Categories
Fréttir

Var samið á bak við luktar dyr?

Deila grein

15/03/2017

Var samið á bak við luktar dyr?

„Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um jákvæðar fréttir. Ég veit reyndar ekki hvort hæstv. fjármálaráðherra var að tilkynna að það yrði fánadagur héðan í frá á þessum degi. Þannig byrjaði hann sína ræðu. Þetta eru sannarlega jákvæðar fréttir. Það er rétt að okkur hefur gengið mjög margt rétt á þessari braut allt frá því við lentum í þessu hruni. Það var auðvitað lykilatriði að taka þá stefnu sem gert var 2013 og hvað varðar áætlunina sem sett var í júní 2015, sem hefur verið fylgt af þáverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, þá er það einfaldlega þannig að allt hefur gengið upp, og reyndar frá fyrri tíma líka. Efnahagslífið hefur líka gengið upp og gengið vel. Það er skýringin á því hversu góð staðan er í dag. Það má hins vegar alveg viðurkenna að það dróst of lengi að halda síðasta útboðið sem haldið var í júní síðastliðið ár. Það hefði mátt koma fyrr vegna þess hve okkur gekk vel í efnahagslífinu, hversu umsnúningurinn varð hraður.
Nú eru væntingar um jákvæð viðhorf og enn aukið traust á íslenskt efnahagslíf, m.a. frá lánshæfismatsfyrirtækjum, sem munu hjálpa okkur inn í framtíðina. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa væntingar til að þessar aðgerðir slái á styrkingu krónunnar. En er það líklegt? Undirliggjandi vandinn er hið háa hávaxtastig sem er hér í landinu og mismunur á vöxtum hér innan lands og í nágrannalöndum. Þannig að vandinn er til staðar. Það mun dragast hér inn áfram fé. Og tækin sem við höfðum áður innan hafta sem Seðlabankinn hafði til að koma í veg fyrir slíkt Carry Trade eða vaxtarmunarviðskipti eru ekki þau sömu, þau virka ekki eins. Ég tek því undir það með hæstv. forsætisráðherra að það eru verkefni sem áfram þarf að sinna. Það er erfiðara að viðhalda stöðunni utan hafta en innan.
Það eru vonbrigði að við þeim spurningum sem við vorum með í gær, um gengið, sviðsmyndir, fengust engin svör. Við erum að fara inn í einhvern óvissutíma. Þess vegna er brýnt að spyrja hæstv. ríkisstjórn og forsvarsmenn: Er eitthvert plan? Er einhver áætlun í gangi?
Það var líka breyting á þessari áætlun frá júní 2015, sem gerð var við þessa aðgerð. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra hér á fimmtudaginn um það hvort leynisamningar væru í gangi af því við höfum konsekvent, alltaf, haldið því fram að við værum ekki í neinum samningaviðræðum. Þess vegna var áætlunin sett upp. Þess vegna var stöðugleikaskatturinn settur upp. Það voru ekki samningar.
Hæstv. ráðherra svaraði, með leyfi forseta:
„Hann“ — þ.e. sá sem hér stendur — „vísar hér til fundar sem haldinn var að ég hygg í síðustu viku þar sem var óskað eftir fundi við stjórnvöld. Á þeim fundi var ekki gengið frá neinum samningum af neinu tagi, en fulltrúar þessara vogunarsjóða munu hafa útskýrt sitt mál.“
Hér sagði hæstv. fjármálaráðherra áðan í ræðu að engir samningar hafi þá verið gerðir. En voru þá samningaviðræður í gangi? Sagði ráðherra ósatt hérna á fimmtudaginn? Því í gær í fjölmiðlum kom það fram að sent hefði verið tilboð seinni partinn á föstudegi einum og hálfum sólarhring síðar. Á ekki að segja okkur satt hérna í ræðustól Alþingis þegar við spyrjum og viljum fá frekari upplýsingar um það sem hér er
að gerast?
Hér segir hæstv. fjármálaráðherra að hagsmunir almennings hafi verið undir. Ég segi: Við töpuðum trúverðugleika á því að fara og ganga til samninga við vogunarsjóði sem hafa skorað okkur á hólm allt frá upphafi. Það er umdeilt og umdeilanlegt hvort við töpuðum miklum fjármunum. Við töpuðum fjármunum. Er ekki ríkisstjórnin sem nú situr að kvarta yfir því að peninga skorti í innviðauppbyggingu í samgöngumálum, heilbrigðismálum og öðru, 20 milljarða? Var ekki hægt að nota það í þetta? En trúverðugleika töpuðum við alla vega vegna þess að við höfum aldrei samið við þessa aðila. Nú var það gert og það var gert bak við luktar dyr.“
Sigurður Ingi Jóhannsson á Alþingi um afnám fjármagnshafta 13. mars 2017. 

Categories
Fréttir

Almenningur og fyrirtæki búa við aukið frelsi er varðar fjármagnsflutninga

Deila grein

15/03/2017

Almenningur og fyrirtæki búa við aukið frelsi er varðar fjármagnsflutninga

„Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að verið sé að losa fjármagnshöft á íslensk heimili og fyrirtæki. Enn fremur er jákvætt að við sjáum að áætlun um losun fjármagnshafta, sem kynnt var í júní 2015, skuli vera framfylgt að mestu leyti. Ég hefði samt viljað sjá að við hefðum fyrst losað fjármagnshöftin á heimili og fyrirtækin í landinu og svo á vogunarsjóðina.
Mig langar að rifja upp að útboðið sem var haldið hinn 16. júní síðastliðinn var það síðasta í röð útboða þar sem eigendum aflandskróna bauðst að kaupa erlendan gjaldeyri áður en stjórnvöld hæfu losun á innlenda aðila. Af því tilefni sagði seðlabankastjóri, með leyfi forseta:
„Með útboðinu og nýlegum lagabreytingum hefur síðustu stóru hindruninni verið rutt úr vegi þess að hægt sé að stíga stór skref til að losa fjármagnshöft gagnvart innlendum aðilum án hætti á óstöðugleika.“
Jafnframt segir:
„Þótt ekki hafi verið unnt að taka öllum tilboðum í aflandskrónueignir auðveldar það lausn þess vanda sem eftir stendur að eigendum krafna hefur fækkað mjög. Þá hefur verið búið svo um hnútana að aflandskrónur sem eftir standa valdi ekki óstöðugleika á meðan losun fjármagnshafta á innlenda aðila gengur yfir. Smitunaráhrif ættu því að vera hverfandi og hætta á óstöðugleika lítil.“
Minn skilningur er því að stjórnvöld hefðu komið þessum aflandskrónum frá og inn á læsta reikninga. Næsta skrefið væri að losa höft á innlenda aðila og sjá hvernig framvindan á gjaldeyrismarkaði væri og áhrifin á fjármálastöðugleika. Síðan yrði losað um aflandskrónueigendur sem ekki tóku þátt í útboðinu í júní.
Það er synd að sjá að veðmál vogunarsjóðanna hafi gengið upp og þeir fengið sitt á mettíma. Þeir sem ákváðu að spila ekki eftir reglunum bættu í raun stöðu sína. Það lítur út fyrir að þeir hafi hagnast um 20 milljarða á því að bíða. Ég spyr: Er það rétt að bjóða þeim vogunarsjóðum sem ekki tóku þátt í almennu útboði betri kjör en hinum sem tóku þátt? Getur verið að þetta geti skapað skaðabótaskyldu á herðar ríkisins vegna þessa mismunar eins og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir kom að?
Nú reyndu þessir aðilar sem ekki tóku þátt í útboðinu að hafa áhrif á síðustu þingkosningar með heiftúðlegum auglýsingum til að draga úr trúverðugleika íslenskra stjórnvalda. Má þá draga þá ályktun að þessar auglýsingar hafi skilað tilætluðum árangri. Sumir þingmenn hafa spurt hvort þetta geti haft áhrif á Viðreisn og Bjarta framtíð, þ.e. að formanni Viðreisnar hafi í raun alls ekki hugnast að fá Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn vegna þess að hann væri erfiður og gagnrýninn, sérstaklega í málum er varða endurreisn Ísland. Getur það verið, virðulegur forseti?
Við sjáum að krónan hefur verið að veikjast það sem af er degi. En að mínu mati er fullsnemmt að segja til um hver gengisþróunin verður á næstu missirum. Það er mikill kraftur í íslensku hagkerfi, kröftugur hagvöxtur, skuldir heimilanna og fyrirtækjanna hafa lækkað og umfangsmikið innflæði hefur verið af erlendum gjaldeyri í tengslum við ferðaþjónustuna. Horfurnar eru góðar ef rétt er á málum haldið. Það jákvæða við daginn er að almenningur og fyrirtæki búa við aukið frelsi er varðar fjármagnsflutninga. Mikilvægast er þó fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu að þau búi við gengis- og fjármálastöðugleika. Efnahagsstjórnin á hverjum tíma verður að taka mið af því markmiði til að auka hagsæld lands og þjóðar.“
Lilja Alfreðsdóttir um afnám fjármagnshafta á Alþingi 13. mars 2017. 

Categories
Fréttir

Ríkisstjórnin stimplar sig inn með morgungjöf

Deila grein

15/03/2017

Ríkisstjórnin stimplar sig inn með morgungjöf

„Virðulegur forseti. Það hefur ekki verið augljóst um hvað þessi ríkisstjórn var mynduð. Þó eru í henni tveir nýir flokkar. Maður skyldi ætla að þegar menn taka sig saman og stofna flokk þá sé einhver tilgangur með því, menn vilji breyta einhverju, vilji nýjar áherslur. Það hefur lítið borið á því til þessa. Þetta hefur verið frekar tíðindalítið. Morgunverkin hafa ekki verið merkileg hjá þessari ríkisstjórn, mest eitthvert svekkelsi, verið að ganga á baki orða sinna, ef svo má segja, varðandi hluti eins og samgöngumál, en almennt tíðindalítið þar til nú.
Þar til nú, virðulegur forseti, að við sjáum að þessi ríkisstjórn ætlar a.m.k. ekki að fylgja sömu stefnu og síðasta ríkisstjórn fylgdi í samskiptum við þá sem hafa reynt að hafa Ísland að féþúfu vegna þeirra vandræða sem við gengum í gegnum, ekki að fylgja sömu stefnu og hv. þm. Óli Björn Kárason lýsti svo vel hér áðan. Að vísu ætla menn að klára það sem var orðið óhjákvæmilegt að aflétta höftum og hefði mátt gera það fyrr gagnvart íslenskum almenningi, en taka á algjöra u-beygju í samskiptum við þessa aðila sem hafa sótt að okkur í alþjóðastofnunum, í fjölmiðlum, ekki bara hér á landi heldur víða um heim og jafnvel reynt að skipta sér af úrslitum kosninga á Íslandi. U-beygjan gagnvart þessum aðilum er sú að láta undan, gefa eftir, fullkomlega held ég megi segja, virðulegi forseti.
Hvers vegna stimplar ríkisstjórnin sig inn með þessum hætti með morgungjöf hæstv. fjármálaráðherra til vogunarsjóða í New York? Hvernig stendur á því, virðulegur forseti, að ríkisstjórnin fylgdi ekki þeirri áætlun sem boðuð hafði verið að byrja á því að losa íslenskan almenning úr höftum og þeir sem ekki vildu spila með í því, þeir sem ætluðu að hafa Ísland að féþúfu vegna vandræða í efnahagsmálum, yrðu látnir bíða. Þetta var ekki bara eitthvað sem var rætt í kosningabaráttu, þetta var í raun loforð sem var gefið þegar efnt var til útboðs og fullyrt var af þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, núverandi hæstv. forsætisráðherra, og öðrum að þeir sem ekki tækju þátt, þeir sem ekki spiluðu með, yrðu látnir bíða; þeir yrðu læstir inni, þeir myndu ekki græða á því, yrðu skildir hér eftir jafnvel árum ef ekki áratugum saman.
Einhverjir tóku mark á orðum ráðherrans og annarra, Seðlabankans, og létu sig hafa það að fara út á þeim kjörum sem voru í boði. Aðrir ákváðu að fara aðra leið. Reyndar var eitthvað um það, virðulegur forseti, að menn hefðu fyrst ætlað að taka þátt í þessu útboði en á síðustu stundu hætt við það einhverra hluta vegna. En þessir aðilar ákváðu að fara frekar þá leið að taka slaginn við íslensk stjórnvöld, treysta á að hægt væri að brjóta samstöðuna á bak aftur, að hægt væri að beygja íslensk stjórnvöld. Til þess notuðu þeir ýmsar aðferðir, sumar kunnuglegar, sumar síður. Það var auglýst í dagblöðum hér á landi fyrir kosningarnar, reyndar líka í Danmörku og í Bandaríkjunum, og líklega víðar. Það var reynt að dreifa falsfréttum svokölluðum. Menn voru látnir skrifa greinar í dagblöð hér og víðar og reynt leynt og ljóst að beita íslensk yfirvöld, stjórnvöld hér á landi, þrýstingi, fá þau til að gefa eftir þetta grundvallaratriði sem hv. þingmaður stjórnarliðsins, Óli Björn Kárason, lýsti hér áðan, atriðinu sem tryggði okkur þann árangur sem hefur náðst; gefa eftir fullveldisréttinn, gefa eftir möguleika okkar á að verja Íslendinga og hagsmuni Íslands. Þetta var gefið eftir. Það var horfið frá þeirri stefnu að verja fyrst og fremst almenning og ákveðið að gera sérstakan samning við vogunarsjóðina sem höfðu beitt öllum ráðum til að ná því sem þessi ríkisstjórn hefur nú gefið þeim.“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson um afnám fjármagnshafta á Alþingi 13. mars 2017. 

Categories
Greinar

Notandi eða skapandi

Deila grein

14/03/2017

Notandi eða skapandi

Staðan er þessi: Við erum á barmi nýrrar iðnbyltingar. Við vitum að atvinnulíf framtíðarinnar verður ólíkt því sem það er í dag, þ.e. aukin áhersla á róbótavæðingu í ýmsum geirum atvinnulífsins og á gervigreind. Þess vegna verðum við að velta vandlega fyrir okkur og taka ákvarðanir sem fyrst, þ.e. hvaða hlutverk við ætlum að spila í framtíðinni. Ætlum við einungis að vera notendur nýrrar tækni eða ætlum við að skapa hana og byggja upp lífvænleg nýsköpunarfyrirtæki á þeim grunni?

Með því að skapa nýja tækni þá búum við til tekjur fyrir Ísland til framtíðar. Ekki bara með tekjuskatti vegna þeirra starfa sem skapast, heldur líka tekjur af vörunum sem við seljum á alþjóðlegum mörkuðum. Hér á landi eru fjölmörg sprotafyrirtæki sem og stærri nýsköpunarfyrirtæki eins og CCP, Marel og Össur, sem eru stöðugt að þróa framúrstefnuleg verkefni á heimsmælikvarða. Jarðvegurinn hér er frjór, flóran er til staðar en garðyrkjumaðurinn verður að vinna vinnuna og rækta garðinn sinn. Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna.

Lög um nýsköpunarfyrirtæki sem voru sett í apríl á síðasta ári voru afar jákvætt skref en þau eru takmörkuð þar sem skattaívilnandi þakið er of lágt, en í Bretlandi t.d. er ekkert þak á skattaívilnanir til þróunarverkefna. Nú er staðan þessi að stærri nýsköpunarfyrirtæki þurfa sum hver að færa þróunarverkefni sín til annarra landa, ef þau hafa tækifæri til þess, þar sem það er mun hagkvæmara fyrir þau. Ef við ætlum að verða samkeppnishæf þá verðum við að beita sértækum aðgerðum og stuðningi þar sem gengissveiflur eru íslenskum fyrirtækjum erfiðar, við erum langt frá mörkuðum og það er oft erfitt að fá hæft starfsfólk í þau störf sem um ræðir.

Lagaumhverfið í dag hamlar vexti nýsköpunarfyrirtækja, bæði stórra og smárra, og við það verður ekki búið. Að mínu mati eigum ekki að líta á skattaívilnanir sem kostnað heldur leið til að auka tekjur okkar til framtíðar. Það er mín skoðun, að ef við förum ekki þá leið, þá verði róðurinn of þungur fyrir íslensk nýsköpunarfyrirtæki og þau MUNU sitja eftir í alþjóðlegri samkeppni og ríkissjóður verður af miklum tekjum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 13. mars 2017.

Categories
Fréttir

Orkan verði nýtt innanlands

Deila grein

09/03/2017

Orkan verði nýtt innanlands

,,Hæstv. forseti. Í gærdag var þingsályktunartillaga um verndun og nýtingu virkjunarkosta til umræðu í þessum sal. Umræðan var góð og mér heyrðist að flestir þingmenn sem tóku til máls væru sammála um að aðferðafræði rammaáætlunar væri gott tæki til að meta virkjunarkosti þó svo að hún væri ekki endilega fullkomin. Eflaust mætti sníða af henni nokkra vankanta og auðvitað eru skiptar skoðanir um virkjunarkostina sem slíka, sitt sýnist hverjum.
Í þessari ágætu umræðu var ekki bara komið inn á virkjunarkosti heldur einnig inn á dreifingu raforku, raforkuöryggi og þrífösun rafmagns. Í dag búa nefnilega ekki allir landsmenn svo vel að hafa aðgang að þrífösuðu rafmagni sem stendur atvinnuuppbyggingu verulega fyrir þrifum á ákveðnum landsvæðum. Þeir sem stunda búskap geta t.d. ekki uppfært tækjabúnað sinn í takt við nýjar reglugerðir sem krefjast þess að rafmagn sé þrífasað, þ.e. tækin krefjast þess. Þetta er auðvitað ekki í lagi árið 2017. Við þurfum svo sannarlega að taka til hendinni í þessum málaflokki og gera miklu betur.
Hæstv. forseti. Eftir að hafa lesið frétt Kjarnans í gær um hugmyndir ákveðinna aðila um útflutning á orku stóðst ég ekki mátið að taka umfjöllun um rafmagnsmálin hér í dag. Hvað á það að þýða að eyða orku í slíkt tal þegar dreifing raforku er ekki nægilega vel tryggð um land allt? Framsóknarflokkurinn hafnar öllum hugmyndum um útflutning á raforku og leggur áherslu á að orka framleidd á Íslandi skuli nýtt til verðmætasköpunar innan lands þar sem öflugur iðnaður er undirstaða búsetu og verðmætasköpunar.
Sú sem hér stendur lagði fram skriflega fyrirspurn nýverið til hæstv. iðnaðarráðherra þar sem hæstv. ráðherra er spurður um stefnu sína varðandi útflutning á raforku. Það verður áhugavert að sjá hvert svarið verður.”
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 8. mars 2017.

Categories
Greinar

Fæðingarþjónusta og jafnræði

Deila grein

08/03/2017

Fæðingarþjónusta og jafnræði

Fæðingarstöðum á Íslandi hefur fækkað hin síðari ár. Í svo fámennu og dreifbýlu landi sem Ísland er, er skiljanlegt að erfitt sé að halda úti fæðingarþjónustu á hverjum stað. Engu að síður verðum við að tryggja jöfnuð á milli þegna landsins og því verður kerfið að vera skipulagt á þann hátt, að komið sé til móts við fólk sem ekki á kost á fæðingarþjónustu í heimabyggð. Ein leið væri til dæmis sú að breyta núverandi löggjöf um fæðingarorlof.

Löng bið
Verðandi foreldrar á landsbyggðinni sem búa fjarri fæðingarþjónustu eða/og búa við þær landfræðilegu aðstæður að samgöngur eru ótryggar, þurfa yfirleitt að fara að fara að heiman nokkru fyrir áætlaðan fæðingardag. Þetta á t.d. við um íbúa í Vestmannaeyjum og Höfn í Hornafirði. Yfirleitt er miðað við 38. viku meðgöngu nema að um áhættumeðgöngu sé að ræða. Börnin koma þegar þeim hentar þannig að foreldrar geta lent í því að bíða fæðingar í allt að 4 vikur, fram að 42. viku en þá eru konur yfirleitt gangsettar.

Breytingar á lögum
Núverandi kerfi felur í sér óásættanlegan ójöfnuð á milli landshluta. Verðandi foreldrar á landsbyggðinni þurfa t.d. oft að hefja töku fæðingarorlofs fyrr, af ofangreindum ástæðum og þá dregst sá tími, þ.e. biðtíminn eftir barninu, frá orlofinu. Þannig að barn og foreldrar njóta styttri samveru þegar barnið kemur loksins í heiminn. Með því að breyta lögum um fæðingarorlof gætum við tryggt rétt barna til að njóta jafnlangs tíma með foreldrum sínum eftir fæðingu eins og þau börn sem eiga heima í nágrenni við fæðingarþjónustu.

Réttur barnsins
Vegna þessa augljósa ójafnræðis sem fólk býr við varðandi aðgengi að fæðingarþjónustu lagði undirrituð, ásamt fleiri þingmönnum, fram frumvarp með breytingu á lögum um fæðingarorlof. Með frumvarpinu er lagt til að réttur foreldra til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks framlengist sem nemur þeim tíma sem þeir þurfa að dveljast fjarri heimili til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp. Sú breyting yrði til þess að öllum börnum yrði tryggður jafn réttur til að njóta samvista við foreldra sína fyrstu mánuði lífsins. Slík breyting yrði einnig í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem veitt hefur verið lagagildi hérlendis með lögum nr. 19/2013. Málið hefur fengið umfjöllun á Alþingi og er nú í vinnslu hjá Velferðarnefnd.

Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Greinin birtist á www.dfs.is 5. mars.

Categories
Fréttir

Hvar ganga menn í takt?

Deila grein

08/03/2017

Hvar ganga menn í takt?

,,Hæstv. forseti. Nú er ástandið þannig að af nógu er að taka. Sífellt áleitnari verður spurningin: Í hvaða málum eru stjórnarflokkarnir sammála? Hvar ganga menn í takt? Misræmi í málflutningi hæstv. utanríkisráðherra og formanns utanríkismálanefndar opinberaðist hér í gær. Annað telur aðild EFTA ekki duga lengur til að tryggja hagsmuni Íslands meðan hitt telur það nægja.
Hæstv. forseti. Hér eru menn úr öllum flokkum bálreiðir yfir meðferð hæstv. samgöngumálaráðherra á samgönguáætlun. Svo virðist sem hæstv. ráðherra hafi hugsað sér að sniðganga þingið með því að forgangsraða verkefnum bara svona sjálfur. Hæstv. ráðherra er dugmikill maður en þetta kann að vera fullmikill dugnaður.
Hæstv. forseti. Ég reikna með að mál skýrist þegar hæstv. ráðherra mætir til funda hjá nefndum þingsins.
Um útspil hæstv. landbúnaðarráðherra vegna búvörusamninga ræði ég síðar. Þar virðist mér takturinn eitthvað riðlast í liði hæstv. forsætisráðherra.
Í liðinni viku lagði þingflokkur Framsóknar fram ályktun um enduropnun neyðarbrautar á Reykjavíkurflugvelli vitandi það að enn er mögulegt að tryggja aukið öryggi landsmanna með opnun hennar. Það er staðreynd að borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata hafa samþykkt breytingu á deiliskipulagi sem felur í sér auknar byggingarheimildir á svæði Hlíðarenda. Fyrirhugaðar breytingar fela í sér hækkun á byggingum sem eru í aðflugslínu að neyðarbraut. Tillagan liggur fyrir borgarstjórn í dag til endanlegrar afgreiðslu. Fari hún í gegn er ljóst að nánast útilokað er að enduropna umrædda braut.
Hæstv. forseti. Fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina hafa staðið vaktina í þessu máli, komið með tillögur að lausnum sem allir hagsmunaaðilar geta unað við. Þeim hefur verið hafnað. Lausnirnar snúa m.a. að því að byggja þannig að komist verði hjá hindrun við neyðarbrautina sem þjónar landsmönnum öllum og styrkir höfuðborgina í hlutverki sínu sem höfuðborg allra landsmanna. Ég vona að fleiri standi vaktina með okkur Framsóknarmönnum í þessu mikilvæga máli.”
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 7. mars 2017. 

Categories
Greinar

Hvers vegna að halda upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna 8. mars?

Deila grein

08/03/2017

Hvers vegna að halda upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna 8. mars?

Það er í fyrsta lagi réttlætismál. Við viljum væntanlega flest öll að að mæður okkar, konur, systur og dætur hafi sömu möguleika og karlar. En ekki nóg með það, við viljum einnig nýta allra krafta og eins og oft hefur verið sagt áður þá er jafnréttisbaráttan ekkert einkamál kvenna, langt í frá.

Nú um stundir er mikið rætt um Jafnlaunavottun og þau sjálfsögðu réttindi að borga körlum og konum sambærileg laun fyrir sömu vinnu. Árið 2005 var haldið málþing á vegum jafnréttisráðs en Jafnréttisþing sem nú er haldið annað hvert ár hefur leyst það að hólmi. Þá, árið 2005, var farið að fjalla um nauðsyn þess að innleiða kerfi eða staðal og unnið var með módel frá Staðlaráði. Í ræðu sem þáverandi Velferðarráðherra, Árni Magnússon hélt sagði hann kynbundinn launamun ekki vera náttúrulögmál og hann sagði ennfremur að æskilegast væri að innleiða gæðavottunarkerfi til þess að ná fram markmiðum, eða til þess að eyða kynbundnum launamun. Hann rökstuddi mál sitt með því að nefna umhverfisvottun sem hafði virkað vel og þannig yrði árangur fyrirtækja og stofnana í jafnréttismálum eftirsóknarverður og hvati til aðgerða. Ráðherra benti einnig á að þá þegar var hafin í félagsmálaráðuneytinu vinna við útfærslu íslensks jafnlaunavottunarkerfis og að unnið hafi verið að því nánu samráði við Jafnréttisráð og Jafnréttisstofu sem og fulltrúa vinnuveitenda og launafólks.

Allar götur síðan hefur farið fram markviss vinna í átt að því að innleiða Jafnlaunastaðalinn, hugsa allar leiðir til þess að hvetja fyrirtæki og stofnanir til þess að taka skrefin til enda. Árið er 2017 og jöfn laun fyrir sömu vinnu er jafn sjálfsögð krafa og hún var árið 2005 þegar fyrstu hugmyndir ráðherra Framsóknar um jafnlaunavottun komu fram. En það er ekki sama hvernig verkið er unnið, allir þurfa að vanda sig, réttu hvatarnir þurfa að vera til staðar þannig að við þurfum ekki að bíða áfram í 12 ár til þess að sjá þau sjálfsögðu réttindi að borga körlum og konum sambærileg laun fyrir sömu vinnu. Til hamingju með daginn – öll sem eitt.

Anna Kolbrún Árnadóttir, formaður LFK, og Sunna Gunnars Marteinsdóttir, varaformaður LFK.

Categories
Fréttir

Últrahægristjórnin er veik ríkisstjórn

Deila grein

08/03/2017

Últrahægristjórnin er veik ríkisstjórn

,,Hæstv. forseti. Últrahægristjórnin er veik ríkisstjórn. Það er augljóst að alla ástríðu skortir í sambandið þrátt fyrir nokkur sameiginleg áhugamál eins og aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og einkavæðingu bankakerfisins án þess að fyrir liggi skýr eigandastefna, áfengi í matvöruverslanir og nú síðast fréttir af fundum íslenskra embættismanna við fulltrúa vogunarsjóða sem ekki tóku þátt í útboði síðastliðið haust.
Til að toppa ósköpin hefur hæstv. fjármálaráðherra lagt fram frumvarp sem miðar að því að lögleiða gengistryggð lán til neytenda sem hafa ekki varnir gegn þeirri gengisáhættu sem fylgir slíkum lánum. Í frumvarpinu er áskilnaður um að aðeins þeir neytendur geti tekið gengistryggð lán sem hafi nægar tekjur til að ráða við verulegar gengis- og vaxtabreytingar sem fylgt geta slíkum lánum. Þau munu því aðeins standa efnafólki til boðs. Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, varar við gengistryggðum lánum á bloggsíðu sinni og mig langar til að lesa stuttan kafla úr þeirri grein, með leyfi forseta:
„Seðlabankinn notar stýrivaxtatækið til að draga úr þenslu í hagkerfinu. Þegar stýrivextir hækka verður dýrara að taka lán og fólk því líklegra til að bíða með framkvæmdir eða fara hægar í fjárfestingar. Verði frumvarp fjármálaráðherrans að lögum munu þeir tekjuháu geta skotið sér undan stýrivaxtatækinu með því að taka gengistryggð lán á lægri vöxtum sem eiga ekkert skylt við stýrivexti Seðlabankans. Þeir munu því geta haldið sinni „þenslu“ óbreyttri, en í staðinn verða allir hinir í samfélaginu að þola þeim mun meira aðhald af hálfu peningastefnunnar.”
Hæstv. forseti. Heilbrigðiskerfið fyrir forréttindahópa. Vextir fyrir forréttindahópa. Vegatollar fyrir þá sem hafa efni á þeim, hinir geta farið lengri leiðina. Einkavinavæðing bankakerfisins. Allt í boði hægri stjórnarinnar. Ég hef verulegar áhyggjur af þeirri vegferð sem við erum á og þið, kæru landsmenn, ættuð að hafa það líka.”
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 7. mars 2017.

Categories
Greinar

Brýnasta velferðarmálið

Deila grein

06/03/2017

Brýnasta velferðarmálið

Um allangt skeið hafa vextir á Íslandi verið mun hærri en gerist og gengur í öðrum vestrænum ríkjum.

Almennt séð hljóta háir vextir að rýra lífskjör almennings sem og samkeppnisstöðu atvinnulífsins og langvarandi vaxtamunur við útlönd, óháð hagsveiflum, hlýtur því að fela í sér töluvert velferðartap fyrir landið. Það ætti því enginn að velkjast í vafa um það að lækkun vaxta sé eitt brýnasta velferðarmálefni sem nú blasir við landsmönnum.

Of háir, of lengi

Vaxtamunur við útlönd hefur gjarnan verið rakinn til þess að verðbólga hér hefur verið hærri en erlendis. Það leiðir til hærri verðbólguvæntinga, sem svo hlýtur að leiða til hærri nafnvaxta. Jafnframt að sparnaðarhneigð sé fremur lítil meðal almennings og því þurfi tiltölulega hátt raunvaxtastig til þess að halda innlendri eftirspurn í skefjum á uppsveiflutímum. Þessi rök eru í sjálfu sér góð og gild. Hins vegar er staðan sú að verðbólga og verðbólguvæntingar hafa verið vel neðan við skilgreind verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands undanfarin þrjú ár. Jafnframt er ljóst að einkaneysla hefur þrátt fyrir allt vaxið hægar en ráðstöfunartekjur á sama tíma, samhliða því að skuldir heimilanna hafa lækkað sem hluti af landsframleiðslu. Virðist því sem að tengslin á milli sparnaðar og vaxta hafi breyst eftir bankahrun. Allan þennan tíma, frá ársbyrjun 2014, hefur Seðlabankinn spáð hærri verðbólgu en raunin hefur orðið og miðað stýrivexti sína við þær spár. Má af því leiða að bankinn hefur haldið vöxtum of háum allan þennan tíma.

Alþingi og Seðlabankinn

Vart verður um það deilt að sjálfstæði seðlabanka er einn af hornsteinum hans. Pólitísk afskipti af bankanum ættu að vera sem minnst. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að lög um markmið Seðlabankans, og bankana að öðru leyti, eru samin af löggjafanum, Alþingi, og eru því í eðli sínu pólitísk. Þá má ekki gleyma því að Seðlabanki Íslands er banki ríkissjóðs. Útgjöld sem ákveðin eru af Alþingi og framkvæmd af ráðherrum eru greidd af Seðlabankanum þar sem helsti viðskiptareikningur ríkissjóðs er til staðar.

Seðlabankinn getur ekki neitað ríkissjóði um bankaþjónustu á borð við útgreiðslu gjalda sem Alþingi hefur samþykkt að skuli eiga sér stað jafnvel þótt Seðlabankinn geti gert athugasemd um hagræn áhrif slíkra útgjalda, sem hann oft gerir. Þá sér Seðlabankinn um að gefa út ríkisskuldabréf á markaði. Starfsemi Seðlabankans er við kemur þjónustu við pólitíska aðila er því töluverð þótt Seðlabankinn sé sjálfstæður þegar kemur að beitingu stýritækja sinna.

Lokkandi stýrivextir

Eitt af helstu stýritækjum Seðlabankans til að tryggja verðbólgumarkmið, eru svo kallaðir stýrivextir, sem eru grundvöllur að vaxtastiginu í landinu. Eftir því sem vextir Seðlabankans eru hærri, því hærri eru vextir á markaði. Það er ekki óalgengt að svo kölluð vaxtamunaviðskipti (e. carry-trade) séu stunduð á mörkuðum smárra mynta, eins og íslensku krónunnar. Þá taka fjárfestar lán á lágum vöxtum og fjárfesta þar sem hærri vextir bjóðast.

Það blasir við að vaxtastefna Seðlabankans átti stóran þátt í því hversu mikið fjármagn kom til landsins í aðdraganda hrunsins; hinir háu vextir lokkuðu fjárfesta hingað. Þess má geta að vextir í mörgum Evrópulöndum eru nú í kringum 0,0%, en á Íslandi eru þeir 5,0%. Staðan um þessar mundir á Íslandi er svo sú, að íslenskir fjárfestar hafa búið við gjaldeyrishöft frá haustinu 2008 og vegna þeirra hefur byggst upp ójafnvægi milli núverandi vægis eigna í eignasöfnum þeirra þegar kemur að innlendum og erlendum eignum. En m.a. vegna hárra vaxta á Íslandi minnkar hvati lífeyrissjóða – og annarra íslenskra aðila – til að dreifa áhættu fjárfestinga sinna milli Íslands og umheimsins. Vægi hins óstöðuga íslenska hagkerfis verður of mikið miðað við erlend hagkerfi í eignasöfnum lífeyrissjóða sem dregur úr styrk þeirra til að mæta efnahagslegum áföllum. Þessi staða getur ekki talist heppileg.

Svara þarf …

Nú hefur verið lögð fram á Alþingi, af þingflokki Framsóknar, tillaga til þingsályktunar um að fela forsætisráðherra að skipa þverpólitíska nefnd óháðra sérfræðinga til að rannsaka með greinargóðum og nákvæmum hætti: Áhrif af breytingum á gengi íslensku krónunnar á innlenda neysluhegðun; áhrif af gengissveiflum á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og atvinnugreinaskiptingu landsins; tengsl stýrivaxta Seðlabanka Íslands og gengis íslensku krónunnar; áhrif af innstreymi gjaldeyris á innlenda vexti, bæði langtíma og skammtímavexti; hvort 3,5% uppgjörskrafa lífeyrissjóða stuðli að háum langtímavöxtum á Íslandi; hvort vaxtastefna Seðlabanka Íslands stuðli að háum vaxtakostnaði fyrir ríkissjóð.

Svör við þessum spurningum eru afar mikilvæg til að tryggja samkeppnishæfni landsins, stöðugleika og almenna velferð.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. mars 2017.