krafti og með fjölbreyttum lausnum, til að efla íslenskuna og þar með samheldni þjóðarinnar. Gerum það núna.

Ein tillaga: Æfingafélagar í spjalli

Í síðustu viku lagði ég fram þingsályktunartillögu um nýja lausn sem gæti orðið bæði félagslega og menningarlega verðmætt. Tillagan felur í sér að gefa eldri borgurum, sem þess óska, tækifæri til að afla sér aukatekna án þess að skerða lífeyri eða bætur.

Starfið væri ekki kennsla í hefðbundnum skilningi heldur þátttaka í samtalsþjálfun á skólum og vinnustöðum – að vera eins konar æfingafélagi í íslensku nokkra klukkutíma á viku. Þar gætu myndast falleg tengsl í hversdeginum og hægt væri að ræða um veðrið, fjölskylduna, helgina eða það sem er í fréttunum. Slík samtöl skapa tengsl milli kynslóða og hjálpa fólki að verða virkir þátttakendur í samfélaginu.

Ávinningurinn væri tvíþættur:

  • Eldri borgarar, sem vildu, fengju tækifæri til samveru og öflun aukatekna.
  • Samfélagið allt nyti meiri kynslóðatengsla og tungumálalegrar samheldni.

Sumir spyrja kannski hvort þetta dugi ekki sem sjálfboðastarf. Jú, verkefni á borð við það sem Rauði krossinn hefur staðið fyrir eru til fyrirmyndar. En þegar við horfum á þann hóp, um 50.000 manns, sem hefur sest hér að á undanförnum árum, sjáum við að umfangið er allt annað. Við þurfum skýra hvata og markvissar aðgerðir ef við ætlum að ná árangri á næstu þremur til fimm árum og snúa þróuninni við.

Slíkt mun kosta fjármagn en það mun kosta samfélagið margfalt meira til lengri tíma að gera ekki neitt.

Belgíska amman mín

Ég hef sjálf upplifað hversu dýrmætt það getur verið að eiga æfingafélaga í nýju tungumáli. Þegar ég bjó í Brussel þekkti ég í fyrstu aðeins Íslendinga sem unnu með mér. Flestir sem ég kynntist voru aðrir útlendingar í svipuðum störfum, og við töluðum saman á ensku.

Mig langaði þó að læra frönsku, sem er eitt af tungumálum borgarinnar, og var svo heppin að kynnast eldri konu sem hafði mikinn áhuga á Íslandi. Við ákváðum að hittast reglulega, ég myndi segja henni frá Íslandi, ef hún myndi spjalla við mig á frönsku.

Þessi kona, sem var enginn formlegur kennari, gerði miklu meira en að hjálpa mér að bæta tungumálakunnáttu mína. Hún hjálpaði mér að fóta mig í nýju landi, kynnti mér menningu Belga og sögu þeirra, og varð að lokum eins konar belgísk amma mín.

Hún var lykill minn inn í samfélagið – og við þurfum marga slíka lykla að okkar eigin samfélagi í dag.

Æfingafélagaleiðin gæti verið einn af þeim sem opna dyr að betra og samheldnara samfélagi.

Aukum metnaðinn – hækkum ránna

Þessi hugmynd er aðeins ein af mörgum sem hægt væri að útfæra og sameina ef við ætlum að ná árangri. Hér má horfa til fjölbreyttra lausna – tækninýjunga eins og Bara tala, bókaútgáfu, málstefnu atvinnuvega, fleiri íslenskukennara, hvata í löggjöf og öflugs undirbúningsnáms fyrir nýja íbúa landsins okkar.

Heilt yfir þurfum við að hækka ránna og gera meiri kröfur bæði til okkar sjálfra og þeirra sem hingað flytja, hvort sem er til skemmri eða lengri dvalar. Æfum okkur í að skipta ekki sjálfkrafa yfir í ensku. Tölum frekar hægt, hjálpumst að og gleymum ekki að hrós og bros gera kraftaverk í samskiptum.

Fyrirtæki sem ráða starfsfólk erlendis frá bera einnig mikla ábyrgð. Það hlýtur að vera framkvæmanlegt að kenna ungu og efnilegu starfsfólki muninn á snúð og kleinu og hvetja það til að panta pulsu og kók á íslensku. Við eigum að gera skýra kröfu um metnað hjá fyrirtækjum og kröfu til löggjafans um hvata til að efla íslenskuna á vinnustöðum.

Sumir vinnustaðir standa sig greinilega betur en aðrir og þar liggja tækifæri til að læra hver af öðrum og miðla því sem virkar.

Hjálpumst að

Enginn ætlast til þess að þeir sem hingað koma tali íslensku fullkomlega, hvorki um hornaföll né heimsspeki. Alls ekki. Við viljum einfaldlega standa vörð um tungumálið, þennan fjársjóð okkar eins og Bubbi myndi segja, til að tryggja samheldni samfélagsins í stað sundrungar.

Sókn enskunnar grefur undan því og á sama tíma höfum við sjálf misst fótanna í íslenskukunnáttu með tilkomu snjallsímanna. Einangrað eyjaumhverfið sem áður verndaði tungumálið gerir það ekki lengur. Nú þarf vilja, hugrekki og styrk til að halda sjó.

Til þess þurfum við að hækka ránna og láta verkin tala. Stjórnvöld verða að fjármagna raunhæfar lausnir sem byggja brýr tungumálsins, mikilvægustu samgönguinnviði framtíðarinnar. En við hin getum líka lagt okkar af mörkum og spurt okkur: Get ég verið hluti af lausninni hvern dag með því að kenna einhverjum nýtt orð?

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. október 2025.

Categories
Fréttir

Alvarleg staða komin upp á lánamarkaði

Deila grein

24/10/2025

Alvarleg staða komin upp á lánamarkaði

Stefán Vagn Stefánsson, fulltrúi Framsóknar í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, hefur óskað eftir fundi í nefndinni til að ræða þá alvarlegu stöðu sem upp er komin á lánamarkaði.

Ljóst er að nýfallinn dómur hæstaréttar hefur skapað óvissu sem brýnt er að eyða.

Frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, svokölluð CRR III reglugerð, mun hafa veruleg áhrif á lánamarkaðinn og þyngja róðurinn fyrir stóran hluta lántakenda. 

Breytt framboð Landsbankans á íbúðalánum varpar skýru ljósi á þær áskoranir sem dómurinn og innleiðing CRR III hefur í för með sér og mun að óbreyttu bitna harkalega á tekjulægri og skuldsettari hluta lántakenda.

Categories
Fréttir Greinar

Suðurnesin eiga að vera sókn nýsköpunar en ekki biðstofa tækifæra

Deila grein

24/10/2025

Suðurnesin eiga að vera sókn nýsköpunar en ekki biðstofa tækifæra

Suðurnes eru einstakt og kraftmikið svæði þar sem stórbrotin náttúra, jarðhiti og brimkennd strönd mætast í seilingarfjarlægð frá höfuðborginni, á sama tíma og Keflavíkurflugvöllur tengir svæðið og landið allt beint við umheiminn. Hér mætast náttúruöfl og nýsköpun, orka og hugvit, fjölbreytt samfélag og vaxandi tækifæri á sviðum menntunar, ferðaþjónustu, orkumála og skapandi greina. En allt er breytingum háð og því ber að tryggja framtíð Suðurnesja sem svæði þekkingar, menntunar og framfara.

Tillaga um Háskólafélag Suðurnesja

Í því ljósi hyggst ég brátt leggja fram tillögu til þingsályktunar um stofnun Háskólafélags Suðurnesja (HFSN). Markmið tillögunnar er að efla menntun, rannsóknir og nýsköpun á Suðurnesjum og tengja saman ríki, sveitarfélög, fyrirtæki, menntastofnanir og almenning í sameiginlegri framtíðarsýn fyrir svæðið.

Háskólafélagið yrði vettvangur samvinnu og þróunar þar sem menntun, atvinnulíf og nýsköpun styðji hvort við annað. Með fjölbreyttari námsleiðum, fjarnámi og símenntun má hækka menntunarstig, efla hæfni fólks á vinnumarkaði og auka samkeppnishæfni svæðisins. Þá gæti félagið tengt saman rannsóknir og atvinnuuppbyggingu, stutt við frumkvöðla og skapað ný störf í takt við græna og stafræna umbreytingu atvinnulífsins.

Svæði tækifæra þrátt fyrir áskoranir

Það er öllum ljóst að fyrirtæki og íbúar Suðurnesja hafa staðið frammi fyrir miklum áskorunum síðustu ár. Jarðhræringar hafa sett líf fjölskyldna í uppnám, atvinnulífið hefur glímt við óvissu og fall flugfélagsins Play minnti á hve viðkvæmt atvinnuumhverfið getur verið.

Auk þess hefur íbúasamsetning svæðisins tekið örum breytingum á síðustu árum, sem kallar á að styrkja samfélagið í sessi með sterkari innviðum.

Umræða sem þarf að eiga sér stað

Vel má vera að önnur útfærsla, heiti eða skipulagsform henti betur til að ná ofangreindum markmiðum. En stofnun Háskólafélags Suðurnesja er raunhæf, framtíðarmiðuð og ábyrg tillaga sem sannarlega verðskuldar rækilega og opinskáa umræðu um hvernig megi tryggja framtíð svæðis sem á allt undir því að menntun, hugvit og samvinna fái að blómstra. Suðurnesin eiga einfaldlega að vera sókn nýsköpunar en ekki biðstofa tækifæra.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á vf.is 23. október 2025.

Categories
Fréttir

Kallar eftir skýrum hagræðingaráformum og aga í ríkisrekstri

Deila grein

23/10/2025

Kallar eftir skýrum hagræðingaráformum og aga í ríkisrekstri

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, hvatti í störfum þingsins ríkisstjórnina til að leggja fram boðuð áform um hagræðingu „eins fljótt og kostur er“ og sagði þau vera lykilforsendu þess að ná viðunandi árangri í ríkisfjármálum á komandi árum.

Þórarinn Ingi benti á að alþjóðleg óvissa hefði áhrif á stöðu ferðaþjónustunnar og að háir vextir gætu „smám saman gera út af við skuldsett fyrirtæki“ auk þess sem þeir kæfðu nýsköpun. „Það má ekkert út af bregða,“ sagði hann og lagði áherslu á að markmið í fjárlögum yrðu að fylgjast eftir í framkvæmd.

Þórarinn Ingi sagði framkvæmd fjárlaga lengi verið „veikur hlekkur“ í opinberri fjármálastjórn. Frávik milli áætlana og rauntalna hafi árum og áratugum saman verið umtalsverð, sem grafi undan trúverðugleika fjárlaga og dragi úr trausti á efnahagsstjórninni. Hann viðurkenndi að áföll eins og jarðhræringar á Reykjanesskaga og Covid-tímabilið hefðu haft sitt að segja, en „hinn almenni ríkisrekstur er ekki nægilega agaður.“

Þórarinn Ingi vill að stjórnvöld rýni sérstaklega hvernig megi bæta framkvæmd fjárlaga, draga úr frávikum og efla eftirlit með útgjöldum. Slíkt sé forsenda þess að hagræðing skili raunverulegum árangri. „Ábyrg hagstjórn felst ekki aðeins í að hagræða heldur að fylgja áætlun og halda aga í ríkisrekstri,“ sagði hann.

Þórarinn Ingi undirstrikaði jafnframt stefnu Framsóknar um jafnvægi „milli hagvaxtar og velferðar, milli aga og sveigjanleika“ og kallaði eftir efnahagsstjórn sem byggði á „ábyrgð, festu og framtíðarsýn þar sem fjárlög og framkvæmd eru framkvæmd af aga og trúverðugleika,“ sagði hann að lokum.

Categories
Fréttir

Hvetur til aukins stuðnings við íþróttastarf ungmenna: „Köstum ekki krónunni fyrir aurinn“

Deila grein

23/10/2025

Hvetur til aukins stuðnings við íþróttastarf ungmenna: „Köstum ekki krónunni fyrir aurinn“

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, lagði í ræðu á Alþingi áherslu á að fjárfesting í íþróttastarfi barna og ungmenna sé „ein sú besta forvörn sem völ er á“ og skili sér „margfalt til baka“. Hún hvatti ríkisstjórnina til að funda með ungmennafélagshreyfingunni um skýrar aðgerðir og aukið fjármagn.

Halla Hrund sagði að fjármunir til íþrótta væru lykilatriði fyrir betri líðan barna, öflugri námsárangri, sterkari félagsleg tengsl og aukna samheldni fólks af ólíkum uppruna. „Ef við erum ekki að styðja við forvarnir og styrkja íþróttahreyfinguna þá erum við augljóslega á rangri leið,“ sagði hún.

Að hennar mati hefur sókn í málaflokknum staðnað, á sama tíma og áhyggjur af andlegri líðan ungmenna aukast. Hún vísaði til lengri biðlista í úrræði og umræðu kennara um ofbeldi í skólum í vikunni sem liðið er. „Biðlistar í úrræði lengjast og agamál … eru líklegri til að ágerast,“ sagði hún.

Halla Hrund benti jafnframt á að rekstur margra minni íþróttafélaga víða um land stæði illa. Hún sagði Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) hafa ítrekað kallað eftir samtali við ríkisstjórnina um fjármagn, skýrar aðgerðir og samvinnu að settu marki.
„Kæra ríkisstjórn ef ykkur er raunverulega alvara í því að bæta líðan barna þá hvet ég ykkur til að funda og ræða við ungmennafélagshreyfinguna… hún veit sínu viti, enda er hún að byggja á sannreyndum aðferðum.“

Að lokum skoraði hún á stjórnvöld að forgangsraða stuðningi við íþróttastarf sem forvarnarstarf og grunn að samfélagslegri samheldni. „Köstum ekki krónunni fyrir aurinn, sýnum heldur öflugan stuðning við íþróttastarf og ræktum þannig líf og land,“ sagði Halla Hrund og vitnaði þar í slagorð UMFÍ.

Categories
Fréttir

Stofnum Háskólafélag Suðurnesja

Deila grein

22/10/2025

Stofnum Háskólafélag Suðurnesja

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, fór í störfum þingsins yfir umræðu á fundi alþingismanna með Samtökum atvinnurekenda á Reykjanesi vegna falls Play, en yfir 400 starfsmenn misstu vinnuna þar. Þá „misstu 120 vinnuna hjá Airport Associates, helmingur veltu veitingafyrirtækisins sem þjónustaði Play gufaði upp, a.m.k. 13 flugvirkjar misstu vinnuna og hótel og aðrir ferðaþjónustuaðilar hafa fundið fyrir samdrætti.“

„Já, áhrifin af falli Play á Reykjanesskaga eru mikil og þau eru ekki öll komin fram.“

Suðurnesin hafa „staðið höllum fæti” með tilliti til menntunar, atvinnuþróunar og álags vegna jarðhræringa.

„Við verðum að hafa í huga að þótt nýr aðili komi inn til að fylla skarð Play þá er það nú þannig að ef sá aðili hefur ekki heimilisfesti hér á landi þá munu staðbundin áhrif ekki vera þau sömu á þjónustu og atvinnusköpun,“ sagði Halla Hrund.

„Við eigum að huga að innviðunum. Við eigum að huga að því hvort það þurfi að flýta Reykjanesbrautinni, hvort þurfi að horfa á Suðurnesjalínu, hvort það þurfi að horfa á viðbygginguna við fjölbrautaskólann,“ enda getur menntun „gripið fólk sem nú hefur misst vinnuna og hjálpað því að koma sterkara inn í samfélagið.“

„Framsókn er að leggja til í samvinnu við fleiri aðila að við stofnum Háskólafélag Suðurnesja, háskólafélag sem er sambærilegt og starfar annars staðar eins og á Suðurlandi og miðar að því að efla nýsköpun, atvinnuþróun og efla rannsóknir þannig að þetta svæði geti verið öflugt,“ sagði Halla Hrund að lokum.

Categories
Fréttir

„Það eru blikur á lofti“

Deila grein

22/10/2025

„Það eru blikur á lofti“

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, gagnrýndi í störfum þingsins skort á skýrum aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar í ljósi versnandi efnahagsumhverfis. Hann vísaði m.a. til nýlegs dóms Hæstaréttar um ólögmæta skilmála banka og sagði óvissu í hagkerfinu hafa aukist vegna hárrar vaxtastigs, þrálátrar verðbólgu og hækkandi kostnaðar á húsnæðismarkaði.

„Það eru blikur á lofti; sterkt gengi krónu, óvissa í ferðaþjónustu, háir vextir, þrálát verðbólga, hátt húsnæðisverð og skortur á trúverðugleika í ríkisfjármálum. Þetta er ekki góð blanda,“ sagði Þórarinn Ingi.

Kallar eftir greinargóðri áætlun

Þórarinn Ingi sagði ríkisrekstur á viðkvæmu stigi og tiltrú á hagstjórn minni en þörf væri á. Hann spurði hvar aðgerðir ríkisstjórnarinnar væru og hvenær þær yrðu birtar. „Alþingi verður að fá skýra mynd af hagræðingarverkefnum ríkisstjórnarinnar án tafar,“ sagði hann og bætti við að aukið aðhald og skilvirkni ríkisins væri „grundvallaratriði efnahagsmála“.

Húsnæðismarkaður undir pressu

Þórarinn Ingi segir að húsnæðismarkaðurinn sýni vel þá stöðu sem uppi sé: byggingarkostnaður hafi hækkað verulega á síðustu tveimur árum, verktakar dragi saman seglin, ný verkefni tefjist og fjármögnun sé of dýr til að arðsemi haldist. „Staðan er ekki sjálfbær,“ sagði hann.

Hvetur til skjótvirkra mótvægisaðgerða

Þórarinn Ingi hvatti ríkisstjórnina til að leggja fram aðgerðir um hagræðingu og skýr áform á húsnæðismarkaði sem fyrst, þannig að unnt verði að ræða þau faglega bæði á Alþingi og með hagsmunaaðilum.

„Ég hvet ríkisstjórnina til að leggja fram aðgerðir um hagræðingu og áform m.a. á húsnæðismarkaði eins fljótt og kostur er,“ sagði hann að lokum.

Categories
Fréttir Greinar

Heimastjórnir og íbúasamtal – lykilatriði í sameiningu Múlaþings

Deila grein

22/10/2025

Heimastjórnir og íbúasamtal – lykilatriði í sameiningu Múlaþings

Í stóru og fjölbreyttu sveitarfélagi eins og Múlaþingi er mikilvægt að tryggja að allir íbúar upplifi sig sem virka þátttakendur. Með sameiningu byggðarlaga fylgir sú áskorun að viðhalda nálægð og trausti milli íbúa og stjórnsýslu, og að ákvarðanir endurspegli raunverulegar þarfir fólks á öllum svæðum. Þar koma heimastjórnir sterkt inn sem lykilverkfæri í lifandi lýðræði og fjölkjarna sveitarfélagi.

Fjölkjarna sveitarfélög og lærdómur fyrir Múlaþing

Í nýrri skýrslu Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri sem ber heitið Fjölkjarna sveitarfélög og unnin var af þeim Hjalta Jóhannessyni og Arnari Þór Jóhannessyni, er fjallað um reynslu sveitarfélaga sem hafa tekið upp heimastjórnir og önnur form íbúalýðræðis eftir sameiningar. Þar kemur fram að Múlaþing sé eitt af þeim sveitarfélögum sem hefur mótað skýrt kerfi heimastjórna til að tryggja tengsl milli íbúa og sveitarstjórnar.

Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar gegna heimastjórnir lykilhlutverki í að viðhalda staðbundinni þátttöku og skilningi á þörfum mismunandi byggðarkjarna. Þar sem heimastjórnir starfa með skýru hlutverki, reglubundnum fundum og góðu upplýsingaflæði, eykst traust, gagnsæi og skilvirkni í ákvarðanatöku. 

Hlutverk heimastjórna

Heimastjórnir eru brú milli sveitarstjórnar og íbúa. Þær tryggja að raddir fólks á öllum svæðum heyrist í stefnumótun og ákvörðunum. Þær byggja á þeirri einföldu, en áhrifaríku hugmynd, að bestu ákvarðanirnar fæðast þegar þær eru teknar í samvinnu við þá sem þekkja málin best, íbúana sjálfa.

Í fjölkjarna sveitarfélagi eins og Múlaþingi, þar sem aðstæður eru ólíkar milli byggðarlaga, er þessi nálægð sérstaklega mikilvæg. Heimastjórnir hjálpa til við að forgangsraða rétt, byggja upp traust og varðveita sérkenni hvers svæðis. Þær geta einnig verið vettvangur fyrir frumkvæði innan sveitarfélagsins, þar sem hugmyndir spretta beint úr samfélaginu sjálfu.

Gildi íbúafunda og samráðs

Skýrslan bendir jafnframt á að íbúalýðræði blómstrar ekki af sjálfu sér, það þarf að skapa vettvang fyrir samtal. Þar koma íbúafundir sterkast inn. Þeir eru ekki einungis upplýsingafundir heldur tækifæri til að ræða, spyrja og móta framtíðarsýn saman. Reglulegir íbúafundir og opið samráð tryggja að ákvarðanir sveitarfélagsins byggist á gagnsæi og þátttöku. Samkvæmt RHA er þetta eitt af lykilatriðunum sem aðgreinir þau fjölkjarna sveitarfélög sem ná árangri frá þeim sem glíma við sundrung og vantraust.

Heimastjórnir og íbúasamtal eru ekki formsatriði heldur hjarta virks sveitarfélags. Þær tryggja að lýðræðið sé lifandi, að ákvarðanir séu teknar í samvinnu og að samfélagið styrkist út frá sínum eigin grunni.

Heimastjórnir hafa boðað til funda tvisvar á ári og hafa þeir fundir reynst okkur afskaplega vel, bæði er hægt að halda kynningar á helstu málum sveitarfélagsins en einnig taka við ábendingum íbúa er varðar hin ýmsu mál. Heimastjórnirnar fjórar eru nú flestar búnar að boða haustfundi með íbúum sínum og ég vil hvetja íbúa okkar til að mæta á sínu svæði, við hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti B-lista og forseti sveitarstjórnar í Múlaþingi.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 21. október 2025.

Categories
Fréttir

„Við þurfum sókn, ekki bara átak“

Deila grein

21/10/2025

„Við þurfum sókn, ekki bara átak“

„Kerecis, Controlant, CCP, Grid, Marel, Meniga og Myrkur Games… þetta eru ekki orð í skrúfu heldur fyrirtæki sem hafa skapað gríðarlega þekkingu og verðmæti fyrir íslenskt samfélag,“ sagði Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, í sérstakri umræðu á Alþingi um stöðu verkfræði-, stærðfræði-, raunvísinda- og náttúruvísindanáms á háskólastigi.

Halla Hrund lagði áherslu á að efling STEM-greina væri lykilforsenda samkeppnishæfni þjóðarbúsins, bæði með hliðsjón af yfirstandandi tæknibyltingu í gervigreind og til að laða ungt fólk aftur heim úr námi. „Ef þessum fyrirtækjum tekst vel til þá græða allir í íslensku samfélagi,“ sagði hún og nefndi m.a. Oculis, Lucinity, Bláa lónið, GeoSilica, 1939 Games og Aldin Dynamics sem dæmi um sprota og vaxtarfyrirtæki sem byggja á STEM-menntun.

Kallar eftir „sókn“ í stað „átaks“

Halla Hrund hvatti menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra til að stilla upp markvissri sóknaráætlun. „Við erum að tala um átak í grunnskólum og framhaldsmenntun, en við þurfum sókn núna því málin breytast hratt,“ sagði hún og óskaði eftir skýrari útfærslu á því hvernig slík sókn myndi birtast og tengjast stuðningi við nýsköpunarumhverfið og atvinnustefnu í mótun.

Grunnurinn þarf að vera sterkur og seiglan skipti máli

Í seinni ræðu sinni þakkaði Halla Hrund fyrir málefnalega umræðu og tók undir ábendingar þingmanna um að grunnfærni í stærðfræði og raungreinum yrði að vera traust. Hún lagði jafnframt áherslu á aga og þrautseigju í námi: „Við þurfum að æfa seigluna, æfa okkur í því sem krefst aga,“ sagði hún og vísaði til innlegga sem bentu á mikilvægi vinnuvana og úthalds.

Auðlindirnar drifkraftur byggðaþróunar

Halla Hrund beindi sérstakri athygli að tækifærum í auðlindatengdri nýsköpun um land allt. „Þetta er sennilega eitt mesta tækifærið fyrir byggðaþróun; auðlindirnar eru dreifðar og því getur verðmætasköpunin orðið það líka,“ sagði hún og nefndi sem dæmi Kerecis og Primex ásamt Bláa lóninu og GeoSilica.

Til að kveikja áhuga ungmenna lagði hún til að skólakerfið og atvinnulífið næðu betur saman með markvissum kynningum og heimsóknum: „Fáum ungt fólk inn á vinnustaðina, sýnum þeim verkefnin og tengjum algebruna við raunveruleg tækifæri. Þá skýrist myndin og þá vegnar okkur vel.“

Categories
Fréttir

Vantar skýrari leiðir þegar bið raungerist

Deila grein

21/10/2025

Vantar skýrari leiðir þegar bið raungerist

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, beindi fyrirspurn til mennta- og barnamálaráðherra um stöðu meðferðarúrræða fyrir börn og ungmenni. Tilefnið er tvö nýleg mál þar sem ungmenni leituðu meðferðar erlendis vegna skorts á viðunandi þjónustu hérlendis.

Ingibjörg sagði að foreldrar hefðu lýst því sem „þungbæru“ að senda börn sín úr landi til að fá lífsnauðsynlega þjónustu. Hún tók undir mikilvægi þess að öll úrræði, heima og erlendis, byggðust á gagnreyndum aðferðum og viðurkenndum stöðlum, en lagði áherslu á að bið eftir innlendum úrræðum mætti ekki verða til þess að börn sættu þjónustuleysi.

„Þegar úrræði eru ekki til staðar innan lands eða þegar börn þurfa að bíða mánuðum saman eftir plássi eða þjónustu, lífsnauðsynlegri þjónustu, þá er mikilvægt að hægt sé að leita einhverra leiða,“ sagði hún og bætti við að ekki væri boðlegt að fjölskyldur stæðu frammi fyrir vali á milli biðar heima eða sjálfsaflaðra lausna erlendis „með tilheyrandi kostnaði og óvissu“.

Ingibjörg minnti á að ráðherra hefði áður vísað til þess að tiltekin erlendu úrræði uppfylltu ekki staðla sem gerðir eru kröfur um fyrir börn og ungmenni, hvorki hér né á Norðurlöndum, sem hún taldi rétt sjónarmið í sjálfu sér. „En það breytir ekki þeirri staðreynd,“ sagði hún, „að þegar innlend úrræði eru ekki til staðar þarf að tryggja samfellda og örugga þjónustu með öðrum hætti þar til þau eru tilbúin.“

Kallar eftir formlegu mati og mögulegri tímabundinni lausn

Ingibjörg lagði þrjár spurningar fyrir ráðherra:

  • Hefur verið metið með formlegum hætti hvort þetta umrædda úrræði uppfylli þá staðla sem við gerum kröfur um?
  • Eru önnur úrræði erlendis sem uppfylla slíka staðla?
  • Ef hægt er að tryggja meðferð erlendis á stofnunum sem uppfylla slíka staðla mun ráðherra þá endurskoða afstöðu sína til þess að veita tímabundinn stuðning við meðferðarúrræði erlendis þegar það er eina raunhæfa leiðin til að tryggja barninu samfellda og örugga þjónustu þar til innlend úrræði eru tilbúin?