Categories
Fréttir Greinar

Grunnur hefur verið lagður fyrir góða framtíð

Deila grein

02/01/2025

Grunnur hefur verið lagður fyrir góða framtíð

Úr útsæ rísa Íslands fjöll
með eld í hjarta þakin mjöll
og brim við björg og sand.
Þó mái tím­inn margra spor
þá man og elsk­ar kyn­slóð vor
sitt fagra föður­land.

Á þess­um kröft­ugu lín­um hefst ljóð Davíðs Stef­áns­son­ar sem flest­ir ef ekki all­ir karla­kór­ar lands­ins hafa ein­hvern tím­ann haft á efn­is­skrám sín­um und­ir lagi Páls Ísólfs­son­ar. Við búum við það, Íslend­ing­ar, að nátt­úr­an er lif­andi og oft á tíðum grimm. Hún er á sama tíma ástæðan fyr­ir vel­sæld okk­ar, ástæðan fyr­ir því gríðarlega stökki sem ís­lenskt sam­fé­lag tók á síðustu öld inn í nú­tím­ann. Þær kyn­slóðir sem fædd­ar voru um og eft­ir alda­mót­in 1900 voru fram­sýn­ar, þær voru dug­leg­ar og við eig­um þeim mikið að þakka. Og við höf­um lært mikið af þeim, ekki síst það að það er eitt að vera fram­sýnn og annað að hafa kraft og þor til að fram­kvæma þær hug­mynd­ir sem kvikna.

Ákalli um breyt­ing­ar var svarað

Ára­mót eru mik­il­væg tíma­mót því þau kalla á að við tök­um okk­ur tíma og pláss til að horfa yfir sviðið, gera upp fortíðina og leggja drög og drauma að framtíðinni. Árið 2024 var mikið um­brota­ár í ís­lensku sam­fé­lagi. Þjóðin kaus sér for­seta í byrj­un sum­ars og síðan brast á með þing­kosn­ing­um í lok nóv­em­ber eft­ir að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn sleit sam­starf­inu við okk­ur í Fram­sókn og Vinstri­hreyf­ing­una – grænt fram­boð. Niðurstaða kosn­ing­anna var af­ger­andi: Rík­is­stjórn­ar­flokk­un­um var hafnað og þeir flokk­ar sem boðuðu breyt­ing­ar unnu sig­ur og hafa nú náð sam­an um rík­is­stjórn. Ég óska þeirri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um og heiti því að Fram­sókn mun stunda öfl­uga og mál­efna­lega stjórn­ar­and­stöðu.

Öflug stjórn við erfiðar aðstæður

Ákallið um breyt­ing­ar var sterkt í kosn­inga­bar­átt­unni. Trú­in á þeirri rík­is­stjórn sem hafði starfað frá haust­inu 2017 hafði dofnað veru­lega enda má segja að síðasta árið hafi þjóðin búið við stjórn­ar­kreppu. Þótt sam­starfið hafi súrnað ansi hratt á síðara kjör­tíma­bili rík­is­stjórn­ar­inn­ar tók­um við í Fram­sókn þá af­stöðu að mik­il­væg­ara væri að ganga hnar­reist til verks og láta ekki sund­ur­lyndi hafa eyðandi áhrif á þau brýnu verk­efni sem flokk­arn­ir þrír höfðu komið sér sam­an um í stjórn­arsátt­mála að hrinda í fram­kvæmd. Við ákváðum, eðli­lega, að láta þjóðar­hag hafa for­gang um­fram hags­muni flokks­ins.

Breyt­ing­arn­ar á þingi eru veru­leg­ar en mik­il nýliðun varð í kosn­ing­un­um. Það var mik­il reynsla sem bjó í síðustu rík­is­stjórn þar sem for­menn stjórn­ar­flokk­anna höfðu all­ir á ein­hverj­um tíma setið í stóli for­sæt­is­ráðherra. Sú reynsla kom sér vel í þeim stór­kost­legu áskor­un­um sem rík­is­stjórn­in stóð frammi fyr­ir á þeim sjö árum sem hún var við völd. Flug­fé­lagið Wow air féll með lát­um á fyrra kjör­tíma­bil­inu. Heims­far­ar­ald­ur geisaði með lam­andi áhrif­um á sam­fé­lag og at­vinnu­líf. Rúss­ar réðust inn í Úkraínu. Og rýma þurfti eitt öfl­ug­asta bæj­ar­fé­lag lands­ins, Grinda­vík, vegna elds­um­brota. Svo eitt­hvað sé nefnt.

Síðustu ár hafa verið ár um­bóta

Ég er stolt­ur af þeim ár­angri sem Fram­sókn náði í störf­um sín­um í rík­is­stjórn frá ár­inu 2017 þegar þetta óvenju­lega stjórn­ar­mynst­ur varð til. Fram­lög til sam­göngu­mála voru stór­auk­in, tíma­móta­sam­komu­lag um upp­bygg­ingu í sam­göng­um á höfuðborg­ar­svæðinu náðist með sam­göngusátt­mál­an­um og und­ir­bún­ings­vinnu á Sunda­braut gekk vel, rann­sókn­ar­vinnu er nán­ast lokið og get­ur útboðsfer­ill farið í gang þegar leiðar­val ligg­ur fyr­ir og breyt­ing á aðal­skipu­lagi hef­ur verið aug­lýst. Þá er Reykja­nes­braut­in að verða tvö­föld allt að Fitj­um í Reykja­nes­bæ, sam­vinnu­verk­efnið um Ölfusár­brú er komið af stað, með verk­efn­inu Ísland ljóstengt, sem ég er einna stolt­ast­ur af á mín­um ferli, hef­ur verið komið á ljós­leiðara­teng­ingu í öll­um sveit­um lands­ins, af­slátt­ur fyr­ir íbúa lands­byggðar­inn­ar með Loft­brú hef­ur fest sig í sessi og byggðamál­in eru orðin mik­il­væg­ur þátt­ur í starfi Stjórn­ar­ráðsins, nokkuð sem ég hef alltaf lagt mikla áherslu á. Und­ir for­ystu Fram­sókn­ar í hús­næðismál­um hef­ur tek­ist að byggja upp nor­rænt hús­næðis­kerfi sem trygg­ir þúsund­um fjöl­skyldna ör­uggt þak yfir höfuðið. Nú rík­ir mun betra jafn­vægi á hús­næðismarkaði en áður og auk þess lagði ríkið til í haust land und­ir bygg­ingu 800 íbúða í Reykja­nes­bæ. Stór­sókn í heil­brigðismál­um hef­ur átt sér stað síðustu árin und­ir stjórn Will­ums Þórs sem hef­ur ekki síst komið fram í jöfn­un aðgeng­is að kerf­inu með samn­ing­um við all­ar heil­brigðis­stétt­ir sem ósamið hafði verið við um ár­araðir, auknu fjár­magni til mála­flokks­ins og bætt­um rekstr­ar­skil­yrðum Land­spít­al­ans. Mark­viss vinna Lilju Dagg­ar í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu í mál­efn­um ferðaþjón­ust­unn­ar, auk­inn stuðning­ur við menn­ingu og list­ir og 35% end­ur­greiðslan hef­ur styrkt stoðir kvik­mynda­gerðar á Íslandi. Ásmund­ur Ein­ar setti mál­efni barna á dag­skrá, ekki síst með far­sæld­ar­lög­un­um sem hafa þegar bætt aðstöðu þeirra barna sem veik­ust eru fyr­ir í ís­lensku sam­fé­lagi og ekki má held­ur gleyma stuðningi hans við íþrótt­irn­ar með nýrri Þjóðar­höll og aukn­um stuðningi við yngri landslið okk­ar. Allt þetta og meira til er á af­reka­skrá Fram­sókn­ar frá ár­inu 2017. Og á þessu geta rík­is­stjórn­ir framtíðar­inn­ar byggt til hags­bóta fyr­ir þjóðina.

Fleiri stoðir þýða aukið jafn­vægi

Staða Íslands er góð, hag­kerfið er því næst í jafn­vægi með hátt at­vinnu­stig, lítið at­vinnu­leysi og framtíðin er björt ef rétt er haldið á spöðunum. Fyrri rík­is­stjórn náði stjórn á verðbólg­unni sem fór á flug eft­ir heims­far­ald­ur og stríð í Úkraínu. Við sjá­um fram á mjúka lend­ingu hag­kerf­is­ins, sjá­um fram á lækk­andi verðbólgu og lægri vexti. Aðhald í rík­is­fjár­mál­um er mik­il­væg­ur þátt­ur í þeim ár­angri sem fyrri rík­is­stjórn náði í bar­átt­unni við verðbólg­una. Það sem var þó ekki síður mik­il­vægt var að með aðkomu hins op­in­bera náðust kjara­samn­ing­ar til fjög­urra ára á al­menn­um markaði.

Gat­an er því nokkuð greið fyr­ir all­hraðar vaxta­lækk­an­ir á nýju ári.

Já, framtíðin er björt. Þeirri rík­is­stjórn sem af­henti val­kyrj­un­um lykl­ana að Stjórn­ar­ráðinu fyr­ir jól tókst að skapa þær aðstæður að nú eru fimm stoðir und­ir efna­hag lands­ins. Hin nýja stoð hug­vits og skap­andi greina er ört vax­andi og veit­ir ekki aðeins aukn­ar tekj­ur inn í þjóðarbúið held­ur skap­ar ný og spenn­andi störf fyr­ir ungt fólk. Fleiri stoðir þýða aukið jafn­vægi, nokkuð sem stefnt hef­ur verið að í lang­an tíma og er nú að nást.

Óvissu­tím­ar

Við lif­um á tím­um þar sem mik­il óvissa rík­ir á alþjóðasviðinu. Það geis­ar styrj­öld í Evr­ópu. Fjölda fólks er fórnað á víg­vell­in­um í Úkraínu. Það er nöt­ur­legt að horfa upp á Rússa, sögu­legt stór­veldi sem nú stend­ur á brauðfót­um og er stýrt af manni sem virðist svíf­ast einskis til að halda stöðu sinni. Hryll­ing­ur­inn á Gasa held­ur áfram. Sýr­land hef­ur losað sig við hinn hræðilega Assad en ástandið er viðkvæmt. Í janú­ar sest á ný í stól for­seta Banda­ríkj­anna maður sem virðist horfa öðrum aug­um á hlut­verk Banda­ríkj­anna í sam­fé­lagi þjóðanna en flest­ir sem í þeim stól hafa setið. Ef sumt af því sem hann hef­ur sagst hafa áform um nær fram að ganga get­ur það haft mik­il áhrif á viðskipti í heim­in­um og þar með á lífs­kjör okk­ar hér á landi. Sam­band okk­ar við Banda­rík­in hef­ur alltaf verið gott og mik­il­vægt er að hlúa að því sama hver sit­ur þar í for­sæti.

Kæri les­andi.

Eitt er það sem mik­il­væg­ast er fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag og það er að öðlast ró og ham­ingju. Árið 2024 ein­kennd­ist af óróa og of­beldi, nokkuð sem við get­um ekki þolað. Við þurf­um að hlúa vel að fjöl­skyld­um, þurf­um að hlúa vel að börn­un­um okk­ar, fyrstu kyn­slóðinni sem elst upp við ótrú­leg­ar breyt­ing­ar sem tækn­in hef­ur gert á sam­skipt­um okk­ar og sam­fé­lagi. Besta leiðin til þess er að hver og einn horfi inn á við, veiti fólk­inu sínu at­hygli og hlýju, leggi á sig það sem þarf til að skapa sterk tengsl við sína nán­ustu. Það kem­ur ekk­ert í staðinn fyr­ir það að eiga góða og sterka fjöl­skyldu sem hægt er að treysta á í lífs­ins ólgu­sjó.

Ég óska þér, les­andi góður, gleðilegs nýs árs. Megi Guð og gæf­an fylgja þér árið 2025.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2024.

Categories
Greinar

Óvissa sem gagnast engum

Deila grein

02/01/2025

Óvissa sem gagnast engum

Í upp­hafi nýs árs ber að óska nýrri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um fyr­ir land og þjóð. Hún tek­ur við góðu búi á marga mæli­kv­arða sem mik­il­vægt er að grafa ekki und­an og rýra. Við lest­ur stefnu­yf­ir­lýs­ing­ar og kynn­ing­ar á þeim verk­efn­um sem rík­is­stjórn Sam­fylk­ing­ar, Viðreisn­ar og Flokks fólks­ins hyggst ráðast í vakna ýms­ar spurn­ing­ar, enda er yf­ir­lýs­ing­in rýr í roðinu miðað við rík­is­stjórn­arsátt­mála fyrri kjör­tíma­bila. Svör um hvert planið er í ýms­um mála­flokk­um eru óskýr eða eng­in. Það voru boðaðar breyt­ing­ar án þess að til­taka á skyn­sam­leg­an hátt í hverju þær ættu að fel­ast og end­ur­spegl­ar stefnu­yf­ir­lýs­ing­in það í veiga­mikl­um atriðum.

Ný rík­is­stjórn boðar auðlinda­gjöld á okk­ar stærstu at­vinnu­grein­ar án þess að hafa mörg svör um hvað á að fel­ast í þeim. Þess­ar at­vinnu­grein­ar hafa drifið áfram hag­vöxt í land­inu og skapað verðmæt­ar út­flutn­ings­tekj­ur í þeirri hörðu alþjóðlegu sam­keppni sem þær búa við. Spor­in hræða vissu­lega þegar kem­ur að þess­um mála­flokk­um, en síðasta vinstri­stjórn Sam­fylk­ing­ar og Vinstri-grænna kjör­tíma­bilið 2009-2013 hóf þá veg­ferð að ætla að um­turna sjáv­ar­út­vegs­kerf­inu með inn­köll­um afla­heim­ilda. Sú veg­ferð varð til þess að fyr­ir­tæki í sjáv­ar­út­vegi fóru að halda að sér hönd­um, frost varð í fjár­fest­ing­um og óvissa skapaðist meðal þeirra þúsunda sem starfa í grein­inni.

Viðreisn hef­ur áður boðað markaðsleið í sjáv­ar­út­vegi sem fól í sér upp­boð á afla­heim­ild­um. Hún var sama marki brennd og sú sem Sam­fylk­ing og Vinstri-græn börðust fyr­ir; um­lukt óvissu. Svo virðist sem Viðreisn hafi stungið þeirri hug­mynd ofan í skúffu, áhuga­vert væri að vita af hverju það er. Það verður að vanda til verka þegar gjald­heimta er boðuð af at­vinnu­líf­inu, en hin óljósa stefna nýrr­ar rík­is­stjórn­ar verður til þess að fyr­ir­tæki í grein­inni halda að sér hönd­um í fjár­fest­ing­um. Það þjón­ar ekki hags­mun­um sam­fé­lags­ins.

Það gleym­ist oft að ís­lensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur er há­tækniiðnaður sem hef­ur borið ís­lenskt hag­kerfi uppi í logni og stormi í gegn­um tíðina. Hann er arðbær og án rík­is­styrkja, ólíkt því sem tíðkast í hinu fyr­ir­heitna landi rík­is­stjórn­ar­inn­ar, Evr­ópu­sam­band­inu. Þá er um­gengni við nytja­stofna sjáv­ar til fyr­ir­mynd­ar og grein­in skil­ar miklu í rík­is­sjóð, meðal ann­ars í formi veiðigjalda. Það fylg­ir því ábyrgð að stjórna landi. Óvissa sem skap­ast með al­gjör­lega óút­færðum hug­mynd­um til gjald­töku af at­vinnu­líf­inu í land­inu gagn­ast eng­um.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Fram­sókn­ar í Norðaust­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. janúar 2025.

Categories
Greinar

Uppgjör við ár áskorana og árangurs í bæjarmálunum í Suðurnesjabæ

Deila grein

23/12/2024

Uppgjör við ár áskorana og árangurs í bæjarmálunum í Suðurnesjabæ

Kæru íbúar í Suðurnesjabæ!

Senn líður að áramótum og tel ég því mikilvægt að líta yfir farinn veg.

Árið hefur verið tíðindamikið á vettvangi stjórnmálanna og ekki síst hér í bæjarpólitíkinni í Suðurnesjabæ. Margt hefur áunnist og erum við í Framsókn(B) stolt af mörgum þeim málum sem við náðum að klára og höfum unnið markvisst að frá kosningunum 2022. Nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks (D) Bæjarlistans(O) og Samfylkingar(S) tók til starfa á 71. fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar, fimmtudaginn 11. júlí 2024. Við í B-lista Framsóknar erum stolt af störfum okkar síðustu tveggja ára í meirihluta Suðurnesjabæjar. Við horfum ánægð yfir farinn veg á þau áherslumál sem flokkurinn kom í framkvæmd. Reynslunni ríkari höldum við áfram og hlökkum til að starfa áfram saman af heilindum fyrir fólkið í Suðurnesjabæ, nú í minnihluta.

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir – stórt framfaraskref

Eitt af áherslumálum Framsóknar í Suðurnesjabæ fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar var að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir fyrir börn. Þessi mikilvæga hugsjón var samþykkt á síðasta fundi mínum sem formaður bæjarráðs í vor, og voru gjaldfrjálsar máltíðir innleiddar í grunnskólum sveitarfélagsins í haust. Við höfum unnið markvisst að hækkun niðurgreiðslna til foreldra og innleitt systkinaafslátt. Svo kom þessi aðgerð til fulls í kjölfar kjarasamningsgerðar og auðvitað fannst okkur það mikilvægt að Suðurnesjabær yrði fyrirmynd og stigi skrefið til fulls, enda eitt af megináherslum okkar í Framsókn.

Við lítum á þetta sem stórt velferðar- og jafnréttismál. Með því að tryggja öllum börnum heita máltíð óháð stöðu foreldra stuðlum við að jafnræði og bætum lífsgæði barna. Á Íslandi er skólaskylda, og því er það eðlileg og réttmæt krafa að grunnskólamenntun sé gjaldfrjáls, án aðgreiningar.

Þetta framfaraskref styrkir samfélagið og tryggir að börn fái nauðsynlega næringu til að læra og þroskast í öruggu umhverfi. Það er ánægjulegt að sjá þessa framtíðarsýn okkar verða að veruleika.

Grettistaki lyft í leikskólamálum

Leikskólamál hafa verið í brennidepli í Suðurnesjabæ, og nú hefur nýr kafli hafist með opnun leikskólans Grænuborgar í Sandgerði. Gamla leikskólahúsnæðið var löngu orðið úrelt, og endurnýjun þess var tímabær og brýn. Við í Framsókn studdum þetta metnaðarfulla verkefni heilshugar, enda markar það stórt framfaraskref í þjónustu við börn og fjölskyldur í bænum.

Grænaborg er sex deilda leikskóli sem býður framúrskarandi aðstöðu fyrir bæði börn og starfsfólk. Skólinn, sem er 1.135 fermetrar að flatarmáli, hefur rúmgott eldhús, stoðrými og veglega aðstöðu fyrir starfsfólk. Leikskólalóðin, sem er 3.800 fermetrar, býður upp á fjölbreytt leiktæki og öruggt umhverfi fyrir börn.

Eftir opnun Grænuborgar hefur öllum börnum sem sótt hafa um pláss verið tryggt leikskólapláss. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir bæjarfélagið og stórt skref í átt að jafnari tækifærum og betri velferð fyrir fjölskyldur í Suðurnesjabæ. Nú þurfum við að huga að samskonar uppbyggingu í Garði og setja í gang markvissa vinnu til að hefja þá vegferð.

Heilbrigðisþjónusta í heimabyggð

Í sveitarstjórnarkosningunum 2022 setti B-listi Framsóknar sér skýr markmið um að þrýsta á ríkið að koma á heilbrigðisþjónustu í Suðurnesjabæ. Sveitarfélagið er það stærsta á landinu sem hefur ekki heilsugæslu. Suðurnesjabær, sem er 4.200 manna sveitarfélag sem varð til við sameiningu Sandgerðis og Garðs árið 2018, hefur séð mikla fjölgun íbúa síðustu ár.

Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa lengi kallað eftir því að heilsugæsluþjónusta verði veitt í sveitarfélaginu. Við í Framsókn hófum tafarlaust samtöl við þáverandi þingmenn okkar í Suðurkjördæmi, Sigurð Inga, fráfarandi fjármálaráðherra, Jóhann Friðrik og Hafdísi Hrönn, til að þrýsta á málið. Einnig áttum við fundi og samtöl við Willum Þór Þórsson, fráfarandi heilbrigðisráðherra. Með miklum samtakamætti og samvinnuhugsjón að leiðarljósi er þetta mikilvæga réttlætismál nú að raungerast – heilbrigðisþjónusta verður brátt í boði í heimabyggð fyrir okkar íbúa. Þann 30. ágúst var undirrituð viljayfirlýsing um opnun heilsugæslustöðvar í Suðurnesjabæ sem mun opna á nýju ári.

Ábyrgð kjörinna fulltrúa mikil

Það er grundvallarskylda okkar, sem störfum í umboði almennings sem kjörnir fulltrúar, að fara vel með fjármuni samfélagsins. Virðing fyrir almannafé krefst ábyrgðar og gagnsæis í allri ákvarðanatöku. Við verðum að spyrja okkur spurninga eins og: Eru þessi útgjöld réttlætanleg? Er verið að hámarka notagildi fjárins? Hvernig mun þessi ákvörðun koma samfélaginu til góða? Óskynsamleg eða óréttmæt ráðstöfun almannafjár getur grafið undan trausti almennings á stjórnvöldum. Það er því hlutverk okkar að tryggja að hver króna sé nýtt á sem skilvirkastan hátt og að forgangsröðun fjárveitinga taki mið af hagsmunum heildarinnar, ekki sérhagsmuna.

Deilur um íþróttamannvirki í Suðurnesjabæ

Undanfarið hefur mikið verið rætt og ritað um fyrirhugaða uppbyggingu íþróttamannvirkja í Suðurnesjabæ. Þetta viðkvæma mál hefur skapað talsverðar deilur og hafði bein áhrif á fall meirihluta Framsóknarflokks(B) og Sjálfstæðisflokks(D) í vor. En hvað olli þessum ágreiningi?

Í fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2024 gerði oddviti D-listans þá kröfu við B-lista að mannvirkið, gervigrasvöllur, yrði sett á dagskrá fjárfestingaráætlunar fyrir árið 2024. Þetta var krafa Sjálfstæðismanna, sem vildu gera ráð fyrir verkefninu á komandi ári. Við í Framsókn töldum þessa kröfu fremur bratta, þar sem verkefnið er mjög fjárfrekt, og ekki væri komin niðurstaða um hvar ætti að reysa það – sérstaklega á sama tíma og við vorum í stórri fjárfestingu vegna byggingar nýs leikskóla.

Samt sem áður var sammælst um að setja 200 milljónir króna í verkefnið fyrir árið 2024 með því skilyrði okkar í Framsókn að ákvörðun um staðsetningu vallarins lægi fyrir í mars/apríl sama ár. Okkur fannst mikilvægt að virða samstarfsflokkinn og setja þetta verkefni inn, þar sem uppbygging íþróttamannvirkja var hluti af málefnasamningi listanna í meirihlutasamstarfinu.

Fyrir lá skýrsla frá verkfræðistofunni Verkís, sem kom út í maí árið 2022. Oddvitar D- og B-lista sammæltust um að setja málið á dagskrá bæjarráðs strax í janúar 2024 til að koma hreyfingu á málið og reyna að ljúka því. Á vinnufundi voru oddvitar D- og B-lista einnig sammála um að eina rökrétta lausnin til að halda kostnaði við rekstur í lágmarki væri að mannvirkið risi á öðrum hvorum aðalvelli Reynis eða Víðis.

Í kjölfar þess lagði knattspyrnufélagið Víðir til aðalvöll sinn fyrir verkefnið, þó hann hefði ekki verið tekinn með í skýrslunni frá Verkís. Var þá ákveðið að fara í svokallaða valkostagreiningu á báðum aðalvöllum félaganna. Verkís var falið að meta báða kosti.

Ef skoðaður er samanburðurinn í valkostagreiningunni, sem verkfræðingar hjá Verkís gerðu á milli aðalvallar Reynis í Sandgerði og aðalvallar Víðis í Garði, sýnir hann að það er mun hagstæðara að byggja gervigrasvöllinn í Sandgerði út frá kostnaðarsjónarmiðum og styrk innviða. Kostnaður við að byggja völlinn í Sandgerði er áætlaður 472 milljónir króna, samanborið við 509 milljónir króna fyrir Garð, sem gerir 36 milljóna króna sparnað. Auk þess eru innviðir eins og félagsheimili og stærri stúka þegar til staðar í Sandgerði, sem dregur úr viðbótarkostnaði. Sandgerði býður einnig upp á fleiri og betri bílastæði og hefur betri aðstöðu fyrir vallarinnviði með tilbúnum tækjageymslum, almenningssalernum og steinsteyptri stúku sem rúmar 340 manns.

Niðurstaðan er því skýr: Sandgerði er bæði skynsamlegri og hagkvæmari kostur fyrir staðsetningu gervigrasvallarins.

Ef við skoðun kostnaðartölur úr skýrslu Verkís sem kom út í maí 2022 er mismunurinn þar á milli malarvallarins í Garði og aðalvelli Reynis í Sandgerði. Þá eru efri mörkin 121.100.000 ISK krónur í mismun og áætlunin er 80.781.000 ISK krónur í mismun á verðlagi í maí 2022. Mismunurinn er því gríðarlega mikill í kostnaðarauka fyrir bæjarsjóð að setja gervigrasvöllinn á malarvöllinn í Garðinum útreiknað af verkfræðingum Verkís.

Bæjarráð fundaði oft og stíft um málið fram á vorið 2024, bæði á formlegum fundum og óformlegum vinnufundum. Sigursveinn Bjarni Jónsson fyrir hönd S-lista lagði fram tillögu í bæjarráði og bæjarstjórn um að reisa ætti mannvirkið á aðalvelli Reynis í Sandgerði. Jónína Magnúsdóttir fyrir hönd O-lista lagði það til á fundi bæjarráðs að mannvirkið ætti að reisa á milli byggðarkjarnanna, en eins og áður hefur komið fram töldu D- og B-listi það óraunhæft vegna mikils kostnaðar, þar sem engir innviðir eru til staðar í miðjunni. Auk þess er eignarhald á þeirri landspildu í blandaðri eigu margra aðila.

Ýmsir aðilar voru kallaðir til, þar á meðal forsvarsmenn íþróttafélaganna Víðis og Reynirs og sérfræðingar sveitarfélagsins á sviði skipulagsmála. Við greiningu á eignarhaldi kom í ljós að aðalvöllur Víðis stendur að hluta til í landi einkaaðila, svokallaðri Miðhúsajörð þar sem sveitarfélagið greiðir umtalsverða lóðarleigu, en aðalvöllur Reynirs er í landi sveitarfélagsins.

Við í Framsókn töldum því þrjár ástæður fyrir því að völlurinn ætti að rísa á aðalvelli Reynis:

  • Skýrsla Verkís.
  • Valkostagreiningin.
  • Yfirráð sveitarfélagsins yfir landinu undir mannvirkið.

Við reyndum hvað við gátum að mynda breiða pólitíska sátt um málið. Þrátt fyrir þetta var tillögum S- og O-lista í bæjarráði og bæjarstjórn, sem beindust í ólíkar áttir, ítrekað frestað. Við sendum Sjálfstæðismönnum skýr skilaboð: Framsóknarflokkurinn styður skýrslu og valkostagreiningu Verkís bæði gögnin og leggur hag bæjarsjóðs til grundvallar. Á þessum tímapunkti voru allir flokkar tilbúnir með sína afstöðu í málinu nema D-listi Sjálfstæðismanna.

Samráðsteymi um gervigras sett á laggirnar til að bjarga meirihlutanum

Oddviti D-listans Einar Jón Pálsson lagði til aðeins 30 mínútum fyrir 139. fund bæjarráðs, haldinn 26. mars 2024, að stofnað yrði samráðsteymi. Þar var oddviti D-listans Einar Jón Pálsson efnislega ósammála oddvita B-listans, Anton Guðmundssyni sem þá var formaður bæjarráðs, og fulltrúa D-listans Magnús Sigfúsi Magnússyni í bæjarráði um efnislega afgreiðslu á málinu. Tilgangur teymisins var að koma með tillögu að lausn á máli gervigrasvallar í Suðurnesjabæ.

Í teyminu voru starfsmenn sveitarfélagsins, fulltrúi frá KSÍ (sem þó var aldrei kallaður til fundar), og forsvarsmenn íþróttafélaganna Víðis og Reynis. Þegar niðurstöður samráðsteymisins lágu fyrir og málið var tekið fyrir í bæjarráði á ný, kom í ljós að bæjarráði hafði ekki borist öll gögn í málinu fyrir fundinn. Þrátt fyrir að þessi gögn hefðu borist stjórnsýslu Suðurnesjabæjar höfðu þau ekki verið sett í fundargáttina.

Meðal þeirra gagna var yfirlýsing frá Ólafi Þór Ólafssyni, formanni aðalstjórnar Reynis, þar sem hann lýsti því yfir að hann hefði ekki haft umboð frá íþróttafélaginu Reyni til að taka ákvarðanir í málinu. Hann hafði því dregið til baka stuðning Reynis við samráðsteymisniðurstöðuna. Samkvæmt pósti sem hann hafði sent öllum í samráðsteyminu ásamt byggingarfulltrúa og bæjarstjóra.

Þessi yfirlýsing hafði afgerandi áhrif á málið. Þar með varð ljóst að verið var að halda gögnum og upplýsingum frá sem höfðu afgerandi áhrif á málið.

Tillaga lögð fram á 143. fundi bæjarráðs 29. maí 2024

Fulltrúar B-lista (Anton Guðmundsson) og D-lista (Magnús S Magnússon) lögðu fram eftirfarandi tillögu:

„Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að íþróttamannvirkið gervigrasvöllur í Suðurnesjabæ fyrir bæði lið sveitarfélagsins verði reist á aðalvellinum í Sandgerði. Allir nauðsynlegir innviðir eru til staðar á aðalvellinum í Sandgerði, eins og til dæmis 340 manna stúka, salernisaðstaða fyrir áhorfendur, vélageymsla og plássgott félagsheimili.

Auk þess leggur bæjarráð til að starfshópur um uppbyggingu íþróttamannvirkja, sem þegar hefur verið skipaður af bæjarráði, geri þarfagreiningu og skili af sér tillögum um uppbyggingu íþróttamannvirkja til næstu ára.

Starfshópurinn hafi það að leiðarljósi að jafnræðis skuli gætt milli byggðakjarna sveitarfélagsins þegar kemur að frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja.“

Bæjarráð þakkaði verkfræðistofunni Verkís ásamt starfsmönnum Suðurnesjabæjar fyrir þeirra framlag í málinu.

Málið fer fyrir bæjarstjórn

Á 70. fundi bæjarstjórnar, þann 5. júní 2024, var tillagan samþykkt með 2 atkvæðum B-lista, 2 atkvæðum S-lista og 1 atkvæði D-lista, gegn 2 atkvæðum O-lista og 2 atkvæðum frá D-lista, að íþróttamannvirkið – gervigrasvöllur – yrði reist á aðalvelli Reynis í Sandgerði.

Þessi ákvörðun var í samræmi við niðurstöður Verkís og valkostagreiningar sem lögðu til þessa staðsetningu út frá kostnaðar- og rekstrarsjónarmiðum. Í kjölfar þessarar samþykktar sprakk meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Nýr meirihluti var myndaður í sveitarfélaginu. Meirihluti Bæjarlistans (O), Samfylkingar (S) og tveggja fulltrúa Sjálfstæðisflokks (D) tók við, og málið var tekið upp á ný á 74. fundi bæjarstjórnar, þann 6. nóvember 2024. Þar samþykktu 2 fulltrúar D-lista, 2 fulltrúar O-lista og 2 fulltrúar S-lista að byggja gervigrasvöllinn á gamla malarvellinum í Garði, þvert á ráðleggingar Verkís. Á móti greiddu 2 fulltrúar B-lista og Magnús S. Magnússon, sem hafði áður verið fulltrúi D-lista.

Einnig gerðust þau tíðindi í millitíðinni á 149. fundi bæjarráðs, sem haldinn var 28. ágúst, þar barst erindi frá Knattspyrnufélaginu Víði. Í erindinu var lögð fram tillaga um að staðsetja nýtt íþróttasvæði á miðsvæði milli byggðarkjarnanna í Suðurnesjabæ.

Nýr meirihluti D-, S- og O-lista svaraði erindi Víðis með þeim upplýsingum að bæjarstjórn hefði þegar samþykkt staðsetningu á gervigrasvelli. Á aðalvelli Reynis í Sandgerði Fram kom að unnið væri samkvæmt þeirri samþykkt, þar sem forsendur ákvörðunarinnar hefðu ekki breyst.

Hvenær á að taka mark á Samfylkingunni í Suðurnesjabæ?

Það er óumflýjanlegt að spyrja sig: Hvenær á að taka mark á S-lista? Er það á sumri eða vetri?

Í júní samþykkti S-listinn, ásamt B-lista og hluta D-lista, að fylgja niðurstöðum faglegra ráðlegginga Verkís, þar sem lagt var mat á hagkvæmustu og skynsamlegustu lausnina. Í nóvember, aðeins fimm mánuðum síðar, samþykkti S-listinn hins vegar að hunsa þessar sömu ráðleggingar og velja óhagkvæmari valkost, þvert á þau sjónarmið sem áður voru lögð til grundvallar.

Þessi stefnubreyting vekur upp spurningar um ábyrgð og stöðugleika í ákvarðanatöku. Er verið að taka ákvarðanir með almannahagsmuni að leiðarljósi eða með tilliti til annarra sjónarmiða?

Við í Framsókn teljum mikilvægt að byggja upp íþróttamannvirki í Suðurnesjabæ, en það verður að gera á skynsaman og ábyrgan hátt. Kostnaðarsöm verkefni eins og aukin gatnagerð, bygging nýs leikskóla í Garði, stækkun Sandgerðisskóla og nauðsynlegt viðhald á fráveitum og götum bíða okkar einnig í náinni framtíð. Fjármagn er takmarkað og því verðum við að taka ákvarðanir með langtímahagsmuni bæjarins að leiðarljósi og setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum.

Það er eina leiðin til að byggja upp sterkt og sjálfbært samfélag. Umsvifamiklar lántökur eru ekki langtímalausnir, þær duga skammt þar sem þær auka á fjármagnskostnað og verðbætur bæjarsjóðs, sem skilar minni rekstrarafgangi.

Aukið framboð lóða til úthlutunar – Lausn á húsnæðisvandanum

Til að mæta vaxandi þörf á húsnæði í Suðurnesjabæ þarf að auka framboð lóða til úthlutunar. Húsnæðismarkaðurinn hefur verið undir miklu álagi, og skortur á byggingarlóðum hefur hindrað möguleika fjölskyldna og einstaklinga á að koma sér upp húsnæði. Með því að fjölga lóðum sköpum við ný tækifæri fyrir íbúabyggð. Það þarf að setja aukinn kraft í það verkefni, til dæmis með þéttingu á óbyggðum byggingarreitum bæði í Garði og Sandgerði.

Markviss rekstrarrýni til framtíðaruppbyggingar

Til að styrkja fjárhagsstöðu Suðurnesjabæjar og tryggja sjálfbæran rekstur til framtíðar er nauðsynlegt að rýna enn betur í rekstur bæjarins. Með því að auka samlegðaráhrif milli stofnana og reksturs sveitarfélagsins getum við aukið rekstrarafgang, sem svo má nýta til mikilvægra fjárfestinga í innviðum og samfélagsþjónustu.

Þessi nálgun stuðlar að betri nýtingu fjármuna og dregur úr þörf á lántökum, sem styrkir fjárhag sveitarfélagsins til lengri tíma. Með ábyrgum og markvissum aðgerðum tryggjum við að bæjarfélagið geti haldið áfram að vaxa og dafna án þess að auka skuldbindingar á íbúa þess. Þetta er lykillinn að sjálfbæru og vel reknu samfélagi.

Grunninnviðir í almannaeigu

Á 56. fundi framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar lagði Einar Jón Pálsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins og formaður ráðsins, fram starfsáætlun fyrir vatnsveituna. Þar kom í ljós að viðræður væru hafnar við HS Veitur um möguleg kaup á vatnsveitunni í Sandgerði.

Á 155. fundi bæjarráðs, þann 4. desember síðastliðinn, lagði Sigursveinn Bjarni Jónsson, oddviti S-lista og formaður bæjarráðs, fram minnisblað frá bæjarstjóra um Vatnsveitu Suðurnesjabæjar.

Minnihlutinn hefur ekki atkvæðisrétt í bæjarráði, og tíðkast það hvergi á byggðu bóli á Íslandi nema í Suðurnesjabæ. Þar samþykkti bæjarráð samhljóða að fela bæjarstjóra að eiga viðræður við HS Veitur ehf. um mögulegan samruna Vatnsveitu Suðurnesjabæjar við HS Veitur ehf.

Kjarngóðar umræður sköpuðust á síðasta bæjarstjórnarfundi um málið að frumkvæði minnihlutans. HS Veitur eru að stórum hluta í eigu einkaaðila.

Við í Framsókn teljum að grunninnviðir eins og vatnsveita séu lífsnauðsynlegir fyrir samfélagið. Opinber eign á slíkum innviðum tryggir aðgang allra óháð búsetu eða efnahag. Þegar auðlindir og grunninnviðir færast í hendur einkaaðila er hætta á að þjónustan verði ekki lengur veitt á jafnræðisgrundvelli, þar sem hagsmunir fjárfesta geta orðið fyrirferðarmiklir.

Við eigum að standa vörð um vatnsveituna sem almannaeign og tryggja að hún haldist í opinberri eigu. Það er á ábyrgð okkar að tryggja að auðlindir okkar séu ekki seldar frá okkur.

Kæru íbúar Suðurnesjabæjar.

Nú fer í hönd tími jólanna. Ég vil óska ykkur öllum gleðilegra jóla og friðsællar hátíðar. Megi þessi tími færa ykkur og fjölskyldum ykkar hlýju, gleði og góðar stundir í faðmi ástvina. Megi árið 2025 verða ykkur gæfuríkt og gott.

Með ósk um gleðilega hátíð,
Anton Guðmundsson
Oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Categories
Greinar

Ferðaþjónustan færir björg í bú

Deila grein

22/12/2024

Ferðaþjónustan færir björg í bú

Ferðaþjón­ust­an hef­ur vaxið á til­tölu­lega stutt­um tíma úr því að vera er lít­ill at­vinnu­veg­ur yfir í það að vera einn af horn­stein­um hag­kerf­is­ins og gætt landið allt lífi. Hún hef­ur veitt fjöl­mörg tæki­færi til at­vinnuþró­un­ar, menn­ing­ar­legr­ar teng­ing­ar og innviðaupp­bygg­ing­ar víða um landið. Í raun er hægt að segja að ferðaþjón­ust­an hafi sumstaðar umbreytt byggðum lands­ins til hins betra og tryggt ákveðna byggðafestu Þannig hef­ur fjöl­breytni at­vinnu og þjón­ustu, frá hót­el­um og veit­inga­stöðum til afþrey­ing­ar og leiðsögu­ferða, auk­ist veru­lega sem nýt­ist heima­mönn­um jafnt sem ferðamönn­um.

Það er ánægju­legt að geta deilt óend­an­legri feg­urð lands­ins með er­lend­um gest­um. Nátt­úruperl­ur á borð við Jök­uls­ár­lón, Mý­vatn, Snæ­fells­nes og Vest­f­irði draga að sér fjölda gesta sem leita eft­ir ein­stakri upp­lif­un í nátt­úr­unni. Fjár­fest­ing­ar í innviðum, svo sem vega­gerð, flug­völl­um, áfanga­stöðum og merk­ing­um, hafa gert aðgengi að áfanga­stöðum auðveld­ara og ör­ugg­ara, meðan stuðlað er að dreif­ingu ferðamanna um landið, en auk­in dreif­ing ferðamanna og leng­ing ferðatíma­bils­ins er stórt hags­muna­mál fyr­ir at­vinnu­grein­ina hring­inn í kring­um landið. Með auk­inni dreif­ingu nýt­ast innviðir lengri part úr ár­inu og skapa þannig sterk­ari grunn til þess að fjár­festa enn frek­ar.

Mik­il­væg­asta þró­un­in sem stuðlað hef­ur að vexti ferðaþjón­ustu á lands­byggðinni er aukn­ing á milli­landa­flugi til flug­valla utan Reykja­vík­ur. Það hef­ur verið uppörv­andi að fylgj­ast með frá­far­andi ferðamálaráðherra Lilju Al­freðsdótt­ur leggja ríka áherslu á að styðja við upp­bygg­ingu milli­landa­flugs í gegn­um alþjóðaflug­vell­ina á Ak­ur­eyri og Eg­ils­stöðum. Nú er svo komið að flug­fé­lagið Ea­syjet býður nú upp á beint flug að vetr­ar­lagi til Ak­ur­eyr­ar frá London og Manchester í Bretlandi – og hef­ur gang­ur­inn í flug­inu verið góður. Ég bind einnig von­ir við að ár­ang­ur ná­ist í upp­bygg­ingu milli­landa­flugs til Eg­ilsstaða á næstu árum. Það tek­ur tíma að byggja upp flug­leiðir sem þess­ar og því er mik­il­vægt að stjórn­völd sýni út­hald og haldi áfram að styðja við upp­bygg­ingu milli­landa­flugs á lands­byggðinni, meðal ann­ars í gegn­um Flugþró­un­ar­sjóð.

Í nýrri ferðamála­stefnu til árs­ins 2030, sem mik­il og góð vinna hef­ur verið lögð í, er ein­mitt lögð áhersla á dreif­ingu ferðamanna um landið. Það er brýnt að ný rík­is­stjórn slökkvi ekki á því leiðarljósi með því að stinga stefn­unni ofan í skúffu, enda er um að ræða tíma­mótaplagg fyr­ir einn helsta at­vinnu­veg þjóðar­inn­ar. Það þarf að halda áfram að styrkja um­gjörð grein­ar­inn­ar og tryggja sam­keppn­is­hæfni henn­ar. Þannig mun hún halda áfram að skapa verðmæti um allt land.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Fram­sókn­ar í Norðaust­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. desember 2024.

Categories
Greinar

Fram­sókn í 108 ár!

Deila grein

16/12/2024

Fram­sókn í 108 ár!

Í dag fögnum við 108 ára afmæli Framsóknarflokksins!

Framsóknarflokkurinn var stofnaður þann 16. desember 1916 við samruna Bændaflokksins og Óháðra bænda og er elsti starfandi stjórnmálaflokkurinn á Íslandi. Flokkurinn átti upphaf sitt í samvinnuhreyfingunni og ungmennafélagshreyfingunni, og markmiðið var skýrt: að efla lífskjör, byggja upp innviði og tryggja jöfnuð fyrir landsmenn.

Á þessum tíma var Ísland töluvert dreifbýlt og Framsóknarflokkurinn sótti fylgi sitt fyrst og fremst til landsbyggðarinnar. Í upphafi var áherslan lögð á hagsmuni bænda og dreifbýlisfólks, en með breyttum samfélagsháttum, sérstaklega eftir miðja 20. öld, þróaðist flokkurinn í það að verða flokkur allra stétta. Kjarninn var þó alltaf sá sami: samvinna, jöfnuður og lausnamiðuð stjórnmál.

Í gegnum árin hefur Framsóknarflokkurinn verið burðarás í íslensku samfélagi. Með uppbyggingu skólakerfisins, stuðningi við samvinnuhreyfinguna, félagslegum réttindum og stórum innviðaverkefnum hefur flokkurinn lagt grunn að mörgum af þeim framfaramálum sem við njótum í dag.

Framsóknarflokkurinn hefur staðið vörð um jafnvægi milli þéttbýlis og dreifbýlis, og með áherslu á nýsköpun, menntun og framtíðarsýn hefur hann verið ómissandi hluti af sögu og þróun Íslands.

Þótt Framsóknarflokkurinn hafi séð betri daga hvað fylgistölur varðar, þá er það staðföst trú mín að hann muni rísa á ný – sterkari en nokkru sinni fyrr. Rætur hans liggja djúpt í jarðvegi landsins,

Til hamingju með daginn allt Framsóknarfólk!

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. desember 2024.

Categories
Greinar

Tækifæri Íslands utan ESB

Deila grein

15/12/2024

Tækifæri Íslands utan ESB

Ísland hef­ur farið þá leið að standa utan Evr­ópu­sam­bands­ins (ESB) en eiga í góðu og upp­byggi­legu sam­starfi við banda­lagið á grund­velli EES-samn­ings. Það hef­ur veitt okk­ur tæki­færi fyr­ir sjálf­stæða stefnu­mót­un á sviðum eins og fisk­veiði- og auðlinda­mál­um, og efna­hags- og pen­inga­mál­um, ásamt því sem Ísland get­ur eflt tengsl við önn­ur svæði fyr­ir utan Evr­ópu á grund­velli fríversl­un­ar­samn­inga.

Stóri kost­ur­inn við að vera utan ESB er frelsið til að móta eig­in fisk­veiðistefnu. Sjáv­ar­út­veg­ur­inn er burðarás í ís­lensku hag­kerfi, og sjálf­stæði frá sam­eig­in­legri fisk­veiðistefnu ESB ger­ir Íslandi kleift að stýra þess­ari auðlind sjálft, stjórna veiðum á sjálf­bær­an hátt og tryggja að sjáv­ar­af­urðir skili þjóðarbú­inu meiri tekj­um en ella. Í dag er staðan sú að Ísland er leiðandi þjóð í sjálf­bær­um og arðbær­um sjáv­ar­út­vegi á alþjóðavísu.

Það sama á við um land­búnað, þar sem við get­um mótað eig­in stefnu án þess að þurfa að aðlaga okk­ur sam­eig­in­legri land­búnaðar­stefnu ESB. Þetta leyf­ir land­inu að þróa sér­tæka nálg­un sem hent­ar ís­lensk­um aðstæðum best, þar sem veður­skil­yrði og land­fræðileg­ar aðstæður eru tölu­vert frá­brugðnar meg­in­landi Evr­ópu. Það ligg­ur í aug­um uppi að inn­ganga í tolla­banda­lag ESB-ríkja að þessu leyti myndi veikja ís­lensk­an land­búnað til muna, á tím­um þar sem fæðuör­yggi þjóða verður sí­fellt mik­il­væg­ara. Orðið fæðuör­yggi kann að hljóma óspenn­andi en þýðing þess er hins veg­ar gríðarlega mik­il­væg. Flokk­ar sem tala fyr­ir inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið hafa aldrei svarað þeirri spurn­ingu hvernig þeir sjái fyr­ir sér að tryggja mat­væla­ör­yggi hér á landi með öfl­ugri inn­lendri mat­væla­fram­leiðslu, en það þarf að huga að henni.

Ísland get­ur einnig ein­beitt sér að því að nýta nátt­úru­lega eig­in­leika til að fram­leiða ein­stak­ar land­búnaðar­vör­ur. Dæmi um þetta eru ís­lenskt lamba­kjöt, mjólk­ur­vör­ur og græn­meti ræktað við sér­stak­ar aðstæður, eins og í gróður­hús­um sem nýta jarðhita. Þess­ar vör­ur hafa mögu­leika á að öðlast sér­stöðu á alþjóðleg­um mörkuðum þar sem upp­runi og gæði eru met­in hátt.

Þá fylg­ir því aukið viðskiptafrelsi fyr­ir Ísland að standa utan ESB. En landið býr við auk­inn sveigj­an­leika með gerð tví­hliða viðskipta­samn­inga sem geta hentað ís­lensk­um aðstæðum bet­ur en stór­ir alþjóðasamn­ing­ar. Nýta má þessa sér­stöðu til að byggja upp betri út­flutn­ings­mögu­leika og auka fjöl­breytni í markaðssetn­ingu ís­lenskra afurða á er­lend­um mörkuðum.

Staðan er sú að Íslandi hef­ur vegnað vel á grund­velli EES-samn­ings­ins, utan Evr­ópu­sam­bands­ins. Hér hef­ur hag­vöxt­ur verið meiri, at­vinnu­leysi minna og laun og kaup­mátt­ur hærri. Það verður áhuga­vert að sjá hvort Sam­fylk­ing­in og Flokk­ur fólks­ins láti Viðreisn teyma sig í aðild­ar­viðræður að Evr­ópu­sam­band­inu á þess­um tíma­punkti í yf­ir­stand­andi stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðum en slík veg­ferð yrði ekki góð nýt­ing á tíma og fjár­mun­um næstu rík­is­stjórn­ar verði hún að veru­leika.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins í Norðaust­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. desember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Köld eru kvenna­ráð – eða hvað?

Deila grein

09/12/2024

Köld eru kvenna­ráð – eða hvað?

Orðatiltækið „Köld eru kvenna ráð“ kemur úr Njálu og þar er átt er við að ráðleggingum kvenna sé ekki alltaf treystandi. Þessi fornu orð hafa lengi fylgt umræðum um ráðvendni og hlutverk kvenna en nútímarannsóknir sýna að þátttaka þeirra í ákvörðunum styrkir oft útkomur með breiðari sýn, aukinni samvinnu og sjálfbærri nálgun.

Nú, þegar þrjár sterkar konur freista þess að semja um stjórn landsins, er því áhugavert að velta fyrir sér hvort samstarfið geti markað þáttaskil í stjórnmálum Íslands. Gæti það skilað sér í nýrri tegund af kraftmikilli samvinnu á Alþingi? Munu leiðtogarnir jafnvel horfa til mála í stjórnarsáttmála sem voru ekki efst á baugi í kosningabaráttu þeirra en eru ákaflega brýn fyrir samfélagið á næstu árum?

Það er erfitt að spá fyrir um á þessari stundu. En með óbilandi trú á öflugri samvinnu má setja fram óskalista um málefni fyrir nýja ríkisstjórn að umvefja og gera að sínum – fyrir land og þjóð:

1Orkuöryggi almennings: Ef orkuöryggi almennings er ekki betur tryggt þá mun raforku verð til heimila, hárgreiðslustofa, matvöruverslana og garðyrkjubænda halda áfram að hækka. Við verðum að muna að þessi viðkvæmi hópur er í allt annarri samningsstöðu en mjög stórir raforkunotendur sem njóta langtímasamninga. Raforkukerfið okkar var hannað þannig að almenningur nyti verndar en árið 2003 var hún tekin af þegar við byrjuðum að innleiða orkupakka Evrópusambandsins. Margar leiðir eru þó í boði til að bæta stöðuna innan þess kerfis og það þarf að gera. Þetta mál ætti að vera í forgangi hjá nýrri ríkisstjórn.

2) Takmörkum jarðakaup erlendra aðila : Þegar við seljum jarðir úr landi þá seljum við auðlindir vatns, jarðhita og jarðefna með þeim. Það virðist kannski saklaust þegar ein og ein jörð er seld, en þegar fram í sækir teiknast upp heildarmynd sem hefur áhrif á auðlindastýringu og langtímahagsmuni Íslands. Þegar hafa tugir jarða verið seldar. Vöknum og bregðumst við, og lærum af öðrum þjóðum.

3) Nýsköpun-, mennta- og atvinnuþróun : Lífsgæði geta aukis víða um land með áherslu á nýsköpun. Eflum nýsköpunarhraðla og stýrum fjármagni til þeirra með atvinnuþróun á landsbyggð í huga; frá Suðurnesjum og hringinn í kringum landið. Ísland á til dæmis stór tækifæri í orku- og matvælatengdri nýsköpun til sjávar og sveita og við eigum að setja enn meiri kraft í að sækja þau. Sköpum hvata til að ungt fólk með fjölbreytta menntun flytji heim og móti framtíðar Marel og Kerecis. Styrkjum menntun á ólíkum stöðum á landinu fyrir slíka sókn svo sem í gegnum Garðyrkjuskólann í Hveragerði og Keili á Suðurnesjum.

4) Sókn í landbúnaði : Landbúnaður á undir högg að sækja, á sama tíma og okkur fjölgar hratt. Spurningin er; ætlum við að fæða þjóðina innfluttri matvöru eða skapa skilyrði þannig að fjölbreytt matvælaframleiðsla geti blómstrað og vaxið með okkur? Gleymum ekki að öflugur landbúnaður er hluti fæðuöryggi og getur dregið úr losun gróðurhúsaloftegunda sem fylgir miklum vöruflutningum að utan. Einnig er fæðuframleiðsla hér lýðheilsumál því að í matvælaframleiðslu því lyfjanotkun er algengari erlendis og gæði vatns í framleiðslu ekki þau sömu. Jafnframt verðum við að átta okkur á að sókn í landbúnaði er líka einstaklega mikilvæg fyrir sjálfbærni ferðaþjónustu því að ferðamenn sækja ekki í tómar sveitir og innfluttan mat; heldur blómlega byggð og mat sem er ekta. Til að ná árangri á þessu sviði þarf meðal annars að huga að nýliðun og afkomu bænda, og lánakjörum til uppbyggingar.

5) Auðlindir og umhverfismál: Nýting auðlinda og virðing fyrir umhverfinu á að haldast í hendur. Tryggjum að uppbygging orkuinnviða á borð við flutningskerfi, sé í forgangi þar sem brýn þörf er á svo sem til Vestmannaeyja og Vestfjarða og tengjum landið okkar betur saman svo að nýtni raforkukerfisins aukist. Eflum fjölnýtingu jarðhita og skoðum tækifæri á jöldum svæðum. Sköpum hvata þannig að aukin raforkuframleiðsla rati í markmið stjórnvalda, hvort sem er fyrir atvinnuvegi eða orkuskipti, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins. Vöndum okkur í framkvæmd. Það er til dæmis ekki einstakri náttúru okkar í hag að teppaleggja landið með vindorkuverum en með skynsamri langtímahugsun er hægt að ná árangri í nýtingu án þess að slíta samfélög í sundur og náttúruna um leið. Útfærum lög þannig að ábati af raforkuframleiðslu rati til samfélagsins og skapi verðmæti í heimabyggð.

6) Framsækin ferðaþjónusta: Ferðaþjónusta er lífæð margra byggða og á mikið inni. Leggjum áherslu á gæði í ferðaþjónustu með sterkri framtíðarsýn. Breytumst ekki í „litlu Ameríku“ þar sem stór auglýsingaskilti og aðgangseyrir lita sífellt meira upplifum. Hægt væri til dæmis að skipta hóflegu gjaldi á hvern ferðamann niður á áfangastaði eftir rafrænni talningu heimsókna og koma þannig í veg fyrir bílastæðaposa við annan hvern hól. Höldum fast í frelsi þess að geta skoðað fallega landið okkar án slíkra takmarkanna.

7) Sterkir innviðir: Hinir mjúku innviðir samfélaga; læknar, hjúkrunarfræðingar, lögreglumenn og fjölbreyttir fagkennarar, allt frá stærðfræði yfir í tónlist, eru ekki síður mikilvægir og það að byggja brýr, göng og vegi. Aukum áherslu á að byggja upp mjúka og harða innviði á landsbyggðinni því þar verða verðmæti auðlinda til sem við treystum öll á. Sterk samfélög þjóna bæði heimamönnum og draga að hæfileikafólk sem efla atvinnu- og menningarlíf landsins enn frekar.

Til viðbótar við þennan lista má nefna mikilvæg málefni sem líklega eru þegar á dagskrá í viðræðunum – og eiga sannarlega heima þar:

7) Heima er best: Heimili eiga ekki að vera áhættufjárfesting. Setjum markið á langtíma óverðtryggð lán fyrir heimili og takmörkum samkeppni venjulegs fólks við fagfjárfestingar í fasteignum ætlaðar Airbnb. Setjum reglur þannig ekki sé braskað með lóðir því það hægir á framkvæmdum og hækkar fasteignaverð.

8) Grípum inn í fátækt: Fátækt skilur eftir sig opin sár meðal ungra og aldna sem gagnast engum í okkar ríka samfélagi. Hlustum á skýrt ákall eldri borgara og þeirra sem minna mega sín úr þessum kosningum. Finnum leiðir til að taka skýr skref sem oft tengjast dýrum húsnæðismarkaði.

9) Grunnskólinn sem griðastaður: Sterkt skólakerfi og fjárfesting í æskulýðsstarfi er besta forvörn sem völ er á og hér halda þarf áfram að sækja fram með metnaðarfullum hætti. Ljúkum við innleiðingu nýrra samræmdra prófa og verum leiðandi í framkvæmd símalausra skóla.

10) Tungumálið er hjarta menningar: Íslenskan er límið í menningu okkar. Eflum íslenskukennslu og komum á skýrum hvötum í atvinnulífi til að stuðla að lærdómi hennar svo allir eigi jafna möguleika. Hér getur fjárfesting í menningarstarfi og listum sem tengir saman Íslendinga og innflytjendur hjálpað. Fáum eldri borgara líka með í lið við talþjálfun innflytjenda með því að gefa þeim færi á að afla sér tekna án tekjuskerðingar. Þannig má draga úr einangrun og efla samveru á marga vegu.

Þessi málefnalisti, sem gæti verið mun lengri, á við sama hvaða ríkisstjórn er við völd. Hann er þó settur fram með þá trú að við séum mögulega í dauðafæri að sjá fyrstu kvenleiddu ríkisstjórn Íslands fæðast, sem geti komist í sögubækurnar með því að slá nýjan tón í samvinnu og málefnaáherslur þvert á flokkadrætti. Stjórn þar sem mýtan „köld eru kvennaráð“ víkur fyrir breiðari áherslu á samstarf í útfærslu og framkvæmd stjórnarsáttmála. Sáttmála sem styðja má við og veita skýrt aðhald á þingi, samfélaginu okkar og framtíð til heilla.

Halla Hrund Logadóttir, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. desember 2024.

Categories
Greinar

Burðar­ásar sam­fé­lagsins

Deila grein

06/12/2024

Burðar­ásar sam­fé­lagsins

Það er vel við hæfi að dagur sjálfboðaliðans sé haldinn hátíðlegur stuttu eftir nýafstaðnar kosningar. Þessi dagur minnir okkur á þá ómetanlegu vinnu sem sjálfboðaliðar inna af hendi við að halda uppi flokksstarfi og kosningabaráttu.

Samvinnuverkefni

Kosningabarátta er stórt samvinnuverkefni ólíkra aðila á öllum aldri sem eiga öll það sameiginlegt að vilja láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins. Grasrótin er hjartað í kosningabaráttunni – hópurinn sem stendur vaktina frá morgni til kvölds við að skipuleggja viðburði, taka á móti gestum og hringja í kjósendur. Hún lætur hvorki skoðanakannanir né aðrar aðstæður slá sig út af laginu. Heldur brettir upp ermar og leggur sitt af mörkum – af hugsjón. Við sem störfum í stjórnmálum eigum þessum bakhjörlum allt að þakka. Það er þessi kraftmikla og ósérhlífna grasrót sem gerir stjórnmálastarf mögulegt.

Sjálfboðaliðinn: Stoð samfélagsins

Náttúruhamfarir minna okkur reglulega á mikilvægi sjálfboðaliðans. Hvort sem um er að ræða eldgos, snjóflóð eða ófærð vegna veðurs, eru þeir ávallt reiðubúnir til að hlúa að samfélaginu. Með umhyggju og ósérhlífni leggja þeir sig fram við að styðja við þá sem þurfa á aðstoð að halda.

Á hverjum degi leggja sjálfboðaliðar ómetanlega vinnu í samfélagsleg verkefni og félagsstarf. Þeir eru burðarásar í íþróttafélögum, foreldrafélögum, kvenfélögum og mannúðarfélögum, svo fátt eitt sé nefnt. Í raun má segja að sjálfboðaliðar séu ein mikilvægasta stoðin sem samfélag okkar hvílir á.

Þakklæti

Í dag vil ég sérstaklega þakka félögum mínum í Framsókn fyrir óeigingjarnt starf í nýafstaðinni kosningabaráttu. Um leið vil ég þakka öllum þeim sem sinna sjálfboðaliðastarfi víðsvegar um landið fyrir það mikilvæga starf sem þeir inna af hendi í þágu samfélagsins.

Takk fyrir ykkar framlag og gleðilegan dag sjálfboðaliðans.

Skrifað í tilefni af degi sjálfboðaliðans 5. desember.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. desember 2024.

Categories
Fréttir

Þakkir frá formanni

Deila grein

05/12/2024

Þakkir frá formanni

Kæra Framsóknarfólk!

Um síðustu helgi fóru fram einhverjar mestu hamfarakosningar í sögu þjóðarinnar og ekki síður í sögu flokksins okkar. Það þarf ekki að segja ykkur að aðdragandi kosninganna var stuttur, þarf ekki að segja ykkur að ákvörðun samstarfsflokks okkar í ríkisstjórn var ekki tekin með hag þjóðarinnar í huga. Hún getur verið grimm þessi pólitík.

Við gengum til orrustunnar vígamóð eftir átök síðustu mánaða. Þjóðin vildi breytingar. Hún var orðin þreytt á þessari ríkisstjórn sem var, þrátt fyrir að einstaka þingmenn samstarfsflokkanna væru í virkri stjórnarandstöðu, búin að ná tökum á verðbólgunni, búin að ná tökum á útlendingamálunum. Þjóðin vildi breytingar og upp úr kjörkössunum kom breytt pólitískt landslag þar sem tveir flokkar á þingi þurrkuðust út. Annar þeirra sem féll í valinn var Vinstrihreyfingin – Grænt framboð sem hafði setið í ríkisstjórn í ellefu ár frá árinu 2009, og átt forsætisráðherra í rúm sex af þeim árum.

Ég er ákaflega stoltur af flokknum okkar. Stoltur af því hvernig við börðumst fram á síðustu mínútu þrátt fyrir að skoðanakannanir væru ekki upplífgandi og sumar spáðu dauða Framsóknar á Alþingi Íslendinga. Við sjáum á þessu grafi frá Kosningasögunni að barátta okkar skilaði árangri þótt við hefðum auðvitað vilja rísa hærra.

Við sjáum á eftir gríðarlega öflugum félögum sem féllu í þessari orrustu. Þrír ráðherrar, Lilja Dögg, Ásmundur Einar og Willum Þór, höfðu öll unnið stórvirki í sínum störfum fyrir land og þjóð. Öflugir þingmenn okkar, Lilja Rannveig, Halla Signý, Jóhann Friðrik, Ágúst Bjarni, Hafdís Hrönn, höfðu verið sterkar raddir fyrir kjördæmin sín og flokkinn á þingi. Þá vil ég einnig nefna Líneik Önnu sem gaf ekki kost á sér að þessu sinni en mikil eftirsjá er að.

Kæru Félagar.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Við höfum frá árinu 2013 setið í ríkisstjórn með níu mánaða hléi. Störf okkar hafa reynst þjóðinni dýrmæt. Nú munum við verða sterk rödd Framsóknar í stjórnarandstöðu með fámennum en öflugum þingflokki sem ásamt mér mynda Stefán Vagn, Ingibjörg Isaksen, Þórarinn Ingi og okkar nýi og öflugi þingmaður, Halla Hrund.

Ég þakka ykkur öllum fyrir ómetanlega baráttu við erfiðar aðstæður.

Bestu kveðjur,

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar

Categories
Fréttir Greinar

Tekið við góðu búi

Deila grein

05/12/2024

Tekið við góðu búi

Stjórn­mál­in eru hverf­ull vett­vang­ur þar sem hlut­irn­ir geta breyst hratt. Í kosn­ing­un­um liðna helgi leiðbeindu kjós­end­ur stjórn­mála­flokk­un­um í hvaða átt skyldi stefna næstu árin.

Það er því ekki óeðli­legt að Sam­fylk­ing­in, Viðreisn og Flokk­ur fólks­ins hafi hafið form­leg­ar stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræður eft­ir þeirra kosn­inga­sig­ur. Raun­ger­ist rík­is­stjórn þess­ara flokka er ljóst að hún tek­ur við góðu búi.

Fjár­laga­frum­varp Sig­urðar Inga Jó­hanns­son­ar legg­ur grunn­inn að því að verðbólga og vext­ir eru á fallanda fæti auk mark­vissra aðgerða stjórn­valda og aðila vinnu­markaðar­ins.

Þá eru skulda­hlut­föll rík­is­sjóðs lág í alþjóðleg­um sam­an­b­urði og staða rík­is­sjóðs sterk, at­vinnuþátt­taka er mik­il og tæki­færi fyr­ir frek­ari lífs­kjara­sókn sam­hliða lækk­andi fjár­mögn­un­ar­kostnaði.

Þá hef­ur gangskör verið gerð í hinum ýmsu mála­flokk­um svo eft­ir hef­ur verið tekið. Má þar sér­stak­lega nefna í ráðuneyt­um Lilju Al­freðsdótt­ur, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, Will­ums Þórs Þórs­son­ar heil­brigðisráðherra og Ásmund­ar Ein­ars Daðason­ar, mennta- og barna­málaráðherra.

Það verður sjón­ar­svipt­ir að þess­um verk- og reynslu­miklu ráðherr­um Fram­sókn­ar sem hafa komið mörg­um fram­fara­mál­um til leiðar.

Brýn­ustu mál næstu rík­is­stjórn­ar eru að ná betri tök­um á hús­næðismarkaðnum og lækka fjár­magns­kostnað Íslands. Ráðist hef­ur verið í ýms­ar aðgerðir á hús­næðismarkaðnum að und­an­förnu til að mæta þeirri auknu eft­ir­spurn sem mynd­ast hef­ur.

Und­ir for­ystu Fram­sókn­ar var farið í hlut­deild­ar­lán og stofn­fjár­fram­lög til að mæta markaðsbresti á hús­næðismarkaði. Það þarf þó að fara í frek­ari kerf­is­breyt­ing­ar til að auka fram­boð af hús­næði um land allt. Sam­starf rík­is og sveit­ar­fé­laga verður að aukast til að ná meiri ár­angri.

Á sveit­ar­stjórn­arstig­inu mun Fram­sókn áfram leggja sig fram við að koma að lausn þeirra áskor­ana sem blasa við sam­fé­lag­inu okk­ar.

Við erum sam­vinnu­flokk­ur, hvort sem við erum í rík­is­stjórn eður ei.

Fjár­magns­kostnaður Íslands er of hár og á það við um kjör rík­is­sjóðs Íslands og allt hag­kerfið.

Það verður að fara ofan í saum­ana á því hvers vegna staðan er þessi í ljósi þess að all­ar grunnstoðir hag­kerf­is­ins eru sterk­ar. Láns­hæfis­ein­kunn rík­is­sjóðs Íslands hef­ur þó verið að hækka og þá ættu kjör­in að verða betri.

Hefja þarf stór­sókn í þess­um efn­um til að auka verðmæta­sköp­un Íslands.

Stefán Vagn Stefánsson, alþing­ismaður og fyrr­ver­andi formaður fjár­laga­nefnd­ar.

Greinin birtist fyrst Morgunblaðinu 5. desember 2024.