Kæru flokkssystkin, það er vægt til orða tekið að þetta séu skrýtnir tímar sem við nú upplifum meðan veirufaraldurinn gengur yfir heiminn og snertir okkur öll á einn eða annan hátt. Manni er efst í huga þakklæti til allra þeirra sem starfa í framlínunni nú við heilbrigði og öryggi þjóðarinnar. En ekki síður öllum íbúum þessa lands sem kappkosta að láta samfélagið ganga í erfiðum aðstæðum og sýna samstöðu í verki. Á stundum sem þessum er það nefnilega samstaðan sem öllu skiptir og við Íslendingar höfum reynsluna, í sambýli okkar við náttúruna, að þegar vá er fyrir dyrum þá stöndum við saman þó váin sé af öðrum toga nú. Og það þekkjum við framsóknarfólk enda hefur samvinna verið hornsteinn okkar stefnu í gegnum tíðina og nú er þörf á slíku sem aldrei fyrr. Það er alltaf máttur hinna mörgu sem skilar mestum árangri.
Ég sendi ykkur og fjölskyldum mínar bestu páskakveðjur og vonandi njótið þið hátíðanna þrátt fyrir takmarkanir á ferðum og samkomum sem nú eru nauðsynlegar meðan við kveðum niður veiruna. Hlúum að okkar nánustu og munum að það vorar fyrr en varir og þá hittumst við vonandi sem flest á vettvangi flokksins okkar til að halda ótrauð áfram veginn.
Netfundur með Ásmundi Einari Daðasyni, félagsmálaráðherra
Ásmundur Einar Daðason, félags og barnamálaráðherra, fer yfir aðgerðir sem snúa að félagsmálaráðuneytinu vegna Covid 19 í gegnum Facebook live á Facebooksíðu Framsóknar í dag, miðvikudaginn 8. apríl 2020.
Hægt er að senda inn spurningar til ráðherrans á framsokn@framsokn.is og mun hann leitast við að svara sem flestum spurningum sem til hans berast.
Plánetan jörð hefur aldrei verið smærri. Heimsfaraldurinn sem nú geisar spyr ekki um trúarbrögð, kynþátt, skoðanir eða þjóðfélagsstöðu. Verkefni næstu mánaða um allan heim munu snúa að vinnu við endurreisn efnahags og samfélaga í víðu samhengi. Ég er bjartsýn á að „nýi heimurinn“ muni einkennast af meira umburðarlyndi og minni fordómum.
Ég er einnig fullviss um að við munum standa uppi sem betri manneskjur eftir að þessu faraldri líkur. Við höfum verið tilneydd til að halda okkur heima og erum öll farin að þrá nánd, samveru og faðmlag frá okkar nánustu vinum og félögum. Samskipti sem alltaf hafa verið sjálfsögð og óhugsandi að yrði settar hömlur á eða bönn. Við munum vafalaust eftir þessa reynslu eina og sér meta samveru við annað fólk á annan hátt það sem eftir lifir. Reynsla sem mun vonandi minna okkur á að lifa í kærleika og gera okkur að betri og umburðarðlyndari manneskjum.
Þær aðstæður sem við verðum nú vitni að fá okkur til að tengja aftur í rætur okkar, hvaðan við komum og hvernig við höfum þróast sem samfélag og sem þjóð. Okkur skortir ekki trú á verkefnið og vitum að í okkur býr sá kraftur sem þarf til að koma hjólunum aftur af stað. En vonandi hefur gildismatið breyst og minnt okkur á þau lífsgæði sem við búum við sem þjóð. Yfirvöld eiga hrós skilið fyrir þær öflugu aðgerðir sem okkur hafa verið kynntar til þess að veita ástandinu viðspyrnu og koma fjölskyldum, einstaklingum og fyrirtækjum til varnar og lágmarka neikvæð langtímaáhrif.
SAMVINNA er grundvallar forsenda þess að við getum risið upp aftur sem öflugt samfélag með tækifæri til vaxtar eftir efnahagslegar hamfarir. Mikilvægt er að við séum öll meðvituð um það til lengri tíma að það endurreisnar tímabil sem framundar er verði að einkennast af SAMVINNU. Tækifæri okkar sem þjóðar til að vaxa felast í SAMVINNU greina sem standa í fremstu röð, matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu, iðnaði, skapandi greinum og menntavísindum. Þessar greinar geta ekki án hvor annarra verið og geta með aukinni SAMVINNU lagt grundvöll að sjálfbærni þjóðarinnar. Sjálfbær þjóð sem er virk í alþjóðlegu samstarfi og í fremstu röð með útflutning á íslenskri hágæða framleiðslu og þekkingu.
Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarmanna í Borgarbyggð.
Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 8. apríl 2020.
Nú er sannarlega viðkvæm staða hér á Vestfjörðum þegar smit hafa verið að berast með hraða um samfélagið. Þá sýnir það sig best að hver og einn skiptir máli; viðhorf einstaklingsins hefur aldrei skipt eins miklu máli og nú og Við slíkar aðstæður reynir virkilega á samvinnu í litlum samfélögum og reynir á stoðir þess og á sér ýmsar birtingamyndir. Heimasíminn gengur í endurnýjun líftíma og nágranninn verður hluti af fjölskyldunni. Heima með Helga verður að Juróvision landans og allir taka undir.
Allir í almannavörnum
Öflugt heilbrigðiskerfi ásamt almannavörnum takast nú á með öllu afli við veiruna og til þess að það náist þarf hver og einn að taka þátt, ekki bara Jón og Gunna á móti. Það er mikilvægt að allir hagi sér samkvæmt því sem ráðlegt er. Þannig léttum við byrði fólks sem heldur heilbrigðiskerfinu gangandi. Mikið álag hvílir á þeim sem sinna umönnun innan heilbrigðisstofnana og þeim sem starfa hjá fólki með fötlun og sinna heimahjúkrun. Fólk í viðkvæmri stöðu á erfitt þegar hversdeginum er kippt úr sambandi. Því skiptir máli að gerast viðbragðsaðili í heilbrigðis-og félagsþjónustu þótt maður geti ekki lagt fram nema fáeinar klukkustundir í viku.
Það er traustvekjandi að sjá viðbrögð heilbrigðis- og almannavarnaryfirvalda hér á svæðinu og allir hlýða kalli, bæði fólk hér innan svæðis og utan. Stórtæk söfnun þriggja kvenna gerir það að verkum að hægt verður að kaupa öndunarvélar til Ísafjarðar og Patreksfjarðar. Þetta segir til um þann hug sem við sameinumst í líkt og áður þegar áföll hafa dunið yfir.
Það vorar
Við erum komin nokkrum dögum frá jafndægri á vori; birtan varir lengur en myrkrið og enn vex hún. Stjórnvöld gera meira og nærsamfélögin eru að gera meira. Þannig náum við þeirri viðspyrnu sem þarf til að ná okkur á strik aftur. En það verður ekki gert nema við berum traust hver til annars og sýnum umhyggju. Þannig heilum við samfélagið.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.
Starfsfólk bæjarfélagsins hefur staðið vaktina síðustu daga og vikur við mjög svo óvenjulegar og krefjandi aðstæður. Það hefur staðið vörð um grunnstoðir samfélagsins okkar í Hafnarfirði – leyst úr flóknum viðfangsefnum og verkefnum á undraskömmum tíma – og séð til þess að það gangi eins vel fyrir sig og mögulegt er við erfiðar aðstæður. Fyrir það ber að þakka.
COVID-19 er ákveðinn prófsteinn á okkur sem einstaklinga og samfélagið okkar í heild; hvernig við bregðumst við, stöndum saman og virðum og skiljum hvert annað. Með slíkri samstöðu munum við vinna okkur úr þeim erfiðleikum sem þessu fylgir.
Aðgerðaáætlun samþykkt í bæjarstjórn
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar taldi brýnt að bregðast við þeirri krefjandi stöðu sem samfélagið okkar stendur nú frammi fyrir með hröðum og markvissum aðgerðum. Á fundi bæjarstjórnar þann 1. apríl var samþykkt aðgerðaáætlun í 11 liðum til að bregðast við afleiðingum faraldursins. Hér er um að ræða fyrstu aðgerðir Hafnarfjarðarbæjar, sem ætlað er að tryggja rekstur bæjarfélagsins og koma til móts við íbúa, atvinnulíf og félagasamtök. Aðgerðaáætlunin er fjölbreytt, tekur til margra sviða og hefur það að markmiði að lágmarka þá niðursveiflu sem óumflýjanleg er og standa vörð um þjónustu bæjarfélagsins.
Um aðgerðir þessar hefur ríkt þverpólitísk samstaða innan bæjarstjórnar sem hefur jafnframt gefið það út að ef þörf reynist á frekari aðgerðum sé ekkert því til fyrirstöðu að aðgerðaáætlunin verði tekin til endurskoðunar.
Þetta er tímabundið ástand, en því er ekki að leyna að í hönd fara erfiðir tímar í samfélaginu okkar og um heim allan. Við erum að upplifa tíma sem hafa áhrif á okkar daglega líf um stund og þeir reyna á okkur öll. Það hefur vakið eftirtekt mína hversu mikil samstaða og skilningur er á þessum tímum og mikið traust er til þeirra sem helstu ákvarðanir taka. Við erum í þessu saman. Með hækkandi sól mun aftur birta til.
Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.
Íslensk heimili takast nú á við breyttan veruleika. Margir hinna fullorðnu vinna heima samhliða því að sinna börnum sem dauðlangar aftur í skólann og á íþróttaæfingar. Sjaldan hefur verið eins mikilvægt að rækta líkama og sál, fara út að hlaupa, taka veirufrían klukkutíma eða lesa.Það er nefnilega sumt sem breytist ekki og hefur fylgt þjóðinni frá örófi alda. Við erum bókaþjóð. Við skrifum, lesum og syngjum, oft til að komast í gegn um erfiðleika sem að okkur steðja. Við vitum hversu miklu máli skiptir að rækta þessa hefð, ekki síst í ljósi þess að lesskilningur er sérstaklega mikilvægur fyrir börn. Námsárangur þeirra til lengri tíma ræðst að miklu leyti af lesskilningi þeirra, sem eykst með ástundum. Hér gildir hið fornkveðna, að æfingin skapi meistarann.
Með lestri ræktar þjóðin einnig menningararf sinn. Hver bók tekur mann í manns eigið ævintýri. Hver blaðsíða eflir orðaforðann, kveikir nýjar hugmyndir, eykur skilning og veitir þannig betri aðgang að heiminum öllum. Þannig gegna íslenskir rithöfundar og þýðendur gríðarlega mikilvægu samfélagshlutverki. Það eru þeir sem bjóða okkur að ferðast um heiminn þar sem sitjum á sama stað með bók í hendi, í sóttkví eða samkomubanni. Það er þeim og blómlegri bókaútgáfu að þakka, að á mörgum heimilum eru bókahillur fullar af kræsingum fyrir lesendur á öllum aldri. Þar ægir saman Jóni Kalman, Ævari vísindamanni, Steinunni Sigurðardóttur, Halldóri Laxness yngri og eldri, Guðrúnu Helgadóttur og öllum hinum frábæru rithöfundunum og skáldunum. Hvort sem lögreglumaðurinn Erlendur, grallarinn Fíasól, Bjartur í Sumarhúsum eða ungfrúin Hekla hafa fangað athygli okkar, þá veita þau frelsandi hvíld frá amstri og áhyggjum hversdagsins. Við þurfum á því að halda einmitt nú.
Allt ofangreint var hvatinn að nýju þjóðarátaki, sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hleypti af stokkunum í gær undir heitinu Tími til að lesa. Heitið er dregið af þeirri staðreynd, að nú hafi margir meiri tíma en áður til að lesa og þörfin hafi sjaldan verið meiri á að rækta hugann með lestri af öllu mögulegu tagi. Við ætlum að lesa meira en nokkru sinni áður og skrá lesturinn á vefsíðuna timitiladlesa.is á hverjum degi til 30. apríl. Að átakinu loknu ætlum við að freista þess að fá árangurinn skráðan í heimsmetabók Guinness, líkt og sæmir bóka- og lestrarþjóðinni í norðri.
Nú þarf að virkja keppnisskapið, og ef vel tekst til gæti verkefnið orðið góður vitnisburður bókaþjóðarinnar Íslendinga um allan heim. Og nú, eftir lestur þessa pistils, getur þú bætt fimm mínútum inn á þitt nafn á vefnum timitiladlesa.is! Munum að þrátt fyrir frostið, þá er samt að koma vor – það birtir til. Áfram Ísland!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir,mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. apríl 2020.
Fyrr í vetur fékk ég til mín gesti frá Bandaríkjunum. Bar ég fram það fínasta úr búrinu á borðin og kynnti fyrir þeim íslenskan mat. Þar mátti finna skyr, osta, lax og lamb. Áður en sest var að snæðingi fóru þau með sína borðbæn: „God bless the food.“ Já, já, ég hnikaði höfði kurteislega til samþykkis, sinn er hver siðurinn og allt það.
Núna síðustu vikur hef ég verið að hugsa um þennan sið sem líklega er til á öllum tungumálum og í öllum trúarbrögðum. ´Guð laun fyrir matinn‘, var sagt og var þá verið að vísa til þess að ekki er það sjálfsagt að eiga til hnífs og skeiðar og auðvitað ætti maður að drjúpa höfði í auðmýkt að geta borið næringu á borð fyrir sig og sína.
Okkar öryggi
Stefna um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi er liður í stefnu í almannavarna- og öryggismálum sem er hluti af þjóðaröryggisstefnu sem samþykkt var á Alþingi 2016. Í stefnu fyrir árin 2015-2017 segir að matvælaöryggi felist í aðgangi að nægum, öruggum og næringarríkum matvælum. Settar eru fram aðgerðir og verkefni til að tryggja að til sé áætlun um að nægar birgðir séu til af heilnæmum mat og ómenguðu neysluvatni í að minnsta kosti sex mánuði og áætlun um heilnæmi og gæði matvæla til vernda heilsu fólks. Meðal tilgreinda verkefna til að ná markmiðunum er að að setja þyrfti lög um matvælageymslur, dreifingu matar, orku og eftirlit, gera þyrfti viðbragðsáætlun við matvælaskorti í samráði við helstu birgja og gera neyðaráætlun um hagvarnir, birgðir og neyðarflutninga til og frá landinu.
Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi í sl. viku um uppfærslu á stefnu í almannavarna- og öryggismálum kemur fram að unnið sé að stefnumótun varðandi fæðuöryggi samhliða mótun matvælastefnu fyrir Ísland. Þá hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið með samningi sem undirritaður var í febrúar 2020 falið Landbúnaðarháskóla Íslands að vinna greiningu á fæðuöryggi. En sumt getum við sagt okkur sjálf.
Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir
Þeir tímar sem við lifum á núna minna okkur á hversu mikilvægt það er að tryggja fæðuöryggið í landinu, þó ekki væri nema vegna legu landsins. Farsælasta leiðin til þess er að framleiða næg matvæli innanlands, svo við verðum að mestu leyti sjálfum okkur nóg um matvæli. Innlend matvælaframleiðsla á að geta fullnægt frumþörfum okkar, þó hún muni seint geta uppfyllt alla þá fjölbreytni sem við viljum búa við hér á landi. Engu að síður er það ljóst að við getum spýtt verulega í til að tryggja að neytendur hafi ávallt aðgang að góðum og heilnæmum matvælum.
Framsóknarflokkurinn hefur ávallt verið óhræddur við að benda á það augljósa, að það þurfi að styðja og vernda íslenska landbúnaðinn. Með því að styðja við íslenska landbúnaðarframleiðslu tryggjum við ekki aðeins fæðuöryggi, heldur verndum við einnig störf fólks og tryggjum fjölbreytni atvinnulífsins. Við viljum geta boðið upp á hágæðavöru sem framleidd er við bestu mögulegu aðstæður á sama tíma og við sköpum störf fyrir fólkið í landinu. Það gleymist nefnilega oft að þúsundir einstaklinga starfa við matvælaframleiðslu hér á landi. Þetta fólk borgar hér skatta og skyldur sem og fyrirtækin sem stunda sína framleiðslu. Með því að efla íslenskan landbúnað er hægt að draga úr niðursveiflunni í hagkerfinu og um leið tryggja fæðu- og matvælaöryggi í landinu.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 2. apríl 2020.
Ferðaþjónustan á norður og austurlandi hefur lengi glímt við þann vanda að ferðamenn koma ekki þangað í eins ríkum mæli og á suðvesturhorn landsins. Má leiða það því líkum að það hafi töluvert að gera með þá staðreynd að lang stærsti komustaður ferðamanna til landsins er í Keflavík. Hafa ferðaþjónustuaðilar ásamt landshlutasamtökum og sveitarfélögum barist hetjulega fyrir því í langan tíma að koma á reglubundnu millilandaflugi á Akureyri. En ýmislegt hefur verið í veginum fyrir því að það gengi fullkomlega upp. Má þar nefna að bæta þurfti aðflugsbúnað til að hægt væri að tryggja lendingaröryggi með sem bestum hætti, flughlað flugvallarins var of lítið og síðast en ekki síst þá þurfti að stækka flugstöðina. Hafa stuðningsmenn flugs á Akureyri haft djúpa og einlæga sannfæringu fyrir því að ef þetta allt gengi upp væru allir vegir færir til þess að efla heilsársferðaþjónustu á svæðinu.
Allt í holu
Nú má segja að allt það sem nefnt er hér að ofan sé að verða komið í höfn. ILS aðflugsbúnaðurinn var gangsettur á síðasta ári og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, er búinn að tilkynna að ráðist verði í uppbyggingu á flughlaði og flugstöð hið fyrsta. Er það partur af fjárfestingaáætlun ríkisttjórnarinnar til að bregðast við Covid 19 faraldrinum. Því má segja að nú sé okkur ekkert að vanbúnaði að blása í lúðra og undirbúa með stæl enn frekari uppbyggingu farþegaflugs til Akureyrar. Þessi mikilvægu skref eru til þess fallin að efla stoðir atvinnulífsins á Norðurlandi og er það vel. Samtakamáttur og samvinna geta skilað miklu. Það sést glögglega á þessu verkefni, margir hafa lagt hönd á plóg á undanförnum árum til að skila þessu verkefni í höfn. Fleiri verkefni sem þetta bíða eftir því að stjórnvöld byggi upp og efli landsbyggðina, göngum saman fram með samvinnuhugsjónina að leiðarljósi. Áfram veginn!
Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.
Willum Þór: „Meginmarkmiðin eru að verja störfin, verja fyrirtækin, verja efnahag heimilanna“
Alþingi samþykkti í gær ráðstafanir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, ásamt fjáraukalögum 2020 og um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak. Eru málin framkomin í beinu framhaldi af samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 10. mars 2020 um aðgerðir í sjö liðum til að mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins, við afar sérstakar og fordæmalausar aðstæður í efnahagslífinu.
Aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru
Í lögunum eru breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld vegna þeirrar miklu óvissu sem ríkir nú í atvinnulífi og efnahag landsins eftir að lýst hefur verið yfir heimsfaraldri vegna kórónuveirunnar (SARS–CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum. Að auki eru breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að því er varðar tímabundna heimild til úttektar á séreignarsparnaði. Þá er í lögum um ríkisábyrgðir og Seðlabanka Íslands verði breytt vegna ábyrgðar til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja.
Við afgreiðslu málsins á Alþingi í gær gerði Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, grein fyrir sinni afstöðu og þakkaði fyrir samstöðu í nefndinni um málið.
„Ég vil ítreka það hér að þetta eru ekki loka aðgerðir. Það kemur mjög skýrt fram í nefndaráliti og ég umber og virði allar þær hugmyndir sem hafa komið fram um það að það kunni að vera sú staða uppi að það þurfi að ganga lengra. Það eru mjög mikilvægar aðgerðir sem ég met hér, þar sem meginmarkmiðin eru að verja störfin, verja fyrirtækin, verja efnahag heimilanna, þetta er allt samofið í þessari efnahagshringrás þar sem við höfum tvær megin stoðir, fyrirtæki og heimili. Og allar þessar aðgerðir hér miða í þá átt og er það mikilvægt. En við eigum um leið að vakta það hvern dag í þessari miklu óvissu hvað þurfi að gera meira og hvar þurfi að ganga lengra. Hafandi sagt það hér þá á þetta mál samsvörun við þau mál sem við munum ræða hér á eftir og ég hafa framsögu um, sem er fjáraukalagafrumvarp og eru útgjaldaheimildir til að fara hér í fjárfestingaátak ásamt þingsályktunartillögu um það mál,“ sagði Willum Þór.
Fjáraukalög 2020 og sérstakt tímabundið fjárfestingarátak
Gera má ráð fyrir að þessi fjáraukalög verði það fyrra af tveimur til fjáraukalaga fyrir árið 2020. Að öðru óbreyttu má ætla að hið síðara verði lagt fram á haustmánuðum. Í því frumvarpi er reiknað með að afla þurfi frekari fjárheimilda, m.a. til að mæta auknum útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs á yfirstandandi ári og öðrum kostnaði af völdum heimsfaraldurs kórónaveiru sem ekki rúmast innan fjárheimilda almenns varasjóðs fjárlaga, þegar kostnaðaráhrifin liggja betur fyrir. Willum Þór Þórsson, alþingismaður og formaður fjárlaganefndar, hafði framsögu fyrir nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar, sagði að meginefni fjáraukalaga fyrir árið 2020 megi skipta í þrjá meginliði, gjaldaheimildir, hækkun lánsfjárheimildar og ýmsar heimildir til handa fjármála- og efnahagsráðherra til breytinga á 6. gr. fjárlaga.
„Niðursveiflan kemur harkalega niður á atvinnulífinu og mikil óvissa er enn um efnahagsleg áhrif á fjölmargar atvinnugreinar og heimili landsins. Allar aðgerðir sem þessar miða hingað til að því, um leið og heilbrigðisþátturinn er í forgangi, að verja fyrirtæki, efnahag heimila og störf landsmanna. Mikið álag er á heilbrigðiskerfinu. Bæði er beinn kostnaður vegna veirufaraldursins en einnig er um að ræða röskun á hefðbundinni starfsemi heilbrigðiskerfisins sem nokkurn tíma getur tekið að vinna upp að nýju að faraldrinum loknum. Það er mikilvægt að halda utan um þann kostnað sem af þessu hlýst svo hægt sé að mæta honum með markvissum hætti með fjáraukalögum.
Meiri hlutinn vekur sérstaklega athygli á stöðu heilbrigðisstarfsmanna en gripið hefur verið til ýmissa ráðstafana. Eitt af úrræðunum er myndun bakvarðasveita heilbrigðis- og velferðarþjónustunnar. Það er athyglisvert hvað fólk er tilbúið að leggja á sig við slíkar kringumstæður og heilbrigðisstarfsfólk víða að úr samfélaginu hefur þegar skráð sig. Fjölmargir vilja þannig taka þátt í að leysa þennan tímabundna vanda, stéttirnar í framlínunni, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og læknar, á þessum hættutímum. Meiri hlutinn leggur áherslu á og telur mikilvægt að viðurkenna og þakka störf þeirra. Mikilvægi þessara starfsstétta er óumdeilt.“
„Við svona aðstæður einangrast margir hópar og þessi vandræði skella kannski þyngra á þeim. Við horfum til geðheilbrigðismála og fjölda frjálsra félagasamtaka. Við áttum gott samtal við Geðhjálp sem vinnur mjög gott starf til að mæta þörfum þessara hópa við erfiðar aðstæður. Nefndin ákvað að leggja til 40 milljónir til þeirra verkefna. Ráðherrann og félagsmálaráðuneytið hefur mesta yfirsýn yfir það hvar þörfin er brýnust og hvar hann getur mætt þeim fjölmörgu störfum sem birtast dag frá degi.
Breytingar meiri hluta við fjárfestingarátakið felast m.a. í því að auka enn frekar framlög til rannsókna og nýsköpunar og skapandi greina, um 1.250 millj. kr. Einnig er 510 millj. kr. aukning í viðhald og endurbætur. Þá eru 480 millj. kr. í nýbyggingar, 300 millj. kr. í önnur innviðaverkefni, 296 millj. kr. til viðhalds og endurbóta á flugvöllum og loks 100 millj. kr. í verkefni í orkuskiptum og grænum lausnum, samtals 2.936 millj. kr.“
„Meiri hlutinn áréttar að þessum málum, fjárauka- og fjárfestingarátaki og aðgerðum sem boðaðar eru í þessari atrennu, lýkur ekki á þessari stundu. Hér erum við þó að taka skref í rétta átt til að mæta ríkjandi ástandi. Við þurfum á því að halda að takast saman á við þetta ástand, verja efnahag heimila, störfin í landinu, efnahag fyrirtækjanna og fólkið sameiginlega í föstum, öruggum skrefum og greiða jafnóðum úr óvissunni, bæði er varðar heilbrigðisþáttinn sem er í forgrunni og svo hinar efnahagslegu áskoranir sem fylgja. Ég hvet okkur öll til að huga að öllum þeim aðgerðum sem duga til að bæta úr,“ sagði Willum Þór.
Þingsályktun um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak
Alþingi hefur samþykkt framkvæmd eftirfarandi ráðstafana á grundvelli heimilda í fjáraukalögum fyrir árið 2020 um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru: 1. Að 15.000 m.kr. fjárheimild til átaksins verði skipt á verkefnaflokka í samræmi við áætlun í töflu 1. 2. Að fjárveitingum til átaksins verði skipt á einstök fjárfestingarverkefni í samræmi við áætlun í töflu 2. 3. Að framlög verði færð til annarra verkefna innan sama verkefnaflokks, takist ekki að hefja öll skilgreind verkefni fyrir 1. september 2020. 4. Að framlög verði færð til annarra verkefnaflokka, verði ljóst að ekki takist að nýta öll framlög innan einstaks verkefnaflokks fyrir 1. apríl 2021.
*** Tafla 1 – Sundurliðun fjárheimilda eftir verkefnaflokkum.
Tegund verkefna
Framlög (m.kr.)
Vægi (%)
Viðhald og endurbætur fasteigna
2.008
13
Nýbyggingar og meiri háttar endurbætur
700
5
Samgöngumannvirki
6.210
41
Orkuskipti, grænar lausnir og umhverfismál
1.365
9
Önnur innviðaverkefni
1.617
11
Rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar
1.750
12
Stafrænt Ísland og upplýsingatækniverkefni
1.350
9
Samtals
15.000
100
Tafla 2 – Sundurliðun fjárveitinga eftir fjárfestingarverkefnum.
Viðhald og endurbætur fasteigna
Fjárhæð 2020 m.kr.
Heilbrigðisstofnanir
400
Lögreglu- og sýslumannsembætti
210
Framhaldsskólar
411
Ýmsar fasteignir ríkisins
730
Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús
195
Fasteignir Alþingis
62
Samtals
2.008
Nýbyggingar og meiri háttar endurbætur
Fjárhæð 2020 m.kr.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík
200
Landhelgisgæslan – flugskýli
100
Endurhæfingardeild Landspítalans við Grensás
Nú þegar aðeins er boðið upp á eitt flug á dag milli Egilsstaða og Reykjavíkur og flugumferð í heiminum dregst saman dag frá degi, skýtur kannski skökku við að skrifa um flugvelli.
Á tímum samdráttar og óvissu er nauðsynlegt að horfa til framtíðar og mikilvægt að opinberir aðilar fjárfesti í verkefnum sem geta ýtt undir framfarir í samfélags- og efnahagsmálum í landinu. Áætlun ríkisstjórnarinnar um sérstakt fjárfestingarátak fyrir árið 2020 til viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf vegna veirufaraldursins liggur nú fyrir Alþingi.
Meðal verkefna sem lögð er áhersla á að hefjist strax er stækkun flugstöðvar á Akureyri, vinna við flughlað á Akureyri og gerð akbrautar á Egilsstaðaflugvelli. Þrátt fyrir hrun í ferðaþjónustunni er brýn þörf fyrir uppbyggingu innviða.
Þar er lagt til að hafist verði handa við undirbúning nýrrar akbrautar fyrir flugvélar meðfram Egilsstaðaflugvelli, til að tryggja öryggi og styrkja varaflugvallarhlutverkið. Gert er ráð fyrir að undirbúningur fari fram í ár og þá liggur beint við að fjármagn til framkvæmda skili sér í fjárfestingaátaki næstu ára. Einnig er áríðandi að fara í yfirlagningu á flugbrautinni á Egilsstöðum og hagkvæmt væri að tengja þessar framkvæmdir saman.
Akbrautin meðfram flugvellinum er mikilvæg til þess að hægt sé að lenda sem flestum flugvélum á sem skemmstum tíma. Hægt væri að útfæra hana þannig að hluti hennar þjóni jafnframt hlutverki flughlaðs. Við undirbúning verksins er mikilvægt að meta hvernig akbraut og flughlöð henta best framtíðarþróun vallarins. Með framkvæmdum á Egilsstöðum eykst rekstraröryggi Egilsstaðarflugvallar og flugöryggi á Íslandi.
Í desember 2019 var skipaður aðgerðahópur til að vinna tillögur um endurbætur á flugvellinum á Akureyri til framtíðar. Honum er ætlað að vinna greiningu á markaðssetningu á Norðurlandi sem áfangastaðar og gera kostnaðaráætlun um mögulega stækkun eða endurbætur á mannvirkjum og þjónustu. Nú liggja tillögur hópsins um stækkun flugstöðvar fyrir og því er hægt að hefjast handa við viðbyggingu vestur af norðurenda núverandi flugstöðvar.
Viðbygging við flugstöð á Akureyri styður við eflingu ferðaþjónustunnar á Norðurlandi. Hægt væri að bjóða verkið út á vormánuðum sem gæti skapað um 50 ársverk hjá verktökum á svæðinu. Í ársbyrjun var ILS aðflugsbúnaður tekinn í notkun á Akureyrarflugvelli, í kjölfar þess að Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra tók af skarið og tryggði fjármagn í búnaðinn á árinu 2018. Búnaðurinn hefur nú þegar sannað gildi sitt. Stækkun á flughlaði á Akureyrarflugvelli getur svo aukið enn frekar umsvif og öryggi flugvallarins.
Skýr stefna um uppbyggingu flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum
Framangreind verkefni eru atvinnuskapandi í bráð og lengd. Verkefnin byggja á öflugri stefnumótun í samgöngum, þ.e. samgönguáætlun sem samþykkt var á vorþingi 2019 og uppfærðri áætlun sem Alþingi vinnur nú með. Flugstefna hefur verið mótuð í fyrsta sinn í 100 ára sögu flugsins. Lykilatriði hennar er að millilanda- og varaflugvellirnir verða á einni hendi, Isavia sem taki ábyrgð á varaflugvöllunum.
Uppbygging varaflugvalla á Íslandi er mikilvæg til að tryggja flugöryggi fyrir þá sem fljúga um Keflavíkurflugvöll, s.s. þegar aðstæður breytast skyndilega vegna veðurs eða óhappa. Þörfin fyrir framkvæmdir og þjónustu miðast við að skapa aðstöðu til að taka við nægum fjölda véla í neyðarástandi. Isavia hefur tekið við rekstri, viðhaldi og uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar af ríkinu frá síðustu áramótum Á sama tíma lækkuðu þjónustugreiðslur ríkisins til Isavia sem nýtast nú í innanlandsflugvelli um land allt og til að efla innanlandsflugið.
Nú er verið að fylgja eftir skýrri stefnu um að byggja flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum upp sem alþjóðlegar fluggáttir, samhliða varaflugvallahlutverkinu og innanlandshlutverkinu. Öflugt innlandsflug er mikilvægt byggðamál, hluti af almenningssamgöngum og öryggi byggðanna. Flugið er einn lykillinn að jafnræði byggðanna og nú er ákveðið er að skoska leiðin komi til framkvæmda seinnihluta ársins, sem er mikilvægt skref til að jafna aðstöðumun íbúa landsins.
Samvinna er lykill að árangri
Þegar fram í sækir mun samkeppnishæfni landsins eiga mikið undir góðum alþjóðlegum flugtengingum og fleiri hlið inn til landsins eru á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar.
Ég álít mjög mikilvægt að fylgja nýrri flugstefnu og aukinni fjárfestingu í flugvöllum eftir með öflugri samvinnu um markaðssetningu nýrra fluggátta og þar er samstarf um markaðsetningu og samvinna sveitarfélaga á Norður- og Austurlandi lykillatriði.
Notum tímann vel – Áfram veginn.
Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmki og nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.