Categories
Forsíðuborði Fréttir

Auglýst starf skrifstofustjóra þingflokks

Deila grein

22/12/2017

Auglýst starf skrifstofustjóra þingflokks

Framsóknarflokkurinn óskar eftir að ráða skrifstofustjóra þingflokks í 100% stöðu. Leitað er að ábyrgum og kraftmiklum einstaklingi sem er tilbúinn til að takast á við fjölbreytt starf og sveigjanlegan vinnutíma. Áhersla er lögð á að viðkomandi hafi þekkingu á stefnu og starfi Framsóknarflokksins og Alþingis. Búa yfir framúrskarandi skipulags- og samskiptahæfni, vera sjálfstæður í vinnubrögðum með gott vald á skrifuðu máli og hafa brennandi áhuga á pólitík. Viðkomandi hefur starfsaðstöðu á Alþingi og eftir atvikum á skrifstofu flokksins.
Starfssvið:

Aðstoðar þingflokksformann við utanumhald og skipulag. Sinnir daglegum störfum með þingflokki, aðstoðar þingmenn við vinnslu mála. Skrifar fundargerðir þingflokks.

Umsóknafrestur til 5. janúar 2018. Upplýsingar veitir Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður og Einar Gunnar Einarsson, framkvæmdastjóri.

Categories
Forsíðuborði Greinar

Talaðu við mig íslensku

Deila grein

20/12/2017

Talaðu við mig íslensku

Fjórða iðnbyltingin er ekki lengur handan við hornið, hún er þegar hafin. Birtingarmyndir hennar eru sjáanlegar á öllum sviðum þjóðlífsins, hvort sem litið er til aukinnar sjálfvirknivæðingar í atvinnulífinu eða snjallsímanotkunar almennings. Mörg tækifæri felast í breytingum sem þessum, en jafnframt miklar og krefjandi áskoranir. Ein stærsta áskorunin snýr að tungumálinu okkar, íslenskunni, og stöðu hennar í hinum stafræna heimi. Eitt af stórum málum ríkisstjórnarinnar er ný og fullfjármögnuð máltækniáætlun fyrir íslensku 2018-2022, sem er svarið við þessari áskorun. Markmið hennar er að tryggja að hægt sé að nota íslensku í samskiptum við tæki og í allri upplýsingavinnslu, og um leið varðveita dýrmæta tungumálið okkar til framtíðar.

En hvað felst í þessari framandi og viðamiklu áætlun? Í grunninn má skipta verkefnunum í fimm þætti. Sá fyrsti er talgreining, en í henni felst að þegar þú talar við tækið þitt á íslensku umbreytir tækið talmálinu í ritmál. Þannig verður fólki auðveldað að eiga samskipti við tölvur og tæki með þeim hætti sem flestum þykir eðlilegast: með því að tala. Annar þátturinn er talgerving. Talgervlar eru notaðir til þess að lesa texta, til dæmis úr greinum, af vefsíðum eða jafnvel heilu bækurnar, og breyta þeim í talað mál.

Þetta mun auka lífsgæði fólks með lestrarörðugleika og gera því kleift að njóta þeirrar fjölbreyttu flóru upplýsinga sem ritmálið geymir. Fólk mun meðal annars geta valið um mismunandi karl- og kvenraddir til að hlýða á. Þriðji þátturinn er vélþýðingar, sem eru sjálfvirkar þýðingar milli tungumála. Það er vöntun á þýðingahugbúnaði sem skilar þýðingum nálægt fullnægjandi gæðum. Eitt af markmiðum máltækniverkefnisins er að smíða opna þýðingavél sem þýðir mili íslensku og ensku. Það mun auka aðgengi að heiminum fyrir fólk sem stendur höllum fæti í enskri tungu og sömuleiðis fyrir þá fjölmörgu sem sýna landinu okkar áhuga og vilja eiga samskipti við okkur. Fjórði þátturinn er málrýni, opinn og aðgengilegur villupúki sem nemur textavillur af ýmsum gerðum og aðstoðar við að leiðrétta þær. Í krefjandi náms- og starfsumhverfi, þar sem tímapressa er meiri, getur hugbúnaður sem þessi nýst til hægðarauka við að skila af sér vel unnum textum sem standast gæðakröfur. Að lokum er það fimmti þátturinn, málgögnin, mikið magn texta sem mynda munu gagnagrunninn.

Með slíkum gögnum verða ofangreind kerfi mötuð og tækjunum þannig kennt það sem skiptir máli. Það verður virkilega ánægjulegt þegar þessi metnaðarfulla áætlun verður að fullu framkvæmd. Slíkt skiptir verulegu máli fyrir framtíð íslenskunnar og málþroska barnanna okkar.
Í stað þess að segja „Talk to me in English“ við símann sinn munu þau geta sagt „talaðu við mig íslensku“. Það er fagnaðarefni.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. desember 2017.

Categories
Forsíðuborði Greinar

Sprotar í sókn

Deila grein

11/12/2017

Sprotar í sókn

Við eigum ekki að líta á skattívilnanir sem kostnað heldur leið til að auka tekjur okkar til framtíðar. Þar sem hagsveiflur tengdar auðlindagreinum hafa verið umtalsverðar er eftirsóknarvert að byggja upp iðnað, sem felur í sér meiri fjölbreytileika og er minna háður auðlindum jarðar. Rannsóknir sýna að 60% af framtíðarstörfum barna okkar eru óskilgreind í dag, því er mikilvægt fyrir stjórnvöld að leggja grunn að því að þessi nýju störf geti þróast hér á landi.

Uppgangur hugverkaiðnaðarins á Íslandi sem fjórða stoðin í hagkerfinu, til viðbótar við ferðaþjónustu, stóriðju og sjávarútveg, býður Íslendingum upp á þann möguleika að efla stoð sem ekki er háð takmörkuðum auðlindum. Stoðin þróar í eðli sínu þekkingu og eftirsóknarverð hálaunastörf með vörum og lausnum, sem skila miklum virðisauka, fyrir viðskiptavini á alþjóðlegum markaði.

Hér á landi eru fjölmörg sprotafyrirtæki sem og stærri nýsköpunarfyrirtæki eins og CCP, Marel og Össur, sem eru stöðugt að þróa framúrstefnuleg verkefni á heimsmælikvarða. Lög um nýsköpunarfyrirtæki sem voru sett í apríl 2016 voru afar jákvætt skref en þau eru takmörkuð þar sem skattaívilnandi þakið er of lágt, en í Bretlandi t.d. er ekkert þak á skattaívilnanir til þróunarverkefna. Nú er staðan þessi að stærri nýsköpunarfyrirtæki þurfa sum hver að færa þróunarverkefni sín til annarra landa, ef þau hafa tækifæri til þess, þar sem það er mun hagkvæmara fyrir þau. Ef við ætlum að verða samkeppnishæf þá verðum við að beita sértækum aðgerðum og stuðningi þar sem gengissveiflur eru íslenskum fyrirtækjum erfiðar, við erum langt frá mörkuðum og það er oft erfitt að fá hæft starfsfólk í þau störf sem um ræðir.

Í ljósi þessa þá er ánægjulegt að lesa sáttmála nýrrar ríkisstjórnar og sjá að þar er áhersla lögð á nýsköpun, rannsóknir og þróun. Móta á heildstæða nýsköpunarstefnu fyrir Ísland í nánu samráði við atvinnulífið og vísindasamfélagið. Hún verður samþætt við framtíðarsýn í menntamálum, frá leikskóla til háskóla, í samráði við skólasamfélagið. Að auki á að endurskoða fyrirkomulag endurgreiðslna vegna þróunarverkefna í því skyni að afnema þak sem verið hefur á slíkum endurgreiðslum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður

Greinin birtist í Fréttablaðinu, 11. desember 2017

Categories
Forsíðuborði Greinar

Besta áhættuvörn hagkerfisins

Deila grein

11/12/2017

Besta áhættuvörn hagkerfisins

Það er ánægjulegt að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Íslands hafi hækkað hjá Fitch Ratings í A-flokk. Batnandi lánshæfi þýðir að traust á íslensku efnahagslífi er að aukast og að vaxtakostnaður fer lækkandi á alþjóðlegum mörkuðum. Hækkunin kemur á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og er til marks um traust á núverandi stöðu.
Það eru einkum fjórir þættir sem matsfyrirtækið bendir á að hafi styrkt lánshæfið.

Í fyrsta lagi hefur viðskiptajöfnuður verið umtalsverður.

Í öðru lagi hefur raunhagvöxtur verið mikill á Íslandi eða að meðaltali 4,4% á árunum 2013-2017.

Í þriðja lagi hefur verðbólga verið stöðug og undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands.

Í fjórða lagi hafa skuldir hins opinbera lækkað mikið og er gert ráð fyrir að þær verði komnar undir 45% af landsframleiðslu en þetta hlutfall var um 94% árið 2011. Þess ber þó að geta að vaxtakostnaður ríkissjóðs er enn of mikill eða um 60 milljarðar.

Hagþróunin hefur vissulega verið hagfelld á síðustu misserum. Þrátt fyrir þessi góðu skilyrði stendur hagkerfið líka frammi fyrir stórum áskorunum. Einkum þrennt stendur þar uppúr. Í fyrsta lagi þarf þróunin á vinnumarkaði að vera með þeim hætti að stöðugleiki ríki áfram.

Mikill verðbólguþrýstingur mun skaða allt hagkerfið og verður erfitt að vinda ofan af þróun sem mun leiða af sér víxlhækkun launa og verðlags. Í öðru lagi þurfa ríkisfjármálin að vera framsýn og ábyrg. Áframhaldandi skuldalækkun mun skila sér í auknu svigrúmi til handa samfélagslega mikilvægum verkefnum.

Í þriðja lagi er útflutningur á Íslandi viðkvæmur fyrir breytingum á viðskiptakjörum vegna skorts á fjölbreytni. Það er mikilvægt að opinber stefnumótun hafi það að markmiði sínu að skapa skilyrði til þess að auka fjölbreytileika útflutnings og draga þannig úr áhættu. Sóknartækifæri framtíðarinnar verða í nýsköpun og þróun, þar sem áhersla verður lögð á að auka virði íslenskrar framleiðslu. Til þess að auka hagsæld og velsæld á Íslandi þurfum við að fjárfesta í fjölbreyttu menntakerfi, sem undirbýr samfélagið okkar fyrir áskoranir tæknibyltingarinnar, ásamt því að vera besta áhættuvörn hagkerfisins.

Eitt meginmarkmið nýrrar ríkisstjórnar er að efla menntakerfið með hagsmuni alls samfélagsins að leiðarljósi.Það er ánægjulegt að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Íslands hafi hækkað hjá Fitch Ratings í A-flokk. Batnandi lánshæfi þýðir að traust á íslensku efnahagslífi er að aukast og að vaxtakostnaður fer lækkandi á alþjóðlegum mörkuðum. Hækkunin kemur á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og er til marks um traust á núverandi stöðu.
Það eru einkum fjórir þættir sem matsfyrirtækið bendir á að hafi styrkt lánshæfið.

Í fyrsta lagi hefur viðskiptajöfnuður verið umtalsverður.

Í öðru lagi hefur raunhagvöxtur verið mikill á Íslandi eða að meðaltali 4,4% á árunum 2013-2017.

Í þriðja lagi hefur verðbólga verið stöðug og undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands.

Í fjórða lagi hafa skuldir hins opinbera lækkað mikið og er gert ráð fyrir að þær verði komnar undir 45% af landsframleiðslu en þetta hlutfall var um 94% árið 2011. Þess ber þó að geta að vaxtakostnaður ríkissjóðs er enn of mikill eða um 60 milljarðar.

Hagþróunin hefur vissulega verið hagfelld á síðustu misserum. Þrátt fyrir þessi góðu skilyrði stendur hagkerfið líka frammi fyrir stórum áskorunum. Einkum þrennt stendur þar uppúr. Í fyrsta lagi þarf þróunin á vinnumarkaði að vera með þeim hætti að stöðugleiki ríki áfram.

Mikill verðbólguþrýstingur mun skaða allt hagkerfið og verður erfitt að vinda ofan af þróun sem mun leiða af sér víxlhækkun launa og verðlags. Í öðru lagi þurfa ríkisfjármálin að vera framsýn og ábyrg. Áframhaldandi skuldalækkun mun skila sér í auknu svigrúmi til handa samfélagslega mikilvægum verkefnum.

Í þriðja lagi er útflutningur á Íslandi viðkvæmur fyrir breytingum á viðskiptakjörum vegna skorts á fjölbreytni. Það er mikilvægt að opinber stefnumótun hafi það að markmiði sínu að skapa skilyrði til þess að auka fjölbreytileika útflutnings og draga þannig úr áhættu. Sóknartækifæri framtíðarinnar verða í nýsköpun og þróun, þar sem áhersla verður lögð á að auka virði íslenskrar framleiðslu. Til þess að auka hagsæld og velsæld á Íslandi þurfum við að fjárfesta í fjölbreyttu menntakerfi, sem undirbýr samfélagið okkar fyrir áskoranir tæknibyltingarinnar, ásamt því að vera besta áhættuvörn hagkerfisins.

Eitt meginmarkmið nýrrar ríkisstjórnar er að efla menntakerfið með hagsmuni alls samfélagsins að leiðarljósi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 11. desember 2017

Categories
Forsíðuborði Greinar

Tækifæri og áskoranir í menntamálum

Deila grein

05/12/2017

Tækifæri og áskoranir í menntamálum

Öflugt menntakerfi er forsenda þess að samfélag okkar haldi áfram að dafna og þróast. Því er lögð á það áhersla í nýjum stjórnarsáttmála að blása til sóknar á þessum vettvangi, efla enn frekar þá þætti sem standa styrkum stoðum og takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir.

Miklar tækniframfarir eiga sér nú stað og munu til framtíðar hafa áhrif á öll störf, starfshætti og samfélag. Nemendur okkar þurfa að vera í stakk búnir til að takast á við ný störf sem grundvallast á sköpun, færni og hæfni til að leysa vandamál. Mikilvægt er að menntakerfið taki mið af þessum breytingum og myndi hvetjandi námsumhverfi. Þess vegna er lagt mikið upp úr starfsmenntun og nýsköpun í nýjum stjórnarsáttmála til að íslenskt samfélag geti nýtt sér þessa framþróun. Hér verðum við að að skipa okkur í fremstu röð og horfa til ríkja sem standa hvað best er stefnumótun varðar.

Styrkja þarf umgjörð skólakerfisins og stöðu kennara. Yfirvofandi fækkun í kennarastétt er mikil áskorun. Margir kennarar eru að komast á eftirlaunaaldur og margir kjósa að starfa á öðrum vettvangi en í menntakerfinu. Á meðan sækja of fáir í kennaranám. Samfélagið verður að bregðast við þessari þróun. Hvers vegna velja kennarar að starfa við annað en það sem þeir mennta sig til? Hérna þarf að greina orsakir svo unnt sé að bregðast við í samráði við kennara, skólastjórnendur, foreldra og nemendur. Kennaraskortur er reyndar áhyggjuefni víða, t.d. á Norðurlöndunum.

Þegar tekið er mið af reynslu annarra þjóða er margt sem bendir til þess að með skipulegum langtíma­aðgerðum verði unnt að bæta stöðu íslensks menntakerfis. Ein lykilforsenda er að hafa áreiðanlegar upplýsingar til þess að geta áttað sig á stöðu mála og dregið ályktanir. Þess vegna hefur verið sett af stað verkefni um ítarlega greiningu á stöðu og þróun menntakerfisins. Meginhlutverk vinnunnar er að stuðla skal að auknum gæðum skólastarfs og framförum í þágu samfélagsins. Brýnt er að allt samfélagið taki þátt í þessari vegferð til að vel takist.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. desember 2017

Categories
Forsíðuborði Greinar

Spennandi tímar í menntamálum

Deila grein

04/12/2017

Spennandi tímar í menntamálum

Í upphafi síðustu aldar lögðu íslensk stjórnvöld mikla áherslu á menntamál í aðdraganda fullveldisins, þrátt fyrir að vera eitt fátækasta ríki Evrópu. Árið 1907 samþykkti Alþingi ný fræðslulög en fram að þeim tíma var fræðsla á ábyrgð heimilanna. Kennaraskólinn var svo í framhaldinu stofnaður árið 1908 til að tryggja að börn fengju leiðsögn menntaðra kennara og 1911 var Háskóli Íslands stofnaður. Ljóst er að þessi framfaraskref í menntamálum þjóðarinnar lögðu grunninn að þeim framförum sem íslenskt samfélag og hagkerfi tók næstu áratugina. Enda er það svo að fá ríki hafa aukið lífsgæði og lífskjör á jafn skömmum tíma og Ísland. Þessi þróun er þó ekki sjálfgefin og framsýni þeirra sem lögðu grunninn að menntun þjóðarinnar skiptir hér miklu máli. Þegar menntastefnan er mótuð, þarf að huga sérstaklega að framtíðinni og ákveða hvernig við sem þjóð ætlum að tryggja velsæld í krafti framfara.

Ný ríkisstjórnin boðar stórsókn í menntamálum með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi. Meginmarkmiðið í þeirri vinnu er að tryggja að allir geti stundað nám við hæfi, óháð efnahag eða búsetu. Ætlunin er að efla iðnnám, verk- og starfsnám í þágu fjölbreyttara og öflugra samfélags. Við viljum auka tækniþekkingu til að gera íslenskt samfélag samkeppnishæfara á alþjóðavísu. Lögð verður áherslu á að efla nýsköpun og þróun á öllum skólastigum. Skapandi greinum verður gert hátt undir höfði. Liður í því er að tryggja framhaldsskólunum frelsi og fjármagn til eigin stefnumótunar. Annað mikilvægt markmið þessarar ríkisstjórnar varðar auknar fjárveitingar til háskólastigsins. Í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs ætlar ríkisstjórnin að tryggja að Ísland nái meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 er varðar fjárframlög á hvern nemanda. Þetta mun skipta sköpum fyrir kennslu og rannsóknir í íslenskum háskólum. Farið verður í stefnumótun sem miðar að því að bæta samkeppnishæfni háskólastigsins.

Á 100 ára fullveldisafmælinu er kjörið tækifæri til að horfa yfir farinn veg. Meta þarf hvar vel hefur tekist hjá þjóðinni og hvað megi gera betur. Þrátt fyrir að íslenskt menntakerfi sé öflugt hefur þróun síðustu ár því miður verið sú að frammistaða íslenska skólakerfisins í hinni alþjóðlegu PISA-könnun hefur versnað. Ég er þó sannfærð um það að í framsækinni stefnumótun munum við skipa okkur aftur í fremstu röð. Við lifum í heimi örra breytinga og tæknibyltingin mun breyta vinnumarkaði mikið. Þau störf sem verða til í framtíðinni munu í æ ríkari mæli byggjast á hugviti og sköpun. Þess vegna er brýnt að skólakerfið taki mið af þessari þróun og að við sem þjóð búum okkur undir þá spennandi tíma sem framundan eru. Til að vel takist í þróun menntamála þarf allt samfélagið að taka þátt í þeirri vegferð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. desember 2017

Categories
Forsíðuborði Greinar

Tæknin er lykill að framtíðinni

Deila grein

01/12/2017

Tæknin er lykill að framtíðinni

Herakleitos hafði rétt fyrir sér þegar hann benti á að maður stigi aldrei tvisvar í sömu ána, því að þegar maður stígur fætinum í ána rennur sífellt um hann nýtt vatn. Stjórnmálamenn geta valið á milli þess að verja kerfið eða viðurkenna nauðsyn endurskoðunar þess og um leið framþróunar samfélagsins. Íslenska menntakerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins. Við þurfum því að hlúa að því og miða stjórnun og stefnumótun þess við að búa ungt fólk undir atvinnulífið.

Á hvers konar færni þarf atvinnulífið að halda?

Heimurinn smækkar
Ný tækni hefur aukið möguleika okkar til náms og jafnað aðstöðumun, þ.e. með auknum aðgangi að fjarnámi eiga flestir þess kost að stunda nám óháð búsetu (nema þeir sem eru ekki komnir með ljósleiðara – en það er eitt af stóru verkefnum nýrrar ríkisstjórnar), hvort sem það er komið út á vinnumarkað, með fjölskyldu eður ei. Heimurinn smækkar með hverjum deginum sem líður. Fjarnám er líka hægt að stunda við erlenda háskóla sem eru þá í samkeppni við íslenska háskóla. Við þurfum því að huga að samkeppnishæfni skólanna okkar með því að bæta rekstrargrunn þeirra.

Í ljósi þess að almennt er viðurkennt að fjórða iðnbyltingin sé hafin þá þurfum við að velta fyrir okkur hvort menntakerfi Vesturlanda séu nægilega skilvirk. Kerfi sem á sér rætur í forngrískri klassík og síðan í iðnbyltingu 18. og 19. aldar, þar sem samfélög voru byggð í kringum verksmiðjur. Stundvísi, endurtekningar, hlýðni og það að læra utanbókar ákveðnar formúlur voru taldar til æðstu dyggða. Dugar slíkt skipulag í hinum frjálsa og flókna nútíma 21. aldar? Ég held ekki.

Aðlögun eykur samkeppnishæfni
Niðurstaðan er því sú að næmni fyrir umhverfinu, skapandi hugsun og góð aðlögun að þeim breytingum sem samfélagið kallar eftir, eru lykilþættir ef menntakerfið okkar á að mæta þörfum atvinnulífs framtíðarinnar í breyttum heimi. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á menntamál, rannsóknir og þróun. Þangað þurfum við að fara til að tryggja samkeppnishæfni þjóðarinnar og velsæld til lengri tíma. Lokaorð Charles Darwin eiga því ágætlega við í þessu samhengi: „It is not the strong­est of the species that survives, nor the most intelligent that survives. It is the one that is the most adaptable to change.“

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Fréttablaðinu 1. desember 2017.

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Samstarf um sterkara samfélag

Deila grein

30/11/2017

Samstarf um sterkara samfélag

Í nýrri ríkisstjórn munu flokkar sem spanna hið pólitíska litróf allt frá vinstri til hægri freista þess að slá nýjan tón, einhenda sér í þau lykilverkefni sem koma Íslandi í fremstu röð og búa þannig um hnútana að hér verði gott að lifa og starfa fyrir unga sem aldna.
Á Íslandi er staðan í þjóðfélagsmálum um margt óvenjuleg. Tekist hefur að ná jafnvægi í ríkisfjármálum en þegar horft er til innviða samfélagsins og nýrra viðfangsefna blasa við brýn og umfangsmikil verkefni. Efnahagur á landsvísu hefur vænkast hratt undanfarin ár en gæta þarf að jafnvægi með þjóðinni og tækifærum allra sem landið byggja.
Stefna þarf að stöðugleika til lengri tíma og auka gagnsæi í athafnalífi og allri stjórnsýslu til að efla traust almennings á rekstri fyrirtækja, fjármálalífi, stjórnmálum og stofnunum samfélagsins. Frá efnahagshruninu hefur náðst margvíslegur árangur en enn skortir á þá félagslegu sátt sem þjóðin hefur lengi kallað eftir. Að henni þarf að vinna. Um leið þarf að bregðast við örum þjóðfélagsbreytingum og breyttri sýn á samfélagið á ótal sviðum en líka ójöfnuði og umróti á heimsvísu.
Hægt er að lesa stjórnarsáttmálann í heild sinni í PDF-skjalinu hér neðst. Hann inniheldur um hundrað aðgerðir og áherslumál nýrrar ríkisstjórnar.
Á meðal þeirra eru:
● Efling Alþingis er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarflokkanna. Sjálfstæði þingsins verður styrkt, meðal annars með auknum stuðningi við nefndastarf og þingflokka.
● Í þágu aukins samráðs og breiðari samstöðu verða þverpólitískir hópar settir á fót um nokkur veigamikil verkefni, svo sem stofnun miðhálendisþjóðgarðs, mótun orkustefnu og nýsköpunarstefnu og endurskoðun stjórnarskrárinnar.
● Heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum og allir landsmenn eiga að fá notið góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu. Átak verður gert í uppbyggingu hjúkrunarrýma, heilbrigðisstefna fyrir Ísland fullunnin, dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga og geðheilbrigðisáætlun hrint í framkvæmd.
● Hafin verður stórsókn í menntamálum. Stefnt verður að því að fjármögnun háskólastigsins nái meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020. Iðnnám og verk- og starfsnám verður eflt. Framhaldsskólum verður tryggt fjármagn og frelsi til eigin stefnumótunar innan ramma framhaldsskólalaganna. Brugðist verður við yfirvofandi kennaraskorti í samstarfi við sveitarfélögin.
● Uppbyggingu í vegamálum verður hraðað, bæði nýframkvæmdum og viðhaldi. Stutt verður við borgarlínu. Ljósleiðaravæðingu landsins verður lokið 2020, afhendingaröryggi raforku aukið og átak gert í fráveitumálum í samstarfi við sveitarfélög. Sóknaráætlanir landshlutanna verða styrktar.
● Lögð verður áhersla á ábyrg ríkisfjármál og efnahagslegan stöðugleika. Til að styðja við farsæla niðurstöðu kjarasamninga hyggst ríkisstjórnin leggja áherslu á lækkun tekjuskatts í neðra skattþrepi. Þá er það einnig forgangsmál á kjörtímabilinu að lækka tryggingagjald.
● Áform um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu verða lögð til hliðar. Fjármagnstekjuskattur verður hækkaður í 22% samhliða því að skattstofn fjármagnstekna verður tekinn til endurskoðunar. Kolefnisgjöld verða hækkuð um 50% fyrst um sinn. Virðisaukaskattur af bókum verður afnuminn.
● Farið verður í endurskipulagningu á fjármálakerfinu og markviss skref tekin til að afnema verðtrygginguna á neytendalánum. Leitað verður leiða til að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Gerð verður hvítbók um framtíðarsýn fyrir íslenskan fjármálamarkað og hún lögð fyrir Alþingi.
● Unnið verður með aðilum vinnumarkaðarins að ábyrgum vinnumarkaði. Innleidd verða ákvæði um keðjuábyrgð í ólíkum atvinnugreinum, unnið gegn kynbundnum launamun, félagslegum undirboðum, mansali og kennitöluflakki og vinnueftirlit eflt.
● Stuðlað verður að bættu aðgengi landsmanna að öruggu húsnæði með eflingu stuðningskerfa, samræmdri stefnumörkun í uppbyggingu félagslegs húsnæðis og auknu gagnsæi á leigumarkaði. Þröskuldur ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn verður lækkaður. Skoðaðir verða möguleikar á að nýta lífeyrissparnað til þessa.
● Markviss skref verða tekin á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum og samhliða hugað að mótvægisaðgerðum í þágu ungs fólks og tekjulágra.
● Frítekjumark atvinnutekna aldraðra verður hækkað í hundrað þúsund krónur strax um næstu áramót. Gjaldskrá vegna tannlækninga aldraðra og örorkulífeyrisþega verður uppfærð til að lækka kostnað þessara hópa. Samráð verður haft við heildarsamtök örorkulífeyrisþega um umbætur á almannatryggingakerfinu í þeirra þágu.
● Gerð verður úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir.
● Í loftslagsmálum verður stefnt að því að gera betur en Parísarsamkomulagið segir til um. Stefnt verður að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040 og 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030. Loftslagsráð verður sett á laggirnar og aðgerðaáætlun um samdrátt í losun verður tímasett og fjármögnuð.
● Þjóðarsjóður verður stofnaður utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni. Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum. Afmarkaður hluti ráðstöfunarfjár sjóðsins verður notaður til að efla nýsköpun og ráðast í átak í uppbyggingu hjúkrunarrýma.
● Ísland á að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Lögð verður áhersla á nýsköpun og vöruþróun í landbúnaði til að stuðla að byggðafestu, auka verðmætasköpun og nýta tækifæri sem felast í áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi. Innleiddir verða sérstakir aðlögunarsamningar um nýja starfsemi til sveita.
● Tryggja þarf samkeppnishæfni sjávarútvegs, leggja þarf áfram áherslu á sjálfbæra auðlindanýtingu og efla hafrannsóknir. Veiðigjald á að tryggja þjóðinni réttlátan hlut í arðinum af auðlindinni ásamt því að endurspegla afkomu greinarinnar. Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar en þarf að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna.
● Mörkuð verður langtímastefna í ferðaþjónustu í samvinnu við hagsmunaaðila. Stutt verður við rannsóknir í greininni og innviðauppbyggingu.
● Heildstæð nýsköpunarstefna fyrir Ísland verður mótuð í samstarfi við fulltrúa stjórnmálaflokka og í nánu samráði við atvinnulífið og vísindasamfélagið. Hún verður samþætt við framtíðarsýn í menntamálum, frá leikskóla til háskóla, í samráði við skólasamfélagið.
● Umhverfi fyrir rannsóknir og þróun á að vera framúrskarandi. Fyrirkomulag endurgreiðslna vegna rannsókna og þróunar verður endurskoðað í því skyni að afnema þak sem verið hefur á slíkum endurgreiðslum.
● Aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota verður framfylgt og hún fjármögnuð að fullu. Innviðir réttarvörslukerfisins verða efldir til að styrkja stöðu brotaþola innan þess og efla og samhæfa þjónustu við brotaþola á landsvísu, ekki síst í heilbrigðiskerfinu. Lagaumhverfi kynferðisbrota verður rýnt með það að markmiði að styrkja stöðu kærenda kynferðisbrota.
● Ísland á að vera í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks. Í því skyni verður sett metnaðarfull ný löggjöf um kynrænt sjálfræði.
Stjórnarsáttmáli.

Categories
Forsíðuborði Greinar

Kynbundið ofbeldi er samfélagsmein

Deila grein

29/11/2017

Kynbundið ofbeldi er samfélagsmein

Í haust fór af stað átakið MeToo á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #metoo. Með því vilja konur rjúfa þögnina um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Átakið hefur farið eins og eldur í sinu um allan heim. Konur úr flestum starfsstéttum hafa stigið fram og sagt frá kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir í starfsumhverfi sínu. Konur sem vinna að því að ná árangri innan sinnar starfsstéttar hafa sagt frá ótrúlegum hindrunum sem orðið hafa á vegi þeirra.

Konur í stjórnmálum hafa einnig orðið fyrir slíkri áreitni þegar barátta um áheyrn og jafnrétti til áhrifa er annars vegar. Það hefur haft þær afleiðingar að margar konur hafa ekki treyst sér til að starfa áfram á vettvangi stjórnmálanna. MeToo átakið hvetur konur til að rísa upp gegn kynbundnu ofbeldi, óháð þjóðfélagsstöðu og búsetu. Það fær karlmenn til að leiða hugann að þeim röngu skilaboðum sem þeir eru að senda út og sýnir þeim að slíkt viðmót verður hvorki viðurkennt né umborið.

Dagana 28.-30. nóvember verður haldin ráðstefna í Hörpu á vegum Women Political Leaders sem eru alþjóðleg samtök kvenna í stjórnmálum. Ráðstefnan er haldin í samvinnu við Alþingi og munu íslenskar konur í stjórnmálum vera gestgjafar að þessu sinni. Það er óhætt að fullyrða að MeToo átakið mun þjappa konum saman á heimsvísu til að rísa upp gegn kynbundnu ofbeldi og rjúfa þögnina sem fylgt hefur konum í gegnum aldirnar.

Opin umræða er besta vopnið
Framsókn hefur lagt ríka áherslu á fræðslu og forvarnir til að sporna gegn kynbundnu ofbeldi og vill að sett verði aukið fé í verkefnið svo það megi verða að veruleika. Í ráðherratíð Eyglóar Harðardóttur var sett reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, nr. 1990/2015. Þar er komið inn á skyldur bæði starfsmanna og atvinnurekenda þegar upp koma slík mál á vinnustöðum og hvaða leiðir eru færar til að uppræta slíkt. Fyrst og síðast er að opin umræða um málefnið er okkur öllum nauðsynleg, því í þögguninni leynast holur fyrir gerendur að dyljast í og halda áfram á sömu braut. Konur á Íslandi geta verið leiðandi í þessari mikilvægu umræðu og stutt kynsystur sínar víðsvegar um heiminn til að standa upp og verjast þessu.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu, 29. nóvember 2017.

Categories
Forsíðuborði Greinar

Heimsókn 400 kvenleiðtoga víða að úr heiminum lýsir upp skammdegið

Deila grein

29/11/2017

Heimsókn 400 kvenleiðtoga víða að úr heiminum lýsir upp skammdegið

Allar þessar mögnuðu konur eru hingað komnar á vegum alþjóðlegra samtaka kvenleiðtoga (WPL) í þeim tilgangi að læra um þann árangur sem Íslendingar hafa náð í jafnréttismálum og til að læra hver af annarri. Þrátt fyrir að við Íslendingar eigum enn næg verkefni fyrir höndum við að auka jafnrétti í samfélaginu mælumst við ítrekað efst þjóða á alþjóðlegum mælikvörðum sem mæla jafnrétti kynjanna.
Árangurinn sem við höfum náð leggur okkur íbúum Íslands skyldur á herðar við að miðla þeim aðferðum og lausnum sem við höfum notað til að ná árangri. Jafnframt setur það gífurlega pressu á þjóðina að láta ekki staðar numið heldur halda áfram að leita lausna og finna leiðir til að auka jafnrétti.

Ég hlakka til að eiga samtöl við þessar konur og mun stolt geta sagt frá þeim aðferðum sem minn 100 ára flokkur, Framsóknarflokkurinn, notar til að vinna að jafnrétti í flokksstarfinu. Aðferðum sem skiluðu jafnrétti í þingflokknum, eftir kosningar 2017 þar sem konum fækkaði mikið á Alþingi. Ég mun líka deila persónulegri reynslu og læra af gestunum.

Í samtölum mínum við erlenda kvenleiðtoga hef ég áttað mig á því hversu mikil áhrif gott aðgengi að leikskólum í Íslandi hefur haft á þróun jafnréttis. Tilkoma fæðingar- og foreldraorlofs, þar sem feður fengu sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs árið 2000, er eitt af stóru skrefunum til jafnréttis á Íslandi. Nú er kominn tími á næsta skref, því eitt af brýnustu verkefnum dagsins í dag er einmitt að tryggja samfellu milli foreldraorlofs og leikskóladvalar.

Önnur stór áskorun er hversu kynskiptur íslenskur vinnumarkaður er, til að ná fram breytingum þarf að breyta viðhorfum og menningu og þar hefur skólakerfið mikilvægu hlutverki að gegna. Við þurfum að fjölga karlmönnum í umönnunarstörfum af öllu tagi og konum í iðn- og tæknigreinum. Viðfangsefnið er flókið og til að ná árangri þarf fjölþætta vinnu og það verður að vera eitt af því sem lagt er til grundvallar við mótun menntastefnu á Íslandi.

Áskoranirnar eru vissulega fleiri, eins og að fylgja eftir þeirri byltingu gegn kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi sem sprottið hefur upp með aðstoð samfélagsmiðla síðustu árin.

Í jafnréttismálum þurfum við stöðugt að halda vöku okkur, á því sviði eru fjölmargar áskoranir og þá er heimsókn fremstu kvenleiðtoga heims svo sannarlega hvatning til að halda áfram á brautinni til jafnréttis.

Líneik Anna Sævarsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. nóvember 2017