Categories
Fréttir

Kvennaathvarfið og Reykjavíkurborg hlutu jafnréttisviðurkenningu

Deila grein

25/05/2016

Kvennaathvarfið og Reykjavíkurborg hlutu jafnréttisviðurkenningu

Eygló HarðardóttirEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, afhenti í gær jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs. Að þessu sinni voru það tveir aðilar sem hlutu viðurkenninguna eins og fram kemur í eftirfarandi rökstuðningi Jafnréttisráðs:

Reykjavíkurborg og starfsfólk borgarinnar fá jafnréttisviðurkenningu 2016 vegna brautryðjendastarfs að innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar í starfsemi borgarinnar og fyrir að þróa þá aðferðarfræði áfram í þeim hagræðingaraðgerðum sem borgin stendur nú frammi fyrir. Þetta starf felur í sér mikilvægan lærdóm og hvatningu fyrir sveitarfélög og ríkisstofnanir.
Samtök um Kvennaathvarf fær jafnréttisviðurkenningu 2016 fyrir að hafa starfrækt Kvennaathvarf frá árinu 1982. Samtökin eru grasrótarsamtök sem hafa sýnt mikla þrautseigju í rekstri athvarfsins og náð að þróa starfsemina þannig að hún geti tekist á við áskoranir hvers tíma. Hér má sérstaklega nefna starf Kvennaathvarfsins í þágu kvenna af erlendum uppruna. Kvennaathvarfið hefur gegnt ómetanlegu hlutverki sem athvarf fyrir konur og börn sem verða að flýja heimili sitt vegna ofbeldis. Þúsundir kvenna hafa leitað til athvarfsins frá stofnun þess, fundið þar öryggi og hlýju og svigrúm til að vinna úr sínum málum. Í athvarfinu er unnið faglegt starf, oft við afar krefjandi aðstæður og athvarfið hefur einnig lagt áherslu á fræðslu um eðli og afleiðingar ofbeldis í nánum samböndum.

eyglo-jafnretti-01

Viðureknningarhafar frá upphafi:

Jafnréttisviðurkenning Jafnréttisráðs hefur verið veitt með hléum frá árinu 1992. Eftirfarandi aðilar hafa hlotið viðurkenninguna: Þær þingkonur sem fyrst gegndu embættum forseta Alþings, ráðherra og þingflokksformanna: Birgitta Jónsdóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Guðrún Helgadóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Ragnhildur Helgadóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Salome Þorkelsdóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir, Siv Friðleifsdóttir, Svanfríður Jónasdóttir og Valgerður Sverrisdóttir. Einnig hafa hlotið viðurkenninguna: WOMEN In Iceland: Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, Orkuveita Reykjavíkur, Guðrún Jónsdóttir, Kvennalandsliðið í fótbolta, Alcoa Fjarðarál, Menntaskólinn í Kópavogi, SPRON, Háskóli Íslands, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Kvenréttindafélag Íslands, VR, Auður Eir Vilhjálmsdóttir, Bjarnfríður Leósdóttir, Hegla Kress, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Svava Jakobsdóttir,  Vigdís Finnbogadóttir, Eimskip, Reykjavíkurborg, Hjallastefnan, Íslenska álfélagið, Stúdentaráð Háskóla Íslands, Hans Petersen, Íþróttasamband Íslands og Akureyrarbær.

Heimild: www.velferdarraduneyti.is

Categories
Fréttir

Fæðispeningar sjómanna meðhöndlaðir sem dagpeningar

Deila grein

25/05/2016

Fæðispeningar sjómanna meðhöndlaðir sem dagpeningar

Páll„Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs í þessum dagskrárlið, störf þingsins, til að vekja athygli á tveimur góðum málum sem bíða eftir að komast á dagskrá.
Þannig er málum háttað að 17. desember 2008 skrifuðu sjómenn síðast undir kjarasamning, það eru sjö og hálft ár síðan sjómenn og útvegsmenn skrifuðu undir kjarasamning. Sá samningur rann út í lok 2011 þannig að í fjögur og hálft hafa sjómenn verið samningslausir. Í vetur og reyndar allt síðasta ár hafa sjómenn og útvegsmenn verið að ræða saman og reyna að komast að niðurstöðu. Eftir því sem ég best veit er sá samningur alveg á lokastigi. Það sem kannski helst stendur upp úr hjá þeim er að þeir bíða eftir svari héðan frá Alþingi. Þeir fara fram á að fæðispeningar hjá þeim verði meðhöndlaðir eins og dagpeningar hjá öðrum.
Hér er einmitt lítið frumvarp sem lætur ekki mikið yfir sér frá nokkrum þingmönnum þar sem tekið er einmitt á þessum málum, þ.e. frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt með síðari breytingum, fæðispeningar sjómanna. Þar er lagt til að fæðispeningar sjómanna verði meðhöndlaðir eins og dagpeningar hjá flugmönnum, flugfreyjum og einnig alþingismönnum og fleira fólki sem þarf að ferðast og vinna utan heimilis síns.
Ég treysti því og bið góðfúslega um að það mál komi sem fyrst á dagskrá.
Hitt málið er um mótun klasastefnu, þingsályktunartillaga um að stofnaður verði starfshópur um að móta opinbera klasastefnu um hvernig efla megi stoðkerfi atvinnulífsins á landsvísu í samvinnu við atvinnulífið, rannsóknar- og menntastofnanir o.fl.“
Páll Jóhann Pálsson í störfum þingsins 24. maí 2016.

Categories
Fréttir

Snemmtæk íhlutun

Deila grein

25/05/2016

Snemmtæk íhlutun

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Snemmtæk íhlutun skiptir máli bæði fyrir þá sem þurfa á þjónustuna að halda og fyrir þjóðfélagið allt. Snemmtæk íhlutun er það þegar brugðist er við röskun barna snemma á lífsleiðinni, þau þjálfuð og fá þjónustu við hæfi. Rannsóknir hafa sýnt að snemmtæk íhlutun skiptir máli. Þeir sem njóta stuðnings hennar eða þjónustu þeirrar aðgerðar hafa í mörgum tilfellum náð afar góðum árangri, líðanin verður betri og margir hverjir ná að verða virkari í samfélaginu síðar meir eftir að hafa notið þessarar þjónustu. Það skiptir öllu máli að þeir sem hafa einhverja röskun eða greiningu fái aðstoð við hæfi eins fljótt og auðið er. Því er mikilvægt að við förum í það verkefni og skoðum hvaða leiðir eru færar til þess að börn og ungmenni sem grunur leikur á að séu með einhverja röskun, fái þjónustu eins fljótt og auðið er.
Þessu máli fylgir jafnframt það mikilvæga hlutverk að fjölskyldan geti stutt við bakið á því barni sem glímir verið einhvers konar röskun eða langvarandi veikindi. Þannig er það í þjóðfélaginu í dag. Vel getur verið að umfang þessa stuðnings sé mikið, en hann er afar mikilvægur og óhætt er að segja að skili sér til baka. Þau sem njóta ríkulegs stuðnings og tryggs baklands í veikindum eða við einhvers konar raskanir ná oft og tíðum betri árangri. Það er mikilvægt að styðja við bakið á þeim sem standa í þessum sporum.
Virðulegi forseti. Ég verð því að segja að ég þekki ekkert foreldri sem ekki mundi gefa aleiguna fyrir það að barn þess þurfi ekki að glíma við alvarlegar raskanir eða veikindi.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 24. maí 2016.

Categories
Fréttir

Góð samstaða um meðferð krónueigna

Deila grein

25/05/2016

Góð samstaða um meðferð krónueigna

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Um liðna helgi afgreiddi þingið frumvarp til laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, svokallaðar aflandskrónueignir. Ég ætla að nota tækifærið hér í störfunum og lýsa ánægju minni með þetta mál og um leið hrósa þinginu fyrir vel unnin störf og fyrir skilvirkni, samvinnu og samstöðu.
Hér vorum við að stíga örugg, varfærin en afar mikilvæg skref í átt að losun hafta. Óhjákvæmileg, mundi einhver segja, og nauðsynleg til þess að treysta grundvöll fyrir frjáls viðskipti milli landa með íslenskar krónur svo að slík frjáls viðskipti geti orðið á þeim forsendum, eins og í fyrri skrefum og aðgerðum við losun hafta, án þess að það ógni fjármálalegum og peningalegum stöðugleika með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum fyrir íslenskt atvinnulíf, efnahag og lífskjör almennings. Það er algjört grundvallaratriði eins og í fyrri aðgerðum.
Málið kom hér til þingsins afar vel ígrundað og undirbúið eins og reyndin var með þau frumvörp sem sneru að stöðugleikaframlögum og stöðugleikaskatti og þingið tók til umfjöllunar og vinnslu á sínum tíma með svipuðum hætti. Vinna hv. efnahagsnefndar var afar góð og mikil, samstaða í nefndinni um úrvinnslu málsins. Þá naut nefndin umsagna og útskýringa helstu stofnana og ráðgjafa eins og Seðlabankans og ráðuneytisins sem ber að þakka.
Virðulegi forseti. Við höfum hingað til fetað þessa leið úr höftum í litlum, öruggum skrefum í átt að ákveðnu marki. Hér var um slíkt samtaka skref að ræða og sannarlega til þess fallið að skapa forsendur fyrir frekari skrefum í átt að losun hafta.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 24. maí 2016.

Categories
Fréttir

Byggðamál: Efnahagslegur fjölbreytileiki mikilvægur

Deila grein

25/05/2016

Byggðamál: Efnahagslegur fjölbreytileiki mikilvægur

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraGunnar Bragi Sveinsson ráðherra byggðamála opnaði í vikunni ráðstefnuna „Nordic Ruralities: Crisis and Resilence“. Um þrjú hundruð sérfræðingar á sviði byggðamála frá 27 löndum kynna rannsóknir sínar á ráðstefnunni sem haldin er í Háskólanum á Akureyri.

Í ávarpi sínu sagði Gunnar Bragi m.a. frá mótun nýrrar byggðaáætlunar sem þessar vikurnar er í kynningu og umræðu um allt land. Þá fór hann yfir mikilvægi efnahagslegs fjölbreytileika fyrir landsbyggðina og hvernig ríkisstjórnin er að mæta því, m.a. með styrkjum til ljósleiðaravæðingu fyrir landsbyggðina.

Meðal viðfangsefna ráðstefnunnar má nefna ímynd norðurslóða í kvikmyndum, áfengis- og vímuefnaneyslu ungs fólks, svæðisbundin áhrif háskólastarfs, skipulag heilbrigðisþjónustu, ferðaþjónustu og húsnæðismarkað, áhrif fiskveiðistjórnunar á byggðaþróun og starfsemi frumkvöðla af erlendum uppruna í dreifðum byggðum.

Heimild: www.atvinnuvegaraduneyti.is/sjavarutvegs-og-landbunadarmal

Categories
Fréttir

Starfshópur um vindorkuver skipaður

Deila grein

25/05/2016

Starfshópur um vindorkuver skipaður

sigrunmagnusdottir-vefmyndSigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað starfshóp sem fara mun yfir regluverk varðandi starfsemi vindorkuvera og framkvæmdir vegna þeirra. Greining starfshópsins mun einnig ná til löggjafar á málefnasviði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er varðar leyfisútgáfu og eftirlit með starfsemi vindorkuvera.
Áhugi fyrir starfsemi vindorkuvera hefur aukist verulega á síðustu árum og er hópnum ætlað að kanna hvort umfjöllun um þau sé nægileg í íslenskum lögum. Í starfshópnum sitja:

  • Steinunn Fjóla Sigurðardóttir, formaður, umhverfis- og auðlindaráðuneyti,
  • Herdís Helga Schopka, sérfræðingur, umhverfis- og auðlindaráðuneyti,
  • Ottó Björgvin Óskarsson, lögfræðingur, tilnefndur af Skipulagsstofnun,
  • Sveinn Þorgrímsson, sérfræðingur, tilnefndur af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti,
  • Agnar Bragi Bragason, lögfræðingur, tilnefndur af Umhverfisstofnun,
  • Margrét Arnardóttir, verkefnastjóri, tilnefnd af Samorku,
  • Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir, lögfræðingur, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga,
  • Jóhann Ólafsson, sviðsstjóri, tilnefndur af Mannvirkjastofnun,
  • Laufey Hannesdóttir, verkfræðingur, tilnefnd af frjálsum félagasamtökum.

Starfshópnum er ætlað að skila greinargerð til ráðuneytisins um þau atriði sem starfshópurinn telur að þarfnist breytinga í viðkomandi lögum og reglugerðum eigi síðar en 1. september 2016.

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Tillaga um móttöku flóttafólks samþykkt á fundi ríkisstjórnar

Deila grein

24/05/2016

Tillaga um móttöku flóttafólks samþykkt á fundi ríkisstjórnar

Eygló HarðardóttirRíkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra um móttöku flóttafólks síðar á þessu ári. Tillagan er í samræmi við niðurstöðu flóttamannanefndar um að líkt og síðast verði tekið á móti sýrlensku flóttafólki sem staðsett er í Líbanon. Gert er ráð fyrir að þrjú sveitarfélög; Reykjavík, Hveragerði og Árborg, annist móttöku fólksins.
Stríðsátökin í Sýrlandi hafa verið viðvarandi frá ársbyrjun 2011 með skelfilegum afleiðingum fyrir sýrlenska borgara. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur skráð yfir 4,8 milljónir sýrlendinga sem flóttafólk og eru flestir þeirra staðsettir í nágrannaríkjum Sýrlands. Mikil spenna hefur skapast ríkjunum þar sem flóttamannastraumurinn er hvað þyngstur og óttast alþjóðasamfélagið að átökin í Sýrlandi dreifist til fleiri ríkja.
Á fundi flóttamannanefndar 6. maí sl. samþykkti flóttamannanefnd að leggja til að áfram yrði tekið á móti sýrlensku flóttafólki frá  Líbanon þar sem fjöldinn er mikill og innviðir landsins til að aðstoða slíkan fjölda eru takmarkaðir.
Flóttamannanefnd leggur jafnframt til að Reykjavík, Hveragerði og Árborg verði næstu móttökusveitarfélögin. Þessi sveitarfélög höfðu frumkvæði að viðræðum um samstarf vegna móttöku á kvótaflóttafólki á haustmánuðum. Í þeim öllum eru virkar og öflugar Rauðakrossdeildir og náið samstarf er á milli Rauðakrossdeildanna í Hveragerði og Árborg. Við val á sveitarfélögum horfði flóttamannanefnd til þess áhuga sem sveitarfélögin höfðu sýnt móttöku flóttafólks og einnig atvinnuástands, félagsþjónustu, húsnæðis-, heilbrigðisþjónustu og menntunarmöguleika á svæðunum.
Reykjavíkurborg hefur áratugareynslu að móttöku flóttafólks og þar á meðal hefur borgin tekið á móti flóttafólki frá Sýrlandi en árið 2015 komu þrettán Sýrlendingar sem kvótaflóttamenn til Reykjavíkur því að þá var sérstök áhersla á flóttafólk með heilbrigðisvanda.
Hveragerði og Árborg hafa ekki tekið áður á móti kvótaflóttafólki en mat flóttamannanefndar er að sveitarfélögin séu vel í stakk búin til að taka á móti flóttafólki, þar sem öll nærþjónusta er til staðar og einnig er horft sérstaklega til þess að Vinnumálastofnun hefur aðsetur í Árborg.
Flóttamannanefnd telur mikilvægt að þekking á málefnum flóttafólks aukist í sveitarfélögunum og því er lagt til að þegar tekið er á móti flóttafólki þá komi að því bæði sveitarfélög sem hafa þekkingu á móttökunni, sem geti þá miðlað af reynslu sinni, sem og sveitarfélög sem eru að taka á móti fólki í fyrsta sinn. Það er því talinn mikill styrkur að Reykjavík taki á móti hópi núna ásamt tveimur nýjum sveitarfélögum.
Kostnaður við móttökuna nemur um 200 m.kr. og er gert ráð fyrir fjármagninu í fjárlögum ársins 2016.

Heimild: www.velferdarraduneyti.is

Categories
Fréttir

Stuðningi Íslands við niðurstöður leiðtogafundar heitið

Deila grein

24/05/2016

Stuðningi Íslands við niðurstöður leiðtogafundar heitið

LiljaAlfreðsdóttir-utanríkisráðuneyti02Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra hét í dag stuðningi Íslands við meginniðurstöður leiðtogafundar um mannúðarmál, sem haldinn er í Istanbúl í Tyrklandi. Í ávarpi á þessum fyrsta leiðtogafundi sinnar tegundar lagði hún jafnframt áherslu á mikilvægi kynjajafnréttis og sagði fátt betur til þess fallið að koma í veg fyrir átök og leysa deilumál en aðkoma kvenna. Meginniðurstöður leiðtogafundarins, sem hefur verið í bígerð í fjögur ár, miðast að því að umbreyta fyrirkomulagi neyðar- og mannúðaraðstoðar í heiminum, þannig að hún skili betri árangri. Tilefnið er ærið, þar sem mannkynið stendur frammi fyrir miklum áskorunum af völdum ófriðar, náttúruhamfara, sárrar fátæktar og áhrifa loftlagsbreytinga.
Utanríkisráðherra segir Íslendinga þekkja vel mikilvægi samstöðu þegar tekist er á við erfið verkefni. ,,Þess vegna hefur Ísland lagt til umtalsvert fjármagn á þessu ári og því síðasta til að aðstoða þá verst stöddu vegna átakanna í Sýrlandi. Og af sömu ástæðu styður Ísland allar meginniðurstöður leiðtogafundarins,” sagði Lilja.
Ráðherra hét auknum stuðningi við Neyðarsjóð SÞ (CERF) á næstu árum en framlög til neyðar- og mannúðarmála hafa á undanförnum árum numið að jafnaði um 200 milljónir króna. Til viðbótar við þetta kemur aukaframlag ríkisstjórnar upp á 250 milljónir árið 2015 og 500 milljónir árið 2016 vegna neyðarástandsins sem skapast hefur vegna stöðunnar í Sýrlandi.
Meginniðurstöður fundarins fela í sér stuðning við fimm markmið: sterkari pólitíska forystu til að koma í veg fyrir og binda enda á átök; að höfð verði í heiðri gildi sem standa vörð um mannúð og mannréttindi; að enginn gleymist; að í stað þess að fólk í neyð hljóti neyðaraðstoð verði ráðist að rótum vandans og sjálfri þörfinni fyrir neyðaraðstoð eytt; og að fjárfest verði í því sem gerir okkur mannleg; menntun, þekkingu o.s.frv.
Utanríkisráðherra notaði tækifærið á fundinum í Istanbúl til að hitta ýmsa ráðamenn og nokkra af forystumönnum stofnana Sameinuðu þjóðanna. Hún hitti m.a. yfirmann neyðar- og mannúðaraðstoðar SÞ í Líbanon, Philippe Lazzarini. Ísland veitti á síðasta ári 98 milljónum ísl. króna til sérstaks sjóðs OCHA til handa Líbanon, en fjármunir úr honum eru nýttir til að veita sýrlensku flóttafólki nauðsynlega aðstoð. Ísland hefur sem kunnugt er þegar tekið á móti 48 sýrlenskum flóttamönnum, á grundvelli samkomulags við Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR) og von er á fleiri flóttamönnum síðar á þessu ári.
Ráðherra fundaði einnig með Pierre Krahenbuhl, framkvæmdastjóra Palestínuflóttamannahjálpar SÞ (UNRWA), en Ísland hefur um árabil stutt við UNRWA og veitti nýverið fimmtíu milljónum ísl. króna til fjársöfnunar UNRWA í þágu Palestínumanna sem eiga um sárt að binda vegna átakanna í Sýrlandi.

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is

Categories
Greinar

Bregðumst af þunga við sívaxandi þörf fyrir mannúðaraðstoð

Deila grein

23/05/2016

Bregðumst af þunga við sívaxandi þörf fyrir mannúðaraðstoð

Lilja Alfreðsdóttir

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur boðað til fundar leiðtoga heimsins um mannúðarmál í Istanbúl 23.-24. maí. Leiðtogafundurinn er haldinn í kjölfar samráðs við breiðan hóp hagsmunaaðila, allt frá ríkisstjórnum til staðbundinna hjálparsamtaka. Við erum sammála um að bregðast þurfi við því ástandi sem hefur skapast í heiminum en við stöndum frammi fyrir því að æ fleiri eru háðir mannúðaraðstoð og sviptir mannlegri reisn. Við getum aðeins breytt þessu ástandi með alþjóðlegri samvinnu og sameiginlegu átaki.

Mannúðaraðstoð Norðurlandanna hefur í áranna rás hjálpað milljónum fórnarlamba náttúruhamfara og hamfara af mannavöldum. Á síðasta ári nam þessi aðstoð tæpum 150 milljörðum íslenskra króna, sem skipar Norðurlöndunum á sess með stærstu veitendum mannúðaraðstoðar í heiminum. Við munum halda áfram að veita þeim aðstoð sem mest þurfa á henni að halda og grundvalla hana á meginreglum um mannúðaraðstoð: sjálfstæði, óhlutdrægni, hlutleysi og mannúð. Jafnframt verðum við að finna nýjar leiðir til að draga úr þörfinni. Ekki er réttlætanlegt að fólk sé háð neyðaraðstoð áratugum saman án vonar um betri tíð; við höfum orðið vitni að grafalvarlegum afleiðingum þess á síðasta ári í Asíu, Afríku og einnig í Evrópu. Leiðtogafundurinn á að senda afgerandi skilaboð þar sem kallað er eftir pólitískri forystu til að leysa neyðarástand. Í dag eru átök orsök 80% af þörfinni fyrir mannúðaraðstoð og átök verða einungis leyst á pólitískum vettvangi.

Sameinuðu þjóðirnar geta aðeins fjármagnað u.þ.b. tvo þriðju hluta árlegs kostnaðar við mannúðaraðstoð. Brýna nauðsyn ber til að breikka og styrkja grundvöll aðstoðarinnar. Framlög til margra ára, sem eru ekki mörkuð tilteknum verkefnum, gera hjálparstofnunum kleift að auka sveigjanleika og bregðast skjótt við óvæntum aðstæðum og neyðarástandi sem ekki ratar í fréttir. Betri viðbrögð byggjast ekki eingöngu á auknum fjárveitingum heldur einnig á skilvirkni og ábyrgðarskyldu. Við höfum skuldbundið okkur til þess að láta mannúðaraðstoð, sem við fjármögnum, ná til fleira fólks á skilvirkari hátt með því að taka tillit til þarfar á hverjum stað. Við erum sannfærð um að konur geti og eigi að gegna veigameira hlutverki í skipulagningu og framkvæmd þróunarverkefna, að taka eigi meira tillit til fólks með sérþarfir og að einkageirinn gegni mikilvægu hlutverki við að finna nýstárlegar og hagkvæmari leiðir til hjálpar þar sem neyðarástand ríkir. Við eigum einnig að brúa bilið milli mannúðaraðstoðar og langtímaþróunarsamvinnu.

Ekki er með öllu hægt að koma í veg fyrir neyðartilvik en unnt er að draga verulega úr neikvæðum áhrifum þeirra með því að auka áfallaþol samfélaga, einkum á svæðum þar sem búast má við jarðskjálftum, flóðum og öðrum náttúruhamförum. Slíkt verkefni á að skipuleggja á landsvísu og taka tillit til á öllum stigum í ferlinu. Við erum reiðubúin að styðja þessa viðleitni í samstarfi við þróunarríkin.

Núverandi ástand, þar sem 60 milljónir manna hafa þurft að flýja heimkynni sín, er óviðunandi. Engu að síður neitum við að gefast upp. Aldrei hafa jafn margir nauðstaddir notið mannúðaraðstoðar. Þúsundir hjálparstarfsmanna um allan heim vinna baki brotnu dag hvern oft við erfiðar og hættulegar aðstæður. Þeir eiga skilið stuðning okkar og viðurkenningu og við getum öll lagt okkar af mörkum, hvert á sinn hátt, hver sem við erum og hvar sem við erum. Það er ábyrgð okkar og til marks um virðingu fyrir mannlegum grunngildum.

Lilja Alfreðsdóttir, Isabella Lövin, Lenita Toivakka, Børge Brende og Kristian Jensen.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. maí 2016.

Categories
Greinar

Skref í rétta átt gegn einelti á vinnustöðum

Deila grein

22/05/2016

Skref í rétta átt gegn einelti á vinnustöðum

Eygló HarðardóttirNýlega stóð Vinnueftirlit ríkisins ásamt velferðarráðuneytinu fyrir morgunverðarfundi um skref til framfara við að uppræta einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Eitt slíkt var setning reglugerðar um þessi mál árið 2004 og endurskoðun hennar á liðnu ári. Í samræmi við reglugerðina hafa mörg fyrirtæki og stofnanir unnið aðgerðaáætlanir og tekið á málum af alvöru. Þó þarf að gera betur og muna að þetta er viðvarandi verkefni sem aldrei má vanrækja.

Jöfnum höndum þarf aðgerðir til að fyrirbyggja einelti og efla faglega getu til að bregðast við eineltismálum. Skilningur á þessu er alltaf að aukast. Vonandi kemur að því að virkar eineltisáætlanir á vinnustöðum verði jafn sjálfsagðar og öryggisskór og heyrnarhlífar.

Rannsóknir hafa sýnt alvarlegar afleiðingar eineltis á þá sem fyrir því verða. Þekktar afleiðingar eru andleg og líkamleg vanlíðan og heilsubrestur. Aukin fíkniefna- og áfengisneysla þolenda er einnig þekkt og enn skuggalegri hlið er sú að sjálfsvígshætta eykst.

Hérlendar kannanir meðal nokkurra starfshópa gefa til kynna að um 8-20 prósent starfsmanna telja sig hafa upplifað einelti á vinnustað. Samkvæmt könnun meðal opinberra starfsmanna frá árinu 2008 sögðust tíu prósent hafa upplifað einelti á sl. tólf mánuðum, um þriðjungur þeirra sagði eineltið hafa varað í tvö ár eða lengur.

Vinnueftirlitið tekur við kvörtunum þeirra sem telja sig hafa orðið fyrir einelti eða annarri ótilhlýðilegri háttsemi á vinnustað og telja sig ekki hafa fengið lausn sinna mála. Árin 2004-2015 bárust yfir 200 slíkar kvartanar. Kvörtunum fer fjölgandi sem bendir til að þekking á málaflokknum hafi aukist og sömuleiðis kröfur um að tekist sé á við mál sem þessi. Ekki síst segir þetta okkur að þörf er á frekara starfi á þessu sviði.

Vegna þessa ákvað ég á þessu ári að veita tíu milljónir króna til Vinnueftirlitsins vegna verkefna sem tengjast félagslegum þáttum í vinnuumhverfi fólks.

Vinnum að því markmiði að allir vinnustaðir verði góðir og öruggir staðir þar sem fólki líður vel og fær notið sín til fulls við bestu aðstæður.

Eygló Harðardóttir.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 20. maí 2016.